16.7.2014 | 11:00
Myndbönd um Kolkrabbann og Baugsklíkuna
Ég flutti erindi á málstofu í Viðskiptadeild þriðjudaginn 5. nóvember 2013 um það, hvort Kolkrabbi hefði löngum ráðið íslensku atvinnulífi ásamt fjölskyldunum fjórtán, eins og dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir hefur haldið fram. Einnig ræddi ég um þá kenningu hennar, að Eimreiðarhópurinn hefði síðan tekið við sem valdaklíka, og vísaði ég þvi á bug með ýmsum rökum. Enn fremur gerði ég að umtalsefni árin 20042008, þegar Jón Ásgeir Jóhannesson hafði hér mestöll völd og Baugspennarnir fóru mikinn. Ég benti á það, að Ísland naut þá mikils lánstrausts vegna hinnar skynsamlegu stefnu, sem fylgt var árin 19912004, þegar verðbólga hjaðnaði niður í hið sama og í grannlöndunum, andvirði seldra ríkisfyrirtækja var notað til að greiða upp skuldir ríkissjóðs, skilvirkt og arðbært fiskveiðistjórnunarkerfi var fest í sessi, sjálfbært og traust lífeyrissjóðakerfi fékk að myndast, skattar voru lækkaðir og réttindi einstaklinga aukin með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum.
Ég sýndi línurit, sem ég sótti í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, um skuldasöfnun viðskiptasamstæðnanna þriggja, sem mest kvað að upp úr 2000, Baugsklíkunnar, Exista-hópsins og Björgólfsfeðga. Þar kemur fram, að Baugsklíkan var í sérflokki um skuldasöfnun. Í samanburði við hana fóru hinir hóparnir tveir gætilega. Baugsklíkan var líka í sérflokki um það, að hún var mjög virk í stjórnmálabaráttunni. Hún keypti upp einkamiðlana og sigaði þeim miskunnarlaust á þá, sem hún taldi sér ekki hliðholla. Sú er kaldhæðni örlaganna, að Jón Ásgeir nýtti hið mikla lánstraust, sem Davíð Oddsson hafði skapað erlendis, til þess að berjast gegn Davíð af öllu afli. Má ef til vill hafa sömu orð um það og gert var, þegar Tryggvi Þórhallsson fór í framboð gegn Jónasi Jónssyni frá Hriflu: Sjaldan launar skepnan skaparanum. Illt er einnig til þess að vita, að margt duglegt og gott fólk í bönkum og útrásarfyrirtæki skuli hafa fengið á sig óorð vegna einnar klíku. Ekki á að fordæma allt viðskiptalífið fyrir bankahrun vegna þess, sem Baugsklíkan gerði ein.
Hér er viðtal, sem netsjónvarp Morgunblaðsins tók við mig eftir málstofuna:
Hér sést, í hvað eitthvað af því mikla fé, sem Baugsklíkan tók út úr bönkunum, rann::Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 07:07 | Slóð | Facebook
15.7.2014 | 19:00
Hún ögrar viðteknum viðhorfum
Hver er vinsælasti kvenrithöfundur heims? Hver er um leið áhrifamesti kvenheimspekingur heims? Hún er rússnesk-bandaríski rithöfundurinn Ayn Rand, en bækur hennar hafa selst í 30 milljónum eintaka um allan heim.
Nú er komin út skáldsagan Kíra Argúnova eftir hana á íslensku með eftirmála um Rand, ævi hennar og verk, eftir Ásgeir Jóhannesson, lögfræðing og heimspeking. Af því tilefni talaði kunnur mælskusnillingur, dr. Yaron Brook, forstöðumaður Ayn Rand-stofnunarinnar í Kaliforníu, um Rand og kenningar hennar, meðal annars um vörn hennar fyrir sjálselsku og kapítalisma. Fundurinn var 1. nóvember 2013 kl. 17.15 í stofu N-132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.
Kíra Argúnova birtist fyrst á íslensku sem framhaldssaga í Morgunblaðinu 1949, en Frosti Logason útvarpsmaður bjó hana til prentunar, og var það þáttur í B.A. ritgerð hans í Háskóla Íslands undir minni umsjón. Þrátt fyrir nokkra eftirgrennslan er ekki vitað, hver þýddi hana, en farið var vandlega yfir þýðinguna, sem er samt lipur og aðgengileg.
Þess má líka geta, að útvarpsleikritið Aðfaranótt sautjánda janúar eftir Rand hefur að minnsta kosti tvisvar verið flutt í Ríkisútvarpinu í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar.
Guðmundur Ólafsson hagfræðingur segir á bókarkápunni um Kíru Argúnovu: Raunsönn lýsing á rússneskum örlögum. Kolbrún Bergþórsdóttir bókmenntaskýrandi segir: Mesta bókmenntaverkið af sögum Rands. Ég vona, að þau Guðmundur og Kolbrún lendi ekki í neinum útistöðum við Egil Helgason sjónvarpsmann, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, Stefán Snævarr heimspekiprófessor og fleiri vinstri sinnaða menntamenn, sem hafa keppst við síðustu daga að fordæma verk Ayns Rands. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken sagði um þessa bók, að hún væri frábær.
Hér er stórfróðlegt viðtal sjónvarpsmannsins Mikes Wallaces við Ayn Rand frá 1959 í þremur hlutum:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 06:59 | Slóð | Facebook
15.7.2014 | 14:00
Tuggur Stefáns hraktar
Stefán Ólafsson prófessor fer með sömu tuggurnar á bloggi sínu og hann hefur gert á Íslandi síðustu þrjátíu árin að minnsta kosti. Hann varar við auðræði. En hvar var Stefán, þegar hér var raunverulegt auðræði árin 20042008? Tók hann þá undir með Davíð Oddssyni, sem bar fram fjölmiðlafrumvarp vorið 2004, svo að ein auðklíka réði ekki aðeins yfir tveimur þriðju smásölumarkaðarins, heldur líka bönkum, tryggingafélögum og öllum einkamiðlum? Gagnrýndi hann Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir að ráðast í hinni alræmdu Borgarnesræðu á lögregluna, sem var aðeins að sinna skylduverki með því að rannsaka kæru frá Jóni Gerald Sullenberger á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni? Ónei. Ónei.
Stefán hefur lítið lært, frá því að hann bar upp sömu spurningarnar við Milton Friedman 1984 fyrir tuttugu og níu árum og nú í daglegu bloggi sínu. Hér er stutt sýnishorn af því, hvernig Friedman svaraði honum:
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 06:58 | Slóð | Facebook
15.7.2014 | 11:00
Egill Helgason og Kommúnistaávarpið
Þetta er stefið í bók Ayns Rands, Undirstöðunni, sem er um leið læsileg skáldsaga. Hvað myndi gerast, ef þeir, sem skapa verðmætin, hætta að nenna að deila þeim með hinum, sem ekki skapa verðmætin?Í Kommúnistaávarpinu segir, að öll saga mannkynsins hafi fram að þessu verið saga um stéttabaráttu. En er hún ekki saga um baráttu hinna talandi stétta við hinar vinnandi stéttir, um baráttu þeirra, sem sníkja, við hina, sem skapa?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 06:58 | Slóð | Facebook
14.7.2014 | 23:45
Five Years On: 2008-2013
(Grein í Grapevine fimm árum eftir bankahrunið 7. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:57 | Slóð | Facebook
14.7.2014 | 16:00
Sigurbjörg biðst afsökunar og leiðréttir ummæli sín
Dr. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og prófessor Robert Wade hafa í ýmsum erlendum blöðum haft eftirfarandi setningu eftir mér innan gæsalappa: Oddssons experiment with liberal policies is the greatest success story in the world. Eða á íslensku: Frjálshyggjutilraun Davíð Oddssonar er saga um mesta árangur í heimi. Á ég að hafa skrifað þessi hrifningarorð í Wall Street Journal 29. janúar 2004 um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar.
Frásögn Sigurbjargar og Wades hefur birst í New Left Review, Monde diplomatique, Huffington Post, Cambridge Journal of Economics og öðrum blöðum og tímaritum, á ensku, þýsku, frönsku, spænsku, portúgölsku og ítölsku og eflaust fleiri málum.
En ég sagði þetta alls ekki í Wall Street Journal 29. janúar 2004. Þau orð, sem Sigurbjörg og Wade hafa beint eftir mér og setja innan gæsalappa, er hvergi að finna í greininni, sem hefur frá upphafi verið aðgengileg á Netinu. Greinin í Wall Street Journal var skrifuð í tilefni af 100 ára heimastjórn á Íslandi, og þar segi ég, að Ísland sé komið í fremstu röð um almenna velmegun eftir róttækar og umfangsmiklar umbætur í átt til aukins frelsis, sem eigi sér helst hliðstæður í Bretlandi Thatchers, Nýja Sjálandi og Síle. Ég bæti við í næstu málsgrein, að þessi góði árangur sé ekki síst að þakka Davíð Oddssyni, sem hafi nú lengst allra vestrænna stjórnmálamanna verið forsætisráðherra.
Eftir að ég sneri mér til Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur og kvartaði undan hinni röngu tilvitnun þeirra Wades í mig, hefur hún bréflega beðist afsökunar á tilvitnuninni og boðist til að leiðrétta villu sína í þeim blöðum og tímaritum, sem hafa birt hana. Viðurkennir hún, að þeim Wade hafi orðið á mistök með því að setja gæsalappir utan um þessa setningu eins og um beina tilvitnun væri að ræða. Segir hún til skýringar, að þau Wade hafi tekið þessa setningu eftir þriðja aðila, en ekki flett frumheimildinni upp.
Ég hef samþykkt þessi málslok, enda hefur Sigurbjörg beðist afsökunar á að hafa haft rangt eftir mér og boðist til að leiðrétta þetta, þar sem það hefur birst. Tel ég það nægja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:56 | Slóð | Facebook
13.7.2014 | 11:33
Ómálefnalegur Evrópusambandssinni
Ég er Evrópusinni. Ég er Evrópusambandssinni fyrir margar þjóðir, þar á meðal Frakka og Þjóðverja, sem loks eru hættir að berjast, og fyrir Eistlendinga, sem þurfa skjól gegn stórum og óbilgjörnum grönnum. En ég er ekki Evrópusambandssinni fyrir Íslendinga, sem þurfa aðgang að opnum markaði, en ekki aðild að lokuðu ríki.
Síðustu misseri hefur dunið á okkur áróður fyrir Evrópusambandsaðild, sem Evrópusambandið hefur kostað. Gestir hafa streymt hingað og haldið fyrirlestra í Háskóla Íslands um það, hversu dásamlegt sé fyrir smáríki að vera í Evrópusambandinu. Þeim hefur verið tekið af fullri kurteisi. Á þá hefur ekki verið ráðist ómálefnalega.
Nú bregður svo við, að fyrrverandi aðalendurskoðandi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Marta Andreasen, kemur og flytur fyrirlestur um vonbrigði sín af sambandinu og um hina víðtæku spillingu og bókhaldsóreiðu innan þess. Menn þurfa ekki að vera sammála Mörtu um allt til þess að viðurkenna, að sjónarmið hennar eru forvitnileg.
En nú ráðast Evrópusambandssinnar eins og einn bloggarinn á Eyjunni, Elvar Örn Arason, á hana fyrir fyrrverandi samstarfsfólk hennar! Hann kom ekki á fundinn með henni, svo að ég yrði var við, og hann reynir ekki að svara rökum hennar, sem sett voru fram í Sjónvarpinu, en einnig í skrifuðum fyrirlestri hennar.
Hvers vegna svara þessir menn ekki rökum og sjónarmiðum Andreasens, til dæmis að mikil spilling sé í ESB, að reikningar sambandsins hafi ekki verið endurskoðaðir síðustu átján árin, að féð, sem rann í styrki til Grikklands og Spánar, hafi horfið, að þjóðir með stóran fiskveiðiflota muni ásælast Íslandsmið, að skriffinnarnir í Brüssel, sem hún kynntist í sínu háa embætti, hafi engan áhuga á lýðræði, heldur aðeins á eigin völdum?Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Slóð | Facebook
13.7.2014 | 11:31
Evrópusambandið, Kýpur og Færeyjar
Því er haldið fram, að Ísland þurfi skjól. Það er rétt. Vegna skjólsins af Bandaríkjamönnum gátum við rekið Breta í áföngum af Íslandsmiðum, þar sem þeir höfðu veitt frá 1412. Og vegna þess, að við höfðum ekki lengur skjólið af þeim, féllu bankarnir íslensku haustið 2008, eins og ég á eftir að sýna betur.
En skjól geta verið misjöfn. Kýpur er á evrusvæðinu. Nú sætir Kýpur afarkostum til þess að fá neyðarlán frá þríeykinu, Evrópusambandinu, Evrópska seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fé innstæðueigenda er að nokkru leyti gert upptækt. Seðlabankar Evrópu og Bandaríkjanna dældu hins vegar fé í önnur lönd, til dæmis Danmörku og Sviss, þegar talin var alþjóðleg kerfisáhætta af falli bankakerfa þeirra. En Kýpur er eins og Ísland nógu lítið til að sparka því út í kuldann.
Og Danmörk er nú neydd til að taka þátt í refsiaðgerðum gegn Færeyingum, hinum gömlu vinum þeirra og skjólstæðingum, vegna makríldeilunnar. Sú deila er einföld. Makríllinn tók upp að synda á fiskimið Íslendinga og Færeyinga og éta þar aðrar tegundur sjávardýra beint eða éta frá þeim fæðu. Við teljum okkur heimilt að veiða makrílinn, enda á Evrópusambandið hann ekki og getur ekki heldur breytt fiskimiðum okkar í ókeypis bithaga fyrir sig.
Einhverjir svara: En er Evrópusambandið ekki að taka á peningaþvætti og öðrum vafasömum aðgerðum bankanna á Kýpur? En hvað þá um Sviss og Bretland, sem var bjargað? Þurfti HSBC ekki að greiða stórsekt til Bandaríkjanna á dögunum fyrir peningaþvætti? Og halda menn, að allt það fé, sem Evópusambandið hefur látið til Ítalíu og Grikklands, hafi runnið í eðlilega farvegi?
Það situr síðan illa á Evrópusambandinu að reyna að kenna okkur fiskveiðistjórnun. Þar er allt í kaldakoli í sjávarútvegi, ráðleysi og ringulreið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:34 | Slóð | Facebook
6.7.2014 | 15:20
Innri endurskoðandinn systir ríkisendurskoðanda!
Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins 5. júlí 204 er bent á, að ríkisendurskoðandi er bróðir innra endurskoðanda Seðlabankans, en væntanlega hefur hinn furðulegi gerningur Más Guðmundssonar, þegar hann lét Seðlabankann greiða málskostnað sinn í máli, sem hann höfðaði gegn Seðlabankanum (og í því máli gerði Seðlabankinn á móti kröfu um málskostnað úr hendi Más Guðmundssonar og vann málið), farið fram hjá innri endurskoðandanum eða hún kosið að láta kyrrt liggja. Ríkisendurskoðandi var því meðal annars að rannsaka verk eða vanrækslu systur sinnar.
Eitt á yfir alla að ganga. Menn eiga að vera jafnir fyrir lögunum. Margir hafa furðað sig á því, að bróðir útrásarvíkingsins Ólafs Ólafssonar skuli sitja í dómi um útrásarmál, og hefur ríkissaksóknari krafist endurupptöku málsins. Bankamenn sæta þessa dagana ákærum fyrir umboðssvik, sem eru brot á 249. grein hegningarlaganna:
Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi.
4.7.2014 | 15:16
Hvar eru nú Bubbi og Hörður Torfa?
Þegar ég sat í bankaráði Seðlabankans, var Már Guðmundsson hagfræðingur bankans um skeið. Ég hafði gott eitt af honum að segja. Þótt hann væri drjúgur með sig, var hann vel að sér og mælti jafnan skynsamlega. Einu kynni mín af honum áður voru, þegar við vorum iðulega ræðumenn hvor fyrir sinn málstað í framhaldsskólum, hann fyrir sósíalisma og ég fyrir frjálshyggju. Boðaði hann þá, að menn skyldu taka almannahag fram fyrir eigin hag.
Hins vegar var Már bersýnilega ráðinn seðlabankastjóri af stjórnmálaástæðum, þótt látið væri svo heita, að hann hefði mesta þekkingu og reynslu umsækjenda. En dómgreind skiptir ekki síður máli. Sú ákvörðun Más að una ekki við launalækkun, sem aðrir í sambærilegum stöðum urðu að sætta sig við á erfiðum tímum, sýndi dómgreindarbrest.
Már kveðst hafa viljað láta reyna á rétt sinn með því að höfða mál gegn Seðlabankanum. En stundum er skynsamlegast að krefjast ekki réttar síns. Þegar Davíð Oddsson lét af starfi borgarstjóra, átti hann rétt á sex mánaða biðlaunum. Hann ákvað að taka sér þau ekki, þótt réttur hans til þeirra væri ótvíræður. Þegar Davíð var skipaður seðlabankastjóri, var gerður við hann ráðningarsamningur til sjö ára, frá 20. október 2005 til 20. október 2012. Samningurinn var svo skýr, að Davíð hefði með dómi getað fengið full mánaðarlaun greidd allt til 20. október 2012, en hann var sem kunnugt er hrakinn úr starfi í febrúar 2009. En Davíð ákvað að láta kyrrt liggja.
Þegar Davíð var ráðherra 19912005, tók eiginkona hans aldrei dagpeninga í utanlandsferðum eins og makar annarra ráðherra. Þetta var réttur hennar, en hún nýtti sér hann ekki.
Hvort tveggja gerir síðan hlut Más verri, að hann tapaði máli sínu gegn Seðlabankanum og að hann lét bankann greiða málskostnað sinn. En ólíkt hafast þeir að í eigin málum, gamli sósíalistinn, sem boðaði forðum, að taka skyldi almannahag fram yfir eigin hag, og hinn borgaralegi stjórnmálamaður Davíð Oddsson. En nú ber svo við, að þeir Hörður Torfason og Bubbi Morthens eru hvergi sjáanlegir með potta sína og pönnur fyrir utan Seðlabankann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. mars 2014, endurbirtur af sérstöku tilefni.)