Árás Stefáns Ólafssonar svarað

Stefán Ólafsson prófessor gerði (ásamt aðstoðarmanni sínum) harða hríð að mér í næstsíðasta hefti tímaritsins Stjórnmála og stjórnsýslu. Ég svaraði honum í síðasta hefti tímaritsins, og má hlaða svari mínu niður héðan. Útdráttur úr svari mínu hljóðar svo:

Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson telja sig hafa hrakið fjórar kenningar mínar eða tilgátur, sem settar voru fram 2007 með tilvísun til gagna frá 2004, að jöfnuður hefði frekar aukist en minnkað á Íslandi 1995–2004, að tekjuskipting hefði á því tímabili orðið eitthvað ójafnari, en væri samt í lok þess ein hin jafnasta í heimi, að rangt væri, að tekjuskipting hafði þá færst verulega frá því, sem tíðkaðist á Norðurlöndum, og að skattabreytingar 1991–2007 hefðu ekki aukið óréttlæti eða ójöfnuð, þótt dregið hefði úr jöfnunaráhrifum skattlagningarinnar. Hér leiði ég rök að því, að þeir hafi síður en svo hrakið þessar kenningar mínar eða tilgátur. Þeir hafa ekki gætt að því, við hvaða tímabil ég miðaði, og misskilið, hvernig ég notaði hugtök eins og óréttlæti, ójöfnuð og jöfnun. Til dæmis þarf ójöfn tekjuskipting ekki að vera óréttlát, jafnframt því sem sumir telja skattlagningu í jöfnunarskyni óeðlilega. Einnig bendi ég á, að þeir Stefán og Arnaldur Sölvi viðurkenna, að tekjuskipting hér hafi árið 2004 ekki verið ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum, sem var ein meginniðurstaða mín. Loks reyni ég að skýra, hvar okkur greini á, en það sé aðallega um það, hvort áhyggjuefnið eigi að vera hinir ríku eða hinir fátæku.

Ekki veit ég, hversu margir hafa áhuga á þessum deilum, en þær eru þó um atriði, sem máli skipta. Ég kvíði ekki dómi þeirra, sem nenna að kynna sér efnisatriðin.


Tvær góðar bækur til að lesa í flugvélum

Ég þurfti vegna alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs míns, meðal annars í Bretlandi og Brasilíu, að fara á dögunum í langar flugferðir. Ég keypti á Keflavíkurflugvelli á leiðinni utan bókina Iron Curtain: The Crushing of Eastern Europe (Járntjaldið: Austur-Evrópa troðin í svaðið) eftir bandaríska sagnfræðinginn og blaðamanninn Anne Applebaum. Þetta er fjörlega skrifuð og fróðleg bók um það, hvernig kommúnistar lögðu undir sig löndin í Mið- og Austur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Suma kommúnistana kannaðist ég við, enda koma þeir nokkrir fyrir í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, til dæmis Ungverjarnir Mihaly Farkas og Matyas Rakosi. Mæli ég hiklaust með þessari bók, og hefur hún hlotið góða dóma, meðal annars í New York Times og Daily Telegraph.

Ég hafði áður lesið hina frábæru bók Applebaums, Gulag, svo að mér kom ekki á óvart, að þetta nýja verk hennar væri gott. En á Heathrow-flugvelli á leiðinni heim keypti ég af rælni skáldsögu eftir höfund, sem ég þekkti ekki til áður, Irène Némirovsky. Heitir hún í enskri þýðingu French suite (Frönsk svíta) og er um örlög ýmissa einstaklinga í Frakklandi eftir hernám Þjóðverja 1940. Mér fannst þetta í fæstum orðum stórkostleg bók, og gat ég ekki lagt hana frá mér í flugvélinni. Némirovsky tekst að vekja áhuga á söguhetjum sínum og lýsa aðstæðum svo vel, að þær verða ljóslifandi fyrir lesandanum. Hún var rússneskur gyðingur, sem hafði flust ásamt fjölskyldu sinni til Frakklands eftir byltingu bolsévíka. Hún hafði aðeins lokið tveimur af fimm hlutum skáldsögu sinnar, þegar hún var tekin höndum og send til Auschwitz, þar sem ævi hennar lauk í gasklefum nasista í ágúst 1942. Handritið að skáldsögunni fannst miklu síðar, og hefur bókin selst vel og hlotið góða dóma, meðal annars í New York Times og Guardian.


Bloggfærslur 6. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband