21.3.2013 | 23:52
Arnór Hannibalsson: Minningarorð
Arnór Hannibalsson sneri heim 1961 eftir sjö ára háskólanám í Moskvu, Varsjá og Kraków. Hann var þá áhugasamur sósíalisti, sem vildi fræða landa sína um reynsluna af sósíalisma. Gerðist hann umsjónarmaður æskulýðssíðu Þjóðviljans. Eitt sinn tók hann þá viðtal við Skúla Magnússon, sem var nýkominn frá Kína. Þar sagði meðal annars, að einhverjir bændur hefðu verið vegnir í Stóra stökkinu kínverska 19581961. Sigurður Guðmundsson, ritstjóri Þjóðviljans, tilkynnti Arnóri, að slík skrif yrðu ekki birt í blaðinu. Sumarið 1961 bauð Arnór Rétti grein um ríkisvald í Ráðstjórnarríkjunum, en ritstjórinn, Einar Olgeirsson, hafnaði henni, þar eð hún væri ekki aktúel. Í janúar 1962 bauð Arnór Þjóðviljanum gagnrýna grein um Stalínstímann, en ritstjórar blaðsins, Sigurður Guðmundsson og Magnús Kjartansson, synjuðu henni birtingar. Staðfesti framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins þá ákvörðun. Í febrúar 1963 bauð Arnór Sigfúsi Daðasyni, ritstjóra Tímarits Máls og menningar, aðra gagnrýna ritgerð um frelsi og ánauð undir ráðstjórn, en hún var endursend með skætingi.
Íslenskir sósíalistar vildu ekki heyra neitt misjafnt um reynsluna af sósíalisma. Virtist vera botnfrosið fyrir skilningarvitin á þeim. En Arnór prentaði hinar endursendu greinar sínar 1963 í bókinni Valdinu og þjóðinni. Safni greina um sovét. Sama ár veitti Arnór Halldóri K. Laxness aðstoð við að setja saman Skáldatíma, uppgjör skáldsins við sósíalisma, enda var Arnór þá þegar allra manna fróðastur um rússneska sögu. Arnór birti ári síðar ádeilurit á íslenska sósíalista, Kommúnisma og vinstri hreyfingu á Íslandi. Jafnframt gagnrýndi hann opinberlega þjónkun íslenskra sósíalista við Kremlverja. Þeim var nóg boðið. Páll Bergþórsson, formaður Sósíalistafélags Reykjavíkur, skrifaði framkvæmdanefnd Sósíalistaflokksins í septemberlok 1964 og krafðist þess, að Arnór yrði rekinn úr flokknum. Höfðu nú leiðir skilið með Arnóri og íslenskum sósíalistum. En eftir að mistekist hafði að þagga niður í honum, var honum útskúfað og rógi dreift skipulega um hann.
Með því að segja sannleikann um sósíalistaríkin, á meðan aðrir í sömu sporum þögðu, sýndi Arnór Hannibalsson tvo eðlisþætti sína, réttlætiskennd og hugrekki. Hann var aldrei augnaþjónn. Þriðji þátturinn í fari Arnórs var yfirgripsmikil þekking á heimspeki og sögu. Að fornu hefði hann verið nefndur Arnór fróði. Eftir doktorspróf frá Edinborgarháskóla gerðist hann heimspekiprófessor í Háskóla Íslands, en lét sig áfram varða örlög manna og þjóða austantjalds. Arnór var glaður í bragði, þegar við sátum kvöldverð í boði Davíðs Oddssonar í Ráðherrabústaðnum 26. ágúst 1991 með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna, eftir að Íslendingar höfðu endurnýjað viðurkenningu á þeim. Eftir fall Ráðstjórnarríkjanna viðaði hann að sér ótal skjölum úr söfnum þaðan, en afhenti mér þau til úrvinnslu, þegar heilsan brást, og voru þau mér ómetanleg, þegar ég skrifaði Íslenska kommúnista 19181998. Með Arnóri er genginn kjarkaður og réttsýnn öðlingur með óvenjuvíða sýn á umheiminn.
(Minningarorð í Morgunblaðinu 12. janúar 2012.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:54 | Slóð | Facebook
21.3.2013 | 18:18
Tvö dæmi mega ekki gleymast
Kolbeinn Óttarsson Proppé, kosningastjóri Vinstri grænna í Reykjavík 1999, en nú blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifar í fréttaskýringu, að Icesave-málið sé dæmi um það, að stjórn sé hlynnt samningum við önnur ríki, en stjórnarandstaða ekki. Þetta er almennt ekki rangt, svo langt sem það nær. Gallinn er hins vegar sá, að þessi athugasemd á ekki við um Icesave-málið. Þar vildi stjórnin ekki aðeins semja, heldur líka semja af sér.
Ég skal nefna tvö lítil dæmi um það, hversu áhugalítil stjórnin var um að bæta vígstöðu Íslendinga, en mörg fleiri eru til.
Annað var, þegar norsk-franska baráttukonan Eva Joly skrifaði grein til stuðnings Íslendingum í Icesave-málinu. Taldi hún kröfur Breta og Hollendinga á hendur þeim ekki réttmætar, gagnrýndi framkomu ríkjanna og taldi greiðslubyrði samkvæmt fyrsta Icesave-samningnum þyngri en þjóðin gæti risið undir. Birtist greinin í nokkrum erlendum blöðum og einnig í Morgunblaðinu 1. ágúst 2009. Þá skrifaði aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur, Hrannar B. Arnarsson (sá sem gerði Jón Sigurðsson að Dýrfirðingi), ólundarlega á Facebook-síðu sinni: Dettur Evu í hug að þessi grein auki traust á Íslandi erlendis? Veit hún ekki að megnið af erlendu lánunum (eiginlega allt nema Icesave) er til að styrkja gjaldeyrisforðann og þar myndast eign á móti? Held hún ætti að halda sig við ráðgjöf við sérstaka saksóknarann og láta aðra um efnahagsmálin.
Hitt var, að Davíð Oddsson benti á það í viðtali við Morgunblaðið 5. júlí 2009, að nefnd undir forystu Trichets, seðlabankastjóra Frakklands og síðar seðlabankastjóra Evrópu, hefði komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu, að ákvæði um innstæðutryggingar ættu ekki við um bankahrun, enda eru slík ákvæði jafnan um gagnkvæma ábyrgð banka. Þessi skýrsla væri til í utanríkisráðuneytinu. En hver voru viðbrögðin? Þau voru að gera að aðalatriði, að í endursögn blaðamannsins hafði slæðst villa, sem ekki var komin frá Davíð, um, að skýrslan hefði verið unnin fyrir OECD. Hitt var ekki gert, að fara eftir þessari ábendingu Davíðs, sem hefði styrkt málstað Íslendinga í viðureigninni við Breta og Hollendinga, ekki síður í fjölmiðlum en við samningaborðið.
Í ljósi sögunnar er það ráð Hrannars B. Arnarssonar til Evu Joly að láta hann og aðra stjórnarsinna um efnahagsmálin hins vegar gráthlægilegt.