Fá íslensku snillingarnir verðlaun?

Staksteinahöfundur í Morgunblaðinu fór 15. júní á kostum að venju:

 

Jóhanna býr svo vel að hafa landsfræga ræðuskrifara við höndina sem gæta þess að hún segi ekkert sem kemur þessu máli við og selja firðina iðulega dýrara en þeir kaupa þá. (Nú er 17. júní framundan, piltar. Láta nú einhvern eldri en tvævetur lesa textann yfir áður en þulan fær hann).

En Samfylkingin á fleira en fræga ræðuskrifara. Hún hefur einnig efnahagsleg undrabörn á sínum snærum. Össur Skarphéðinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Sigríður Ingadóttir hafa komið fram með margar snjallar kenningar síðustu misserin, þótt nóbelnefndin þykist ekki sjá þær eða heyra, sem segir meira um nefndina en fyrrtalda snillinga.

Fréttir úr innsta hring herma að þau þrjú séu að bræða með sér að leggja til við spænsk yfirvöld að hika ekki lengur við að taka upp evru, sem myndi næstum örugglega stöðva niðursnúinn spíralann. Nú ef það gengur ekki gæti Spánn sótt upp að fá hraðmeðferð inn í Evrópusambandið. Það er laust sæti við hliðina á Íslandi. Láti þau tillöguna vaða er nóbelnefndin komin í verulega klemmu.

 

Fjölmiðlar þurfa ekki aðeins að fylgjast vel með 17. júní ræðum Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem sumt hefur verið spánskt síðustu árin, heldur líka hugsanlegum tillögum íslensku snillinganna til spænskra stjórnvalda.


Elinor Ostrom látin

Elinor Ostrom, sem fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2009, lést 12. júní 2012.

Hún hlaut þessa miklu viðurkenningu fyrir rannsóknir sínar á því, hvernig menn geta með sjálfsprottnum reglum og samtökum, oft án atbeina ríkisins, leyst þann vanda, sem sprettur af samnýtingu á gæðum í almenningum og afréttum, til dæmis beitarlandi til fjalla, vötnum og skógum, þegar einstaklingar freistast til að ofnýta gæðin, því að gróðinn skilar sér til þeirra einna, en kostnaðurinn dreifist á alla í hópi samnýtenda. Er margt hnýsilegt í fræðum Ostroms, en sjálfur vinn ég um þessar mundir að rannsóknum á grænum kapítalisma. Íslendingar þekkja vel nokkur dæmi um reglur til að stýra samnýtingu á gæðum, til dæmis ítöluna, sem dr. Þráinn Eggertsson prófessor hefur greint hagfræðilega, en hún fólst í beitarréttindum, sem hver jörð fékk í afréttum upp til fjalla allt frá því á þjóðveldisöld. Þetta var kvótakerfi þess tíma.


Bloggfærslur 2. júlí 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband