Stefán Ólafsson gleymir sér

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðum þeirra Birgis Þórs Runólfssonar, Skafta Harðarsonar, Stefáns Snævarrs, Jóns Steinssonar og Stefáns Ólafssonar á Netinu um atvinnufrelsi, lífskjör og hagvöxt. Allir hafa þátttakendurnir verið málefnalegir nema Stefán Ólafsson, sem eys svívirðingum yfir þá Birgi Þór og Skafta. Er einkennilegur og stríður tónn í máli hans og fer illa fræðimanni. Ein athugasemd Stefáns vakti undrun mína. Hann segir á bloggi Skafta Harðarsonar:

Þú segir: „Hann hélt því fram fyrir kosningar 2003 að hér væri miklu meiri fátækt en á Norðurlöndum.“ Ég hélt engu slíku fram 2003 og skrifaði raunar ekkert um fátækt á því ári, né árin þar í kring (leturbreyting mín).

Hér gleymir Stefán Ólafsson sér. Harðar deilur urðu vorið 2003 um fátækt á Íslandi. Stefán var þá forstöðumaður Borgarfræðaseturs, og sú stofnun gaf þetta vor, skömmu fyrir þingkosningar, út bók eftir Hörpu Njálsdóttur um fátækt á Íslandi, og var uppistaðan í henni meistaraprófsritgerð, sem hún hafði unnið undir handleiðslu Stefáns. Taldi Harpa, að fátækt væri hér um 7–10%, talsvert meiri en á Norðurlöndum. Ýmsir urðu til að draga þessar tölur í efa, þar á meðal Sigurður Snævarr hagfræðingur og dr. Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur. Taldi Sigurður gögn benda til þess, að fátækt væri óveruleg á Íslandi og aðeins minni í Svíþjóð.

Við svo búið skrifaði Stefán Ólafsson grein í Morgunblaðið 7. maí 2003 undir heitinu „Athugasemdir vegna umræðu um fátækt“. Hann vísaði niðurstöðu Sigurðar Snævarrs á bug með þessum orðum: „Þegar nánar er skoðað og þegar tillit er tekið til þeirra fyrirvara sem Sigurður setur sjálfur við gögn sín, kemur í ljós að það fær ekki staðist að fátækt sé minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum.“ Stefán vitnaði að vísu ekki rétt í Sigurð, sem hafði einmitt tekið fram, að fátækt væri líklega minni í Svíþjóð en á Íslandi, en ekki sagt, að fátækt væri „minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum“. En síðan sagði Stefán nýlegar rannsóknir sýna, að fátækt væri „heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænu þjóðunum og nær meðallagi í hópi ríku þjóðanna á Vesturlöndum“.

Útkoma bókar Hörpu Njálsdóttur vorið 2003 bar allt yfirbragð kosningabrellu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, kvað í síðari Borgarnesræðu sinni 15. apríl 2003 bókina vera „biblíuna sína“ og fór um hana hjartnæmum orðum. Hafði Ingibjörg Sólrún í borgarstjóratíð sinni veitt talsverðu fé til Borgarfræðaseturs Stefáns Ólafssonar. Eitthvað hljóðnaði þó Samfylkingarfólk, eftir að Katrín Fjeldsted borgarfulltrúi og Ásta Möller alþingismaður bentu á, að fátækt hafði aukist í Reykjavík, eftir að Ingibjörg Sólrún, þá borgarstjóri, hefði 1995 hert reglur um styrki félagsþjónustu borgarinnar, meðal annars með því að hætta að taka tillit til fjölskyldustærðar við úthlutun slíkra styrkja.

Svo vill þó til, að skera má úr þessum deilum um fátækt árið 2003. Í febrúarbyrjun 2007 kom út viðamikil skýrsla hagstofu Evrópusambandsins með þátttöku hagstofu Íslands, og var hún um fátækt og tekjudreifingu í Evrópulöndum. Þar kom fram hið sama og Sigurður Snævarr hafði reiknað út, að fátækt  var minni á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi að Svíþjóð undantekinni. Mældist fátækt hér 2003 rétt yfir 5%. Sigurður Snævarr reyndist hafa rétt fyrir sér, Stefán Ólafsson rangt. Í því ljósi er skiljanlegt, að Stefán vilji gleyma þessu og haldi því nú fram fullum fetum, að hann hafi ekkert skrifað um fátækt árið 2003.


Valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, gaf út fróðlega bók fyrir jólin um valdabaráttuna, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum við skyndilegt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970 og lauk í rauninni ekki, fyrr en Davíð Oddsson varð formaður vorið 1991. Styrmir var mjög við þá sögu riðinn, enda vinur og samverkamaður Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins 1973-1983. Við lesturinn rifjaðist margt upp fyrir mér, sumt skemmtilegt.

Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð í tvennum kosningum 1978. Eftir það settust ungir sjálfstæðismenn á rökstóla og komust að þeirri niðurstöðu, að endurnýja þyrfti forystu flokksins. Ekki áræddu þeir þó að biðja formanninn, Geir Hallgrímsson, að víkja, heldur sendu nefnd á fund varaformannsins, Gunnars Thoroddsens. Hann tók þeim vel og kvaðst reiðubúinn að víkja, en þó aðeins eftir að eftirfarandi grein hefði verið tekin upp í skipulagsreglum flokksins: „Nú verða formanni á mistök, og skal þá varaformaður víkja.“ Ekki heyrðist eftir það meira af endurnýjuninni.

Gunnar Thoroddsen var vígfimur, en með afbrigðum mjúkmáll, og í hvert skipti sem hann lagði til Geirs Hallgrímssonar, talaði hann um, að nú vildi hann rétta fram sáttarhönd. Þá sagði Davíð Oddsson eitt sinn við mig: „Í Sjálfstæðisflokknum er hver sáttarhöndin upp á móti annarri.“

Hinn gamli knattspyrnukappi Albert Guðmundsson tók mikinn þátt í þessum átökum, oftast við hlið Gunnars. Eitt sinn deildu þeir Davíð á fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Þá var Davíð ungur maður. „Ég hlusta nú ekki á svona tal í stuttbuxnadeildinni,“ sagði Albert hinn reiðasti. Davíð svaraði: „Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi.“

Þorsteinn Pálsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins haustið 1983. Undir forystu hans klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn, og Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn vorið 1987. Mörgum vinum Alberts fannst Þorsteini hafa farist illa við Albert. „Borgaraflokkurinn verður ekki langlífur. Menn senda aðeins samúðarskeyti einu sinni,“ sagði þá Friðrik Sophusson, og reyndist hann sannspár.

Eftir ósigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1987 urðu þær raddir háværari, að Davíð Oddsson yrði að taka að sér formennsku. Vildi Davíð sjálfur sem minnst um það tala. Í veglegu jólaboði Vífilfells í desember 1987 vatt Lýður Friðjónsson, þáverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, sér að Davíð og sagði: „Jæja, Davíð, hvenær ætlarðu að taka við þessu?“ Davíð svaraði að bragði: „Hvað segirðu, ertu að hætta?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2012.)


Bloggfærslur 5. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband