7.10.2014 | 16:42
Er Ísland í Evrópu? Hvaða Evrópu?
Grímur Thomsen, sem starfað hafði í dönsku utanríkisþjónustunni, skrifaði eitt sinn: Ísland er bæði í landfræðilegum og sögulegum skilningi Janus, sem snýr annarri ásjónu sinni að hinni gömlu og menntuðu Evrópu, hinni að Ameríku, ungri og saklausri. Annað skáld, Hannes Pétursson, orti: Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar og auðnir hnattarins taka við. Bæði telja skáldin bersýnilega, að Ísland sé hvorki í Evrópu né utan hennar, heldur á mörkum hennar.
En hvaða Evrópu? Þýski járnkanslarinn Otto von Bismarck páraði á bréf frá rússneskum ráðherra: Tal um Evrópu rangt: landfræðilegt hugtak. En þessu er öfugt farið. Evrópa er ekki landfræðilegt hugtak, því að ekkert það skilur að Evrópu og Asíu, sem máli skiptir: Úralfjöll mynda engin eðlileg mörk. Evrópa er menningarlegt hugtak, sem smám saman myndaðist eftir fall hins rómverska Miðjarðarhafsveldis. Úrslitum réðu tvær orrustur við herskáa innrásarheri múslima, þegar franski herforinginn Karl Martel (en Martel merkir Hamar) stökkti þeim á brott við Tours í Suður-Frakklandi í október 732 og þegar pólski konungurinn Jóhann Sobieski kom Austurríkismönnum til aðstoðar í umsátrinu um Vínarborg í september 1683, en saman hröktu herir kristinna manna tyrkneska umsátursliðið aftur suður á bóginn.
Í stórvirki sínu á átjándu öld um hnignun og falli Rómaveldis ber breski sagnritarinn Edward Gibbon það saman við Evrópu samtímans. Í Rómaveldi urðu allir að lúta keisaranum, og sá, sem féll í ónáð, komst hvergi undan. En í Evrópu samtímans voru víða undankomuleiðir vegna fjölbreytninnar, griðastaðir. Franskir húgenottar gátu flúið til Danmerkur og spænskir gyðingar til Grikklands. Smám saman spratt líka upp sú hugmynd á svæði, sem teygir sig frá Norður-Ítalíu um Sviss til Niðurlanda og Englands og einkenndist af veiku ríkisvaldi og öflugri borgarastétt, að dreifa skyldi valdinu og setja því hömlur. Þessi hugmynd um takmarkað ríkisvald var síðan gróðursett í Vesturheimi og bar ríkulegan ávöxt.
Enn er spurt: Hvað er Evrópa? Er hún menning fjölbreytninnar, sem er í senn kristileg og umburðarlynd? Þeirra sem hrundu áhlaupum múslima 732 og 1683? Eða hefur fjölbreytnin þokað fyrir einhæfingu skriffinnanna í Brüssel?
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. október 2014.]
7.10.2014 | 13:47
Kúba Norðursins
Ýmsir íslenskir sósíalistar, til dæmis Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og Páll Halldórsson eðlisfræðingur, stunduðu á öndverðum níunda áratug sjálfboðavinnu fyrir Castro á sykurekrum Kúbu og skeyttu því engu, að hinn málskrafsmikli einræðisherra bar ábyrgð á dauða þrjátíu þúsund manna, geymdi stjórnmálafanga þúsundum saman í þrælakistum, en rösk ein milljón manna hafði flúið landið, tíundi hluti þjóðarinnar, flestir á litlum bátum, og var mælt, að þeir hefðu greitt atkvæði með árunum.
Áður en Alþýðubandalagið hneig undan fargi fortíðar sinnar haustið 1998 og flokksmenn gengu ýmist í Samfylkinguna eða Vinstri græna, lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boð kúbverska kommúnistaflokksins um að senda tvo fyrrverandi formenn, þau Margréti Frímannsdóttur og Svavar Gestsson, til Kúbu ásamt fleira fólki. Hugðist sendinefndin hitta Castro, en hann gaf ekki kost á því, og þótti þetta sneypuför. Löngu síðar gerðist Margrét fangelsisstjóri á Íslandi, en Svavar aðalsamningamaður í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Sneri hann sumarið 2009 heim með samning, sem hefði leitt Íslendinga í skuldafangelsi um ókomna tíð.
Tveir háskólaprófessorar mæltu af miklum móð með samningnum. Þórólfur Matthíasson sagði í Fréttablaðinu 26. júní: Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea. Sama kvöld sagði Gylfi Magnússon í viðtali við Stöð tvö, að Ísland yrði svona Kúba norðursins, yrði Icesave-samningurinn ekki samþykktur. En voru þessi öfugmæli ekki úr undirmeðvitund Freuds? Hefði Icesave-samningur Kúbufarans gamla ekki einmitt gert Ísland að Kúbu norðursins? Var leikurinn ef til vill til þess gerður? Í skuldafangelsi er vistin bærileg fangelsisstjórninni.
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. september 2014. Skylt er að geta þess, að síðan kvað Gylfi ummæli sín hafa verið vanhugsuð. Þórólfur hefur hins vegar ekkert sagt um ummæli sín.]
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.10.2014 kl. 10:31 | Slóð | Facebook