Veðlán Seðlabankans

header.jpgSkriflegar upplýsingar Seðlabankans undir nýrri forystu um veðlán bankans til viðskiptabankanna í aðdraganda bankahrunsins eru fróðlegar. Þar er það staðfest, sem Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri hafði raunar sagt opinberlega, að reglur bankans um lán til fjármálafyrirtækja tóku mið af reglum Evrópska seðlabankans (ECB), en voru þrengri að því leyti, að þær heimiluðu ekki veðsetningu krafna, sem ekki voru skráðar á markaði. Þegar bankarnir hrundu, voru öll veð í samræmi við reglur bankans.

Auðvitað tapaði Seðlabankinn stórfé á bankahruninu, eins og seðlabankar annarra landa. (Til dæmis er talið, að hugsanlegt útlánatap Englandsbanka muni nema 850 milljörðum punda eða 17 þúsund milljörðum króna.) En tap Seðlabankans varð meira en ella vegna neyðarlaganna, þar sem öllum öðrum kröfum en innstæðueigenda var skotið aftur fyrir, þar á meðal kröfum Seðlabankans. Hvers vegna hafa þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson, sem harðlega hafa gagnrýnt útlánatap Seðlabankans, ekki reynt að reikna út, hversu mikið af útlánatapinu stafar af því?

Forsenda þessara útlána var einnig, að viðskiptabankarnir stæðust reglur um eigið fé. Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit með því, að efnahagsreikningar bankanna gæfu góða mynd af eignum þeirra. Hvers vegna hafa þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson, sem óspart hafa hneykslast á útlánatapi Seðlabankans, varla minnst á þennan þátt málsins? Getur verið, að viðskiptabankarnir hafi ranglega talið alls konar froðufé til eigna sinna? Og að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fylgst með því sem skyldi?

Mikið var gert úr því í fjölmiðlum á dögunum, þegar Ríkisendurskoðun sagði, að Seðlabankinn hefði átt að herða reglur sínar fyrr um veð. Enginn minntist á það, að auðvitað hefði bankakerfið þá líka hrunið fyrr. Átti ekki að reyna að fleyta að minnsta kosti einhverju af því yfir hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu? Það er auðvelt að vera vitur eftir á. En það er líka auðvelt að missa fræðilegt traust, og það eru þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson því miður að gera með áróðursbrellum sínum.

Víst er að minnsta kosti, að hvorugur varaði Jón eða Gauti við bankahruninu. Það gerði hins vegar formaður bankastjórnar Seðlabankans hvað eftir annað í aðdraganda þess, þótt hann gæti ekki verið eins skorinorður opinberlega og í einkasamtölum, eins og ég get borið vitni um. Því miður var ekki hlustað á hann.


Ögmundur ekki í Kastljósinu

mynd_944609.jpgÖgmundur Jónasson gerði það, sem rétt var. Kastljóssmenn gerðu það, sem rangt var. Fimmtudaginn 17. desember hittu Kastljóssmenn Ögmund að máli og báðu hann að koma fram í þættinum um kvöldið. Ögmundur baðst undan því, vegna þess að hann hefði fengið sér vín með hádegismatnum og vildi ekki ræða alvarleg mál undir áhrifum, hversu lítil og ómerkjanleg sem þau áhrif kynnu að vera. Hann greiddi hins vegar þennan dag atkvæði um mál, sem höfðu verið lengi í undirbúningi og hann löngu gert upp hug sinn um.

Kastljóssmenn sýndu ódrengskap með því að skýra daginn eftir frá þessari ástæðu til þess, að Ögmundur vildi ekki koma fram í þætti þeirra. Sú frétt þeirra var engin frétt, að Ögmundur hefði greitt atkvæði undir áhrifum. Það er ekki bannað að fá sér vín með hádegismatnum og raunar ekkert ámælisvert við það. Eftir það geta menn gert sumt, en ekki annað. Þeir geta til dæmis ekki ekið sjálfir heim til sín, en þeir geta svo sannarlega opnað útidyrahurðina heima hjá sér með lykli. Hið sama er að segja um þingmenn. Þeir eiga ekki að taka til máls, ef þeir finna á sér, en auðvitað geta þeir greitt atkvæði, þegar afgreidd eru mál, sem lengi hafa verið í undirbúningi.

Hvað sem um Ögmund Jónasson má segja, vita allir, að hann er heiðarlegur stjórnmálamaður og ekki falur. Hann myndi aldrei hafa haldið neina Borgarnesræðu til varnar þeim auðjöfrum, sem grunaðir voru um ámælisverð eða jafnvel ólögleg vinnubrögð, eins og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar gerði. Ég get ekki heldur ímyndað mér, að hann hefði farið sauðdrukkinn í ræðustól eins og einn þingmaður Samfylkinginnar (úr fjölmiðlastétt) gerði fyrir skömmu. Ríkisútvarpið má ekki breytast í æsimiðil eins og DV, þótt umræðustjóri Ríkisútvarpsins segi vissulega, að DV sé eina dagblaðið, sem mark sé á takandi.


Bloggfærslur 22. desember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband