Interview on Ayn Rand

[The following is an interview with me on p. 22 in the August 2012 Edition of Grapevine, an English-language magazine published in Iceland, because I am editing the Icelandic translation of Ayn Rand’s Atlas Shrugged, sponsored by the Icelandic Centre for Innovation and Economic Growth]

Do you think that Ayn Rand has had any influence in Iceland?

Rand’s The Fountainhead was published in an Icelandic translation in 1990, and quickly sold out. In 1949, Morgunbladid serialised her novel, We the Living. The Icelandic Broadcasting Service has several times broadcast a play by Rand, The Night of January 16th. I would however say that her influence in Iceland until now has been negligible.

Do you think Icelandic society needs more Rand influence then?

Definitely. Ayn Rand’s position is very challenging, especially to the new left-wing orthodoxy in Iceland, the political correctness, the fear of freedom and individual responsibility. Her novels are fascinating. It is not a wonder that they have sold almost 30 million copies world-wide. Rand knows how to tell a story and also how to convey a message. She makes an illuminating contrast between those who create wealth on the one hand and those who try to take it away from them on the other hand, or in other words a contrast between productive individuals and political parasites. In my appreciation of Rand’s novels, I am in good company. One of her admirers, for example, is the actress Angelina Jolie, and another well-known artist, Michael Caine, is such an admirer that he named his oldest daughter after the heroine of The Fountainhead, Dominique. 

Why is the Icelandic Research Centre for Innovation and Economic Growth sponsoring the translation and publication of Ayn Rand’s novels in Icelandic?

Because Ayn Rand describes the necessity of innovation and entrepreneurship in her books. Her heroes are the innovators, those who have new ideas and create wealth, the industrial magnates for example. Those people have to have freedom to act, experiment and innovate, if we are to have economic growth. They are the true benefactors of mankind, not the demagogues who want to do good with other people’s money.

Why bother translating Rand when just about everyone in Iceland speaks English? Does the Centre hope that the Icelandic youth will absorb Rand?

Tens, or even hundred of novels are translated from other languages into Icelandic every year. There is as good a reason to translate Rand into Icelandic as those other novels, especially when you consider that she is still a best-selling author all over the world. But the wider question is of course whether we should speak Icelandic at all. My answer is that we should, and the reason is that we ARE Icelanders, it is an integral part of our identity. We would be losing something very valuable if we lost our culture of which Icelandic is an extremely important part, if we would cut our ties to the past, and to each other. Indeed, we established the University of Iceland on our national hero’s 100th birthday, June 16th, 1911. Why did we do this? Why did we just not send our people to study abroad? Because we wanted to learn and to teach Icelandic law, Icelandic history, Icelandic literature, not only Danish or English law, history and literature. Regarding Icelandic youth, I would say that Rand has proven to be very stimulating to many young people, not least because of her radical ideas and her willing to take the arguments to their logical conclusions and not to compromise. There is too much intellectual cowardice in Western society today, too much of a tendency to follow the flock.

Some argue that it was some version of Randism that got Iceland into trouble in the first place and that we need more government regulation and monitoring of business. So why publish Rand now when it seems like we need anything but Rand?

Got Iceland into trouble? Come on, this was an international economic recession. Initially, it hit Iceland harder than other countries (partly because of the British labour government’s ruthlessness), but it did not of course originate in Iceland. A persuasive case can be made for misguided government intervention (such as subprime lending in the US, and artificially low interest rates maintained by the Fed) as an important cause of the recession. If so, then Rand’s distrust of government intervention is indeed highly relevant. I think however that the main problem with regulation as a way of controlling the market is that we then presume that there is more knowledge available to the regulators and the controllers than to those controlled, and this is plainly false. Who should control the controllers, anyway? It may be that new financial techniques were a part of the problem, but then they should be dealt with, not outlawed. The main concern should be that reckless people should not be able to shift the responsibility, and the cost, for their recklessness and mistakes from themselves to other people. Why should the German taxpayers, for example, pick up the bill for Greek spendthrifts and their creditors in German and other European banks? Why do those people always try to dig into our pockets? Why all those bailouts? These are Randian questions.

Mitt Romney’s running mate Paul Ryan, a known Randian, recently told the National Review: “I reject her philosophy. It’s an atheist philosophy. It reduces human interactions down to mere contracts and it is antithetical to my worldview. If somebody is going to try to paste a person’s view on epistemology to me, then give me Thomas Aquinas … Don’t give me Ayn Rand.” What do you think of her opinions on religion, given all of the trouble the church has had, etc?

I agree with Paul Ryan that Rand’s philosophy is far too one-sided. I do not share, for example, her militant atheism. Philosophically, I am more in the tradition of the Scottish Enlightenment, with David Hume and Adam Smith, and I have also learned a lot from St. Thomas Aquinas, for that matter. We have further commitments than those who have been signed by contract. The party of liberty has to be a broad church rather than a narrow sect. But Rand has an important message. This message is that we should value the contributions of those individuals who are fiercely independent in their thought and creative and innovative in economic life. I think that her books are a good medicine; they are a good corrective to the collectivist tendencies in today’s society. But even if necessary, medicine should not be mistaken for food. That is the truth in Ryan’s criticism of Rand.

What can Icelanders learn from Rand and her message?

What we can learn from it is to value innovation and entrepreneurship. Right now, the working classes in Iceland are oppressed by the talking classes. Those who work and contribute to the economy, are heavily taxed for the benefit of those who can just talk, and hold conferences, and beg for alms in Brussels, and rattle with their collection cans. We have to throw off the yoke of the talking classes and reward individuals for their real contribution to society, for the creation of wealth, for widening choice, for increasing opportunities. We badly need new companies, new services, new goods. Which is a better way to deal with poverty, to subsidise it or to create more opportunities for people to work themselves out of poverty?

How does the mission of the Ayn Rand Project compare to the mission of Eimreiðin?

The Eimreidin Group which was influential in the 1980s and 1990s, under the leadership of Thorsteinn Palsson and David Oddsson, pursued a much softer line that does Ayn Rand. The Eimreidin Group was a liberal-conservative group very much in the spirit of Hayek and Friedman, and Thatcher and Reagan. I do not think that Ayn Rand could ever win an election. She is an uncompromising writer and thinker. It is both her strength and her weakness. But she is a voice which belongs in the conversation of mankind. It should be heard.

Upp er skorið, engu sáð

Halldór Blöndal vitnaði nýlega í Vísuhorni sínu í Morgunblaðinu í stökuna:

Upp er skorið, engu sáð,
allt er í varga ginum.
Þeir, sem aldrei þekktu ráð,
þeir eiga að bjarga hinum.

Hafði Halldór vísuna eftir Valtý Stefánssyni ritstjóra, sem vitnaði í hana í Lesbók Morgunblaðsins 20. nóvember 1927 í grein um tíu ára afmæli byltingar bolsévíka. Sagði Valtýr, að stakan hefði hrotið úr munni hagyrðings, eftir að bera tók á bolsévíkum á Akureyri.

Brynjólfur Steingrímsson sagði þá í tölvuskeyti til Halldórs, sem birtist í Vísnahorninu 30. júlí 2012, að vísan væri eftir afa sinn, Egil Jónasson á Húsavík, og Friðrik Jónsson póst (sem var raunar á Helgastöðum, ekki Halldórsstöðum, eins og Brynjólfur segir). Vísan hefði ekki verið tengd stjórnmálabaráttu.

En Valtýr Stefánsson hafði rétt fyrir sér um stökuna. Ég rannsakaði faðerni hennar fyrir bók mína 2010, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku. Til er samtímaheimild um hana. Í grein eftir Pál Árdal í Degi 30. október 1924 segir, að þessi staka sé eftir Sigmund Sigurðsson, úrsmið á Akureyri. Hún sé ekki eftir Pál sjálfan eða aðra, sem hún var kennd. Og tilefnið var augljóst. Snemma árs 1924 fluttust þrír ungir áróðursmenn bolsévíka til Íslands, þeir Einar Olgeirsson, Brynjólfur Bjarnason og Ársæll Sigurðsson.

Lét Einar þegar mikið að sér kveða á Akureyri, svo að Sigmundi úrsmiði þótti nóg um og kastaði stöku sinni fram, og er hún enn í fullu gildi.


Móðurmál án föðurlands

Sú gamla og gráa kenning, að máttur sé réttur og ráði jafnan úrslitum, birtist í ýmsum myndum. Til dæmis sagði bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Robert Altman eitt sinn: „Hvað er sértrúarsöfnuður? Of fámennur hópur til að teljast minnihlutahópur.“

Á meðan gyðingar höfðu ekki eigið ríki, var hið forna mál þeirra, hebreska, „móðurmál án föðurlands“, eins og Aðalbjörg Sigurðardóttir komst að orði. Þegar gyðingar stofnuðu ríki, ákváðu þeir að nota þar hebresku, en gengu fram hjá jiddísku, sem margir gyðingar í Mið- og Austur-Evrópu höfðu talað, en hún er blendingur úr þýsku, hebresku og arameísku. Þá sagði bandaríski málfræðingurinn Max Weinreich af nokkurri beiskju á jiddísku: „A shprakh iz a diyalekt mit an armey un a flot.“ (Tungumál er mállýska, sem styðst við her og flota.) Nú er jiddískan nær dauð, og ólíkt latínunni, sem einnig er dauð, á hún engin afkvæmi.

Íslenska er enn lifandi mál, þótt hún styðjist hvorki við her né flota. Tilveruréttur hennar hvílir ekki á mætti okkar, heldur í senn á vilja okkar til að halda uppi sjálfstæðu tungumáli og viðurkenningu grannþjóðanna á sérstöðu okkar. Þeirrar viðurkenningar njóta til dæmis ekki Kúrdar, sem eru sérstök þjóð með sérstakt tungumál, en ekkert ríki, enda dreifast þeir um fjallahéruð Tyrklands, Írans og Íraks.

Íslendingar eiga sér ekki góðs von í heimi, sem stjórnast af lögmáli franska greifans Bussy-Rabutins: „Comme vous savez, Dieu est d'ordinaire pour les gros escadrons contre les petits.“ (Eins og þér vitið, er Guð jafnan hliðhollur fjölmennum hersveitum gegn fámennum.) Er þetta ekki lögmál ríkisins?

Íslendingar verða heldur að treysta hinum orðsnjalla heimspekingi Voltaire: „Dieu n'est pas pour les gros bataillons, mais pour ceux qui tirent le mieux.“ (Guð er ekki hliðhollur fjölmennustu hersveitunum, heldur bestu skyttunum.) Er þetta ekki lögmál markaðarins?


Brotin egg

Árið 2011 gaf Bjartur út skáldsöguna Brotin egg eftir enska rithöfundinn Jim Powell í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur og Arnars Matthíassonar. Þetta er afbragðsbók, sem hefst rólega, en verður því forvitnilegri sem á líður. Hún er full af óvæntum atvikum og jafnvel spaugilegum. Hún er ekki beinlínis um kommúnismann, heldur um hitt, hvað gat komið fyrir venjulegt fólk við kommúnisma. Heiti sögunnar vísar til þess, að kommúnistar sögðu jafnan, þegar þeir þurftu að réttlæta ódæði sín, að til þess að gera eggjaköku þyrfti að brjóta egg. Saga Powells er um brotnu eggin, miðaldra kommúnista, sem ættaður var frá Póllandi, hafði flust til Sviss rétt fyrir stríð og síðan sest að í Frakklandi, en eftir fall Berlínarmúrsins kynntist hann óvænt aftur fjölskyldu sinni.

 

Fyrst hef ég fundið þessa líkingu hafða eftir Peter Ludwig von Pahlen, þýsk-rússneskum herstjóra í Pétursborg, sem þá var höfuðborg rússneska keisaradæmisins. Hann átti aðild að samsæri um að steypa af stóli þáverandi keisara, Páli I., en á fundi 23. mars 1801 spurði annar samsærismaður, hvað gera skyldi, ef keisarinn vildi ekki segja af sér mótþróalaust. Þá svaraði von Pahlen: „Eigi að baka eggjaköku, þá verður að brjóta egg.“ Þetta er líka franskur málsháttur: „On ne fair pas d'omelette sans casser des oeufs.“ (Ekki er unnt að baka eggjaköku án þess að brjóta eggin.)

Agnar Þórðarson, rithöfundur og leikskáld, segir í ferðasögu sinni frá Rússlandi, Kallað í Kremlarmúr, sem kom út 1978: „Stalín á eitt sinn í viðræðum við Búkharín að hafa gripið til þeirrar líkingar, að ekki væri unnt að baka eggjaköku án þess að brjóta egg. Þá á Búkharín að hafa svarað: Já, ég sé öll brotnu eggin, en hvar er eggjakakan? Svo liðu nokkur ár, og Búkharín var sjálfur orðinn eitt af brotnu eggjunum.“

 

Og aldrei birtist eggjakakan.


Í næsta lífi ...

Í næsta lífi vil ég lifa lífinu aftur á bak. Þá lifna ég fyrst við frá dauðum og vakna upp á elliheimili, þar sem heilsan batnar á hverjum degi. Loks er mér vísað þaðan fyrir að vera of hraustur, og þá tek ég til við að hirða mánaðarlegan lífeyri minn. Síðan held ég í vinnuna, og á fyrsta degi þar fæ ég gullúr að gjöf og mér er haldin veisla. Ég vinn í fjörutíu ár, uns ég er nógu ungur til þess að hætta. Þá tekur við drykkja, gjálífi og skemmtanir, þangað til ég er reiðubúinn að setjast í menntaskóla. Eftir það geng ég í barnaskóla og leik mér með hinum börnunum. Ég ber ekki ábyrgð á neinu og verð að hvítvoðungi, sem fæðist. Síðustu níu mánuði lífsins flýt ég um á heilsuhæli með upphitun og tafarlausri herbergisþjónustu, þegar ég læt vita af mér, og vistarveran stækkar á hverjum degi. Og sjáum síðan til: Tilveru minni lýkur með samfarablossa!

(Frá Woody Allen.)


Hver kom í veg fyrir ráðningu Þorgerðar Katrínar?

Eitt furðulegasta stjórnsýslumál síðari tíma, sem þau dr. Sigurbjörg og aðrir stjórnsýsluspekingar Háskóla Íslands hafa þó verið einkennilega þöglir um, er, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, leikaradóttir, lögfræðingur og fyrrverandi útvarpskona, alþingismaður og menntamálaráðherra, var ekki valin úr hópi umsækjenda til að veita menningarhúsinu Hörpu forstöðu.

Hafði þó meiri hluti stjórnar menningarhússins ákveðið að styðja Þorgerði Katrínu til starfsins, enda er hún með þá menntun, reynslu af mannaforráðum og hæfileika í mannlegum samskiptum, sem allt er nauðsynlegt í þetta vandasama starf.

Hver kom í veg fyrir ráðninguna? Heimildarmenn mínir, sem ég tel áreiðanlega, segja, að það hafi verið Dagur Bergþóruson Eggertsson. Hann ræður sem kunnugt er öllu í borgarstjórn, þótt Jón Gnarr sé skráður borgarstjóri, og Dagur setti hnefann í borðið: Engin samvinna verður milli menningarhússins og Reykjavíkurborgar, ef Þorgerður Katrín er ráðin. Eftir það treysti stjórnin sér ekki til að ráða Þorgerði Katrínu.

Þess í stað vildi Dagur ráða Halldór Guðmundsson, sem er innsti koppur í búri Samfylkingarinnar (og vissulega um margt hæfur maður), og varð það úr.

En þögn femínistanna, sem sitja á fullum launum í Háskólanum við að telja kynjaskiptingu á ýmsum sviðum mannlífsins, er ekki síður æpandi en stjórnsýsluspekinganna á sama stað: Eiga kröfur femínista um, að ekki sé gengið fram hjá hæfum konum, aðeins við um vinstri sinnaðar konur?


Forsjálni Jónasar frá Hriflu

Þótt Jónas Jónsson frá Hriflu sæist stundum ekki fyrir, var hann ritfær og mikilhæfur stjórnmálamaður, sem kunni að velja hugmyndum sínum nöfn. Hafði hann hér mikil áhrif og jafnvel stundum víðtæk völd árin 1916-1944.

Frjálslyndir nútímamenn geta ekki verið samþykkir því, hvernig Jónas dró taum landbúnaðar á kostnað sjávarútvegs, en útgerðarmenn kallaði hann „Grimsby-liðið“, enda var íslenskum fiski þá oft landað í Grimsby í Norður-Englandi.

Nokkrar aðrar hugmyndir Jónasar eru merkari. Ein er „Leifslínan“, en svo kallaði hann nauðsynina á nánu samstarfi við Bandaríkin. Hún hét að sjálfsögðu eftir Leifi heppni, sem fann Vesturheim. Jónas var sannfærður um, að Íslendingum kæmi best að leita skjóls hjá Bretum og Bandaríkjamönnum, enda dáðist hann að engilsaxneskri menningu.

Jónas áttaði sig einnig snemma á hættunni, sem stafaði af ítökum kommúnista í listum og bókmenntum. Hann blandaði kommúnismanum þó saman við ýmsar tilraunir, sem listamenn gerðu til að brjóta upp lögun, snið og hrynjandi verka sinna og heppnuðust misjafnlega. Fræg urðu ummæli Jónasar um „hvíldartíma í listum og bókmenntum“, sem hann skrifaði í Tímann í árslok 1941: „Í bókmenntum og listum samtíðarinnar má greina fjórar kvíslir sömu elfu. Í bókmenntum er það kynóra- eða klámstefnan, í húsagerðarlist kassastíllinn, í höggmyndagerð klossastefnan, en í málaralist klessugerðin. Hér á landi má sjá dæmi um kynórastefnuna í ritum kommúnista og nokkurra annarra viðvaninga, sem tekið hafa þá til fyrirmyndar.“

Hér er hressilega að orði komist. Í fagurfræði var Jónas rómantískur íhaldsmaður, sem taldi listina eiga að vera leit að hinu fagra.

Jónas varaði líka við opinberri forsjá í atvinnulífinu, þegar atvinnurekendur hirða gróðann, en tapið er þjóðnýtt. Þótt sumir hafi talið þetta kunna orðalag fengið frá öðrum ritfærum manni, Vilmundi Jónssyni landlækni, er það úr ræðu, sem Jónas hélt á Alþingi 1946.


Vestur-Íslendingar

Ég er ekki hissa á því, að Bjarna Benediktssyni hafi fundist talsvert til um að fara á Íslendingaslóðir í Kanada. Sjálfur fór ég þangað fyrir nokkrum árum, þegar ég var að gera þátt um Halldór Kiljan Laxness, og það var mjög merkilegt. Á sléttunni þýtur bíllinn fram hjá bæjum með gamalkunn íslensk nöfn. Í Gimli lítur sumt fólk út eins og það sé á leið á Húnvetningamót. Ógleymanlegt var að sjá styttuna af Jóni Sigurðssyni við þinghúsið í Winnipeg.

Það er hins vegar umhugsunarefni, hversu margir fóru vestur, allt að þriðjungur þjóðarinnar. Þeir fóru vestur, af því að hagur þeirra var of þröngur hér heima, sulturinn á næsta leiti. Eitt verkefni okkar er að tryggja nægilega góða kosti hér heima til þess, að ungt og framtakssamt fólk hrekist ekki burt, þótt hitt sé sjálfsagt að litast um í veröldinni.


Minningabrot um Milton Friedman

Þegar frjálslyndir menntamenn hittust á ráðstefnu hins alþjóðlega málfundafélags síns, Mont Pèlerin-samtakanna, í Stanford í Kaliforníu haustið 1980, voru þeir bjartsýnir um, að tíðarandinn væri að snúast á sveif með þeim. Tveir helstu hugsuðirnir úr röðum þeirra, Friedrich A. von Hayek og Milton Friedman, höfðu hlotið Nóbelsverðlaun í hagfræði, Margrét Thatcher hafði nýlega myndað ríkisstjórn í Bretlandi, og Ronald Reagan var í kjöri til forseta Bandaríkjanna seinna um haustið og þótti sigurstranglegur. Reagan sendi einmitt samkomunni kveðju, sem flutt var í upphafshófinu. Þetta var fyrsta ráðstefna samtakanna, sem ég sótti, en Hayek hafði í ferð til Íslands þá um vorið boðið mér þangað og Pálmi Jónsson í Hagkaup lagt til farareyri. Pálmi veitti okkur frjálshyggjumönnum dyggan stuðning í baráttunni fyrir auknu atvinnufrelsi. Í Stanford sá ég Friedman fyrst. Hann hélt erindi um peningamál og stjórnskipun á einum fundinum og andmælti harðlega þeim, sem vildu tryggja festu í peningamálum með svonefndum gullfæti, en í honum fólst, að seðlabanki leysti jafnan inn fyrir menn í gulli þá upphæð, sem peningaseðill hljóðaði upp á. „Hvers vegna í ósköpunum á að grafa upp gull í Suður-Afríku í því skyni einu að grafa það síðan niður í kjallara bandaríska seðlabankans? Hvað er svona merkilegt við gull?“ spurði Friedman. Hann vildi, að verð peninga væri frjálst, en það merkti, að gengi ætti að fljóta, en ekki vera fest við gull. Þetta var raunar gamalt ágreiningsefni frjálshyggjumanna. Á einni fyrstu ráðstefnu samtakanna, sem stofnuð voru vorið 1947, var austurríska hagfræðingnum Ludwig von Mises svo misboðið á einum fundinum, þegar mælt var gegn gullfæti, að hann gekk á dyr, skellti hurðum og sagði: „Þið eruð ekkert annað en ein stór sósíalistaklíka.“ Friedman rifjaði þetta atvik stundum upp og hló þá hjartanlega. Hann átti því ekki að venjast að vera kallaður sósíalisti.

Ég rakst á Friedman og konu hans, Rose, í lokahófi ráðstefnunnar, þar sem þau gengu um og heilsuðu gömlum vinum. Þau voru bæði mjög lágvaxin, allt að því dvergvaxin. Friedman leit út eins og dæmigerður menntamaður, sköllóttur og með gleraugu, alúðlegur. Rose var með gráyrjótt hár, skarpleit, en brosmild, fagureyg og þó hvasseyg. Ég herti upp hugann og gaf mig á tal við þau, og tóku þau mér hið besta. Ég sagði Friedman sem satt var, að íslenskir sósíalistar hefðu deilt harkalega á hann, en ég varið hann eftir megni. „Þú átt ekki að verja mig, heldur hugmyndir okkar beggja,“ sagði Friedman brosandi. Hann sagðist vera á leið til Kínaveldis, þar sem sér hefði verið boðið að halda fyrirlestra. Ég nefndi við hann, að hann væri svo sannarlega velkominn líka til Íslands. Friedman svaraði, að sjálfur væri hann orðinn tregur til ferðalaga, en sonur sinn, David, væri áhugamaður um Ísland, hefði lesið margt í íslenskum fornbókmenntum og skrifað ritgerð um réttarvörslu einstaklinga á þjóðveldisöld. Fylgja verður sögunni, að Kínaför Friedmans þá um haustið markaði tímamót. Valdhafar þar eystra hlustuðu vandlega á hann og fylgdu ýmsum ráðum hans. Friedman benti síðar ósjaldan á tvískinnunginn í umræðum um kommúnisma. Hann hafði farið til Chile 1975 og haldið fyrirlestra um það, að auka þyrfti atvinnufrelsi og tryggja festu í peningamálum og ríkisfjármálum. Tóku yfirvöld þar mörgum ráðum hans og þó ekki öllum. En Chileför hans leiddi til þrálátra ádeilna á Friedman, meðal annars þegar hann tók við Nóbelsverðlaununum í Stokkhólmi 1976. En ekki var æmt né skræmt, eftir að hann fór til Kína 1980 og hélt fyrirlestra þar sama efnis. Var þó Kínaveldi einræðisríki eins og Chile og stjórnarfar raunar miklu verra. Morgunblaðið birti grein eftir Friedman um þetta 14. janúar 1981 og tók síðan undir með honum í forystugrein 16. janúar. Hneykslaðist blaðið á þögninni um harðstjórn kommúnista, en kvað hana vart tilviljun. Fyrir brýningu frjálshyggjumanna tók Sjónvarpið síðan vorið 1981 til flutnings fimm af tíu heimildaþáttum, sem Milton og Rose Friedman höfðu gert undir heitinu „Frelsi til að velja“ (Free to Choose). Vöktu þeir óskipta athygli. Áður hafði Sjónvarpið sýnt alla þrettán þætti sósíalistans Johns Kenneths Galbraiths um efnahagsmál.

Næst hitti ég Milton og Rose Friedman á ráðstefnu Mont Pèlerin-samtakanna í Vestur-Berlín haustið 1982. Þar afhenti ég Milton fyrsta eintakið af bókinni Frelsi og framtak (Capitalism and Freedom) eftir hann, sem ég hafði snarað á íslensku. Í því riti voru margar frumlegar hugmyndir reifaðar, til dæmis um ávísanakerfi í skólamálum og neikvæðan tekjuskatt. Höfundurinn fletti bókinni brosandi og lofaði að heimsækja Ísland, þegar hann gæti. Á ráðstefnunni vék Friedman að Evrópusambandinu. Hann sagði, að engin furða væri, að sumir frjálshyggjumenn hefðu verið andvígir stofnun þess. Það hefði í upphafi verið tollabandalag, en slík bandalög væru í eðli sínu ónauðsynleg, því að tollar bitnuðu aðallega á þeim, sem settu þá á. Ríki ættu þess vegna sjálfra sín vegna að fella niður tolla, en ekki vegna samninga við önnur ríki eða alþjóðlegra skuldbindinga. Evrópusambandið væri nú orðið að bákni, sem gætti frekar hagsmuna stjórnmálamanna og atvinnurekenda en neytenda. „Í Brüssel heyrist rödd neytandans eins og hvísl, en rödd framleiðandans eins og öskur,“ sagði Friedman. En einkennileg atvik urðu til þess, að leiðir okkar Friedmans lágu saman í ársbyrjun 1984. Við Össur Skarphéðinsson stunduðum þá báðir nám í Bretlandi. Þjóðviljinn birti grein, sem Össur skrifaði þaðan um það, að David Hendry, tölfræðiprófessor í Oxford, hefði sýnt fram á, að Friedman væri ómerkilegur svikahreppur. Hann hefði hagrætt tölum í ritum þeirra Önnu J. Schwartz um peningamál. Hafði Össur Lundúnablaðið Guardian fyrir þessum afhjúpunum. Ólafur Ragnar Grímsson, sem þá var ritstjóri Þjóðviljans, skrifaði tvær forystugreinar um þetta stórkostlega hneyksli og kvað þögn mína um málið ærandi. Ég skrifaði þá Hendry og spurði, hvort rétt væri eftir honum haft. Ég fékk bréf frá honum, þar sem sagði: „Mér þykir mjög miður, ef því er haldið fram, að þau hafi ekki verið fullkomlega heiðarleg og hreinskilin í meðferð og rannsókn hinna tölulegu gagna.“ Hendry bætti við, að ágreiningur sinn við þau væri aðeins fræðilegs eðlis. Ég birti bréf Hendrys í svari mínu við skrifum þeirra Ólafs Ragnars og Össurar og sendi Friedman einnig afrit af bréfinu. Friedman þótti vænt um, að ég skyldi hafa haft fyrir því að leiðrétta missagnir um rannsóknir hans. Hann hafði samband við mig og kvaðst reiðubúinn til að koma til Íslands haustið 1984 og halda fyrirlestur. Við frjálshyggjumenn tókum þessu boði með þökkum, og samdist svo um, að hann héldi fyrirlestur sinn á vegum Viðskiptadeildar Háskóla Íslands.

Heimsókn Friedmans varð söguleg. Þau Rose komu til landsins að morgni fimmtudagsins 30. ágúst 1984. Þau skruppu til Þingvalla í hádeginu og skoðuðu líka Sogsvirkjun. Síðdegis hélt Friedman blaðamannafund í samkomusalnum á efstu hæð í Húsi verslunarinnar. Spurningum rigndi yfir hann. Bogi Ágústsson, þá fréttamaður Sjónvarpsins, spurði til dæmis, hvort kenningar hans ættu við í litlu hagkerfi eins og hinu íslenska. Friedman sagði, að kenningar sínar væru ekki frambærilegar, ef þær ættu ekki eins við í litlu hagkerfi og stóru. Góð hagfræði ætti alls staðar við. „Þér hafið ekkert lausnarorð á reiðum höndum?“ spurði Bogi. Friedman svaraði: „Jú, ég hef lausnarorðið fyrir ykkur Íslendinga.“ Bogi gerðist forvitinn og spurði: „Megum við fá að heyra það?“ Friedman svaraði: „Þetta orð er frelsi!“ Friedman kvaðst vilja nefna dæmi. Ísland væri að sönnu lítið hagkerfi, en unnt hlyti að vera að reka fleiri útvarpsstöðvar en þær tvær, sem væru í eigu ríkisins. Þá hafði sem kunnugt er ríkið einkarétt á því að reka útvarp, en því má skjóta inn í, að þessi einkaréttur var afnuminn með lögum vorið eftir, 1985. Guðmundur Magnússon, þá blaðamaður á Morgunblaðinu, spurði Friedman, hvað hann segði um þá ásökun, að hann gengi með kenningum sínum erinda efnamanna. Friedman svaraði, að markaðskerfið væri mikilvirkasta tækið, sem fundist hefði til að koma fátæku fólki í bjargálnir. Mörg fleiri dæmi mætti nefna um skjót og snjöll tilsvör Friedmans, en þau getur að líta í bókinni Lausnarorðið er frelsi, sem kom út 1994. Seinna um daginn skruppu Friedman-hjónin til Bessastaða og heilsuðu upp á Vigdísi Finnbogadóttur forseta, sem skálaði við þau í kampavíni. Um kvöldið sátu þau kvöldverð á heimili Ingimundar Sigfússonar forstjóra, síðar sendiherra, en hann er gamall aðdáandi Friedmans. Daginn eftir, föstudaginn 31. ágúst, sýndi ég Friedman-hjónunum Reykjavík. Rose spurði mig, hvers vegna við Íslendingar töluðum eigin tungu. „Borgar sig ekki fyrir ykkur að taka upp ensku?“ Milton greip þá fram í: „Nei, Rose, Íslendingar vilja auðvitað tala sína eigin tungu. Það er ósköp eðlilegt.“ Þau skiptust á skoðunum um þetta smástund. Við Milton spjölluðum margt um peningamál. Ég var þá þeirrar skoðunar sökum lakrar frammistöðu íslenskra peningayfirvalda næstu áratugi á undan, að við ættum að kasta krónunni og taka upp Bandaríkjadal. Friedman tók því ekki fjarri. Í hádeginu bauð Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra Friedman-hjónunum í hádegisverð í Ráðherrabústaðnum. Þar kynnti ég Friedman fyrir Davíð Ólafssyni seðlabankastjóra svofelldum orðum: „Prófessor Friedman! Hér er maður, sem yrði atvinnulaus, yrðu kenningar yðar framkvæmdar á Íslandi, því að hann er seðlabankastjóri.“ Friedman kímdi og laumaði þessu út úr sér: „Nei, nei, hann yrði ekki atvinnulaus, hann yrði aðeins að færa sig í arðbærara starf.“

Síðdegis var tekinn upp í sjónvarpssal umræðuþáttur með Friedman, sem sýndur var um kvöldið. Þar gengu á hólm við hann þrír kunnir sósíalistar, þeir Birgir Björn Sigurjónsson, Ólafur Ragnar Grímsson og Stefán Ólafsson. Birgir Björn sagði fátt, en þeir Ólafur Ragnar og Stefán því fleira, eins og gert var gys að í áramótaskaupi næsta gamlárskvöld. Rætt var um heima og geima. Þeir Ólafur Ragnar reyndu að klekkja á Friedman með því að rifja upp, að hann væri hlynntur lögleiðingu fíkniefna. Friedman lét sér hvergi bregða: „Ef afleiðingarnar af því að banna fíkniefni eru verri en af því að leyfa þau, þá finnst mér rétt að leyfa þau.“ Meira var ekki sagt um það mál. Í lok þáttarins sagði Stefán ísmeygilega, að umræðurnar hefðu vissulega verið fróðlegar. Sá hængur væri á, að ekki gætu allir áhugamenn hlýtt á fyrirlestur Friedmans á Hótel Sögu daginn eftir, því að áheyrendur væru krafðir um aðgangseyri. Þetta hefði ekki tíðkast um fyrirlestra á vegum Háskóla Íslands. Þeir hefðu ætíð verið ókeypis. Friedman var fljótur til svars. Hann kvaðst vilja mótmæla þessari notkun orðsins „ókeypis“. Auðvitað hefðu fyrirlestrar annarra ekki verið ókeypis. Greiða hefði þurft fargjald þeirra, jafnvel einhverja þóknun, leigja fundarsal, auglýsa fyrirlesturinn. Spurningin væri sú, hverjir ættu að greiða fyrir þetta, áheyrendur sjálfir eða hinir, sem ekki sæktu fyrirlesturinn. Sjálfur væri hann þeirrar skoðunar, að þeir ættu að greiða, sem nytu. Þetta er gamalkunnugt stef í fræðum Friedmans: Ókeypis fyrirlestur er ekki til frekar en ókeypis hádegisverður. Spurningin er aðeins, hver á að greiða reikninginn. Friedman hafði raunar stundum á orði, að einn helsti gallinn á sósíalistum væri, hversu góðir þeir vildu ætíð vera fyrir annarra manna fé. Ellefta boðorðið ætti að vera: „Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra.“

Eftir upptöku sjónvarpsþáttarins sat Friedman síðdegishóf á heimili Péturs Björnssonar forstjóra með nokkrum íslenskum hagfræðingum, þar á meðal þeim dr. Sigurði B. Stefánssyni og dr. Þráni Eggertssyni prófessor. Pétur var einn dyggasti stuðningsmaður okkar frjálshyggjumanna á þeirri tíð. Friedman lék á als oddi, og hvíslaði Þráinn að mér: „Þessi maður geislar beinlínis af gáfum.“ Þá um kvöldið sátu Friedman-hjónin kvöldverð Verslunarráðs Íslands í Þingholti Hótel Holts. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra var einn gesta. Hann sat beint á móti Friedman og spurði: „Prófessor Friedman! Það getur vel verið, að kenningar yðar eigi við í stóru hagkerfi eins og hinu bandaríska. Það gilda bara önnur lögmál um Ísland. Væri til dæmis hægt að fylgja hér byggðastefnu, ef kenningar yðar væru framkvæmdar?“ Friedman svaraði tafarlaust: „Nei, það væri ekki hægt, og það ætti ekki heldur að vera hægt.“ Einn forystumaður atvinnurekenda spurði Friedman, hvaða hætta steðjaði helst að kapítalismanum. Ekki stóð á svarinu: „Það eru kapítalistarnir. Ef þið viljið sjá óvini kapítalismans, þá skuluð þið líta í spegil. Adam Smith hafði rétt fyrir sér um það, að kapítalistarnir reyna alltaf að skapa sér einokunaraðstöðu. Það er vegna þess, að samkeppnin er neytendum í hag, þótt hún sé auðvitað líka kapítalistum í hag, þegar til langs tíma er litið.“ Friedman var kurteis, en beinskeyttur. Óspart var skálað yfir borðum. Ég kvaddi mér hljóðs og sagði, að erfitt væri að vera betri helmingur Miltons Friedmans. Einum manni hefði þó tekist það, konu hans, Rose Director. Bað ég fólk um að skála fyrir henni. Friedman spratt upp úr sæti sínu og sagðist vilja verða fyrstur til þess að lyfta glasi fyrir konu sinni. Hún sat brosandi og horfði blíðlega á mann sinn. Þau virtust enn vera ung og ástfangin.

Húsfyllir var og rúmlega það á fyrirlestri Friedmans á Hótel Sögu í hádeginu laugardaginn 1. september 1984. Hann nefndist „Í sjálfheldu sérhagsmunanna“ (The Tyranny of the Status Quo). Þar greindi Friedman þá erfiðleika, sem væru á umbótum í átt til atvinnufrelsis, vegna þess að gróðinn af ríkisafskiptum dreifðist á fáa, en tapið á marga. Ef tíu milljónir króna eru færðar frá 100 þúsund manns, þá tapar hver þeirra 100 krónum og verður þess lítt var. En ef sömu tíu milljónir króna eru færðar til 100 manna, þá græðir hver þeirra 100.000, veit vel af því og mun berjast fyrir því með oddi og egg. Sama upphæð skiptir ólíka hópa misjöfnu máli. Friedman sagði, að frjáls viðskipti væru öllum í hag, en ríkisafskipti væru til skamms tíma sumum í hag og öðrum í óhag, en til langs tíma öllum í óhag. Eina ráðið væri að takmarka margvíslegt skömmtunarvald ríkisins, ekki síst seðlaprentunar- og skattlagningarvald þess. Eftir fyrirlesturinn svaraði Friedman spurningum og sagði þá margt eftirminnilegt. Til dæmis kvað hann ríkisstyrki til vísinda eflaust auka magn vísindarannsókna, en ekki nauðsynlega gæði þeirra. Hann var spurður, hvað ætti að gera í litlu sjávarþorpi, ef eina útgerðarfyrirtækið þar yrði gjaldþrota, svo að skuttogari staðarins færi annað. Friedman svaraði, að skuttogarinn gufaði ekki upp. Væru skilyrði til útgerðar á staðnum, þá hlytu aðrir þar að geta útvegað sér fé, stofnað fyrirtæki og tekið við skuttogaranum. Á frjálsum markaði yrði að leiðrétta mistök í stað þess að fleygja í þau opinberu fé. Að fyrirlestrinum loknum hélt ég með þeim Milton og Rose rakleiðis út á flugvöll, en förinni var heitið til Cambridge, þar sem haldin var ráðstefna Mont Pèlerin-samtakanna. Þegar hlé var á dagskránni þar eitt kvöldið, var Milton svo elskulegur að bjóða mér í mat á ítölskum veitingastað. Auk Friedman-hjónanna og mín sátu þennan kvöldverð japanskur hagfræðiprófessor, Chiaki Nishiyama, og kona hans, enski hagfræðingurinn John Greenwood og kona hans og Peter Bauer lávarður. Var margt skrafað. Nishiyama var lærisveinn Friedmans frá Chicago og hafði kynnt kenningar hans af miklum dugnaði í Japan. Greenwood hafði lagt á ráðin um peningaskipulag Hong Kong, en það fólst í eins konar myntslátturáði: Hong Kong dalur var festur við Bandaríkjadal í ákveðnu hlutfalli, en tveir einkabankar sáu um útgáfu peningaseðla. Bauer lávarður var kunnur fyrir gagnrýni sína á svokallaða þróunaraðstoð, en það nafn er auðvitað herfilegt öfugmæli, þar sem valið stendur um þróun án aðstoðar (eins og í Hong Kong) eða aðstoð án þróunar (eins og á Grænhöfðaeyjum). Bauer hafði verið lærisveinn hins kunna hagfræðings A. C. Pigous í Cambridge árin fyrir seinni heimsstyrjöld, og sögðu þeir Friedman af honum ýmsar sögur.

Ég hafði frá 1983 verið gistifræðimaður (visiting scholar) í Hoover-stofnuninni í Stanford-háskóla í Kaliforníu, þegar ég kom því við, en hvergi í Bandaríkjunum er líklega þægilegra að búa. Þá hitti ég jafnan Friedman-hjónin, en Milton gerðist þar félagi 1977, eftir að hann lét af prófessorsstarfi í Chicago. Við snæddum oft saman hádegisverð í félagsheimili háskólakennaranna í Stanford (Faculty Club), og slóst þá mágur Friedmans, Aaron Director, iðulega með í för. Hann var bróðir Rose, lengi prófessor í Chicago eins og Friedman og frumkvöðull að hagfræðilegri greiningu laga. Hann var lágvaxinn og grannur, lotinn af elli, en skarpskyggn maður og gagnrýninn. Þau Milton og Rose buðu mér líka stundum heim til sín í San Francisco, en þar bjuggu þau í glæsilegri og rúmgóðri íbúð á 19. hæð í háhýsi við 1750 Taylor Street. Var þá sent eftir ítalskri böku (pizzu) og spjallað um allt milli himins og jarðar. Úr íbúðinni sást vítt yfir borgina og næsta nágrenni. Eitt sinn gekk Friedman að glugga, benti út og sagði: „Sérðu, hvað þetta er stórkostlegt! Hugsaðu þér tækifærin, sem menn fá hér í Ameríku.“ Síðan rifjaði hann upp nokkur atriði úr ævi sinni. Hann fæddist í New York 31. júlí 1912, sonur fátækra innflytjenda frá Rúteníu, sem var þá hérað í Slóvakíu í austurrísk-ungverska keisaradæmisins, en varð seinna hérað í Úkraínu. Hann var af Gyðingaættum, svo að sennilega hefði allri fjölskyldu hans verið útrýmt, hefði hún ekki flust úr átthögum sínum og vestur um haf. Afburðagáfur Friedmans komu snemma í ljós, svo að hann fékk styrk til að stunda nám. Friedman-hjónin voru um þær mundir að semja sjálfsævisögu sína, sem kom út 1998 undir nafninu Tveir gæfumenn (Two Lucky People). Þau sögðu mér, að fyrir þeim vefðist að skrifa um Arthur Burns, sem kenndi Milton í Rutgers-háskóla og varð síðar aðalseðlabankastjóri Bandaríkjanna. Hann hafði gegn betri vitund stutt verðlagshöft, sem Nixon forseti hafði sett á. Sjálfur hefði Friedman aldrei gert neitt slíkt. Hann var góður ráðgjafi valdhafa, en aldrei þægur þjónn þeirra. Friedman hafði miklar mætur á Reagan forseta, en honum fannst minna til um eftirmann hans, George Bush eldri: „Hann var skoðanalaus yfirstéttarmaður. Hann sagði aldrei orð, þegar ég var á fundum með Reagan.“ (Orðið, sem Friedman notaði, var „Country Club Republican“.) Eitt sinn kvartaði ég undan John Kenneth Galbraith við Friedman. Ég hafði setið kvöldverð með Galbraith í Oxford, og hafði hann farið hraklegum orðum um lærimeistara minn, Hayek. „Ég hef ekki sömu reynslu af Galbraith,“ sagði Friedman. „Hann hefur alltaf komið fram við mig eins og heiðursmaður, þótt við höfum verið ósammála. Þegar ég var til dæmis gagnrýndur fyrir Chileför mína, kom Galbraith mér til varnar opinberlega. Hann sagði, að enginn þyrfti að efast um stuðning minn við lýðræði.“

Ég trúði Friedman eitt sinn fyrir því, að ég hefði sennilega átt að ljúka prófi í hagfræði. Það hefði auðveldað mér þátttöku í umræðum um efnahagsmál uppi á Íslandi. „Nei, blessaður vertu: Ef þú hefðir lært hagfræði, þá hefðir þú aðeins lært vonda hagfræði, eins og var kennd í nær öllum vestrænum háskólum á sínum tíma.“ Friedman var þó sjálfur einhver áhrifamesti hagfræðingur tuttugustu aldar. Margt af því, sem hann hélt fram, er orðið að viðteknum sannindum, til dæmis að verðbólga sé alls staðar og alltaf peningalegt fyrirbæri: Um peninga gildi eins og aðra vöru, að verðið lækki, ef framboðið eykst að óbreyttri eftirspurn. Verðbólga eða þrálát verðlækkun peninga sé með öðrum orðum undantekningarlaust fólgin í offramboði peninganna. Friedman sagði: „Þetta kemur í þremur áföngum. Fyrst er látið eins og maður sé ekki til. Síðan er reynt að gera gys að manni. Loks er sagt, að auðvitað skipti peningamagnið máli, en það hafi allir vitað hvort sem var, og Friedman gangi vitanlega of langt.“ Einu sinni sem oftar bar Keynes á góma í samtölum okkar. Friedman sagði: „Það var ekki að furða, að hagfræðingar tækju kenningum hans fegins hendi. Hún gerði lífið svo auðvelt. Í kreppu átti maður bara að ýta á hnapp, og þá jókst framleiðslan. Ef þenslan varð of mikil, þá átti maður bara að ýta á annan hnapp, og þá minnkaði hún aftur.“ Friedman hélt því sjálfur fram, að ríkið ætti í hagstjórn sinni að fara eftir almennum, föstum og fyrirsjáanlegum reglum og nýta eins og auðið væri sjálfstýringarmátt hins frjálsa hagkerfis. Tilraunir ríkisins til að jafna hagsveiflur gerðu oftast illt verra. Hann orðaði þetta eftirminnilega: „Ríkisafskiptin eru ekki lækningin, heldur meinsemdin.“ Friedman minntist á það við mig, að hann hefði verið gistiprófessor í Columbia-háskóla í New York og Cambridge-háskóla á Englandi. Á báðum þessum stöðum hefði verið miklu meiri einsleitni í skoðunum en í Chicago. „Það var allir með sömu skoðanir. Í Chicago reyndum við hins vegar að rökræða. Þar voru sósíalistar, miðjumenn, frjálshyggjumenn. Þar voru keynesverjar og fylgismenn peningamagnskenningarinnar. Ég hef hvergi rekist á eins mikla einsleitni í skoðunum og í háskólum.“

Sumarið 1986 sýslaði ég sem oftar við rannsóknir í Hoover-stofnuninni í Stanford. Þá buðu Friedman-hjónin mér að heimsækja sig og gista eina helgi í sumarhúsi þeirra í sjávarþorpinu Sea Ranch, um tveggja klukkustunda akstur norður af San Francisco. Ég gerði það og átti með þeim tvo góða daga. Friedman hafði nýlokið við að lesa bók um skáldkonuna Ayn Rand eftir Barböru Branden. Í skáldsögum sínum boðaði Rand stæka einstaklingshyggju, dáðist að frumkvöðlum og sköpunarmætti kapítalismans. „Það hefur líklega enginn snúið jafnmörgum Bandaríkjamönnum til frjálshyggju og Ayn Rand,“ sagði Friedman. „En hún var sjálf óskaplega óumburðarlynd. Aðdáendur hennar minntu á trúarsöfnuð.“ Ég tók bókina um Rand með mér í rúmið, og það blasti við af henni, að Friedman hafði rétt fyrir sér. Hann nefndi einnig von Mises. „Hann var mjög óumburðarlyndur. Hann þoldi fólki ekki að hafa aðrar skoðanir en hann sjálfur. Ég er alveg ósammála honum um eðli og aðferðir hagfræðinnar. En það var ekki hægt annað en bera virðingu fyrir honum vegna hugrekkis hans og þolgæðis. Annars var hann miklu betri en lærisveinar hans.“ Ég minntist á heimspekinginn Karl Popper, en ég hafði sumarið 1985 átt þess kost að hitta Popper á heimili hans og tala lengi við hann. „Ég kynntist Popper í Mont Pèlerin-samtökunum og hef alltaf talið mig lærisvein hans um vísindalegar aðferðir,“ sagði Friedman. „Ritgerð mín um aðferðir staðreyndahagfræðinnar var tilraun til að beita kenningum Poppers á hagfræðina.“ Sumarhús Friedman-hjónanna var úr timbri og smíðað til að falla inn í umhverfið, skóg og strönd. Hátt var til lofts í stofunni, gluggar stórir og sást út á Kyrrahaf. Þar loguðu skipsljós dauflega í fjarska. Við sátum að loknum kvöldverði við arininn, þar sem eldur logaði glatt, og gæddum okkur á hvítvíni. Ég sagði Friedman, að ég ætti að halda smátölu um heimspeki frelsisins á ráðstefnu Mont Pèlerin-samtakanna í St. Vincent á Ítalíu þá um haustið. Hver væri sú heimspeki? Hann var ekki lengi að hugsa sig um. „Hún felst umfram allt í umburðarlyndi. Þótt einkennilega megi virðast, er það Oliver Cromwell, sem hefur ef til vill sett hana skýrast fram, þegar hann sagði við breska þingið: Íhugið þið, veltið þið fyrir ykkur í alvöru, hvort þið hafið ekki á röngu að standa. Þetta ætti að vera boðorð okkar frjálshyggjumanna.“ Friedman lagði áherslu á orð sín með því að beina að mér vísifingri. Það var augljóst, að hann hafði verið kennari.

Heimurinn breyttist stórkostlega, þegar Berlínarmúrinn féll 9. nóvember 1989. Sósíalisminn hrundi undan eigin fargi, og kalda stríðinu lauk. Tíðarandinn breyttist. Á tíunda áratug tóku heimsóknir mínar til Kaliforníu að strjálast, svo að ég hitti Friedman sjaldnar. Hann var þá nánast hættur að ferðast. Ég tók eftir því, að hann var orðinn miklu hægari í hreyfingum, þótt hugurinn væri óbilaður. Ég hitti hann síðast á afmæli Cato-stofnunarinnar í Washington-borg vorið 2002. Hann var aðalræðumaðurinn í hátíðarkvöldverði stofnunarinnar á Hilton-hótelinu fimmtudaginn 9. maí. Fyrr um daginn hafði Friedman heimsótt George Bush yngri í Hvíta húsið og snætt með honum hádegisverð. Hann kunni betur að meta Bush yngri en föður hans. „Sonurinn hefur þó skoðanir. Ég er ekki sammála honum um allt, en hugur fylgir máli, þegar hann segist vilja lækka skatta og minnka ríkisumsvif,“ sagði hann við mig. Ed Crane, forstöðumaður Cato-stofnunarinnar, bauð mér síðan í grillveislu heim til sín laugardaginn 11. maí, þar sem ég gat sest út í garð með Friedman-hjónunum og spjallað einn við þau um stund. Ég sagði þeim, að síðustu ellefu ár hefði Ísland tekið stakkaskiptum. Atvinnufrelsi hefði stóraukist, verðbólga minnkað niður í hið sama og í grannríkjunum, halli á fjárlögum snúist í tekjuafgang, tiltölulega hagkvæm skipan myndast í fiskveiðum, mörg stór fyrirtæki ríkisins verið seld, þar á meðal bankarnir, og hætt verið sjóðasukki, opinberum stuðningi við illa rekin fyrirtæki. Friedman ljómaði. Ég bætti við, að heimsókn hans til Íslands 1984 hefði skipt verulegu máli. Hann hefði haft áhrif á mikilhæfa stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson, Friðrik Sophusson, Þorstein Pálsson, Geir H. Haarde og Björn Bjarnason, sem hefðu beitt sér fyrir þessum umbótum. Friedman var hinn ánægðasti, en sagði: „Við megum ekki vera kokhraustir. Það er enn verk að vinna. Sósíalisminn tapaði, en kapítalisminn sigraði ekki.“ Hann stóð þá á níræðu. Ég hafði gert mér ferð á afmæli Cato-stofnunarinnar í því skyni beinlínis að heilsa upp á Friedman-hjónin, því að ég hafði grun um, að ég ætti ekki eftir að hitta Milton framar. Grunur minn reyndist réttur. Hann lést 16. nóvember 2006.

(Þessi minningabrot birtust sem minningarorð í Þjóðmálum 2006, en ég endurprenta þau hér vegna 100 ára afmælis Friedmans 31. júlí 2012.)


Ridley kominn á Youtube

Hinn 31. júlí 2012 átti Milton Friedman hundrað ára afmæli. Stephen Moore minntist þess í Wall Street Journal, og má lesa grein hans hér.

Síðan er fyrirlestur Matts Ridleys hér á Íslandi 27. júlí kominn á Youtube, og má skoða hann hér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband