8.6.2015 | 20:30
Þessi ríkisstjórn gerir það, sem hin vanrækti
Menn geta auðvitað deilt um ýmsar gerðir ríkisstjórnarinnar, en tvö aðalatriði standa upp úr:
- Fyrrverandi ríkisstjórn lofaði skuldaleiðréttingum og vildi slá skjaldborg um heimilin, en lítið varð úr framkvæmdum. Núverandi ríkisstjórn framkvæmdi stórfellda skuldaleiðréttingu, sem gerbreytir efnahag tugþúsunda heimila.
- Fyrrverandi ríkisstjórn var skipuð vinstri mönnum, sem hnýtt höfðu í útlendinga alla sína stjórnmálatíð. En hún gafst alltaf upp í samningum við útlendinga og það miklu oftar en í Icesave-málinu einu. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar komið fram við útlendinga af kurteisi, en líka af fullkominni festu.
8.6.2015 | 19:02
Hinn stígurinn
Dreifing eigna og tekna hefur löngum verið mjög ójöfn í Perú, þar sem ég dvaldist nýlega um skeið. Andspænis fámennri yfirstétt af spænskum ættum stendur allur fjöldinn, sem er aðallega kominn af indjánum, en hefur blandast nokkuð evrópskum innflytjendum. Þetta fólk býr í fátækrahverfum umhverfis höfuðborgina Lima og í frumstæðum sveitaþorpum uppi til fjalla og inni í frumskóginum. Eirðarlausir menntamenn hljóta því að telja hér frjósaman jarðveg fyrir byltingarboðskap Karls Marx. Einn þeirra var Abimael Guzmán, heimspekiprófessor og maóisti. Hann skipulagði hryðjuverkahóp seint á áttunda áratug, Skínandi stíg (Sendero Luminoso). Ódæði hans beindust ekki aðeins að stjórnvöldum, heldur líka alþýðufólki, sem talið var þeim hliðhollt. Þeir Guzmán lögðu undir sig afskekkt svæði í Perú og stjórnuðu þar harðri hendi, eins og lýst er í Svartbók kommúnismans. Talið er að þeir hafi alls drepið um þrjátíu þúsund manns.
Árið 1988 gaf verkfræðingurinn Hernando de Soto hins vegar út bókina Hinn stíginn (El Otro Sendero). Þar hélt hann því fram að búa þyrfti alþýðu Perús skilyrði til að brjótast úr fátækt. De Soto sagði snautt fólk ráða yfir talsverðu fjármagni, en þetta fjármagn væri oft dautt í þeim skilningi að það væri ekki skráð, veðhæft eða seljanlegt. Leiðin til bjargálna væri því torfær. Rétta ráðið væri að opna hagkerfi Perús, auðvelda frjáls viðskipti, einfalda reglur um stofnun smáfyrirtækja og viðurkenna eignarrétt fátæks fólks á ýmsum eignum utan hins hefðbundna hagkerfis. Rithöfundurinn Mario Vargas Llosa tók undir með de Soto og bauð sig fram til forseta 1990. Annar frambjóðandi, Alberto Fujimori, sigraði naumlega. Eftir forsetakjörið kvaddi Fujimori de Soto óvænt til ráðgjafar og framkvæmdi nær allar tillögur hans, og hefur síðan verið mikill uppgangur í Perú. Jafnframt herti Fujimori baráttuna gegn Skínandi stíg, og var Guzmán gómaður árið 1992. Hefur síðan verið sæmilegur friður í landinu. Fujimori spilltist hins vegar af valdinu, braut stórlega af sér og situr nú í fangelsi, þótt flestir Perúbúar séu samkvæmt skoðanakönnunum þakklátir honum fyrir að velja hinn stíginn fyrstu árin á forsetastól.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. apríl 2015.)
8.6.2015 | 17:50
Hugleiðingar í Machu Picchu
Merkilegt var að koma á dögunum til Perú og skoða fornar Inkaborgir, Cusco, sem var höfuðborg, þegar Spánverjar komu til landsins, og Machu Picchu, hina yfirgefnu og týndu borg uppi í háfjöllum Andes. Sjálfir fundu Spánverjar aldrei Machu Picchu, sem virðist helst hafa þjónað trúarlegum þörfum Inkanna. Rifjaðist nú upp fyrir mér, að ungur las ég í enskri þýðingu rit, sem Ludwig von Mises hafði mælt með, Sósíalistaveldi Inkanna (L'Empire socialiste des Inka) eftir franska lögfræðinginn Louis Baudin, en það kom fyrst út 1928. Baudin lýsti rækilega skipulagi Inkaveldisins: Þar urðu allir að vinna, en einnig var séð fyrir lágmarksþörfum allra. Þéttriðið veganet var lagt um landið og fullar kornhlöður stóðu á vegamótum. Afkomuöryggi var því sæmilegt, en einstaklingsfrelsi ekkert. Inkarnir stjórnuðu harðri hendi. Allir í sömu stöðu urðu að klæðast sams konar fatnaði, trúa á sömu guði og tala sömu tungu. Allir urðu að ganga í hjónaband og eignast börn. Allt frumkvæði var miskunnarlaust barið niður og dauðarefsing lá við flestum brotum. Frjálst starfsval var ekki til og einnig urðu þegnar Inkanna reglulega að vinna það, sem má ýmist kalla þegnskylduvinnu eða þrælkun. Þótt Inkaveldið væri víðlent og voldugt var það frumstætt um margt. Inkarnir höfðu hvorki fundið upp hjólið né nothæft ritmál.
Öndvert við Baudin og von Mises hafa sumir fræðimenn efast um, að kenna megi Inkaveldið við sósíalisma, sem sé miklu nýrra orð og tákni sjálfstjórn og sameign fjöldans, en í Inkaveldinu hafi allt í raun verið í eigu Inkanna. Þar hafi verið fastskorðuð stéttaskipting. Þetta er auðvitað rétt, en þegar einkaeignarréttur er afnuminn hlýtur að myndast skipulag líkt Inkaveldinu. Hin nýja stétt eignast þá í raun gæðin. Og hún stundar víða mannfórnir. Í hreinsunum sínum sendi Stalín héraðsstjórum tilskipanir um að drepa tiltekinn fjölda fólks. Ekki þarf að minna á Maó og Pol Pot. Í ríki Inkanna tóku mannfórnir á sig trúarlega mynd. Ég heimsótti gamalt musteri, sem Inkarnir höfðu reist nálægt Lima, Pachacamac. Í tíð Inkanna var óspjölluðum stúlkum fórnað þar. Þeim voru fyrst gefin deyfilyf og þær síðan kyrktar. Spánverjar lögðu Inkaveldið undir sig 1532. Þeir gengu hart fram, undirokuðu og arðrændu sömu þjóðflokka og Inkarnir. En líklega var stjórnarfar eftir það skömminni skárra en í tíð Inkanna.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. apríl 2015.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:53 | Slóð | Facebook
8.6.2015 | 13:18
Var Jón Sigurðsson óbilgjarn?
Menn kunna að segja, að Jón Sigurðsson, leiðtogi sjálfstæðisbaráttunnar, hafi verið óbilgjarn gagnvart Dönum. Þegar stjórnskipan Dana var í deiglu 1848, setti Jón fram þá kenningu, að hún breytti engu fyrir Íslendinga. Þeir hefðu gert sáttmála við konung 1262, þar sem kveðið væri á um réttindi þeirra og skyldur. Þegar Íslendingar hefðu játast undir einveldi 1662, hefði sáttmálinn frá 1262 fallið úr gildi, en hann tæki aftur gildi um leið og konungur afsalaði sér einveldi. Ísland væri þess vegna fullvalda land í konungssambandi við Danmörku.
Danir tóku rökum Jóns fjarri. Hann sat hins vegar í nefnd um fjárhagslegan aðskilnað Danmerkur og Íslands 1862. Aðrir nefndarmenn töldu eðlilegt að ríkissjóður Dana legði Íslendingum til 42 þúsund ríkisdali á ári. En Jóni reiknaðist til, að Danir skulduðu Íslendingum stórfé vegna einokunarverslunarinnar og upptöku eigna á Íslandi, svo að þeir ættu að greiða Íslendingum 100 þúsund ríkisdali árlega, þegar dregið hefði verið frá framlag til konungs og æðstu stjórnar.
Sumum kann að finnast reikningskrafa Jóns jafnlangsótt og skírskotunin í sáttmálann frá 1262. En hvers vegna bar jafnraunsær maður og Jón fram slík rök? Vegna þess að hann var að reyna að efla sjálfsvirðingu sinnar fámennu, fátæku þjóðar og koma fram af reisn út á við. Íslendingar áttu ekki að leggjast á hnén og biðja auðmjúklega um það, sem þeir þurftu, heldur standa á rétti sínum.
Þetta vissu Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, þegar þeir sömdu við Bandaríkjamenn um hervernd. Hið sama var ekki að segja um þá, sem sömdu við Breta í Icesave-deilunni. Þeir fóru ekki að fordæmi Jóns Sigurðssonar, enda runnu öll þeirra vötn til Dýrafjarðar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. mars 2015.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:24 | Slóð | Facebook
8.6.2015 | 09:57
Þorvaldur Íslendingahrellir
Hannes Hafstein sagði í viðtali við Þorstein Gíslason í Lögréttu 20. mars 1915, fyrir réttum hundrað árum: Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur. Flest reynum við að bera höfuðið hátt erlendis þrátt fyrir smæð okkar. Þeir Íslendingar eru þó til, sem nota hvert tækifæri til að gera lítið úr þjóð sinni. Í grein eftir Þorvald Gylfason prófessor um íslenska bankahrunið í ritröð þýskrar háskólastofnunar í janúar 2014 er rauði þráðurinn, að Íslendingar séu spilltir. Eitt dæmi Þorvaldar er þetta: Eftir endurteknar tilraunir afla nálægt sumum þeirra, sem sæta rannsókn, til að flæma úr starfi glæpamannahrellinn (crime-buster) Gunnar Andersen, forstjóra fjármálaeftirlitsins eftir bankahrun, tókst það 2012.
Þorvaldur nefnir ekki, að þriggja manna stjórn fjármálaeftirlitsins sagði Gunnari upp. Af þeim voru tvö (Aðalsteinn Leifsson og Ingibjörg Þorsteinsdóttir) skipuð af ráðherra úr Samfylkingunni og einn (Arnór Sighvatsson) tilnefndur af Seðlabanka Más Guðmundssonar. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi efnahagsmálaráðherra, studdi ákvörðun stjórnarinnar um uppsögn. Menn þurfa fjörugt ímyndunarafl til að telja þessa fjóra einstaklinga alla handbendi fjármálamanna, sem sættu rannsókn.
Þorvaldur nefnir ekki heldur, að stjórnin sagði Gunnari upp vegna upplýsinga um, að hann hefði, þegar hann starfaði í Landsbankanum, verið virkur í að stofna og reka aflandsfélög á Guernsey, en með rekstri þeirra mátti fara í kringum reglur um fjármálafyrirtæki. Þegar fjármálaeftirlitið spurði Landsbankann árið 2001 um erlend umsvif, sá Gunnar um svör og lét þessara aflandsfélaga ógetið.
Við bættist, að Gunnar hafði orðið uppvís að því 2012 að láta lauma í DV upplýsingum um einkahagi alþingismanns. Þegar Þorvaldur skrifaði grein sína í janúar 2014, hafði Gunnar þegar verið sakfelldur í héraðsdómi fyrir þetta brot á bankaleynd. Þess gat prófessorinn ekki einu orði. Skömmu síðar var Gunnar dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi í Hæstarétti fyrir brot sitt. Ef Gunnar var glæpamannahrellir, þá er Þorvaldur Íslendingahrellir, ekki síst þegar hann er kominn út fyrir landsteinana.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. mars 2015.)
7.6.2015 | 17:56
Reductio ad Hitlerum
Nýlega kom út í Bandaríkjunum greinasafn um bankahrunið íslenska, sem Gísli Pálsson og E. Paul Durrenberger ritstýrðu. Í formála víkja þeir að frægu hugtaki Hönnu Arendt, hversdagslegri mannvonsku (banality of evil), sem hún notaði í tilefni réttarhalda yfir Adolf Eichmann í Jórsölum. Síðan segja þeir: Þó voru Eichmann og hans líkar ekki aðeins að hlýða fyrirmælum. Þeir trúðu í einlægni á þann málstað og það kerfi, sem þeir þjónuðu. Nýfrjálshyggjan er jafnhversdagsleg. Við teljum, að hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar, með rætur sínar í Bandaríkjunum og hámarki í kröfunni um hröð umskipti, hnitmiðaða og samfellda áróðursvél og framgang Chicago-skólans í hagfræði og kynningu nýfrjálshyggjunnar sem heilsteypts hugmyndakerfis, sé söguleg hliðstæða. Hún virðist eðlileg, enginn virðist ábyrgur, og allir eru aðeins að hlýða fyrirmælum.
Þeir Gísli segja líka: Nýfrjálshyggja sækir réttlætingu í vísindalega hagfræði. Samt sem áður hefur hún haft í för með sér ólýsanlegt ofbeldi og eymd um allan heim. Frá sjónarmiði fórnarlambanna séð er þetta vissulega sambærilegt við árásir víkinga. Framkvæmd þessarar hugmyndafræði og almenn viðurkenning hennar, hvort heldur í smáu eða stóru, er skýrt dæmi um hversdagslega mannvonsku.
Þessari samlíkingu hefur verið gefið sérstakt nafn, Reductio ad Hitlerum, Hitlers-aðleiðslan. Er varað við henni í rökfræði. Til dæmis getur verið, að frjálshyggjumaður trúi af sömu ástríðu á málstað sinn og nasisti. En með því er ekkert sagt um, hvort frjálshyggja sé skyld nasisma. Raunar er frjálshyggja eins langt frá nasisma og hægt er að vera, því að kjarni hennar er viðskipti frekar en valdboð. Tilhneiging þín til að skjóta á náungann minnkar, ef þú sérð í honum væntanlegan viðskiptavin, sagði frjálshyggjumaður á nítjándu öld. Frjálshyggja hefur hvergi verið framkvæmd hrein og tær, en samkvæmt alþjóðlegum mælingum eru þau lönd, sem helst nálgast frjálshyggjuhugmyndir um hagstjórn, Sviss, Ástralía, Nýja-Sjáland, Bretland og Kanada. Hverjum dettur öðrum í hug en Gísla Pálssyni og E. Paul Durrenberger að bera þau saman við Hitlers-Þýskaland?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. mars 2015.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:02 | Slóð | Facebook
7.6.2015 | 12:14
Sömdu Svíar af sér Ísland?
Með ólíkindum er, hversu hljóðlega og átakalaust Ísland fylgdi Danmörku í Kílarfriðnum, sem saminn var 14. janúar 1814, en þá var Danmörk neydd til að láta Noreg af hendi við Svíþjóð. Með Gissurarsáttmála 1262 höfðu Íslendingar þrátt fyrir allt játast undir Noregskonung, og um skeið á fjórtándu öld var Ísland í konungssambandi við Svíþjóð eina, hvorki við Noreg né Danmörku. Þótt Íslandi væri stjórnað frá Kaupmannahafn, var landið jafnan talið ásamt Grænlandi og Færeyjum til skattlanda Noregskonungs.
Skýringin er ótrúleg. Samningamaður Dana í Kíl var Edmund Bourke greifi, snjall maður og slægvitur. Hann hafði fengið fullt umboð Friðriks VI. Danakonungs til að láta Noreg allan af hendi. En honum tókst að setja sérstakt ákvæði inn í 4. grein samningsins, þar sem kveðið var á um, að Danakonungur afsalaði sér yfirráðum yfir Noregi öllum til Svíakonungs að Grænlandi, Færeyjum og Íslandi undanskildum. Svo virðist sem samningamaður Svía í Kíl, Gustaf af Wetterstedt, hafi ekki vitað, að þessi þrjú skattlönd voru í upphafi norsk. Þetta sést af bréfi, sem Wetterstedt skrifaði sænska utanríkisráðherranum í Stokkhólmi tveimur dögum síðar. Það er á frönsku, en kaflinn um Ísland hljóðar svo (í þýðingu úr Skírni 1888): Þó að Ísland, Grænland og Færeyjar hafi aldrei heyrt til Noregi, þá hefur herra Bourke beðið um, að þeirra væri sérstaklega minnst í 4. grein samningsins, og mér hefur fundist, að ég ætti ekki að neita honum um það.
Þótt vanþekking hins sænska samningamanns sé hrópleg, er hún áreiðanlega líka dæmi um áhugaleysi Svía á hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi. Ísland þótti svo lítils virði, að hvorki Svíar né Bretar lögðu það undir sig, þótt bæði ríkin hefðu á því færi. En því má velta fyrir sér, hver framvindan hefði orðið, hefðu Svíar tekið við Noregi ásamt fornum skattlöndum þess 1814, en ekki samið þau af sér. Hefði Ísland þá orðið fullvalda ríki í konungssambandi við Noreg 1905, þegar Norðmenn sögðu upp konungssambandinu við Svía?
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. mars 2015. Þau Anna Agnarsdóttir prófessor og Björn Bjarnason, fyrrv. menntamálaráðherra, hafa bæði haft samband við mig til að segja, að ef til vill hafi kaupin ekki verið þessi á eyrinni: Bretar hafi ráðið því, að skattlöndin í Norður-Atlantshafi hafi gengið undir Danmörku frekar en Svíþjóð. Er von á ritgerð eftir Önnu um þetta, sem gaman verður að lesa, en fyrir mér er þetta ráðgáta. En myndin í horninu af hinu hrjóstuga landi er: Jeff Schmaltz, MODIS Land Rapid Response Team, NASA GSFC]
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:15 | Slóð | Facebook
7.6.2015 | 02:54
Ísland í sambandi við Svíþjóð
Eftir bankahrunið 2008 hefur oft heyrst, að Íslendingar geti ekki staðið á eigin fótum. Þeir þurfi skjól. Þeir hafi til dæmis gengist á hönd Noregskonungi 1262 til að fá skjól af Noregi. Hvað sem þeirri kenningu líður, reyndist lítið skjól í Noregi. Það land varð nánast gjaldþrota í Svartadauða um miðja fjórtándu öld. Því var um megn að halda uppi siglingum til Íslands, og varð að fela það Hansakaupmönnum. Jafnframt var alla fjórtándu öld linnulaus togstreita um völd í Noregi og öðrum norrænum konungsríkjum.Ísland blandaðist á óvæntan hátt inn í þessa togstreitu. Magnús VII. Eiríksson Noregskonungur, sem tók við ríki 1319, varð um leið konungur Svíþjóðar. Norðmenn settu hins vegar Magnús af 1343 og tóku yngri son hans, Hákon Magnússon, til konungs. Eftir það var Magnús aðeins konungur í Svíþjóð. En hann hélt yfirráðum yfir hinum norsku skattlöndum í Norður-Atlantshafi, Grænlandi, Íslandi og Færeyjum. Svíþjóð gekk hins vegar úr greipum hans 1364. Ísland var því í tuttugu og eitt ár í konungssambandi við Svíþjóð, en ekki Noreg. Ísland lenti síðan 1380 ásamt öðrum norskum skattlöndum undir stjórn Danakonungs, þegar sonarsonur Magnúsar, Ólafur Hákonarson, erfði norsku krúnuna, en hann hafði orðið Danakonungur 1376. Hélst konungssambandið við Danmörku allt til 1944.
Magnús VII. var iðulega kallaður smek. Var það jafnan haft eftir skýringarlaust í íslenskum heimildum. Eftir nokkurt grúsk (og aðstoð Árnastofnunar) hef ég komist að því, að orðið er ekki íslenskt, heldur sænskt og merkir kjass eða flaður. Deila fræðimenn um, hvort það vísi til þess, að konungur hafi frekar verið hneigður til karla en kvenna, eins og svarinn óvinur hans, heilög Birgitta, hélt fram, eða að hann hafi verið veikur fyrir smjaðri. En eftir þessum tveimur merkingum mætti ýmist þýða viðurnefnið sem kjassari eða kjassaður.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.6.2015 kl. 09:58 | Slóð | Facebook
7.6.2015 | 00:46
Til hvers var Gissurarsáttmáli?
Einn samkennari minn, Baldur Þórhallsson, fyrrverandi varaþingmaður Samfylkingarinnar, er umsjónarmaður rannsóknarverkefnis um leitina að skjóli. Hann heldur því fram, að Íslendingar hafi gert Gissurarsáttmála (eins og fræðimenn vilja kalla sáttmálann frá 1262, en Gamli sáttmáli var gerður 1302) til að hafa skjól af Noregskonungi. Þeir hafi viljað stofna framkvæmdarvald til að binda enda á langvinnt borgarastríð og einnig viljað tryggja verslun við landið.
Stenst fyrri skýringin? Árið 1262 var kominn á friður í landinu, því að Gissur jarl Þorvaldsson hafði sigrað keppinauta sína. Borgarastríðinu var lokið. Sennilegra er, að Gissur hafi viljað eignast öflugan bakhjarl í Noregskonungi. Jarlar þarfnast konunga, þótt þjóðir geti verið án þeirra. Næstu aldir var konungsvald þó mjög veikt á Íslandi. Tveir hirðstjórar konungs voru jafnvel drepnir, Jón skráveifa og Smiður Andrésson, að ógleymdum Jóni Gerrekssyni. Ekkert skjól reyndist í Noregi, sem hafði ekki einu sinni afl til að halda uppi sjálfstæðu ríki eftir Svarta dauða um miðja fjórtándu öld. Þótt konungsvald styrktist hér upp úr siðaskiptum, var Ísland áfram óvarið, eins og Tyrkjaránið 1627 og hundadagastjórn Jörundar 1809 sýndu. Ekkert skjól reyndist heldur í Danmörku, sem sneri sér inn á við eftir herfilegan ósigur fyrir Þjóðverjum 1864. Hvad udad tabes, skal indad vindes, orti Hans Peter Holst. Úti fyrir tapað, inni endurskapað.
Seinni skýringin er áreiðanlega rétt. Ella hefði ekki verið ákvæði í Gissurarsáttmála um, að konungur myndi tryggja siglingu sex skipa á ári. En hvers vegna þurfti slíkt ákvæði? Framboð skapast, þar sem er eftirspurn. Ég kem auga á tvennt. Í fyrsta lagi hafi íslenskir valdamenn haldið uppi svo ströngu verðlagseftirliti á 13. öld, að norskir kaupmenn hafi ekki lengur séð sér hag í að versla við Íslendinga. Í öðru lagi hafi aðalútflutningsafurðin, vaðmál, fallið í verði, væntanlega vegna minni eftirspurnar erlendis. Fljótlega varð fiskur að vísu aðalútflutningsafurðin. En þá aðstoðaði hinn erlendi konungur innlenda stórbændur við að stöðva viðgang sjávarútvegs. Skjólið reyndist gildra.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. febrúar 2015.)
[Páll Bergþórsson veðurfræðingur gerir þá athugasemd, að kólnun hafi valdið einhverju um lítinn áhuga á siglingum til Íslands. Hann hefur áreiðanlega rétt fyrir sér um það, að loftslag og veðurfar hafa haft sitt að segja um ýmsa viðburði Íslandssögunnar, til dæmis landnámið (Ísland var miklu byggilegra þá en oft síðan) og landafundina í Vesturheimi (eflaust var gróðurfar og loftslag þar betra á hlýindaskeiðinu um 1000). En loftslagið breytir ekki því, að verð ræður mestu um vilja manna til siglinga. Menn sigla, ef það borgar sig, hvort sem kalt er eða hlýtt.]
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.6.2015 kl. 00:04 | Slóð | Facebook
7.6.2015 | 00:41
Þorsteinn Erlingsson
Sunnudaginn 17. apríl 1921 var húsfyllir í Nýja bíói í Reykjavík. Guðmundur Friðjónsson skáld á Sandi flutti þá erindi um bolsévisma, eins og sósíalismi var þá oft nefndur, því að bolsévíkar undir forystu Vladímírs Leníns höfðu hrifsað til sín völd í Rússlandi 1917. Erindi Guðmundar birtist í greinasafninu Uppsprettulindum 1921 og er hið mergjaðasta. Var skáldið mjög andvígt sósíalisma. Eftir að Guðmundur hafði flutt erindi sitt, ruddist sósíalistinn Ólafur Friðriksson ritstjóri óboðinn upp á svið og andmælti honum. Gerðu fundarmenn hróp að Ólafi. Á meðal þeirra voru tvær ungar stúlkur, Svanhildur Þorsteinsdóttir og Ásfríður Ásgrímsdóttir.
Svanhildur var dóttir Þorsteins Erlingssonar skálds, sem látist hafði langt fyrir aldur fram 1914. Sonur hennar, dr. Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur, hefur vakið athygli mína á dagbókarbroti eftir Svanhildi frá 18. apríl 1921: Halló, ég er orðin stjórnmálakona, Í morgun fékk ég bréf. Fyrst var skrifuð upp heil röð af kvæðum eftir pabba. Síðan stendur: Getur það verið að dóttir Þorsteins Erlingssonar, eina byltingarmannsins í skáldskap, sé á móti þeim mönnum sem einir hafa hug og kjark til að uppfylla hugsjónir hans? Þessu varð ég reglulega reið, því pabbi var hægri manna sósíalisti en var dáinn þegar Bolshevisminn varð til. Hann vildi fá allt með framþróun, en ekki blóði og manndrápum.
Ungur piltur, Stefán Pjetursson, sem aðhylltist þá kommúnisma, en hvarf síðar frá honum, mun hafa skrifað bréfið til Svanhildar. En athyglisvert er, að þessi fimmtán ára stúlka skyldi geta gert sama greinarmun og heimspekingarnir John Stuart Mill og Robert Nozick á sjálfvöldum og valdboðnum sósíalisma. Mill taldi líklegt, að sósíalisminn myndi sigra, en þá vegna þess, að fyrirtækjum í eigu launþega myndi vegna betur en fyrirtækjum kapítalista. Og Nozick sagðist ekki vera á móti sósíalisma, ef menn völdu hann fyrir sjálfa sig og ekki aðra, og vísaði á samyrkjubúin í Ísrael: Þeir, sem vildu verða sósíalistar, fluttust þangað, en neyddu aðra ekki þangað með sér. Þessi var stjórnmálaskoðun Þorsteins Erlingssonar, ef marka má dóttur hans.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. febrúar 2015.)