Guðni Th. Jóhannesson hefur orðið

Nú fyrstu vikurnar á árinu 2013 vildi svo til, að ég fór á tvo fróðlega fyrirlestra dr. Guðna Th. Jóhannessonar, nýráðins sagnfræðilektors í Háskóla Íslands.

Fyrri fyrirlesturinn var hjá Sagnfræðingafélaginu þriðjudaginn 29. janúar 2013 og bar titilinn: „Hvað ef? Íslandssagan sem gæti hafa gerst.“ Guðni varpaði fram mörgum umhugsunarefnum, en ég staldraði við tvö. Annað var, hvað hefði gerst, hefðu Þjóðverjar hernumið Ísland 1940, en ekki Bretar. Margir stjórnmálamenn og aðrir íslenskir frammámenn hafa síðar lýst því, hve þeim létti, þegar þeir sáu, að herskipin, sem komu að landi 10. maí, voru bresk, en ekki þýsk. Þjóðverjar gengu fram af miklu meiri hörku í Noregi og Danmörku en Bretar á Íslandi. Eitt dæmið er, að 1941 hvatti norski lögfræðingurinn Viggo Hansteen (sem margir Íslendingar þekktu) til verkfalls gegn þýsku hernámsyfirvöldunum. Hið sama gerðu Eðvarð Sigurðsson og Hallgrímur Hallgrímsson hér á landi gegn bresku hernámsyfirvöldunum sama ár. Þjóðverjar skutu Hansteen umsvifalaust. Bretar létu sér nægja, að íslensk yfirvöld vistuðu þá Eðvarð og Hallgrím á Litla Hrauni í nokkra mánuði. Þar tóku þeir á móti heimsóknum samherja sinna, annarra kommúnista, og létu taka af sér ljósmyndir borginmannlegir, og Hallgrímur skrifaði endurminningar úr Spánarstríðinu. (Hallgrímur hafði sem kunnugt er hlotið hernaðarþjálfun í Moskvu.)

Hitt umhugsunarefnið er, hvað hefði gerst, hefðu Rússar hernumið Ísland 1948, til dæmis með því að sigla stórum flota, sem þá var að fiskveiðum skammt utan landsteinanna, til Íslands og skipa þaðan út hermönnum (svipað og Þjóðverjar höfðu gert í Noregi). Þeir hefðu ekki þurft mikinn herafla til að taka Ísland. Raunar hafa þeir Arnór Hannibalsson og Árni Bergmann (sem fyrstir íslenskra námsmanna settust á skólabekk í Moskvu eftir lát Stalíns) báðir skrifað um það, sem gerst hefði á Sovét-Íslandi, óskalandinu. Arnór skrifaði (árið 1963):

Ríkisstjórn undir forsæti einhvers góðborgara. Menntamenn fluttir til staðar hinum megin á hnettinum vegna „burgeisalegrar þjóðernisstefnu“. Íslendingar sjálfir aðeins um 40% íbúanna í landinu. Afkastaaukning iðnaðarins 2000% á fimm árum. Jóhannes úr Kötlum hengdur fyrir að yrkja ekki kvæði um hinn Mikla, en læða þess í stað á loft burgeisalegum sveitaferskeytlum, sem sáðu hugmyndaleysi og andvaraleysi gagnvart „hættunum“ og „óvinunum“. Ekkert gefið út á íslenskri tungu nema einn tvíblöðungur í sama broti og Lesbók Morgunblaðsins. Þar hefði félagi Da-da-son [Sigfús Daðason] líklega orðið prófarkalesari. Kristinn E. Andrésson forseti nefndar til að hreinsa íslenskt mál af próvinsíalismanum, en látinn víkja, þegar hann neitaði að löggilda orðið „kúltúra“ (í kvk.) í staðinn fyrir orðið „menning“. Einar Olgeirsson formaður áætlunarráðs, en sviptur embætti, þegar hann gekk of ákaft fram í hreinsun og var einn orðinn eftir í stofnuninni. Því var hann tekinn úr umferð fyrir skemmdarverk. Úr síðasta bústað sínum, rammgirtum, skrifaði hann hástemmdar lofgerðir og hollusturollur til Sonar Sólarinnar á fjallstindi heimsins, ásamt með hvatningu til „Flokksins“ að ganga betur fram gegn „þjóðaróvinunum“. Allir skólar á erlendu máli undir stjórn Brynjólfs Bjarnasonar.

Árni Bergmann skrifaði (árið 1992):

Fyrst fjúka hausar af oddvitum borgaralegra afla, þá af þeim sósíaldemókrötum, sem ekki sýna auðsveipni, og að lokum kemur röðin af byltingarmönnunum sjálfum, það er að segja þeim, sem helst eru hugsjónamenn og ætluðu sér á annan stað en þeir eru komnir. Við tekur ný stétt, vanheilög blanda af ofstækismönnum valdsins, sem tekst einhvernveginn að fleyta sér áfram í tilverunni á dólgamarxískum formúlum um „lögmál sögulegrar þróunar“ og svo nýliðum úr ýmsum áttum, hundingjum valdsins, sem kunna þá list að klifra upp eftir hvaða valdkerfi sem vera skal.

Það er ekki að ófyrirsynju, að Áki Jakobsson, sem verið hafði frammámaður í hreyfingu kommúnista og jafnvel ráðherra á þeirra vegum, sagði: „Íslenskir kommúnistar mega vera þakklátir fyrir að hafa ekki komist til valda, því þá hefðu margir þeirra orðið verri menn en þeir nú eru. Allt er afgreitt með þessum orðum: Flokkurinn, kenningin þarfnast þess og hins. Og í krafti þess er ofbeldi beitt.“

Síðari fyrirlestur Guðna Th. Jóhannessonar var hjá Churchill-klúbbnum laugardaginn 3. febrúar um sagnfræðínginn Winston Churchill. Þar fór Guðni á fróðlegan og greinargóðan hátt yfir sagnfræðirit Churchills, meðal annars það, hversu mikinn þátt hann átti sjálfur í þeim, því að hann hafði heilan her aðstoðarmanna við skriftir. Churchill sagðist hafa lært mest af þeirri sagnfræðihefð, sem þeir Edward Gibbon og Macaulay lávarður komu úr, og er þar ekki leiðum að líkjast. Ég dáist sjálfur að þeirri hefð, þótt mér fyndist Gibbon skrifa aðeins of skrautlegan stíl, ofhlaðinn. Macaulay notaði einfaldari og hraðari stíl, og það get ég sagt Einari Má Jónssyni, sem tekur upp gagnrýni ýmissa dalakofasósíalista nítjándu aldar á kapítalismann, að Macaulay svaraði þeim afar vel í frægri ádeilu á skáldið Southey. Hvað sem því öllu líður, var Churchill stórbrotinn og margbrotinn einstaklingur, eins og skýrt kom fram í fyrirlestri Guðna, síður en svo gallalaus, en sannkallað mikilmenni.


Veðmál Bjarna Benediktssonar

Setningarræða Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi var vel hugsuð, vel samin og vel flutt. Hann er nú sá formaður stjórnmálaflokks, sem helst hefur þunga, pondus. Boðskapurinn var einfaldur: Lækkum skatta til að örva atvinnusköpun. Komum í veg fyrir það stórkostlega atvinnuleysi, sem sést í Evrópu, aðallega hjá ungu fólki, og sköpum fleiri atvinnutækifæri.

Þá segja andstæðingarnir: Hvernig er hægt að lækka skatta við núverandi skilyrði? Svarið er, að sósíalistar hugsa sér alltaf, að lífið sé kyrrstætt. Þeir halda, að kakan sé föst stærð, sem við eigum að halda langa fundi um, hvernig skipta eigi, og skipta henni síðan í smærri og smærri sneiðar.

En frumskilyrði kökunnar er öflugt bakarí, og kakan getur stækkað, ef bakarinn fær það verð fyrir kökuna, sem hann er ánægður með. Lífið er ekki kyrrstætt, heldur á sér þar stað lífræn þróun (og stundum öfugþróun, eins og við höfum séð síðustu árin).

Í ræðu sinni veðjaði Bjarni Benediktsson á það, að með lækkun skatta myndu fjárfestingar aukast, hjól atvinnulífsins taka að snúast, fólk að skapa meiri verðmæti. Þetta er veðmál, sem alltaf vinnst, eins og Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent hefur sýnt í nokkrum fróðlegum línuritum.

En þá segja andstæðingarnir: Verið getur, að veðmálið vinnist til langs tíma. En hvað gerist til skamms tíma? Hvernig á að brúa bilið, þegar tekjur ríkisins lækka vegna skattalækkana? Svarið er einfalt. Það er verulegt svigrúm til að hagræða í ríkisrekstri. Í annan stað kemur vel til greina að selja einhverjar eignir, og í þriðja lagi má taka lán innan lands eða utan til skamms tíma, sé það notað til að brúa bilið, uns skatttekjur taka að aukast til langs tíma.


Skemmtilegur afmælisdagur

Ég varð sextugur þriðjudaginn 19. febrúar, og var dagurinn hinn skemmtilegasti. Ég hélt fyrirlestur undir nafninu „Frjálshyggjan, kreppan og kapítalisminn“ í Hátíðasal Háskóla Íslands klukkan fimm síðdegis, og var hvert sæti setið, og þurftu nokkrir að standa eða koma sér fyrir á efri svölum. Þar fór ég yfir þá gagnrýni, sem frjálshyggja og kapítalismi hafa sætt frá hruni, meðal annars í bókum Stefáns Snævarrs, Stefáns Ólafssonar, Ha-Joon Changs, Einars Más Guðmundssonar og Einars Más Jónssonar, og reyndi að svara henni. Ómar Kristmundsson var fundarstjóri, en Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stóð að fundinum. Myndir af fyrirlestrinum má meðal annars sjá hér.

Að fyrirlestrinum loknum urðu nokkrar umræður. Þórólfur Þórlindsson prófessor benti á, að ég hefði aðallega rætt um fortíðina. Hverja teldi ég leið Íslendinga út úr ógöngum síðustu ára? Ég svaraði því til, að mikilvægast væri að lækka skatta og minnka ríkisafskipti, setja hjól atvinnulífsins aftur í gang. Gunnlaugur Jónsson fjármálafræðingur spurði, hverja ég teldi heppilegasta framtíðartilhögun gjaldeyrismála á Íslandi. Ég rifjaði upp, að sjálfur hefði ég lagt til að taka upp annan gjaldmiðil snemma í níunda áratug, áður en nokkur annar (að dr. Sigurði B. Stefánssyni hagfræðingi undanteknum) hefði orðað það. Jóhannes Nordal hefði hins vegar bent á veigamikla mótbáru: Ef við tökum upp annan gjaldmiðil, þá verðum við að hegða okkur vel, því að við getum ekki notað peningaprentun eða lánsfjárþenslu til að sleppa undan beinum afleiðingum óskynsamlegrar hegðunar okkar. En ef við getum hegðað okkur vel, þá er óþarfi að taka upp annan gjaldmiðil. Réttast væri að kippa okkar málum í lag, leyfa valfrelsi um gjaldmiðla og athuga síðar meir, hvort við héldum í krónuna eða tækjum upp annan gjaldmiðil. Yrði síðari kosturinn fyrir valinu, þá litist mér best á myntslátturáð með breskt pund sem viðmiðunarmynt. Viðskiptablaðið tók við mig stutt viðtal á Netinu, sem skoða má hér.

Síðan var móttaka í Hámu, mötuneyti Háskólans, milli klukkan sex og átta. Sóttu hana á að giska tvö hundruð manns. Gísli Marteinn Baldursson var þar veislustjóri, en þeir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og dr. Ómar Kristmundsson prófessor, forseti stjórnmálafræðideildar, fluttu þar ávörp. Voru þau bæði vel samin og vel flutt og mjög vinsamleg í minn garð. Pétur Emil Júlíus Gunnlaugsson og tveir vinir hans léku jasslög í hófinu af mikilli fimi. Mér barst fjöldi gjafa mér til nokkurrar undrunar, og voru þær undantekningarlaus vel valdar. Myndir úr hófinu eru meðal annars hér og hér og hér og hér.

Um kvöldið héldu nokkrir góðir vinir og samverkamenn mér kvöldverð. Þar var Kjartan Gunnarsson veislustjóri, en Davíð Oddsson, ritstjóri og fyrrverandi forsætisráðherra, flutti ávarp, sem var í senn fyndið og elskulegt, eins og hans var von og vísa. Í byrjun hófsins lék kvartett frá Sinfóníuhljómsveit Íslands nokkur fögur lög, aðallega eftir Mozart. Við það tækifæri hélt áfram að rigna yfir mig gjöfunum, og voru þær satt að segja stórkostlegar. Ég verð ekki oft orðlaus, en þar varð ég allt að því orðlaus.


Glærurnar í fyrirlestri mínum

Hér eru glærurnar úr fyrirlestri þeim, sem ég flutti þriðjudaginn 19. febrúar 2013 í Hátíðasal Háskóla Íslands um „Frjálshyggjuna, kreppuna og kapítalismann“. Ættu þær að gefa góða mynd af efni fyrirlestursins.

 


Rannsóknarskýrsla mín fyrir 2012

Við háskólaprófessorar þurfum 1. febrúar ár hvert að skila skýrslu um rannsóknir okkar og önnur störf árið á undan. Ég tók á dögunum saman þessa skýrslu, og fer hún hér á eftir með tengingum, þar sem efni er aðgengilegt á Netinu. Margir kennarar Háskólans eru mér fremri í að birta ritgerðir í ritrýndum tímaritum erlendum, en fyrir það fást flest rannsóknarstig. Þeir hreppa því fleiri stig en ég. Þeir eru flestir vel að þessum stigum komnir, en ég velti því stundum fyrir mér, hvort háskólaprófessorar geti ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni á annan veg líka, til dæmis með því að fara að fordæmi Jóns Sigurðssonar, rannsaka sögu Íslands og þjóðhagi, halda uppi vörnum fyrir land og þjóð erlendis og leggja á ráðin um efnalegar framfarir innan lands. Háskólinn var einmitt stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, 17. júní 1911.

A3.2 Bókarkaflar: innlend ritrýnd útgáfa

A4.4 Greinar birtar í almennum tímaritum

A6.3 Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu

  • Icelandic Communists, 1918–1998. Paper at an International Conference on “Europe of the Victims” in Iceland 22 September 2012.
  • How Can the Initial Allocation of ITQs Be Just? Paper at an International Conference on “Fisheries: Sustainable and Profitable“ in Iceland 6 October 2012. [Not delivered for constraints of time.]

A6.4 Erindi á innlendri ráðstefnu

A6.5 Erindi á málþingi eða málstofu

A8.2 Ritdómar

C4 Forstöðumaður rannsóknastofnunar

D1 Skipulagning alþjóðlegrar vísindaráðstefnu

D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Erlend blöð

D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Fyrirlestrar

  • Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Rotary-klúbbur Reykjavíkur 8. febrúar 2012.
  • Hægri stefna á Íslandi: Viðhorf og verkefni. Samband ungra sjálfstæðismanna 8. mars 2012. Á Youtube hér.
  • Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Frjálshyggjufélagið 14. mars 2012.

D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Blaðagreinar

D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Viðtöl við fjölmiðla

D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu

D6 Fræðsluefni fyrir almenning. Blogg

  • Nær daglegt blogg á pressan.is allt árið 2012, þar sem talað var máli Íslendinga gagnvart erlendum stórveldum, máli skattgreiðenda gegn skatteyðendum og máli neytenda gegn framleiðendum.

Verðlaun og viðurkenningar


Íslenska eða belgíska?

Háskóli Íslands hélt 17. júní 2011 upp á hundrað ára afmæli sitt, en hann var stofnaður á hundrað ára afmæli Jóns Sigurðssonar, sem fæddist eins og flestum er kunnugt á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní 1811. Jón skrifaði í Ný félagsrit 1841: „Það er sannreynt í allri veraldarsögunni, að með hnignun málsins hefur þjóðunum hnignað.“ Enn mælti Jón: „Þar í lýsir sér hinn rétti þjóðarandi, að hann hermir ekki eftir neinu öðru, heldur velur sér með skynsemi það, sem best á við og hentugast er á hverri tíð.“

Fræg er síðan sagan, sem birtist í Sunnanfara 1893, af Grími Thomsen, er hann hitti belgískan stjórnarerindreka. Erindrekinn spurði Grím: „Hvaða mál er talað á Íslandi?“ Grímur svaraði: „Þar er töluð íslenska.“ Þá sagði viðmælandinn drembilega: „Ég átti ekki við dónana, heldur hvaða mál heldra fólkið talaði.“ Grímur svaraði kurteislega, en þurrlega: „Það talar auðvitað belgísku.“

Grímur reyndist forspárri en hann vissi sjálfur. Nú vilja hinar talandi stéttir læra belgísku og horfa til Brüssel. Hinar vinnandi stéttir halda sig við íslenskuna og telja, að Reykjavík dugi fullvel sem höfuðstaður landsins, enda settist hér að fyrsti landnámsmaðurinn, Ingólfur Arnarson, og hér bjó líka sá maður, Skúli Magnússon, sem tók forystu um að hrífa okkur upp úr eymdinni, sem hlotist hafði af því að skríða í skjól erlends valds á þrettándu öld.

Í yfirlýsingu, sem íslenska nefndin í samningum við Dani 1918 lagði fram á fyrsta fundinum í júlíbyrjun það ár, segir: „Þessi atriði, sérstök tunga og sérstök menning, teljum vér skapa oss sögulegan og eðlilegan rétt til fullkomins sjálfstæðis.“ Þessir menn vildu ekki fremur en Jón Sigurðsson herma eftir öðrum þjóðum, heldur velja sér með skynsemi það, sem best ætti við og hentugast væri. Þeir töluðu ekki belgísku, heldur íslensku.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2012, sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)

Icesave og Stefán Ólafsson: Nýjar upplýsingar

Stefán Ólafsson prófessor birti 28. janúar 2013 blogg í tilefni af úrskurði eða áliti EFTA-dómstólsins um Icesave-deiluna. Þar sýndi hann línurit, sem hann kvað vera frá fjármálaráðuneytinu. Samkvæmt því var kostnaður af leið ríkisstjórnar Geirs H. Haardes í Icesave-deilunni miklu hærri en af leiðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur (Svavarssamningnum og Buchheit-samningnum).

Ýmislegt er við þennan málflutning að athuga.

Í fyrsta lagi er þetta blogg Stefáns að stofni samhljóða bloggi, sem hann birti 27. júní 2012 (með sama línuriti), nema hvað hann sleppir nú eigin upphafsorðum þá: „Það verður ljósara með hverjum degi sem líður að þjóðin var gróflega blekkt með málflutningi sumra andstæðinga samningaleiðarinnar í Icesave-málinu. Forsetinn gerði einnig alvarleg mistök þegar hann vísaði Icesave III (Buchheit-samningnum) í þjóðaratkvæðagreiðslu, á röngum forsendum og gegn mjög rúmum meirihluta á Alþingi.“ Fróðlegt væri að vita, hvers vegna Stefán sleppti í síðara blogginu eigin upphafsorðum úr fyrra blogginu.

Í öðru lagi er línuritið, sem Stefán birtir, óskýrt. Þar er kostnaður af ólíkum leiðum í Icesave-deilunni sýndur sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. En landsframleiðslu hvaða árs? Og á hvaða gengi? Og hvers vegna var áætlaður kostnaður seðlabankans vegna tilrauna til að bjarga bankakerfinu („gjaldþrot“ seðlabankans, eins og Stefán kallar það) sýndur með?

Í þriðja lagi var enginn samningur gerður í Icesave-deilunni í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haardes, svo að ekkert er þar sambærilegt við samningana, sem gerðir voru síðar og lagðir fyrir Alþingi. Til voru minnisblöð og samningsdrög, og mælt var fyrir heimildum til samninga á Alþingi, en enginn samningur var gerður. Ástæðan til þess, að samningur var ekki gerður, var ekki aðeins sú, að stjórnin féll skyndilega í janúarlok 2009, heldur líka, að ráðamenn þá vildu ekki sæta afarkostum Breta og Hollendinga. 

Ef Stefán Ólafsson vill ekki trúa sjálfstæðismönnum um þetta, þá ætti hann að hlusta á Kristrúnu Heimisdóttur, sem var þá aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Hún sagði í athugasemd 10. febrúar 2010 um ein samningsdrögin: „Ýmis skjöl af þessu tagi eru til, enda reyndu Bretar og Hollendingar margsinnis að knýja Íslendinga til að ganga að tvíhliða lánasamningum sem Íslendingar töldu óaðgengilega, og höfðu samningsskjöl til reiðu með aðstoð íslenskra lögmannsstofa. Þetta skjal sætir því engum tíðindum og var aldrei borið undir ráðherra.“

Sigurður Líndal lagaprófessor spurði líka einfaldrar spurningar í grein hér á Pressunni, eftir að fyrsti Icesave-samningurinn var gerður: „Ef Ísland hefði tekið á sig ábyrgð með hinum umsömdu viðmiðum hefði þá þurft að gera sérstakan samning um ríkisábyrgð 5. júní 2009 sem undanfarið hefur legið fyrir Alþingi?“

Í fjórða lagi er línurit það, sem Stefán Ólafsson birti í bloggum sínum, ekki frá fjármálaráðuneytinu, þótt hann segi svo vera. Tölurnar í línuritinu eru vissulega úr reikningsdæmi, sem Svavar Gestsson bað fjármálaráðuneytið um að leysa, en línuritið er ekki þaðan, enda er það aðeins áróðursmynd. Ég skrifaði fjármálaráðuneytinu 29. janúar og spurðist fyrir um þetta. Ég fékk eftirfarandi svar frá Elsu Sverrisdóttur 30. janúar:

Fjármála- og efnahagsráðuneytið fær ekki séð að línuritið sem vísað er til, og Stefán Ólafsson birtir á vefsíðu sinni, hafi verið unnið eða birt opinberlega af ráðuneytinu.

Með öðrum orðum: Stefán vísar í samning, sem aldrei var gerður, og línurit, sem aldrei var dregið upp.


Hvað varð um söfnunarféð?

Stúdentafélag Reykjavíkur hélt marga merkilega fundi um þjóðmál um og eftir miðja tuttugustu öld. Sérstaklega varð mörgum minnisstæður fjölmennur fundur félagsins um andlegt frelsi í Tjarnarbíói fimmtudagskvöldið 12. janúar 1950, enda var umræðunum útvarpað sunnudaginn á eftir. Framsögumenn voru Tómas Guðmundsson skáld og Þórbergur Þórðarson rithöfundur, og voru tildrög þau, að Tómas hafði gert gys að íslenskum sósíalistum á fullveldisfagnaði 1. desember 1949. Kvað hann engu líkara en þeir hæfu kvöldbænir sínar á orðunum: „Faðir vor, þú sem ert í Moskvu!“ Málgagn sósíalista, Þjóðviljinn, réðist þá harkalega á „skáld borgarastéttarinnar“ eins og blaðið kallaði Tómas og kvað hann hafa staðið frammi fyrir þjóð sinni sem „þriðja flokks gamanleikari“.

Á stúdentafélagsfundinum fluttu þeir Tómas og Þórbergur báðir innblásnar ræður, sem prentaðar eru í ritsöfnum þeirra og enn er fróðlegt að lesa. Fjörugar umræður urðu eftir framsöguerindi þeirra, og tóku margir til máls, þar á meðal Geir Hallgrímsson, Gylfi Þ. Gíslason og Þorvaldur Þórarinsson lögfræðingur, kunnur harðlínumaður í Sósíalistaflokknum. Þorvaldur kvað andlegt frelsi fullkomið í Ráðstjórnarríkjunum (sem þá voru undir stjórn Stalíns), og vildi hann glaður flytjast þangað austur, hefði hann tækifæri til.

Sjálfstæðismenn tóku Þorvald á orðinu og hófu söfnun í farareyri fyrir hann aðra leiðina austur, og sá dagblaðið Vísir um að taka við framlögum og birti jafnóðum lista um gefendur, en heilu vinnustaðirnir tóku þátt í söfnuninni. Talsvert fé safnaðist til austurfarar Þorvaldar, um 1.500 krónur, sem hefði þá meira en nægt aðra leiðina. En Þorvaldur vildi ekki þiggja féð. Ég sé, að Leifur Sveinsson lögfræðingur veltir fyrir sér í Morgunblaðinu, hvað hafi orðið um söfnunarféð, en ég rannsakaði það, er ég setti saman bók mína um Íslenska kommúnista 1918–1998. Hef ég fyrir satt, að féð hafi loks verið afhent Fegrunarfélagi Reykjavíkur. 

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. janúar 2013.)


Ellefta boðorðið

Boðorðin tíu, sem skráð eru í annarri bók Móse, eru raunar flest bönn frekar en boð: þau leggja taumhaldsskyldur á menn frekar en verknaðarskyldur, eins og siðfræðingar orða það. Eina boðorðið, sem leggur á menn verknaðarskyldu, er hið fimmta: „Heiðra föður þinn og móður þína.“ Hvað sem því líður, hefur mörgum manninum reynst erfiðast að fara eftir sjöunda boðorðinu: „Þú skalt ekki drýgja hór,“ að minnsta kosti í upprunalegri merkingu orðsins, þegar bannað er allt kynlíf utan hjónabands og jafnvel öll sú kynhegðun, sem ekki stuðlar að fjölgun mannkyns. Ein útgáfa biblíunnar á ensku, sem kom á prent 1631, hlaut nafnið „The Wicked Bible“ eða biblían illa, af því að þar hafði orðið „not“, ekki, fallið niður í sjöunda boðorðinu, svo að þar stóð: „Thou shalt commit adultery,“ þú skalt drýgja hór.

Andríkir menn hafa fetað í fótspor Móse og samið fleiri boðorð. Sænski ritstjórinn Sigge Ågren sagði til dæmis, að boðorð góðra blaðamanna ætti að vera: Elska skaltu lesendur þína meira en sjálfan þig. Bandaríski rithöfundurinn H. L. Mencken kvað ellefta boðorðið hljóða svo: Þú skalt ekki skipta þér af því, sem þér kemur ekki við. Önnur tillaga og algengari er: Þú skalt ekki láta standa þig að verki. Hefur breski rithöfundurinn Jeffrey Archer samið heila skáldsögu um það boðorð, The Eleventh Commandment (1998). Í Kaliforníu, þar sem unglegt útlit er mikilvægt í skemmtanaiðnaðinum, er ellefta boðorðið sagt vera: Þú skalt ekki eldast. En sjálfum finnst mér viturlegasta tillagan um ellefta boðorðið vera sú, sem Milton Friedman gerði: Þú skalt ekki gera góðverk þin á kostnað annarra.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. febrúar 2013.)


Halda Ögmundur og Össur verndarhendi yfir tölvuþrjóti?

Afskipti Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra af máli tölvuþrjóts þess, sem gengur undir nafninu „Siggi“, eru mjög undarleg. Ég hygg, að það sé einsdæmi, að ráðherrar hafi á þennan hátt afskipti af og reyni að stöðva rannsókn lögreglumáls.

Tölvuþrjóturinn er gamalkunnur. Hann hóf ungur brotaferil. Til dæmis braust hann inn í tölvukerfi lögmannsstofu í Reykjavík og seldi DV upplýsingar þaðan, sem það notaði í herferð sinni gegn formanni Sjálfstæðisflokksins. Um skeið var þessi maður tengdur Wikileaks, sem nú þvær hins vegar hendur sínar af honum.

Rekið var upp ramakvein, þegar tölvuþrjóturinn var handtekinn við innbrotstilraun í Málningu í Kópavogi á sínum tíma, og töldu sumir þetta vera ofsóknir gegn Wikileaks. Innbrotstilraunin var hins vegar ótengd Wikileaks.

„Siggi“ hafði að eigin frumkvæði samband við bandaríska sendiráðið í Reykjavík, og starfsmenn alríkislögreglunnar bandarísku, sem yfirheyrðu hann, gerðu það í fullu samstarfi við hann. Virðist svo sem slitnað hafi upp úr samstarfi „Sigga“ og Wikileaks, og hann hafi við svo búið leitað til bandarískra yfirvalda.

En hvers vegna vilja ráðherrar í ríkisstjórn Íslands halda verndarhendi yfir tölvuþrjóti og brotamanni? Hvers vegna reyna þeir að stöðva rannsókn á máli hans? Það er mér hulin ráðgáta. Og fara þeir ekki yfir eðlileg mörk á milli sín og lögreglunnar með þessum afskiptum?

Til samanburðar verður að skoða annars vegar endurteknar ásakanir um afskipti ráðherra af rannsókn Baugsmálsins, sem reyndust ósannar, og hins vegar nána samvinnu sérstaks saksóknara og breskra eftirlits- og lögregluyfirvalda. Almennar reglur verða að gilda um embættisfærslur, ekki geðþótti.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband