Vandlifað fyrir rithöfunda

1003987.jpgVandlifað gerist fyrir rithöfunda, ef þeim er bannað að sækja sér fyrirmyndir í lífið sjálft. Helga Kress krafðist þess á dögunum, að skáldverk Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn, væri innkallað, þar eð höfundur styddist við sögu föður hennar, Brunos Kress málfræðings, sem dvaldist á Íslandi fyrir stríð á styrk frá einni stofnun SS, Ahnenerbe, eins og Þór Whitehead prófessor greinir frá í bókum sínum. Böðvar þekkti vel sögu Brunos Kress, enda var hann um skeið sambýlismaður Helgu. Mér finnst Böðvar gæta sanngirni í þessu verki, sem er mjög vel skrifað. Lítið hefði orðið úr skáldskap Halldórs Kiljans Laxness, hefði honum verið bannað að vinna söguhetjur úr því fólki, sem hann kynntist, og spinna þráð úr örlögum þess. Kristófer Torfdal í Sölku Völku er til dæmis settur saman úr Ólafi Friðrikssyni og Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Eins og ég benti á í bók minni, Kiljan, er atburðarás í Sumarhúsum um sumt sótt í svokallað Móakotsmál. Saga Ólafs Kárasonar Ljósvíkings er öðrum þræði saga Magnúsar Hj. Magnússonar. Kaflar í smásögunni „Temúdsjín snýr heim“ eru mjög svipaðir köflum í ævisögu Djengis Khan eftir breska rithöfundinn Ralph Fox, sem féll í spænska borgarastríðinu. Söguhetjur Íslandsklukkunnar eiga sér raunverulegar fyrirmyndir, ekki aðeins Briem-systur, heldur einnig fólk frá seytjándu og átjándu öld. Allir vita, að Landaljómi í Atómstöðinni ber svip af Thor Vilhjálmssyni og Garðar Hólm Brekkukotsannáls af Eggerti Stefánssyni, þótt auðvitað lagi skáldið í hendi sér mannlýsingar eftir lögmálum skáldskaparlistarinnar. Þannig mætti lengi telja. Það kemur úr hörðustu átt, þegar háskólakennari í bókmenntum ætlar sér að banna bókmenntir.

Af hverju var mútumálið aldrei rannsakað?

jon-asgeir-johannesson-415x275.jpgEgill Helgason spyr þessarar spurningar í bloggi sínu. Ég skal játa, að ég hef aldrei skilið, hvers vegna það var ekki gert. Auðvitað átti lögreglan að hefja rannsókn málsins, strax og það kom fram. Ég er sennilega eini maðurinn, sem hef heyrt af vörum þriggja af fjórum þátttakendum frásagnir um þetta mál: Ég ræddi það við Davíð Oddsson, Hrein Loftsson og Jón Ásgeir Jóhannesson. Frásögnum þeirra ber ekki saman um öll atriði, en þó má ráða eftirfarandi af þeim um atburðarásina. Þeir Hreinn og Jón Ásgeir voru staddir á fundi ásamt þriðja manni ónefndum, og þar andvörpuðu þeir yfir því að hafa ekki fengið næga fyrirgreiðslu í íslenskum bönkum til vænlegra erlendra fjárfestinga. Kenndu þeir Davíð Oddssyni forsætisráðherra um. Þá sagði Jón Ásgeir upp úr eins manns hljóði, hvort ekki mætti greiða Davíð 300 milljónir króna fyrir að láta af andstöðu við þá. Hreinn svaraði því til, að þá þekkti Jón Ásgeir forsætisráðherra illa, ef hann héldi, að hann væri falur. Síðan fullyrða Hreinn og Jón Ásgeir báðir, að þetta hafi verið sagt í hálfkæringi, en ekki neinni alvöru. Vel getur verið, að svo sé. En Davíð tók þetta auðvitað óstinnt upp, þegar Hreinn sagði honum þetta úti í Lundúnum 26. janúar 2002. Eins og ég skil Davíð, mat hann það þó ekki þannig þá, að Hreinn væri að reyna að múta sér. Hreinn væri aðeins að segja sér, að þetta hefði borið á góma í samtali við Jón Ásgeir. Þótt ég telji, að lögreglan hefði ekki átt að sitja aðgerðalaus hjá, þegar forsætisráðherra upplýsti um svo ískyggilegt mál, jafnvel þótt aðeins væri um að ræða hugmynd, en ekki fullframinn verknað, er óvíst, að rannsókn hefði leitt eitthvað annað og meira í ljós en það, sem ég hef þegar sagt. Þess vegna dó málið eflaust út. Ég hafði sjálfur á sínum tíma ríka samúð með Jóni Ásgeiri, því að mér fannst hann duglegur ungur maður, sem brotist hefði úr fátækt í bjargálnir. Hann væri íslenski draumurinn holdi klæddur. Hann kom vel fyrir og var skynsamur og öfgalaus, þegar ég sat að skrafi við hann, sem var tvisvar. En nú veit ég eftir að hafa fylgst með honum siga fjölmiðlum sínum og leiguþýjum miskunnarlaust á Davíð Oddsson í mörg ár, svo að ekki sé minnst á fífldirfsku hans í viðskiptum (sem öll þjóðin hefur goldið fyrir), að hann er til alls vís.

Bloggfærslur 18. nóvember 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband