Siðfræði umhverfisins

elephant-walk-joseph-g-holland.jpgSíðustu helgi, dagana 3.–6. desember, tók ég þátt í fróðlegri málstofu um siðfræði umhverfisins í Tucson, Arizona. Margt var þar rætt, sem hlýtur að leita á alla hugsandi menn. Nýtur maðurinn sérstöðu í náttúrunni eða hafa aðrar lifandi verur einhver réttindi og jafnvel dauðir hlutir? Meðal annars ræddum við þá kenningu ástralska heimspekingsins Peters Singer, að öll dýr séu jöfn í þeim skilningi, að þau eigi öll jafnan rétt á því, að tekið sé siðferðilegt tillit til þeirra. Singer telur það villimennsku að drepa dýr og leggja þau sér til munns. Ég er einn þeirra, sem hafna kenningu hans. Af þeirri staðreynd, að menn hafa réttindi í krafti þeirrar skynsemi, sem þeir eru gæddir, leiðir ekki, að dýr hafi slík réttindi, jafnvel þótt sum þeirra virðist skynsamari en önnur. Hins vegar kann að vera, að við höfum ýmsar skyldur við þau. En þær skyldur eru ekki samar og jafnar við alla. Til dæmis höfum við aðrar skyldur við apa, sem eru næstir okkur í dýraríkinu, en mýflugur. En ekki þarf neina heimspekinga til að segja okkur, að þörf sé á dýravernd.

Ég varpaði fram nokkrum spurningum á málstofunni. Þegar rætt var um skyldur okkar við komandi kynslóðir, spurði ég eins og gamli maðurinn í Flóanum: Hvað hafa komandi kynslóðir gert fyrir okkur? Með því segi ég ekki, að fólk eigi ekki einhverjar skyldur við komandi kynslóðir, heldur að ríkið og sérfræðingar þess geta trauðla gert grein fyrir þeim eða framfylgt þeim. Við rækjum slíkar skyldur með eignarréttinum, fjölskyldunni og þeirri samheldni eða samkennd, sem sprettur af sögu okkar og arfi. Þegar rætt var um dýr í útrýmingarhættu, spurði ég, hver bera skyldi kostnaðinn af friðun þeirra. Tökum til dæmis íslenska örninn, sem leggst á æðarvarp og bakar með því æðarbændum mikið tjón. Hann er friðaður. Hver á að bera kostnaðinn? Þeir, sem vilja friða örninn? Bændurnir? Almenningur (ríkissjóður)? Sjálfur komst ég raunar að þeirri niðurstöðu, að örninn væri svo mikilvægur í náttúru Íslands, að eðlilegt væri, að almenningur bæri kostnaðinn af friðun hans, enda er mælt fyrir um hana í lögum. 

Rætt var um ýmis sjaldgæf dýr. Ég velti því fyrir mér, hvers vegna allir vildu friða stór dýr eins og fíla og hvali, en ekki lítil dýr og jafnvel örsmá. Lynn Scarlett, fyrrverandi aðstoðarinnanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem var á málstofunni, sagði í gamni, að í Washington-borg væri sérstakt orð notað um þetta fyrirbæri, „charismatic megafauna“, geðþekkir risar úr dýraríkinu. Fátt var hins vegar um svör í málstofunni, þegar ég benti á, að hvalategundir á Íslandsmiðum eru ekki í útrýmingarhættu og að bann við því að veiða þá hefur valdið offjölgun þeirra, svo að þeir taka fæðu frá öðrum tegundum, þar á meðal manninum sjálfum.


Ná lög ekki yfir Egil Helgason?

crop_260x_941026.jpgRíkisútvarpið er um það ólíkt venjulegum fjölmiðlum eins og Morgunblaðinu og Stöð tvö, að við getum ekki sagt því upp. Það er í eigu almennings og á að þjóna almenningi. Þess vegna eru lagaskyldur þess ríkari en annarra fjölmiðla. Því ber til dæmis að lögum að gæta óhlutdrægni í frásögnum og umræðum um menn og málefni. Það merkir vitaskuld ekki, að skoðanir megi ekki koma fram, heldur hitt, að ekki sé reynt að þagga niður skoðanir, sem hljóta að þykja gjaldgengar. Það er þess vegna hneyksli, að forsvarsmenn Ríkisútvarpsins skuli hafa valið Egil Helgason til að stjórna öllum opinberum umræðum í landinu um stjórnmál og bókmenntir. Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni og samherjum hans. Hann eys fúkyrðum yfir þá í hverri viku á bloggsíðu sinni á Eyjunni. Sjónarmið þeirra fá ekki að komast að í þáttum hans (þótt þriðjungur þjóðarinnar telji samkvæmt skoðanakönnunum, að Davíð sé best til þess fallinn að leiða þjóðina út úr núverandi þrengingum).

Í Sífri Egils eru jafnan fjórir vinstrimenn fyrir einn hægrimann, og hann er iðulega einhver óánægður utanveltumaður, sem tekur undir með kórnum í stað þess að andmæla honum. Ég hef ekkert á móti því, að Egill hafi sinn þátt. En forsvarsmönnum Ríkisútvarpsins ber lögum samkvæmt að gæta mótvægis. Þessi fjölmiðill á að vera margradda, ekki eintóna. Egill er í fullu starfi fyrir Ríkisútvarpið og segist „aðeins“ vera með um 750 þúsund krónur á mánuði fyrir það (eftir skatt?). Ég hef áður rifjað hér upp, að haustið 2005 áminntu forsvarsmenn Ríkisútvarpsins Sigmund Sigurgeirsson, starfsmann fréttastofunnar, vegna ummæla hans á bloggi sínu um Baugsmálið.

Ekki er heldur úr vegi að minnast hér á reglur Ríkisútvarpsins breska, BBC, um blogg starfsmanna. Þar segir, að starfsmenn skuli sýna öðrum nærgætni á bloggum sínum. Þeir skuli bera undir yfirmenn sína allt það, sem vakið geti efasemdir um óhlutdrægni þeirra og orðheldni. Sé þeim boðin greiðsla fyrir að blogga, þá skuli þeir ræða við yfirmenn sína, áður en þeir taki slíku boði, enda geti þar orðið hagsmunaárekstur. Sjálfur þiggur Egill 200 þúsund krónur á mánuði fyrir að blogga á Eyjunni. Bar hann það undir yfirmenn sína? Eða gerir Ríkisútvarpið íslenska vægari siðferðiskröfur en hið breska?


Vindur og andi

jadar_image_gray_941025.jpgÓlíkt er þeim farið, starfsbræðrunum, rithöfundunum Guðmundi Andra Thorssyni og Einari Má Guðmundssyni. Guðmundur Andri var blygðunarlaus Baugspenni. Þegar Davíð Oddsson lagði fram fjölmiðlafrumvarpið vorið 2004, skrifaði Guðmundur Andri í Fréttablaðið 26. apríl: „Hefði Baugur ekki tekið að fjárfesta á þessum markaði þá væru fjölmiðlar á Íslandi færri og einsleitari, hvort sem litið er á fréttaflutning, stuðning við pólitísk öfl eða almennt yfirbragð. Eins og sérhver neytandi getur vitnað um þá hefur fjölbreytnin aukist — og er það vandamál?“ Beinteinn á Króknum hefði ekki getað orðað það betur í lofgrein um Bogesen gamla á Óseyri við Axlarfjörð. Og Guðmundur Andri skrifaði um Baugsmenn í Fréttablaðið 17. maí 2004: „Það er ekki boðlegt að þeir skuli sæta ofsóknum mánuðum og jafnvel árum saman af hendi forsætisráðherra fyrir einhverjar sakir sem enginn fær botn í.“ Eftir hrunið hefur Guðmundur reynt að skrifa sig frá Baugsþjónkun sinni, en með litlum árangri. Beinteinn á Króknum skrifaði líka illa um Bogesen, þegar sá gállinn var á honum.

jadar_image_gray-1.jpgEinar Már lét hins vegar engan kaupa sig. Ég er á öndverðum meiði við hann um margt, en tvennt getur enginn tekið af honum. Hann er ekki falur, og hann er manna pennafærastur, eins og nýleg Hvítbók hans sýnir. Guðmundur Andri er vindur. Einar Már er andi. Guðmundur Andri er útblásinn. Einar Már er innblásinn.


„Fagleg sjónarmið“

Eftir bankahrunið hættu margir að treysta þeim, sem áður höfðu gefið tóninn, talað af myndugleika, farið með kennivald. Þeir sneru sér að ýmsum háskólamönnum, sem áður höfðu grúft sig yfir rykfallnar skræður og tautað fyrir munni sér talnarunur, enda virtust þeir svo utanveltu, að þeir væru saklausir af hruninu. Töfraorðið var skyndilega ekki lengur „Sesam, Sesam, opnist þú“, heldur „fagleg sjónarmið“. Óspart var til dæmis hneykslast á því, að maður, sem ekki hefði háskólapróf í hagfræði, hefði orðið aðalbankastjóri Seðlabankans íslenska. Erlendir sérfræðingar, sem sjálfir voru með háskólapróf í hagfræði og áttu því vitaskuld engra hagsmuna að gæta, tóku kröftuglega undir þetta. Sagan er þó ólygnust. Hvernig reiðir stofnunum af undir stjórn hagfræðinga í samanburði við aðra? Skoðum prófskírteini þeirra manna, sem verið hafa aðalbankastjórar Seðlabankans fyrir hrun. Bankinn var 1961 til 1993 undir stjórn manna með háskólapróf í hagfræði. Hann var 1994 til 2008 undir stjórn manna með háskólapróf í lögfræði (og fyrrverandi stjórnmálamanna). Helsti mælikvarðinn á frammistöðu Seðlabanka er jafnan talinn verðbólga. Því minni sem hún er, því betri er frammistaðan, og öfugt. Ég reiknaði út meðalverðbólgu þessi tvö tímabil (allar tölur eru til á vef hagstofunnar).

Undir stjórn hagfræðinganna 1961–1993 var meðalverðbólga 24,3%.

Undir stjórn lögfræðinganna 1994–2008 var meðalverðbólga 4,4%.

Auðvitað reka mennirnir með háskólapróf í hagfræði (sem eiga vitaskuld engra hagsmuna að gæta) upp ramakvein. Fleira skipti máli og skýri verðbólgu, segja þeir, en prófskírteini aðalbankastjóra Seðlabankans. Þá svara ég aðeins einu: Ég er sammála!


Bloggfærslur 9. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband