28.1.2010 | 11:31
Enn eitt vísindahneykslið
Allir skynsamir menn eru hlynntir umhverfisvernd. Þeir eru andvígir mengun, útrýmingu sjaldgæfra dýrategunda, sóun náttúruauðlinda og umhverfisspjöllum í óbyggðum. Þetta er hins vegar ekki hið sama og að trúa hverri einustu hrakspá, sem fram er sett í nafni umhverfisverndar.
Tvö dæmi um slíkar spár eru úr frægum bókum, sem báðar hafa komið út á íslensku, Raddir vorsins þagna frá 1962 eftir Rachel Carson og Endimörk vaxtarins frá 1972 eftir ýmsa höfunda. Fyrir orð Carsons var skordýraeitrið DDT víða bannað með þeim afleiðingum, að mýrarkalda (malaría) komst aftur á kreik og olli dauða fjölda fólks. Rannsóknir leiddu hins vegar í ljós, að DDT var nær hættulaust mönnum og alls ekki eins skaðlegt fuglum og Carson hafði haldið fram. Höfundar Endimarka vaxtarins fullyrtu, að um og eftir aldamótin 2000 yrði hörgull á mörgum efnum, til dæmis jarðolíu, kopar og áli. Nóg er enn til af þessum efnum.
Miklu nýrra dæmi var, þegar Boris nokkur Worm spáði í tímaritinu Science haustið 2006, að fiskistofnar heims hryndu innan fjörutíu ára. Þegar Jóhann Sigurjónsson, forstöðumaður Hafrannsóknastofnunar, taldi þetta orðum aukið, sætti hann ákúrum í íslenskum blöðum. En fyrir slysni sendi Boris Worm fréttamanni tölvuskeyti, þar sem sást, að þessi spá var auglýsingabrella.
Ég vakti fyrir skömmu athygli á öðru dæmi. Í skýrslu Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, IPCC, frá 2007 sagði, að jöklar í Himalajafjöllum kynnu að vera horfnir fyrir árið 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Nú er komið fram, að þessi spá studdist ekki við neinar vísindalegar rannsóknir, heldur var aðeins getgáta, sem birtist í New Science átta árum áður, 1999.
Mánudaginn 25. janúar 2010 var í Wall Street Journal frétt um enn eina brelluna í nafni umhverfisverndar. Í áðurnefndri skýrslu Loftslagsnefndarinnar frá 2007 segir, að vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum muni margvíslegar náttúruhamfarir, svo sem fellibylir og steypiregn, færast í aukana. Vitnað var til rannsóknar Muir-Wood et. al, 2006.
Þegar skýrsla Loftslagsnefndarinnar kom út, var ritgerð þessi óbirt og hafði ekki einu sinni verið ritrýnd. Og þegar sjálf ritgerðin kom loks á prent árið 2008 í bókinni Climate Extremes and Society, kváðust höfundar ekki hafa nægileg gögn í höndunum til að geta sagt með neinni vissu, að skýr tengsl væru á milli hlýnunar jarðar og náttúruhamfara eins og fellibylja og steypiregns.
Engu að síður hefur formaður Loftslagsnefndarinnar, dr. Rajendra Pachauri, margoft vitnað til þessarar spár. Er fleira í skýrslu nefndarinnar jafnhæpið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook
28.1.2010 | 11:30
Vinnubrögð Jóhanns Haukssonar
Jóhann Hauksson, starfsmaður Baugsfeðga og Hreins Loftssonar á DV, hefur skrifað margt um mig og fæst lofsamlegt. Hefur hann eins og Jóhannes kærari, einn vinnuveitandi hans, beint spjótum sínum að vinnustað mínum, Háskóla Íslands, eins og þessi færsla hans sýnir. Nú hefur einn samkennari minn, dr. Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, hrakið þessa færslu Jóhanns í eftirfarandi bréfi til hans, sem birt var á dv.is:
Heill og sæll,
Vegna bloggs sem þú hefur skrifað um ráðningu Ástu Möller að Stofnun stjórnmálafræða og stjórnmála á vef DV langar mig til að gera nokkrar athugasemdir, sem þú mátt gjarnan birta sem viðhengi við bloggið.
1. Í greininni gefur þú þér að ráðning Ástu sé á einhvern hátt ámælisverð án þess að gera minnstu tilraun til að sýna fram á að svo sé. Ég sendi eftirfarandi út á háskólavefinn eftir að tveir af kennurum skólans höfðu tjáð sig um ráðninguna þar:
Athygli mín hefur verið vakin á umræðum á hi-starf sem leiddu m.a. til blaðaskrifa þann 20. jan. 2010 út af ráðningu nýs forstöðumanns Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála. Starfið var auglýst með venjubundnum hætti og auk þess í Fréttablaðinu. Í auglýsingu var gerð lágmarks krafa um meistarapróf í stjórnmálafræði eða tengdum greinum (s.s. stjórnsýslufræðum eða alþjóðasamskiptum). Umsækjendur sem uppfylltu skilyrði auglýsingarinnar voru teknir í viðtöl og að þeim loknum lagði undirritaður fram tillögu að ráðningu við stjórn stofnunarinnar, sem samþykkti tillöguna. Rétt er að taka fram að starfið er ekki akademískt starf og krefst hvorki doktorsgráðu né formlegs hæfnisdóms. Pólitískar skoðanir umsækjenda höfðu ekki áhrif á ráðninguna enda er óheimilt að líta til slíkra þátta við ráðningu. Það er mín skoðun að vel hafi tekist til við ráðninguna. Ég vona að nýr forstöðumaður njóti þeirra réttinda, eins og forveri hans í starfi, Margrét S. Björnsdóttir, sem hefur meistarapróf eins og Ásta Möller og hefur staðið sig afburða vel, að vera dæmdur af verkum sínum en ekki einkaskoðunum.
Ekki hafa orðið frekari umræður um málið á vefnum.
Ákvörðun um að ráða ekki í starfið (eins og þú stingur upp á) hefði í raun jafngilt því að leggja stofnunina niður því forstöðumaðurinn er eini starfsmaður hennar og stofnunin er rekin fyrir sjálfsaflafé. Enginn umsækjenda hefur gert athugasemdir við ráðninguna.
2. Í greininni er gefið í skyn að óvenjulegt sé eða jafnvel hæpið að meðlimir stjórnmálaflokka kenni við stjórnmálafræðideild eða sinni þar rannsóknum. Þú veist auðvitað að svo er ekki. Ég get nefnt fólk eins og Ólaf Ragnar Grímsson, Svan Kristjánsson, Margréti S. Björnsdóttur, Baldur Þórhallsson, Silju Báru Ómarsdóttur en miklu fleiri af kennurum deildarinnar hafa verið meðlimir stjórnmálaflokka en þessir (án þess að ég hafi reynt að grennslast neitt sérstaklega fyrir um slíkt).
3. Í greininni segir að heimildir séu fyrir því að Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafi haft milligöngu um mjög stóran styrk frá Landsbanka Íslands (þú nefnir nokkra tugi milljóna) til rannsóknarverkefnis um íbúalýðræði og félagsauð árið 2007. Heimildir þínar eru greinilega ekki traustar. Umrætt verkefni fékk einnar milljón króna styrk frá Landsbankanum árið 2008 og loforð um tvær til viðbótar 2009-2010 sem aldrei voru greiddar út. Um þetta hafði Margrét S. Björnsdóttir ein milligöngu. Hins vegar hefur verkefnið verið styrkt af Sambandi íslenskra sveitarfélaga (um þrjár milljónir) og fengið háa styrki frá Rannís og Rannsóknasjóði HÍ.
4. Þú leggur síðan út af þessari ímynduðu tengingu Hannesar við styrkveitinguna þannig að til endurgjalds hafi Hannes fengið að kenna skyldunámskeið við deildina. Vegna þess að Hannes kom hvergi nálægt styrkveitingunni gengur þessi tenging ekki upp. Hannes hefur stundum kennt skyldunámskeið hjá okkur og skylda deildarinnar er að nýta starfskrafta hans eins og hægt er. Þú virðist halda að hann hafi aldrei kennt skyldunámskeið fyrir 2007 en það er rangt. Skyldunámskeiðið sem hann kennir nefnist Stjórnmálaheimspeki og fjallar ekki um framtíð kapítalismans og hrunið.
5. Undir lok greinarinnar virðist þú gefa þér að verkefni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála séu einkum þau að rannsaka spillingu í íslenskri stjórnsýslu. Stofnunin sem slík stuðlar fyrst og fremst að því að styðja við rannsóknir þeirra fræðimanna sem starfa við stjórnmálafræðideild, mínar þar á meðal. Ég veit ekki til að nokkur annar hafi reynt að rannsaka spillingu á Íslandi jafn mikið og ég hef gert og ég er núna m.a. þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknarverkefni um pólitískar stöðuveitingar. Ég fæ ekki séð hvernig ráðning forstöðumannsins hefur minnstu áhrif á mínar niðurstöður né annarra þeirra sem stunda rannsóknir við deildina.
6. Vegna niðurlags greinarinnar þar sem þú segir að það læðist að þér óþægilegur grunur um að innan HÍ hafi kunningjaveldið og frændhyglin skotið rótum eins og svo víða í okkar litla hrunda og siðspillta klíkuþjóðfélagi langar mig til að taka það alveg sérstaklega fram að ég er hvorki frændi né kunningi nokkurs af því fólki sem þú hefur fyrir aðalgerendur í grein þinni (Björgólfs Guðmundssonar, Kjartans Gunnarssonar, Ástu Möller). Hannes þekki ég hins vegar í gegnum starf mitt.
Það voru mér mikil vonbrigði að lesa þessa grein því ég hef yfirleitt haldið að þú stundaðir vandaðri vinnubrögð en þetta. Það er varla hægt að lesa greinina öðru vísi en sem persónulega árás á mig því tengingin á milli þeirra tveggja atriða sem mynda uppistöðu greinarinnar (stöðuveitingin og fjárstyrkurinn) hlýtur að byggja á mínum þætti. Þú hefur auðvitað fulla heimild til að ráðast að mér og ég kvarta ekki yfir því. Hins vegar finnst mér að ég eigi sanngjarna kröfu á að farið sé rétt með.
Kveðjur,
Gunnar Helgi Kristinsson
Þetta bréf Gunnars Helga skýrir sig sjálft. Jóhann Hauksson hefur orðið sér til skammar sem blaðamaður, þótt eflaust kunni vinnuveitendur hans vel að meta vinnubrögð hans.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook