20.9.2014 | 20:24
Fyrirlestrar í Gautaborg
Ég flyt þrjá fyrirlestra á ráðstefnu norrænna stjórnmálafræðinga í Gautaborg 12.15. ágúst. Einn fyrirlesturinn er um, hvort íslenska velferðarríkið sé í eðli sínu engilsaxneskt eða norrænt. Ég er að vísu sammála þeim Konráð Gíslasyni og Jónasi Hallgrímssyni um, að orðið velferð er dönskulegt. Orðið farsæld er íslenskulegra. En líklega verður úr þessu litlu um það þokað. Niðurstaðan í fyrirlestrinum er, að íslenska velferðarríkið sé hvorki engilsaxneskt né norrænt, heldur séríslenskt. Skattar eru hærri og bætur rausnarlegri en í engilsaxneskum löndum, til dæmis Bretlandi og Bandaríkjunum. Skattar eru hins vegar lægri en á öðrum Norðurlöndum, jafnframt því sem bætur takmarkast vegna tekjutengingar aðallega við þá, sem þurfa á þeim að halda. Til dæmis eru barnabætur óháðar tekjum í Svíþjóð ólíkt Íslandi. Þar brugðu jafnaðarmenn á það ráð upp úr miðri 20. öld að veita öllum bótarétt til þess að auka stuðning við velferðarríkið. Allir greiða til velferðarríkisins, og allir þiggja af því, þótt féð rýrni vitanlega talsvert í meðförum ríkisins: Hrói höttur heimtar sitt. Allir halda, að þeir séu að græða, þótt flestir séu að tapa.
Annar fyrirlesturinn er um Icesave-deilu Íslendinga við Breta og Hollendinga 20082013, og minnist ég í því sambandi á hinar frægu samræður Aþeninga við Meleyinga, íbúa eynnar Melos, árið 416 f. Kr. í Pelopsskagastríðinu, en þær færði gríski sagnritarinn Þúkídídes í letur (eða samdi jafnvel). Kröfðust Aþeningar þess, að Meleyingar lytu þeim. Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við, sögðu Aþeningar. Niðurstaðan í fyrirlestrinum er, að við Íslendingar séum eins og á miðöldum vinafá og vanmegna, þótt við eigum að bera höfuðið hátt. Við skulum vona, að Guð sé ekki hliðhollur fjölmennustu hersveitunum, heldur bestu skyttunum, eins og Voltaire orðaði það.
Þriðji fyrirlesturinn er um það, hvers vegna Ísland var skilið eftir úti á köldum klaka í miðri fjármálakreppunni 2008. Það mál er ég að rannsaka, eins og frægt er orðið. Þar er enn sem komið er meira um spurningar en svör.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. ágúst 2014.)
20.9.2014 | 16:20
Nordal í stríðsbyrjun
Sigurður Nordal prófessor var eitt sinn spurður, hver væru ógleymanlegustu tímamót í lífi hans. Hann svaraði, að þau hefðu verið sumarið 1914, þegar hann bjó í Kaupmannahöfn. Þetta sumar var óvenjuheitt og rakt. Á kvöldin var svalara. Sigurður fór laugardagskvöldið 1. ágúst 1914 í heimsókn til kunningja sinna úti í Valby og gekk heim og naut næturloftsins. Þegar hann var kominn langt niður á Vesturgötu, að hliðinu inn í Tívolí, rak hann augun í skæðadrífu af blöðum, sem þar lágu. Þetta var fregnmiði frá Politiken: Tyskland har erklært Rusland Krig. Þýskaland hefur lýst yfir stríði á hendur Rússaveldi. Sigurður varð agndofa, en gekk eins og í leiðslu heim til sín í Gautagötu. Hann vissi með sjálfum sér, að sá heimur, sem hann var alinn upp í og hafði búist við að lifa í, var orðinn allur annar.
Engum kemur til hugar að neita því, að margt hafi skort á frelsi, jafnrétti og bræðralag í veröldinni milli 1815 og 1914. En hver getur borið brigður á hitt, að þetta hafi verið skeið mikilla framfara og vaxandi hagsældar? skrifaði Sigurður. Norðurálfan færðist nær og nær því að verða ein samgöngu- viðskipta- og menningarheild. Allir gátu farið frjálsir ferða sinna land úr landi, og gengi myntarinnar í ýmsum ríkjum var skráð í landafræðinni, en ekki dagblöðunum. Fyrstu skiptin, sem eg kom til Edinborgar, var hægt að skipta hinum óinnleysanlegu seðlum Landsbankans umsvifa- og áfallalaust fyrir glóandi gullpeninga.
Sigurður hélt áfram: Og ef á allt er litið og þrátt fyrir gamlar og nýjar meinsemdir, var flest að þokast í áttina, líka virðingin fyrir réttindum þjóða, stétta og einstaklinga. Það gerðist að vísu fremur í sporum en stökkum. En flestum fannst þeir lifa í batnandi heimi, trúðu á sífelldar og órjúfanlegar framfarir á öllum sviðum.
Við héldum eftir hrun Berlínarmúrsins fyrir tuttugu og fimm árum, að við værum að snúa aftur til tímabils hinnar friðsamlegu þróunar og útfærslu alþjóðaviðskipta, sem Sigurður Nordal lýsti. En er það rétt? Lauk haustið 1989 þeirri öld öfganna, sem hófst sumarið 1914?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. ágúst 2014.)
19.9.2014 | 14:33
Habsborgarar
Menntavegurinn nýiliggur frá mannkyninuum þjóðirnarinn í dýraríkið.
Dr. Otto von Habsburg, elsti sonur síðasta keisara ættarinnar, var félagi í Mont Pelerin-samtökunum, alþjóðlegum samtökum frjálslyndra fræðimanna, og hitti ég hann á þeim vettvangi, til dæmis í München haustið 1990. Hann var höfðinglegur á velli og virðulegur í framkomu, en leit þó helst út eins og menntamaður. Mér heyrðist hann hafa mestan áhuga á hag Ungverjalands, en þar voru Habsborgarar konungar frá gamalli tíð. Dr. Habsburg sat lengi á Evrópuþinginu og beitti sér fyrir því, að þingið lýsti þegar árið 1983 yfir stuðningi við sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna, sem voru þá hernumin lönd. Gramdist Kremlverjum mjög hin svokallaða Habsburg-yfirlýsing.
Síðan vildi svo til, að í ferð um Suður-Ameríku haustið 1998 gisti ég hjá systur vinkonu minnar í Góðviðru, eins og Konráð Gíslason vildi kalla Buenos Aires. Tók ég eftir því, að margar fágætar bækur um Habsborgarættina voru þar í stofu. Ég spurði, hverju það sætti, og þær systur sögðu mér, að kona Frans Ferdinands ríkisarfa, sem var myrt með honum, Sophie Chotek, hertogafrú af Hohenberg, hefði verið ömmusystir þeirra. Hún var af gömlum aðalsættum í Bæheimi, en frændi hennar, faðir systranna, hafði flust allslaus til Argentínu eftir fyrra stríð og komið þar undir sig fótum á ný. Margar örlagasögur má segja frá tuttugustu öld, ekki síst eftir að Habsborgarveldið hrundi í fyrra stríði.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook
19.9.2014 | 08:02
Friðarverðlaun Nóbels
Fyrir skömmu var ég á ráðstefnu í Prag. Þar var Mústafa Dzhemílev, leiðtogi Krím-Tatara, sæmdur verðlaunum Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, en hann hafnar ofbeldi í baráttunni fyrir réttindum þjóðar sinnar, sem Kremlverjar kúga. Dzhemílev hefur tvisvar verið tilnefndur til friðarverðlauna Nóbels, sem nefnd á vegum norska Stórþingsins velur. Ekki er þar á vísan að róa, því að val norsku nefndarinnar hefur oft verið stórfurðulegt.
Árið 1973 fékk Le Duc Tho, aðalfulltrúi Norður-Víetnams í samningum um vopnahlé í Víetnam, verðlaunin ásamt aðalsamningamanni Bandaríkjanna. Tho tók að vísu ekki við þeim, enda rauf ríki hans samninginn, sem það hafði gert við Bandaríkin, og lagði Suður-Víetnam undir sig 1975. Tho átti síðar þátt í innrás Víetnam-hers í Kambódíu. Hann var ekkert annað en gamall, grimmur kommúnisti.
Árið 1990 hlaut Míkhaíl Gorbatsjov, leiðtogi einræðisstjórnar Ráðstjórnarríkjanna, verðlaunin. Á meðan hann tók við þeim í Osló, voru rússneskar öryggissveitir önnum kafnar við að handtaka og pynta andófsmenn í Eystrasaltsríkjunum, sem Stalín hafði lagt undir sig eftir samning við Hitler síðsumars 1939. Gorbatsjov ætlaði aldrei að veita þjóðum Ráðstjórnarríkjanna fullt frelsi, en missti vald á atburðarásinni.
Árið 1992 fékk Rigoberta Menchú verðlaunin. Hún hafði gerst talsmaður kúgaðra indjána í Guatemala og skrifað ævisögu, sem kom út 1983. Þar lýsti hún erfiðu hlutskipti sínu og fjölskyldu sinnar og voðaverkum hersins í Guatemala. En bandaríski mannfræðingurinn David Stoll rannsakaði feril hennar og komst að því, að hún hafði spunnið margt upp.
Ein skrýtnasta verðlaunaveitingin var þó 2009, þegar nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, Barack Hussein Obama, æðsti yfirmaður voldugasta herafla heims, hlaut verðlaunin. Hann virtist ekki fá þau fyrir neitt það, sem hann hafði gert eða látið ógert, heldur aðeins fyrir það, hver hann var, fyrsti þeldökki maður til að verða forseti Bandaríkjanna. Engum kom sennilega verðlaunaveitingin eins á óvart og honum sjálfum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. júlí 2014.)18.9.2014 | 18:27
Þegar ljósin slokknuðu
17.9.2014 | 12:35
Tvær fjasbókarfærslur mínar
16.9.2014 | 17:40
Stúlkan frá Ipanema
Ekki fer fram hjá neinum, þegar heimsmeistamótið í knattspyrnu fór fram í Rio de Janeiro og fleiri borgum Brasilíu. Borgarheitið merkir Janúarfljótið, því að portúgalskir landkönnuðir, sem sigldu 1. janúar 1502 inn í Guanabara-flóa, sem borgin stendur við, héldu, að þeir væru komnir í fljótsmynni. Einn þeirra var Amerigo Vespucci, sem Ameríka tekur nafn eftir. Sjálft landið Brasilía dregur nafn af rauðviðartegund, sem notuð er í liti, og mætti því nefna það Rauðviðarland. Færum við þá að fordæmi Konráðs Gíslasonar, sem reyndi að íslenska erlend staðarnöfn og nefndi til dæmis Buenos Aires Góðviðru (bókstafleg merking á spænsku er Gott loft) og Ecuador Miðgarðaríki (en það liggur um miðbaug).
Brasilía, rauðviðarlandið, er líka iðulega nefnd framtíðarlandið, en gárungarnir bæta við, að svo eigi eftir að vera lengi. Rio de Janeiro er kunnasta og fegursta borg landsins, og um hana er frægt skrúðgöngulag, Cidade Maravilhosa, Yndisfagra borg, sem tónskáldið André Filho samdi fyrir kjötkveðjuhátíðina 1935. Dansa léttklæddar, þeldökkar stúlkur jafnan hraða sömbu við það lag á hátíðinni.
Annað og enn frægara lag frá borginni heitir Garota de Ipanema, stúlkan frá Ipanema. Það er rólegt og kliðmjúkt bossa-nova-lag og fléttað inn í textann munúð og söknuði eftir því, sem aldrei varð. Tildrög voru, að árið 1962 sátu tónskáldið Antônio (Tom) Carlos Jobim og ljóðskáldið Vinicius de Moraes iðulega saman að bjórdrykkju á veitingastaðnum Veloso á mótum Rua Montenegro og Rua Prudente de Morais í Ipanema, einu strandhverfi Rio de Janeiro. Á hverjum degi gekk fram hjá þeim á ströndina ung og falleg stúlka, sem hreif þá svo, að þeir hripuðu á munnþurrku um hana ljóð og lag. Nú heitir veitingahúsið, þar sem þeir sátu, Garota de Ipanema, og Rua Montenegro hefur skipt um nafn og heitir Rua Vinicius de Moraes. Alþjóðaflugvöllurinn í Rio de Janeiro er nefndur í höfuðið á Tom Jobim.
Frank Sinatra hefur með miklum ágætum sungið lagið í lauslegri, enskri þýðingu og annarri útsetningu, en hér er íslensk þýðing fyrstu vísunnar eftir Kristján Hrafnsson rithöfund, sem hann gerði að mínu frumkvæði með hliðsjón af portúgalska frumtextanum:
Brún á hörund,
hýreyg, töfrandi,
heit af Ipanema sólinni,
öllum ljóðum fegri
fer hún hjá,
fer hjá.
Vitað er, hver stúlkan frá Ipanema er. Hún heitir Heloísa Eneida Menezes Paes Pinto og kemur oft fram í brasilísku sjónvarpi. Hún var sautján ára, þegar lagið var samið, en verður sjötug á næsta ári.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. júlí 2014.)
15.9.2014 | 19:07
Góður vinnustaður
Háskóli Íslands er góður vinnustaður. Mér hefur líkað vel að kenna þar,
frá því að ég var skipaður lektor í stjórnmálafræði sumarið 1988, og
hafa prýðilega aðstöðu til rannsókna, sem ég hef tiltölulega frjálsar
hendur um. Ég kann vel við nemendur mína, sem eru hressir, fjörugir og
fróðleiksfúsir, og samkennara, sem komu mér skemmtilega á óvart með
höfðinglegri gjöf á sextugsafmæli mínu fyrir hálfu öðru ári, og tóku
jafnvel fornir fjandmenn eins og Svanur Kristjánsson þátt í henni. Ég
hef hins vegar reynt eftir megni að færast undan stjórnunarstörfum, enda
hef ég meiri áhuga á grúski á Þjóðarbókhlöðunni en löngum fundum. Hafa
samstarfsmenn mínir verið furðuþolinmóðir og sveigjanlegir gagnvart mér
og mínum sérþörfum. Þeir menn, sem nú gegna trúnaðarstörfum fyrir
Háskólann, eru undantekningarlaust vel gefnir og góðviljaðir menn. Þegar
ég sé það óöryggi og ósjálfstæði, sem margir aðrir þurfa að búa við á
sínum vinnustöðum, rifjast upp fyrir mér, hversu góður vinnustaður
Háskólinn er. Ég þarf að minnsta kosti ekki að kvarta.
15.9.2014 | 15:52
Hvar eru nú Bubbi og Hörður Torfa?
Þegar ég sat í bankaráði Seðlabankans, var Már Guðmundsson hagfræðingur bankans um skeið. Ég hafði gott eitt af honum að segja. Þótt hann væri drjúgur með sig, var hann vel að sér og mælti jafnan skynsamlega. Einu kynni mín af honum áður voru, þegar við vorum iðulega ræðumenn hvor fyrir sinn málstað í framhaldsskólum, hann fyrir sósíalisma og ég fyrir frjálshyggju. Boðaði hann þá, að menn skyldu taka almannahag fram fyrir eigin hag.
Hins vegar var Már bersýnilega ráðinn seðlabankastjóri af stjórnmálaástæðum, þótt látið væri svo heita, að hann hefði mesta þekkingu og reynslu umsækjenda. En dómgreind skiptir ekki síður máli. Sú ákvörðun Más að una ekki við launalækkun, sem aðrir í sambærilegum stöðum urðu að sætta sig við á erfiðum tímum, sýndi dómgreindarbrest.
Már kveðst hafa viljað láta reyna á rétt sinn með því að höfða mál gegn Seðlabankanum. En stundum er skynsamlegast að krefjast ekki réttar síns. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra, átti hann rétt á sex mánaða biðlaunum. Hann ákvað að taka sér þau ekki, þótt réttur hans til þeirra væri ótvíræður. Þegar Davíð var skipaður seðlabankastjóri, var gerður við hann ráðningarsamningur til sjö ára, frá 20. október 2005 til 20. október 2012. Samningurinn var svo skýr, að Davíð hefði með dómi getað fengið full mánaðarlaun greidd allt til 20. október 2012, en hann var sem kunnugt er hrakinn úr starfi í febrúar 2009. En Davíð ákvað að láta kyrrt liggja.
Þegar Davíð var ráðherra 19912005, tók eiginkona hans aldrei dagpeninga í utanlandsferðum eins og makar annarra ráðherra. Þetta var réttur hennar, en hún nýtti sér hann ekki.
Hvort tveggja gerir síðan hlut Más verri, að hann tapaði máli sínu gegn Seðlabankanum og að hann lét bankann greiða málskostnað sinn. En ólíkt hafast þeir að í eigin málum, gamli sósíalistinn, sem boðaði forðum, að taka skyldi almannahag fram yfir eigin hag, og hinn borgaralegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson. En nú ber svo við, að þeir Hörður Torfason og Bubbi Morthens eru hvergi sjáanlegir með potta sína og pönnur fyrir utan Seðlabankann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. mars 2014, endurbirtur af sérstöku tilefni.)
14.9.2014 | 18:55
Línuritið, sem ég sýndi Guðmundi Andra
Guðmundur Andri Thorsson spyr á Fjasbók, hvenær sjálfstæðismenn ætli að biðjast afsökunar á hruninu, úr því að Suarez hefur beðið afsökunar á bitinu. Ég sendi honum línurit, sem ég gerði upp úr tölum rannsóknarnefndar Alþingis um skuldasöfnun viðskiptahópanna þriggja hér fyrir bankahrun: