Reynum dómstólaleiðina

Þegar þeir Sigurður Líndal prófessor og Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari eru sammála, eru tveir virtustu lögfræðingar landsins ekki aðeins sammála, heldur er líka fullvíst, að þeir láta ekki stjórnast af annarlegum ástæðum, eins og á því miður við um suma þá lögfræðimenntuðu álitsgjafa, sem eru á launum hjá vinstristjórninni í Icesave-málinu.

Með Icesave-samningunum við Breta og Hollendinga leggur vinstristjórnin stórkostlega skuldabagga á Íslendinga, án þess að fullreynt sé, að Íslendingum beri lagaleg skylda til að taka þá á sig. Hvar stendur í lögum og alþjóðasamningum, að ríkissjóður Íslands sé ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta er um megn fjárhagslega að efna?

Hvað sem því líður, hafa margir frammámenn í Evrópu viðurkennt, að lög og alþjóðasamningar um hina sérstöku tryggingarsjóði innstæðueigenda í hverju landi voru ekki miðaðir við bankahrun, heldur aðeins erfiðleika einstakra banka. Í lánsfjárkreppunni kom í ljós kerfisgalli í samningnum um EES: Hið leyfilega rekstrarsvæði banka var miklu stærra en samtryggingarsvæði þeirra.

Í þriðja lagi hlýtur skylda að takmarkast af getu, eins og rómverskir lögspekingar bentu á forðum: Jafnvel þótt komist væri að þeirri niðurstöðu, að ríkissjóður Íslands væri að einhverju leyti ábyrgur fyrir þeim skuldbindingum, sem Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta væri um megn fjárhagslega að efna, eins ólíklegt og það er, yrði að semja um framhaldið í ljósi greiðslugetu Íslendinga. En það er gert eftir slíka niðurstöðu, ekki fyrir hana.

Í tímamótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag benda Sigurður og Jón Steinar á, að það sé óháðra dómstóla með viðurkennda lögsögu að skera úr um vafaatriði í þessu máli. Telji breska eða hollenska ríkið sig eiga rökstuddar fjárkröfur á hendur íslenska ríkinu, þá eigi til dæmis að sækja þær fyrir íslenskum dómstólum, eins og aðrar slíkar fjárkröfur.

Þeir benda einnig á, að um leið ætti auðvitað að skera fyrir dómstólum úr um önnur atriði, ekki síst það, hvort Bretar hefðu mátt beita hryðjuverkalögum sínum til að stöðva starfsemi íslenskra banka í Bretlandi. Ég hef áður bent á það, að Bretar ollu miklu um hið stórkostlega tjón, sem varð, þegar íslensku bankarnir hrundu. Eiga þeir ekki að bera það tjón, sem þeir sjálfir ollu?

Ég tek undir áskorun Sigurðar og Jóns Steinars til alþingismanna um að breyta stefnu sinni. Íslendingar eru lítil þjóð. Stjórnlist slíkrar þjóðar er að þæfast við, afla sér bandamanna, sýna þolinmæði og þrautseigju, ekki að láta hart mæta hörðu, en aldrei heldur að gefast upp.


Áhrínsorð

Þegar ég horfi á Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem eiga að heita ráðamenn þjóðarinnar, en eru ráðalaus, detta mér í hug vísuorð, sem fleyg urðu forðum. Kunnur úrsmiður á Akureyri, Sigmundur Sigurðsson, orti sumarið 1924, en þá létu íslenskir kommúnistar undir forystu Einars Olgeirssonar fyrst í sér heyra á þeim slóðum:

Upp er skorið, engu sáð,
allt er í varga ginum.
Þeir, sem aldrei þekktu ráð,
þeir eiga að bjarga hinum.

(Vísan er stundum ranglega kennd Agli Jónassyni á Húsavík eða Friðrik Jónssyni pósti á Helgustöðum, en Páll J. Árdal feðrar hana í athugasemd í Degi haustið 1924.)

Þessi vísuorð hafa svo sannarlega orðið að áhrínsorðum.


Bloggfærslur 25. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband