Saga sem Saga vill ekki segja

Ég fékkst við það árin 2006–2009 ásamt öðru að þýða Svartbók kommúnismans á íslensku og ritstýra íslensku útgáfunni. Bókin kom út 31. ágúst 2009. Um leið og ég fékk eintak úr prentsmiðjunni, sendi ég Sigrúnu Pálsdóttur, ritstjóra Sögu, tölvuskeyti og spurði, hvort ég ætti að senda henni Svartbókina til umsagnar. Ég fékk svar um hæl 3. september 2009 í tölvuskeyti: „Varðandi nýju bókina þína, sem ég óska þér til hamingju með, þá er það þannig að Saga birtir ekki ritdóma um þýðingar.“ Mér þótti þetta svar einkennilegt af tveimur ástæðum. Eitt helsta ágreiningsefnið í íslenskum stjórnmálum mestalla tuttugustu öld, að minnsta kosti frá 1930, var afstaðan til Ráðstjórnarríkjanna og annarra kommúnistaríkja. Vandað alþjóðlegt fræðirit eins og Svartbókin, sem studdist við nýjar heimildir um heimshreyfingu kommúnista, ætti að hafa verulegt gildi í umræðum um sögu Íslands. Í öðru lagi hafði  Saga árið 2007 — tveimur árum áður en ég fékk þetta svar — birt 13 blaðsíðna og mjög neikvæða, jafnvel fjandsamlega, umsögn um bók, sem var þá verið að þýða og hafði ekki einu sinni verið gefin út, Maó: Sagan sem aldrei var sögð, eftir Jung Chang og Jon Halliday. Umsögnin var eftir dr. Geir Sigurðsson, sem hafði lagt stund á kínverska heimspeki (ekki sagnfræði). Nám hans í Kína 2001–2003 var fyrir styrk frá kínverskum stjórnvöldum. Árið 2007 var Geir forstöðumaður Asíuseturs, sem Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri ráku saman, en ári síðar varð hann forstöðumaður Konfúsíusarsetursins Norðurljósa, sem starfar við Háskóla Íslands og er kostað af kínverskum stjórnvöldum. Gegndi hann því starfi í nokkur ár. Í öðru tölvuskeyti til mín tók Sigrún Pálsdóttir undir þá hugmynd, að ef til vill ættu tveir sagnfræðingar með ólík sjónarhorn að ræða um Svartbókina í Sögu, en ég heyrði aldrei neitt frekar frá henni um það.

Með öðrum orðum: Saga flýtti sér 2007 að birta langa og mjög neikvæða umsögn um ævisögu Maós, sem þá var verið að þýða, en var óútkomin. Höfundur umsagnarinnar var menntaður í heimspeki, ekki sagnfræði, og með náin tengsl við stjórnvöld í Kína, en þar var og er bókin bönnuð. Tveimur árum síðar tilkynnti ritstjóri Sögu (sem var að vísu þá orðinn annar) þýðanda og ritstjóra Svartbókar kommúnismans, að Saga birti ekki umsagnir — og því síður ítardóma — um þýdd rit eins og Svartbókina, sem er raunar líka bönnuð í Kína. Ég ákvað að skoða nánar þessa umsögn Geirs Sigurðssonar, sem þótti svo tímabær, að ekki var einu sinni beðið eftir útkomu umsagnarefnisins. Ég komst þá að því, að athugasemdir hans voru flestar eða allar sóttar í umsagnir um ævisögu Maós eftir Alfred Chan, Gregor Benton, Steve Tsang og Andrew Nathan. Síðar var þeim öllum safnað saman í bók, sem Gregor Benton og Lin Chun ritstýrðu og kom út hjá Routledge í Lundúnum 2010, Was Mao Really a Monster? The academic response to Chang and Halliday’s Mao: The Unknown Story. Stundum vitnaði Geir samviskusamlega í þessa heimildarmenn sína, en annars staðar ekki. Til dæmis vitnaði hann hvergi í neinn um þessi orð (bls. 189): „Mao talaði vissulega kínversku með staðbundnum hreim en ef hann hefði einungis talað Shaoshan-mállýskuna hefðu ekki margir skilið hann í Beijing.“ En Gregor Benton og Steve Tsang segja (Was Mao Really a Monster? bls. 45): „Mao did speak Putonghua — though with a very strong accent. Had he spoken only his local dialect, no one outside Shaoshan would have understood him.“ Dómur Geirs Sigurðssonar um bók þeirra Changs og Hallidays er í fæstum orðum (bls. 194), að „fyrir þá sem fýsir að öðlast skýrari og fyllri mynd af uppgangi, stjórnartíð og áhrifum kommúnismans í Kína — og þætti Mao Zedongs í því margbrotna ferli — hefur Sagan óþekkta fátt til brunns að bera.“

Þetta var ótrúlega ósanngjarn dómur um þrekvirki þeirra Changs og Hallidays. Ég gaf mér loks tíma til þess árið 2012 að skrifa um þetta. Fyrst flutti ég fyrirlestur í Háskóla Íslands 2. nóvember 2012 og auglýsti áður, að ég myndi svara athugasemdum Geirs Sigurðssonar við bókina. Hann lét ekki sjá sig á fyrirlestrinum. Síðan sendi ég Sögu 11 blaðsíðna ritgerð, tveimur blaðsíðum styttri en sú, sem Geir Sigurðsson hafði fengið inni með um óútgefna bók, og svaraði athugasemdum hans lið fyrir lið. Verður til dæmis talið, að kínverski kommúnistaflokkurinn hafi verið stofnaður 1920 eða 1921? Gögn eru til, sem styðja bæði ártölin. Urðu smáskærur á Luding-brú 1935 eða var þar háð orrusta? Báðar lýsingar styðjast við heimildir. Nýlega hefur raunar Zbigniew Brzezinski haft eftir kínverskum ráðamönnum ummæli, sem styrkja lýsingu Changs og Hallidays. Talaði Maó venjulega kínversku með sterkum hreim eða afbrigði af mállýskunni í heimahéraði sínu? Hvoru tveggja má halda fram. Og svo framvegis. Hitt verður ekki hrakið, að Maó var miskunnarlaus fjöldamorðingi, sem bar ábyrgð á dauða að minnsta kosti sjötíu milljóna manna. Sífellt fleiri heimildir eru að koma í ljós um þetta, til dæmis í bókum Franks Dikötters. Chang og Halliday eru vissulega óvinveitt Maó, eins og flestir ævisagnaritarar Hitlers og Stalíns eru óvinveittir þeim kauðum. Þau Chang og Halliday taka sér stöðu með fórnarlömbunum, ekki böðlunum. En þau eru ekki verri sagnfræðingar fyrir það.

Hins vegar veitti Sigrún Pálsdóttir mér ekki endanlegt svar um þessa ritgerð fyrr en 3. október 2013 — um sama leyti og leikrit, sem eiginmaður hennar hafði samið um mig og mér til háðungar, kolféll í Þjóðleikhúsinu. Sigrún sagði þá í tölvuskeyti til mín, að flestar athugasemdir mínar snerust um aukaatriði og sum um túlkunaratriði. Þar er ég hjartanlega sammála henni. Það er einmitt lóðið í ritgerð minni: Geir Sigurðsson reyndi að vísa stórvirki Changs og Hallidays á bug með þóttafullum athugasemdum um nokkur umdeilanleg og smávægileg atriði, um leið og hann horfði fram hjá þeim fjársjóði nýrra upplýsinga, sem þau höfðu safnað saman í fjögur hundruð viðtölum og hundruðum gagna, sem áður höfðu ekki verið tiltæk. „Grein Geirs fjallar einkum um vinnubrögð C[hangs] og H[allidays] og ég get ekki séð að hann horfi með því móti fram hjá þeirri staðreynd að Maó hafi verið illmenni og níðingur. Allar vangaveltur um að Maó hafi verið jafnvondur og Stalín og Hitler, svo og siðferðilegar umvandanir þínar til sagnfræðinga um mikilvægi þess að þeir taki sér stöðu með lýðnum og fórnarlömbunum gegn böðlinum, eiga auk þess ekkert erindi í ritrýnt fræðitímarit,“ segir Sigrún í tölvuskeyti sínu. „Ég skal þó viðurkenna að mér finnast lokaorð hans kannski full sterk en aðalatriðið er samt þetta: Í mínum huga þyrfti grein þín að vera einhver meiriháttar afhjúpun svo réttlæta mætti birtingu hennar sem svar við ítardómi sem birtist fyrir 6 árum síðan.“ Hér fyrir aftan er ritgerð mín óbreytt, eins og ég sendi hana Sögu fyrir tveimur árum. Lesendur geta sjálfir dæmt.

[Formáli greinarinnar í nýútkomnum Þjóðmálum. Greininni og formálanum má hlaða niður hér.]


Nýmæli um loftslagsbreytingar

Tvær merkilegar greinar hafa birst nýlega í Wall Street Journal um loftslagsbreytingar. Aðra skrifaði Steven E. Koonin 19. september. Hann var aðstoðarvísindamálaráðherra í stjórn Baracks Obamas og áður eðlisfræðiprófessor í Caltech, Tækniháskólanum í Kaliforníu. Hann bendir á, að auðvitað er loftslagið að breytast. Það er alltaf að breytast. Það er hins vegar miklum vafa undirorpið, hverjir helstu áhrifaþættirnir eru og hvernig bregðast skuli við þeim, enda þarf mikla nærsýni til að halda því fram, að loftslagið hér og nú sé hið eina æskilega, og mikla trú á mætti mannanna til að fullyrða, að við getum valið okkur loftslag í stað þess að bregðast við. Hina greinina skrifaði dr. Matt Ridley, 7. september. Ridley, sem situr í lávarðadeild Bretaþings, var á sínum tíma vísindaritstjóri Economist og er höfundur margra alþýðlegra fræðirita um vísindi, aðallega erfðafræði. Hann lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Oxford-háskóla. Ridley spyr, hvað orðið sé um hlýnun jarðar. Hún hefur ekki hlýnað frá 1998! Hann svarar síðan fullum hálsi þeim, sem gagnrýndu hann fyrir þessa grein. Ég er sammála báðum þessum höfundum, Koonin og Ridley, um, að menn hljóta nú á dögum að hafa einhver áhrif á umhverfið, jafnvel veruleg, þar á meðal á hitastigið. Kenningin um gróðurhúsaáhrifin er skiljanleg og sennileg og jafnvel sönnuð (hvað sem af því verður síðan ályktað). En náttúrlegir þættir ráða líka miklu, eins og þeir hafa alltaf gert. Ridley skýrir málið betur út í bókinni Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), sem brátt er væntanleg á íslensku.

Sögulegt gildi griðasáttmálans

Ég birti 23. ágúst ritgerð í Morgunblaðinu um griðasáttmála Hitlers og Stalíns, sem hleypti af stað heimsstyrjöldinni síðari. Með sáttmálanum skiptu þeir á milli sín Mið-Evrópu, þar á meðal Eystrasaltsríkjunum og Póllandi. Menn gleyma því stundum, að Hitler og Stalín voru bandamenn fram á sumarið 1941. Bandalag þeirra rofnaði ekki, fyrr en Hitler réðst á Stalín, sem neyddist þá til að berjast með Vesturveldunum. Greininni má hlaða niður hér.

Nokkrar vísur um mig

Ég var að taka til á skrifstofunni minni og fleygja ýmsu, en fann þá eins og gengur margt skemmtilegt. Eitt var boðsmiði á aðalfund Kaupþings 16. mars 2007. Þar var breski sagnfræðingurinn Niall Ferguson ræðumaður um efnið: „Is Globalization sustainable? Political risk, financial liquidity and the paradox of low volatility.“ Mér er fyrirlestur Fergusons í fersku minni, því að hann var eini maðurinn, sem ég heyrði spá fyrir um fjármálakreppuna, áður en hún skall á. Um hana má annars segja eins og íslenska bankahrunið, að það var ekki fyrr en eftir hana sem menn sáu hana fyrir. Ferguson sagði efnislega: „Mér þykir leitt að segja ykkur það, en það eru mörg sömu teikn á lofti nú og fyrir heimskreppuna miklu.“

Síðan fann ég tvo miða með tveimur vísum um mig. Annarri var kastað fram, þegar ég flutti erindi í leshóp FEBK (Félags eldri borgara í Kópavogi) í Gullsmára 2. mars 2004, og er hún limra:

Hannes á vitið og viljann,

þótt vont þyki ýmsum að skilj’ann.

Hann tók saman bók,

sem taugarnar skók

og tefldi fram Halldóri Kiljan.

Ekki veit ég, hver höfundurinn er. Og ekki veit ég heldur, hver orti og við hvaða tækifæri aðra vísu:

Hannes Hólmstein hérna finnum,

hans vér ætíð fögnum kynnum.

Um hann hefur áður gustað.

Á hann vil ég geta hlustað.

Hugsanlega var þetta við sama tækifæri. En mörgum árum áður var ort eftir fund á Selfossi, þar sem ég var framsögumaður:

Frjálshyggjunnar fremsta syni

færa menn hér blendið hrós.

Að hann er af kjaftakyni,

kom hér mæta vel í ljós.

Er með þessu skírskotað til alkunnrar vísu um Guðlaugsstaðakynið.


Afstaða mín til innflytjenda

Ég hef margsinnis látið í ljós skoðanir mínar á innflytjendamálum, svo að ekkert ætti að fara þar á milli mála. En ég get endurtekið það enn einu sinni, svo að menn leggi mér ekki eitthvað í munn. Hið mikla lögmál mannlífsins er gagnkvæmnin. Ef við Íslendingar viljum vera velkomin annars staðar, þá verður annað fólk auðvitað að vera velkomið á Íslandi. Við stundum nám og störf annars staðar, og fólk frá öðrum stöðum verður að sama skapi að fá að stunda hér nám og störf. Frjáls flutningur fólks, fjármagns og vöru stuðlar að framförum, eins og Adam Smith benti á með skýrum rökum. Við gerðum til dæmis mikil mistök með því að fá ekki fleiri gyðinga til landsins fyrir seinna stríð. Þetta er mikið hæfileikafólk. Sjálfur lagði ég til, þegar Hong Kong-búar uggðu um sinn hag fyrir 1997, er Bretastjórn afhenti Kínastjórn landið, að við myndum bjóða þá velkomna þúsundum saman (eins og Kanadamenn gerðu raunar): Það hefði verið búbót að því dugnaðarfólki.

En ég tel ekki meiri ástæðu til að opna landið upp á gátt fyrir öllum en að skilja húsið mitt eftir ólæst. Útlendingar eru misjafnir, og við höfum í okkar friðsæla landi ekkert að gera við þrjá hópa. Einn er sá, sem ekki nennir að vinna. Félagsleg aðstoð við fullhraust fólk er ætíð óskynsamleg, en félagsleg aðstoð við fullhrausta útlendinga, sem við höfum engar skyldur við aðrar en að láta þá í friði, er óafsakanleg. Annar hópur er sá, sem fremur glæpi, og þarf vitanlega ekki að hafa fleiri orð um það. Þriðji hópurinn er sá, sem reynir að troða siðum sínum upp á okkur. Auðvitað mega íbúar af taílenskum ættum halda hér vorhátíð eins og við megum halda þorrablót í Taílandi. En fráleitt er, þegar íslenskir skólar treysta sér ekki lengur til að hafa svínakjöt á boðstólum, af því að múslimar fúlsa við því. Þeir eru ekki enn húsráðendur hér. Hið sama er að segja, ef múslimar sýna réttindum kvenna ekki sömu virðingu og við íslenskir karlar höfum vanist. Ekki verður við það unað.

Hægri flokkar í Evrópu hafa daufheyrst við þessum eðlilegu sjónarmiðum, og þess vegna hefur gremja margra borgara runnið í óæskilegan farveg, eins og kosningaúrslit í Svíþjóð og skoðanakannanir í Englandi sýna. Útlendingahatur er af hinu illu. „Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi,“ segir í helgri bók. En við getum virt okkar þjóð án þess að óvirða aðrar þjóðir. Og við virðum hana ekki með því að kikna í hnjáliðum, þegar útlent mál er talað. Mistök Norðurlandaþjóðanna og Hollendinga í innflytjendamálum og allt of hröðum Evrópusamruna eru víti til varnaðar.


Skjól eða gildra?

Einn samkennari minn, dr. Baldur Þórhallsson prófessor, sem er sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum, hefur í röð ritgerða í virtum, erlendum tímaritum sett fram þá kenningu, að smáríki eins og Ísland þurfi skjól. Þess vegna hafi verið rökrétt að semja við Noregskonung um slíkt skjól 1262. Þessi kenning hans er síður en svo fráleit. Smáríki þurfa skjól, eins og kom fram í bankahruninu 2008, þegar Bandaríkin veittu okkur ekki lið, eins og þau höfðu gert í þorskastríðunum á 20. öld. En þegar menn skríða í skjól, geta þeir lent í gildru. Þetta gerðist einmitt á Íslandi, eins og prófessorarnir dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur og dr. Gísli Gunnarsson sagnfræðingur hafa sýnt fram á. Ein ritgerð Þráins um þetta er stórmerk, en hún birtist í bókinni Háskalegum hagkerfum. Hún er um þá einföldu spurningu, hvers vegna Íslendingar hafi soltið í mörg hundruð ár, þótt gnótt sjávarfangs væri skammt undan. Svarið er, að fámenn stétt landeigenda og hinn fjarlægi konungur, sem lengst sat í Kaupmannahöfn (en norska konungsættin mægðist við hina dönsku 1380), sameinuðust um, að landbúnaður skyldi vera eini löglegi atvinnuvegurinn, þótt landið væri harðbýlt og sjávarútvegur miklu arðbærari.

Þráinn benti á, að tæknin til fiskveiða var til. Hingað sigldu stór fiskiskip frá Englandi og jafnvel Spáni. En hvers vegna urðu fiskveiðar þá fullkomin aukageta á Íslandi öldum saman og aðeins stundaðar á opnum árabátum? Hvers vegna var útlendingum bönnuð hér veturseta og öllum gert að skrá sig á lögbýli? Landeigendur gerðu þetta til þess að missa ekki vinnuaflið að sjávarsíðunni og valdið yfir þróuninni. Þótt konungur tapaði einhverjum skatttekjum á því, að þegnar hans yrðu fátækari en ella, hélt hann landinu, en óttaðist ella, að það gengi undan honum, eins og það hafði næstum því gert á „ensku öldinni“ frá því um 1415 fram til loka fimmtándu aldar. Konungur vildi frekar litlar skatttekjur en engar. Afleiðingin var, að Íslendingar, sem höfðu skriðið í skjól, festust í fátæktargildru, sem þeir losnuðu ekki út úr fyrr en á nítjándu öld. Einn möguleiki er því að reyna að breyta og auka kenningu Baldurs: Smáríki þurfa skjól, en aðallega viðskiptafrelsi og varnarsamstarf.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. september 2014.)


Lagði Hong Kong undir sig Kína?

Ég er á leið til Hong Kong til að sitja aðalfund Mont Pelerin-samtakanna, en þau eru alþjóðleg samtök frjálslyndra fræðimanna, sem þeir Friedrich von Hayek, Milton Friedman, Karl Popper, Ludwig von Mises og fleiri stofnuðu 1947 til að bera saman bækur sínar að minnsta kosti annað hvort ár. Nafnið Hong Kong merkir „ilmandi höfn“. Borgin á sér fróðlega sögu. Hún varð bresk nýlenda eftir ópíumstríð Breta og Kínverja 1842, en Bretar sömdu við Kínverja um, að hún yrði sjálfstjórnarsvæði innan Kínaveldis 1997. Fáir hefðu trúað því árið 1945, þegar um 600 þúsund örsnauðir Kínverjar bjuggu í nýlendunni og allt var í rúst eftir fjögurra ára hernám Japana, að hún ætti eftir að verða skýrt dæmi um sköpunarmátt kapítalismans. Breska nýlendustjórnin var nógu sterk til að vernda eignaréttindi, en of veik til að hafa víðtæk afskipti af atvinnulífinu. Hafa framfarir óvíða orðið örari. Hagkerfið hefur lengi mælst eitt hið frjálsasta í heimi, og íbúar borgarinnar njóta nú svipaðra meðaltekna og Bandaríkjamenn og hærri en flestir Evrópubúar.

Þegar ég bjó í Hong Kong 1986–1987, höfðu margir borgarbúar áhyggjur af því, að eftir tíu ár fengju Kínverjar þar yfirráð. En ég spurði á móti, hvort Hong Kong gæti ekki orðið Kína fordæmi frekar en freisting. Væri ekki hugsanlegt, að stjórnendur Kína lærðu af íbúum Hong Kong, hvernig ætti að skapa verðmæti? Og ég skrifaði í DV 19. janúar 1987: „Þegar ég lít út um gluggann á skrifstofu minni hér á 28. hæð í háhýsi í miðborg Hong Kong og horfi á verslanir fullar af varningi og fólki, ímynd velmegunar, lífs og fjörs, en renni síðan augunum í átt að landamærunum, þar sem fátæktin blasir við, læðist að mér grunur. Hann er sá, að það verði ekki Kína, sem leggi undir sig Hong Kong árið 1997, heldur Hong Kong, sem leggur undir sig Kína … “

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. ágúst 2014.)


Ótrúleg aðför að Hönnu Birnu

Ótrúlegt er að sjá, hvernig ráðist er á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur
fyrir eitthvað, sem ekkert er. Ríkissaksóknari og umboðsmaður Alþingis
hafa bæði farið fram úr sjálfum sér í þessu máli. Þetta minnir mig um
sumt á Geirfinnsmálið forðum, þegar rannsóknaraðilar létu um of
stjórnast af reikulu, en ofsafengnu almenningsáliti, sem mótað var af
æsifréttamönnum, jafnvel af fjöldasefasýki. Þeir, sem þá voru farnir að
trúa öllu illu upp á Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra, skammast sín nú
og gera lítið úr sínum hlut. Hitt var verra um það mál, að það var ekki
fár, sem leið hjá, eins og oft gerist, heldur voru þá kveðnir upp dómar
yfir mönnum, sem eru afar hæpnir, svo að ekki sé meira sagt. Ísland
verður að vera réttarríki. Sorpblöð mega ekki ráða ferð.

Blómið í hóffarinu

Á norræna sagnfræðingamótinu í Joensuu í Finnlandi 14.–16. ágúst 2014 var boðið upp á skoðunarferð á einn frægasta vígvöll Finna við smábæinn Ilomantsi, en hann er um klukkutíma akstur í austur frá borginni. Leiðsögumaður okkar þangað var vingjarnlegur miðaldra maður, vel mæltur á ensku, kennari í hernaðarsögu og majór í finnska varaliðinu. Hann fræddi okkur á því, að Finnar hefðu háð þrjú stríð árin 1939–1945. Fyrst var Vetrarstríðið 1939–1940, þegar Stalín réðst á Finna, sem vörðust vasklega, en máttu ekki við margnum. Síðan var Framhaldsstríðið 1941–1944, þegar Finnar gerðust bandamenn Þjóðverja og börðust gegn rússnesku ráðstjórninni í því skyni að endurheimta þau landsvæði, sem hrifsuð höfðu verið af þeim í vetrarstríðinu. Þá biðu þeir ósigur. Loks var Lapplandsstríðið við Þjóðverja 1944–1945, eftir að Finnar höfðu samið um vopnahlé við Kremlverja, en þá var enn fjölmennur þýskur her nyrst í landinu. Tókst Finnum að reka Þjóðverja norður í Noreg.

Á vígvellinum við Ilomantsi er land hæðótt, en þó heldur lágt, allt klætt hávöxnum trjám, nema þar sem getur að líta læki, vötn og klettaskorur. Hægast er að fara um á hestbaki. Orrustan við Ilomantsi var háð í ágúst 1944. Kremlverjar höfðu sent fjölmennt lið yfir landamærin, enda vissu þeir, að varnir voru veikastar við Ilomantsi. Höfðu Stalín og skálkar hans uppi ráðagerðir um að hernema allt Finnland og bæta því í hóp „frelsaðra sósíalistaríkja”. Finnar börðust frækilega. Kallaður var til herforingi, þaulkunnugur landsvæðinu, Erkki Raappana, og honum tókst þrátt fyrir mikinn liðsmun að umkringja og einangra tvær sveitir úr Rauða hernum. Féllu 4.400 Rússar og 400 Finnar í orrustunni. Sókn Rauða hersins inn í landið stöðvaðist. Kann orrustan við Ilomantsi  að hafa bjargað Finnum frá hlutskipti Eystrasaltsþjóða og um leið bægt hættu frá Svíum og Norðmönnum. Stalín sá, hversu kostnaðarsamt var að leggja landið undir sig, þurfti hersveitir í mikilvægari orrustur og samþykkti vopnahlé. En rússnesku stríðshestarnir báru með sér frækorn af blómi, sem áður hafði ekki verið til í Finnlandi og fann sér samastað á hæðarhryggjum við Ilomantsi. Þetta var Dianthus superbus, nellikutegund, stundum nefnd á íslensku Skrautdrottning. Nú eru rússnesku hestarnir löngu horfnir, en blómið, sem spratt upp í hófförum þeirra, vex og dafnar.

[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. ágúst 2014.]


Örlagasögur af Íslandi sagðar erlendis

Ég flutti fyrirlestur á norræna sagnfræðingaþinginu í Joensuu í Finnlandi 16. ágúst. Meginstef þingsins er krossgötur: Mörk og mót á norðurslóðum (Crossovers: Borders and Encounters in the Nordic Space). Þar sagði ég á ensku tvær örlagasögur, sem ég uppgötvaði í grúski á Þjóðarbókhlöðunni. Voru þær af gyðingakonu, sem varð Íslendingur, og nasista, sem varð kommúnisti. Þessar sögur fléttuðust saman vorið 1958. Þá var sextugsafmæli gamla kommúnistaleiðtogans Brynjólfs Bjarnasonar haldið í Skíðaskálanum í Hveradölum. Þangað var að sjálfsögðu boðið aldavini hans, Hendrik Siemsen Ottóssyni, ásamt konu sinni, Henny. Hún var þýskur gyðingur og hafði ásamt syni sínum og móður flúið til Íslands 1934 undan nasistum. Hér hafði hún kynnst Hendrik, sem kvæntist henni svo að hún fengi landvistarleyfi, og tókust með þeim góðar ástir. Nokkrir aðrir þýskir flóttamenn af gyðingaættum bjuggu þá í Reykjavík.

Hér starfaði einnig deild úr þýska nasistaflokknum. Einn harðskeyttasti nasistinn hét Bruno Kress og lærði íslenska málfræði. Kærði hann þýska ræðismanninn í Reykjavík til nasistaflokksins í Berlín fyrir að ganga ekki nógu ötullega erinda Þriðja ríkisins. Ræðismaðurinn tók þessu illa og lét reka Kress úr flokknum, en eftir talsvert þref var hann settur þangað inn aftur með úrskurði Adolfs Hitlers. Fékk Kress síðan styrk frá Ahnenerbe eða Arfleifðinni, rannsóknarstofnun svartstakka Heinrichs Himmlers, SS, til að semja málfræðibók. Kvæntist hann íslenskri konu og eignaðist með henni barn. Þegar Bretar hernámu Ísland var Kress handtekinn og sendur á eyna Mön en fór í fangaskiptum til Þýskalands 1944. Þar gekk hann eftir stríð í lið með austurþýskum kommúnistum, skildi við sína íslensku konu og varð forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald. Íslenskir kommúnistar voru í sambandi við þá stofnun og þegar Kress kom hingað í heimsókn 1958 var honum boðið í afmæli Brynjólfs.

Þegar Henny Ottósson sá þar gamla nasistann, sem hún kannaðist við frá því fyrir stríð, brást hún ókvæða við en það uppnám var þaggað niður. Ég komst síðan að því að bróðir Hennyar, Siegbert Rosenthal, hafði orðið fórnarlamb þessarar sömu rannsóknarstofnunar SS, Ahnenerbe, í tengslum við svokallað hauskúpumál í Natzweiler-fangabúðunum í Elsass. Myrtu nasistar Rosenthal og einnig konu hans og ungan son. Árið 1986 andaðist Henny Ottósson og sama ár varð Bruno Kress heiðursdoktor við Háskóla Íslands.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. ágúst.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband