Sögulegir fundir

Nú hafa mestallar umræður um daginn og veginn færst inn á Netið, sem vonlegt er, en forðum sóttu menn fundi til að skiptast á skoðunum. Stúdentafélag Reykjavíkur hélt nokkra fjölmenna og sögulega fundi á fimmta og sjötta áratug. Einn þeirra var um andlegt frelsi 12. janúar 1950, og voru framsögumenn Tómas Guðmundsson og Þórbergur Þórðarson. Þar deildu þeir um kommúnisma. Tómas kvað nýja hættu komna til sögunnar, alræði, þar sem reynt væri að stjórna sálinni ekki síður en líkamanum. Þórbergur fjölyrti hins vegar um það, að menn yrðu að komast út úr „myrkri persónuleikans“, hætta að hugsa aðeins um sjálfa sig.

 

Margir kvöddu sér hljóðs á fundinum. Einn þeirra, Þorvaldur Þórarinsson lögfræðingur, sagðist eiga þá ósk heitasta að geta búið í Ráðstjórnarríkjunum. Eins og ég hef áður rifjað upp, brást dagblaðið Vísir við hart og efndi til samskota fyrir farmiða, aðra leiðina, austur handa Þorvaldi. Safnaðist nægt fé til þess, en Þorvaldur vildi ekki þiggja miðann, og var féð því afhent Fegrunarfélagi Reykjavíkur.

 

Eftirminnilegur var líka fundur um atómkveðskap 24. mars 1952. Framsögumaður var Steinn Steinarr, sem varði atómskáldin, taldi hefðbundna ljóðlist dauða og bætti við: „Við höfum að vísu búið okkur til nokkur mikil þjóðskáld, en þau eru þá að minnsta kosti ekki skáld mikillar þjóðar.“ Tómas Guðmundsson mælti hins vegar fyrir hefðbundinni ljóðlist og lék sér að orðum: „Frá sjónarmiði sóttkveikjunnar hlýtur nefnilega heilbrigðin að vera alveg ægilegur sjúkdómur.“

 

Annar sögulegur fundur var um kristindóm og kommúnisma 15. febrúar 1953, og voru framsögumenn séra Gunnar Benediktsson, sem var ákveðinn stalínisti, og séra Jóhann Hannesson, sem hafði verið kristniboði í Kína. Voru lýsingar séra Jóhanns á stjórnarfarinu eftir valdatöku kommúnista 1949 ófagrar. Í Kína væri „blóðugur rakhnífur marxismans“ að verki.

Þessir fundir þóttu talsverðir viðburðir á sinni tíð. Blöð sögðu rækilega frá þeim, og voru þeir allir teknir upp á stálþráð og fluttir í Ríkisútvarpinu. Fróðlegt væri að vita, hvort upptökurnar eru enn til.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2013.)


Gegn betri vitund

Bandaríski bókmenntagagnrýnandinn og rithöfundurinn Dorothy Parker, sem uppi var 1893-1967, var kvenna fyndnust. Jafnframt átti hún það sammerkt með mörgum öðrum háðfuglum, til dæmis Óskari Wilde, að margt skemmtilegt er haft eftir henni, þótt alls óvíst sé, að hún hafi sagt það.

Svo er til dæmis um fræga umsögn um skáldsögu eftir Beníto Mússólíni, sem kom út í enskri þýðingu 1928 og ég hef áður gert að umtalsefni: „Þessa skáldsögu ætti ekki að leggja varlega frá sér, heldur grýta burt af öllu afli.“ Þetta er auðvitað hressilegt, en kemur ekki fyrir í prentuðum ritdómi um bókina eftir Parker í New Yorker. En auðvitað gæti hún hafa sagt þetta við vini sína og kunningja og það þannig orðið fleygt.

 

Hið sama er að segja um önnur ummæli hennar: „Vilji fólk komast að því, hvað Guði finnst um peninga, þá ætti að virða fyrir sér þá, sem hann hefur veitt þá.“ Þetta er hvergi finnanlegt í ritum Parkers, og raunar höfðu Alexander Pope og fleiri sagt eitthvað svipað áður (raunar líka séra Gunnar Gunnarsson í Laufási, sem kvað auðinn ekki húsbóndavandan).

 

Auðveldara er að rekja til Parkers þessa athugasemd um konu, sem var nýfarin úr samkvæmi með henni, því að fyrir henni eru heimildarmenn: „Þessi kona talar átján tungumál og kann ekki að segja nei á neinu þeirra.“ Önnur athugasemd Parkers er afbrigði af gömlum orðaleik: „Klóraðu leikara, og þá birtist leikkona.“

 

Parker sagði einnig í viðtali á prenti, þegar henni barst andlátsfregn Calvins Coolidges Bandaríkjaforseta, sem þótti með afbrigðum fámáll: „Hvernig vita þeir það?“ Og hún skrifaði í New Yorker 19. október 1929: „Þeir ættu að grafa þetta á legsteininn minn: Hvert sem hún fór, þar á meðal hingað, var það gegn betri vitund.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2013.)


Bloggfærslur 13. júlí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband