Hvað segi ég erlendis um bankahrunið?

Ég svaraði fyrir skömmu spurningum hins vinsæla pólska tímarits Uwazam Rze um Ísland, kreppuna og bankahrunið. Hér fara svör mín (á ensku, en verða birt á pólsku í tímaritinu) á eftir spurningunum, sem eru feitletraðar:

 

1) What was the reason of the bank crisis in Iceland in 2008-2009?

There was an international crisis which hit Iceland sooner and somewhat harder than other countries. It was not a domestic crisis. The causes of the international crisis were: 1) the American subprime loans, 2) too low interest rates in America and elsewhere, 3) too much sovereign debt, both in Europe and in America, 4) new financial techniques which tended to underestimate risk.

It was a typical credit bubble which burst, although bigger than we have seen for a long time. In my opinion, it is quite well explained by the Austrian theory of the business cycle, as explained by Ludwig von Mises and Friedrich von Hayek.

The reason the crisis hit Iceland harder and sooner than other countries was that the Icelandic banks were much bigger than the Central Bank and the Ministry of Finance could sustain, as lenders-of-last-resort, and that other countries were unwilling to help save the Icelandic banks. Indeed, the British government made the crisis worse by closing all means of transferring money to and from Iceland for a while, by closing the affiliates of the Icelandic banks in Britain (while saving all other banks in the United Kingdom at the same time!) and by putting one of the Icelandic banks on its list of terrorist organizations, and briefly, also the Central Bank and the Ministry of Finance. It was outrageous behaviour.

A third domestic factor contributing to the fall of the banks was that the lending risk was underestimated because many of the debtors were closely related and should have really been counted as one risk-bearing entity, not many. These debtors were in some cases intimately related to the owners of the banks. But, basically, I would argue that the Icelandic bankers were no better and no worse than bankers elsewhere. (And if they were so stupid, how could they obtain all this credit abroad? Were their creditors, the foreign bankers, then not stupid?)

2) How was the crisis overcome? Was it the best solution? What else could be done?

Basically, what the Icelanders did was not to bail out the banks. The banks went technically, if not formally, bankrupt, and the Icelandic government refused to save their foreign operations while the domestic bank accounts were guaranteed, and new banks founded on the ruins of the old banks. Nothing else could have been done in my opinion.

3) Which role did politicians play in bringing Iceland to the crisis and in overcoming it?


Icelandic politicians had no role in starting the international financial crisis. Politicians in the US could possibly be blamed for the subprime loans (especially some of Clinton’s ministers) and for tolerating a very soft monetary policy by the Fed, i.e. low interest rates, for so long (by reappointing Alan Greenspan). And European politicians could be blamed for incurring too much debt, especially in the PIGS (Portugal, Ireland, Greece and Spain) countries.

Iceland is in the EEA, European Economic Area, so the politicians could not prohibit the Icelandic banks to expand abroad, so long as they could find customers there, depositors and creditors. Indeed, the banks operated under precisely the same rules as banks in other European countries. Iceland introduced the same legal framework for financial institutions as the other European countries. It could be argued, though, in retrospect, that the financial supervisory board (the responsibility of the Ministry of Trade, in the hands of the Social Democrats during the last years before the crisis) was too lax, too soft on the banks, especially about allowing them to count as many risk-bearers groups that were essentially united.

The crisis was overcome by not bailing out the banks. This was a policy advocated by the governor of the Central Bank, David Oddsson, the former prime minister and leader of the conservative-liberal party, the Independence Party. He can be regarded as the author of this kind of response. But most Icelanders agreed. There was nothing else to do. However, the present very left-wing government has created stagnation, by not allowing hydro-electric and thermal plants to be built, and by attacking the flourishing fishing industry in Iceland, threatening to change the rules under which it operates, fundamentally. As the Wall Street Journal has written, this seems almost suicidal.

4) How did the crisis affect the public in Iceland?

There were essentially two domestic groups adversely affected. First, those who owned shares in the banks, lost them entirely. The value went down to zero. Secondly, since most long-term loans in Iceland, especially mortgages, are indexed, those who had recently taken out a loan or a mortgage, were hit hard by the fall of the krona, and the ensuing inflation. They saw their assets drop, while their obligations increased.

However, the Icelanders took the crisis more seriously than most other European nations, because they are not used to any national catastrophes. They have hardly known a crisis since the Great Depression. In fact, seven other European nations was hit harder than Iceland, in terms of reduction of GDP in 2009. Iceland had a reduction of less than 7%, while Latvia, Lithuania, Estonia, Finland, Slovenia, Romania, and Ireland saw more reductions.

5) How did the crisis affect Iceland’s public finances?

In 2008, essentially there was no public debt. It had been paid by the revenue from privatized companies. But of course the cost of restructuring the Icelandic part of the banks put a great burden on the government. 

6) What do you think about joining the EU and the euro zone? Is it good or bad for Iceland and why?

I do not think Iceland should join the EU, for several reasons: 1) the EU is becoming a super-state, without any democratic mandate, run by faceless, unaccountable bureaucrats; the centralizing forces are changing it from an open market to a closed state; 2) Iceland is despite the crisis a rather affluent country which would lose by joining, just like Switzerland and Norway; 3) Iceland has a very efficient fisheries policy which would be damaged by the Brussels bureaucrats: in Europe, fishing grounds are held in common, in Iceland, there are individual, transferable fishing rights that have proved very efficient; 4) Iceland has the necessary access to the European market by the EEA agreement; 5) Iceland should nurture trade and good relationship with the BRIC countries, Brazil, Russia, India and China, and also with the United States and Canada, and it could not make free-trade agreements with those countries, if it would be a member of the EU.

7) What is the actual condition of Iceland’s economy (after overcoming the crisis)?

The economy grew a little in 2010 to 2011, but now it is stagnant. The present very left-wing government seems not to be interested in economic growth. It does the opposite to what is usually done in a depression: it has raised taxes and cut government investment (to a historical low). All the revenue flows to its constituents, namely the public employees. There is no awareness of the fact that wealth has to be created before it is consumed. The government has done its best to drive all the rich people from Iceland, by various means, such as special taxes.

Davíð Oddsson hálfsjötugur

Hinn 17. janúar 2013 varð Davíð Odddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, hálfsjötugur. Ég þyrfti að skrifa heila bók um kynni mín af honum (og vel getur verið, að ég geri það), því að margt hefur sögulegt gerst, frá því að ég hafði fyrst af honum að segja, þegar ég sat í þriðja bekk Menntaskólans í Reykjavík veturinn 1968–1969.

Ég kaus hann raunar í hörðu kjöri til inspectors (formanns skólafélagsins) vorið 1969, en flestir aðrir hægri menn í skólanum eyddu þá atkvæði sínu á Þorvald Gylfason, nú hagfræðiprófessor, sem laut í lægra haldi fyrir Davíð. Okkur strákunum í mínum bekk, 3. D, leist frá upphafi flestum betur á Davíð, en hikuðum sumir við að kjósa hann af stjórnmálaástæðum, uns einn úr bekknum, Einar Stefánsson, nú prófessor í augnlækningum, kom einn góðan veðurdag ábúðarmikill inn í skólastofuna norðvestanmegin á fyrstu hæð og sagðist hafa gengið úr skugga um, að Davíð væri hægri maður; hann væri skráður í Heimdall.

Þegar ég hef lýst Davíð Oddssyni, hef ég oft vitnað til Machiavellis, sem kvað stjórnmálaforingja þurfa í senn að vera hugrakkan sem ljón og kænan sem ref. Raunar sagði Hreinn Loftsson, sem var um skeið aðstoðarmaður Davíðs í forsætisráðuneytinu, eitt sinn við mig, að fleyg orð rómverska skáldsins Vergilíusar (Virgils) ættu vel við um stjórnmálaferil Davíðs: „Audentis fortuna juvat“ (Hamingjan styður hugdjarfa menn). Annar fyrrverandi aðstoðarmaður Davíðs, Illugi Gunnarsson, nú alþingismaður, lét líka einu sinni svo um mælt við mig, að í Davíð byggi sérstök blanda af hjartahlýrri tilfinningaveru og útsmognum baráttujaxli, og er sú lýsing ekki fjarri lagi, þótt ég hefði sjálfur bætt við þriðja atriðinu, að hann er einbeittur hugsjónamaður, sem hefur ætíð tekið málstað alþýðu manna, venjulegs vinnandi fólks, gegn þeim, sem hafa viljað fá gæðin fyrirhafnarlaust upp í hendur í krafti mælsku, prófskírteina, ætternis, auðs eða annars slíks.

Tímabilið frá 1991 til 2004, þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra, er eitthvert mesta framfaraskeið Íslandssögunnar. Verðbólga hjaðnaði, fjáraustur úr opinberum sjóðum í óhagkvæm fyrirtæki var stöðvaður, skuldir ríkisins greiddar upp, skattar lækkaðir, ríkisfyrirtæki seld, réttindi einstaklinga treyst með stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, hagfellt rekstrarumhverfi tryggt í sjávarútvegi, og svo má lengi telja. En um og eftir 2004 urðu tímamót, þegar harðskeyttir peningamenn, sem nýtt höfðu sér nýfengið frelsi til að græða, fylltust oflæti og ætluðu sér um of, og höfðu þeir nánast öll völd hér næstu fjögur ár.

Hermann Jónasson sagði eitt sinn við Jónas Jónsson frá Hriflu: „Þú kannt að skrifa, en ekki að stjórna.“ Á sama hátt mátti segja við hina nýju valdhafa á Íslandi: „Þið kunnið að græða. Ef til vill kunnið þið líka að stjórna fyrirtækjum. En þið kunnið ekki að stjórna heilu landi.“ Þeir voru hæfileikamenn á sínu sviði og ætluðu sér eflaust ekki að setja hér allt á annan endann, en sú varð samt raunin.

Þótt Davíð varaði hvað eftir annað við óhóflegri skuldasöfnun, á meðan hann var bankastjóri, urðu örlög hans hin sömu og Kassöndru forðum, að ekki var hlustað á varnaðarorð hans. Ísland var þess vegna vanbúið, þegar hin alþjóðlega lánsfjárkreppa skall á af fullum þunga haustið 2008, svo að bankarnir hrundu. Ýmis önnur lönd urðu að vísu verr úti en Ísland, en bankahrunið var þjóðinni mikið áfall, og notuðu þá óprúttnir áróðursmenn yst til vinstri tækifærið og hrifsuðu völd. Virtust þeir aðeins hafa þrjú áhugamál, að flæma Davíð Oddsson úr stóli seðlabankastjóra, stórauka ríkisafskipti (sem ekki hefur gerst í grannríkjunum) og setja Íslendinga í skuldafangelsi, meðal annars með vanhugsaðri sölu tveggja banka til erlendra okurkarla og með hinum illræmdu Icesave-samningum, en Davíð átti sem ritstjóri drjúgan þátt í því, að þjóðin felldi þá tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslum.


Vínartónleikar í Hörpu

Ég var svo heppinn, að mér var boðið föstudagskvöldið 11. janúar 2013 á Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpunni. Hljómsveitarstjórinn, Peter Guth, var bersýnilega þrautþjálfaður í að koma fram ekki síður en í að stjórna hljómsveit. Aðallega var flutt tónlist eftir Strauss-feðga. Tónleikarnir heppnuðust mjög vel, og skemmti ég mér hið besta.

Undir tónlistinni varð mér hugsað til hins volduga og víðlenda ríkis Habsborgarættarinnar, Austurríkis, Bæheims, Mæris, Slóvakíu, Slóveníu, Ungverjalands og Króatíu, sem hrundi í fyrri heimsstyrjöld. Vín var höfuðborg ríkisins, en einnig voru Prag og Búdapest stórborgir innan þess. Önnur utanferð mín var einmitt til Vínar á stúdentafund árið 1974, og skoðaði ég þá stóreygur hallir keisaranna af Habsborgarætt, Hofburg og Schönbrunn, háskólann og fleiri stórhýsi. Síðar átti ég eftir að hitta Otto von Habsborg, ríkisarfa landa ættarinnar, sem aldrei varð þó keisari, á fundum Mont Pelerin-samtakanna. Hann var félagi, en ég var í sex ár í stjórn þeirra.

Mér er það líka minnisstætt, þegar ég snæddi kvöldverð með gömlum Vínarbúa, Nóbelsverðlaunahafanum og hagfræðingnum Friedrich A. von Hayek, vorið 1985 á Ritz-gistihúsinu í Lundúnum, að fiðluleikarar komu að borðinu til okkar og spurðu, hvort við vildum ekki láta leika eitthvert lag. Ég hvíslaði að þeim, að þeir skyldu leika Wien, du Stadt meiner Träume (Vín, borg drauma minna) eftir Rudolf Sieczynski, og þegar Hayek heyrði lagið, ljómaði hann og hóf óðar að raula textann með, enda aðeins 86 ára að aldri og í fullu fjöri. Þetta lag var þó ekki flutt á Vínartónleikum sinfóníuhljómsveitarinnar.



Fordæmi Svía

Dr. Nils Karlson frá Ratio-stofnuninni í Svíþjóð flutti fróðlegt erindi í hádeginu mánudaginn 14. janúar 2013, og má lesa um það hér og hlaða þaðan niður glærum hans.

Skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins

Nokkrum sinnum hefur opinberlega verið vikið að „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“, svo að ómaksins vert er að kanna uppruna og merkingu orðsins. Því miður er Þórbergur Þórðarson, sem kallaði sig iðulega skrímslafræðing hennar hátignar Bretadrottningar, genginn, svo að málið verður ekki borið undir hann.

Þessi skrímsladeild var fyrst nefnd á prenti, svo að ég tæki eftir, haustið 2006. Þá birti dr. Þór Whitehead prófessor ritgerð í Þjóðmálum, þar sem fram kom, að Róbert Trausti Árnason, sem var um skeið ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, hefði eftir fall Berlínarmúrsins farið til Þýskalands í því skyni að rannsaka, hvort þar væru einhver skjöl til um tengsl Svavars Gestssonar við leyniþjónustuna austur-þýsku, Stasi.

Össur Skarphéðinsson skrifaði grein í Fréttablaðið 16. október 2006, þar sem hann spurði, til hvers sú rannsókn hefði verið gerð. „Nærtækast er, að forystumenn íhaldsins hafi fyrirskipað rannsóknina,“ sagði Össur og bætti við: „Menn geta ímyndað sér, hvernig skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins hefði notað slíkar upplýsingar.“

Þór svaraði Össuri hins vegar 18. október og upplýsti, að þeir Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson hefðu mælst til þess við Róbert Trausta, að hann rannsakaði, hvort Svavar hefði verið í tengslum við Stasi. Eftir það þagnaði Össur um skeið.

Næst var þetta hugtak notað opinberlega haustið 2007 í hinum vinsæla skemmtiþætti Næturvaktinni á Stöð tvö, þar sem ég lék sjálfan mig að taka að næturlagi bensín á bíl. Ein aðalsöguhetjan í þáttunum, Georg Bjarnfreðarson, sem Jón Gnarr lék, sagði, þegar hann sá mig, að „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“ ferðaðist um í myrkri. Var því ljóst, að ég var talinn til skrímsladeildarinnar, en aðrir í henni voru að kunnugra sögn Davíð Oddsson, Björn Bjarnason og Kjartan Gunnarsson.

Enn var hugtakið notað sumarið 2009, þegar stjórnmálaskýrendur héldu því fram, að Bjarni Benediktsson væri með andstöðu sinni við Icesave-samninga ríkisstjórnarinnar að friða „skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins“. Vantaði nú sárlega meistara Þórberg til að skýra málið nánar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. desember 2012.)

Eftirmáli: Nú hefur Bergsteinn Sigurðsson, sagnfræðingur og blaðamaður, bent mér á eldra dæmi. Það er úr DV 20. júlí 2004: „Þegar mikið liggur við, er sett af stað afl innan Sjálfstæðisflokksins, sem gjarnan kallast skrímsladeildin.“ Ég lagðist í smárannsókn eins og minn er vandi og fann enn eldra dæmi úr sama blaði, frá 29. maí 2004. Það er um hjásetu Jónínu Bjartmarz við afgreiðslu fjölmiðlafrumvarpsins: „Svokölluð skrímsladeild hefur farið hamförum vegna þingmannsins og sögur um fjármál hennar hafa gengið ljósum logum um borg og bý.“ Einnig mun Sighvatur Björgvinsson hafa notað orðið 1998 og Bryndís Schram 2002. Ekki er því ólíklegt, að Sighvatur sé höfundur orðsins.

Skrímsladeild


Árás Stefáns Ólafssonar svarað

Stefán Ólafsson prófessor gerði (ásamt aðstoðarmanni sínum) harða hríð að mér í næstsíðasta hefti tímaritsins Stjórnmála og stjórnsýslu. Ég svaraði honum í síðasta hefti tímaritsins, og má hlaða svari mínu niður héðan. Útdráttur úr svari mínu hljóðar svo:

Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson telja sig hafa hrakið fjórar kenningar mínar eða tilgátur, sem settar voru fram 2007 með tilvísun til gagna frá 2004, að jöfnuður hefði frekar aukist en minnkað á Íslandi 1995–2004, að tekjuskipting hefði á því tímabili orðið eitthvað ójafnari, en væri samt í lok þess ein hin jafnasta í heimi, að rangt væri, að tekjuskipting hafði þá færst verulega frá því, sem tíðkaðist á Norðurlöndum, og að skattabreytingar 1991–2007 hefðu ekki aukið óréttlæti eða ójöfnuð, þótt dregið hefði úr jöfnunaráhrifum skattlagningarinnar. Hér leiði ég rök að því, að þeir hafi síður en svo hrakið þessar kenningar mínar eða tilgátur. Þeir hafa ekki gætt að því, við hvaða tímabil ég miðaði, og misskilið, hvernig ég notaði hugtök eins og óréttlæti, ójöfnuð og jöfnun. Til dæmis þarf ójöfn tekjuskipting ekki að vera óréttlát, jafnframt því sem sumir telja skattlagningu í jöfnunarskyni óeðlilega. Einnig bendi ég á, að þeir Stefán og Arnaldur Sölvi viðurkenna, að tekjuskipting hér hafi árið 2004 ekki verið ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum, sem var ein meginniðurstaða mín. Loks reyni ég að skýra, hvar okkur greini á, en það sé aðallega um það, hvort áhyggjuefnið eigi að vera hinir ríku eða hinir fátæku.

Ekki veit ég, hversu margir hafa áhuga á þessum deilum, en þær eru þó um atriði, sem máli skipta. Ég kvíði ekki dómi þeirra, sem nenna að kynna sér efnisatriðin.


Tvær góðar bækur til að lesa í flugvélum

Ég þurfti vegna alþjóðlegs rannsóknarsamstarfs míns, meðal annars í Bretlandi og Brasilíu, að fara á dögunum í langar flugferðir. Ég keypti á Keflavíkurflugvelli á leiðinni utan bókina Iron Curtain: The Crushing of Eastern Europe (Járntjaldið: Austur-Evrópa troðin í svaðið) eftir bandaríska sagnfræðinginn og blaðamanninn Anne Applebaum. Þetta er fjörlega skrifuð og fróðleg bók um það, hvernig kommúnistar lögðu undir sig löndin í Mið- og Austur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Suma kommúnistana kannaðist ég við, enda koma þeir nokkrir fyrir í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, til dæmis Ungverjarnir Mihaly Farkas og Matyas Rakosi. Mæli ég hiklaust með þessari bók, og hefur hún hlotið góða dóma, meðal annars í New York Times og Daily Telegraph.

Ég hafði áður lesið hina frábæru bók Applebaums, Gulag, svo að mér kom ekki á óvart, að þetta nýja verk hennar væri gott. En á Heathrow-flugvelli á leiðinni heim keypti ég af rælni skáldsögu eftir höfund, sem ég þekkti ekki til áður, Irène Némirovsky. Heitir hún í enskri þýðingu French suite (Frönsk svíta) og er um örlög ýmissa einstaklinga í Frakklandi eftir hernám Þjóðverja 1940. Mér fannst þetta í fæstum orðum stórkostleg bók, og gat ég ekki lagt hana frá mér í flugvélinni. Némirovsky tekst að vekja áhuga á söguhetjum sínum og lýsa aðstæðum svo vel, að þær verða ljóslifandi fyrir lesandanum. Hún var rússneskur gyðingur, sem hafði flust ásamt fjölskyldu sinni til Frakklands eftir byltingu bolsévíka. Hún hafði aðeins lokið tveimur af fimm hlutum skáldsögu sinnar, þegar hún var tekin höndum og send til Auschwitz, þar sem ævi hennar lauk í gasklefum nasista í ágúst 1942. Handritið að skáldsögunni fannst miklu síðar, og hefur bókin selst vel og hlotið góða dóma, meðal annars í New York Times og Guardian.


Stefán Ólafsson gleymir sér

Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðum þeirra Birgis Þórs Runólfssonar, Skafta Harðarsonar, Stefáns Snævarrs, Jóns Steinssonar og Stefáns Ólafssonar á Netinu um atvinnufrelsi, lífskjör og hagvöxt. Allir hafa þátttakendurnir verið málefnalegir nema Stefán Ólafsson, sem eys svívirðingum yfir þá Birgi Þór og Skafta. Er einkennilegur og stríður tónn í máli hans og fer illa fræðimanni. Ein athugasemd Stefáns vakti undrun mína. Hann segir á bloggi Skafta Harðarsonar:

Þú segir: „Hann hélt því fram fyrir kosningar 2003 að hér væri miklu meiri fátækt en á Norðurlöndum.“ Ég hélt engu slíku fram 2003 og skrifaði raunar ekkert um fátækt á því ári, né árin þar í kring (leturbreyting mín).

Hér gleymir Stefán Ólafsson sér. Harðar deilur urðu vorið 2003 um fátækt á Íslandi. Stefán var þá forstöðumaður Borgarfræðaseturs, og sú stofnun gaf þetta vor, skömmu fyrir þingkosningar, út bók eftir Hörpu Njálsdóttur um fátækt á Íslandi, og var uppistaðan í henni meistaraprófsritgerð, sem hún hafði unnið undir handleiðslu Stefáns. Taldi Harpa, að fátækt væri hér um 7–10%, talsvert meiri en á Norðurlöndum. Ýmsir urðu til að draga þessar tölur í efa, þar á meðal Sigurður Snævarr hagfræðingur og dr. Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur. Taldi Sigurður gögn benda til þess, að fátækt væri óveruleg á Íslandi og aðeins minni í Svíþjóð.

Við svo búið skrifaði Stefán Ólafsson grein í Morgunblaðið 7. maí 2003 undir heitinu „Athugasemdir vegna umræðu um fátækt“. Hann vísaði niðurstöðu Sigurðar Snævarrs á bug með þessum orðum: „Þegar nánar er skoðað og þegar tillit er tekið til þeirra fyrirvara sem Sigurður setur sjálfur við gögn sín, kemur í ljós að það fær ekki staðist að fátækt sé minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum.“ Stefán vitnaði að vísu ekki rétt í Sigurð, sem hafði einmitt tekið fram, að fátækt væri líklega minni í Svíþjóð en á Íslandi, en ekki sagt, að fátækt væri „minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum“. En síðan sagði Stefán nýlegar rannsóknir sýna, að fátækt væri „heldur meiri á Íslandi en hjá hinum norrænu þjóðunum og nær meðallagi í hópi ríku þjóðanna á Vesturlöndum“.

Útkoma bókar Hörpu Njálsdóttur vorið 2003 bar allt yfirbragð kosningabrellu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, kvað í síðari Borgarnesræðu sinni 15. apríl 2003 bókina vera „biblíuna sína“ og fór um hana hjartnæmum orðum. Hafði Ingibjörg Sólrún í borgarstjóratíð sinni veitt talsverðu fé til Borgarfræðaseturs Stefáns Ólafssonar. Eitthvað hljóðnaði þó Samfylkingarfólk, eftir að Katrín Fjeldsted borgarfulltrúi og Ásta Möller alþingismaður bentu á, að fátækt hafði aukist í Reykjavík, eftir að Ingibjörg Sólrún, þá borgarstjóri, hefði 1995 hert reglur um styrki félagsþjónustu borgarinnar, meðal annars með því að hætta að taka tillit til fjölskyldustærðar við úthlutun slíkra styrkja.

Svo vill þó til, að skera má úr þessum deilum um fátækt árið 2003. Í febrúarbyrjun 2007 kom út viðamikil skýrsla hagstofu Evrópusambandsins með þátttöku hagstofu Íslands, og var hún um fátækt og tekjudreifingu í Evrópulöndum. Þar kom fram hið sama og Sigurður Snævarr hafði reiknað út, að fátækt  var minni á Íslandi en í nokkru öðru Evrópulandi að Svíþjóð undantekinni. Mældist fátækt hér 2003 rétt yfir 5%. Sigurður Snævarr reyndist hafa rétt fyrir sér, Stefán Ólafsson rangt. Í því ljósi er skiljanlegt, að Stefán vilji gleyma þessu og haldi því nú fram fullum fetum, að hann hafi ekkert skrifað um fátækt árið 2003.


Valdabaráttan í Sjálfstæðisflokknum

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, gaf út fróðlega bók fyrir jólin um valdabaráttuna, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum við skyndilegt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970 og lauk í rauninni ekki, fyrr en Davíð Oddsson varð formaður vorið 1991. Styrmir var mjög við þá sögu riðinn, enda vinur og samverkamaður Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins 1973-1983. Við lesturinn rifjaðist margt upp fyrir mér, sumt skemmtilegt.

Sjálfstæðisflokkurinn galt afhroð í tvennum kosningum 1978. Eftir það settust ungir sjálfstæðismenn á rökstóla og komust að þeirri niðurstöðu, að endurnýja þyrfti forystu flokksins. Ekki áræddu þeir þó að biðja formanninn, Geir Hallgrímsson, að víkja, heldur sendu nefnd á fund varaformannsins, Gunnars Thoroddsens. Hann tók þeim vel og kvaðst reiðubúinn að víkja, en þó aðeins eftir að eftirfarandi grein hefði verið tekin upp í skipulagsreglum flokksins: „Nú verða formanni á mistök, og skal þá varaformaður víkja.“ Ekki heyrðist eftir það meira af endurnýjuninni.

Gunnar Thoroddsen var vígfimur, en með afbrigðum mjúkmáll, og í hvert skipti sem hann lagði til Geirs Hallgrímssonar, talaði hann um, að nú vildi hann rétta fram sáttarhönd. Þá sagði Davíð Oddsson eitt sinn við mig: „Í Sjálfstæðisflokknum er hver sáttarhöndin upp á móti annarri.“

Hinn gamli knattspyrnukappi Albert Guðmundsson tók mikinn þátt í þessum átökum, oftast við hlið Gunnars. Eitt sinn deildu þeir Davíð á fundi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Þá var Davíð ungur maður. „Ég hlusta nú ekki á svona tal í stuttbuxnadeildinni,“ sagði Albert hinn reiðasti. Davíð svaraði: „Mér finnst það koma úr hörðustu átt, þegar maður talar af lítilsvirðingu um stuttbuxur eftir að hafa haft atvinnu af því að hlaupa um á þeim í áratugi.“

Þorsteinn Pálsson var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins haustið 1983. Undir forystu hans klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn, og Albert Guðmundsson stofnaði Borgaraflokkinn vorið 1987. Mörgum vinum Alberts fannst Þorsteini hafa farist illa við Albert. „Borgaraflokkurinn verður ekki langlífur. Menn senda aðeins samúðarskeyti einu sinni,“ sagði þá Friðrik Sophusson, og reyndist hann sannspár.

Eftir ósigur Sjálfstæðisflokksins í kosningunum 1987 urðu þær raddir háværari, að Davíð Oddsson yrði að taka að sér formennsku. Vildi Davíð sjálfur sem minnst um það tala. Í veglegu jólaboði Vífilfells í desember 1987 vatt Lýður Friðjónsson, þáverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, sér að Davíð og sagði: „Jæja, Davíð, hvenær ætlarðu að taka við þessu?“ Davíð svaraði að bragði: „Hvað segirðu, ertu að hætta?“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. desember 2012.)


Ritdómur minn um bók Ha-Joon Chang

[Ég birti á dögunum ritdóm í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu um þýðingu á bókinni 23 atriði um kapítalisma sem ekki er sagt frá eftir Ha-Joon Chang. Nálgast má dóminn á heimasíðu tímaritsins og hlaða honum niður sem pdf-skjali. En hér er textinn líka — undir fyrirsögninni „23 atriði um kapítalisma sem klifað hefur verið á“:]

Eftir jarðskjálftana miklu í Tókío 1923 sagði austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter þurrlega, að aldrei þessu vant hefði kapítalismanum ekki verið kennt um þá. Nýútkomin bók kóreska hagfræðingsins Ha-Joon Changs er eitt þúsunda verka, sem skrifuð hafa verið gegn kapítalismanum. Þau 23 atriði, sem hann telur ekki sagt frá um kapítalismann, hafa langflest komið fram áður og það margsinnis. Chang, sem kennir þróunarhagfræði í hinu gamla vígi keynesverja í Cambridge-háskóla, þurfti hins vegar ekki að kvarta undan viðtökunum á Íslandi. Honum var boðið sérstaklega hingað vegna útkomu bókarinnar, og hélt hann fyrirlestur á vegum útgefanda síns í Háskóla Íslands 6. september 2012. Að fyrirlestrinum loknum ræddu um boðskap hans í pallborði prófessorarnir Stefán Ólafsson, Páll Skúlason og Jóhann Páll Árnason. Að sjálfsögðu spjallaði Egill Helgason líka við Ha-Joon Chang í umræðuþætti sínum í Sjónvarpinu, „Silfri Egils,“ og aðdáendur Changs flýttu sér að setja viðræðurnar á Youtube.

Gott dæmi um málflutning Changs er fyrsta atriðið, sem hann telur ekki sagt frá: Frjáls markaður sé ekki til. Þetta fræddi John Kenneth Galbraith okkur líka á í Iðnríki okkar daga, sem kom fyrst út á íslensku 1970. Rök Changs eru, að hver einasti markaður lúti einhverjum reglum, sem við teljum margar svo sjálfsagðar, að við tökum ekki eftir þeim. Auðvitað er þetta rétt. En leiðir niðurstöðuna af forsendunni? Chang hefði frekar átt að segja, að alfrjáls eða óheftur markaður sé ekki til. Hugtakið frjáls markaður er prýðilega nothæft, þótt einhver skilgreiningarvandi sé eflaust á ferð. Sumir markaðir eru frjálsari en aðrir. Vinnumarkaður er til dæmis frjálsari í Bandaríkjunum en í flestum löndum Evrópusambandsins, þótt hann sé ekki alfrjáls þar vestra. Gjaldeyrismarkaður er nú ófrjálsari á Íslandi en í flestum öðrum Evrópulöndum. Chang gerir rökvillu, sem varað er við í öllum inngangsnámskeiðum í heimspeki. Villan er kennd við sköllótta manninn. Hvenær er maður alhærður, hvenær þunnhærður og hvenær sköllóttur? Þótt við getum ekki skilgreint þessi hugtök nákvæmlega, vitum við, þegar einn maður er með hár og annar sköllóttur, jafnvel þótt einhver hár kunni að vera eftir á höfði hans. Við segjum ekki hróðug: „Sköllóttur maður er ekki til.“

Í þessu sambandi fjölyrðir Chang um lög gegn barnavinnu í Bretlandi, sem sett voru 1819 gegn háværum mótmælum. En var barnavinna afleiðing af kapítalismanum? Var hún ekki frekar afleiðing af þeirri sáru fátækt, sem flestir Bretar höfðu búið við öldum og árþúsundum saman? Því má ekki gleyma, að börn voru þrælkuð í sveitum Bretlands fyrir daga kapítalismans. Meginástæðan til þess, að barnavinna hvarf að mestu úr sögunni á Vesturlöndum á nítjándu og tuttugustu öld, var aukin velmegun og fleiri tækifæri foreldranna til að brjótast út úr fátækt. Lög gegn barnavinnu voru því oftast afleiðing þróunarinnar frekar en orsök. Þetta sést gleggst á því, að barnavinna er enn algeng í fátækum löndum, jafnvel þótt reynt sé að koma í veg fyrir hana með innlendri löggjöf og alþjóðlegu eftirliti. Auðvitað getur barnavinna ekki verið neinum mannvinum kappsmál. En með örsnauðum þjóðum er spurningin oft, hvort fjölskyldan eigi öll að svelta eða börnin líka að vinna. Hverjir treysta sér til að velja fyrri kostinn?

Hér er ekki tóm til að skoða öll 23 atriðin, sem Chang telur upp. En tökum 10. atriðið, sem ekki á að vera sagt frá: Bandaríkjamenn njóti ekki bestu lífskjara í heimi, þótt þeir séu iðulega taldir fulltrúar hins frjálsa markaðar. Síðan fer Chang með þau gamalkunnu rök, að hagtölur frá Bandaríkjunum endurspegli ekki veruleikann þar vestra. Gæðum sé misskipt, heilsugæsla lök og glæpir tíðir. Hér er að mörgu að hyggja. Í fyrsta lagi eru Bandaríkin ekkert fyrirmyndarríki þeirra, sem kenna sig við frjálshyggju eða frjálsan markað. Til er prýðileg mæling á því, hvaða hagkerfi heims komist næst (og fjærst) því að kallast frjáls. Hún felst í svokallaðri vísitölu atvinnufrelsis, og eru öll gögn um hana tiltæk á netinu, á http://www.freetheworld.com Samkvæmt henni eru frjálsustu hagkerfi heims í þessari röð árið 2010: Hong Kong, Singapúr, Nýja Sjáland, Sviss og Ástralía. Atvinnufrelsi hefur síðustu ár minnkað verulega í Bandaríkjunum, og er þar nú 18. frjálsasta hagkerfi heims. Nú myndu frjálshyggjumenn af ætt Johns Lockes og Adams Smiths horfa til fleiri þátta en atvinnufrelsis, til dæmis réttaröryggis, borgaralegra réttinda og umburðarlyndis, og þá myndu Hong Kong og Singapúr þoka fyrir Nýja Sjálandi, Sviss og Ástralíu. Þótt frjálshyggjumenn eigi sér ekkert fyrirmyndarríki, kemst Sviss líklega næst því að vera frjálshyggjuríki í þeirra skilningi. Þar er möguleikum eins hóps á að kúga annan eða sitja yfir hlut hans sett þrengri takmörk en víðast annars staðar.

Í öðru lagi eru Bandaríkin einmitt það, sem þau heita, bandalag fimmtíu ólíkra ríkja. Fróðlegt er að bera þau saman við Evrópusambandið, bandalag 27 ólíkra ríkja. Lítum til dæmis á verga landsframleiðslu á mann, sem oftast er notuð til að mæla lífskjör. Árið 2010 var hún meiri en 64 þúsund dalir í þremur ríkjum Bandaríkjanna, Delaware, Alaska og Connecticut, en aðeins í einu ríki Evrópusambandsins, Lúxemborg. Hún var á bilinu 33–35 þúsund dalir í þremur fátækustu ríkjum Bandaríkjanna, Mississippi, Vestur-Virginíu og Idaho, en 23 þúsund dalir í Portúgal, 28 þúsund í Grikklandi, 36 þúsund í Stóra-Bretlandi og 38 þúsund í Svíþjóð. Hefði Svíþjóð gengið út úr Evrópusambandinu árið 2010 og inn í Bandaríkin sem 51. ríkið, þá hefði landið mælst undir meðallagi þar um lífskjör. Á sama hátt og óeðlilegt er að dæma Evrópusambandið eftir heilsufari í Portúgal, verða Bandaríkin ekki dæmd eftir glæpatíðni í Mississippi. Bandaríkin eru sundurleit, enda samfelldur straumur innflytjenda þangað, en ekki verður um það efast, að lífskjör þar eru almennt betri en í Evrópu. Því er við að bæta vegna orða Changs um heilbrigðismál, að Bandaríkjamenn verja meira fé til þeirra en nokkur önnur þjóð, um 17% landsframleiðslu eða um 8 þúsund dölum á mann á ári. (Næstir koma Norðmenn og Svisslendingar, með um 10% landsframleiðslu og um 5 þúsund dali á mann. Jafnvel þegar aðeins er tekið með í reikninginn, hverju hið opinbera ver til heilbrigðismála, eru Bandaríkjamenn í fimmta sæti í heiminum.)

Þegar rætt er um lífskjör, er spurningin þó frekar, á hvaða leið fólk er en hvar það er statt hverju sinni. Ha-Joon Chang bendir á hið sama og ótal aðrir á undan honum, að góð lífskjör í Bandaríkjunum eru ekki síst því að þakka, að menn vinna þar meira en í Evrópu. Er það ekki fagnaðarefni? Í landi, þar sem næg atvinnutækifæri eru, eiga menn þess einmitt kost að vinna annaðhvort lítið eða mikið. Í landi, þar sem atvinnutækifærin eru hins vegar fá eða engin, geta menn ekki valið um hærri tekjur og færri tómstundir annars vegar eða lægri tekjur og fleiri tómstundir hins vegar. Í Evrópusambandinu hindra voldug verkalýðsfélög til dæmis á ýmsan hátt leið ungs fólks út á vinnumarkaðinn, svo að atvinnuleysi æskufólks er þar verulegt, jafnvel átakanlegt.

Tökum síðan 22. atriðið, sem Ha-Joon Chang telur ekki sagt frá: Fjármálamarkaðir valdi óstöðugleika. Þetta hefur verið vitað í mörg hundruð ár. Lánsfjárbólur hafa sprungið með reglulegu millibili. Raunar fullyrða hagfræðingar úr austurríska skólanum (lærisveinar Ludwigs von Mises og Friedrichs von Hayeks), að lánsfjárbólur séu einmitt helstu skýringarnar á hagsveiflum. En ástæða er til að stalda sérstaklega við þetta atriði, því að Chang tekur Ísland til dæmis (bls. 272):

Íslenska hagkerfið var ríkt fyrir en það fékk gríðarlega innspýtingu seint á tíunda áratugnum þegar stjórnvöld ákváðu að einkavæða fjármálageirann og lausbeisla hann. Milli áranna 1998 og 2003 einkavæddi landið banka í ríkiseign og fjárfestingasjóði og hunsaði jafnvel grundvallarregluverk um starfsemi þeirra, til dæmis kröfur um varasjóði banka. Í kjölfarið stækkuðu íslensku bankarnir með ævintýralegum hraða og leituðu sér viðskiptavina erlendis líka.

Þessi lýsing er ekki nákvæm. Þegar ríkisbankarnir íslensku voru seldir um síðustu aldamót, var eignarhaldi á þeim aðeins komið í sama horf og í grannríkjunum. Vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu störfuðu þeir við nákvæmlega sömu reglur og bankar annars staðar á svæðinu. Stjórnvöld „hunsuðu“ engar reglur um varasjóði banka, heldur fóru dyggilega eftir þeim. Þegar losað var til dæmis um bindiskyldu, var það gert til þess að samræma starfsskilyrði íslenskra banka og keppinauta þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu. Rétt er líka að halda til haga, að lánsfjárbólan íslenska hófst samkvæmt hagtölum greinilega árið 2004, ekki fyrr.

Chang hefur rétt fyrir sér um það, að íslensku bankarnir uxu eftir á að hyggja of hratt og tóku of mikla áhættu. Bólan sprakk, og hvellurinn varð mikill. En á meðan aðrir bankar störfuðu við eina kerfisvillu, störfuðu hinir íslensku við tvær. Hin alþjóðlega kerfisvilla var, að ríkið, seðlabankar og fjármálaráðuneyti, tæki ábyrgð á bönkum, héldi þeim á floti í stað þess að leyfa þeim að sökkva, þegar þeir gætu ekki haldið sér uppi af sjálfsdáðum. Þetta olli óhóflegri áhættusækni: Bankarnir hirtu gróðann, þegar vel gekk, en létu ríkið sitja uppi með tapið, þegar illa gekk. Séríslenska kerfisvillan var, að rekstrarsvæði íslensku bankanna, allt Evrópska efnahagssvæðið, var miklu stærra en baktryggingarsvæði þeirra, Ísland eitt. Þess vegna hrundu allir íslensku bankarnir í einu. Þeir höfðu eins og bankar annars staðar tekið óhóflega áhættu, en íslenska ríkið, seðlabankinn og fjármálaráðuneytið, hafði ekki burði til að halda þeim öllum á floti og fékk (ef til vill sem betur fer) ekki aðstoð frá öðrum til þess.

Það var hins vegar ekki bót í máli, að eigendur íslensku bankanna höfðu lítið aðhald af sterku almenningsáliti og skilvirkum eftirlitsstofnunum. Í kaflanum um Ísland nefnir Chang sérstaklega útrásarvíkinginn Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann var ekki aðeins langstærsti skuldunautur allra íslensku bankanna (sem snarjók áhættu þeirra), heldur átti hann líka öfluga fjölmiðla og háværa talsmenn. Þegar Jón Ásgeir var ákærður fyrir margvísleg efnahagsbrot sumarið 2005, skrifaði Þorvaldur Gylfason prófessor í Fréttablaðið (7. júlí):

Áhlaup ríkisvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í fyrrasumar fór út um þúfur þegar forseti Íslands neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin. Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki? Kannski bara skortur á virðingu fyrir markaðsbúskap og meðfylgjandi valddreifingu og þá um leið fyrir nauðsynlegri aðgreiningu framkvæmdavaldsins, löggjafarvald og dómsvalds. Hver veit?

Jón Ásgeir var síðan sakfelldur fyrir meiri háttar bókhaldsbrot, en sýknaður af mörgum öðrum ákæruatriðum eða þeim var vísað frá. Dómurinn yfir honum þótti óvenjuvægur, og má halda því fram, að við það hafi ekki dregið úr áhættusækni hans og annarra útrásarvíkinga. Þeir hafi talið sér flest leyfilegt.

Skáldið Þórarinn Eldjárn komst eitt sinn svo að orði, að það hafi ekki verið fyrr en eftir hrunið, sem allir sáu það fyrir. Mér er þó minnisstætt, þegar hinn kunni skoski sagnfræðingur Niall Ferguson sagði á hádegisverðarfundi Kaupþings sumarið 2007, að sér fyndust óþægilega mörg teikn á lofti svipuð þeim, sem sáust í aðdraganda heimskreppunnar miklu. En fáir voru sammála Ferguson. Hér á Íslandi varaði Davíð Oddsson, seðlabankastjóri 2005–2009, margsinnis við örum vexti bankanna. Hann sagði til dæmis á morgunfundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: „Hin hliðin á útrásinni  er þó sú, og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis.“ Hann bætti við: „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess, sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Ég sat í bankaráði Seðlabankans 2001–2009 og get borið um, að Davíð var afdráttarlaus um þetta í einkasamtölum, þótt hann yrði starfs síns vegna að fara varlega opinberlega. Honum fundust bankarnir taka allt of mikla áhættu með hinum öra vexti sínum, en ekki síður með því að lána nátengdum aðilum stórfé (til dæmis fyrirtækjum með ólík nöfn og aðskildar kennitölur, en öllum í eigu fámenns hóps í kringum Jón Ásgeir Jóhannesson). Raunar tekur Ha-Joon Chang undir þetta, þegar hann segir (bls. 273), að í ljós hafi komið, „hversu skuggalegir fjármálagjörningarnir að baki efnahagsundrinu á Íslandi höfðu verið“. En þar eð Chang vitnar á einum stað í bók sinni til Þorvaldar Gylfasonar prófessors (um framleiðnitölur), má rifja upp, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra 2007–2009, bar fyrir rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu (8. bindi, bls. 140), að hún hefði í ráðherratíð sinni haft mikið samband við Þorvald, en hann hefði aldrei varað sig við neinni hættu í bankakerfinu.

Ha-Joon Chang telur Ísland hrunsins skólabókardæmi um afleiðingarnar af lausbeisluðum kapítalisma. Sönnu nær er, að Ísland hafi verið fórnarlamb alþjóðlegrar lánsfjárkreppu. Ég hef þegar nefnt hina alþjóðlegu kerfisvillu, áhættusækni banka vegna ábyrgðarleysis þeirra á eigin mistökum, en við hana bættust hagstjórnarmistök í Bandaríkjunum, til dæmis undirmálslánin á húsnæðismarkaði og ógætileg vaxtastefna seðlabankans. Kapítalismanum verður ekki kennt um þetta frekar en um jarðskjálftana í Tokíó 1923. Kreppan skall síðan fyrr og verr á Íslandi en öðrum löndum, og voru til þess fleiri ástæður en hin séríslenska kerfisvilla, sem ég hef þegar nefnt, miklu stærra rekstrarsvæði banka en baktryggingarsvæði þeirra. Viðbótarástæða var, að áhættan dreifðist á miklu færri aðila hér en annars staðar. Bankarnir voru aðeins þrír, og einn aðili skuldaði þeim hvorki meira né minna en eitt þúsund milljarða króna, eftir því sem næst verður komist. Þriðja ástæðan var, að þjóðin var orðin góðu vön. Samdráttur landsframleiðslu varð hér ekki miklu meiri en víða annars staðar: Hér varð hann 7% 2009, en í Eistlandi 14% og á Írlandi 5%. (Til samanburðar má nefna, að samdrátturinn í Finnlandi 1991 var 6% og 1992 3%.) Þjóðinni varð hins vegar miklu meira um lánsfjárkreppuna en öðrum. Hún tók hana afar nærri sér. Í huga hennar varð hrunið miklu stórkostlegra en efni stóðu til. Fjórða ástæðan var auðvitað, að Bretar beittu hryðjuverkalögum í því skyni að knýja íslenska ríkið til að greiða skuldir, sem það hafði ekki stofnað til. Það var áreiðanlega mörgum sálrænt áfall, auk þess sem það jók á erfiðleika Íslendinga.

Þetta merkir ekki, að kapítalisminn sé með öllu saklaus af lánsfjárkreppunni. Líklega er hann í eðli sínu óstöðugur (að minnsta kosti við brotaforðakerfi, fractional reserve banking). En ríkisvald skapar líka óstöðugleika. Stundum lendir ríkisvaldið jafnvel í höndum miskunnarlausra einræðisherra, sem höggva í stríðum sínum stór skörð í heilar kynslóðir, og má nefna Lenín, Hitler og Maó, en líka fyrr á öldum Lúðvík XIV. og Napóleon Bónaparte. Vesturlandabúar hafa ekki náð fullu valdi á nýrri fjármálatækni, svo sem afleiðum og skortsölu, en rétta ráðið er ekki að banna slíka tækni, eins og Ha-Joon Chang virðist vilja, heldur að finna nýjar leiðir til þess að samræma sérhagsmuni og almannaheill. Lækningin má ekki verða verri en meinsemdin. Það er einmitt einn meginkosturinn við frjálsan markað, að þar geta menn við margvíslegar kringumstæður (en ekki alltaf) unnið að almannahag, um leið og þeir keppa að eigin hag. Þetta felur ekki í sér, eins og Ha-Joon Chang staðhæfir, að stuðningsmenn hins frjálsa markaðar þurfi að lofsyngja eigingirni. En valt er að treysta á náungakærleik í skiptum ókunnugra manna, þótt það megi ef til vill gera í skiptum raunverulegra náunga, sem hafa samkennd hver með öðrum. Móðir vakir heila nótt yfir sjúku barni sínu án þess að telja það eftir sér. Daginn eftir kaupir hún bíl frá Kóreu, og það gerir hún ekki, vegna þess að henni þyki vænt um Kóreumenn, heldur af því að henni stendur til boða ódýrari eða vandaðri bíll þaðan en annars staðar. Hið mikla afrek markaðarins er hljóðlát og tiltölulega skilvirk samvinna fólks í öllum heimshornum, sem þekkir ekki hvert annað og hefur því síður samúð hvert með öðru, en leggur sig þó fram um að fullnægja þörfum hvers annars í frjálsum viðskiptum.

Bók Ha-Joon Changs er fjörlega skrifuð, þótt hann sé mjög ósanngjarn í garð kapítalisma, og margt er þar skarplega athugað. Höfundurinn bendir til dæmis á það, að ekkert sterkt samband er á milli menntunarstigs og hagvaxtar. Hann telur ekki heldur, að til sé sérstök auðlindabölvun (óskynsamleg hegðun þjóða, sem búa við gjöfulli auðlindir en aðrar). Hann tekur einnig undir það, sem Milton Friedman og fleiri hafa haldið fram, að ýmsir minnihlutahópar geti rétt hlut sinn á frjálsum markaði, því að viðskiptavinir spyrji ekki, hvernig bakarinn er á litinn, heldur hvernig brauðið er á bragðið. Ég hef hér aðeins skoðað nokkur atriði af þeim fjölmörgu, sem Chang nefnir, en stuðningsmenn hins frjálsa markaðar eiga vissulega að spreyta sig á að svara honum, þótt segja megi um bók hans: Það, sem er nýtt þar, er ekki gott, og það, sem er gott þar, er ekki nýtt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband