Pólland

Þegar ég undirbjó fyrirlestur, sem ég flutti á dögunum um stjórnmálaskörunginn Winston Churchill, bar Pólland á góma í samtali við einn vin minn. Ég benti á, að eftir Münchenarsamkomulagið 1938 tóku Pólverjar þátt í að sundurlima Tékkóslóvakíu, stukku á hið varnarlausa ríki eins og hrægammur. Engu að síður fóru Vesturveldin í stríð við Þýskaland, eftir að Hitler réðst inn í Pólland að vestanverðu, en skömmu síðar réðst Stalín inn í landið að austanverðu (eftir leynisamkomulag við Hitler), en ekki var farið í stríð við hann.

Vinur minn benti mér þá á aðra athyglisverða staðreynd: Stríðið hófst til að frelsa Pólland úr klóm voldugs nágranna. En eftir stríð var það skilið eftir í klóm voldugs nágranna. Í þeim skilningi var stríðið tilgangslaust.

Hlutskipti Póllands á tuttugustu öld hefur verið sorglegt. Allri alvöru fylgir þó nokkurt gaman. Bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Woody Allen sagði í kvikmyndinni Manhattan Murder Mystery frá 1993: „Ég get ekki hlustað mikið á Wagner. Mig fer þá að langa til að leggja Pólland undir mig.“ Hitler og aðrir nasistar höfðu mikið dálæti á þýska tónskáldinu Wagner.

Frjálslyndi flokkurinn íslenski, sem varð til upp úr 1924 og sameinaðist 1929 Íhaldsflokknum í Sjálfstæðisflokknum, hafði kjörorðið: „Ísland fyrir Íslendinga!“ Svipað kjörorð hafði heyrst í Svíþjóð 1886: „Sverige för Svenskarna!“ Þá sagði háðfuglinn Falstaff Fakir (sem hét raunar Wallengren), að sitt kjörorð væri: „Nordpolen åt nordpolackarne“ (Norðurpólinn fyrir Norður-Pólverjana).

Pólski háðfuglinn Stanislaw Lec lýsti einnig tuttugustu öldinni vel í tveimur umhugsunarverðum setningum í bókinni Úfnum hugsunum (Mysli nieuczesane), sem kom út 1959. Önnur er: „Þegar myndastyttur eru brotnar, ætti að hlífa stöllunum. Þeir koma alltaf í góðar þarfir.“ Hin setningin er spurning: „Teljast það framfarir, þegar mannæta notar hníf og gaffal?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. janúar 2013, sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er alltaf tilvalin tækifærisgjöf og fæst í öllum góðum bókabúðum, eflaust á viðráðanlegu verði.)


Skáldskapur og skrímsladeild

Hinn sjöunda janúar 2013 bloggaði ég um tvær bækur, sem ég hafði lesið í löngum flugferðum og mælti hiklaust með. Aðra þeirra hafði ég keypt á Heathrow-flugvelli í enskri þýðingu, French suite (Frönsk svíta), eftir rússnesk-frönsku skáldkonuna Irene Nemirovsky. Nú fræðir vinkona mín, Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntarýnir, mig á því, að þessi bók hafi komið út á íslensku 2011 undir heitinu Frönsk svíta, og gaf JPV hana út í þýðingu Friðriks Rafnssonar. Er gott til þess að vita, að Jóhann Páll Valdimarsson fylgist svo vel með erlendum bókmenntum.

Hinn níunda janúar 2013 bloggaði ég um orðasambandinu „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“. Ég vissi fyrst af því árið 2006, þegar Össur Skarphéðinsson notaði það. En Bergsteinn Sigurðsson, sagnfræðingur og blaðamaður, benti mér á það, að orðasambandið kom fyrir í skrifum DV um Davíð Oddsson og þá menn, sem honum voru handgengnastir í Sjálfstæðisflokknum, árið 2004, og bætti ég þeim fróðleik við í eftirmála við bloggið.

Nú hefur Bergsteinn aftur bent mér á enn eldri notkun orðasambandsins. Það kemur að sögn hans fyrir í Morgunblaðinu 1998 og þá haft eftir Sighvati Björgvinssyni og enn í DV 2002 og þá haft eftir Bryndísi Schram. Líklegast er því, að Sighvatur Björgvinsson sé höfundur orðasambandsins, en ekki Hreinn Loftsson, eins og ég hafði látið mér detta í hug (en Hreinn smíðaði orðið „náhirðina“ um sama hóp og var hreykinn af).


Bloggfærslur 14. mars 2013

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband