Stefán Ólafsson viðrar sig upp við Framsóknarflokkinn

Það er gaman að sjá, hvernig Stefán Ólafsson prófessor viðrar sig upp við Framsóknarflokkinn síðustu vikurnar.

Sú var tíð, að vindáttin var Sjálfstæðisflokknum hagstæð, og þá viðraði Stefán sig upp við Sjálfstæðisflokkinn. Hann gaf mér til dæmis 1999 bók sína Íslensku leiðina og skrifaði inn í eintakið, að íslenska leiðin væri bláa leiðin!

Og fyrri félagar Stefáns í Samfylkingunni sitja og klóra sér í kollinum yfir því, að brellumeistarinn, sem tínt gat allar kanínurnar upp úr pípuhattinum, breytt skattalækkunum í skattahækkanir og farsæld í fátækt, skuli nú reyna að hafa vistaskipti.

Verður mér þá hugsað til þýðingar Sveinbjarnar Egilssonar á vísu eftir Schiller:

Hjá virðum sumum viskan dýr
vegleg gyðja heitir.
Öðrum er hún kosta kýr,
kálf og mjólk sem veitir.

Karl Th. Birgisson staðinn að verki

Það er auðvitað rétt, sem Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra sagði eitt sinn, að ekki ætti að eyða fallbyssuskotum á þúfutittlinga. En ég gat þó ekki orða bundist, þegar ég las eftirfarandi á bloggi Karls Th. Birgissonar, fyrrverandi ritstjóra Pressunnar og fyrrverandi framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar:

Hannes Hólmsteinn hefur lýst því í fleiri en einu samtali að þessi hópur (eða hluti hans) hafi staðið að og greitt fyrir könnunina sem nú verður (að öllum líkindum) til þess að Bjarni Benediktsson hættir sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Kannske er þetta bara karlagrobb í Hannesi, kannske gerði kosningastjóri Hönnu Birnu á Viðskiptablaðinu könnunina upp á sitt eindæmi.

Ég hef ekki átt nein slík samtöl. Og það, sem meira er: Ég hefði ekki getað átt nein slík samtöl, því að ég fór utan 21. mars og kom ekki heim fyrr en 22. apríl. Það er síður en svo neitt leyndarmál, hvar ég var, því að ég hef verið að sækja málstofu um almannavalsfræði og ráðstefnu um einkaframtak í Brasilíu, sem margt má lesa um á Netinu.

Ég var önnum kafinn hér úti og talaði ekki einu sinni í síma við vini mína heima á Íslandi, hvað þá einhverja menn, sem umgangast Karl Th. Birgisson. Ég hafði ekki hugmynd um þessa könnun, sem Viðskiptablaðið lét gera, fyrr en ég las um hana á Netinu úti (en ég var raunar ekki alltaf í netsambandi á ferðalögum mínum). Þegar Karl Th. Birgisson vitnar drýgindalega í „fleira en eitt samtal“ við mig, er hann að segja ósatt, ekki aðeins að spinna, eins og hann gerir á hverjum degi fyrir Samfylkinguna, heldur beinlínis að spinna upp. Hvað gengur honum til?


Brasilíuför mín

Ég hef setið tvær afar fróðlegar ráðstefnur í Brasilíu í aprílbyrjun. Hin fyrri var málstofa, sem bandaríska stofnunin Liberty Fund hélt 4.–7. apríl í Petrópolis um bók prófessors Randys Simmons, Beyond Politics eða Meira en stjórnmál, en í henni eru bornar saman lausnir ríkis og einstaklinga á ýmsum málum, skattlagning og verðlagning, valdboð og viðskipti. Sjá má meira um þá málstofu hér. Síðari ráðstefnan var mjög fjölmenn, og héldu samtök ungra framkvæmdamanna og frumkvöðla í fylkinu Rio Grande do Sul, IEE (Instituto Estudos Empresariais) hana í Porto Alegre 7.–9. apríl. Hún var helguð atvinnufrelsi, sérstaklega í ljósi kenningar franska rithöfundarins Frédérics Bastiats um það, sem er sýnilegt og ósýnilegt um stjórnmálahagfræði. Flutti ég þar fyrirlestur. Sjá má meira um ráðstefnuna hér. Það var skemmtilegt að sitja þar uppi á sviði við hlið leiðtoga Sósíalistaflokks Brasilíu, Eduardos Campos fylkisstjóra, sem margir sjá fyrir sér sem næsta forseta landsins.

Stutt myndband: Prescott um áhrif skattalækkana

Hér er stutt myndband með mati Nóbelsverðlaunahafans Edwards Prescotts á áhrifum skattalækkana, en upptakan er frá fyrirlestri hans á Íslandi 2007:

 

 


Ef það kvakar eins og önd ...

Stefán Ólafsson harðneitar því, að hann sé sósíalisti. Ég get ekki svarað öðru en því, sem mælt er: Ef það kvakar eins og önd, vappar eins og önd, hefur fjaðrir og fit eins og önd og er í andahjörð, þá er það önd.

Stefán kvartar eins og sósíalisti, kveinar eins og sósíalisti, kveður eins og sósíalisti og tekur við verðlaunum fyrir að vera sósíalisti. Er þá ekki nærtækt, að hann sé sósíalisti?


Tveir með félagshyggjuverðlaun

Vorið 2007 tóku ungir jafnaðarmenn upp á því að veita sérstök félagshyggjuverðlaun. Og verðlaunahafarnir voru ekki af lakara taginu. Þeir voru tveir samkennarar mínir í Háskóla Íslands, prófessorarnir Stefán Ólafsson og Þorvaldur Gylfason. Getur enginn efast um, að þeir voru afar vel að verðlaununum komnir.

Svo vill líka til, að tvö mjög skemmtileg myndbönd eru til á Youtube með þessum verðlaunahöfum ungra jafnaðarmanna. Annað er af Þorvaldi Gylfasyni að tala í nafni íslenskrar alþýðu og hefur vakið athygli síðustu daga: Hitt er af Stefáni Ólafssyni að ræða við Milton Friedman: 

 

Ég hef engu við að bæta. Þessir tveir prófessorar hafa dýpkað skilning okkar á því, hvað félagshyggja eða sósíalismi sé.

Friedman svarar íslenskum sósíalista

Það var gaman að orðaskiptum þeirra Stefáns Ólafssonar, síðar prófessors, og Miltons Friedmans í sjónvarpssal 31. ágúst 1984. Stefán kvaðst ekki hafa efni á að fara á fyrirlestur Friedmans daginn eftir, en aðgangseyrir var 1.200 kr., sem þá jafngiltu 38 Bandaríkjadölum, og var hádegisverður innifalinn í verðinu. Taldi hann skerðingu á frelsi að bjóða ekki upp á ókeypis fyrirlestra. Friedman svaraði því til, að allir fyrirlestrar kostuðu eitthvað:

 


 

Það má síðan botna söguna með því, að við komum Friedman á óvart með því að greiða honum 5 þúsund dali fyrir fyrirlesturinn, en hann hafði ekki ætlað að taka neitt fyrir hann (þótt hann væri eftirsóttur fyrirlesari um allan heim). Smávegis afgangur varð, sem við skipuleggjendurnir notuðum til að kaupa litla tölvu, fyrsta, litla Mac-ann, til að auðvelda skipulagningu slíkra viðburða síðar meir, og fékk ég að nota hana til að semja á doktorsritgerð mína í Oxford-háskóla veturinn 1984–1985. Hafði Friedman sagt mér, að sjálfur hefði hann ekki mikið vit á tölvum, en David, sonur sinn, mælti eindregið með Mac-anum.


Stutt myndband: Friedman á Íslandi skilgreinir frjálshyggju

Fáir hafa skilgreint frjálshyggju skilmerkilegar en Milton Friedman í svari við spurningu Boga Ágústssonar í Sjónvarpinu 31. ágúst 1984. Heimsókn Friedmans til Íslands markaði tímamót, en hann sýndi hér eins og annars staðar, að hann átti fáa sína jafnoka í rökræðum. Hér er stutt myndband með skilgreiningunni:

 


Stutt myndband: Laffer á Íslandi að tala um fátækt

Hinn kunni bandaríski hagfræðingur Arthur Laffer kom til Íslands 2007 og hélt fyrirlestur í Þjóðmenningarhúsinu. Hann hefur margt skemmtilegt að segja, þótt hann sé líka stundum glanni í spásögnum. Kjarninn í boðskap hans í þessu stutta myndbandi frá fyrirlestrinum stendur óhaggaður: Við gerum ekki hina fátækari ríkari með því að gera hina ríku fátækari. Það er ekkert áhyggjuefni, ef einhverjir eru ríkir. Það er áhyggjuefni, ef einhverjir eru fátækir og geta ekkert gert að því.

Nýtt myndband: Frelsið skapar hagsæld!

Hér er sýnt í stuttu myndbandi, hvað þrír fyrirlesarar í samstarfsverkefni RNH og AECR (Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna) hafa haft að segja nú í janúar, febrúar og mars 2013: Svíar hafa aukið atvinnufrelsi og lækkað skatta! Frjálshyggja er besta leiðarstjarna Íslendinga! Ríkisafskipti áttu sinn þátt í að auka á fjármálakreppuna!

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband