Ómálefnalegur Evrópusambandssinni

Ég er Evrópusinni. Ég er Evrópusambandssinni fyrir margar þjóðir, þar á meðal Frakka og Þjóðverja, sem loks eru hættir að berjast, og fyrir Eistlendinga, sem þurfa skjól gegn stórum og óbilgjörnum grönnum. En ég er ekki Evrópusambandssinni fyrir Íslendinga, sem þurfa aðgang að opnum markaði, en ekki aðild að lokuðu ríki.

Síðustu misseri hefur dunið á okkur áróður fyrir Evrópusambandsaðild, sem Evrópusambandið hefur kostað. Gestir hafa streymt hingað og haldið fyrirlestra í Háskóla Íslands um það, hversu dásamlegt sé fyrir smáríki að vera í Evrópusambandinu. Þeim hefur verið tekið af fullri kurteisi. Á þá hefur ekki verið ráðist ómálefnalega.

Nú bregður svo við, að fyrrverandi aðalendurskoðandi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Marta Andreasen, kemur og flytur fyrirlestur um vonbrigði sín af sambandinu og um hina víðtæku spillingu og bókhaldsóreiðu innan þess. Menn þurfa ekki að vera sammála Mörtu um allt til þess að viðurkenna, að sjónarmið hennar eru forvitnileg.

En nú ráðast Evrópusambandssinnar eins og einn bloggarinn á Eyjunni, Elvar Örn Arason, á hana fyrir fyrrverandi samstarfsfólk hennar! Hann kom ekki á fundinn með henni, svo að ég yrði var við, og hann reynir ekki að svara rökum hennar, sem sett voru fram í Sjónvarpinu, en einnig í skrifuðum fyrirlestri hennar.

Hvers vegna svara þessir menn ekki rökum og sjónarmiðum Andreasens, til dæmis að mikil spilling sé í ESB, að reikningar sambandsins hafi ekki verið endurskoðaðir síðustu átján árin, að féð, sem rann í styrki til Grikklands og Spánar, hafi horfið, að þjóðir með stóran fiskveiðiflota muni ásælast Íslandsmið, að skriffinnarnir í Brüssel, sem hún kynntist í sínu háa embætti, hafi engan áhuga á lýðræði, heldur aðeins á eigin völdum?

Evrópusambandið, Kýpur og Færeyjar

Því er haldið fram, að Ísland þurfi skjól. Það er rétt. Vegna skjólsins af Bandaríkjamönnum gátum við rekið Breta í áföngum af Íslandsmiðum, þar sem þeir höfðu veitt frá 1412. Og vegna þess, að við höfðum ekki lengur skjólið af þeim, féllu bankarnir íslensku haustið 2008, eins og ég á eftir að sýna betur.

En skjól geta verið misjöfn. Kýpur er á evrusvæðinu. Nú sætir Kýpur afarkostum til þess að fá neyðarlán frá þríeykinu, Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fé innstæðueigenda er að nokkru leyti gert upptækt. Seðlabankar Evrópu og Bandaríkjanna dældu hins vegar fé í önnur lönd, til dæmis Danmörku og Sviss, þegar talin var alþjóðleg kerfisáhætta af falli bankakerfa þeirra. En Kýpur er eins og Ísland nógu lítið til að sparka því út í kuldann.

Og Danmörk er nú neydd til að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Færeyingum, hinum gömlu vinum þeirra og skjólstæðingum, vegna makríldeilunnar. Sú deila er einföld. Makríllinn tók upp að synda á fiskimið Íslendinga og Færeyinga og éta þar aðrar tegundur sjávardýra beint eða éta frá þeim fæðu. Við teljum okkur heimilt að veiða makrílinn, enda á Evrópusambandið hann ekki og getur ekki heldur breytt fiskimiðum okkar í ókeypis bithaga fyrir sig.

Einhverjir svara: En er Evrópusambandið ekki að taka á peningaþvætti og öðrum vafasömum aðgerðum bankanna á Kýpur? En hvað þá um Sviss og Bretland, sem var bjargað? Þurfti HSBC ekki að greiða stórsekt til Bandaríkjanna á dögunum fyrir peningaþvætti? Og halda menn, að allt það fé, sem Evópusambandið hefur látið til Ítalíu og Grikklands, hafi runnið í eðlilega farvegi?

Það situr síðan illa á Evrópusambandinu að reyna að kenna okkur fiskveiðistjórnun. Þar er allt í kaldakoli í sjávarútvegi, ráðleysi og ringulreið.


Bloggfærslur 13. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband