Már Guðmundsson er pólitískur erindreki

Már Guðmundsson seðlabankastjóri er pólitískur erindreki þeirrar klíku, sem hrifsaði völdin í upplausninni eftir fall bankanna og hefur að markmiði að auka hér ríkisafskipti, hækka skatta, þrengja að duglegum einstaklingum og losa um tengsl við alla aðra en Evrópusambandið.

Hefðbundna hugmyndin á bak við seðlabanka er, að þeir séu sem sjálfstæðastir. Klíkan vissi, að fyrrverandi seðlabankastjórar færu eftir samvisku sinni, ekki fyrirmælum úr forsætisráðuneytinu eða fjármálaráðuneytinu. Þess vegna voru strax samþykkt sérstök lög til að geta flæmt þá alla þrjá úr bankanum.

Jafnframt var staða eins seðlabankastjóra auglýst og skipuð nefnd þriggja manna til að velja úr umsóknum, en um leið sat Már Guðmundsson á leynifundum í forsætisráðuneytinu að semja um launakjör sín. Már fékk auðvitað stöðuna. Þegar hugsanlegar launahækkanir til hans voru skömmu síðar gagnrýndar opinberlega, kvaðst hann myndu afsala sér slíkum hækkunum. Nokkrum misserum síðar stefndi hann sjálfur Seðlabankanum til að knýja fram launahækkun! Þetta kallast söguleg efnishyggja.

Berlega sást í tveimur málum, að Már Guðmundsson er pólitískur erindreki. Annað er Icesave-málið. Þar talaði Seðlabanki Más eins og stjórnvöldum hentaði, þegar þau vildu fá samninga sína samþykkta. Hitt var kauptilboð, sem barst í Sjóvá og Seðlabankinn gat vélað um. Þar leyndi Már ekki andúð sinni á einum tilboðsgjafanum, sem hafði það eitt til saka unnið að vera tengdasonur kunns sjálfstæðismanns.

Már kann handbrögðin frá gamalli tíð. Hann ólst upp á heimili, þar sem heimilisfaðirinn skipulagði fjöldaferðir til kommúnistaríkjanna, en þar voru gjaldeyrisreglur iðulega brotnar (eins og rakið er í bók minni um íslenska kommúnista). Og sjálfur gerðist Már yfirlýstur trotskisti 1974, á meðan hann var áhrifamaður í Fylkingunni. Eins og fram kemur í stórfróðlegum bókum Roberts Services og Dmítríjs Volkogonovs um Trotskíj, var þessi lærimeistari Más ekki síður blóðþyrstur og grimmur en þeir Lenín og Stalín.

Már Guðmundsson stundaði nám í Bretlandi. Þar geisaði allan áttunda áratug og fram á hinn níunda látlaus barátta innan Verkamannaflokksins á milli venjulegra lýðræðisjafnaðarmanna og fámennra, en vel skipulagðra hópa trotskista, sem hugðust ná yfirráðum yfir flokknum, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Már og félagar hans í Fylkingunni ákváðu 1984 að ganga í Alþýðubandalagið og fylgdu þar fordæmi breskra trotskista. Þeir félagar veðjuðu á Ólaf Ragnar Grímsson frekar en Svavar Gestsson, og smám saman virtust þeir vissulega læra af reynslunni og spekjast.

Undir niðri leyndist hins vegar alltaf sú sannfæring, að meira máli skipti, hver færi með valdið en hvernig því væri haldið í skefjum. Valdboð gæti borið meiri árangur en frjáls viðskipti. Rétta ráðið, þegar einhver ríkisafskipti tækjust misjafnlega, væri að herða á eftirliti og þyngja refsingar, ekki að rýmka um reglur.

Er hagfræði Más aðeins þunn skán utan um gamla skoðun?

Ferðalangur til Rússlands sagði eitt sinn: Klóraðu Rússanum, og þá kemur villimaðurinn í ljós. Hér mætti segja: Klóraðu Má Guðmundssyni, og þá kemur gamli trotskistinn í ljós.


Heiðursmerki

Nokkra athygli vakti, að kunnir bókmenntamenn tóku við krossi á Bessastöðum á nýársdag 2012. Af því tilefni má rifja upp, þegar Steingrími Thorsteinssyni þóttu stjórnvöld veita heiðursmerki af óþarflegri rausn í tilefni þúsund ára afmælis byggðar á Íslandi 1874, að þá orti hann:

Orður og titlar, úrelt þing,

eins og dæmin sanna,

notast oft sem uppfylling

í eyður verðleikanna.

Raunar var til danskt kvæði svipaðs efnis eftir P. A. Heiberg, sem uppi var 1758-1841:

Ordener hænger man paa Idioter,

Stierner og Baand man kun Adelen gier;

Men om de Mallinger, Suhmer og Rot her,

Man ei et Ord i Aviserne seer.

Dog, har man Hierne,

Kan man jo gierne

Undvære Orden og Stierne.

Þetta má þýða svo á laust mál: Heiðurs-merki eru hengd á bjálfa; stjörnur og bönd eru veitt aðlinum. Um menn með nöfnin Malling, Suhm og Roth er ekkert sagt í blöðunum. Hafi maður heila, getur hann verið án heiðursmerkja og krossa.

Heiberg fékk 150 ríkisdala sekt fyrir þennan kveðskap sinn.

Það þóttu síðan fádæmi, þegar Hannesi Hafstein tókst þrátt fyrir fyrri kveðskap Steingríms að krækja heiðursmerki Dannebrog á brjóst honum í konungskomunni 1907. Raunar sagði Pétur Jónsson á Gautlöndum, alþingismaður og ráðherra, þegar hann þáði slíkt merki: „Ég veit ekki, hvort er minni hégómaskapur að hafna Dannebrogskrossinum eða þiggja hann.“

Á næstu þjóðhátíð, Alþingishátíðinni 1930, þóttu stjórnvöld líka óspör á heiðursmerki, þótt nú væri Fálkaorða komin í stað Dannebrog, og Jón Helgason prófessor orti:

Þótt fólkið sé skuldug og flámælt og ráðlítil hjörð

er forsjónin greiðug við oss,

því Ísland er bráðum hið einasta land hér á jörð

þar sem allir menn hafa kross.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í sunnudagsblaði Moggans 25. mars 2012.)

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband