Ritdómur minn um bók Styrmis Gunnarssonar

[Ég birti á dögunum ritdóm í tímaritinu Stjórnmálum og stjórnsýslu um nýja bók Styrmis Gunnarssonar. Nálgast má dóminn á heimasíðu tímaritsins og hlaða honum niður sem pdf-skjali. En hér er textinn líka — undir fyrirsögninni „Varnarrit fyrir Geir Hallgrímsson“:]

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins 1972–2008, var áratugum saman einn áhrifamesti maður landsins. Hvort tveggja var, að Morgunblaðið réði þá sem nú miklu um skoðamyndun og að Styrmir var framan af þessum tíma handgenginn helstu forystumönnum stærsta stjórnmálaflokksins, Sjálfstæðisflokksins, einkum Geir Hallgrímssyni, forsætisráðherra 1974–1978 og utanríkisráðherra 1983–1985. Ég get borið um það, að Geir hafði miklar mætur á Styrmi. Við Geir snæddum saman á veitingastað í Lundúnum haustið 1981, þegar ég hafði nýhafið stjórnmálafræðinám í Oxford, og þá barst talið að því, hver gæti orðið eftirmaður hans sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Geir kvaðst þá helst kjósa Styrmi Gunnarsson. Þetta var auðvitað áður en Davíð Oddsson hafði endurheimt meiri hluta sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur. En þessi vinarhugur var gagnkvæmur: Nýútkomin bók Styrmis, Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör, er heit, jafnvel ástríðufull vörn fyrir stjórnmálamanninn Geir Hallgrímsson.

Hvers vegna þarf að verja Geir Hallgrímsson? Vegna þess að í hinni hörðu valdabaráttu, sem hófst í Sjálfstæðisflokknum eftir óvænt fráfall Bjarna Benediktssonar sumarið 1970, laut Geir í lægra haldi, er yfir lauk, þótt erfitt sé um leið að sjá, að einhver hafi sérstaklega sigrað hann. Helstu andstæðingar hans innan flokksins voru þeir Gunnar Thoroddsen og Albert Guðmundsson, en þeir voru samt engir sigurvegarar. Hvorugur þeirra var ánægður með sinn hlut, er þeir hættu stjórnmálaafskiptum. Líklega var þetta stríð, sem allir töpuðu. Í bók sinni heldur Styrmir því hins vegar fram, að Geir hafi verið stærstur í ósigri sínum. Hann hafi skilað Sjálfstæðisflokknum óklofnum til eftirmanns síns, og árangur flokksins í þingkosningunum 1983, á meðan hann var enn formaður, hafi verið prýðilegur. Hljóta sanngjarnir menn að taka undir þetta með Styrmi, hvar sem þeir eru í flokki.

Ég þekkti Geir Hallgrímsson vel, og mynd Styrmis Gunnarssonar af honum í þessari bók er hin sama og ég sá. Geir var geðþekkur maður, greindur, kurteis og málefnalegur, lítt gefinn fyrir að sýna eða ræða tilfinningar sínar, jafnvel feiminn, en ötull framkvæmdamaður, féglöggur og hagsýnn og hugsaði eftir hefðbundnum brautum. Hann var samt, eins og kemur fram í bók Styrmis, einlægur hugsjónamaður, sem hafði á æskuárunum lesið Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek og gerst andstæðingur sósíalisma og ríkisforsjár. Ungur maður hafði Geir gagnrýnt opinberlega haftabúskapinn, sem rekinn var á ábyrgð allra flokka. Leiðtogar sjálfstæðismanna, þeir Ólafur Thors og Bjarni Benediktsson, höfðu ekki þykkst við, heldur tekið þessari gagnrýni vel, enda voru þeir undir niðri sammála Geir. Ekki spillti fyrir, að Geir var sonur áhrifamanns í Sjálfstæðisflokknum, hins vinsæla og auðuga Hallgríms Benediktssonar heildsala, sem hafist hafði upp af sjálfum sér og orðið bæjarfulltrúi og alþingismaður.

Styrmir leitast í bók sinni við að sýna, að Geir hafi ekki aðeins verið góður maður, heldur líka góður stjórnmálamaður. Þótt ég hafi eins og Styrmir stutt Geir forðum í átökunum innan Sjálfstæðisflokksins, tel ég nú, þegar ég horfi um öxl, meiri vafa leika á um hið síðarnefnda. Þá sögu má segja frá mörgum hliðum, eins og Styrmir viðurkennir raunar sjálfur. Tómarúm var í Sjálfstæðisflokknum eftir fráfall Bjarna Benediktssonar. Gunnar Thoroddsen, vígfimur og þaulreyndur stjórnmálamaður, fimmtán árum eldri en Geir, kennari hans í lagaskóla og borgarstjóri, á meðan Geir var borgarfulltrúi, var nýsnúinn heim til Íslands og vildi hefja stjórnmálaþátttöku á ný. Jóhann Hafstein tók til bráðabirgða við forystu flokksins, en kjósa þurfti varaformann. Gunnar hafði verið varaformaður 1961–1965 og bauð sig nú fram, en Geir ákvað að gera hið sama og felldi Gunnar með naumum meiri hluta. Hvers vegna þurfti Geir að gera það? Gat hann ekki beðið? Skýringar Styrmis á því nægja sennilega fæstum. Voru hér ekki tveir metnaðarfullir menn að keppa um völd, og gat hvorugur unnt hinum varaformannssætisins? Og var ekki eðlilegra, að eldri maðurinn og reyndari fengi fyrst að spreyta sig? Þótt það komi þessu ef til vill ekki við, er fróðlegt minnisblað, sem Styrmir birtir, þar sem fram kemur, að þeir Ingólfur Jónsson á Hellu og Magnús Jónsson frá Mel hafi orðið því linari í stuðningi við Geir fyrir landsfundinn 1971 sem Gunnar virtist hafa meira fylgi. Sigurinn á hundrað feður, en ósigurinn er munaðarlaus.

Geir Hallgrímsson var óneitanlega í sterkri aðstöðu í upphafi þessara átaka. Hann var ekki öðrum háður um afkomu sína og í vinfengi við marga auðugustu menn landsins. Sjálfur var hann stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins, Árvakurs, og hafði sér til fulltingis mikilhæfa dugnaðarforka eins og Styrmi og Matthías Johannessen, hinn ritstjóra Morgunblaðsins, sem báðir reyndust honum hið besta. Þrír síðari formenn Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, stunduðu ungir störf á Morgunblaðinu. Fjörutíu árum síðar má spyrja: Hefðu þeir verið ráðnir, hefðu þeir ekki verið í liði Geirs? Aðstöðunni á Morgunblaðinu fylgdu áhrif og óbein völd. Því má skjóta hér inn, að einn af mörgum óvæntum fróðleiksmolum í bók Styrmis er, að Þorsteinn Pálsson hafi, eftir að hann var ráðinn ritstjóri á Vísi og nokkrir blaðamenn gengu út, leitað til Styrmis um að lána sér blaðamann, og þá hafi Styrmir ekki treyst öðrum til þess en Geir H. Haarde, sem þá vann á blaðinu. Hvað sem því líður, var eflaust ein meginástæðan til mikils fylgis Geirs í upphafi innan Sjálfstæðisflokksins, að í borgarstjórnarkosningunum 1970 hafði flokkurinn haldið meiri hluta sínum í borgarstjórn, þótt hann stæði höllum fæti í landsmálum eftir kreppuna 1967–1968. Gunnar Thoroddsen hefði að vísu átt það svar, að flokknum hefði líka gengið vel og jafnvel betur í borgarstjórnarkosningum undir sinni forystu, 1950, 1954 og 1958.

Ljóst er af þessari bók, að Sjálfstæðisflokkurinn var Styrmi Gunnarssyni og Geir Hallgrímssyni hjartans mál. Þeir hugsuðu og töluðu um flokkinn af allt að því trúarlegri lotningu. Í augum þeirra var hann í senn baráttuafl og bakhjarl. Líklegasta skýringin er sú, sem Styrmir gefur sjálfur, að margir töldu kalda stríðið háð upp á líf eða dauða. Hér á landi starfaði öflugur sósíalistaflokkur, sem stóð í nánum tengslum við einræðisríki kommúnista í Austur-Evrópu. Víglínan lá um hjarta hvers manns, eins og Sigfús Daðason orðaði það. Biðu Íslands sömu örlög og Eistlands, sem varð sjálfstætt ríki sama ár, 1918? Eða Kúbu, sem var eyland fjarri Rússlandi eins og Ísland? Hámarki náði þessi barátta 30. mars 1949, þegar Sjálfstæðisflokkurinn skipulagði varalið við hlið lögreglu til að verjast áhlaupi sósíalista á Alþingishúsið. Styrmir hefur líklega rétt fyrir sér, þegar hann segir eitt merkasta framlag Geirs Hallgrímssonar til stjórnmálasögunnar (og þá um leið Styrmis sjálfs) hafa verið að hvika aldrei frá samstarfi við vestræna bandamenn þrátt fyrir átökin í landhelgismálinu, sem sósíalistar reyndu óspart að nýta sér. Skemmtilegt er einnig að lesa minnisblöð Styrmis frá fundi Geirs Hallgrímssonar og Harolds Wilsons í Chequers, sveitasetri breska forsætisráðherrans. Í hádegisverði þar tóku breskir ráðamenn hraustlega til drykkjar síns. Það var því ef til vill ekki að furða, að íslensku gestunum þótti létt yfir Wilson og utanríkisráðherra hans, James Callaghan.

Þótt verk Styrmis Gunnarssonar sé vissulega varnarrit fyrir Geir Hallgrímsson, er höfundur ekki blindur á trúnaðarvin sinn, en orðar alla gagnrýni varlega. Eitt dæmi er prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir þingkosningar 1983, þar sem Albert Guðmundsson lenti í fyrsta sæti og Geir, formaður flokksins, í sjöunda sæti. Styrmir rifjar upp, að fast hafi verið lagt að Geir að breyta prófkjörsreglum svo, að kjósendur tölusettu frambjóðendur í stað þess að krossa aðeins við þá. Geir hafi hins vegar verið ófáanlegur til þess. Í þessu máli var framkoma Geirs sjálfskæð (self-defeating, eins og Bretar segja). Hann lagði andstæðingi sínum vopnin upp í hendurnar. Albert var vinsæll maður, svo að fleiri voru reiðubúnir að kjósa hann en Geir, en ekki hefðu allir kjósendur Alberts samt viljað fá hann í fyrsta sæti. Fullyrða má, að Geir hefði við tölusetningu fengið flest atkvæði frambjóðenda í fyrsta sæti (því að nánast allir kjósendur hans hefðu sett hann í það sæti). Hann hefði ef til vill ekki fengið góða kosningu, en hann hefði ekki hlotið herfilega útreið. Úrslit prófkjörsins mörkuðu endalok stjórnmálaferils Geirs, þótt það tæki hann nokkurn tíma að viðurkenna það. Annað dæmi er, að Geir lét í formannstíð sinni jafnan kjósa í þingflokki sjálfstæðismanna um ráðherraefni flokksins í stað þess að kanna hug þingmanna og gera síðan tillögu til þingflokksins um fulltrúa hans í ríkisstjórn. Þannig missti Geir vald á atburðarásinni, og úr varð vandræðagangur, þar sem hver otaði sínum tota. Í Geir bjó sterk tilhneiging til þess að treysta því, að einhverjir aðrir leystu úr erfiðum málum. En lífið býður sjaldnast upp á slíka undankomuleið.

Ein stærstu mistök Geirs Hallgrímssonar voru að grípa ekki í taumana eftir hina óraunhæfu sólstöðusamninga 1977. Ekki kemur nógu skýrt fram í bók Styrmis, hver meginástæðan var: Geir treysti helsta efnahagsráðgjafa sínum, Jóni Sigurðssyni hjá Þjóðhagsstofnun, sem hafði reiknað út, að samningarnir fengju hugsanlega staðist. Þetta var þvert á það, sem dr. Þráinn Eggertsson hagfræðingur, síðar prófessor, taldi í skorinorðri grein í Vísi þetta ár. Geir hafði rök Þráins að engu. Honum fannst þægilegt að trúa sérfræðingum, sérstaklega ef þeir sögðu honum, að ekkert þyrfti að gera. Hann áttaði sig ekki heldur á því, þótt honum væri margbent á það, að Jón Sigurðsson var Alþýðuflokksmaður af lífi og sál, bróðursonur Haraldar Guðmundssonar ráðherra og fór sjálfur í framboð nokkrum árum síðar. Annað dæmi um tregðu Geirs Hallgrímssonar til að hrifsa til sín frumkvæði með snöggum útleikjum er, að hann skyldi ekki krefjast þess að fá að mynda minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokksins, eftir að vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar sprakk í árslok 1979. Gunnar Thoroddsen vildi slíka minnihlutastjórn, og hefði raunar verið snjallt að leiða hann þar í forsæti. Þá hefði metnaði Gunnars hugsanlega verið fullnægt. En þess í stað var mynduð minnihlutastjórn Alþýðuflokksins með hlutleysi Sjálfstæðisflokksins, og uppnám varð innan Sjálfstæðisflokksins.

Styrmir Gunnarsson nefnir í bók sinni „Leiftursókn gegn verðbólgu“, sem var yfirskrift kosningastefnuskrár Sjálfstæðisflokksins 1979. Hann hefur það eftir Þorsteini Pálssyni, að höfundur hennar hafi verið Jónas H. Haralz hagfræðingur, og er það rétt. Hitt hefði mátt fljóta með, að sjálfur samdi Þorsteinn Pálsson yfirskriftina, en það var umfram allt hún, sem fældi kjósendur frá flokknum. Þótti orðið „leiftursókn“ minna um of á hernaðarbrölt Adolfs Hitlers. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði kosningabaráttunni 1979. Hann fór þá ekki að ráðum þaulvanra kosningastjóra: Þegar vel gengur í skoðanakönnunum, þá á umfram allt að reyna að halda í fylgið og fara varlega. Ef illa gengur, þá getur hins vegar verið rétt að bjóða upp á afdráttarlausari stefnu, því að þá er eitthvað að vinna, en ekki aðeins einhverju að tapa. En afleiðingin af hinum smáa sigri Sjálfstæðisflokksins 1979 (sem var í raun ósigur miðað við aðstæður) var, að Gunnar Thoroddsen eygði möguleika til að mynda stjórn með sér í forsæti. Stjórnarmyndun hans var enn einn áfanginn á niðurleið Geirs Hallgrímssonar. Styrmir hefur hins vegar eflaust rétt fyrir sér um það, að sá stóri munur var á Geir og Gunnari, að Geir hefði aldrei getað hugsað sér að kljúfa Sjálfstæðisflokkinn, jafnvel þótt hann hefði orðið undir í glímu þeirra tveggja, en Gunnar gældi áreiðanlega við þá hugmynd. Gunnar var vissulega ekki skoðanalaus, en Geir hafði miklu sterkari stjórnmálasannfæringu og var reiðubúinn til að fórna einhverju fyrir hana.

Margt er fróðlegt í bók Styrmis Gunnarssonar. Eitt dæmi er af aðdraganda borgarstjórnarkosninganna 1982. Styrmir segir, að þá snemma árs hafi einn þingmaður Alþýðubandalagsins, Ólafur Ragnar Grímsson, boðið Albert Guðmundssyni að verða borgarstjóri í samstarfi við vinstri flokkana, færi hann fram með sérlista eða klyfi sig frá Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar. Davíð Oddsson hafði þá í prófkjöri unnið fyrsta sætið á lista flokksins, en Albert hafnað í þriðja sæti. Talið var líklegt, að vinstri flokkarnir misstu þann meiri hluta, sem þeir höfðu unnið í kosningunum fjórum árum áður. Við þetta boð Ólafs Ragnars færðist Albert allur í aukana innan Sjálfstæðisflokksins, og hefur Styrmir eftir Ingólfi Jónssyni frá Hellu, sem hafði þá nýlega hitt Albert: „Harkan í manninum er slík, að það er eitthvað í þessu máli, sem við ekki vitum.“ Hér get ég þó bætt því við, að Davíð Oddsson sá við Albert. Hann vissi vel, að Albert myndi eftir hugsanlegan sigur sjálfstæðismanna reyna að ná frekari völdum og vegtyllum í borgarstjórn með hótunum og afarkostum. Þegar setja átti saman framboðslistann fyrir kosningar og Davíð lét ekki undan öllum kröfum Alberts, kvaðst Albert ekki taka sæti á listanum. Þá sagði Davíð hinn rólegasti: „Ef þú ferð af listanum, Albert, þá hef ég tryggt, að Birgir Ísleifur Gunnarsson tekur þitt sæti, þriðja sætið. En jafnvel þótt þú farir af listanum, Albert, þá vona ég, að þú haldir áfram að koma á árshátíðina hjá okkur í Varðarfélaginu.“ Þá glúpnaði Albert og hætti við að fara af listanum. Gert var skriflegt samkomulag við hann um, að við sigur Sjálfstæðisflokksins yrði hann forseti borgarstjórnar með þeim venjulegu réttindum og skyldum, sem fylgja þeirri stöðu.

Styrmir segir í bók sinni frá því, að Geir Hallgrímsson hafi sumarið 1982 kallað þá Þorstein Pálsson og Davíð Oddsson á sinn fund (og Kjartans Gunnarssonar, þáverandi framkvæmdastjóra) til að skýra þeim frá því, að hann myndi ekki gefa kost á sér til formanns á landsfundi flokksins 1983 og að hann vildi annan hvorn þeirra sem eftirmann. Tók Geir þó fram, að hann teldi Davíð sigurstranglegri. Síðan hefur Styrmir eftirfarandi eftir Steinari J. Lúðvíkssyni, sem rætt hafði við Þorstein: „Í viðræðum Þorsteins og Davíðs lagði Þorsteinn það til, að Davíð færi í framboðið og taldi, að hann sem borgarstjóri ætti meiri möguleika á sigri. Niðurstaðan varð samt sú, að Þorsteinn færi fram, enda taldi Davíð sig hafa ærinn starfa við stjórn Reykjavíkurborgar.“ Þessa sögu kann ég öðru vísi. Geir lagði málið fyrir þá Þorstein og Davíð á tveimur fundum. Þegar Þorsteinn þagði, en gerði ekki tillögu um Davíð, ákvað Davíð að gera tillögu um Þorstein, enda taldi hann sig þurfa að einbeita sér að borgarmálum. Þeir Þorsteinn og Davíð voru líka gamlir vinir, nánast fóstbræður. Það kom Davíð síðan mjög á óvart, þegar Þorsteinn lagði til við landsfund sjálfstæðismanna 1983 eftir að hafa borið sigurorð af Friðrik Sophussyni og Birgi Ísleifi Gunnarssyni í formannskjöri, að landsfundarmenn kysu Friðrik sem varaformann, ekki Davíð. Hafði Þorsteinn ekki rætt þetta við Davíð. Eftir það taldi Davíð sig ekki eins skuldbundinn Þorsteini og ella. Hann bauð sig fram til varaformanns 1989, í óþökk Þorsteins, þótt fátt væri sagt, og síðan til formanns 1991 og felldi þá Þorstein. Ein ástæðan til þess, að margir fylgdu Davíð þá, var, að þeir höfðu séð, hvernig Þorsteini hafði mistekist að halda saman stjórn 1987–1988. Hann virtist ekki geta unnið með forystumönnum annarra flokka.

Bók Styrmis Gunnarssonar um átökin í Sjálfstæðisflokknum 1970–1991 er barmafull af fróðleik, oft óvæntum. Hún er lipurlega skrifuð og um mikil og hörð átök, sem öll þjóðin fylgdist með agndofa. Hún er líka merkileg söguleg heimild. Ég fann engar stórar villur í henni. Höfundur er sanngjarn og beiskjulaus, og vörn hans fyrir trúnaðarvin sinn er vel af hendi leyst, þótt ekki verði allir sammála honum.


Bókum liggur ekki á

Fyrir skömmu sat ég kvöldverð með nokkrum gömlum vinum, óljúgfróðum og langminnugum. Einn þeirra hafði haft nokkur kynni af Tómasi skáldi Guðmundssyni, sagði margar sögur af honum og hafði eftir honum viturleg ummæli. Ein hljóðuðu svo: „Bókum liggur ekki á.“ Með þessu brýndi Tómas fyrir viðmælanda sínum, hversu mikilvægt er að vanda til bóka, leyfa þeim að þroskast og vaxa í huga sér, velta fyrir sér efnistökum og söguþræði, velja verkinu og einstökum köflum þess hæfileg heiti, hafa (eins og sagt var um höfund Njálu) síðustu setninguna í huga, þegar hin fyrsta er sett á blað, skrifa og endurskrifa, uns stíllinn er orðinn þróttmikill og blæbrigðaríkur og þó tilgerðarlaus, en ekki hröngl af slitnum orðum og sljórrar merkingar. Sjálfur hef ég lært af hverri einustu bók, sem ég hef sett saman eða ritstýrt.

Þessi kunningi Tómasar skálds var ungur maður, þegar þeir töluðu hvað mest saman, og eindreginn sjálfstæðismaður. Tómas hafði að vísu sömu stjórnmálaskoðun, en sagði: „Ungi maður, heimurinn er ekki í svörtu og hvítu, eins og þú heldur. Hann er í miklu fleiri litum. Og mennirnir eru ekki algóðir eða alvondir. Allir hafa eitthvað til síns máls.“ Síðan þagnaði hann smástund og læddi síðan út úr sér grafalvarlegur: „Nema auðvitað framsóknarmenn.“

Talið barst að deilunum um ævisögu Hannesar Hafsteins eftir Kristján Albertsson, en hún kom út í þremur bindum 1961–1964. Óhætt var að segja, að Reykvíkingar stæðu á öndinni yfir verkinu, sem skrifað var af ástríðufullri aðdáun á Hannesi. Stúdentafélag Reykjavíkur hélt fjölmennan fund 22. janúar 1964 um ritið, sérstaklega þó deilurnar um uppkastið 1908, og var annar framsögumaðurinn Sigurður A. Magnússon, heitur aðdáandi Hannesar. Í almennum umræðum sló í brýnu milli Sigurðar og eins fundarmanna, Sveins Benediktssonar, en faðir hans, Benedikt Sveinsson, hafði verið einn helsti andstæðingur Hannesar í uppkastsmálinu. Viðmælandi minn í kvöldverðinum hafði ekki verið á fundinum, enda þá aðeins sextán ára. En hann heyrði einn áheyrandann, Pál Líndal, lýsa orðasennu þeirra Sigurðar og Sveins eftirminnilega: „Þar fór grautur í kringum heitan kött!“ Grauturinn var Sigurður, sem er með afbrigðum óskýr í máli, en heiti kötturinn Sveinn, sem var á fundinum hinn reiðasti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. desember 2012. Ég ætti að bæta því við, að nýútkomin er bók eftir Gunnar Þór Bjarnason um uppkastið 2008. Fær hún góða dóma, og hlakka ég til að lesa hana.)


Ættarmetnaður og ættardramb

Mér varð hugsað til margra sagna um ættarmetnað og ættardramb, þegar ég las nýlega fróðlega bók Guðmundar Magnússonar sagnfræðings um Íslensku ættarveldin. Frá Oddaverjum til Engeyinga.Ein sagan er af forngríska skósmiðssyninum Ifíkratesi, sem gerðist herforingi og lést 348 f. Kr. Þegar ættstór maður, afkomandi hetjunnar Harmodíosar, hæddist að honum fyrir smátt ætterni, svaraði Ifíkrates: „Ættarsaga mín hefst með mér, en þinni lýkur á þér.“

Einn marskálkur Napóleons keisara, Nicolas-Jean de Dieu Soult, sem uppi var 1769 til 1851, fékk hertoganafnbót og á að hafa svarað spurningu háaðalsmanns af gömlum og tignum ættum, Mathieus J.F. de Montmorencys hertoga, um ættfeður sína: „C'est nous qui sommes des ancêtres“, það erum við, sem erum ættfeðurnir.

Oft hefur líka verið vitnað til vísu norska skáldsins Henriks Ibsens, sem Matthías Jochumsson þýddi:

Það gefur ei dvergnum gildi manns,

þótt Golíat sé afi hans.

Þorsteinn Sölvason kennari frá Gafli í Svínadal orti um einn dótturson Bólu-Hjálmars, sem honum þótti ekki standa undir ætterninu:

Sé ég nú, að satt er það,

sem að forðum skáldið kvað.

Það gefur ei dvergnum gildi manns,

þótt Golíat sé afi hans.

Ég hef þegar sagt frá orðaskiptum Magnúsar Torfasonar sýslumanns og Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, sem báðir voru afkomendur Finns biskups Jónssonar. Magnús stærði sig af því að vera kominn af Finni í beinan karllegg, „og minn er göfugri“. Jón var kominn af Finni í kvenlegg og svaraði: „En minn er vissari.“

Fræg eru líka ummæli Jóns Jacobsons landsbókavarðar, sem uppi var 1860 til 1925 og taldi sjálfan sig ættstóran: „Það er ekki nema einn Íslendingur ættgöfugri en ég. Það er Helga, dóttir mín, því hún er af ætt konunnar minnar líka.“ Móðir Helgu og kona Jóns, Kristín Pálsdóttir, var af Vídalínsætt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. desember 2012.)


Höggstokkur í stað gálga

Marie Antoinette á leið á höggstokkinnFyrir nokkru hélt ég því hér fram, að munurinn á ensku og bandarísku byltingunum annars vegar og frönsku og rússnesku byltingunum hins vegar væri, að hinar fyrrnefndu hefðu heppnast, en hinar síðarnefndu ekki. Örn Ólafsson bókmenntafræðingur andmælti mér um frönsku byltinguna. Þar hefði yfirstéttin verið svipt forréttindum sínum. Örn horfir fram hjá því, að sums staðar hefur tekist að afnema forréttindi án teljandi blóðsúthellinga. Frönsku byltingunni lauk hins vegar með ógnarstjórn Maximiliens Robespierres og síðan valdaráni Napóleons Bonaparters.

Margt hefur hins vegar verið sögulegt sagt um frönsku byltinguna. Fræg eru til dæmis orð Edmunds Burkes þegar árið 1790, fyrir daga ógnarstjórnarinnar: „In the groves of their academy, at the end of every vista, you see nothing but the gallows.“ Í skógarrjóðrum þessara skólaspekinga, alls staðar þar sem út fyrir sést, ber gálga við himin.

Spádómur Burkes rættist, nema hvað byltingarmennirnir tóku upp fljótvirkari aftökuvél en gálga, fallöxina. Þegar ein byltingarkonan, frú Roland, var leidd á höggstokkinn 8. nóvember 1793, var hún hvítklædd og með sítt, svart hár, slegið. Hún sneri sér að styttu af frelsisgyðjunni og mælti: „Ô liberté! Ô liberté! Que de crimes on commet en ton nom!“ Frelsi, ó, frelsi! Hversu margir glæpir hafa verið framdir í nafni þínu! Annar byltingarmaður, Pierre Vergniaud, sem einnig lét lífið á höggstokknum, sagði, að byltingin æti börnin sín, og hefur oft verið til þeirra orða verið vitnað síðan.

Hannes Pétursson orti um leið drottningarinnar frönsku, Marie Antoinette, á aftökustaðinn:

Er von hún skilji að allur þessi æsti

óhreini lýður, þetta grimma vopn

sem blikar þarna blóðugt, óseðjandi

sem bölvað skrímsli, sáir dauða og kvöl

sé hvítur draumur hugsuðanna, framtíð

hollari betri og eina völ

en hitt sem nú skal rifið upp með rótum;

hið rotna stjórnarfar og mikla böl

sé hún sem yfir hópinn orðlaus starir

hrein og föl.

Hér áttu líka við orð Halldórs Kiljans Laxness í Kristnihaldi undir Jökli, þegar hann talaði um hina „hörundslausu tröllskessu Byltíngu sem vildi mannblót“.  


Ef landráðin hafa heppnast

Fyrir nokkru skrifaði ég hér um hin fleygu orð Jóns Þorlákssonar forsætisráðherra, að bylting væri lögleg, ef hún lukkaðist, og reyndi að rekja uppruna þeirra. Af því tilefni skrifaði Örn Ólafsson bókmenntafræðingur smágrein í Morgunblaðið, þar sem hann hélt því fram, að eðli málsins samkvæmt væru byltingar alltaf ólöglegar, því að þá væri stjórnvöldum kollvarpað. Ég er ekki viss um, að fremstu stjórnspekingar Vesturlanda séu sammála Erni. Til dæmis taldi enski heimspekingurinn John Locke, að byltingar væru löglegar, þegar stjórnvöld hefðu rofið þann sáttmála, sem gilti milli þeirra og borgaranna. Konungur, sem bryti rétt á þegnum sínum, væri hinn raunverulegi uppreisnarmaður, ekki þeir, sem tækju að sér að reka hann frá völdum.

Hvað sem því líður, rifjaðist við þetta upp fyrir mér vísa, sem Magnús Ásgeirsson þýddi fyrir löngu:

Af landráðum vex ekki vegsemd! Hve verður það sannað?

Ef landráðin hafa heppnast, þá heita þau annað. 

Í ritsafni Magnúsar, sem Kristján Karlsson bókmenntafræðingur gaf út fyrir Helgafell 1975, er þessi vísa sögð eftir ókunnan höfund.

Hún er hins vegar augljóslega eftir enska aðalsmanninn og skáldið Sir John Harington, sem orti í Epigrams árið 1618:

Treason doth never prosper, what’s the reason?

For if it prosper, none dare call it treason.

Hér segir Sir John svipað og hinn íslenski nafni hans Þorláksson, að munurinn á glæp og hetjudáð getur stundum oltið á leikslokum. Alþekkt dæmi er, þegar danski sendiherrann í Washington-borg, Henrik Kauffmann, óhlýðnaðist ríkisstjórn sinni eftir hernám Danmerkur vorið 1940 og samdi upp á sitt eindæmi um, að Bandaríkjastjórn tæki að sér hervernd Grænlands. Hann var rekinn úr stöðu sinni og fundinn sekur um landráð, en strax eftir stríð var sá dómur ógiltur, og varð Kauffmann raunar ráðherra í fyrstu dönsku stjórninni eftir hernámið. „Sekur er sá einn, sem tapar,“ orti Einar Benediktsson. 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband