Hirðuleysið verðlaunað

Hirðuleysi (sloth á ensku) er ein af höfuðsyndunum sjö. Mér varð hugsað til þess, þegar ég las bók Jóns Ólafssonar um Veru Hertzsch, Appelsínur frá Abkasíu, sem út kom 2012. Vera var þýsk, en fluttist til Moskvu 1927. Þar eignaðist hún barn með Benjamín Eiríkssyni hagfræðingi. Barnið var aðeins ársgamalt og Benjamín farinn frá Moskvu vorið 1938, þegar Vera var handtekin í hreinsunum Stalíns. Hún var send í fangabúðir, þar sem hún dó fimm árum síðar úr næringarskorti.

Jón rekur í bók sinni bréfaskipti Veru og Benjamíns. Síðasta bréf Veru til Benjamíns var dagsett 8. desember 1937. Þar skrifaði hún: „Greve hefur líka verið handtekin [svo]“. Jón segir (bls. 173), að ekki sé „ljóst hver Greve var“. Það er hins vegar öllum kunnáttumönnum ljóst: Richard Greve (stundum stafsett Grewe) var ritstjóri Deutsche Zentral-Zeitung, þar sem Vera Hertzsch hafði verið blaðamaður. Hann fæddist í Hamborg 1894, gekk í Kommúnistaflokk Þýskalands 1920 og fluttist til Rússlands 1924. Hann var handtekinn 14. nóvember 1937 og skotinn 25. desember sama ár.

Þetta væri því líkast, að Jón væri að segja sögu manns, sem hefði verið blaðamaður á Morgunblaðinu um 1950. Þar myndi Jón vitna í stutta athugasemd blaðamannsins í bréfi: „Valtýr er nýkominn frá útlöndum“ — og bæta við, að ekki væri ljóst, hver Valtýr væri. Valtýr Stefánsson var ritstjóri Morgunblaðsins 1924–1963.

Nafn Richards Greves er nefnt í fjölda rita um hreinsanir Stalíns. Sjálfur vitnar Jón Ólafsson í eitt slíkt rit, Sviknar hugsjónir (Verratene Ideale) eftir Oleg Dehl. Þar er sérstakur kafli um Deutsche Zentral-Zeitung með stuttu æviágripi Greves og mynd af honum.

Ég hef áður nefnt opinberlega ýmsar aðrar missagnir í bók Jóns. Því miður virðist hún vera jafnóáreiðanleg og fyrri bók hans, Kæru félagar, sem kom út 1999. En Jón fékk ekki aðeins styrki úr Rannsóknarsjóði og Bókmenntasjóði til að skrifa Appelsínur frá Abkasíu, heldur líka sérstök verðlaun Hagþenkis fyrir hana.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. janúar 2016.)


Enn hljóp Jón á sig

Á dögunum birtist röng frétt á Netinu um, að Morgunblaðið hefði neitað bandaríska sendiherranum um að birta grein. Hið rétta var, að fyrir mistök birtist greinin ekki á föstudegi, eins og óskað hafði verið eftir. Sendiherrann birti þá greinina á Snjáldrusíðu sinni. Flestir héldu ró sinni, því að þeir sáu, að þessi netfrétt gat varla verið rétt. En Jón Steinsson hagfræðingur hljóp strax til og skrifaði á Snjáldrusíðu sína:

Mogginn birtir ekki grein eftir sendiherra Bandaríkjanna (sem vitaskuld áréttar það að refsiaðgerðirnar eru hluti af stefnu NATO þótt varðhundar LÍÚ á Íslandi telji það henta sér að tala um aðgerðirnar sem uppátæki ESB). Vá ... hægri armur Sjálfstæðisflokksins er virkilega kominn út í móa í hagsmunagæslu sinni fyrir LÍÚ. Ég held að það sé fátt mikilvægara fyrir langtíma framtíð Íslands en það að gjafkvótinn verði afnuminn til þess að þessari svakalegu rentusókn LÍÚ linni.

Þessi athugasemd Jóns er auðvitað fáránleg.

Hann heldur áfram að hlaupa á sig. Ekki verður annað sagt en hann hafi æfinguna.

Rifjum upp, hvað gerðist fyrir bankahrun. Í úrskurði Landsdóms í máli Geirs H. Haardes kemur fram, að Jón hafi 20. mars 2008 sent Geir (sem hann tengdist sem fjölskylduvinur) tölvubréf, þar sem hann hafi varpað því fram, „hvort ríkið og Seðlabankinn eigi að bjóða bönkunum upp á einhverja fjármögnunarkosti í erlendri mynt áður en málin komast á það stig að einhver bankanna verður kominn í veruleg vandræði“. Jón vildi með öðrum orðum ausa gjaldeyrisforðanum í bankana!

Þegar bankahrunið var síðan að skella á í októberbyrjun 2008, skrifaði Jón Geir H. Haarde annað tölvubréf, þar sem hann sagði „bráðnauðsynlegt að ríkið og Seðlabankinn ykju aðgang bankanna að lausu fé í krónum með því að víkka veðheimildir í Seðlabankanum“ (Skýrsla RNA, 20.3.7). Jón vildi með öðrum orðum prenta krónur til að halda bönkunum á floti!

Jón gerðist síðan forsprakki sérstaks starfshóps, sem sinnti einhvers konar sjálfboðastarfi til hliðar við Seðlabankann (og jafnvel á móti honum). Leiðarljós hópsins var, að dæla þyrfti fé í bankana, en ekki gera þá upp. Skoðun Seðlabankans var hins vegar, að aðalatriðið væri að bjarga íslenska ríkinu frá greiðslufalli og síðan að róa innstæðueigendur til að koma í veg fyrir áhlaup á banka og upplausnarástand. Þess vegna þyrfti að slá varnarhring um Ísland (ring-fencing), en láta erlenda kröfuhafa um að innheimta skuldir sínar hjá búum bankanna. (Auðvitað hefði verið æskilegt að bæta úr lausafjárskorti bankanna, en það var ekki hægt að gera án erlendrar aðstoðar, og Íslandi var neitað um hana. Þetta skildi Jón Steinsson bersýnilega ekki.)

Í heila viku í október 2008 var tekist á um þetta í stað þess að framkvæma strax tillögu Seðlabankans. Ráðherrar Samfylkingarinnar og minni spámenn eins og Jón Steinsson voru blindaðir af hatri á þáverandi stjórnendum Seðlabankans. Loks varð Seðlabankinn að fá hinn snjalla og þaulreynda enska fjármálasérfræðing Michael Ridley hjá J. P. Morgan við þriðja mann til að sannfæra ríkisstjórnina um, að bjarga yrði ríkinu og tryggja hag sparifjáreigenda. Bankarnir væru fallnir vegna lausafjárskorts.

Jón Steinsson átti sinn þátt í, að nauðsynlegar björgunaraðgerðir töfðust um viku með ómældum kostnaði. Hann var í algeru uppnámi þessa daga. Síðan hafði hann hin verstu orð um Geir H. Haarde við rannsóknarnefnd Alþingis. Hann kvað Geir hafa verið „á barmi taugaáfalls“, eins og segir í skýrslu nefndarinnar. Sannleikurinn er sá, að þessi orð lýsa Jóni sjálfum best, eins og hann flumbraðist um á þessum örlagatímum. En það hefur hingað til ekki verið talið drengilegt að snúa baki við velgjörðarmanni og fjölskylduvini eins og Jón gerði gagnvart Geir H. Haarde í skýrslu sinni fyrir rannsóknarnefnd Alþingis.

Þótt Jón Steinsson hafi lokað þeim netsíðum, sem til voru um málflutning hans fyrir og í bankahruninu, getur hann ekki lokað heimasíðum Rannsóknarnefndar Alþingis eða Landsdóms. Hin fljótfærnislega færsla hans á Facebook stendur líka. Raunar tók Hringbraut hana sérstaklega upp með velþóknun!

Jón Steinsson ætti nú auðvitað að biðja Morgunblaðið afsökunar. En líklega hefur hann ekki siðferðilegt þrek til þess.


Dofnað yfir gáfnaljósi?

 

herganga_kommu_769_nista_1277661.jpg

Vegna rannsóknarverkefnis, sem ég hef tekið að mér fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, hef ég lagt mig eftir að lesa ýmislegt, sem skrifað er um íslensk stjórnmál á ensku. Margt er þar furðulegt. Ég rakst til dæmis á ritgerð eftir Jóhann Pál Árnason, félagsfræðiprófessor (emeritus) í Ástralíu, sem þótti eitt sinn skærasta gáfnaljósið í Sósíalistaflokknum gamla. Birtist hún í bók, sem heitir Leiðir Norðurlandaþjóðanna til nútímans (Nordic Paths to Modernity) og kom út 2012.


Þar segir Jóhann Páll um sinn gamla flokk: „Loks skapaði sameining kommúnista við vinstri væng Alþýðuflokksins 1938 fyrsta raunverulega Evrópukommúnistaflokkinn, og hann var sá eini, sem fylgdi þeirri stefnu tiltölulega lengi. Ólíkt kommúnistaflokkunum í Vestur-Evrópu (að franska kommúnistaflokknum undanteknum á níunda áratug) tók flokkurinn í Kalda stríðinu þátt í tveimur samsteypustjórnum.“

Þetta er allt rangt. Evrópukommúnisminn var viðleitni nokkurra kommúnistaflokka í Suður-Evrópu á áttunda og níunda áratug síðustu aldar til að losa um tengslin við kommúnistaflokk Ráðstjórnarríkjanna. En Sósíalistaflokkurinn íslenski var alla tíð, frá því að hann var stofnaður 1938 uns hann var lagður niður 1968, trúr Kremlverjum. Ekki er til eitt einasta dæmi um það, að hann hafi gagnrýnt orð þeirra eða verk, enda þáði hann stórfé í styrki frá Moskvu, eins og kom í ljós eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna, þegar skjalasöfn opnuðust þar eystra.

Sósíalistaflokkurinn var helst sambærilegur við Lýðræðisbandalagið í Finnlandi, sem kommúnistar mynduðu með nokkrum jafnaðarmönnum eftir seinna stríð. Sá flokkur var að vísu hollur Kremlverjum, en ekki eins þröngt afmarkaður og dæmigerðir kommúnistaflokkar. Lýðræðisbandalagið finnska hraktist úr stjórn 1948, en var aftur í stjórn 1966–1971.

Í Kalda stríðinu sat Sósíalistaflokkurinn hins vegar ekki í stjórn á Íslandi. Alþýðubandalagið, ekki Sósíalistaflokkurinn, átti aðild að samsteypustjórnunum 1956–1958 og 1971–1974. Einn af tveimur ráðherrum Alþýðubandalagsins í fyrri stjórninni kom að vísu úr Sósíalistaflokknum og báðir ráðherrar flokksins í hinni seinni, en þá hafði Sósíalistaflokkurinn verið lagður niður.

Hefur eitthvað dofnað yfir gáfnaljósinu?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. janúar 2016. Teikningin er úr Morgunblaðinu 1956 og eflaust eftir Halldór Pétursson. Hér hefur verið leiðrétt, að Jóhann Páll var prófessor í félagsfræði, ekki heimspeki, í Ástralíu.)


Hvað veldur þöggunartilraunum um öfgamúslima?

Hvers vegna reyna öfgavinstrimenn að þagga niður vandann af þeim múslimum (vonandi miklum minni hluta), sem vilja ekki aðlagast vestrænni menningu, þótt sömu múslimar vilji flytjast til Vesturlanda og njóta allra þeirra gæða? Hvers vegna gera öfgavinstrimenn hróp að þeim, sem hafa áhyggjur af þessum vanda og þora að taka til máls um hann? Þrjár skýringar: 1) Þeir reyna að skilgreina burt úr stjórnmálum 10–15% hóp, sem afgreiða má sem öfgahægrimenn og ekki þarf að taka tillit til í stjórnarmyndunum (sbr. Svíþjóð). 2) Þeir sjá í aðkomufólki, sem fer umsvifalaust á bætur, nýja kjósendur sína. 3) Þeir sjá atvinnutækifæri í sýsli um vandræðafólk. Ekkert af þessu breytir því þó, að duglegt fólk, reglusamt og löghlýðið á að vera velkomið til Íslands. Og frjálshyggjumenn hafa rétt fyrir sér um, að rót vandans er, að menn öðlist sjálfkrafa rétt til framfærslu á kostnað annarra, um leið og þeir flytjast eða sleppa inn í vestræn ríki.

Athugasemd við bók Árna Bergmanns

herganga_kommu_769_nista.jpgÉg hafði ánægju af að lesa sjálfsævisögu Árna Bergmanns, sem kom út fyrir jólin. Hún er skrifuð í notalegum rabbtón, þótt hún lýsi miklum umbrotatímum, ekki aðeins í veröldinni, heldur líka í sál Árna, sem kemur ungur og sannfærður kommúnisti út til Ráðstjórnarríkjanna 1954 og verður vitni að sögulegu uppgjöri Khrústsjovs við Stalín 1956 og hlákunni í nokkur ár eftir það. Arnór Hannibalsson, skólabróðir hans í Moskvu, snerist gegn kommúnisma, og var honum útskúfað úr vinstri hreyfingunni. Árni hélt hins vegar áfram að starfa þar og gerir enn: Hann sat ásamt mörgum öðrum rosknum sósíalistum á hinum fræga fundi Sagnfræðingafélagsins um íslensku kommúnistahreyfinguna 23. nóvember 2011 og horfði ásökunaraugum á mig, þegar ég leyfði mér að benda framsögumönnum á alls kyns missagnir og rökvillur í máli þeirra. Þögnin frá bekknum, þar sem þeir Árni sátu saman, var þung, svo þung og þétt, að ég hefði líklega rekist á hana og hrasað, hefði ég gengið nær.

Árni minnist á einum stað í bókinni á mig. Hann heldur því þar fram, að málin séu ekki eins einföld og þeir Hannes H. Gissurarson og Þór Whitehead vilji vera láta í bókum sínum um íslenska kommúnista. Sagan, sem hann segir því til stuðnings, er, að hann hafi á stúdentsárunum í Moskvu hlustað á ýmsar raunasögur stúdenta frá Eystrasaltsríkjunum um kúgunina þar, fjöldabrottflutninga, ritskoðun, aftökur, pyndingar, virðingarleysi fyrir tungu og menningu þessara fámennu þjóða. Þeir Arnór Hannibalsson hafi hitt fulltrúa Sósíalistaflokksins á 20. flokksþingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna 1956, þá Kristin E. Andrésson, forstjóra Máls og menningar, og Eggert Þorbjarnarson, framkvæmdastjóra Sósíalistaflokksins, og rætt þetta við þá. Eggert hafi tekið því fjarri og vísað til hrifningarræðu eins fulltrúa frá Eystrasaltslöndunum á flokksþinginu. Kristinn hafi hins vegar sagt, að vel gæti verið eitthvað til í þessu hjá strákunum.

Þessi saga Árna sýnir hins vegar ýmislegt annað en hann vill vera láta. Í fyrsta lagi sýnir hún, að forystumönnum íslenskra kommúnista, eins og Kristni E. Andréssyni, var vel kunnugt um kúgunina í landinu. Kristinn var hins vegar ástríðufullur sálnaveiðari, sem vildi ekki styggja þessa ungu menn, heldur leiða þá á rétta braut, og sú braut var að styðja Ráðstjórnarríkin og fá á móti stuðning frá þeim. Fyrirtæki Kristins, Mál og menning, fékk nægan fjárstuðning frá Moskvu til að geta reist tvö stórhýsi í Reykjavík, Þingholtsstræti 27 og Laugaveg 18. Það fékk sams konar blóðpeninga frá Moskvu og ýmis þýsk fyrirtæki frá nasistum. (Gullið, kolin og timbrið, sem ráðstjórnin seldi til Vesturlanda, var unnið af vinnuþrælum.)

Í öðru lagi hvikaði Kristinn E. Andrésson aldrei opinberlega frá stuðningi við kommúnistaríkin í austri, þótt stundum hallaði hann sér frekar að Kínverjum en Rússum. Öll gagnrýni á kommúnistaríkin var fram til 1968 bönnuð í tímaritum og blöðum sósíalista, Tímariti Máls og menningar, Rétti og Þjóðviljanum. Arnór Hannibalsson fékk ekkert birt í þessum tímaritum og blöðum. (Árni segir í sjálfsævisögu sinni, að Arnór geti sjálfum sér um kennt: Hann hafi krafist þess, að forystumenn sósíalista gerðu yfirbót fyrir Stalínsþjónkun sína. En sú krafa kom ekki strax fram. Greinar Arnórs voru í fyrstu aðallega gagnrýni á stalínismann í Rússlandi.) Sigfús Daðason skáld, aðstoðarforstjóri Máls og menningar, samdi grein til að mótmæla innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu 1968, en hún var aldrei birt. Magnús Kjartansson neitaði að birta ályktun, sem Gísli Gunnarsson og nokkrir aðrir Æskulýðsfylkingarmenn höfðu samþykkt 1966 til að mótmæla réttarhöldum yfir rithöfundum í Rússlandi, uns Gísli hótaði að senda hana til birtingar í Morgunblaðinu. Þá lét Magnús undan með ólund.

Í þriðja lagi er fróðlegt að lesa í skjölum í Moskvu, sem aðgangur var veittur að eftir fall kommúnismans, að Einar Olgeirsson beitti sér fyrir því, að Árni Bergmann yrði vorið 1959 fréttaritari Þjóðviljans í Moskvu. Fékk hann góð laun frá kommúnistaflokki Ráðstjórnarríkjanna og afnot af tveggja herbergja íbúð, sem var mikill munaður í Moskvu á þeirri tíð. Í leynibréfi til miðstjórnar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna kvað Einar Árna einmitt heppilegan í fréttaritarastarfið, vegna þess að hann gæti frætt íslenska lesendur „um Eystrasaltslöndin, þar sem berjast þarf gegn lygum afturhaldsaflanna“. Naut Árni þessara kjara í þrjú ár, uns hann sneri heim til Íslands 1962. Lesa má nánar um allt þetta í bók minni, Íslenskir kommúnistar 1918–1998.

Ég held þess vegna, að við Þór Whitehead höfum ekki einfaldað neitt flókið mál í bókum okkar um íslenska kommúnista og sósíalista. Málið var einmitt einfalt. Íslenskir kommúnistar og sósíalistar voru lengst af á mála hjá Kremlverjum. Þeir voru erindrekar erlends valds, sumir óðfúsir eins og Kristinn E. Andrésson og Einar Olgeirsson, aðrir ef til vill hálfnauðugir vegna framfærslu- og fjölskyldusjónarmiða.

Annað mál er, að skýra þarf sérstaklega, hvers vegna íslenskir sósíalistar nutu miklu meiri áhrifa en skoðanasystkin þeirra í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, þar sem flokkar kommúnista voru jaðarflokkar. En þegar ég bauðst til að reyna að skýra það í fyrirhugaðri fundaröð Sagnfræðingafélagsins vorið 2016 um fjöldahreyfingar á Íslandi, var boðinu synjað. Ég skyldi ekki fá að rjúfa hina þungu þögn, eins og í nóvember 2011. Ég skyldi vera í banni eins og Arnór Hannibalsson forðum. Eini munurinn er sá, að ekki var hægt að útskúfa mér, því að ég var aldrei í liðinu.

(Skopmyndin, sem hlýtur að vera eftir Halldór Pétursson, birtist í Morgunblaðinu 1956 og sýnir hergöngur kommúnista, fyrst Einar Olgeirsson og Brynjólf Bjarnason 1930, þegar þeir stofnuðu kommúnistaflokkinn, síðan Einar, Brynjólf og Kristin 1938, þegar þeir stofnuðu Sósíalistaflokkinn, og þá Einar og Kristin með grímur af Hannibal Valdimarssyni, þegar þeir stofnuðu með Hannibal Alþýðubandalagið 1956.)


Gallagripir: Bækur Inga Freys og Ólafs

hamskiptin-175x263.jpgVetrarhefti Þjóðmála kom út fyrir skömmu, barmafullt af fróðleik. Ég á þar ritgerð um tvær nýlegar bækur, sem tengjast bankahruninu, Hamskiptin eftir Inga Frey Vilhjálmsson, blaðamann og heimspeking, og Skuggi sólkonungs eftir Ólaf Arnarson, hagfræðing og álitsgjafa. Ég gagnrýni báðar bækurnar talsvert, enda eru þær stórgallaðar, og er þó bók Ólafs sýnu verri.

kvr5862.jpgÉg nota tækifærið til að hrekja ýmsar þjóðsögur, missagnir og hálfsannleik um bankahrunið, til dæmis um styrkjamál Sjálfstæðisflokksins (Samfylkingin fékk mjög háa styrki), REI-málið (Dagur og Össur gengu erinda auðjöfranna), ofvöxt bankanna (þeir voru ekki stærri hlutfallslega en í Sviss og Skotlandi), slakt eftirlit vegna frjálshyggjusjónarmiða (Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið voru undir stjórn Samfylkingarinnar), samtöl Davíðs Oddssonar við bankastjóra, endalok Þjóðhagsstofnunar, kaupin á Landsbankanum (Björgólfsfeðgar greiddu tvo þriðja hluta kaupverðs hlutabréfa sinna af eigin fé og fengu einn þriðja að láni í Búnaðarbankanum), bréf Mervyns Kings, Rússalánið (sem var raunhæft, eins og Tryggvi Þór Herbertsson hefur staðfest, en Rússar hættu við, eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stökk inn í málið), setningu hryðjuverkalaganna (sjónvarpsviðtal við Davíð Oddsson átti engan þátt í henni), „gjaldþrot“ Seðlabankans (áróðursorð án merkingar) og skipan Svavars Gestssonar sem sendiherra (sem Ólafur Arnarson kennir Davíð Oddssyni um!).

Hér má nálgast ritgerðina og hlaða henni niður. Ég ráðlegg hins vegar öllum áhugamönnum um þjóðmál að kaupa heftið í næstu bókabúð eða gerast áskrifendur.


Rússneska ráðgátan

c88d0d6a-61c3-45b9-a2b9-89e3ea5bf956.jpgBandaríski fjárfestirinn Bill Browder flutti áhrifamikinn fyrirlestur í hátíðasal Háskóla Íslands 20. nóvember síðast liðinn. Hann er sonarsonur Earls Browders, formanns kommúnistaflokks Bandaríkjanna, en gerðist sjálfur auðsæll fjárfestir í Rússlandi eftir hrun kommúnismans. Eftir að hann var hrakinn úr landi og rússneskur vinur hans og samverkamaður pyndaður til dauðs, skar hann upp herör gegn Pútín. Þessu segir Browder frá í hinni læsilegu bók Eftirlýstur, sem kom út nú fyrir jólin og helst má kalla raunsannan reyfara.

Hvernig stendur á því, að Rússar með sinn stórkostlega menningararf, frjósömu jörð, skóga, gullnámur og olíulindir skuli ekki hafa komið sér upp því skipulagi frelsis og lýðræðis, sem við Vesturlandamenn teljum sjálfsagt? Churchill sagði í útvarpsræðu árið 1940: „Ég get ekki sagt hér fyrir um gerðir Rússa. Þeir eru ráðgáta, vafin í leyndardóm, langt inni í dularheimi.“

Sumir telja svarið vera, að arfur Rússa sé austrænn. Kúgunin sé þar hefð. Þetta sagði Halldór Laxness mér, þegar við ræddum á Gljúfrasteini 1975 um skoðanaskipti hans í stjórnmálum: „Ég breytti um skoðun, þegar ég áttaði mig á því, að tartarakhaninn situr enn í Kreml.“

En hvílir sökin á hremmingum Rússa á 20. öld ekki frekar á innfluttum, vestrænum hugmyndum? Keisarastjórnin þótti stundum harkaleg, en hún komst ekki í námunda við stjórn kommúnista. Árin 1825–1917 voru 6.360 manns dæmd til dauða í Rússaveldi og af þeim var 3.932 dómum framfylgt. Bolsévíkar höfðu ekki haft völd í fjóra mánuði, þegar þeir höfðu tekið fleiri af lífi en keisararnir í heila öld. Samtals eru fórnarlömb kommúnismans þar eystra talin vera um 20 milljónir.

Pútín er horfinn frá hinni innfluttu, vestrænu hugmynd um endursköpun mannlegs skipulags. En er hann horfinn frá landvinningastefnu keisaranna og tartarakhananna? Hann hertók Krímskaga. Uppreisnarmenn, sem hann styður, skutu niður farþegaþotu yfir Úkraínu. Hann veifar kjarnorkuvopnum framan í Eystrasaltsþjóðirnar og Pólland. Enn er Rússland ráðgáta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. desember 2015.)


Hverjir hittu harðstjórana?

kapa_arason.jpgBókin Barnið sem varð að harðstjóra eftir Boga Arason, sem hefur um árabil skrifað erlendar fréttir í Morgunblaðinu, fær góða dóma, eins og hún á skilið. Þessi fróðlega og læsilega bók er um nokkra helstu einræðisherra tuttugustu aldar, en einkum um, hvað hafi mótað þá í æsku. Þeir Stalín, Hitler og Maó eru auðvitað þar fyrirferðarmestir. Hvaða Íslendingar hittu þessa menn?

Eini Íslendingurinn, sem ég veit til þess, að talað hafi við Stalín, er Jens Figved, sem var 1929–1932 í leynilegum þjálfunarbúðum í Moskvu. Figved átti við Stalín símtal um að fá að gefa út eftir hann ritgerð, sem birtist á rússnesku haustið 1931. Leyfið fékk Figved: Bréfið birtist á íslensku í fjölritinu Bolsjevikkanum í maí 1934. Nokkrir Íslendingar hlustuðu einnig á Stalín tala, til dæmis Halldór Kiljan Laxness á kosningafundi í Bolshoj-leikhúsinu í desember 1937 og Brynjólfur Bjarnason á 19. þingi kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna í október 1952.

Mér er aðeins kunnugt um tvo Íslendinga, sem hittu Hitler til að skiptast á einhverjum orðum við hann. Annar var Helgi P. Briem, fulltrúi Íslands í danska sendiráðinu í Berlín í lok fjórða áratugar. Í embættiserindum rakst hann stundum á Hitler. Hinn var Gunnar Gunnarsson, sem gekk á fund Hitlers vorið 1940 til að tala máli Finna. Hins vegar hlustuðu margir Íslendingar á Hitler halda ræður á fundum, til dæmis Kristinn E. Andrésson og Bjarni Benediktsson, á meðan þeir stunduðu nám í Þýskalandi haustið 1931.

Flestir Íslendingar virðast þó hafa hitt Maó. Fimm manna sendinefnd sat veislu harðstjórans í Beijing haustið 1952, þar á meðal Jóhannes úr Kötlum og Þórbergur Þórðarson. Þeir Maó og Einar Olgeirsson skiptust líka eitt sinn á orðum. Maó heilsaði enn fremur Steinþóri Guðmundssyni og tveimur öðrum fulltrúum Sósíalistaflokksins í veislu í Beijing haustið 1956. Tekin var ljósmynd af þeim fundi, sem birtist í Rétti 1974 og í nokkrum blöðum. Þegar ég reyndi fyrir nokkrum árum að útvega mér frumrit af þessari mynd í bók um Íslenska kommúnista, var það hvergi finnanlegt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. desember 2015.)


Glámskyggni Bandaríkjamanna á Lúðvík

Þótt Bandaríkjamenn reyndust Íslendingum vel í varnarsamstarfinu 1941–1946 og 1951–2006, virðast bandarískir sendimenn á Íslandi iðulega hafa verið glámskyggnir á íslenskar aðstæður. Í skýrslum frá bandaríska sendiráðinu fyrir og í bankahruninu 2008, sem birst hafa á Wikileaks, var til dæmis farið lofsamlegum orðum um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem sat í utanríkisráðherratíð sinni að skrafi við Assad Sýrlandsforseta og aðra svarna óvini Bandaríkjanna. Að sama skapi var Davíð Oddssyni hallmælt, þótt hann hefði reynst traustur vinur sem forsætisráðherra.

Þetta er ekkert nýtt. Í skýrslum bandarískra sendimanna á stríðsárunum var talað um sósíalista sem „háværustu vini okkar“, af því að sósíalistar hlýddu þá dyggilega línunni frá Moskvu um stuðning við Bandaríkin: Það hentaði Stalín, eftir að Hitler réðst á hann. Að sama skapi hlustuðu Bandaríkjamenn eftir stríð um skeið frekar á fylgislitla málvini en á raunsæja stjórnmálaleiðtoga eins og Ólaf Thors.

Eitt dæmið um glámskyggni Bandaríkjamanna var mat þeirra á Lúðvík Jósepssyni, sem var ráðherra 1956–1958 og 1971–1974. Bandaríski sendiherrann, John J. Muccio, skrifaði í skýrslu til utanríkisráðuneytisins 1956, að Lúðvík væri enginn Moskvukommúnisti. En Lúðvík Jósepsson var gallharður kommúnisti alla tíð, þótt hann væri vissulega líka hagsýnn stjórnmálamaður. Hann var í gamla Kommúnistaflokknum, uns hann var lagður niður 1938. Í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu hallaði hann aldrei orði á Kremlverja og var tíður gestur í Moskvu, þar sem hann reyndi eftir megni að auka viðskipti við Ísland.

Þegar Kremlverjar sprengdu kjarnorkusprengjur í tilraunaskyni á Norður-Íshafi 1961, var Lúðvík einn fimm þingmanna, sem ekki vildu fordæma tilraunirnar. Hann sagði við Morgunblaðið 31. október: „Ég óska ekki eftir að ræða þetta mál.“

Í skjölum frá Moskvu kemur fram, að Lúðvík hélt á laun áfram tengslum við ráðamenn eystra, eftir að Alþýðubandalagið samþykkti 1968 að slíta slíkum tengslum. Þegar fréttir bárust 1978 af ofsóknum gegn andófsmönnum í Ráðstjórnarríkjunum, var hann eini íslenski stjórnmálaforinginn, sem ekki vildi fordæma þær. Hann sagði við Vísi 15. júlí: „Ég óska ekki eftir því að segja eitt einasta orð um þetta.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. desember 2015.)


Upp á hverju tekur Gunnar Smári næst?

Nú hefur Gunnar Smári Egilsson tekið að sér að reka Fréttatímann. Ég óska honum auðvitað alls góðs í því, en eigendur síðasta blaðsins, sem hann rak, Nyhedsavisen, töpuðu hátt í sjö milljörðum króna á því. 

Fyrir skömmu vildi Gunnar Smári ganga í Noreg, en hann er hættur við það, líklega eftir fall norsku krónunnar.

Síðan gekk Gunnar Smári í félag múslima á Íslandi, að eigin sögn aðallega til að mótmæla Framsóknarflokknum. Nú er hann genginn úr félaginu.

Hverju skyldi hann taka upp á næst? Og hvenær hættir hann við það? Og á hverjum lendir tapið? Við eigum eflaust eftir að lesa um það allt í blöðunum — þeim, sem eftir verða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband