6.6.2015 | 23:56
Ártíð Ólafs Thors
Hálfrar aldar ártíð Ólafs Thors var haldin hátíðleg á dögunum. Tveir menn sögðu mér, hvor í sínu lagi, að Ólafur hefði orðið forsætisráðherra í hvaða landi sem er. Þeir voru dr. Benjamín Eiríksson, hagfræðingur og bankastjóri, og Magnús Óskarsson borgarlögmaður. Ólafur rak útgerðarfyrirtækið Kveldúlf ásamt föður sínum og bræðrum og fór fyrst í framboð 1921 með þeim Jóni Þorlákssyni verkfræðingi og Einari H. Kvaran rithöfundi. Hann vakti þegar athygli. Þá sagði Jón Thoroddsen yngri, sem var ákafur jafnaðarmaður: Einn selur sement, annar saltfisk og hinn þriðji sannfæringuna. Magnús Jónsson guðfræðidósent sagði þá á almennum kjósendafundi, að nú tíðkaðist sama aðferð og hjá laxveiðimönnum. Jón Þorláksson væri ryðgaði öngullinn, en Ólafur Thor girnilega flugan. Náði Jón kjöri, enda skipaði Ólafur þriðja sæti listans.
Ólafur var fyrst kjörinn á þing í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1926. Lét hann strax að sér kveða á þingflokksfundum, og sagði Hákon Kristófersson í Haga háðslega: Það er naumast okkur hefur bæst liðsaukinn! Minnir þetta á, þegar Sigurður Bjarnason frá Vigur var fyrst kjörinn á þing 1942. Hann hafði skrifað fyrir kosningar, að Alþingi þyrfti að endurheimta virðingu sína. Og ætlar þú að vinna það afrek? spurði Ólafur. Allir þekkja gamansöguna af því, að Ólafur kom stundum seint á nefndarfundi fyrstu ár sín á þingi. Pétur Ottesen sagði þá við hann: Ólafur, þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið! Ólafur var fljótur til svars: Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni! Kona Ólafs var Ingibjörg, dóttir Indriða Einarssonar, hagfræðings og leikskálds.
Ólafur Thors var hressilegur í framkomu. Eitt sinn var Benjamín Eiríksson staddur inni hjá honum og von á öðrum manni í heimsókn. Ólafur hreyfði hendur eins og hann væri að leika á fiðlu og sagði við Benjamín: Ja, hvaða lag á ég nú að leika fyrir hann þennan? Gamall andstæðingur Ólafs, Jónas Jónsson frá Hriflu, sagði líka eitt sinn: Það er einkennileg tilviljun, að hinn kunni hugsjónamaður íslenskrar leikmenntar, Indriði Einarsson, skyldi hafa átt að tengdasonum tvo mestu leikara á Íslandi, þá Jens Waage og Ólaf Thors. En þrátt fyrir allan sinn grallaraskap var Ólafur alvörugefinn maður, lífsreyndur, ráðríkur og vandur að virðingu sinni. Hann gaf dótturdóttur sinni gott ráð: Ekki eyða ævinni í að sjá eftir eða kvíða fyrir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. febrúar 2015.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.6.2015 kl. 09:59 | Slóð | Facebook
6.6.2015 | 21:13
Málstaður Íslendinga
Eflaust hefur einhverjum brugðið, þegar spekingar úr Háskólanum átöldu mig fyrir að taka málstað Íslendinga í deilum við Breta. Háskóli Íslands var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911, vegna þess að þjóðin undi því ekki, að íslenskir háskólanemar þyrftu að læra danska sögu, danskar bókmenntir, dönsk lög. Þjóðin vildi, að þeir lærðu íslenska sögu, íslenskar bókmenntir, íslensk lög. Einar Arnórsson lagaprófessor setti saman bækur um tilkall Íslendinga til sjálfstæðis. Sigurður Nordal íslenskuprófessor skilgreindi í skrifum sínum íslenska þjóðarvitund. Ágúst H. Bjarnason heimspekiprófessor fræddi lesendur á vandaðri íslensku um helstu afrek mannsandans. Sagnfræðikennarar lýstu baráttu Íslendinga við erlent vald, allt frá því að Haraldur blátönn þreifaði hér fyrir sér og síðan Ólafur digri.
Allir þingmenn skrifuðu undir ávarp til Kristjáns IX. Danakonungs árið 1873, þar sem sagði: Saga vor á hinum liðnu öldum, frá því er landið fyrst byggðist, sem að ári eru 1000 ár, sýnir ljóslega, að það er frelsið, sem hefur veitt þjóð vorri fjör og afl, fylgi og framtak í öllum greinum, en að það er ánauð og ófrelsi, sem hefur deyft hana og kúgað. Og íslenska samninganefndin 1918 lagði fram yfirlýsingu á fyrsta fundinum með Dönum 1. júlí 1918, þar sem sagði: Þessi atriði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis. Fræg eru einnig vísuorð Snorra Hjartarsonar: Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, þér var ég gefinn barn á móðurkné. Og enn orti skáldið: Ísland, í lyftum heitum höndum ver ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.
Lítt hefði þá Jón Sigurðsson, Einar Arnórsson, Sigurð Nordal, Ágúst H. Bjarnason og Snorra Hjartarson grunað, að það yrði sagt mönnum til hnjóðs, að þeir verðu í lyftum heitum höndum heiður Íslands. Því síður hefði þá grunað, að sumir íslenskir menntamenn vildu frekar feta í fótspor Ditmars Blefkens, sem sagði það helst frá Íslendingum, að þeir væru latir og lúsugir, en Arngríms lærða, sem varði þjóð sína með oddi og egg. Berlegast kom þetta í ljós í Icesave-deilunni við Breta, þegar margir spekingar úr Háskólanum tóku málstað Breta. En hvað var unnið við að stofna íslenskan háskóla í því skyni að hætta að læra dönsk lög, ef átti aðeins að skipta þeim út fyrir bresk lög?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. janúar 2015.)
6.6.2015 | 18:58
Bandarísk leyniskjöl um Ísland
Þau skjöl bandarískra sendimanna, sem prófessor Þór Whitehead gróf upp fyrir mörgum árum í söfnum vestra, sýndu takmarkaðan skilning þeirra á íslenskum aðstæðum og höfðu að geyma ýmsar missagnir. Til dæmis töldu Bandaríkjamenn árin 19411944, að íslenskir sósíalistar væru bestu vinir þeirra. Stalín hafði þá skipað sósíalistum að leggja Bandaríkjamönnum allt það lið, sem þeir mættu, vegna þess að Bandaríkin veittu Stalín ómetanlega aðstoð eftir árás Hitlers á Rússland sumarið 1941. Jafnframt vanmátu Bandaríkjamenn hinn snjalla stjórnmálamann Ólaf Thors og misskildu hrapallega, þegar hann brá fyrir sig gamansemi. Hlustuðu þeir því vandlegar á ýmsa óvildarmenn Ólafs.
Svipað er að segja um Wikileaks-skjölin frá 20072009, sem birtust fyrir nokkru, en þau eru leyniskjöl úr bandaríska utanríkisráðuneytinu, sem laumað var á Netið. Davíð Oddsson var traustasti vinur Bandaríkjanna á Íslandi og átti sinn þátt í því, að Íslendingar skipuðu sér í raðir hinna viljugu þjóða í Íraksstríðinu 2003. Hann myndaði góð tengsl við þrjá Bandaríkjaforseta, Bush-feðga og Clinton, eins og ég get borið vitni um úr ferð til Washington-borgar í júlí 2004, þegar við sungum afmælissöng fyrir Bush yngri í sporöskjulaga skrifstofunni. Davíð hafði hins vegar ekki mikinn tíma til að sitja að skrafi við erlenda skrifstofumenn í sendiráðum, sérstaklega ekki eftir að hann varð seðlabankastjóri í október 2005. Í Wikileaks-skjölunum er talað heldur óvinsamlega um Davíð, og greina kunnugir þar bergmál radda úr Samfylkingunni.Í Wikileaks-skjölunum er hins vegar talað vel um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra 20072009, þrátt fyrir að hún gengi oft þvert gegn sjónarmiðum og hagsmunum Bandaríkjanna. Til dæmis tók hún eindregna afstöðu með Palestínumönnum gegn Ísrael og heimsótti Assad Sýrlandsforseta í júní 2008, jafnframt því sem hún sendi eitt sinn fulltrúa sinn til Írans (í því skyni að reyna að fá stuðning landsins við hið fráleita framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna). En líklega er skýrasta dæmið um það, hversu skeikult mat bandarískra sendimanna á íslenskum aðstæðum var, að þeir töldu Jón Guðna Kristjánsson, umsjónarmann Spegilsins í Ríkisútvarpinu, heppilegasta manninn til að fara í fræðslunámskeið um Afganistan til Washington-borgar vorið 2007.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. janúar 2015.)
6.6.2015 | 18:58
Heimildagildi opinberra skjala
Við Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur ræddum um heimildagildi opinberra skjala og ýmislegt fleira á fróðlegum og fjölsóttum fundi í Háskólanum miðvikudaginn 14. janúar 2015. Þar var meðal annars vikið að Wikileaks-skjölunum, og benti ég á, að í þeim væri að finna staðfestingu á því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn neitaði að afgreiða áætlun um endurreisn íslenska hagkerfisins, nema Íslendingar létu undan Icesave-kröfu Breta (sem var jafnan kölluð Icesave-skuld Íslendinga í fréttum Ríkisútvarpsins). Ég kvað líka ýmis skjöl úr bandaríska sendiráðinu sýna, að þar á bæ hefðu menn helst umgengist vinstri menn: greining sendiráðsins á aðstæðum bergmálaði sjónarmið þeirra. Og ef til vill öfugt: Sendiráðsmenn hættu til dæmis að tala við Styrmi Gunnarsson ritstjóra, eftir að hann gagnrýndi viðskilnað Bandaríkjamanna við Íslendinga árið 2006, þegar varnarsamstarfið var rofið. Vildu þeir aðeins heyra kurteisishjal?
Í Wikileaks-skjölunum má meðal annars lesa, að bandaríska sendiráðið hafi árið 2007 valið Jón Guðna Kristjánsson, fréttamann á Ríkisútvarpinu, til að fara í fræðsluferð um Afganistan til Washington og Brüssel (ekki til sjálfs Afganistans, eins og misskilja mátti af glæru í fyrirlestri mínum). Jón Guðni væri virtur fréttamaður, og Spegillinn, sem hann hefði umsjón með, væri einn áhrifamesti fréttaþáttur landsins. Síðan var vitnað í samtöl sendiráðsmanna við Jón Guðna, sem hefði áhuga á að skýra fyrir íslenskum hlustendum hina flóknu atburðarás í Afganistan. Höfð voru eftir ýmis sjónarmið Jóns Guðna. Þegar Jón Guðni var síðar spurður um þetta opinberlega, aftók hann, að hann hefði haft eitthvert samband við sendiráðið. Þetta væri uppspuni þess. Hann hefði verið valinn af Ríkisútvarpinu til að fara í þessa fræðsluferð um Afganistan. Hver hefur rétt fyrir sér? Þetta er ef til vill eitt dæmið um það, sem Guðni Th. Jóhannesson benti á í fyrirlestri sínum, að skýrslur erlendra sendimanna þurfa ekki að segja alla söguna. En fróðlegast kann þó að vera, að bandaríska sendiráðið skyldi hafa slíkt dálæti á umsjónarmanni Spegilsins, sem gárungarnir kalla Hljóðviljann.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. janúar 2015.)
6.6.2015 | 18:50
Nýjar heimildir?
Dr. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur birti í síðasta hefti Sögu fróðlega ritgerð um nýjar heimildir um íslenska bankahrunið. Þær eru annars vegar wikileaks-skjöl, aðallega skýrslur bandaríska sendiráðsins á Íslandi til utanríkisráðuneytisins í Washington-borg, hins vegar skjöl, sem Guðni aflaði sér fyrir skömmu úr breska utanríkisráðuneytinu með skírskotun til upplýsingalaga.
Guðni viðurkennir, að heimildagildi slíkra erlendra skjala er oft takmarkað, því að höfundarnir eru oft að hugsa um eigin hagsmuni frekar en að segja söguna, eins og hún var. Hann telur hins vegar, að wikileaks-skjölin veiki frekar en styrki þá kenningu, sem hann ber mig og Styrmi Gunnarsson fyrir, að bandarískir ráðamenn hafi ýtt Íslendingum út á kaldan klaka, vitandi vits. Mín kenning er að vísu önnur. Íslendingar voru skildir eftir úti á köldum klaka, en ekki ýtt þangað. Fyrir henni hef ég ýmis rök. En mér finnast wikileaks-skjölin aðallega sýna, við hverja bandarískir sendimenn töluðu helst: fólk í Samfylkingunni. Það hafði nógan tíma og mikla ánægju af masi. Því er við að bæta, að Guðni kemst að þeirri niðurstöðu með því að skoða wikileaks-skjölin, að líklega hafi Davíð Oddsson ekki afflutt samtal sitt við rússneska sendiherrann að morgni 7. október. Rússalánið hafi staðið Íslendingum til boða. Fyrir þessu hef ég líka sjálfstæðar heimildir.
Skjölin frá breska utanríkisráðuneytinu, sem Guðni aflaði sér, eru frekar rýr í roðinu, vegna þess að svo margt er þar yfirstrikað. Þó telur hann þau veita vísbendingu um, að bresk stjórnvöld hafi ekki beitt hryðjuverkalögunum á Íslendinga vegna þeirra ummæla Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra að kvöldi 7. október 2008, að Íslendingar ætluðu sér ekki að greiða skuldir óreiðumanna. Því hafa Ólafur Arnarson og fleiri haldið fram. Raunar þarf ekki að hrekja þá kenningu þeirra, því að breskir ráðamenn hafa sjálfir aldrei notað þá skýringu, heldur jafnan vísað í samtöl sín við íslenska ráðamenn. Einnig virðast þeir hafa misskilið neyðarlögin frá 6. október 2008.
Við Guðni ræðum, hvaða ljósi nýjar heimildir bregða á bankahrunið 2008, meðal annars Rússalánið, starfsemi sendiráða Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi, hryðjuverkalögin bresku og sjónvarpsviðtalið við Davíð Oddsson, á fundi í Háskólatorgi Háskóla Íslands, stofu HT-101, miðvikudaginn 14. janúar kl. 12-13.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. janúar 2014.)
6.6.2015 | 13:00
Nokkuð að iðja
Fræg eru orð Árna Magnússonar handritasafnara: Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverir tveggja nokkuð að iðja. Því miður má finna dæmi um fyrrnefndu iðjuna í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, sem kom út 2010. Af einhverjum ástæðum eru þar ýmsar fullyrðingar settar á blað, án þess að þær séu sannreyndar eða prófaðar saman við annað efni úr skýrslunni.
Til dæmis er á 40. bls. í 20. kafla þetta haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni um samtöl bankamanna á öndverðu ári 2008: Á öðrum stað í heiminum, miklu sunnarlegra, var haldin veisla þar sem var skipulagt ákveðið módel sem var það að Landsbankinn og eigendur Landsbanka og Kaupþings voru komnir að niðurstöðu um það, það væri í raun ekki hægt að gera neitt af viti nema að Glitni væri skipt upp á milli þeirra. Þessum stóru orðum er hvergi fylgt eftir í skýrslunni. Ég hef rætt við ráðamenn Landsbankans og Kaupþings á þessum tíma, og enginn kannast við þetta. Hins vegar kemur einmitt fram í skýrslunni, að þeir Sigurjón Þ. Árnason, Hreiðar Már Sigurðsson og Jón Ásgeir Jóhannesson (sem var raunar hvorki bankastjóri né bankaráðsmaður í Glitni) ræddu eitt sinn saman um þann möguleika, að Kaupþing og Landsbankinn keyptu saman Glitni, en fundurinn leystist upp í hávaðarifrildi um, hver ætti að kaupa hvað. Þessi saga Jóns Ásgeirs um veislu suður í löndum er bersýnilega hugarórar, og má velta því fyrir sér, hvort hið sama eigi við um fleiri samsæriskenningar hans.
Annað dæmi er, að á 140. bls. í 20. kafla er þetta haft eftir Össuri Skarphéðinssyni um fund aðfaranótt mánudagsins 6. október: Þar eru þrír prúðbúnir og vel mæltir yfirstéttar Bretar frá J. P. Morgan sem hafði verið ráðinn sem sérstakur ráðgjafi Seðlabankans. En af þessum þremur mönnum var aðeins einn breskur, Michael Ridley, og hann var ekki úr neinni yfirstétt, þótt hann talaði óaðfinnanlega ensku. Einn var Svíi, Johan Bergendahl, og einn bandarískur, Gary Weiss. Ýmislegt annað er haft eftir Össuri í skýrslunni, og má spyrja, hvort það sé eins óáreiðanlegt.
Í þessum tveimur dæmum hefur rannsóknarnefndin hjálpað erroribus á gang, og verða síðan aðrir að leitast við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa þá hvorir tveggja nokkuð að iðja.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. desember 2014.)
6.6.2015 | 09:55
Marx og Engels um Íslendinga
Íslenskum marxistum brá nokkuð, þegar ég upplýsti í Morgunblaðinu 17. febrúar 1979, að í miklu austur-þýsku ritsafni þeirra Karls Marx og Friðriks Engels væri á einum stað minnst á Íslendinga og heldur sneytt að þeim. Það var í ómerktri grein eftir Engels í Nýja Rínarblaðinu (Neue Rheinische Zeitung) 10. september 1848, en Marx var ritstjóri. Norðurlandahugsjónin er ekkert annað en hrifning af hinni ruddalegu, óþrifnu, fornnorrænu sjóræningjaþjóð, skrifaði Prússavinurinn Engels um vopnahlé Dana og Prússa, en rætt hafði verið um það, að aðrar Norðurlandaþjóðir kæmu Dönum til hjálpar gegn ofureflinu. Íslendingar töldu allar þjóðirnar þrjár úrkynjaðar, enda er sú þjóð auðvitað mesta Norðurlandaþjóðin, sem er frumstæðust og líkust hinni fornnorrænu í öllum siðum og háttum. Árni Bergmann svaraði því til í Þjóðviljanum, að Halldór Laxness lýsti Íslendingum svipað í Gerplu.
Óskar Bjarnason gróf síðan upp nokkur ummæli Marx og Engels um Íslendinga, sem ekki höfðu birst á prenti að þeim lifandi. Í lok fyrsta kafla Þýsku hugmyndafræðinnar skrifuðu þeir kumpánar veturinn 18451846 um ýmsa nýja siði, sem landnemar flytji með sér, áður en þeir hafi rutt eldri siðum úr vegi. Þetta gerist í öllum nýlendum, nema þær séu einvörðungu bækistöðvar hers eða verslunar. Dæmi um þetta eru Karþagó, grísku nýlendurnar og Ísland á 11. og 12. öld. Hér minntust þeir fremur vinsamlega á Ísland. En í desember 1846 skrifaði Engels einum vini sínum frá París, að ekki væri hann hrifinn af Norðurlandaþjóðum. Svíar lítilsvirða Dani sem þýsk-mengaða, úrkynjaða, rausgjarna og veikgeðja. Norðmenn fyrirlíta fransk-mengaða Svía með sinn aðal og gleðjast yfir því að í Norge sé einmitt þetta sama fávísa bændaþjóðfélag og á tímum Knúts ríka. Þeir eru aftur á móti svívirtir af Íslendingum, sem enn tala alveg sömu tungu og þessir subbulegu víkingar frá anno 900, súpa lýsi, búa í jarðhýsum og þrífast ekki nema loftið lykti af úldnum fiski. Ég hef oftsinnis freistast til þess að vera stoltur af því að vera þó ekki Dani, hvað þá Íslendingur, heldur bara Þjóðverji. Þessa skoðun endurtók Engels síðan í blaðagreininni, sem ég rifjaði upp 1979.
Loks er þess að geta, að Bruno nokkur Bauer heimsótti Marx í Lundúnum 12. desember 1855. Þegar Bauer sagði, að enska hefði spillst af frönsku, svaraði Marx, eins og hann skrifaði síðar Engels: Ég tjáði honum þá til huggunar, að Hollendingar og Danir segðu það sama um þýskuna og að Íslendingar væru hinir einu sönnu ómenguðu piltungar. Og þá vitum við það.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. desember 2014.)
5.6.2015 | 14:40
Ferð til Nýju Jórvíkur
Þótt sérviska þyki á Íslandi að kalla New York Nýju Jórvík, laga margar þjóðir þetta staðarnafn að tungum sínum. Portúgalir segja til dæmis Nova Iorque og Spánverjar Nueva York. Í öndverðum október árið 2014 átti ég einu sinni sem oftar leið um þessa borg borganna, einn 54 milljóna árlegra gesta. Borgin er stundum kölluð stóra eplið (big apple), eftir að bandaríski rithöfundurinn Edward S. Martin birti bók um hana 1909. Kansas-búar sjá gráðuga borg í Nýju Jórvík, skrifaði Martin þá. Þeir telja, að stóra eplið drekki í sig óeðlilega mikið af þjóðarsafanum. Margir aðrir hafa haft orð á lífsgæðakapphlaupi borgarbúa, græðgi þeirra og ágirnd, til dæmis Einar Benediktsson:
Mér fannst þetta líf allt sem uppgerðarasi
og erindisleysa með dugnaðarfasi.
Þeir trúa með viti í Vesturheim.
Viltu sjá þjón fyrir herrum tveim,
þá farðu í Fimmtutröð.
Fimmtatröð var Fifth Avenue, en herrarnir tveir Guð og mammón, hinn sýrlenski guðs auðsins. Einar vék einnig heldur óvirðulega að siðum og háttum borgarbúa:
Og jórturleðrið er jaxlað hraðar
í Jórvík nýju en annars staðar.
Raunar er miðstöð fjármálaheimsins ekki á Fimmtutröð, heldur í Garðastræti, eins og íslenskulegast væri að nefna Wall Street suðaustarlega á Manhattan-eyju. Skrifa ég stundum fyrir Garðastrætisblaðið, Wall Street Journal.
Morgunblaðið skýrði frá því 8. júlí 1939, að Fiorello La Guardia, borgarstjóri Nýju Jórvíkur 19331945, hafi mælt í ræðu við opnun Íslandsdeildar Heimssýningarinnar vorið 1939: Stærsta borg heims flytur mestu þjóð heims kveðju sína. Eitthvað kann að vera hér ofsagt, nema ef borgarstjórinn hefur átt við það, að líklega eru Íslendingar sú þjóð heims, sem er mest þjóð, fullnægir best hefðbundnum skilyrðum fyrir því. Og vissulega er allt stórt í sniðum í Nýju Jórvík. Eggert Stefánsson söngvari spurði, þegar hann sigldi inn í hafnarmynnið og sá styttuna af frelsisgyðjunni: Hvur er þessi stóra stelpa? Eftir vesturför sagði Eiríkur Ketilsson heildsali við félaga sína í kaffi á Hótel Borg: Blessaðir verið þið, New York er alveg ómöguleg borg. Hugsið ykkur að labba niður Fifth Avenue, rekast á 300 manns og geta ekki rægt einn einasta. En líklega er þetta einn helsti kosturinn á Nýju Jórvík: Þar er ekki spurt, hvað maður hafi gert, heldur hvað hann geti gert.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. desember 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook
5.6.2015 | 05:52
Russell á Íslandi
Breski heimspekingurinn Bertrand Russell var einn merkasti hugsuður tuttugustu aldar, stærðfræðingur, ritsnillingur, háðfugl, andófsmaður, jarl með seturétt í lávarðadeildinni, andkommúnisti, guðleysingi og friðarsinni. Hann hafði yndi af að ganga gegn viðteknum viðhorfum og sat tvisvar í breskum fangelsum, fyrst fyrir andstöðu sína við þátttöku Breta í fyrri heimsstyrjöld, sem ég tel vel ígrundaða, síðan fyrir ólöglegar mótmælaaðgerðir við kjarnorkuvopnavörnum Vesturveldanna, en þær varnir voru að flestra dómi nauðsynlegar. Þegar ég vann á dögunum að lítilli bók með greinum Russells, sem birtust í íslenskum blöðum á sínum tíma um kommúnisma, rakst ég á skemmtilega teikningu af honum, sem Halldór Pétursson hafði gert fyrir Samvinnuna. Ég tók líka eftir því, að Russell minntist einu sinni á Ísland í ritum sínum. Það var í greininni Outline of Intellectual Rubbish, Frumdráttum þvættings, sem birtist fyrst 1943. Þar skrifaði hann: Haldi einhver því fram, að tveir og tveir séu samanlagt fimm eða að Ísland liggi við miðbaug, þá finnum við frekar til vorkunnsemi en reiði.
Ég veit aðeins um einn Íslending, sem hlustað hefur á Russell sjálfan, þótt eflaust hafi þeir verið fleiri. Hann var dr. Jóhannes Nordal seðlabankastjóri. Russell var félagi á Þrenningargarði (Trinity College) í Cambridge 1944-1949, en Jóhannes stundaði um þær mundir nám í Hagfræðiskólanum í Lundúnum, LSR, sem fluttist í stríðinu til Cambridge. Þótti Jóhannesi mikið til Russells koma, eins og hann lýsti í viðtali við mig í sjónvarpsþættinum Maður er nefndur. Jóhannes skrifaði líka fróðlega grein um Russell í Lesbók Morgunblaðsins 1951, skömmu eftir að Russell hafði fengið Nóbelsverðlaun í bókmenntum. Þjóðviljinn var hins vegar lítt hrifinn af Russell á þeim árum vegna andkommúnisma hans og sagði í forsíðufrétt um verðlaunaveitinguna, að Russell væri boðberi lauslætis og kjarnorkustríðs.
Russell naut mikillar virðingar á Íslandi, og þýddi Matthías Jochumsson skáld eina fyrstu greinina, sem eftir hann birtist í íslensku tímariti, í Eimreiðinni 1917. Margar aðrar ritgerðir og greinar voru þýddar eftir hann og jafnvel smásaga í Vikunni. Tvær bækur Russells hafa komið út á íslensku, Uppeldið (On Education) 1937 og Þjóðfélagið og einstaklingurinn (Authority and the Individual) 1951, og tvö styttri kver, Að höndla hamingjuna (The Conquest of Happiness) 1997 og Af hverju ég er ekki kristinn (Why I am Not a Christian) 2006. Russell var raunar eitt sinn spurður, hverju hann myndi svara Guði, stæði hann andspænis honum eftir andlátið og yrði að skýra trúleysi sitt. Russell var ekki lengi að hugsa sig um: Ónóg gögn.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. desember 2014. Nú hef ég raunar komist að því í grúski mínu, að séra Sigurður Einarsson, sem oftast er kenndur við Holt, hlýddi á fyrirlestur Russells í Kaupmannahöfn 1936, og varð mjög hrifinn.)
4.6.2015 | 19:34
Veruleikinn að baki myndunum
Víetnam-stríðinu lauk með því, að kommúnistar í Norður-Víetnam sviku friðarsamninga, sem þeir höfðu gert við Bandaríkjastjórn í París 1973, réðust á Suður-Víetnam og hertóku 1975, á meðan Bandaríkjaher hafðist ekki að, enda hafði þingið bannað forsetanum að veita þar frekari aðstoð. Víetnam-stríðið var undir lokin mjög umdeilt. Ein ástæðan er, hversu opin Bandaríkin eru: Fréttamenn gátu lýst hörmungum stríðsins frá annarri hliðinni, en enginn fékk að skoða það frá hinni. Tvær áhrifamiklar ljósmyndir eru jafnan birtar úr stríðinu.
Önnur myndin var frá hinni misheppnuðu Tet-sókn kommúnista í ársbyrjun 1968. Hún var af lögreglustjóranum í Saigon, Nguyen Ngoc Loan, að skjóta til bana kommúnista, Nguyen Van Lem, á götu í borginni. Lem var talinn hafa stjórnað dauðasveitum kommúnista. Ljósmyndarinn, Eddie Adams, fékk Pulitzer-verðlaunin fyrir myndina, en hafnaði þeim, því að honum fannst birting myndarinnar hafa haft óæskileg áhrif. Hann bað Loan lögreglustjóra síðar afsökunar á þeim skaða, sem hann hefði valdið honum og fjölskyldu hans. Loan flýði til Bandaríkjanna eftir hertöku Suður-Víetnams 1975 og opnaði pítsustað í úthverfi Washington-borgar. Hann rak staðinn til 1991, þegar uppskátt varð um fortíð hans. Loan andaðist 1998. Komið hefur út bók um hann og Tet-sóknina eftir James S. Robbins.
Hin ljósmyndin var frá júní 1972. Íbúar í þorpinu Trang Bang voru á flótta undan kommúnistum þegar flugmaður í flugher Suður-Víetnams kom auga á þá, hélt, að þeir væru kommúnistar, og varpaði napalm-sprengjum á hópinn. Eldur læstist í föt níu ára stúlku, Kim Phuc, svo að hún reif sig úr þeim og hljóp skelfingu lostin, nakin og hágrátandi út í buskann ásamt öðrum börnum í þorpinu. Þá smellti ljósmyndarinn Nick Ut mynd af þeim, sem flaug á augabragði um heimsbyggðina. Eftir að Ut tók myndina aðstoðaði hann Kim við að komast á sjúkrahús. Fyrst var henni vart hugað líf, en eftir tveggja ára dvöl á sjúkrahúsinu og sautján skurðaðgerðir sneri hún heim til sín. Eftir að kommúnistar hertóku Suður-Víetnam notuðu þeir Kim óspart í áróðri. Hún hugsaði sitt. Hún fékk leyfi til að stunda nám í Havana á Kúbu, þar sem hún hitti landa sinn. Þau ákváðu að ganga í hjónaband og flugu til Moskvu 1992 í brúðkaupsferð. Á heimleiðinni var komið við í Nýfundnalandi. Þar gengu hjónin frá borði og báðu um hæli í Kanada. Þau búa nú í Ontario-fylki og eiga tvö börn. Kim hefur hitt skurðlæknana, sem björguðu lífi hennar forðum, og ljósmyndarann, sem hafði fengið Pulitzer-verðlaunin fyrir mynd sína. Komið hefur út bók um Kim Phuc eftir Denise Chong.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. nóvember 2014.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.6.2015 kl. 13:18 | Slóð | Facebook