19.7.2014 | 23:00
Þjóðsögur um bankahrunið (3)
Ég hef síðustu mánuði reynt að lesa allar þær bækur og ritgerðir, sem komið hafa út á ensku um bankahrunið. Þar hef ég rekist á fjöldann allan af ónákvæmum staðhæfingum. Til dæmis kom 2011 út bók hjá stofnun, sem kennd er við minn gamla lærimeistara (þótt ég hitti hann raunar aldrei), austurríska hagfræðinginn Ludwig von Mises, og hefur hún bækistöðvar í Alabama í Bandaríkjunum. Bókin nefnist Deep Freeze: Icelands Economic Collapse og er eftir tvo unga hagfræðinga, Philipp Bagus og David Howden. Þeir rekja bankahrunið til rangrar stefnu Seðlabankans, sem hafi skapað þenslu.
Eflaust má gagnrýna stefnu Seðlabankans í ýmsum málum, en gagnrýni þeirra Bagusar og Howdens missir marks vegna vanþekkingar þeirra á íslenskum aðstæðum. Þeir segja til dæmis á bls. 1213, að seðlabankinn hafi minnkað bindiskyldu úr 4% í 2% árið 2003. Ólíkt starfsbræðrum sínum í öðrum seðlabönkum minnkaði Davíð Oddsson (áður forsætisráðherra) bindiskylduna, sem átti að knýja banka til að hafa varasjóði, þegar að kreppti. En Davíð var í fyrsta lagi ekki seðlabankastjóri árið 2003. Í öðru lagi var bindiskyldan þá færð að kröfu bankanna sjálfra niður í hið sama og í grannríkjunum, svo að þeir gætu keppt við sömu skilyrði. Í þriðja lagi var leyft síðar, vorið 2008, að bindiskyldan næði ekki til innstæðna í erlendum útbúum eða dótturfélögum bankanna, enda hnigu þau rök að því, að þeir peningar væru geymdir erlendis og gætu því ekki valdið þenslu á Íslandi. Beitti Yngvi Örn Kristinsson, þá hagfræðingur í Landsbankanum, sér sérstaklega fyrir þessum rýmkuðu reglum um bindiskyldu.
Spakvitringar og spámenn kaffihúsanna og spjallþáttanna hafa hins vegar tuggið það hver eftir öðrum, að ein ástæðan til bankahrunsins hafi verið lækkun bindiskyldu hér á landi. Hún hafði nákvæmlega engin áhrif á bankahrunið. Orsakir þess voru aðrar. Það er einkennilegt, að þessir tveir ungu hagfræðingar á vegum Ludwig von Mises-stofnunarinnar hafi ráðist í að skrifa heila bók um íslenska bankahrunið án þess að kynna sér að ráði aðstæður á Íslandi. Þess í stað segja þeir þjóðsögur um bankahrunið.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:23 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 17:00
Þjóðsögur um bankahrunið (2)
Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska 2008. Við því hefði þó mátt búast, að þær yrðu ekki margar í safni greina, sem samdar voru fyrir hrun, en það kom út í Lundúnum 2011 undir heitinu Preludes to the Icelandic Financial Crisis. En annar ritstjórinn, Gylfi Zoëga, skrifar í formála (24. bls.): Einnig er ófyrirgefanlegt, að ríkisstjórnin og Seðlabankinn skyldu ekki gera neyðaráætlun, sem framkvæma mætti, ef einn eða fleiri bankar hryndu.
Ég sat í bankaráði Seðlabankans frá 2001 til 2009, og þó að menn töluðu varlega, jafnt á fundum ráðsins og opinberlega, segir Gylfi hér þjóðsögu um bankann. Davíð Oddsson seðlabankastjóri varaði margsinnis við óhóflegri skuldasöfnun bankanna, til dæmis í ræðu á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007, sem lesa má á Netinu. Hann gekk líka að minnsta kosti þrisvar á fund ráðherra til að vara við í aðdraganda bankahrunsins, eins og rakið er í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, 21. kafla), til dæmis 7. febrúar, 1. apríl og 8. júlí 2008. Ég veit af samtölum við hann á þessum tíma, að hann var svo sannarlega myrkur í máli.
Jafnframt undirbjó Seðlabankinn í kyrrþey neyðaráætlun, sem var tiltölulega einföld og Davíð lýsti í aðalatriðum í Kastljósi 7. október 2008. Hún var, ef illa færi, að ríkið þjóðnýtti þá hinn íslenska hluta bankakerfisins, en léti hinn erlenda sigla sinn sjó, eignir og skuldir. Þessi leið hefur stundum verið kennd við Washington Mutual og er alþekkt í fjármálafræðum. Hún er fólgin í að skipta banka upp í góðan banka og vondan, reka áfram góða bankann og gera upp hinn vonda. Þessi neyðaráætlun var gerð í samráði við fjármálafyrirtækið J. P. Morgan, og stjórnaði Michael Ridley, afburðasnjall maður, því verkefni af þess hálfu. (Össur Skarphéðinsson sagði við Rannsóknarnefnd Alþingis, að Ridley hefði verið prúðbúinn og vel mæltur yfirstéttar Breti, en ég get upplýst, að hann braust úr fátækt til bjargálna, þótt hann tali prýðilega ensku.) Davíð lýsti þegar í ágúst 2008 þessari Washington Mutual-leið fyrir mér, en vitanlega bar mér að gæta trúnaðar. Allir góðgjarnir menn vonuðu síðan auðvitað í lengstu lög, að ekki þyrfti að grípa til neinnar slíkrar áætlunar, og sennilega hefur fátt verið skjalfest um hana. Þess vegna er það ómaklegt um Seðlabankann, sem Gylfi Zoëga segir, að hann hafi ekki gert neyðaráætlun. Gylfi á að birta þjóðsögur sínar í þjóðsagnasöfnum, ekki fræðiritum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (1)
Liðin eru fimm ár frá bankahruni. Ég hef síðustu vikur verið að grúska í þeim ritverkum, sem komið hafa út um það, og eru þau misjöfn að gæðum. Ég tek hins vegar eftir því, að kviknað hafa ýmsar þjóðsögur um bankahrunið, sem ganga síðan aftur í hverri bókinni af annarri. Mér til nokkurrar undrunar rakst á ég á eina slíka í greinasafni, sem ég hélt fyrir, að væri fræðilegasta ritið um hrunið, sem enn væri völ á. Það heitir Preludes to the Icelandic Financial Crisis. Gaf Palgrave Macmillan það út 2011, og voru ritstjórar Robert Aliber, sem sagði einmitt margt skynsamlegt um aðstæður á Íslandi, og Gylfi Zoëga. Flestar greinarnar voru skrifaðar fyrir bankahrun. Ein var þó samin eftir það og er eftir Þröst Sigurjónsson, og er hún eins konar yfirlit um atburðarásina. Þar segir Þröstur (33. bls.): Íslenski seðlabankinn lét frá sér fara ummæli, sem skilin voru á þann veg, að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart breskum innstæðueigendum. Viðbrögð bresku ríkisstjórnarinnar voru að leggja hald á breskar eignir allra íslensku bankanna í krafti laga gegn hryðjuverkasamtökum.
Þröstur vísar hér bersýnilega til viðtals í Kastljósi Sjónvarpsins að kvöldi 7. október 2008 við Davíð Oddsson, formann bankastjórnar Seðlabankans, þar sem hann kvað skattgreiðendur ekki eiga að greiða skuldir óreiðumanna. En beiting hryðjuverkalaganna gegn Landsbankanum morguninn eftir stóð ekki í neinu sambandi við ummæli Davíðs, enda nefndi enginn breskur ráðamaður þau heldur. Alistair Darling, fjármálaráðherra Breta, vitnaði opinberlega í samtal sitt við Árna Mathiesen fjármálaráðherra, sem hafði farið fram að morgni 7. október, og staðfesti Darling fyrir þingnefnd, að hann hefði átt við samtal sitt við Árna. Er þetta rakið nákvæmlega í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, 7. bindi, 20. kafla, 149. bls., sem kom út ári áður en Þröstur Sigurjónsson birti grein sína. Afskrift af samtali þeirra Árna og Darlings leiðir að vísu í ljós, að Darling vitnaði rangt í það. Líklegast er því, eins og Árni hefur varpað fram, að Bretar hafi ákveðið með einhverjum lengri fyrirvara að beita Íslendinga hörku. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er bent á (s. r., 248. bls.), að Darling hefði orðið fyrir vonbrigðum með fund sinn 2. september 2008 með Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra og Jóni Sigurðssyni, stjórnarformanni Fjármálaeftirlitsins. Er sennilega þar að leita einnar ástæðunnar til tortryggni breskra stjórnvalda í garð Íslendinga.
Þjóðsögur eiga hins vegar heima í þjóðsagnasöfnum, ekki í vönduðum fræðiritum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
19.7.2014 | 11:00
Huldumaðurinn fundinn
Í för til Galápagos-eyja síðast liðinn júní varð ég þess áskynja, að Íslendingur hefði búið þar frá 1931 og borið beinin vorið 1945. Kallaði hann sig Walter Finsen, og hitti íslenskur sjómaður á norsku skipi hann vorið 1944. Vildi hann þá ekki segja full deili á sér. Einnig birtist löng grein um hann í Morgunblaðinu 1967 eftir þýska blaðakonu, sem þekkti vel til á Íslandi, var þá nýkomin frá Galápagos-eyjum og hafði hitt gamla granna Íslendingsins. Kom fram í þessum heimildum, að hann hefði stundað ýmis störf víða í Vesturheimi, meðal annars í Mexíkó og Venesúela. Í nokkrum gögnum á ensku er einnig á hann minnst. Velti ég fyrir mér hér fyrir skömmu, hver maðurinn væri. Hálfdan Helgason, tæknifræðingur og ættfræðingur, varpar fram í Morgunblaðinu 3. ágúst langlíklegustu ráðningu gátunnar.
Maður var nefndur Valdimar Friðfinnsson, bóndasonur frá Hvammi í Hjaltadal, fæddur 9. desember 1876. Hann flosnaði 1896 upp úr Lærða skólanum í Reykjavík og virðist þá hafa reynt að flytjast til Vesturheims, en var snúið við í Leith í Skotlandi. Í manntali 1901 er hann skráður háseti á skonnortu Ørum & Wulff-verslunarfélagsins, sem var umsvifamikið á Norðausturlandi. Síðan eru til um hann fjórar heimildir, sem Hálfdan bendir á, smáfréttir úr blöðum Vestur-Íslendinga. Fór hann ásamt Jóhannesi Jóhannessyni og norskum manni í leiðangur til Bólivíu 1912, og leituðu þeir félagar að gulli, olíu og verðmætum steinum. Þeim tókst bersýnilega ekki ætlunarverk sitt, og er Jóhannes kominn til Kaliforníu og Valdimar til Tampico í Mexíkó sumarið 1914. (Jóhannesi bregður fyrir í bók minni um Jón Þorláksson forsætisráðherra, en þeir voru bekkjarbræður í Lærða skólanum.)
Ég tel einsætt, að Valdimar sé Íslendingurinn á Galápagos-eyjum. Ástæðan er ekki aðeins, að allt kemur heim og saman um feril hans, eins og hann sagði Íslendingnum frá 1944 og grannar hans einnig þýsku blaðakonunni 1967. Hún er líka, að Valdimar er á ljósmynd af nemendum Lærða skólans frá vorinu 1896, og til eru ljósmyndir af Íslendingnum Finsen á Galapagos-eyjum, og er sterkur svipur með þeim. Walter Finsen var því mjög líklega Valdimar Friðfinnsson. Hann á þá ættingja á Íslandi, en hann var föðurbróðir Magnúsar Gamalíelssonar útgerðarmanns og ömmubróðir Herdísar Egilsdóttur, kennara og rithöfundar. Rek ég örlög hans nánar í síðasta hefti Þjóðmála. Raunar gerðist svo margt sögulegt á árum Valdimars á Galápagos-eyjum, að franski rithöfundurinn Georges Simenon notar það sem uppistöðu í einni skáldsögu sinni, sem sjónvarpsmynd hefur verið gerð eftir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:37 | Slóð | Facebook
18.7.2014 | 23:00
Um Verslunarmannahelgi
Um verslunarmannahelgina fer vel á því að rifja upp gildi verslunar. Jón biskup Vídalín segir í prédikun tíunda sunnudag eftir Trinitatis: Það er víst, að ekki getur veröld þessi staðist án kauphöndlunar. Mismun hefur hinn alvísi skapari gjört bæði landanna og mannanna, en engum hefur hann gefið allt.
Um svipað leyti og Vídalín mælir þessi orð, skrifar enska skáldið Addison í tímaritið Spectator 1711: Nytsamlegri menn eru ekki til en kaupmenn. Þeir binda mannkyn saman í gagnkvæmum samskiptum góðra verka, dreifa gjöfum náttúrunnar, veita fátæklingum atvinnu, bæta við auð hinna ríku og vegsemd hinna miklu. Hinn enski kaupmaður vor breytir tini í eigin landi í gull og skiptir ull fyrir rúbína. Fylgismenn Múhameðs spámanns klæðast breskum fatnaði, og íbúar hinna nístingsköldu Norðurslóða skýla sér í gærum af sauðum vorum. Addison bætir við: Án þess að viðskiptin hafi bætt neinum löndum við ríki Bretakonungs, hafa þau fært oss eins konar viðbótarveldi. Þau hafa margfaldað tölu efnamanna, aukið stórkostlega verðmæti jarða vorra og bætt við aðgangi að öðrum jörðum jafnverðmætum.Þetta er í svipuðum anda og Jón Sigurðsson, sem var eindreginn frjálshyggjumaður, segir í Nýjum félagsritum 1843: Ekkert land í veröldinni er sjálfu sér einhlítt, þó heimska mannanna hafi ætlað að koma sér svo við, að það mætti verða, en ekkert er heldur svo, að það sé ekki veitanda í einhverju og geti fyrir það fengið það, sem það þarfnast. En þegar það getur fengið það, og það veitir einmitt verslanin, þá er það eins og það hefði sjálft þessi gæði. Þegar nú verslanin er frjáls, þá leitar hver þjóð með það, sem hún hefir aflögu, þangað sem hún getur fengið það, sem hún girnist.
Einnig mætti minna á það, sem Halldór Kiljan Laxness leggur í munn söguhetju sinnar í Íslandsklukkunni, Arnæi: En það voru ekki mjölbætur sem ég æskti þessu mínu fólki, og ekki hallæriskorn, heldur betri verslun.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2013.)Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 07:38 | Slóð | Facebook
18.7.2014 | 16:00
Hver var Kolkrabbinn?
Undanfarið hef ég verið að lesa erlendar bækur um bankahrunið íslenska 2008. Ein þeirra heitir Meltdown Iceland og er eftir Roger Boyes, fréttaritara Lundúnablaðsins Times í Berlín. Þótt hún sé skemmtileg aflestrar, er hún afar óáreiðanleg, full af kjaftasögum, sumum tilhæfulausum, en flytur einnig ýmsar hæpnar kenningar. Ein er, að kolkrabbinn hafi í samráði við fjölskyldurnar fjórtán löngum stjórnað íslensku atvinnulífi. Ég hef áður bent á, að fjölskyldurnar fjórtán er blaðamannamál, sem notað var um helstu landeigendur í El Salvador, en umdæmi þess lands eru fjórtán. Fyrst var það heimfært upp á Ísland, svo að ég hafi séð, 1987.
Kolkrabbinn er líka gamalt og útslitið vígorð. Það var oft notað í Bandaríkjunum fram undir 1900 um einokunarkapítalisma. Bandaríski rithöfundurinn Frank Norris skrifaði jafnvel skáldsögu undir hinu enska heiti, Octopus, árið 1901, um átök bænda og járnbrautareigenda. Fyrsta dæmið um staðfærslu þessa hugtaks, sem ég hef rekist á, er í kvikmyndagagnrýni í Þjóðviljanum 8. desember 1949: Þá var kolkrabbinn í íslensku stjórnmála- og atvinnulífi, Thorsættin, ekki farinn að teygja arma sína yfir höfin til þess að þrýsta hendur verkalýðsböðla eins og Francos. Orðið var nokkrum sinnum notað næstu áratugina, ýmist til að tákna ofvöxt ríkisins, sem teygði anga sína í allar áttir, eða veldi Sjálfstæðisflokksins á vettvangi stjórnmálanna. Kolkrabbi í yfirfærðri merkingu kemur líka fyrir í skáldlegri heimsádeilu frá 1957, Jónsmessunæturmartröð á Fjallinu helga, eftir Loft Guðmundsson, blaðamann, rithöfund og hagyrðing.
Árin 19861987 sýndi Sjónvarpið þrjá leikna framhaldsþætti um ítölsku mafíuna, og nefndust þeir Kolkrabbinn. Þaðan hefur Friðrik Þór Guðmundsson blaðamaður sennilega haft líkinguna, þegar hann skrifaði fréttaskýringuna Kolkrabbinn á gullkistunni í Pressuna 2. september 1988, en hún var um Íslenska aðalverktaka. Í mars 1990 birtist síðan fréttaskýring eftir blaðamennina Óskar Guðmundsson og Pál Vilhjálmsson í tímaritinu Þjóðlífi, Kolkrabbi eða kjölfesta. Íslenska fyrirtækjaveldið. Átök og ítök. En þjóðþekkt varð hugtakið þó ekki, fyrr en Örnólfur Árnason rithöfundur gaf út metsölubókina Á slóð kolkrabbans haustið 1991. Þar hélt hann því fram, að fámennur hópur kaupsýslumanna réði íslensku atvinnulífi og sæti yfir hlut annarra, og væri Halldór H. Jónsson húsateiknari helsti forvígismaður hans. Gagnrýnendur sögðu, að Örnólfur gerði of mikið úr einum hópi á kostnað annarra, til dæmis þeirra kaupsýslumanna, sem ótengdir væru vinahópi Halldórs H. Jónssonar, að ógleymdri samvinnuhreyfingunni, sem var mjög öflug á Íslandi allt frá 1920 til 1990. En hvað sem öllum ýkjum líður, hvarf þessi kolkrabbi úr sögunni á síðasta áratug tuttugustu aldar, þótt hann gangi nú aftur í bók Boyes.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júlí 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 07:37 | Slóð | Facebook
18.7.2014 | 11:00
Dæmi um heift vinstri manna
Ég skal játa, að ég varð hissa, þegar ég fékk tölvuskeyti frá Gunnari Gunnarssyni fréttamanni föstudagsmorguninn 22. nóvember 2013 um það, hvort ég gæti komið í Spegilinn þá síðdegis til að ræða um morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta að liðinni hálfri öld. Samkennarar mínir í stjórnmálafræði hafa síðustu fimm árin verið tíðir gestir í Speglinum, en aldrei verið leitað til mín þar. Það hefur að vísu ekki haldið fyrir mér vöku, enda finnst mér satt að segja nóg framboð af mér í fjölmiðlum. Mín hugmynd um gott líf er að grúska á daginn og grilla á kvöldin, en ekki að láta móðann mása opinberlega. Ég kvað þó já við að koma, enda hef ég kennt námskeiðið Bandarísk stjórnmál í stjórnmálafræðideild og dvalist langdvölum í Bandaríkjunum, meðal annars sem gistifræðimaður í Stanford-háskóla, Kaliforníuháskóla í Los Angeles (UCLA) og George Mason-háskóla í Virginíu, tvisvar sem Fulbright-fræðimaður. Viðtalið gekk bærilega, og Gunnar var hinn alúðlegasti.
En annað undrunarefni tók síðan við. Ég las ummæli vinstri manna á Snjáldru (Facebook) um viðtalið. Það var eins og orðið hefði héraðsbrestur! Margrét Tryggvadóttir, fyrrverandi alþingismaður, skrifaði færslu: Af hverju er Hannes Hólmsteinn í útvarpinu mínu? Síðan var röð af athugasemdum. Helga R. Óskarsdóttir skrifaði til dæmis: Vantar ekki bara síðu á viðtækið þitt? Róbert Gíslason skrifaði: Vírus? Vilhelm G. Kristinsson sagði: Hann ætti fyrir löngu að hafa sagt sitt síðasta orð.
Við þessa færslu Margrétar Tryggvadóttur höfðu 20 merkt velþóknun, þau Hans Kristján Árnason, Samúel Jóhannsson, Sigrún Hallsdóttir, Sigurður H. Magnússon, Margrét Rún, Þórunn Hreggviðsdóttir, Einar Sandoz, Helgi Jónsson, Erling Ingvason, Ingólfur Hermannsson, Birna Guðmundsdóttir, Sigurður Einarsson, Hans Júlíus Þórðarson, Guðrún Ágústa Ágústsdóttir, Siggi Hólm, Hólmfríður Sólveig Haraldsdóttir, Örnólfur Hall, Helga Dröfn Högnadóttir, Gunnar Steinn Gunnarsson og Bjarnheiður Bjarnadóttir.
En hvenær varð Ríkisútvarpið þinglýst eign vinstri manna? Var ég skyndilega boðflenna í útvarpinu þeirra? Ég var að vísu feginn, að Margrét úrskurðaði mig ekki geðveikan, eins og gerst hefur í dæmi annarra. En ekki veit ég, hver útfærslan yrði á þeirri skoðun Vilhelms G. Kristinssonar (fyrrverandi fréttamanns), að ég hefði fyrir löngu átt að hafa sagt mitt síðasta orð.
Og Jón Þórisson, fyrrverandi aðstoðarmaður Evu Jolie, skrifaði færslu: Heyrðuð þið Hannes Hólmstein í Speglinum um JFK? Ég veit ekki hvernig ykkur varð við en ég hringdi í fréttastofu RUV og kvartaði.
Fjöldi athugasemda fylgdi þessari færslu, sumar eftir nafnkunna menn. Til dæmis sagði Þór Saari, hinn greinargóði heimildarmaður rannsóknarnefndarinnar um Íbúðalánasjóð: Þetta var einhver hlægilegasta umfjöllun sem ég hef heyrt. Þvílíkt bull og þvæla. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði: Það má heita algilt lögmál að í hvert sinn sem Sjálfstæðismenn hafa Menntamálaráðuneytið fer Hannes Hólmsteinn að ríða húsum í Ríkisútvarpinu. Eini tölvuvinur Jóns Þórissonar, sem virtist vera í jafnvægi, var Egill Helgason, sem skrifaði: Fólk getur verið ósammála Hannesi, en hann hlýtur nú að mega tala í útvarpið.
Við þessa færslu Jóns Þórissonar höfðu 37 menn merkt velþóknun, þau Andri Sigurðsson, Matthildur Torfadóttir, Ásdís Thoroddsen, Þórunn Hreggviðsdóttir, Viðar Ingvason, Birna Guðmundsdóttir, Vala Friðriksdóttir, Einar Ólafsson, Júlíus Guðmundsson, Þráinn Bertelsson, Örnólfur Hall, Lára Hanna Einarsdóttir, Sigrún Helgadóttir, Jacob Thor Haraldsson, Björn Þorsteinsson, Arna Mosdal, Margrét Auðuns, Einar Þór Jörgensen, Hjördís Guðbjörnsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir, Hjálmtýr Heiðdal, Jón Kristófer Arnarson, Hildur Rúna Hauksdóttir, Máni Ragnar Sveinsson, Regína Stefnisdóttir, Sigurður Hauksson, Morten Lange, Anna Þórisdóttir, Katrín Hilmarsdóttir, Ragnheiður Gestsdóttir, Einar Steingrímsson, Hlynur Hallsson, Kristín I. Pálsdóttir, Andrea Þormar, Elísabet Ronaldsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Björg Sveinsdóttir. Þetta eru ekki allt dulnefni. Á bak við sum þessi nöfn stendur raunverulegt fólk, jafnvel tveir fyrrverandi alþingismenn.
Og Jón Þórisson kvartaði! Eftir öll viðtöl Spegilsins við þá Þórólf Matthíasson (sem vorið 2012 voru orðin 32 frá bankahruni) og sálufélaga hans, eins og rakið er hér í Viðskiptablaðinu.
Það er ótrúleg heift í þessu fólki. Hefur það ekkert merkilegra að gera en að hata mig? Ég er svo sannarlega ekki maður að þess skapi. En því miður get ég ekki bent því á að fara sér til hughreystingar á leikritið eftir Braga Ólafsson, sem sett var upp mér til háðungar í Þjóðleikhúsinu, því að sýningum á því hefur verið hætt vegna dræmrar aðsóknar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 07:33 | Slóð | Facebook
17.7.2014 | 11:00
Viðbrögð Lamonts lávarðar við erindi mínu
Norman Lamont, lávarður af Lerwick, sem var fjármálaráðherra Breta 19901993, sagði á ráðstefnu í Búdapest 15. nóvember 2013 um fjármálakreppuna 2008, að það framferði ríkisstjórnar breska Verkamannaflokksins að setja hryðjuverkalög á Íslendinga hefði verið til skammar (a disgrace). Hann kvaðst biðjast afsökunar á þessu framferði fyrir hönd allra þeirra Breta, sem teldu Íslendinga eiga að sæta réttlátri málsmeðferð. Lamont lávarður kvaddi sér sárstaklega hljóðs eftir fyrirlestur minn á ráðstefnunni, en ég hafði rakið, hvernig stjórn Verkamannaflokksins hefði lokað íslensku bönkunum tveimur í Lundúnum, fimm mínútum áður en hún kynnti viðamikla björgunaráætlun fyrir alla banka í Bretlandi, og síðan sett hryðjuverkalög á einn íslenska bankann, sem hefði samstundis lamað starfsemi annarra íslenskra fyrirtækja og stofnana.
Í fyrirlestri mínum hafði ég hafnað ýmsum algengum skýringum á bankahruninu íslenska, til dæmis þeim, að regluverkið hefði verið losaralegra en annars staðar, bankarnir of stórir eða bankamennirnir íslensku sérstakir glannar. Ég benti á, að regluverkið var hið sama og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, að stærð bankageirans í Sviss, Belgíu og Bretlandi hefði verið svipuð hlutfallslega og á Íslandi og að bankamenn annars staðar í Evrópu hefðu reynst vera sömu glannar og á Íslandi, nema hvað þeir hefðu fengið aðstoð bandaríska seðlabankans, svo að þeir hefðu ekki fallið. Ég kvað íslenska bankakerfið 2008 hafa verið veikburða vegna tvenns konar kerfisáhættu: vegna of mikilla innbyrðis eignatengsla og vegna þess, að rekstrarsvæði bankanna hefði verið miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra. Úrslitum hefði ráðið um hrun þess, að seðlabankinn bankaríski hefði neitað að veita Íslandi fyrirgreiðslu og stjórn breska Verkamannaflokksins hefði lokað íslensku bönkunum og beitt hryðjuverkalögunum. Þessar ákvarðanir væru enn ekki að fullu skýrðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook
16.7.2014 | 23:00
Nýtt myndband um sjálfselsku
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 07:12 | Slóð | Facebook
16.7.2014 | 16:00
Hrollvekjur tuttugustu aldar
Evrópa tuttugustu aldar er full af hrollvekjum. Hún var full af fórnarlömbum. Nasistar myrtu um eða yfir 20 milljónir manna, að því er talið er, þar af sex milljónir gyðinga. (Þegar átt er við þjóðflokkinn eða trúflokkinn, á að skrifa nafnið með litlum staf, en með stórum, þegar rætt er um þjóðina.) Kommúnistar myrtu um eða yfir 100 milljónir manna, eins og kemur fram í Svartbók kommúnismans, sem ég ritstýrði og þýddi á íslensku 2009. Stéphane Courtois prófessor var ritstjóri frönsku frumútgáfunnar, og hann var einn af ræðumönnum á fundi Evrópuvettvangs um minningu og samvisku, sem ég sótti í Haag 12.13. nóvember 2013. Á meðal annarra ræðumanna var Vytautas Landsbergis, fyrsti forseti Litháens, eftir að hernámi Rússa lauk 1991. (Íslendingar viðurkenndu aldrei innlimun Litháens og annarra Eystrasaltsríkja í Ráðstjórnarríkin 1940 og urðu fyrstir þjóða til að endurnýja hina gömlu viðurkenningu sína á sjálfstæði þeirra í ágúst 1991.)
Ég sagði á ráðstefnunni frá samstarfsverkefni RNH (Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt) og AECR (Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna) um Evrópu fórnarlambanna, en fjöldi fræðimanna og rithöfunda í fremstu röð hafa heimsótt Ísland í tengslum við það verkefni: dr. Bent Jensen prófessor, einn fremsti sérfræðingur Dana um kommúnisma, dr. Niels Erik Rosenfeldt prófessor, sem skrifað hefur tveggja binda verk um leynilega starfsemi Kominterns, dr. Øystein Sørensen prófessor, einn helsti sérfræðingur Norðmanna um alræðisstefnur, Stéphane Courtois sjálfur, Anna Funder, höfundur verðlaunabókarinnar Stasiland, Pawel Ukielski, forstöðumaður safnsins um uppreisnina í Varsjá 1944, dr. Mart Nuut, sagnfræðingur og þingmaður á eistneska þinginu, og Andreja Zver, forstöðumaður stofnunar um sátt við söguna í Slóveníu.
Einnig sagði ég frá tveimur erindum mínum í tengslum við verkefnið. Annað var haldið í nóvember 2012 til varnar Jung Chang og Jon Halliday, höfundum stórfróðlegrar ævisögu Maós, en starfsmaður og styrkþegi kínversku stjórnarinnar hafði skrifað langa árásargrein á þau í Sögu, tímarit Hins íslenska sögufélags. Hitt erindið var haldið í október 2013 um Ólíkar þjóðir deila minningum, þar sem ég bar saman hlutskipti Íslands og Eystrasaltslandanna á tuttugustu öld: Öll fengu ríkin sjálfstæði 1918, öll voru þau hernumin vorið 1940, í öllum leysti nýr hernámsaðili annan af hólmi 1941, og öll urðu þau lýðveldi 1944, þegar Ísland sleit sambandið við Dani, en Eystrasaltsríkin urðu ráðstjórnarlýðveldi gegn vilja sínum.
Að kvöldi 12. nóvember var fundur í samkomuhúsi kaþólsku kirkjunnar í Haag um rætur alræðisstefnunnar. Stéphane Courtois benti á, að Lenín hefði fyrstur fylgt fram hugmyndinni um fullkomna umsköpun skipulagsins og nýjan mann að henni lokinni. Í rauninni hefðu Stalín og Hitler og jafnvel Mússólíni verið lærisveinar hans. Ég spurði Courtois, hvað hann segði um ýmis lönd, þar sem ríkisvaldið hefði verið nánast altækt, svo sem ríki Inkanna í Perú og Kínaveldi undir stjórn Ming-keisaranna. Hefðu þau verið alræðisríki? Courtois svaraði því til, að þetta hefðu verið ríki forræðissinna (authoritarians), en ekki alræðissinna (totalitarians), því að frumhugmyndina um fullkomna umsköpun skipulagsins og nýjan mann hefði vantað.
Courtois er lágvaxinn maður með alskegg, brosmildur, iðandi af lífi og fjöri. Við spjölluðum margt saman. Hann sagði mér, að franska frumútgáfan hefði komið í bókabúðir 7. nóvember 1997, réttum sjötíu árum eftir byltingu bolsévíka í Rússlandi. Dóttir sín hefði komið blaðskellandi inn rétt eftir morgunmat og sagði, að bókin væri komin í bókabúðina á horninu rétt hjá íbúð þeirra og þegar hefðu selst tvö eintök. Síðan hefði fjölmiðlaathyglin skollið á þeim eins og stormur. Courtois sagði líka frá ágreiningnum á meðal höfunda bókarinnar, sem nú hefði verið jafnaður, til dæmis við Nicolas Werth, sem skrifaði kaflann um Rússland. Hann sagði, að Svartbókin ætti sér sjálf langa og merkilega sögu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2014 kl. 07:08 | Slóð | Facebook