Ógleymanleg heimsókn

Ég sótti ráðstefnu í Varsjá dagana 14.–15. maí 2013 um það, hvernig best væri að minnast fórnarlamba alræðisstefnu tuttugustu aldar, kommúnista og nasista. Þar töluðu meðal annarra forstöðumenn safna í mörgum kommúnistaríkjanna. Einn dagskrárliðurinn var heimsókn í safnið um uppreisnina í Varsjá 1944. Sú heimsókn var ógleymanleg.

Ég hafði kynnt mér uppreisnina í Varsjá fyrir mörgum árum, því að svo vildi til, að einn kennarinn minn í Oxford, Zbigniew Pelczynski, hafði átján ára barist með öðrum uppreisnarmönnum, verið tekinn höndum, en Bretar frelsuðu hann úr fangabúðum þýska hersins, og gekk hann menntaveginn og lauk doktorsprófi í heimspeki með kenningar Hegels sem sérgrein.

Uppreisnin í Varsjá 1944 er einn hörmulegasti viðburður heimsstyrjaldarinnar síðari. Frá því í ágúst 1939 og fram í júní 1941 voru Hitler og Stalín bandamenn og skiptu á milli sín Mið- og Austur-Evrópu. Vesturhluti Póllands lenti undir stjórn Hitlers, en Stalín hrifsaði til sín austurhlutann, eftir að nasistar höfðu lagt pólska herinn að velli fyrstu vikurnar í september 1939. Reyndu þeir Hitler og Stalín báðir að ganga milli bols og höfuðs á því, sem kalla mætti pólsku valdastéttinni, liðsforingjum, lögregluforingjum, háskólaprófessorum, bæjarstjórum, rithöfundum.

Pólverjar voru þó ekki á því að gefast upp. Útlagastjórn þeirra sat í Lundúnum, og fjölmenn andspyrnuhreyfing var undir vopnum í landinu sjálfu. Þegar hinn Rauði her Stalíns, sem nú var ekki lengur bandamaður Hitlers, heldur barðist með Bretum og Bandaríkjamönnum, nálgaðist Varsjá úr austri síðsumars 1944, ákvað andspyrnuhreyfingin að taka borgina úr höndum Þjóðverja. Uppreisnin hófst 1. ágúst 1944. En hið óvænta gerðist, að þýski herinn barðist af fullri hörku, þótt allir vissu, að Hitler væri að tapa stríðinu.

Annað óvænt gerðist. Stalín lét Rauða herinn nema staðar á austurbakka Vistula-fljóts, sem rennur í gegnum Varsjá, en miðborgin er á vesturbakkanum. Þaðan horfðu hermenn hans í sjónaukum sínum á þýska herinn murka lífið úr illa vopnuðum andspyrnumönnum, en myrða líka konur og börn, því að Hitler gaf út þau fyrirmæli, að öllum Varsjárbúum skyldi útrýmt og borg þeirra jöfnuð við jörðu. Stalín leyfði ekki einu sinni flugvélum Breta og Bandaríkjamanna með vistir og lyf til uppreisnarmanna að fljúga um yfirráðasvæði hans, svo að þær urðu að fara frá bækistöðvum á Ítalíu.

Lífið er veðmál: Pólsku uppreisnarmennirnir vissu, að þeir áttu við ofurefli að etja. En þeir höfðu gert ráð fyrir því, að þýski herinn myndi veita minna viðnám og að Bandamenn kæmu þeim til aðstoðar.

SS-sveitir Hitlers börðust af mestri hörku, enda töldu þær eflaust, að þær hefðu litlu að tapa. Fóru SS-menn með eldi hús úr húsi og skutu allt kvikt, sem þeir sáu. Þeir fáu íbúar, sem eftir voru, urðu að leita sér skjóls í holræsum borgarinnar. Tugþúsundir pólskra andspyrnumanna féllu, en miklu fleiri óbreyttir borgarar létu lífið í uppreisninni. Í janúar 1945, þegar þýski herinn hörfaði loks frá Varsjá, var hún rústir einar og aðeins örfáar hræður eftir á lífi. Safnið lét gera myndband eftir ljósmyndum og kvikmyndum, sem sýnir, hvernig þá var umhorfs:

 

 

 

Áður hafði Varsjá verið í röð reisulegustu borga Evrópu og stundum kölluð „París Norðursins“, eins og sést á þessari stuttu mynd.

 

 

Eftir stríð lét Stalín fangelsa og jafnvel taka af lífi marga andspyrnumenn. sem hættu höfðu lífi sínu í uppreisninni í Varsjá. Hann kærði sig ekki um neina samkeppni um forræði eða forystu í Póllandi.

Örlög Varsjár er eitt skýrasta dæmi 20. aldar um það, hversu nálægt kommúnistar og nasistar stóðu hvorir öðrum í sögulegum skilningi.


Fjárhæli og andabú

Heimspekidoktorarnir Vilhjálmur Árnason og Salvör Nordal skrifuðu lærðar ritgerðir í rannsóknarskýrslu Alþingis um siðferði eða öllu heldur siðleysi íslenskra fjármálamanna fyrir bankahrunið 2008. Ein hneykslunarhella þeirra var hugmyndin um Ísland sem fjármálamiðstöð. En sú hugmynd er ættuð af þeirra slóðum, úr heimspekiskor Háskóla Íslands. Mikael M. Karlsson heimspekiprófessor birti grein í Vísbendingu 23. desember 1987, þar sem hann kvað Ísland af mörgum ástæðum henta sem „fjárhæli“, eins og hann kallaði það, skráningarstað fyrirtækja og geymslu fjármagns. Til dæmis væri landið friðsælt, stöðugleiki í stjórnarfari, orðspor þjóðarinnar gott og málakunnátta almenn. Nefndi Mikael í því sambandi meðal annars Sviss, Liechtenstein og Mön, sem náð hefðu miklum árangri í fjármálaþjónustu. DV fagnaði hugmynd Mikaels í stórri frétt 30. desember sama ár, og fylgdi Mikael henni eftir með nokkrum greinum í Vísbendingu ári síðar. Þegar ég tók þessa hugmynd upp í bók minni 2001, Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? vitnaði ég með velþóknun í skrif Mikaels.

Hugmynd okkar Mikaels Karlssonar var hins vegar mjög frábrugðin veruleikanum á Íslandi um og eftir 2004, þegar enginn var til að veita auðjöfrunum hæfilegt aðhald. Hugmynd okkar var að laða fyrirtæki og fjármagn að landinu með lágum sköttum og föstum reglum. En veruleikinn frá 2004 til 2008 var, að fámenn auðklíka öðlaðist í krafti yfirráða yfir verslunarkeðjum og fjölmiðlum ótakmarkaðan aðgang að bönkunum, sem hún notaði síðan til að tæma þá í því skyni að fara í útrás erlendis. Skuldirnar dreifðust á ýmsar kennitölur, en skuldunauturinn var jafnan hinn sami. Þetta var í rauninni svipuð saga og sögð var um Benjamín Eiríksson bankastjóra og Ólaf á Oddhóli Jónsson. Benjamín hafði lánað Ólafi fyrir andabúi og vildi eitt sinn skoða framkvæmdirnar. Endur Ólafs voru eitthvað færri en hann hafði gefið upp í áætlunum og skýrslum, og brá hann á það ráð að láta þær trítla nokkra hringi í kringum hús búsins, svo að þær virtust miklu fleiri en raun var á. Þetta var auðvitað alþjóðleg flökkusaga frekar en bókstaflegur sannleikur um þá Benjamín og bóndann á Oddhóli. En gamanið breyttist hér í ramma alvöru: Ísland varð ekki það fjárhæli, sem við Mikael sáum fyrir okkur forðum, heldur risastórt andabú, þar sem sömu endurnar voru sýndar og veðsettar margsinnis. 


Bloggfærslur 27. maí 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband