Kamban, Kress og Lowrie

Sveinn Einarsson skrifar um skáldsöguna Ragnar Finnsson á bls. 187 í nýútkominni bók um Guðmund Kamban, sem Mál og menning gefur út: „Helga Kress hins vegar nánast ber upp á Kamban ritstuld, þegar hún ber saman brot úr sögu hans og skáldsöguna My Life in Prison (Fangelsisár mín) eftir Donald Lowrie. Því er ekki að leyna að í tilvitnunum hennar eru sláandi líkindi. Allir þekkja hvernig höfundar viða að sér efni og hefur margoft verið bent á hvernig jafnólíkir höfundar og Shakespeare og Halldór Laxness eigna sér frásagnir og atburði, án þess að stuld megi kalla. Sennilega hefur Kamban þó lesið umrædda bók.“

Öðru vísi mér áður brá. Ég notaði marga kafla úr æskuminningum Laxness í fyrsta bindi ævisögu hans 2003 og umritaði þá, vann nýjan texta úr gömlum. Ég leyndi því hvergi, enda þekkti öll þjóðin þessar æskuminningar. Fyrir þetta var ég ásakaður um ritstuld og hörð hríð gerð að Háskólanum fyrir að reka mig ekki úr starfi. Meðal þeirra sem kröfðust þess að ég yrði rekinn var aðalyfirlesari Máls og menningar, Guðmundur Andri Thorsson, en það fyrirtæki gefur einmitt út bók Sveins. Munurinn á mér og þeim Kamban og Laxness var hins vegar, að ég reyndi hvergi að halda því fram eins og þeir, að þessir textar mínir væru sjálfstætt sköpunarverk. Ekki man ég til þess, að Sveinn Einarsson hafi komið mér til varnar. Öðru nær.

Sveinn Einarsson segir nú hinn hógværasti, að sennilega hafi Kamban lesið bók Lowries. En lauslegur samanburður sýnir vel, að heilu kaflarnir í Ragnari Finnssyni eru sóttir í bók Lowries. Helga Kress benti á þetta í bók um Kamban. En eins og hinn ágæti bókmenntamaður Sveinn Skorri Höskuldsson benti á í ritdómi um bók Helgu, var athugasemd um þessi rittengsl á milli Lowries og Kambans í aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Taldi hann Helgu seka um það, sem kallað er rannsóknarstuldur. Hún léti eins og hún hefði eftir sjálfstæða rannsókn komist að niðurstöðu, sem henni hefði verið bent á.

Helga mótmælti því harðlega, að hún hefði vitneskju sína um þessi rittengsl úr aðfangaskrá Landsbókasafnsins. Og allir, sem þekkja Helgu, vita, að hún hefur gaman af ritum um þjáningar fanga, svo að ekkert er líklegra en hún hafi af sjálfsdáðum lesið bók Lowries og séð á augabragði rittengslin við bók Kambans.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. janúar 2014.)


Árið 2013 gert upp

Hér eru svör mín við spurningum Eyjunnar um árið 2013:

Sigurvegari ársins 2013?

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er hægt og örugglega að þokast upp á við. Hann getur sér traust og virðist vera í góðu jafnvægi. Sá erlendi þjóðarleiðtogi, sem helst vekur traust, er Angela Merkel í Þýskalandi.

Ekki sigurvegari ársins?


Jóhanna Sigurðardóttir beið mesta ósigur í kosningunum 2013, sem nokkur stjórnmálaleiðtogi á Íslandi hefur beðið. Eftir fjögurra ára stjórnarforsæti hennar féll fylgi Samfylkingarinnar úr 30% niður í 13%. Slíkt fylgishrun er einsdæmi í stjórnmálasögu Íslands og þótt víðar væri leitað.

Óvænta stjarna ársins?

Davíð Oddsson sem ræðumaður á frelsiskvöldverði RNH, Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt, 7. október 2013, þegar rétt fimm ár voru liðin frá hinu fræga sjónvarpsviðtali við hann í miðju hruninu. Þegar varð uppselt á kvöldverðinn, og færa varð hann í sífellt stærra húsnæði og sífellt stærri sali, og sátu hann að lokum 141 maður.

PR-slys ársins?

Mál Más Guðmundssonar seðlabankastjóra gegn Seðlabankanum, þar sem hann krafðist þess að fá hærri laun, því að um það hafi verið samið. Már var ráðinn seðlabankastjóri í skjóli nætur, og síðan launaði hann vinnuveitendum sínum með þessum málarekstri, sem varð að vísu sneypuför, því að hann tapaði málinu í Héraðsdómi og Hæstarétti. Már getur hins vegar illa predikað hófsemi í launagreiðslum eftir þetta fáránlega mál.

Það besta sem gerðist á árinu?

Dómur EFTA-dómstóllinn í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi féll Íslendingum í vil í janúar 2013. Íslenski málstaðurinn sigraði. Þetta var stórkostlegur sigur og endahnútur á Icesave-málið. Ísland varð hvorki Kúba norðursins né einhvers konar Norður-Kórea, eins og sumir háskólamenn höfðu haldið fram.

Síðan má nefna, að hagvöxtur á Íslandi fór fram úr áætlunum, eftir að hann hafði árin á undan verið minni en gert hafði verið ráð fyrir. Erlendis lítur út fyrir, að Bandaríkin og Bretland séu að rétta út kútnum. Eins og dr. Nils Karlsson frá Stokkhólmi lýsti í fyrirlestri í janúar 2013, hafa Svíar líka horfið af gömlu sænsku leiðinni, háum sköttum og víðtækri endurdreifingu tekna óháð framlagi, og eru nú feta sig inn á nýju sænsku leiðina, skattalækkanir og aukið svigrúm fyrir einkaframtak.

Það versta sem gerðist á árinu?

Hér innanlands er áhyggjuefni, hversu illa gengur að minnka umsvif ríkisins. Ótal opinberar stofnanir eru reknar, þar sem starfsmennirnir virðast ekki hafa neitt þarfara að gera en sitja fundi hver með öðrum.

Það var mikill missir að því, að Margrét Thatcher, forsætisráðherra Breta 1979–1990, lést á árinu. Hún var ásamt Ronald Reagan í forystu Vesturveldanna, sem sigruðu í Kalda stríðinu. Jafnframt reisti hún Bretland úr rústum.

Hvað gerist 2014 (óskhyggja í bland við raunsæi)?

Íslendingar þurfa að taka aftur upp gott samband við Bandaríkin. Ríkisstjórnin þarf að taka upp nýja utanríkisstefnu og horfa á Atlantshafið og raunar heimshöfin sjö frekar en einblína á meginland Evrópu. Ríkisstjórnin verður að semja við kröfuhafa bankanna og létta gjaldeyrishöftunum af. Hún verður að lækka skatta til að örva atvinnulífið.

(Þessi svör birtust á gamlársdag 2013. Fróðlegt er að lesa þau sjö mánuðum síðar.)


Þeim sást yfir

Haustið 1933 dvaldist Halldór Kiljan Laxness í Barcelona og fékkst við að skrifa Sjálfstætt fólk. Þar var þá staddur Jónas Jónsson frá Hriflu, og bauð sendifulltrúi Íslands í borginni, Helgi P. Briem, þeim Laxness og Jónasi á nautaat. Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur segir í ævisögu Kiljans, sem kom út 2004 (bls. 335): „Þannig atvikast það að Jónas frá Hriflu og Halldór Laxness fara saman á nautaat, en því miður er ekkert vitað meira um þá ferð.“

Ég fléttaði hins vegar inn í bók mína, Kiljan, um ævi Laxness 1932–1949, fjörlega frásögn um þetta sama nautaat, sem Jónas frá Hriflu hafði birt í Dvöl 1934. Frásögnin þótti svo skemmtileg, að hún var endurprentuð í bókinni Langt út í löndin 1944. Lýsti Jónas því með tilþrifum, hvernig naut ráku fyrst hesta riddara á hol í tvísýnum bardögum, en nautabaninn sjálfur birtist síðan í litklæðum og lagði sverð sitt í hjartastað hvers nautsins af öðru.

Nauðsynlegt er að þaulkanna heimildir til að komast hjá vandræðalegum yfirsjónum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég hlustaði á Lemúrinn á Rás eitt 15. október 2013, en þá lýsti Vera Illugadóttir afskekktum eyjum. Hún sagði meðal annars frá Galápagos-eyjum í Kyrrahafi, undan strönd Miðbaugsríkis, Ekvadors. Vera rakti örlagasögu, sem gerðist, eftir að ævintýrakona, sem titlaði sig barónessu, settist að á eynni Floreana 1932.

Það hefur hins vegar farið fram hjá umsjónarmönnum Lemúrsins, að ég birti í 3. hefti Þjóðmála sumarið 2013 ferðasögu mína frá Galápagos-eyjum í júní 2013. Þá hafði ég komist að því, að íslenskur maður hafði flust út í eyjarnar 1931 og borið þar beinin 1945. Hann var einmitt ein helsta frumheimildin um örlagasögu barónessunnar, sem ég endursegi stuttlega í Þjóðmálum. Virðist annar ástmaður barónessunnar hafa drepið hana og hinn ástmanninn, en orðið síðan sjálfur skipreka á eyðiey á leið til meginlandsins og látist úr þorsta ásamt fylgdarmönnum sínum. Bendi ég á, að Georges Simenon notar þessa viðburði sem uppistöðu í skáldsögunni Ceaux de la soif, sem best væri að þýða Hinir þyrstu, og hefur verið gerð sjónvarpsmynd eftir henni. Saga íslenska eyjarskeggjans, sem hét Valdimar Friðfinnsson, er ekki síður ævintýraleg, eins og ég hef minnst hér á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. desember 2013.)


Fundirnir sem ekki voru haldnir

Fræg eru ummæli Björns Sigfússonar háskólabókavarðar: „Þögnin er fróðleg, þó að henni megi ekki treysta um hvert atriði.“ Stundum segja menn margt með því að þegja. Á sama hátt eru tveir fundir, sem boðaðir voru, en ekki haldnir, merkilegir í íslenskri stjórnmálasögu síðari tíma.

Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, MÍR, héldu venjulega hátíðarfund í Reykjavík á afmæli rússnesku byltingarinnar 7. nóvember, enda nutu samtökin ríflegs fjárhagsstuðnings að austan. Miðvikudagskvöldið 7. nóvember 1956 hafði slíkur fundur verið auglýstur á Hótel Borg, og ræðumaðurinn skyldi vera sjálfur Halldór Kiljan Laxness, sem hlotið hafði Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið áður. Hljóta dyggustu ráðstjórnarvinirnir í Sósíalistaflokknum eins og þeir Jón Rafnsson og Eggert Þorbjarnarson, starfsmenn Sósíalistaflokksins, og Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Dagsbrúnar, að hafa hlakkað til. En Kremlverjar gerðu þeim þann óleik að ráðast inn í Ungverjaland nokkrum dögum áður og kæfa í blóði uppreisn gegn kommúnistastjórninni. Hætt var þegjandi og hljóðalaust við fundinn.

Leið nú rösk hálf öld. Íslenskir vinstri menn höfðu haft húsbóndaskipti. Kremlverjar voru farnir veg allrar veraldar, en breski Verkamannaflokkurinn stjórnaði Bretlandi, hafði sett hryðjuverkalög á Íslendinga og krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur greiddu skuldir, sem nokkrir athafnamenn og erlendir viðskiptavinir þeirra höfðu stofnað til. Vildu vinstri menn láta undan þessum kröfum. Þegar því var tvívegis hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslum, settu þeir traust sitt á, að EFTA-dómstóllinn liðsinnti þeim. Úrskurðinn átti að kveða upp 28. janúar 2013. Samfylkingin auglýsti fund miðvikudagskvöldið 30. janúar á Hallveigarstíg, þar sem Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, skyldi vera ræðumaður. En vinstri mönnum að óvörum vann Ísland málið. Þá var birt þessi óborganlega auglýsing: „Ágæti félagi. Áður auglýstum fundi um Icesave-dóminn sem halda átti á Hallveigarstíg 1 annað kvöld, miðvikudagskvöldið 30. janúar, er frestað vegna þess að húsnæðið á Hallveigarstíg er þétt setið þessa dagana vegna landsfundarverkefna og undirbúnings sem honum tengist.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2013.) 


Ástarsaga Gunnars Karlssonar

Fyrir skömmu kom út hefti af tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu, og þar er ritdómur eftir mig um bók Gunnars Karlssonar, fyrrv. prófessors (og gamals kennara míns í sagnfræði), um ástir Íslendinga að fornu. Ritdómurinn er lofsamlegur, eins og vera ber, en ég hjó sérstaklega eftir kenningu Gunnars um samkynhneigð Guðmundar ríka, um leið og ég saknaði frambærilegs greinarmunar á Guðrúnu Ósvífursdóttur og Hallgerði Langbrók. Héðan má hlaða dómnum upp:

https://www.academia.edu/7491716/Leyfileg_ast_og_oleyfileg

 


Þau sögðu það aldrei

Franski rithöfundurinn Voltaire var kunnur að andríki, svo að margt er eignað honum, sem hann á ekki. Ein frægasta setningin er: „Ég er ósamþykkur því, sem þú segir, en ég mun fórna lífinu fyrir rétt þinn til að segja það.“ Voltaire sagði þetta aldrei, heldur er þetta endursögn S. G. Tallentyres (sem hét réttu nafni Evelyn Beatrice Hall) á skoðun Voltaires á því, er bókin Sálin eða D’Esprit eftir Helvetius var brennd opinberlega árið 1759.

Maríu Antoinettu, drottningu Frakklands fram að byltingu, hafa verið eignuð fleyg orð, þegar henni var sagt, að þegna hennar vantaði brauð: „Þá geta þau borðað kökur.“ Hvergi eru til neinar heimildir um, að drottning hafi sagt þetta. Hins vegar hefur heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau nánast sömu orð eftir ónafngreindri prinsessu í Játningum sínum, VI. bók, en þær voru ritaðar, nokkrum árum áður en María Antoinetta kom fyrst til Frakklands.

Ein kunnustu orðin, sem eignuð eru manni ranglega, tengjast líka frönsku stjórnarbyltingunni, sem hófst 14. júlí 1789 með árásinni á Bastilluna í París. Þegar Nixon Bandaríkjaforseti fór til Kína með fríðu föruneyti 1972, var Zhou Enlai, forsætisráðherra Kína, spurður, hvað honum fyndist um áhrif frönsku stjórnarbyltingarinnar. „Það er of snemmt að segja til um það,“ svaraði Zhou. Þetta höfðu margir til marks um djúpa visku hins kínverska stjórnmálamanns, næstráðanda Maós. Talið var, að Kínverjar væru spekingar miklir, sem hugsuðu til langs tíma ólíkt Vesturlandamönnum.

Í ljós hefur komið, að þetta er rangt, eins og dr. Guðni Jóhannesson sagnfræðingur benti mér fyrstur á, en má meðal annars sjá í Financial Times 10. júní 2011. Kínverskar heimildir sýna, að um var að ræða samtal Zhous við öryggismálaráðgjafa Nixons, Henry Kissinger, og Zhou var að svara spurningu um stúdentaóeirðirnar í París 1968, sem sumir æskumenn kölluðu þá byltingu. Bandarískir sendimenn í föruneyti Nixons staðfesta þetta. Verður góð saga hér að víkja fyrir boðorði Ara fróða um að hafa það jafnan, sem sannara reynist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. desember 2013, að mestu leyti sóttur í bók mína, Kjarna málsins, sem fæst í góðum bókabúðum og er tilvalin gjöf á öllum árstímum.)


Nasistar, minningar og mannvonska

Oft er misfarið með fleyg orð. Eitt íslenskt dæmi er af Jóni Þorlákssyni, forsætisráðherra og borgarstjóra. Hann á að hafa kallað nasista, sem létu að sér kveða á fjórða áratug, „unga menn með hreinar hugsanir“. Hið sanna er, að margir þeir, sem stofnuðu Þjóðernishreyfingu Íslendinga vorið 1933, voru alls ekki nasistar, og gerðu þeir kosningabandalag við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórnarkosningunum 1934. Hinir eiginlegu nasistar tóku ekki þátt í því bandalagi. En Jón Þorláksson sagði á Alþingi 22. maí 1933 í andmælum við eina ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu: „Þá gat hann ekki stillt sig um, sem ekki er von, að senda hnútur til þess æskulýðs, sem í ýmsum flokkum og í ýmsum myndum rís upp til að skipa sér með hreinum hugsunum undir fána þjóðarinnar.“ Átti Jón bersýnilega annars vegar við fánalið sjálfstæðismanna, sem starfaði um hríð, og hins vegar við félaga í Þjóðernishreyfingunni, sem þá var nýstofnuð, en skiptist síðan í þá, sem gengu í Sjálfstæðisflokkinn, og hina, sem héldu áfram að vera nasistar.

Einnig má nefna hin kunnu vísuorð Hallgríms Péturssonar í XXII. passíusálmi:

Góð minning öngva gerir stoð,
gilda skal meira Drottins boð.

 

Oft er vitnað í þetta svo: „Góð meining enga gerir stoð.“ En það er rangt. Hallgrímur er hér að tala um venjur eða minningar, sem víkja skuli fyrir Drottins orði.

Þriðja dæmið er í Sturlu sögu, sem gerist á 12. öld. Brandur Sæmundarson, biskup á Hólum, segir við Sturlu Þórðarson í Hvammi, ætföður Sturlunga: „Engi maður frýr þér vits, en meir ertu grunaður um gæsku.“ Oft er þetta haft svo, að Brandur hafi grunað Sturlu um græsku. En hér er sögnin að gruna höfð í fornri merkingu: að hafa efasemdir um eitthvað. Brandur er að segja, að hann efist um gæsku Sturlu eða manngæsku, þótt hann telji hann vissulega slunginn.

Má hér raunar bæta við óskyldri athugasemd. Orðin „manngæska“ og „mannvonska“ eru íslenskulegri en „góðmennska“ og „illmennska“. Ráðstjórnarríkin voru til dæmis „veldi mannvonskunnar“ í munni Reagans (evil empire), og Eichmann í Jórsölum var hin „hversdagslega mannvonska“ holdi klædd (banality of evil), eins og Hannah Arendt komst að orði.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. desember 2013.)


Egill, Jónas og tilvitnanirnar

Bókmenntastjóri Ríkisútvarpsins, Egill Helgason, bloggaði á Eyjunni 6. nóvember 2012 gegn sparnaðartillögum ungra sjálfstæðismanna í ríkisrekstri. Þeir vildu til dæmis, að menn sinntu menningu á eigin kostnað, ekki annarra. Egill kvað þetta minna á nasistann Hermann Göring, sem ætti að hafa sagt: „Þegar ég heyri orðið menning, dreg ég fram skammbyssuna.“ En margir hafa bent á það, þar á meðal ég í bók tveimur árum fyrir blogg Egils, að þetta er rangt haft eftir. Göring sagði þetta hvergi. Þýska leikskáldið Hanns Johst leggur stormsveitarmanni þetta í munn í leikritinu „Schlageter“, sem frumsýnt var 1933. „Wenn ich Kultur höre … entsichere ich meinem Browning.“ Sagnfræðingurinn og byssumaðurinn Egill Stardal fræddi mig á því, að besta íslenska þýðingin væri: „Þegar ég heyri orðið „menning“, spenni ég hanann á byssunni minni!“ Það er síðan annað mál, hversu smekklegt er að líkja sparnaðartillögum í ríkisrekstri, þar á meðal niðurgreiðslum á þjónustu við yfirstétt vinstri manna (fastagestina í Þjóðleikhúsinu), við nasisma. Sitt er hvað, að biðja fólk að vinna fyrir sér sjálft eða að skjóta það fyrir rangar skoðanir.

Margir aðrir jafnfróðir menn Agli hafa raunar misfarið með fleyg orð. Í greinaflokknum „Komandi ár“, sem Jónas Jónsson frá Hriflu skrifaði í Tímann sumarið 1921, skipti hann mönnum í samkeppnismenn, sameignarmenn og samvinnumenn og sagði síðan um frjálsa samkeppni á markaði: „Máttur er þar réttur, eins og Bismarck vildi vera láta í skiptum þjóða.“ Hvort tveggja er þetta rangt. Frjáls samkeppni felst ekki í því, að hinn sterkari troði á öðrum, heldur í hinu, að atvinnurekandi leggi sig fram um að fullnægja þörfum viðskiptavina sinna betur eða ódýrar en keppinautarnir. Og Bismarck sagði hvergi, að máttur væri réttur í skiptum þjóða. Í umræðum í fulltrúadeild prússneska Landsdagsins (þingsins) 27. janúar 1863 kvaðst Maximilian von Schwerin ekki geta skilið ræðu Bismarcks þá á undan öðru vísu en svo, að máttur væri réttur. En Bismarck harðneitaði þá og síðar að hafa sagt þetta. 

Raunar hafa komið út heilu bækurnar um orð, sem mönnum hafa verið lögð í munn, en þeir ekki sagt, og ræði ég nokkrar slíkar tilvitnanir, innlendar og erlendar, í bók minni frá 2010, Kjarna málsins.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2013.)


Valtýr

Morgunblaðið minntist aldarafmælis síns á dögunum, og óskuðu allir því til hamingju með daginn nema Egill Helgason, bókmenntagagnrýnandi Ríkisútvarpsins, sem hneykslaðist á því, að Pósturinn gæfi út frímerki af þessu tilefni. Egill sagði ekkert, þegar Pósturinn gaf út frímerki á hundrað ára afmæli Vísis þremur árum áður, og hafði þó það dagblað hætt að koma út löngu áður! Skemmtilegt var í afmælishófinu að hitta gamla ritstjóra Morgunblaðsins, sem tóku mig í fóstur rösklega tvítugan, þá Styrmi Gunnarsson og Matthías Johannessen, þótt ekki hafi fóstursonurinn fylgt þeim í einu og öllu. En ekki er úr vegi á slíkum tímamótum að minnast Valtýs Stefánssonar, sem var ritstjóri Morgunblaðsins frá 1924 og allt til dánardags 1963. Valtýr var um leið einn aðaleigandi blaðsins og vakinn og sofinn í að bæta það og efla. Hann skildi við það stórveldi á íslenskan mælikvarða, eins og fram kemur í fróðlegri ævisögu hans eftir Jakob F. Ásgeirsson rithöfund.

Valtýr var búfræðingur að mennt, og fræg varð skýring hans í júní 1924 á því, hvers vegna hann sneri sér frá búnaðarstörfum. „Orsakir þessa verða aðallega raktar til starfsemi Jónasar Jónssonar frá Hriflu,“ skrifaði hann. „Þá er bændum landsins unninn mestur greiði, ef arfaflækja Hriflumannsins verður upprætt úr akri íslenskrar bændastéttar og bændamenningar.“ Þótt Jónas frá Hriflu væri um margt snjall og stórhuga, má ekki gleyma því, að eitur draup úr penna hans, auk þess sem hann misbeitti valdi sínu herfilega, um leið og hann fékk til þess tækifæri. Nauðsynlegt var það aðhald, sem Valtýr veitti honum í Morgunblaðinu.

Valtýr kom líka snemma auga á hættuna af kommúnismanum. Hann þýddi til dæmis og endursagði þegar árin 1924 og 1926 merkar greinar Antons Karlgrens, prófessors í slavneskum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, um kúgunina í Rússlandi strax eftir valdarán Leníns. Valtýr þýddi einnig frásagnir breska blaðamannsins Malcolms Muggeridges af hungursneyðinni í Úkraínu 1932–1934, og réðust íslenskir kommúnistar með Halldór Kiljan Laxness í fararbroddi á hann fyrir það. Þá birtist skáldsaga Ayns Rands um Rússland byltingarinnar, Kíra Argúnova, í íslenskri þýðingu í Morgunblaðinu 1949. En allt það, sem þau Karlgren, Muggeridge og Rand skrifuðu um Rússland Leníns og Stalíns, stóðst og hefur verið staðfest, meðal annars í Svartbók kommúnismans.

Þótt Valtýr ætti í hörðum deilum við þá Jónas Jónsson frá Hriflu og Halldór Kiljan Laxness, sem báðir voru ósjaldan stóryrtir í garð hans, komst hann óskemmdur á sálinni frá þeim deilum, enda gat hann sagt með Páli postula: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“


Drýldni

Mörgum þykir gæta nokkurrar drýldni í frásögn Steingríms J. Sigfússonar í nýútkominni bók um það, hvernig hann hafi bjargað Íslandi með þrotlausu erfiði. Talar Steingrímur við íslensku þjóðina í svipuðum anda og alkunn söguhetja úr Brennu-Njáls sögu, Björn í Mörk Kaðalsson, forðum við Kára Sölmundarson: „Hvorki frý eg mér skyggnleiks né áræðis eða nokkurrar karlmennsku. En því munt þú hingað kominn að nú mun fokið í öll skjól.“ Seinna sagði Björn við Kára: „Þetta er hættuför mikil og munu fáir hug til hafa nema þú og eg.“

Steingrímur J. Sigfússon lætur eins og hann hafi verið einn að verki eftir hrun bankanna. Minnir það óneitanlega á hina óborganlega setningu, sem Gísli Sveinsson, forseti Alþingis 1944, lét út úr sér stundarhátt við kunnan Vestur-Íslending, Valdimar Björnsson, að kvöldi 17. júní 1944: „Já, mikið er á eins manns herðar lagt að stofna lýðveldi á Íslandi.“

Sumt í bók Steingríms J. Sigfússonar hljómar raunar eins og setningin, sem Jósep Stalín skrifaði sjálfur inn í stutta ævisögu sína frá 1948: „Enda þótt hann leysti af hendi hlutverk sitt sem leiðtogi flokksins og fólksins af frábærum dugnaði og nyti ótakmarkaðs stuðnings allrar ráðstjórnarþjóðarinnar, lét Stalín aldrei hinn minnsta vott fordildar, drembilætis eða sjálfsaðdáunar lýta starf sitt.“ Skýrði Níkíta Khrústsjov frá þessu framlagi Stalíns til bókmenntanna í leyniræðu sinni 1956.

Þegar Steingrímur J. Sigfússon reynir síðan að bera sig saman við aðra og tilkomumeiri íslenska stjórnmálamenn, getur langminnugum mönnum ekki dottið annað í hug en ummæli Bjarna Jónssonar frá Vogi. Hann bar það við að yrkja, en gerði það stirðlega. Eitt sinn sýndi hann Kristjáni Albertssyni hólgrein um skáldskap sinn í þýsku blaði og sagði um leið: „Þér skuluð ekki halda, ungi maður, að ég hafi einhverjar áhyggjur af Einari Benediktssyni, ef þér eruð eitthvað að ýja að því!“ 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2013.)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband