6.8.2012 | 19:49
Jón á enn erindi við okkur
Einhverjir samkennarar mínir í Háskóla Íslands hafa orðið til að andmæla þeirri skoðun minni, að Jón Sigurðsson forseti hafi verið frjálshyggjumaður. Á því er þó enginn vafi. Jón hafði lesið með skilningi og samúð rit Jean-Baptiste Says, sem var helsti lærisveinn Adams Smiths á meginlandinu, og Johns Stuarts Mills. Ég hef þegar á þessum vettvangi vitnað í ýmis ummæli Jóns, sem sýna þetta.
Enmargt fleira úr ritum Jóns Sigurðssonar á erindi við okkur. Hann segir til dæmis 1842: Þá hefir menntunin verið mest, þegar mestar hafa verið utanferðir og Íslendingar átt mest viðskipti við önnur lönd; þó ekki við eitt land, heldur mörg. Íslendingar verða einmitt að gæta sín á því að lokast ekki inni í Evrópusambandinu, heldur stunda viðskipti við aðra aðila líka, til dæmis Noreg, Kanada, Bandaríkin, Brasilíu, Rússland, Indland og Kína.
Jón segir 1860: Maður verður að venja sig af að treysta á stjórnina eina sér til hjálpar og venja sig á að nota sína eigin krafta; maður verður að læra að samlaga þessa krafta, svo þeir geti unnið saman til almennra heilla. Skýrar verður úrlausnarefni stjórnmálanna varla lýst. Stefna þarf jafnt að sem mestu frelsi sem flestra og að gagnkvæmri aðlögun einstaklinganna, svo að árekstrum fækki og frelsi eins verði ekki ófrelsi annars.
Fróðleg er líka sagan af því, þegar Jón vandaði um við skólapilta í Lærða skólanum 1875. Þeir höfðu fært honum kvæði Gests Pálssonar, þar sem sagði:
Þú kappinn dýr,
er aldrei þekktir bönd.
Jón vísaði því á bug, að hann hefði aldrei þekkt bönd; bönd væru jafnnauðsynleg inn á við sem út á við, jafnnauðsynleg fyrir líf einstakra manna sem þjóða, og frelsið án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn, eins og segir í einkabréfi um fund hans og skólapilta.
Jón á hér aðallega við sjálfstjórn og sjálfsaga, þá menningu, sem kemur að innan, en án þess verður frelsið orðið tómt. Jón var eins og nafni hans Þorláksson síðar í senn frjálslyndur og íhaldssamur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook
4.8.2012 | 17:00
Stefán Ólafsson staðfestir trúnaðarbrot sitt
Ég rifjaði upp á dögunum, að Stefán Ólafsson braut trúnað vorið 1996, þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Þá sagði hann þáverandi ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðum í skoðanakönnun, sem við Hreinn Loftsson höfðum látið Félagsvísindastofnun gera um hug almennings í komandi forsetakjöri.
Stefán svaraði skætingi. Þá spurði lesandi síðu hans, Hafsteinn B. Árnason: Var það ósatt með að þú hafir brotið trúnað með því að upplýsa ritstjóra Morgunblaðsins um fylgiskönnun Davíðs Oddsonar?
Stefán svaraði:
Já það er ósatt. Þegar ég hitti ritstjórana á Morgunblaðinu vorið 1996, út af öðru máli, þá vissu þeir af því að við höfðum nýlega gert könnun á stuðningi við hugsanlega forsetaframbjóðendur (enda var ekki hægt að leyna því; hringt var í 1000 manns og spurt sérstaklega hvort fólk myndi styðja Davíð Oddsson ef hann færi í forsetaframboð) og að fylgi Davíðs var lítið. Þeir voru undrandi á þessu og reyndar með böggum hildar yfir því að Ólafur Ragnar virtist vera á góðri leið með að verða forseti. Þeir höfðu áhuga á að ræða þetta og greina nánar hvað byggi að baki og ég tók þátt í því, enda voru þeir úr innsta hring Davíðs og hétu trúnaði um spjallið. Það var síðan Matthías Jóhannessen sem rauf trúnað um þetta með birtingu dagbóka sinna á netinu, að mig minnir 12 árum síðar, og þar tilgreindi hann hvert fylgi Davíðs hafði verið. Það var í fyrsta sinn sem það var opinberað.
Þegar svar Stefáns er lesið vandlega, sést, að hann staðfestir frásögn mína. Hann rauf trúnað við þá, sem létu gera könnunina, með því að segja ritstjórum Morgunblaðsins frá niðurstöðunum. Stefán rauf jafnmikinn trúnað, hvort sem ritstjórarnir voru úr innsta hring Davíðs og hétu trúnaði um spjallið eða ekki. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi.
Það er hins vegar óvenjufrumlegt, þegar maðurinn, sem rauf trúnað, Stefán Ólafsson, sakar manninn, sem hann sagði í heimildarleysi frá niðurstöðum skoðanakönnunarinnar, Matthías Johannessen, um að hafa rofið trúnað, af því að Matthías skráði þetta hjá sér í dagbækur sínar og birti mörgum árum síðar!3.8.2012 | 16:12
Hvers vegna eru nútímamenn greindari en forfeður þeirra?
Dýrafræðingurinn og vísindahöfundurinn dr. Matt Ridley flutti afar fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur föstudaginn 27. júlí, í Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn hefur verið settur á Netið, á heimasíðu Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt, þar sem menn geta skoðað hann. Mörg viðtöl Ridleys og erindi eru þegar til á Netinu, til dæmis viðtal Reason Foundation hér og erindi í Zürich hér og erindi fyrir Google hér.
Ridley telur ýmsar góðar ástæður til bjartsýni um framtíð mannkyns. Hann benti til dæmis á það, að menn væru samkvæmt greindarmælingum að verða greindari, að minnsta kosti með efnuðum Vesturlandaþjóðum. Þetta er í fljótu bragði einkennilegt, því að vandaðar greindarmælingar eiga að vera þannig úr garði gerðar, að þær séu óháðar tíma og rúmi. Ef tveir menn eru jafngreindir í Senegal og Sviss, þá eiga þeir að mælast jafngreindir. Hvort sem maður er vel eða illa upp alinn, á hann að mælast jafngreindur. Tveir jafngreindir menn á 19. og 21. öld eiga að mælast jafngreindir, annars er eitthvað að mælingunum.
Eflaust eru einhver greindarpróf háð aðstæðum. En Ridley bendir á eina skýringu á aukinni greind á okkar dögum. Hún er, að ekki leggjast nú eins og áður á börn í sama mæli sjúkdómar, sem hafa vond áhrif á heilastarfsemina, og að víða þjást þau nú ekki af vannæringu, sem líka dregur úr þroska þeirra. Velmegun, hlý og traust húsakynni og nægur og góður matur, mynda skilyrði til að vaxa og þroskast eftir eigin lögmáli. Þar starfar heilinn best.
Ein skjámynd Ridleys á fyrirlestrinum var sérstaklega athyglisverð. Til vinstri var útskorinn steinn með hvössum brúnum, sem frummaður fyrir um milljón árum hefur gert og notað til að drepa og skera í sundur dýr merkurinnar sér til matar. Hann og hann einn gerði þennan hníf, og hann var gerður úr einu efni. Til hægri var tölvumús frá okkar dögum. Til þess að gera hana þurfti atbeina þúsunda og jafnvel milljóna manna úr öllum heimshornum, þar sem sumir framleiddu plast og aðrir örgjafa, suma sömdu forrit og aðrir hönnuðu lögun músarinnar, sumir sinntu innkaupum og aðrir starfsmannahaldi í ólíkum fyrirtækjum, sem komu að gerð músarinnar, og svo framvegis.
Hvítigaldur markaðarins er einmitt, að hann er vettvangur samvinnu óteljandi einstaklinga, sem nýta sér þjónustu hver annars án þess að þekkja hver annan. Þessi samvinna birtist í frjálsum viðskiptum á markaði, en verðið, sem þar myndast, leiðbeinir okkur um, hvernig hæfileikar okkar nýtast öðrum best. Þannig verður til ein risastór og skilvirk samvitund, sameiginlegur reynslusjóður, sem frumstæðir þjóðflokkar hafa ekki til ráðstöfunar. Á steinöld studdist maður aðeins við sína vitund, sína þekkingu og kunnáttu, en gat hvorki nýtt sér þekkingu né kunnáttu annarra manna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.8.2012 kl. 17:01 | Slóð | Facebook