15.7.2014 | 19:00
Hún ögrar viðteknum viðhorfum
Hver er vinsælasti kvenrithöfundur heims? Hver er um leið áhrifamesti kvenheimspekingur heims? Hún er rússnesk-bandaríski rithöfundurinn Ayn Rand, en bækur hennar hafa selst í 30 milljónum eintaka um allan heim.
Nú er komin út skáldsagan Kíra Argúnova eftir hana á íslensku með eftirmála um Rand, ævi hennar og verk, eftir Ásgeir Jóhannesson, lögfræðing og heimspeking. Af því tilefni talaði kunnur mælskusnillingur, dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, um Rand og kenningar hennar, meðal annars um vörn hennar fyrir sjálselsku og kapítalisma. Fundurinn var 1. nóvember 2013 kl. 17.15 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.
Kíra Argúnova birtist fyrst á íslensku sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949, en Frosti Logason útvarpsmaður bjó hana til prentunar, og var það þáttur í B.A. ritgerð hans í Háskóla Íslands undir minni umsjón. Þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan er ekki vitað, hver þýddi hana, en farið var vandlega yfir þýðinguna, sem er samt lipur og aðgengileg.
Þess má líka geta, að útvarpsleikritið Aðfaranótt sautjánda janúar eftir Rand hefur að minnsta kosti tvisvar verið flutt í Ríkisútvarpinu í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar.
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir á bókarkápunni um Kíru Argúnovu: Raunsönn lýsing á rússneskum örlögum. Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntaskýrandi segir: Mesta bókmenntaverkið af sögum Rands. Ég vona, að þau Guðmundur og Kolbrún lendi ekki í neinum útistöðum við Egil Helgason sjónvarpsmann, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, Stefán Snævarr heimspekiprófessor og fleiri vinstri sinnaða menntamenn, sem hafa keppst við síðustu daga að fordæma verk Ayns Rands. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken sagði um þessa bók, að hún væri frábær.
Hér er stórfróðlegt viðtal sjónvarpsmannsins Mikes Wallaces við Ayn Rand frá 1959 í þremur hlutum:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 06:59 | Slóð | Facebook
15.7.2014 | 14:00
Tuggur Stefáns hraktar
Stefán Ólafsson prófessor fer með sömu tuggurnar á bloggi sínu og hann hefur gert á Íslandi síðustu þrjátíu árin að minnsta kosti. Hann varar við auðræði. En hvar var Stefán, þegar hér var raunverulegt auðræði árin 20042008? Tók hann þá undir með Davíð Oddssyni, sem bar fram fjölmiðlafrumvarp vorið 2004, svo að ein auðklíka réði ekki aðeins yfir tveimur þriðju smásölumarkaðarins, heldur líka bönkum, tryggingafélögum og öllum einkamiðlum? Gagnrýndi hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að ráðast í hinni alræmdu Borgarnesræðu á lögregluna, sem var aðeins að sinna skylduverki með því að rannsaka kæru frá Jóni Gerald Sullenberger á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni? Ónei. Ónei.
Stefán hefur lítið lært, frá því að hann bar upp sömu spurningarnar við Milton Friedman 1984 fyrir tuttugu og níu árum og nú í daglegu bloggi sínu. Hér er stutt sýnishorn af því, hvernig Friedman svaraði honum:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 06:58 | Slóð | Facebook
15.7.2014 | 11:00
Egill Helgason og Kommúnistaávarpið
Þetta er stefið í bók Ayns Rands, Undirstöðunni, sem er um leið læsileg skáldsaga. Hvað myndi gerast, ef þeir, sem skapa verðmætin, hætta að nenna að deila þeim með hinum, sem ekki skapa verðmætin?Í Kommúnistaávarpinu segir, að öll saga mannkynsins hafi fram að þessu verið saga um stéttabaráttu. En er hún ekki saga um baráttu hinna talandi stétta við hinar vinnandi stéttir, um baráttu þeirra, sem sníkja, við hina, sem skapa?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 06:58 | Slóð | Facebook