Hvort hafa þau áhyggjur af fátæku fólki eða ríku?

Jóhanna Sigurðardóttir hefur það sigri hrósandi eftir einum af blaðafulltrúum sínum, Stefáni Ólafssyni félagsfræðingi, að munurinn á tekjum hinna tekjulægstu og hinna tekjuhæstu hafi minnkað.

Þetta er eflaust rétt. En þau Jóhanna og Stefán leggja minni áherslu á hitt, að kjör hinna tekjulægstu hafa líka versnað. Kjör þeirra hafa hins vegar ekki versnað eins mikið og kjör hinna tekjuhæstu.

Þau Jóhanna og Stefán koma upp um það, að þau eru ekki fylgismenn bandaríska heimspekingins Johns Rawls, sem upplýstir íslenskir jafnaðarmenn hafa þó viljað kenna sig við.

Rawls sagði, að það skipulag væri réttlátast, þar sem kjör hinna tekjulægstu væru eins góð og þau gætu framast orðið. Fyrir honum var aðalatriðið, að kjör hinna tekjulægstu bötnuðu. Hann hafði áhyggjur af hinum fátæku, ekki hinum ríku.

Jóhanna og Stefán hafa hins vegar engar áhyggjur af hinum fátæku. Þeim er sama, þótt kjör þeirra hafi versnað. Þau hafa aðeins áhyggjur af hinum ríku. Mikið skal til vinna, svo að kjör þeirra versni.

Margrét Thatcher lýsti þessu vel í umræðum í breska þinginu, sama dag og hún lét af völdum. Sósíalistar telja aðalatriðið vera, að bilið milli ríkra og fátækra, hinna tekjuhæstu og hinna tekjulægstu, sé sem minnst. Þeir skeyta síður um hitt (þótt John Rawls hafi lagt áherslu á það), hver kjör hinna fátæku, hinna tekjulægstu, séu.

Það hefur hins vegar komið skýrt fram í rannsóknum, að kjör hinna tekjulægstu eru best við kapítalisma. Og það, sem mikilvægara er: Tækifæri þeirra til að brjótast úr fátækt til bjargálna eru flest við kapítalisma.

Munurinn á vinstri mönnum eins og Jóhönnu Sigurðardóttur og Stefáni Ólafssyni og okkur hægri mönnum er, að þau hafa áhyggjur af góðum kjörum hinna ríku, en við höfum áhyggjur af lökum kjörum hinna fátæku. Þau vilja minnka muninn á milli ríkra og fátækra, en við viljum fjölga tækifærum til að brjótast úr út fátækt, hækka tekjur sínar.


Eitt gras tekið

Hér hefur verið bent á, að kvæði Steins Steinars, „Gras,“ sem birtist í Alþýðublaðinu 7. júní 1936, var nánast lausleg þýðing á samnefndu kvæði bandaríska ljóðskáldsins og sagnfræðingsins Carls Sandburg, þótt Steinn bætti nokkru við frá eigin brjósti. Þess var ekki getið í Alþýðublaðinu, en það var tekið fram í bókinni Ljóð, sem kom út eftir Stein 1937.

Leifur Haraldsson orti af þessu tilefni:

Um hirðusemi er hneyksli næst að fjasa,

sú höfuðdygð af Guði er mönnum veitt,

hjá Carli Sandburg kennir margra grasa,

menn komast varla hjá að taka eitt.

Þótt Steinn væri manna stríðnastur, þoldi hann illa stríðni annarra. Eftir að vísan komst á kreik, rak hann Leif með þjósti burt af borði því, sem hann var fastagestur á í Ingólfskaffi í Alþýðuhúsinu við Ingólfsstræti (en það kaffihús var í kjallaranum, þar sem gistihúsið 101 er nú).

Vinur þeirra Steins og Leifs, Dósóþeus Tímóteusson (hann hét þessu nafni í raun og veru), orti vísu til sátta:

Steinn, sem stolið hefur mest,

stolið mest af annars grasi,

hann mun, þegar sól er sest,

sitja borð með Matthíasi.

Ekki er víst, að þessi vísa hafi friðað Stein. Hermt er, að Steinn hafi hefnt sín á Leifi með vísunni alkunnu, sem hann hafi ort í orðastað hans og oft er sungin á mannamótum:

Kvenmannslaus í kulda og trekki

kúri ég volandi,

þetta er ekki, ekki, ekki,

ekki þolandi.

Leifur var enginn kvennaljómi, lágvaxinn og óásjálegur og stamaði.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband