Raunveruleg tímamót

Raunveruleg tímamót eru ekki um áramót eða árþúsundamót, sem eru aðeins reikningseiningar. En hvenær hafa orðið mest tímamót á Íslandi? Flestir svara: við landnámið 874, stofnun Þjóðveldis 930, kristnitöku 1000, breytinguna í norskt skattland 1262, siðaskipti 1550, einokunarverslun 1602, fullt verslunarfrelsi 1855, fyrstu stjórnarskrána 1874, heimastjórn 1904, fullveldi 1918, stofnun lýðveldis 1944. Allt má það til sanns vegar færa. En þrjú ártöl gleymast, þótt þau marki mikilvæg tímamót.

Hið fyrsta er 1096, þegar opinber skattheimta hófst á Íslandi með tíund Gissurar biskups. Tíundin auðveldaði nokkrum höfðingjum, sem réðu mestu um það, hvar kirkjur voru settar niður, að sanka að sér fé, eins og hagfræðingurinn Birgir Þór Runólfsson sýndi fram á í doktorsritgerð. Við þetta raskaðist jafnvægið milli goða þjóðveldisins, og í raun mynduðust nokkur smáríki, undir stjórn Oddaverja, Haukdæla, Sturlunga, Ásbirninga og Svínfellinga, sem háðu borgarastríð, uns Noregskonungur skakkaði leikinn og Ísland varð norskt skattland.

Annað ártalið er 1490, þegar Píningsdómur var settur á Alþingi. Hann var kenndur við Diðrik Píning höfuðsmann og kvað á um það, að útlendingar mættu ekki hafa vetursetu á Íslandi og að jarðnæðislausir menn yrðu að vera í vist hjá bændum, en mættu ekki hafa búðsetu. Með þessu var komið í veg fyrir myndun bæja, og landbúnaður varð eini löglegi atvinnuvegurinn, þótt landið væri harðbýlt, en gjöful fiskimið undan ströndum.

Þriðja ártalið var 1922, þegar sérstakt gengi danskrar krónu var í fyrsta skipti skráð á Íslandi. Áður hafði íslensk króna verið jafngild hinni dönsku, enda voru Danir í myntbandalagi Norðurlanda og dönsk króna, sænsk og norsk jafngildar og allar á gullfæti. Næstu níutíu ár hrapaði íslensk króna niður í einn-tvöþúsundasta af danskri krónu (gengið er nú um 20, en íslensk króna var einnig hundraðfölduð 1983).

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júní 2014.)


Áttum við að stofna lýðveldi?

Hinn 17. júní 2014 var haldið upp á sjötíu ára afmæli lýðveldisins. Þrjú merkilegustu ártöl stjórnmálasögunnar á 20. öld voru eflaust 1904, þegar við fengum heimastjórn, 1918, þegar Ísland varð fullvalda ríki, og 1944, þegar lýðveldi var stofnað. Rök hníga þó að því, að mestu tímamótin hafi verið í raun árið 1918. Þá varð í fyrsta skipti til íslenskt ríki. Áður hafði Ísland verið hjálenda Danmerkur án skýrrar réttarstöðu. Örar framfarir í íslensku atvinnulífi í upphafi 20. aldar, aðallega í sjávarútvegi, sannfærðu Dani um, að óhætt væri að veita þessari undarlegu og heimtufreku eyþjóð langt úti í hafi fullveldi, auk þess sem þeir höfðu hagsmuni af því vegna vonarpenings í Norður-Slésvík að sjást virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða.

Ísland var sjálfstætt konungsríki frá 1918 í konungssambandi við Danmörku, en til bráðabirgða fóru Danir með utanríkismál og sinntu landhelgisgæslu. Frá öndverðu var gengið að því vísu, að Íslendingar tækju með tímanum í sínar hendur utanríkismál og landhelgisgæslu, en mörgum þóttu Danir gæta hagsmuna þjóðarinnar á Íslandsmiðum slælega. Þeir höfðu gert vondan samning við Breta árið 1901 til fimmtíu ára um þriggja mílna landhelgi og voru svo værukærir við landhelgisgæslu, að orð úr dagbók dansks varðskips voru höfð í flimtingum: „Stille i Havnen, Storm udenfor.“ Logn í höfn, stormur á sjó. Þegar horft er um öxl, má þó segja, að Íslendingar hafi verið heppnir með sína yfirboðara miðað við margar aðrar þjóðir. Eftir miðja nítjándu öld vildu Danir okkur vel, en gátu auðvitað ekki gætt hagsmuna okkar af sömu þekkingu og áhuga og við sjálf.

Því má velta fyrir sér, hvers vegna Íslendingar fóru ekki sömu leið og íbúar Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands, sem fengu fullt sjálfstæði, en kusu að slíta ekki konungssambandi við gamla heimalandið. Hvers vegna héldum við ekki í kóng, sem hefði sótt Ísland heim einu sinni á ári, haft sér við hlið drottningu í íslenskum skautbúningi, haldið fyrirfólki kvöldverð og hengt heiðursmerki á grandvara embættismenn og hetjur úr héraði? Sennilega eru tvær skýringar á því. Tengsl Íslands og Danmerkur voru þrátt fyrir allt ekki eins náin og þessara þriggja konungsríkja og Bretlands. Í öðru lagi áttu Danir og Íslendingar ekki samleið í stríðinu. En nú standa Færeyingar frammi fyrir svipuðu úrlausnarefni og Íslendingar. Margir þeirra vilja fullt sjálfstæði. En þurfa þeir að stofna lýðveldi?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júní 2014.)


Gleymd þjóð

Fimmtudaginn 12. júní 2014 hlaut Mustafa Dzhemílev, talsmaður Krím-tatara, verðlaun Evrópuvettvangs minningar og samvisku í Kampa-listasafninu í Prag að mér viðstöddum, en íslenskt rannsóknarsetur, sem ég veiti fræðilega forstöðu, er aðili að Evrópuvettvangnum. Verðlaunin hlaut Dzhemílev fyrir þrotlausa viðleitni til að rétta hlut Krím-tatara. Þjóð hans er tyrknesk að uppruna og myndaðist á 15.–18. öld í múslimaríki á Krímskaga, sem var skattland Tyrkjasoldáns. Talar hún tyrkneska tungu. Rússakeisari hertók Krímskaga 1783, og flýðu margir tatarar þá til Tyrkjaveldis. Eftir valdarán kommúnista í Rússlandi 1917 sættu tatarar ofsóknum, og er talið, að um helmingur þeirra hafi fallið eða verið fluttur burt árin 1917–1933.

Eftir stríð voru Krím-tatarar sakaðir um að hafa unnið með þýska hernámsliðinu og allir fluttir burt, yfir 200 þúsund manns, samkvæmt skipun Stalíns 18. maí 1944, ýmist í þrælkunarbúðir eða til landbúnaðarstarfa á gresjum Úzbekístans. Ráðstjórnin í Moskvu viðurkenndi opinberlega 1967, að sakir á hendur Krím-tatörum væru tilhæfulausar, og eftir það hafa þeir smám saman snúið aftur til heimahaganna, og búa þar nú alls um 250 þúsund manns. Hefur þeim gengið erfiðlega að fá aftur jarðir þær, sem teknar voru af þeim við herleiðinguna.

Mustafa Dzhemílev (Cemilev á tungu feðra sinna) fæddist á Krím 1943, ári fyrir herleiðinguna, og ólst upp í Úsbekistan. Hann hóf ungur baráttu fyrir réttindum tatara og var sex sinnum handtekinn á dögum kommúnistastjórnarinnar í Ráðstjórnarríkjunum. Fór hann eitt sinn í langt hungurverkfall. Morgunblaðið minntist nokkrum sinnum á Dzhemílev árin 1976–1986, og í leiðara Morgunblaðsins 26. ágúst 1987 sagði: „Tatarar í Sovétríkjunum eiga fullan rétt á að fá að flytjast aftur til sinna fornu heimkynna á Krím-skaga.“

Dzhemílev fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Krím 1989 og var kjörinn leiðtogi Krím-tatara. Lagði hann áherslu á, að í baráttu þeirra yrði ekki beitt ofbeldi. Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna sat Dzhemílev á þingi Úkraínu, en Kremlverjar höfðu fært Úkraínu Krím-skagann að gjöf á 300 ára afmæli rússneskra yfirráða í landinu 1954. Frá því að Rússar hernámu Krím í mars 2014, hefur Dzhemílev verið í útlegð.

Þegar við rifjum upp sögu gleymdra smáþjóða, sem tröllin hafa undirokað og jafnvel tvístrað, ættum við að muna, hversu heppin við erum að búa á eyju langt frá öðrum löndum, en líka með góða granna, Kanadabúa, Bandaríkjamenn, Breta, Dani og Norðmenn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júní 2014.)


Merkingarþrungnar minningar

Sumar minningar verða skyndilega merkingarþrungnar. Svo er til dæmis um hádegisverð, sem við Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður snæddum saman á Íslenska barnum, eins og hann hét þá, í Pósthússtræti miðvikudaginn 29. febrúar 2012.

Tilefnið var, að Guðlaugur Þór hafði spurst opinberlega fyrir um greiðslur úr ríkissjóði til kennara á félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Einn samkennari minn kom reiður að máli við Guðlaug Þór og sagðist vita, að þessi fyrirspurn væri undan mínum rifjum runnin. Ég frétti þetta og hafði samband við Guðlaug Þór. Ég sagði efnislega: „Eins og þú veist jafnvel og ég, Guðlaugur Þór, höfum við ekki talast við í nokkur ár (okkur sinnaðist í innanflokksátökum). En nú heyri ég, að ég standi á bak við fyrirspurnir þínar á þingi. Úr því að ég er skyndilega orðinn aðalmaður í ógurlegu samsæri með þér, finnst mér eðlilegt, að ég fái að eiga hlut að máli. Við þurfum að setjast niður.“ Guðlaugur Þór tók þessu vel, og við mæltum okkur mót.

Þegar ég kom inn á Íslenska barinn, rak ég augun í DV, sem lá efst í blaðabunka á hliðarborði. Forsíðan var með risaletri og helguð Guðlaugi Þór: Hann hefði fengið 33 milljónir frá Landsbankanum fyrir tryggingafélag í sinni eigu. Ég sagði kankvís við Guðlaug Þór, um leið og ég settist á móti honum, að DV hefði næstum því jafnmikinn áhuga á honum og mér. Hann brosti dauflega og velti fyrir sér, hvaðan blaðið hefði upplýsingar sínar. En þegar skammt var liðið á umræðurnar, gekk fram hjá okkur Ársæll Valfells, sem við þekktum báðir. Hann ávarpaði okkur með breiðu brosi: „Nú, er bara sjálf skrímsladeildin á fundi?“ Við hlógum við, og Ársæll settist við annað borð.

Hvorugur okkar Guðlaugs Þórs vissi þá, að nokkrum dögum áður, að kvöldi fimmtudagsins 23. febrúar, hafði Ársæll fengið heimsókn frá Þórarni M. Þorbjörnssyni, starfsmanni Landsbankans, sem var með trúnaðarskjöl úr bankanum um Guðlaug Þór handa Gunnari Andersen, forstöðumanni Fjármálaeftirlitsins, en Gunnar var þá önnum kafinn á fundi. Ársæll hringdi í Gunnar, sem bað hann að koma skjölunum til DV. Ársæll setti skjölin í nýtt umslag, svo að nafn sitt kæmi ekki fram, ók að bækistöðvum DV og setti umslagið í póstkassa blaðsins. Síðan skrifaði fréttastjóri DV, Ingi F. Vilhjálmsson, fréttina um Guðlaug Þór upp úr skjölunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júní 2014.)


Ríkur maður alltaf ljótur?

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty gaf nýlega út bókina Fjármagn á 21. öld (Le capital au XXI siècle). Nafnið skírskotar bersýnilega til bókar Karls Marx, Fjármagnsins, en fyrsta bindi þess kom út 1867. Piketty telur eins og Marx, að hinir ríkari verði sífellt ríkari, en að hinir fátæku verði ef til vill ekki fátækari, en hlutur þeirra í heildartekjum minnki sífellt. Þeir verði því fátækari tiltölulega. Bilið breikki, uns skipulagið gliðni, nema lagðir verði ofurskattar á auðmenn. Breska viðskiptablaðið Financial Times hefur að vísu fundið nokkra alvarlega galla í talnameðferð Pikettys, en þeir breyta ekki miklu, þótt kenning Pikettys sé af öðrum ástæðum hæpin.

Piketty vitnar oft í franska rithöfundinn Honoré de Balzac, enda telur Piketty þá veröld, sem við séum að hverfa inn í, líka hinni, sem Balzac lýsti í skáldsögum sínum á 19. öld, þegar eina leið fátæks fólks til að komast inn í yfirstéttina frönsku átti að vera, að fagrar dætur giftust auðugum mönnum. Ein ummæli Balzacs í skáldsögunni Föður Goriot eru fleyg: „Le secret des grandes fortunes sans cause apparente est un crime oublié, parce qu’il a éte proprement fait.“ Á bak við mikil og illskýranleg auðæfi leynist jafnan glæpur, sem er gleymdur, af því að hann var fimlega framinn. Bandaríski rithöfundurinn Mario Puzo hóf skáldsöguna Guðföðurinn (1969) á svipuðum orðum (og vitnaði til Balzacs): „Behind every great fortune there is a crime.“ Á bak við mikil auðæfi leynist ætíð glæpur.

Piketty virðist þrátt fyrir allt heldur hallast að hinni einföldu útgáfu Puzos en landa síns, því að Balzac setti þann fyrirvara, að auðæfin þyrftu að vera illskýranleg, til þess að um glæp væri að ræða. Piketty tæki sennilega líka undir það, sem haft er eftir bandaríska háðfuglinum Dorothy Parker: „Vilji fólk komast að því, hvað Guði finnist um peninga, þá ætti það að virða fyrir sér þá, sem hann hefur veitt þá.“ En Piketty er áreiðanlega ósammála bandarísku leikkonunni og fegurðardísinni Zsa Zsa Gabor, sem er af ungverskum ættum og enn á lífi, 97 ára gömul. Hún hefur alltaf verið kona hagsýn og sagði eitt sinn: „Ríkur maður er aldrei ljótur.“ Piketty virðist hins vegar telja, að ríkur maður sé alltaf ljótur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. maí 2014.)


Ný ritgerð mín í enskri bók

Ég var að fá í hendur nýja bók, Understanding the Crash. The Financial Crisis of 2008, sem Danube Institute í Búdapest gefur út. Á meðal höfunda eru ásamt mér Norman Lamont lávarður, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, Peter J. Wallison, lögmaður bandaríska forsetaembættisins í tíð Ronalds Reagans og höfundur minnihlutaálits rannsóknarnefndar Bandaríkjaþings um fjármálakreppuna 2008, Péter Ákos Bod, fyrrverandi seðlabankastjóri Ungverjalands, Jack Hollihan, kunnur bandarískur fjárfestir, og fleiri.

Ritgerð mín í bókinni nefnist „The Rise, Fall and Rise of Iceland“. Þar ræði ég um helstu skýringar, sem fram hafa verið settar á bankahruninu íslenska, en bendi á, að sumar þeirra fái ekki staðist. Til dæmis orsakaði nýfrjálshyggja ekki bankahrunið, því að íslensku bankarnir störfuðu við nákvæmlega sama regluverk og bankar í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Ekki nægir heldur að nefna til sögunnar glannaskap bankamanna, þótt vissulega hafi hann verið mikill, því að margir aðrir bankar en hinir íslensku hefðu hrunið, hefði þeim ekki verið hjálpað, til dæmis Danske Bank í Danmörku, RBS í Bretlandi og UBS í Sviss.

Haldbærari skýringar á því, að bankahrun varð á Íslandi við hina alþjóðlegu fjármálakreppu, en ekki annars staðar, eru, að íslenska seðlabankanum var einum seðlabanka neitað um gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann, að breskum bönkum í eigu Íslendinga var einum neitað um þá fyrirgreiðslu, sem breska ríkið veitti bönkum í október 2008, og að Verkamannaflokksstjórnin breska setti hryðjuverkalög á Íslendinga — ekki aðeins Landsbankann, heldur líka Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Í ritgerðinni ræði ég enn fremur eftirleikinn, brottrekstur Davíðs Oddssonar — sem hafði einn ráðamanna varað við örum vexti bankakerfisins — úr Seðlabankanum, landsdómsmálið gegn Geir H. Haarde — sem reyndist hin mesta sneypuför — og hið ótrúlega Icesave-mál, þar sem ráðherrar vinstri stjórnarinnar reyndu með dyggum stuðningi sumra samkennara minna að loka Íslendinga inni í skuldafangelsi, af því að þeir héldu, að þar gætu þeir sjálfir orðið fangelsisstjórarnir.

Ritgerðin er sótt í fyrirlestur, sem ég flutti á ráðstefnu í Búdapest í nóvember 2013. Þar var Lamont lávarður líka, og spratt hann upp eftir hann og baðst afsökunar á framferði bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar, sem hann sagði til skammar. Ólíkt fórst honum og utanríkisráðherra þessarar Verkamannaflokksstjórnar, David Miliband, sem kom til Íslands og bannaði allar spurningar um samskipti Íslendinga og Breta vegna fjármálakreppunnar og bankahrunsins, en við Miliband brostu blítt allir sömu samkennarar mínir og höfðu viljað loka okkur inni í skuldafangelsi.


Hvað segir ESB sjálft?

Deilt er um, hvers eðlis aðlögunarviðræðurnar við Evrópusambandið hafi verið. Sumir segja, að þetta hafi verið samningar tveggja aðila. En er ekki best að spyrja Evrópusambandið sjálft? Í bæklingi frá því um aðildarferli umóknarþjóða segir:

First, it is important to underline that the term “negotiation”can be misleading. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate’s adoption, implementation and application of EU rules – some 90,000 pages of them. And these rules (also known as “acquis”, French for “that which has been agreed”) are not negotiable. For candidates, it is essentially a matter of agreeing on how and when to adopt and implement EU rules and procedures. For the EU, it is important to obtain guarantees on the date and effectiveness of each candidate’s implementation of the rules.

Eins og aðrir hafa bent á, fer hér ekkert á milli mála: not negotiable.


Íslendingar geta litið stoltir um öxl

Eftir bankahrunið komst í tísku, sérstaklega í hópi menntamanna, að gera lítið úr Íslendingum, sjálfstæðisbaráttu þeirra og þjóðernisvitund. Það er jafnfráleitt og þegar menn voru fyrir bankahrunið að tala um Íslendinga sem snjöllustu þjóð í heimi. En Íslendingar þurfa þrátt fyrir allt ekki að skammast sín. Hér er tiltölulega friðsamlegt: Morð á hver tvö hundruð þúsund íbúa eru um tvö í Evrópu að meðaltali, eitthvað innan við tíu í Bandaríkjunum (en raunar aðeins tvö, ef aðeins er miðað við fólk af evrópskum uppruna), en hér á landi 0,3. Þjóðin er í góðum álnum og hefur mikla möguleika, ef við nýtum rétt öll þau tækifæri, sem okkur bjóðast, höldum uppi hinu skynsamlega skipulagi fiskveiða, löðum ferðamenn að landinu, seljum útlendingum orku og gætum hófs í opinberum útgjöldum og álögum. Það er fróðlegt að lesa í Hagskinnu, sem er bók með tölum frá liðnum tíma, að frá 1870 til 1940 voru Íslendingar aðeins hálfdrættingar á við Dani í tekjum (vergri landsframleiðslu á mann). Eftir það höfum við staðið þeim jafnfætis um margt, þar á meðal velmegun. En á afmælisdegi Jóns Sigurðssonar, Háskólans og lýðveldisins er hollt að hafa í huga, að besta vegarnestið inn í framtíðina er það atvinnufrelsi, sem Jón Sigurðsson mælti fyrir.

(Skrifað 17. júní 2014.)


Fróðleiksmoli um kynbundna kúgun

Föstudagsmorguninn 6. júní 2014 flutti ég fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Öskju, náttúruvísindahúsi Háskóla Íslands, um „Kúgun karla“. Tilvísunin er í rit enska heimspekingsins Johns Stuarts Mills um Kúgun kvenna, sem hefur komið tvisvar út í íslenskri þýðingu. Ég er að sjálfsögðu sammála Mill um það, að kynin tvö eigi að njóta fullra réttinda til sjálfsþroska og þátttöku í opinberu lífi. Konur voru því miður löngum kúgaðar. En eru þær það lengur á Vesturlöndum? Hefur þetta ef til vill snúist við? Í því sambandi kynnti ég niðurstöður ýmissa nýrra rannsókna.

Á meðan ég var að semja fyrirlesturinn, rifjaðist upp fyrir mér, þegar Helga Kress flutti það, sem hún kallaði „jómfrúrfyrirlestur“ sinn sem prófessor í Háskóla Íslands 10. október 1991. Fyrirlesturinn nefndist „Skassið tamið“ og var um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af ruddaskap og yfirgangi karla við konur. Benti Helga á ýmis dæmi um þetta, sem farið hefðu fram hjá körlum í röðum bókmenntaskýrenda vegna kynlægrar einsýni þeirra. Eftir fyrirlesturinn svaraði hún spurningum. Ég bar fram eina. Hún var, hvað Helga segði um frásagnir í íslenskum fornbókmenntum af misjafnri framkomu kvenna við karla, til dæmis Gunnhildar konungamóður við Hrút Herjólfsson og griðkonunnar, sem gerði lítið úr Gretti, svo að ekki sé minnst á allar þær konur, sem eggjuðu feður, bræður eða syni sína til hefnda.

Helga var snögg til svars: Þá var það textinn, sem kúgaði. Þennan texta hefðu karlar sett saman konum til hnjóðs, oft kvenhatarar í klaustrum. Þetta svar Helgu var afar fróðlegt. Hún tók mark á textanum, þegar sagði frá kúgun karla á konum, en þegar í textanum sagði frá kúgun kvenna á körlum, var hann orðinn enn eitt dæmið um kúgun karla á konum. Kenning Helgu var með öðrum orðum óhrekjanleg. Hún geymdi í sér skýringar á öllum frávikum frá sér. Hún var alltaf rétt. Slíkar kenningar kenndi ensk-austurríski vísindaheimspekingurinn Karl Popper við gervivísindi, en tvö dæmi um þau taldi Popper vera marxisma og freudisma. Ef fræðimaður hallaðist að borgaralegum skoðunum, þá var hann að sögn marxista leiguliði borgarastéttarinnar. Ef hann hallaðist að skoðunum marxista, þá var hann sannur fræðimaður. Kenningin var alltaf rétt.

Því miður get ég hins vegar ekki lofað því, að í fyrirlestri mínum hafi ég sett fram kenningu, sem verði alltaf rétt.

(Fróðleiksmoli úr Morgunblaðinu 24. maí 2014, lítillega breyttur.)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband