26.7.2014 | 09:37
Svíþjóð
Fyrir nokkru var ég á ferð í Svíþjóð. Allt er þar í föstum skorðum. Svíar eru áreiðanlegir, nákvæmir, seinteknir, gætnir, veitulir, áhugasamir um Ísland. Landið er fallegt, en heldur er þar kalt að vetrarlagi, enda færði sænski málfræðingurinn Adolf Törneros í dagbók sína 1827: Í Svíþjóð eru aðeins til tvær árstíðir, hvítur vetur og grænn.
Jafnaðarmenn hafa haft mikil áhrif í Svíþjóð og sagt margt fleygt. Frægt var, þegar Ernst Wigforss, sem var lengi fjármálaráðherra Svía, mælti í Ríkisdeginum 1928: Fátæktinni er tekið með jafnaðargeði, þegar henni er jafnað á alla. Sama ár sagði leiðtogi jafnaðarmanna, Per Albin Hansson, sem var forsætisráðherra 19321946, líka í Ríkisdeginum: Einhvern tíma hlýtur hin stéttskipta Svíþjóð að breytast í þjóðarheimilið Svíþjóð. Þessi hugmynd um Folkhemmet eða þjóðarheimilið var lengi leiðarljós sænskra jafnaðarmanna.
Það er hins vegar mikill misskilningur, að Svíar séu allir jafnaðarmenn. Í fyrirlestri, sem ég flutti í þessari ferð í Stokkhólmi, benti ég á, að frjálslyndir, sænskir hagfræðingar hafa haft mikil áhrif á Íslandi. Til dæmis var það, sem Jón Þorláksson, forsætisráðherra og fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði um hagskipulag og hagstjórn nánast beint upp úr skrifum sænska hagfræðingsins Gustavs Cassels, sem var áhrifamikill tvo fyrstu áratugi 20. aldar. Birgir Kjaran hagfræðingur, sem reyndi að marka Sjálfstæðisflokknum stefnu laust eftir miðja öldina, skírskotaði til annars sænsks hagfræðings, Bertils Ohlins, sem var lengi formaður Þjóðarflokksins þar í landi.
Íslendingar hafa gert ýmsar athugasemdir við sænska jafnaðarstefnu. Þegar Laxness gerði upp við kommúnismann í Skáldatíma 1963, sagði Bjarni Benediktsson: Í Skáldatíma lýsir Halldór Kiljan Laxness því, hvernig hann breyttist úr kommúnista í Svía. Jón Sigurðsson sagnfræðingur, sem var um skeið ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, sagði einhvern tíma við vin sinn, Harald Blöndal lögfræðing: Ég fór til Rússlands og sá illa heppnaðan sósíalisma. Síðan fór ég til Svíþjóðar og sá vel heppnaðan sósíalisma. Þá var mér nóg boðið. Svíum var loks sjálfum nóg boðið. Nú lækka þeir skatta og leyfa einkarekstur skóla og sjúkrahúsa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2013.)
26.7.2014 | 05:28
Smáþjóðir og stórþjóðir
Frægasta lýsingin á samskiptum smáþjóða og stórþjóða er í Sögu Pelópsskagastríðanna (5. bók, 17. kafla) eftir gríska sagnritarann Þúkídídes. Aþeningar, sem töldust stórþjóð í Grikklandi hinu forna, kröfðust þess, að Meleyingar, íbúar á eynni Melos, lytu þeim. Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við, sögðu sendimenn Aþenu. Þýddi Friðrik Þórðarson samræður Aþeninga og Meleyinga, og birtust þær í Tímariti Máls og menningar 1964.
Í alþjóðasamskiptum hefur máttur löngum verið talinn réttur. Sá ríkari hlyti að ráða. Tröll fari sínu fram við dverga. Og þó. Dvergur, sem óttast eitt tröll, getur hallað sér að öðru. Ástæðan til þess, að Kínaveldi hefur lagt undir sig Tíbet, en ekki Taívan, er ekki skortur á vilja, heldur sú staðreynd, að Bandaríkin halda hlífiskildi yfir Taívan. Ef til vill er sannleikskorn í því, sem bandaríski kvikmyndaleikstjórinn Stanley Kubrick sagði eitt sinn: Stórþjóðir hafa jafnan komið fram eins og dólgar, en smáþjóðir eins og hórur.
Dómur Kubricks er samt ósanngjarn. Það gengur til dæmis kraftaverki næst, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár skuli hafa haldið tungu sinni og eðliseinkunnum eftir margra áratuga tilraunir kastalaherranna í Kreml til að rússneskja þá. Og leiðtogi okkar í sjálfstæðisbaráttunni, Jón Sigurðsson, sagði í bréfi frá 1851: Eftir minni meiningu þá er seiglan okkar besta bjargvættur, og þá þarf ekki að kvíða, ef hún er óbilug.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2013.)
21.7.2014 | 23:00
Nelson Mandela 23 árum síðar
Ég skrifaði grein um nýlátinn forystumann Suður-Afríku, Nelson Mandela, í DV 30. júlí 1990. Fróðlegt er að lesa hana aftur í ljósi sögunnar. Í rauninni var eitt aðalatriðið í grein minni sú skoðun Bertolts Brechts, að það land væri ógæfusamt, sem þyrfti á hetjum að halda. Fastar og fyrirsjáanlegar reglur skiptu meira máli en voldugir einstaklingar. En það mega hvítir menn í Suður-Afríku eiga, sem ég sá ekki fyrir, að þeir samþykktu að afsala sér völdum og samþykkja lýðræðislegar kosningar. Og það má Mandela eiga, sem ég sá ekki heldur fyrir, að hann notaði ekki afdráttarlausan meirihlutastuðning við sig til að níðast á hvítum mönnum eftir valdaskiptin í Suður-Afríku. Sýndi hann þá dæmafátt göfuglyndi. Hann skipaði sannleiksnefnd, en dró ekki fyrrverandi forystumenn fyrir dóm eins og Steingrímur J. Sigfússon uppi á Íslandi, þótt ólíku hafi raunar verið saman að jafna, margra áratuga kúgun í Suður-Afríku og bankahruninu á Íslandi, þar sem ekki lést einn einasti maður. Ef til vill hefur einhverju ráðið líka um hin farsælu valdaskipti í Suður-Afríku, að Mandela var lögfræðingur, sem vissi, að lögin ættu að ráða, en ekki mennirnir. Þó verður að minna á, að mörgu hefur farið aftur í Suður-Afríku síðan, þótt fremur sé það samstarfsmönnum og eftirmönnum Mandelas að kenna en honum. Lýðræði er ekki lausnarorðið, heldur frelsi einstaklinganna. En hér er grein mín frá því fyrir 23 árum (með smávægilegum málfarsleiðréttingum):
Nelson Mandela fór sigurför um Bandaríkin í júnílok. Ég sat fyrir framan sjónvarpstækið mitt í Palo Alto í Kaliforníu og fylgdist með því, er hann ávarpaði Bandaríkjaþing, ræddi við fréttamenn og hélt ræður á fundum. Þetta var höfðinglegur, roskinn maður, sem vissi, hvað hann vildi. Hann hafði sýnt það með fangelsisdvöl í heilan aldarfjórðung, að hann var reiðubúinn að leggja margt á sig fyrir málstað sinn. Bandaríkjamenn og aðrir Vesturlandabúar, sem skammast sín í laumi fyrir áhyggjulaust líf, gátu ekki annað en sýnt honum virðingu. En ýmsar hugsanir sóttu á mig, á meðan ég virti Mandela fyrir mér á sjónvarpsskjánum. Getur verið, að maður, sem er heppilegur uppreisnarleiðtogi vegna sigurvissu sinnar, sjálfsöryggis og fórnarlundar, sé heppilegur endurreisnarleiðtogi? Hvað um Robespierre og Lenín?
Segðu mér, hverjir vinir þínir eru
Efasemdir mínar ágerðust, eftir því sem Mandela sagði fleira. Í einum sjónvarpssalnum lýsti hann til dæmis yfir stuðningi við þá Gaddafi Líbíuleiðtoga, Arafat frá Palestínu og Fídel gamla Kastró, einræðisherra á Kúbu. Segðu mér, hverjir vinir þínir eru Arafat hefur enn ekkert ríki til að undiroka, en allir vita, hvern mann þeir Gaddafi og Kastró hafa að geyma. Gaddafi sendir sveitir manna hvert á land sem er til þess að drepa andstæðinga sína frá Líbíu. Hann aðstoðar hryðjuverkamenn eftir megni. Kastró kastar óæskilegu fólki í dýflissur, eins og kúbverska skáldið Armando Valladares getur borið vitni um. Valladares sat lengi í fangelsi fyrir það eitt að vera ekki sameignarsinni. Á þrjátíu ára valdatíma Kastrós hefur að minnsta kosti einn tíundi hluti kúbversku þjóðarinnar flúið land. Kúba, Albanía, Norður-Kórea og Víetnam eru nú einu eftirlifandi sameignarlöndin. Þegar Mandela var spurður um það við sama tækifæri, hvort hann gerði sér grein fyrir mannréttindabrotum þeirra Kastrós og Gaddafis, svaraði hann því til, að hann hygðist ekki kveða upp dóma um innanríkismál á Kúbu og í Líbíu. En hann biður okkur Vesturlandamenn hins vegar um að kveða upp dóma um innanríkismál í Suður-Afríku. Hann lætur ekki þar við sitja. Hann óskar beinlínis eftir aðstoð til þess að steypa stjórnvöldum í Suður-Afríku. Og eftir fund með Bush tók Mandela það skýrt fram, að hann teldi koma til greina að beita vopnavaldi í Suður-Afríku. Eitt er víst: Mandela fetar ekki í fótspor þeirra Marteins Lúters Kings og Mahatma Gandís. Hann er haukur, en ekki dúfa, kommissar fremur en jógi, svo að orð Arthurs Koestlers séu notuð.
Frelsi og þjóðfrelsi
Mandela virðist ekki vera sameignarmaður, kommúnisti. En hann er ekki frelsissinni, heldur þjóðfrelsissinni. Þetta er sitt hvað, eins og við höfum séð mörg átakanleg dæmi um frá Blálandi hinu mikla nú síðustu áratugi. Um leið og þjóðir álfunnar hafa öðlast frelsi frá hinum gömlu nýlenduherrum, hefur frelsi einstaklinganna innan þeirra horfið. Vegir og önnur mánnvirki ganga úr sér, nauðsynjavörur hætta að fást, einkafyrirtæki eru þjóðnýtt, menntamenn og hermenn arðræna í sameiningu bændur, og matvælaframleiðsla dregst þess vegna saman. Mér er minnisstætt, hvað suður-afrískur hagfræðiprófessor, sem ég ræddi við í Stellenbosch haustið 1987, sagði: Við Búarnir gerum okkur grein fyrir því, að við verðum að deila völdum með svarta meiri hlutanum. En við erum ráðnir í því að verða ekki enn eitt afríkulýðveldið. Sporin hræða. Raunar er ekki mikil hætta á því, að Mandela og menn hans nái völdum í Suður- Afríku. Vegur Mandelas er miklu meiri í vestrænum fjölmiðlum en heima fyrir. Svartir menn í Suður- Afríku skiptast í marga ættbálka. Mandela er af Xhosa-stofni, sem berst á banaspjót við hina herskáu Zulu-menn, en leiðtogi þeirra er Bútulezi. Auk svarta meiri hlutans búa í landinu fimm milljónir hvítra manna, þrjár milljónir þeldökkra manna (kynblendinga) og ein milljón Indverja. Þótt vestrænar þjóðir geti vafalaust hugsað sér að ofurselja þessa hópa Mandela og mönnum hans, munu þeir ekki gefast upp baráttulaust. Yrði borgarastríð í Suður-Afríku, myndu hvítir menn líklega sigra. En heppilegast er auðvitað, að hinir ólíku hópar í Suður-Afríku nái samkomulagi um að lágmarka vald ríkisins, en hámarka frelsi einstaklinganna. Á þann hátt einn rofnar sú sjálfhelda óttans, sem allir hópar landsins sitja fastir í.
Hugarfar og ábyrgð
Þýski félagsfræðingurinn Max Weber gerði frægan greinarmun á siðferði hugarfars og ábyrgðar. Sumir hafa hreint hjarta, en skeyta engu um afleiðingar gerða sinna. Aðrir eru ef til vill minni hetjur, en gæta vandlega að því, hvað athafnir þeirra hafa í för með sér. Á Vesturlöndum hefur Nelson Mandela verið veginn og metinn á mælistiku hugarfarsins. Menn hafa dáðst að fórnarlund hans og siðferðilegu þreki. Auðvitað var aðskilnaðarstefnan, sem hvítir menn fylgdu til skamms tíma í Suður-Afríku, röng. En leiðin til frjálsrar Suður-Afríku er ekki fólgin í því að fela Mandela völd í stað de Klerks. Hún er fólgin í því að flytja sem flestar ákvarðanir af vettvangi stjórnmálanna og út á hinn frjálsa markað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 17:00
Þjóðsögur um bankahrunið (10)
Ein lífseigasta þjóðsagan um bankahrunið 2008 er, að hún hafi verið bein afleiðing af frjálshyggjutilraun, sem hér hafi verið framkvæmd. Þessu heldur til dæmis bresk-kóreski hagfræðingurinn Ha-Joon Chang fram í bók, sem kom út í íslenskri þýðingu 2012, 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá (bls. 272): Milli áranna 1998 og 2003 einkavæddi landið banka í ríkiseign og hunsaði jafnvel grundvallarregluverk um starfsemi þeirra, til dæmis kröfur um varasjóði banka. Í kjölfarið stækkuðu íslensku bankarnir með ævintýralegum hraða og leituðu sér viðskiptavina erlendis líka. Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Stefán Ólafsson prófessor hafa í skrifum sínum komið orðum að svipaðri kenningu.
Þessi kenning stenst þó ekki af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi var regluverk á íslenskum fjármálamarkaði hið sama og á öðrum evrópskum fjármálamörkuðum. Þetta regluverk var allt samræmt, eftir að Ísland gerði samninginn um Evrópska efnahagssvæðið árið 1994. Hugmyndin var sú, að einn fjármálamarkaður stæði um alla Evrópu og lyti allur sömu lögum og reglum. Chang nefnir að vísu sérstaklega, að hér hafi verið slakað á kröfum um varasjóði banka. En þær voru eftir þær breytingar hinar sömu og annars staðar og höfðu áður verið strangari. En jafnvel þótt þær hefðu verið minni, hefði það engu breytt um bankahrunið: Það varð ekki, vegna þess að varasjóðir bankanna væru litlir, heldur vegna þess að fjármálaráðuneytinu íslenska og seðlabankanum var um megn að halda bönkunum uppi, þegar gert var áhlaup á þá, og það var þeim um megn, vegna þess að enginn vildi aðstoða þessar stofnanir.
Hin meginástæðan er, að hér var ekki gerð nein frjálshyggjutilraun árin 19912004, heldur var hagkerfið opnað og fært í svipað horf og í grannríkjunum, eins og ég lýsti í grein í Wall Street Journal 2004, sem oft hefur verið vitnað í. Árið 2004 reyndist íslenska hagkerfið hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum, sem mæld voru (af Fraser-stofnuninni í Vancouver í Kanada). Atvinnufrelsi hafði hér vissulega stóraukist. En engu að síður voru 12 hagkerfi þá frjálsari en hið íslenska. Síðan má spyrja, hvers vegna þau 12 hagkerfi, sem frjálsari reyndust þá en hið íslenska, hafi ekki fallið, úr því að skýringin á hruni íslensku bankanna á að hafa verið, hversu mikið atvinnufrelsi hafi hér verið.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.7.2014 kl. 00:36 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (9)
Gera má greinarmun á vitringum og sérvitringum, og eins má gera greinarmun á sögum og þjóðsögum. Ég hef hér bent á, að margt það, sem sagt hefur verið um bankahrunið fyrir fimm árum, er frekar af ætt þjóðsögunnar en sögunnar. Svo er til dæmis um eina algengustu skýringu bankahrunsins, sem er, að íslensku bankarnir hafi verið of stórir. Of stórir miðað við hvað? Flestir ensku bankanna hafa höfuðstöðvar á mjög litlu svæði í miðborg Lundúna, City. Þeir voru stórir miðað við það svæði og jafnvel fyrir talsvert stærra svæði, til dæmis héraðið Coventry, en þar eru íbúar jafnmargir (eða öllu heldur jafnfáir) og á Íslandi. En þeir voru varla of stórir miðað við Bretland allt. Að minnsta kosti var Englandsbanka það ekki um megn að halda þeim uppi í fjármálakreppunni, sem skall á heiminum fyrir fimm árum.
Hér er komið að kjarna málsins. Það fer eftir viðmiðunarsvæðinu, hvort bankar séu of stórir. Ef viðmiðunarsvæðið var Ísland eitt, þá voru íslensku bankarnir þrír vissulega of stórir. En ef viðmiðunarsvæðið var Evrópa öll, þá voru þeir alls ekki sérlega stórir. Samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið var rekstrarsvæði bankanna öll Evrópa. Það var kerfisgalli og sennilega engum að kenna, að baktrygggingarsvæði þeirra reyndist ekki vera jafnstórt og rekstrarsvæðið. Það reyndist að lokum vera Ísland eitt.
Ástæðan til þess, að mönnum sást yfir þessa kerfisvillu, var sú, að engum datt í hug, að grannþjóðir okkar myndu ekki hjálpa okkur, þegar á reyndi, eins og þær hjálpuðu hver annarri. Í fjármálakreppunni veitti bandaríski seðlabankinn til dæmis danska seðlabankanum stórkostlega fyrirgreiðslu, 73 milljarða dala í gjaldeyrisskiptasamningum (að vísu ekki allt í einu), sem gerði honum kleift að bjarga Danske Bank, sem ella hefði hrunið eins og íslensku bankarnir. Bandaríski seðlabankinn neitaði hins vegar íslenska seðlabankanum um sambærilega fyrirgreiðslu.
Sviss var með hlutfallslega jafnstórt bankakerfi og Ísland. Það fékk enn umfangsmeiri fyrirgreiðslu frá Bandaríska seðlabankanum, samtals um 466 milljarða (ekki allt í einu), svo að svissnesku stórbankarnir gætu haldið velli.
Ekki var nóg með það, að Bandaríski seðlabankinn neitaði hinum íslenska um sambærilega samninga og hann gerði við aðra seðlabanka. Breska ríkisstjórnin lokaði bönkum í eigu Íslendinga í Lundúnum sama daginn og hún framkvæmdi neyðaráætlun um að bjarga öllum öðrum bönkum í Bretlandi. Og hún bætti gráu ofan á svart með því að setja hryðjuverkalög á íslenskar stofnanir og fyrirtæki.
Ísland var ekki skilið eftir úti á köldum klaka. Ísland var rekið út á kaldan klaka.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:39 | Slóð | Facebook
21.7.2014 | 11:00
Þjóðsögur um bankahrunið (8)
Í íslenskum þjóðsögum koma umskiptingar oft fyrir. Þeir eru úr álfheimum og jafnan ófrýnilegir. Ein nútímagerð af þessari þjóðsögu er, að íslenskir bankamenn hafi verið miklu síðri starfssystkinum sínum erlendis. Þeir hafi verið ættaðir úr álfheimum frekar en mannabyggð.
En bankahrunið verður ekki skýrt með því, að íslenskir bankamenn hafi verið öðrum verri. Til þess eru þrjár ástæður. Ein er rökleg, liggur í eðli máls. Bankarnir íslensku uxu ekki af sjálfum sér, heldur af því að þeir öfluðu sér viðskiptavina, jafnt fjármálastofnana, sem lánuðu þeim, og sparifjáreigenda, sem lögðu fé inn á reikninga þeirra. Skýringarefnið er aðeins flutt til um einn reit, ef sagt er, að íslenskir bankamenn hafi verið óreyndir glannar. Voru þá ekki erlendir viðskiptavinir þeirra jafnóreyndir glannar?
Önnur ástæða styðst við reynslu okkar. Við sjáum nú, fimm árum eftir hrun, að erlendir bankamenn eru engir englar. Stórbankinn HSBC varð nýlega að greiða risasekt fyrir aðild að peningaþvætti. Hinn virðulegi breski banki Barclays varð líka að greiða stórsekt, þegar upp komst, að ráðamenn hans höfðu tekið þátt í að hagræða vöxtum, svokölluðum LIBOR. Og fjármálafyrirtækið alkunna JP Morgan Chase varð að greiða stórsekt fyrir að hafa ekki haft nógu strangt eftirlit með því, að starfsfólk veitti réttar upplýsingar. Fréttir berast nú um ásakanir og ákærur á hendur danskra bankamanna vegna pappírsfyrirtækja og málamyndagerninga. Margar sögur eru líka sagðar af óhóflegum kaupaukum og eyðslu erlendra bankamanna fyrir fjármálakreppuna.
Þriðja ástæðan er, að nú vitum við, að margir erlendir bankar hefðu fallið, hefðu seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins ekki dælt í þá fé í fjármálakreppunni. Til dæmis kemur fram í skýrslu bandarískrar rannsóknarnefndar, að bandaríski seðlabankinn gerði þá gjaldeyrisskiptasamninga við svissneska seðlabankann upp á hvorki meira né minna en 466 milljarða Bandaríkjadala. Slíkir samningar jafngilda heimild til að prenta dali. Vegna þessara samninga gat svissneski seðlabankinn bjargað stórbönkum eins og UBS og Credit Suisse frá falli. Svipað er að segja um danska seðlabankann. Hann gerði gjaldeyrisskiptasamninga við bandaríska seðlabankann upp á 73 milljarða dala og gat því haldið uppi Danske Bank, sem ella hefði farið í þrot.
Íslenskir bankamenn voru hvorki betri né verri en bankamenn annars staðar og því síður umskiptingar úr álfheimum. Þeir fóru gáleysislega, en munurinn á þeim og starfssystkinum þeirra erlendis var, að þeim var ekki bjargað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:37 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 23:00
Þjóðsögur um bankahrunið (7)
Margar þjóðsögur eru á kreiki um bankahrunið 2008 og aðdraganda þess. Ein er, að íslenskt atvinnulíf hafi löngum verið gerspillt. Til dæmis segja þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir í tímaritsgrein árið 2010: Fjórtán fjölskyldur réðu frá upphafi mestu í íslenskum kapítalisma, og voru þær stundum kallaðar Kolkrabbinn, en þessi hópur myndaði ráðastétt landsins jafnt í atvinnulífi sem stjórnmálum. Kolkrabbinn stjórnaði ekki aðeins innflutningsverslun, heldur líka samgöngum, bönkum, tryggingafyrirtækjum og fiskveiðum og síðar verkefnum fyrir varnarstöð Atlantshafsbandalagsins. Í hálfa öld komu flestir valdamenn úr röðum hans, og fjölskyldurnar í honum skiptu með sér opinberum stöðum og bitlingum og lifðu eins og smákóngar í ríkjum sínum.
Líklega er þessi fróðleikur sóttur í læsilega, en mjög óáreiðanlega bók um íslenska bankahrunið, Meltdown Iceland, sem breski blaðamaðurinn Roger Boyes gaf út 2009. En hér er í fyrsta lagi ruglað saman tveimur hugtökum, fjórtán fjölskyldunum og kolkrabbanum. Ég hef áður bent á, að fjölskyldurnar fjórtán eru ættaðar frá El Salvador, en því landi er skipt í fjórtán umdæmi, og er landeigendastéttin þar stórauðug og eftir því óbilgjörn og tekjudreifing ójöfn. Ólíku er því saman að jafna, El Salvador og Íslandi. Orðið kolkrabbinn um auðmannaklíkur slæddist hins vegar inn í íslenska tungu, eftir að þáttaröð um ítölsku mafíuna með þessu heiti var sýnd í sjónvarpinu 19861987. Tóku blaðamenn það síðan upp og notuðu um fámennan hóp kaupsýslumanna undir forystu Halldórs H. Jónssonar húsameistara. Skrifaði Örnólfur Árnason heila bók um þennan hóp árið 1991.Hér eru í öðru lagi ekki lögð fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu, að einhverjar fjórtán fjölskyldur eða kolkrabbi hafi stjórnað íslensku atvinnulífi. Hver gætu þessi gögn verið? Ég skoðaði lista Frjálsrar verslunar um stærstu íslensku fyrirtækin árin 1980 og 1990. Þá kom í ljós, að kolkrabbinn svonefndi stjórnaði ekki nema einu af tíu stærstu fyrirtækjunum, Flugleiðum. Þrjú voru samvinnufyrirtæki, Samband íslenskra samvinnufélaga, KEA á Akureyri og Olíufélagið. Tvö voru ríkisfyrirtæki, Landsbankinn og ÁTVR. Tvö voru sölusamlög í sjávarútvegi, SH og SÍF.
Í þriðja lagi er fráleitt að nota orð, sem táknuðu óbilgjarna auðstétt í El Salvador eða glæpuklíku á Ítalíu um íslenska atvinnurekendur, sem kunnir voru að prúðmennsku og löghlýðni. Lýsing þeirra Wades og Sigurbjargar á íslensku atvinnulífi mestalla 20. öldina styðst ekki við staðreyndir. Hún er þjóðsaga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:35 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 17:00
Þjóðsögur um bankahrunið (6)
Margt það, sem sagt hefur verið erlendis um bankahrunið íslenska 2008, er með annarlegum blæ. Ein þjóðsagan, sem háskólakennararnir Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir birta í mörgum erlendum blöðum og tímaritum, er um aðgerðir Seðlabankans í byrjun bankahrunsins, dagana 7. og 8. október 2008. Þau segja í New Left Review 2010: Þegar hrunið hélt áfram af fullum þunga, festi Davíð Oddsson gengi krónunnar við myntkörfu nálægt því gengi, sem verið hafði. Þau segja síðan: Þetta var líklega skammlífasta gengisfesting, sem sögur fara af. En hún entist nógu lengi til þess, að klíkubræður með réttar upplýsingar gátu losnað við krónur sínar á miklu hagstæðara gengi en síðar bauðst. Innanbúðarmenn segja, að milljörðum króna hafi verið skipt út fyrir gjaldeyri á þessum klukkutímum. Þau hafa endurtekið þessa sögu víðar.
Sagan er þó tilhæfulaus. Seðlabankinn festi ekki gengið þennan tíma, heldur gerði hann kauptilboð til viðskiptabankanna þriggja á genginu 131 króna á móti evru. Sérstaklega var tekið fram á vef bankans, bæði á íslensku og ensku, að ekki væri um gengisfestingu að ræða. Einnig kom þar fram, að í þessum viðskiptum seldu bankarnir Seðlabankanum alls 786 milljónir króna eða sex milljónir evra, ekki neina milljarða, eins og þau Wade og Sigurbjörg segja.
Hins vegar er alvarleg ásökun fólgin í orðum þeirra Wades og Sigurbjargar um, að klíkubræður með réttar upplýsingar hafi gripið tækifærið til að selja Seðlabankanum krónur. Þetta kauptilboð takmarkaðist við millibankamarkað. Voru klíkubræður Davíðs þá ráðamenn viðskiptabankanna? Sigurður Einarsson og Jón Ásgeir Jóhannesson? Ég spurði Wade, hvaða innanbúðarmenn hefðu veitt þeim Sigurbjörgu upplýsingar. Hann nefndi mann í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið. Allir þrír nefndarmennirnir hafa sagt mér, að það sé rangt. Einnig nefndi Wade ónefndan starfsmann Landsbankans og hagfræðing í Bretlandi. Hvort sem þeir menn voru úr álfheimum eða mannabyggð, voru þeir ekki innanbúðarmenn. Þeir höfðu engan aðgang að innviðum Seðlabankans. En slíkan aðgang þurfti ekki heldur, því að allar upplýsingar voru tiltækar á vef bankans. Saga Wades og Sigurbjargar er þjóðsaga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:33 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 14:00
Þjóðsögur um bankahrunið (5)
Margar þjóðsögur hafa komist á kreik um bankahrunið íslenska árið 2008, enda spruttu þá óprúttnir náungar út úr öllum skúmaskotum og sögðu, að sinn tími væri kominn. Ein þjóðsagan hefur meira að segja verið kynnt í erlendum blöðum. Þau Robert Wade og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir sögðu í breska marxistatímaritinu New Left Review 2010 um árin fyrir bankahrunið: Hagstofa Íslands, sem sá um að safna gögnum, var kúguð, svo að eftirtekt vakti, til að stinga undir stól upplýsingum um síaukinn ójöfnuð tekna og eigna, og áræddi hún vart að vekja athygli á óhagstæðri þróun. Þau endurtóku þessa alvarlegu aðdróttun í Huffington Post sama ár.
Þegar Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands auglýsti fund með Robert Wade 6. september 2013, notaði ég tækifærið til að inna hann eftir því, hvað hann hefði til síns máls, enda átti fyrirlestur hans að vera um tekjudreifingu. Wade sagði enda margt um tekjudreifingu á Íslandi, vitnaði til Stefáns Ólafssonar prófessors og sýndi línurit frá honum. Þegar fyrirlestrinum lauk, stóð ég á fætur og spurði Wade: Þú hefur skrifað í New Left Review og Huffington Post, að íslenska hagstofan hafi verið kúguð til að stinga undir stól upplýsingum um þróun í átt til ójafnari tekjudreifingar. Hver eru gögn þín fyrir þessari alvarlegu ásökun á hendur hagstofunni, og ef þú getur ekki lagt fram nein gögn, ertu þá reiðubúinn að draga þessa ásökun til baka?
Wade sagði þá, að þessi spurning varðaði ekki efni fyrirlesturs síns, svo að hann myndi ekki svara henni. Hafði fyrirlesturinn þó verið um tekjudreifingu! En skýringin á því, að Wade varð svara fátt, er auðvitað, að hann hefur engin gögn í höndunum, enda er ásökun þeirra Sigurbjargar fráleit. Á hagstofunni vinna allra flokka menn, sem eiga það eitt sameiginlegt að vera samviskusamir og talnaglöggir. Hagstofan hefur ekki stungið neinum gögnum undir stól, heldur notað sömu reikningsaðferðir um tekjudreifingu og hagstofur annarra landa. Með þeim aðferðum mátti sýna, að tekjudreifingin var árið 2004 ekki ójafnari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum, þótt nokkrir óprúttnir náungar hefðu haldið öðru fram.
Séra Eggert Sigfússon á Vogsósum flokkaði sóknarbörn sín í skúma og lóma. Skúmarnir voru hrokafullir og óheilir, lómarnir hjartahreinir og lítillátir. Ekki þarf að hafa mörg orð um, í hvorri þvögunni þessir þjóðsagnahöfundar eru.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:31 | Slóð | Facebook
20.7.2014 | 11:00
Þjóðsögur um bankahrunið (4)
Nokkrar bækur hafa birst á ensku um bankahrunið, og kennir þar margra grasa. Ein er Deep Freeze: Icelands Economic Collapse eftir Philipp Bagus og David Howden, sem kom út hjá Ludwig von Mises-stofnuninni í Alabama 2011. Þessum tveimur ungu hagfræðingum er mjög í mun að kenna Seðlabankanum íslenska um bankahrunið 2008. Hann hafi ábyrgst skuldir banka, svo að þeir hafi hegðað sér gáleysislega. Þeir Bagus segja á bls. 95: Seðlabankinn, sem var undir stjórn Davíðs Oddssonar, sendi 13. nóvember 2001 frá sér fréttatilkynningu, sem fól í sér, að hann yrði þrautavaralánveitandi fjármálakerfisins.
Í fyrsta lagi var Davíð Oddsson ekki seðlabankastjóri 2001. Í öðru lagi var þessi fréttatilkynning um, að ný lög um Seðlabankann hefðu tekið gildi. Ekki var í lögunum minnst á, að Seðlabankinn yrði þrautavaralánveitandi, heldur honum aðeins veitt heimild til að veita fjármálastofnunum lán. Í fréttatilkynningunni sagði, að samkvæmt lögunum væri Seðlabankanum veitt heimild til að veita þrautavaralán. En slík heimild felur ekki í sér skyldu.
Í þriðja lagi vísaði Davíð sjálfur því beinlínis á bug, að Seðlabankinn þyrfti undir öllum kringumstæðum að gegna slíku hlutverki. Hann sagði á blaðamannafundi í Seðlabankanum 8. maí 2008: Skyndilega hefur það gerst, þegar fjárþurrð skapast, að þá kemur upp sú kenning, að seðlabankar eigi að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður banka, í hvaða stærð sem þeir fara. Þetta hefur maður nú aldrei heyrt um áður, að bankar eigi að stækka eins og þeim hentar og taka þá áhættu, sem þeim hentar, en síðan beri almenningi, fyrir meðalgöngu síns seðlabanka, að vera einhvers konar ábyrgðarsjóður út í það óendanlega fyrir slíka starfsemi. Davíð bætti við, að vissulega hlyti Seðlabankinn að reyna að tryggja peningalegan stöðugleika og stuðla að fjármálastöðugleika.
Það er því enn ein þjóðsagan, að Seðlabankinn hafi undir forystu Davíðs Oddssonar ýtt undir ábyrgðarleysi fjármálastofnana.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2013.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.7.2014 kl. 05:28 | Slóð | Facebook