31.7.2011 | 09:55
Harmleikurinn í Noregi
Harmleikurinn í Noregi er nálægt okkur. Norðmenn eru frændur okkar og grannar. Þess vegna finnum við sterkt til með þeim. Skyndilega er friður hinna norðlægu slóða, okkar og þeirra, rofinn með kúlnahríð. Sá friður hefur að vísu stundum verið rofinn áður, til dæmis á stríðsárunum síðustu, en tilfinningin er engu að síður ónotaleg.
Hugur okkar hlýtur að vera með fórnarlömbunum, saklausu, ungu fólki, sem truflaður maður sviptir snögglega lífinu, en ella hefði það legið beint og bjart framundan í þessu vandræðalausa landi. Hugur okkar hlýtur líka að vera með vandamönnum fórnarlambanna, sem munu þurfa að bera sorgina alla óliðna ævi. Við megum ekki láta neinar íslenskar þúfur byrgja okkur sýn, heldur samhryggjast þeim.
Enska ljóðskáldið John Donne orti:
Enginn maður er eyland, einhlítur sjálfum sér. Sérhver maður er brot af meginlandinu, hluti veraldar. Ef sjávarbylgjur skola moldarhnefa til hafs, minnkar Evrópa, ekki síður en eitt annes væri, engu síður en óðal vina þinna eða sjálfs þín væri. Dauði sérhvers manns smækkar mig, af því ég er íslunginn mannkyninu. Spyr þú því aldrei, hverjum klukkan glymur. Hún glymur þér.
28.7.2011 | 17:26
Báðum skjátlast
Ásgeir Ásgeirsson var forsætisráðherra í miðri heimskreppu, 19321934. Gunnar M. Magnúss skýrir frá því í minningum sínum, að Ásgeir hafi sagt á kosningafundum í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1934: Kreppan er eins og vindurinn. Enginn veit, hvaðan hún kemur eða hvert hún fer.
Þetta er ættað úr Jóhannesarguðspjalli, enda var Ásgeir guðfræðingur að mennt. Þar segir (3, 8): Vindurinn blæs, þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer.
Ásgeiri samdi illa við flokksbróður sinn, Jónas Jónsson frá Hriflu, og er óhætt að segja, að Jónas hafi hrakið hann úr Framsóknarflokknum. Lá Jónasi jafnan illa orð til Ásgeirs. Frægt er, þegar bóndi að vestan hitti fyrst Jónas og síðan Ásgeir í Reykjavíkurför. Þegar Jónas barst í tal við Ásgeir, var hann sanngjarn í máli eins og hans var vandi. Bóndi mælti í undrunartón: Það er fallegt af þér að tala svona vingjarnlega um Jónas frá Hriflu, þar sem hann talar svo illa um þig. Ásgeir svaraði alúðlega: Ef til vill skjátlast okkur báðum.
Þessi saga er ekki verri fyrir það, að hún er gömul. Feneyski kvennamaðurinn Giacomo Casanova, sem uppi var 17251798, sagði í endurminningum sínum, Histoire de ma vie (3. bindi, 21. kafla), frá því, er hann hitti franska háðfuglinn Voltaire í ágúst 1760. Hafði hann orð á því við Voltaire, að því miður talaði svissneski náttúrufræðingurinn Albrecht von Haller ekki eins vel um Voltaire og Voltaire um von Haller. Haha, það getur verið, að okkur hafi báðum skjátlast, svaraði Voltaire brosandi.
Svipað segir af þýska rithöfundinum Tómasi Mann. Útgefandi í München hafnaði handriti eftir hann. Mann sagði: Ég hélt þér væruð listvinur. Útgefandinn svaraði: Ég fæ ekki séð, að þér eða handritið yðar eigi neitt skylt við list. Þá mælti Mann: Þá biðst ég afsökunar. Okkur skjátlast þá sýnilega báðum.
Vestur-íslenska skáldið Káinn orti í sama anda
Einlægt þú talar illa um mig,
aftur ég tala vel um þig.
En það besta af öllu er,
að enginn trúir þér né mér.
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 23. júlí 2011 og er sóttur í marga staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensk, sem er tilvalin gjöf við margvísleg tækifæri.)
24.7.2011 | 23:46
Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju?
Í þriðju viku mars 2011 birti DV nokkrar fréttir um greiðslur Landsbankans til kynningar- og ráðgjafafyrirtækis, sem ég rek. Ekkert var óeðlilegt við þessar greiðslur, þess var sérstaklega getið á heimasíðu verkefnisins, sem styrkt var, að Landsbankinn var styrktaraðili, jafnframt því sem þessar greiðslur komu að sjálfsögðu fram í rekstrarreikningi fyrirtækisins og í skattframtali þess. Þetta var ekkert mál.
Spurningin er hins vegar, hvernig DV barst vitneskja um málið, sem var ekkert mál. Af fréttum blaðsins og þeim spurningum, sem það hafði sent mér, mátti sjá, að blaðamaður DV hafði séð reikninga frá fyrirtæki mínu eða verið sagt frá þeim. Orðalag og upplýsingar, sem DV hafði eftir, voru samkvæmt þessum reikningum, ekki til dæmis samkvæmt færslum bankans. Þessir reikningar voru sendir stafrænt, ekki á pappír, til Landsbankans þrisvar árin 2007 og 2008. Blaðamaður DV hafði ekki séð alla reikningana og vissi ekki, hvort þeir höfðu verið greiddir.
DV gat aðeins borist vitneskja um málið á tvennan hátt. Í fyrsta lagi hefði einhver innan bankans, sem til þess hefði heimild, getað opnað reikningana, þar sem þeir voru geymdir rafrænt, skoðað þá og hugsanlega afritað. En sá hængur er á, að slík opnun og skoðun er ætíð skráð. Hún skilur eftir sig rafræna slóð. Rannsókn Landsbankans á málinu leiddi í ljós, að því er mér er sagt, að ekkert slíkt gerðist.
Í öðru lagi hefði einhver utan bankans getað brotist inn í tölvukerfi hans (ekki ef til vill allt, heldur hluta þess) og leitað að nöfnum eftir fyrirsögn og þá væntanlega fyrirsögn blaðamanna DV. Annað eins hefur gerst. Til dæmis braust ungur maður inn í tölvukerfi fyrirtækis fyrir nokkru, aflaði upplýsinga um ýmis einkamál kunnra íþróttagarpa og stjórnmálamanna og seldi DV.
Ef þetta hefur verið gert, þá hafa þeir, sem hlut eiga að máli, gert hið sama og blaðamenn Ruperts Murdochs í Bretlandi, sem nú sæta rannsókn. Þeir hafa brotist inn í og hlustað á eða skoðað fjarskipti, hvort sem það eru upplýsingar í tölvu eða síma. Mikilvægt er fyrir framvindu málsins, hvort þeir hafa gert það að eigin frumkvæði eða ekki.
Máli skiptir, hvort einhver hefur brotist að utan inn í tölvukerfi Landsbankans og aflað upplýsinga þaðan og síðan selt DV eða hvort blaðamenn DV hafa beinlínis gert út slíkan tölvuþrjót til þess að afla upplýsinga um einstaka menn (til dæmis mig) og greitt honum fyrir. Sök blaðamanna er vitanlega mikil í báðum tilvikum, en þó miklu beinni og meiri í hinu síðarnefnda. Lilja Skaptadóttir er aðaleigandi blaðsins. Hún leggur DV til fé. Án hennar hefði það fyrir löngu hætt útkomu. Hún er ábyrg fyrir greiðslum til slíkra verkefna. Þær eru úr vasa hennar. Hvenær yfirheyrir lögreglan Lilju um málið?
21.7.2011 | 11:44
Geir og Maó
Ég skulda Geir Sigurðssyni svar við gagnrýni hans á mig hér á Pressunni 30. júní 2011. Ég hafði bent á það í einum pistli mínum eftir lestur bókarinnar Maos Great Famine eftir Frank Dikötter, að sum skjalasöfn í Kína væru lokuð öðrum en þeim fræðimönnum, sem væru í náðinni hjá stjórnvöldum þar eystra. Geir ætti, bætti ég við, að reyna að fá aðgang að einhverjum þeirra og gera þannig fræðunum gagn. Þessa vinsamlegu ábendingu tók Geir óstinnt upp og skrifaði langt mál um hlutverk og skyldur fræðimanna.
Geir falsar að vísu í gagnrýni sinni skoðanir mínar. Hann segir, að ég hafi andmælt því að taka verk Maós til skoðunar á fræðilegum ráðstefnum. Það hef ég ekki gert. Ef eitthvað er, þá þyrfti að rifja upp fleira um þennan kúgara fjölmennustu þjóðar heims, halda margar fræðilegar ráðstefnur um ódæði hans. Ég andmælti því hins vegar í Fréttablaðinu 1. desember 2007 að halda ráðstefnu undir þeim formerkjum, eins og Háskóli Íslands gerði í nóvember það ár, að Maó væri eins og hver annar stjórnmálamaður.
Maó var ódæðismaður, böðull, níðingur, fjöldamorðingi, líklega afkastamesti fjöldamorðingi sögunnar. Ég benti á það í grein minni fyrir fjórum árum, að eitthvað hefði verið sagt, hefði verið haldin í Háskóla Íslands ráðstefna um Hitler, þar sem forsvarsmenn hennar hefðu sagt (eins og þeir gerðu 2007 í tilefni ráðstefnunnar um Maó), að hlutlæg umræða um Hitler væri nauðsynleg. Síðan hefði verið bætt við, eins og þeir gerðu: Í því samhengi er svo mikilvægt að forðast að fordæma hvaðeina sem fyrir augu og eyru ber. Því okkar er ekki að fordæma þar sem við getum ekki sett okkur almennilega í spor þeirra sem bæði urðu fyrir hremmingum á þessu tímabili og þeirra sem stjórnuðu þeim.
Jú, þið miklu ráðstefnuhaldarar, Geir Sigurðsson og félagar: Við eigum einmitt að fordæma Hitler. Já, og við þurfum að geta sett okkur í spor fórnarlambanna, ekki aðeins gyðinganna, sem fórust í helförinni, heldur líka allra hinna fórnarlamba nasista. Og í því sambandi megum við ekki heldur gleyma þýsku fórnarlömbunum, þeim hátt í tíu milljónum manna, sem reknar voru út úr Póllandi og Tékkóslóvakíu eftir stríð.
Á sama hátt eigum við að fordæma Maó og reyna að setja okkur í spor fórnarlamba hans. Blóðbað var í landinu strax eftir valdatöku kommúnista, en þá voru 12 milljónir manna drepnar. Talið er, að hátt í fjörutíu milljónir manna hafi týnt lífi í hungursneyðinni, sem skall á eftir Stóra stökkið fram á við. Ekki er vitað, hversu margir aðrir voru teknir af lífi eða féllu úr vosbúð í þrælabúðum kínverskra kommúnista, laogai, sem er meðal annars lýst í Svartbók kommúnismans.
Á ráðstefnunni um Maó var lesið upp úr ljóðum hans. Hvað hefði verið sagt, hefði á ráðstefnu um Hitler verið haldin sýning á vatnslitamyndum hans honum til heiðurs?
Ég vék lítillega í pistli mínum að nýlegum og mjög neikvæðum ritdómi Geirs í Sögu um ævisögu Maós eftir þau Jung Chang og John Halliday. Þar finnur hann þessu riti þeirra allt til foráttu. Það er bannað í Kína eins og fyrri bók Jung Chang, Villtir svanir, afbragðsverk. Ég skal játa, að sú hugsun sótti á mig, þegar ég las ævisöguna, að höfundarnir væru afar fjandsamlegir Maó. Var ekkert gott um hann? Þótt mig skorti sérþekkingu á kínverskri sögu, finnst mér þó blasa við, að ritið er fræðilegt afrek. Þau hjón hafa dregið saman ótrúlegan fróðleik um þennan grimma alræðisherra, bjargað margvíslegri vitneskju frá gleymsku. Gildir þá einu, þótt Jung Chang kunni eins og Solzhenítsyn í Rússlandi forðum að vera knúin áfram af reiði í garð kúgara síns.
Ótrúlegt var líka að lesa það, sem Viðar Hreinsson sagnfræðingur sagði, þegar Jung Chang var gestur bókmenntahátíðar í Reykjavík haustið 2007: Hátíðin væri reaksjonær kaupstefna og verk hennar um Maó níðrit. Þetta var mjög í sama anda og skrif Geirs Sigurðssonar, fyrst til varnar ráðstefnunni um Maó, síðan gegn bók Jung Chang og Johns Hallidays. Ég tel, að Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur, sem skipulagði hátíðina, eigi einmitt heiður skilinn fyrir að hafa boðið Jung Chang á hana.
Ég vissi, að íslenskir kommúnistar vilja öllu gleyma. En hafa þeir ekkert lært?
Ég tel hins vegar, að pistill Geirs Sigurðssonar sé áskorun. Ég ætla að taka henni og senda Sögu rækilegt svar við ritdómi hans, strax og ég kem því við. Fróðlegt verður að vita, hvort það verður birt þar eða hvort það verður bannað þar eins og rit Jung Chang er í Kína.
Og þeim Geir Sigurðssyni, Viðari Hreinssyni og öðrum úrtölumönnum um að nefna hlutina réttum nöfnum svara ég aðeins einu: Þið segið, að ég sé litaður. Það getur vel verið. Ég vil einmitt vera eins á litinn og allir þeir, sem ofsóttir eru.
18.7.2011 | 17:49
Tilsvör Ólafs og Churchills
Winston Churchill, sem tvisvar var forsætisráðherra Breta, var annálaður orðhákur. Hann var náfrændi hertogans af Marlborough, sem átti höllina Blenheim, skammt frá Oxford. Eitt sinn var Churchill þar staddur í samkvæmi ásamt lafði Nancy Astor, sem fyrst kvenna settist á breska þingið. Þeim sinnaðist, og sagði lafði Astor reiðilega: Væri ég konan þín, Winston, þá myndi ég láta eitur út í kaffið þitt. Churchill svaraði að bragði: Væri ég maðurinn þinn, Nancy, þá myndi ég drekka það.
Í annað skipti hélt Churchill ræðu í breska þinginu, í Westminster-höll við Tempsá. Þá kallaði einn þingmaður Verkamannaflokksins, Bessie Braddock, fram í fyrir honum: Þér eruð drukknir! Churchill svaraði: Og þér, frú mín góð, eruð ljótar. En það verður runnið af mér í fyrramálið.
Ólafur Thors, sem fimm sinnum var forsætisráðherra á Íslandi, kunni ekki síður en Churchill að svara fyrir sig. Í einu tilsvari hans kemur Churchill við sögu. Ólafur hafði haustið 1944 myndað stjórn Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks. Um þær mundir stóð heimsstyrjöldin síðari sem hæst, en í henni börðust Bretar og Bandaríkjamenn við hlið Rússa. Var þá dátt með ráðamönnum í Washington, Lundúnum og Moskvu. Eftir stríð kólnaði í milli þeirra. Sagði bandarískur sendimaður þá við Ólaf: Hvernig stendur á því að þér hafið tekið kommúnista í stjórn hér? Ólafur svaraði: Þeir höfðu svo góð meðmæli. Sendimaðurinn spurði undrandi: Frá hverjum? Ólafur svaraði: Frá Roosevelt og Churchill.
Ólafur naut sín vel á kosningafundum. Á fundi í Keflavík, sennilega fyrir kosningarnar 1949, kallaði einn fundarmanna: Það er ég viss um, Ólafur, að þú þekkir ekki einu sinni muninn á þorski og ýsu! Ólafur svaraði: Ég þekki þó að minnsta kosti muninn á þér og þorski, og það er meira en margur gerir!
Vorið 1958 riðaði vinstri stjórn Hermanns Jónassonar til falls. Á fundi sagði þá flokksbróðir Ólafs: Við sjálfstæðismenn þurfum að vera við öllu búnir, ef stjórnin segir af sér. Ólafur svaraði snöggur upp á lagið: Ætli hún svíkist ekki um það eins og annað? Reyndist hann sannspár í bili. Stjórnin lafði til haustsins.
17.7.2011 | 16:07
Hvers vegna leiðréttir Gljúfrasteinsliðið ekki villurnar?
Íslenska ríkið keypti sem kunnugt er Gljúfrastein í forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar fyrir ærið fé Nóbelsskáldinu til heiðurs. Er þar vinsælt safn í minningu Halldórs Kiljans Laxness, eins og vera ber. Þegar ég hef skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur, hefur það verið eftirsóttur áningarstaður. Hefur gestum mínum jafnan verið tekið þar af ljúfmennsku.
Safnið er með heimasíðu, og þar eru ýmsar skemmtilegar myndir birtar af skáldinu. Ég hef fyrir löngu bent starfsliðinu í tölvuskeytum á tvær villur í myndatextum, og hið rétta um þær getur að líta í bókum mínum um Laxness, sem komu út 20032005. Ég sá hins vegar, þegar ég fletti heimasíðunni í dag, að villurnar hafa ekki verið leiðréttar. Veit ég ekki, hvort ég nenni að skrifa starfsliðinu í annað skipti um þetta. Villurnar eru ekki stórar, en villur þó.
Þær eru báðar í myndasyrpu um Laxness á fullorðinsárum. Önnur myndin er af honum að tala á útisamkomu 1. maí. Á heimasíðunni segir, að þetta sé 1937. En ég benti starfsliðinu á, að þetta er 1936. Þessi villa hefur gengið aftur í mörgum ritum. Nú má fletta þessu upp í Verklýðsblaðinu 4. maí 1936 á timarit.is (þar sem skoða má gömul blöð á Netinu). Þar blasir þessi mynd við á forsíðu.
Hin myndin er af Laxness og Gunnari Gunnarssyni (sem hvor um sig sýndi hinum jafnan fyllstu kurteisi, því að báðir voru sannfærðir um, að hinn væri næstbesti rithöfundur landsins). Á heimasíðunni segir, að myndin sé tekin á Skriðuklaustri í Fljótsdal sumarið 1947 og ljósmyndari sé ekki þekktur. En ég hef það fyrir satt, að hún hafi verið tekin á Laugum 1941, og ljósmyndari hafi verið Arnór Sigurjónsson. Raunar sést af ljósmyndinni, að hún er talsvert eldri en frá 1947 (skáldin eru bæði unglegri) og að hún er ekki tekin á Skriðuklaustri (bakgrunnur þar er allt öðru vísi en á Laugum).
Auðvitað getur starfslið Gljúfrasteins látið eins og bækur mínar þrjár um Nóbelsskáldið, þar sem ég reyndi eftir bestu samvisku að draga saman fróðleik um það og skipa niður í liðlega og samfellda frásögn, séu ekki til. En það getur ekki látið eins og augljósar staðreyndir sem þessar séu ekki til.
14.7.2011 | 15:06
Viðtal við mig í Morgunblaðinu
Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður tók við mig opnuviðtal í Morgunblaðið laugardaginn 2. júlí 2011 vegna bókar, sem ég hef unnið að í mörg ár og kemur út í októberbyrjun undir nafninu Íslenskir kommúnistar 19181998.
Upphaflega ætlaði ég ekki að skrifa sérstaka bók um þetta efni, heldur semja viðauka um íslenska kommúnista við Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og Háskólaútgáfan gaf út haustið 2009. En hvort tveggja var, að efnið óx í höndum mér og ég þurfti að rannsaka margt upp á nýtt, sem missagt hafði verið um íslenska kommúnista, einkum í hinu óvandaða verki Jóns Ólafssonar, Kæru félögum, þar sem allt morar í villum, yfirsjónum og ónákvæmni.
Hefur dr. Þór Whitehead þó leiðrétt margar missagnir um íslenska kommúnista í stórfróðlegri bók sinni, Sovét-Ísland. Óskalandið, sem kom út haustið 2010, en sjónarhorn hans er dálítið annað en mitt, auk þess sem frásögn hans nær ekki nema til ársins 1946. Studdist hann eins og ég geri líka við merkilegar frumrannsóknir Snorra G. Bergssonar sagnfræðings á ýmsum þáttum þessa máls.
Óhætt er að segja, að margt nýtt og forvitnilegt komi fram í bók minni. Setja þarf hina íslensku kommúnistahreyfingu í alþjóðlegt samhengi: Hún var þáttur í hinni alþjóðlegu hreyfingu. Íslenskir kommúnistar voru hvorki meiri né minni kommúnistar en gekk og gerðist annars staðar.
Þrátt fyrir allt hef ég nokkra samúð með íslenskum kommúnistum, sem sáu æskuhugsjónir sínar hrynja, og vil ekki vera ósanngjarn við þá. Faðir minn hafði ungur orðið kommúnisti og starfað í Æskulýðsfylkingunni, en hann var mannblendinn, skrafhreyfinn og góðgjarn og manna ólíklegastur til að taka þátt í kúgun og ofbeldi. Þeir Ingi R. Helgason og Guðmundur J. Guðmundsson, sem voru af sömu kynslóð í Sósíalistaflokknum, komu stundum á heimilið, þegar ég var í æsku. Voru þeir hinir elskulegustu menn í viðkynningu. Stundum var lítil og lagleg hnáta með Inga, sem hét Álfheiður.
Kolbrún spurði mig ýmissa erfiðra spurninga, eins og hennar var von og vísa, og reyndi ég að svara eftir fremsta megni. Viðtalið er aðgengilegt á Netinu hinum sífjölgandi áskrifendahóp Morgunblaðsins.
9.7.2011 | 13:23
Ritgerð mín í Þjóðmálum
Óhætt er að mæla með tímaritinu Þjóðmálum, sem kemur út fjórum sinnum á ári undir skeleggri ritstjórn Jakobs Ásgeirssonar, stjórnmálafræðings og rithöfundar. Nú er sumarheftið nýkomið út (2. hefti 7. árgangs), og kennir þar margra grasa.
Ég á þar rækilega ritgerð (bls. 6980), sem nefnist Raddir vorsins fagna. Heitið vísar til bókar Rachel Carsons, Raddir vorsins þagna, en með henni hófst umhverfisverndarhreyfing okkar daga. Carson hafði rétt fyrir sér um það, að okkur ber að vernda umhverfið, en hún ýkti hættuna af eiturefnum eins og DDT, sem geta verið þörf á sínu sviði. Til dæmis tókst víða að útrýma mýraköldu, malaríu, með DDT.
Í þessari ritgerð fer ég yfir hrakspár, sem settar voru fram í fjórum fyrstu ritunum um umhverfismál á íslensku, 19641974, bók Carsons, síðan Óbyggð og allsnægtum, þá Endimörkum vaxtarins og loks Heimi á helvegi. Nú eru liðnir nokkrir áratugir frá útkomu þessara bóka. Skemmst er frá því að segja, að þessar hrakspár hafa ekki ræst. Hugkvæmni mannsins hefur reynst miklu meiri en höfundar þessara rita trúðu. Gerir Björn Lomborg raunar ágætlega grein fyrir þessu í bók sinni, Hinu sanna ástandi heimsins.
Stephan G. orti, að í hrakspám væri oft fólgin ósk um vondar afleiðingar. Ég held, að önnur skýring sé líka til á hrakspám. Hún er, að þær séu settar fram til að ná völdum. Spámennirnir hræða okkur með einhverju óskaplegu, sem gerist, ef við flýtum okkur ekki að afhenda þeim völdin. Þeir láta eins og við séum í lífshættu og þurfum að rjúka niður í björgunarbátana undir leiðsögn þeirra.
Einnig er augljóst, að sumir setja fram hrakspár í ávinningsskyni. Þeir vilja fá fé til rannsókna sinna: Sögulegra er, að maður bíti hund en að hundur bíti mann, forvitnilegra, að heimurinn sé að farast, en muni ekki standa áfram. Þetta kom til dæmis nýlega fram í tölvuskeyti, sem fór fyrir misgánings til blaðamanns, þar sem höfundur skýrslu um ástand fiskistofna benti starfssystkinum sínum á, að þau gætu vakið athygli fjölmiðla með því að setja fram spá um yfirvofandi hrun þeirra, en annars yrði ekki á þau hlustað.
Einnig má minna á hneykslið, þegar því var haldið fram án haldbærra gagna, að jöklar væru að bráðna í Himalajafjöllum, og nýjasta dæmið er sú spá, sem sett var fram af einni stofnun Sameinuðu þjóðanna árið 2005, að tugmilljónir umhverfisflóttamanna yrðu skjögrandi um jörðina árið 2010.
Ritgerð mín er þáttur í rannsóknarverkefni, sem ég hef umsjón með í Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og nefnist Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting. Vinn ég það í samstarfi við þrjár rannsóknarstofnanir í Bandaríkjunum og Brasilíu.
Niðurstaða mín í þessari ritgerð er, að okkur beri að vernda umhverfið, en ekki friða það. Við eigum frekar að bæta það en friða, og það gerum við best með tækninýjungum og skynsamlegum leikreglum, til dæmis skilgreiningu eignaréttinda. Með því getum við tekið umhverfið með í reikninginn, gert fólk ábyrgð fyrir umhverfisspjöllum, en það, sem allir eiga, ber enginn ábyrgð á.
6.7.2011 | 17:30
Snordal
Þótt Sigurður Nordal prófessor væri einn óumdeildasti Íslendingur tuttugustu aldar, létu gárungarnir hann ekki í friði. Á skólaárum sínum ritaði hann nafn sitt fyrst S. Nordal. Þá tóku skólabræður hans upp á því að kalla hann Snordal. Sigurður breytti nafninu í Sig. Nordal. Þá nefndu skólabræðurnir hann Signor Dal. Eftir þetta ritaði Sigurður jafnan nafn sitt fullt. Raunar kom norrænufræðingurinn Signor Dal fyrir í skopblaðinu Speglinum á fjórða áratug.
Nordal var að öllu jöfnu friðsamur, en lét samt ekki hlut sinn fyrir neinum, eins og hörð ritdeila hans við Jónas Jónsson frá Hriflu í upphafi fimmta áratugar ber vitni um.
Hann átti enn fremur til að gera neyðarlegar athugasemdir um menn. Til dæmis sá hann eitt sinn menn hópast að Jóni Helgasyni prófessor í sendiherrabústaðnum í Kaupmannahöfn, en þá var Nordal sendiherra þar. Þá sagði hann: Til eru tvenns konar fræðimenn, þeir, sem dettur eitthvað í hug, og hinir, sem vitna til þeirra. Jón Helgason þótti stafkrókafræðingur, nákvæmur, en ekki frumlegur.
Nordal sagði um Halldór Kiljan Laxness: Ég er að vísu ekki einn þeirra, sem lesa orðabækur eins og reyfara. Hefur Nordal eflaust verið sömu skoðunar og Þórbergur Þórðarson, sem gagnrýndi Kiljan fyrir tilgerð og kallaði stíl hans hriflingabjargastíl, þar eð hann ofnotaði sjaldgæf orð og skrýtin.
Fyrsti nemandinn, sem Sigurður brautskráði í norrænum fræðum, var Vilhjálmur Þ. Gíslason, síðar útvarpsstjóri. Sigurður var þó enginn aðdáandi Vilhjálms og sagði eitt sinn: Nú, er hann ekki allra manna kjalfróðastur? Kjalfróðir eru þeir menn kallaðir, sem hafa lesið á fleiri bókartitla en í bókunum sjálfum.
Ég veit hins vegar ekki, um hvern Nordal sagði góðlátlega: Ég ætla að trúa honum, meðan hann lifir. En mér er sagt, að sá hafi verið kunnur, erlendur fræðigarpur, sem hafi þótt heldur djarfur í kenningum. Kann einhver lesandi skil á manninum?
(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 2. júlí 2011 og sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010 og er enn sem fyrr tilvalin tækifærisgjöf.)
5.7.2011 | 13:24
Nashyrningar
Ég skrifa grein um nashyrninga í Vísbendingu, 23. tbl. 29. árg., 20. júní 2011, bls. 3. Nánar tiltekið er greinin um það, hvernig koma megi í veg fyrir útrýmingu nashyrninga. Sumir vilja fara leið friðunar, en ég tel leið verndunar greiðfærari að þessu sama marki: Íbúar á slóðum nashyrninganna á gresjum Afríku (eða félög þeirra) megi nýta þá, en við það öðlast þeir hagsmuni af því að vernda þá. Verndun krefst verndara. Breyta verður veiðiþjófum í veiðiverði.
Greinin er einn þátturinn í rannsóknarverkefni, sem ég hef umsjón með í Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og heitir Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting.