6.2.2010 | 14:12
Hvað segir fjölmiðlafræðingurinn?
Ótrúlegar fréttir berast þessa dagana af framferði þeirra fjölmiðla íslenskra, sem eru í eigu auðjöfra og útrásarvíkinga.
Seytján ára piltur braust inn í tölvu lögfræðings, fann þar gögn um Eið Smára Guðjohnsen og Bjarna Benediktsson og seldi þau DV. Það er hlálegt til þess að vita, að blaðið, sem gerðist þannig þjófsnautur, skuli vera rekið af hæstaréttarlögmanni.
Síðan hefur Sigurjón M. Egilsson, sem hefur verið fréttastjóri Fréttablaðsins og ritstjóri DV, upplýst, að væntanlega hafi verið greitt fyrir þau tölvugögn Jónínu Benediktsdóttur, sem tekin voru ófrjálsri hendi og birt í Fréttablaðinu 2005. Verður það mál þá enn ógeðfelldara en ella.
Við sjáum líka á hverjum degi, hvernig Fréttablaðið ýmist þegir um fréttir óþægilegar aðaleigandanum, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, eða birtir eitthvað smáræði til málamynda. DV hlífir Jóni Ásgeiri líka oftast. Til dæmis birtist þar fréttaskýring um tengsl forsetans við auðjöfra. Ekki var minnst einu orði á Jón Ásgeir. Einnig prentaði blaðið ljósmyndir af húsum auðjöfra og útrásarvíkinga erlendis. Hvergi var mynd af skrauthýsum Jóns Ásgeirs.
Áhugafólk um fjölmiðla hlýtur enn fremur að vera illa snortið, þegar það les í greinum Jóhannesar Jónssonar, föður Jóns Ásgeirs, að fyrirtæki, sem almenningur á, en hann fær af einhverjum ástæðum enn að reka, hafi sett Morgunblaðið í auglýsingabann, en það er ekki eins þægt í taumi og þeir fjölmiðlar, sem Baugsfeðgar eiga sjálfir beint og óbeint og stjórna.
Aðaleigandi Baugsmiðlanna, Jón Ásgeir Jóhannesson, er ekki aðeins dæmdur brotamaður (hann fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm í Baugsmálinu), heldur ber hann líka höfuðábyrgð allra Íslendinga á hruninu. Hann virtist fyrir hrun hafa einhvers konar sjálftökuheimild í öllum íslensku bönkunum og var orðinn stærsti skuldunautur þeirra. Undir lokin skuldaði hann þúsund milljarða! Ekki þúsund milljónir, heldur þúsund milljarða.
En Birgir Guðmundsson, fjölmiðlafræðingur á Akureyri, hefur litlar áhyggjur af öllum þessum ósköpum. Hann lætur sig frekar varða þá ekki-frétt, að fleiri lesi Fréttablaðið en Morgunblaðið, eins og kemur fram í viðtali við hann í DV 4. febrúar 2010. Hann getur þess ekki, að Fréttablaðið er sent í hvert hús endurgjaldslaust. Í kreppunni geta menn því ekki sagt því upp frekar en Ríkisútvarpinu. Þetta er marklítill samanburður. Rétta spurningin væri, hversu margir væru reiðubúnir til að greiða fyrir Fréttablaðið. Líklega væru það innan við 10% núverandi lesenda.
5.2.2010 | 18:34
Jóhanna snýr baki við Steingrími
Ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur í Kastljósi Sjónvarpsins þriðjudagskvöldið 2. febrúar 2010 um, að skynsamlegt hefði verið eftir á að hyggja að fá vana samningamenn í íslensku nefndina, sem samdi um Icesave-málið við Breta og Hollendinga, eru merkileg. Hér er forsætisráðherrann að vega að fjármálaráðherra sínum, Steingrími J. Sigfússyni, sem lagði allt undir í Icesave-málinu. Jóhanna kemur nú fram af sama ódrengskap við Steingrím og hún gerði við gamlan samstarfsmann sinn, Davíð Oddsson, í upphafi setu sinnar í Stjórnarráðshúsinu við Lækjargötu.
Ummæli hennar eru þó efnislega rétt. Þeir Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson réðu ekki við verkefni sitt. Þeir voru eins og margir aðrir Íslendingar svo beygðir andlega eftir bankahrunið, að þeir gátu ekki varið hagsmuni Íslendinga af nægilegri festu, auk þess sem hvorugur þeirra hafði til að bera nauðsynlega þekkingu og reynslu. Umboð þeirra var líka óskýrt og hæpið. Af einhverjum ástæðum tók ríkisstjórnin illa allri hjálp, sem hún gat fengið í þessu mikilvæga máli, eins og þrjú dæmi sýna.
- Þegar Eva Joly talaði skörulega máli Íslendinga erlendis, fann Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu í forsætisráðuneytinu, sérstaklega að því.
- Þeir Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður, sem bentu með glöggum rökum á, að hvergi sér í lögum eða alþjóðasamningum stað einhverrar ábyrgðar íslenska ríkisins á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, töluðu fyrir daufum eyrum stjórnvalda.
- Ekki var tekið neitt tillit til ábendinga Sigurðar Kára Kristjánssonar um það, að jafnt bankastjóri Evrópska seðlabankans og fjármálaráðherra Hollands hefðu viðurkennt opinberlega, að evrópsk lög og reglur um innstæðutryggingar ættu ekki við um bankahrun.
Nú talar Steingrímur J. Sigfússon í gátum um nýjar upplýsingar, sem muni sýna hina erfiðu vígstöðu Íslendinga í samningunum um Icesave-málið. Er hann að segja, að þingmenn hafi afgreitt málið með ónógar upplýsingar?
Hverjar gætu hinar nýju upplýsingar verið? Hótanir Breta og Hollendinga? Auðvitað hóta samningamenn þessara þjóða okkur, en svigrúm þeirra til að standa við slíkar hótanir er takmarkað. Yfirlýsingar íslenskra ráðamanna í aðdraganda og upphafi bankahrunsins? Þær binda ekki hendur okkar á sama hátt og lög og alþjóðasamningar gera. Skýrslur sérfræðinga um ábyrgð Íslendinga? Þeir sérfræðingar, sem skoðað hafa málið, til dæmis lagaprófessorarnir Stefán Már Stefánsson og Sigurður Líndal, telja ábyrgð ríkisins á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta ekki eiga sér neina lagastoð. Glannaskapur bankamanna? Hann skuldbindur ekki íslenska skattgreiðendur.
Því má ekki heldur gleyma, að Íslendingar eru fullvalda þjóð, sem getur ákveðið einhliða, hvað hún gerir, sé hún sannfærð um, að lífshagsmunir hennar séu í húfi, eins og hún gerði í þorskastríðunum fjórum á tuttugustu öld.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook
3.2.2010 | 09:40
Fleira að bráðna en jöklar
Ég hef sagt frá því eins og fleiri, að Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, varð nýlega að leiðrétta spá í síðustu skýrslu sinni frá 2007 um það, að jöklar í Himalajafjöllum yrðu horfnir árið 2035 vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Forseti Íslands hefur margoft notað þessa spá í ræðum sínum, og fyrirtæki tengt honum, sem Kristján Guy Burgess, núverandi aðstoðarmaður utanríkisráðherra, rak, útvegaði röskra 60 milljón Bandaríkjadala styrk frá Carnegie-stofnuninni í New York til rannsókna á þessari skyndilegu bráðnun jökla. Var féð ætlað stofnun undir stjórn dr. Rajendra Pachauri, formanns IPCC, sem margoft hefur komið til Íslands og telur til vináttu við forseta Íslands. Er nafn Háskóla Íslands líka nefnt í þessu sambandi.
Spáin reyndist ekki styðjast við nein vísindaleg gögn, heldur var hún aðeins getgáta lítt kunns indversks vísindamanns í viðtali við New Scientist árið 1999, átta árum áður en skýrsla IPCC birtist. Hefur IPCC beðist opinberlega afsökunar á þessu máli og heitið leiðréttingum hið snarasta, en formaðurinn, dr. Pachauri harðneitar samt að segja af sér. Erlendir fjölmiðlar hafa gert málinu góð skil og bent á, hversu óheppilegt það sé, að formaðurinn hafi haft fjárhagslega hagsmuni af málinu. Kristján Guy Burgess vill hins vegar ekki svara spurningum um málið.
Nú er fleira komið í ljós, eins og breska stórblaðið Daily Telegraph upplýsir. Í áðurnefndri skýrslu Loftslagsnefndarinnar frá 2007 segir, að snjóhettur á fjöllum og jöklar í fjallgörðum séu að hopa á Andes-svæðinu, í Ölpunum og víða í Afríku vegna hlýnunar jarðar af mannavöldum. Vísað er í heimildir fyrir þessu. Þegar að er gáð, eru heimildirnar tvær. Önnur er grein eftir fjallgöngugarpinn Mark Bowen, sem er einnig áhugamaður um loftslagsbreytingar og hefur skrifað tvær bækur um þær. Hún birtist í hinu alþýðlega tímariti Climbing 2002, sem ætlað er fjallgöngumönnum. Þar er vitnað í fjölda fjallgöngumanna um, að jöklar séu að hopa. Hin heimildin er meistaraprófsritgerð í landafræði við Bern-háskóla í Sviss eftir Dario-Andri Schworer. Þar er einnig vitnað í fjölda fjallgöngumanna um, að jöklar séu að hopa.
Hvorug heimildin er ritrýnd. Hvorug telst því gjaldgeng í heimi vísindanna (þótt hins vegar sé líka fróðlegt að lesa í tölvupósti starfsmanna í loftslagsfræðasetri háskólans í Austur-Anglia, hvernig þeir leggja á ráðin um að torvelda efasemdarmönnum um, að mestöll hlýnun jarðar sé af mannavöldum, að birta ritgerðir í ritrýndum tímaritum).
Sjálfur efast ég ekki um, að jörðin hafi hlýnað talsvert árin 19802000 og að enn sé óvenjuhlýtt, þótt ekki hafi raunar haldið áfram að hlýna eftir 2000. Ég efast ekki heldur um, að einhver tengsl séu milli hlýnunar jarðar og losunar gróðurhúsalofttegunda, eins og þorri vísindamanna telur, þótt hitt sé einkennilegt, að á sama tíma og sú losun hefur stóraukist, frá 2000, hefur hætt að hlýna. En heilbrigð skynsemi segir mér, að margt fleira ráði loftslagsbreytingum en hegðun mannanna, til dæmis virkni sólar og straumar í hafi, að hlýnun hafi eins og kólnun í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar og að gert hafi verið of mikið úr hrakspám um hlýnun. (Það er ekki frétt, þegar hundur bítur mann; það er frétt, þegar maður bítur hund; Það er ekki frétt, að heimurinn haldi áfram að vera til; það er frétt, að heimurinn sé að farast.)
Enginn vafi er á því, að jöklar hafa verið að hopa síðustu áratugi. Við Íslendingar sjáum það gleggst á jöklum okkar (þótt enn séu þeir ekki orðnir jafnlitlir og á þjóðveldistímanum). En ástæðulaust er að hlaupa á eftir hverri einustu hrakspá. Fleira getur horfið en jöklar, þar á meðal trúverðugleiki Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:54 | Slóð | Facebook
2.2.2010 | 10:11
Óheillakrákur
Ríkisstjórnin varð ársgömul í gær, 1. febrúar 2010. Þessi samstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna komst til valda í skjóli ofbeldis, og fyrsta verk hennar var mikið óheillaspor, þegar Jóhanna Sigurðardóttir hrakti fyrrverandi samstarfsmann sinn og góðkunningja, Davíð Oddsson, úr stöðu seðlabankastjóra. Með því braut hún ekki aðeins regluna um sjálfstæði seðlabanka, heldur líka hið óskráða siðferðislögmál um drengskap í samskiptum við gamla samstarfsmenn.
Jóhanna er óhæf til að vera forsætisráðherra. Þegar hún var óbreyttur ráðherra, grúfði hún sig áhugalaus niður í plögg sín á ríkisstjórnarfundum, uns kröfur hennar um aukin fjárframlög til hugðarefna hennar komust á dagskrá. Þá lifnaði yfir henni, en hún greip þá oftar til hótana en raka. Jóhanna er mannafæla, sem kann engin erlend mál, að því er virðist, en sjaldan hefur verið brýnna að tala máli Íslendinga vel og skörulega erlendis en nú. Ekki má heldur gleyma því, að Jóhanna sat í ríkisstjórninni 20072009, sem skeytti engu um margendurteknar viðvaranir Davíðs Oddssonar.
Viðskiptaráðherrann, Gylfi Magnússon, var formaður Samkeppnisráðs 20052009, en líklega var ein helsta veilan í viðskiptalífi landsmanna þau ár skortur á samkeppni. Einokunarfurstar réðu lögum og lofum, og Gylfi var ólíkt Davíð Oddssyni í klappliði þeirra. Tók hann meðal annars þátt í að veita bankamönnum verðlaun. Í ráðherratíð sinni hefur Gylfi orðið uppvís að ósannindum. Hann harðneitaði að hafa látið þau orð falla við erlenda blaðamenn, sem þeir áttu til upptökur af.
Fjármálaráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon, hafði stór orð um alla samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-málið í janúar 2009, áður en hann varð ráðherra. Síðan settist hann niður og lét undan öllum kröfum þeirra. Nú gengur hann erinda þessara þjóða frekar en Íslendinga, að því er virðist. Steingrímur gagnrýndi líka harðlega tilboð Björgólfsfeðga sumarið 2009 um að greiða helming skulda sinna gegn því að fá afganginn felldan niður. Hann neitaði hins vegar að segja nokkuð um tilboð Baugsfeðga skömmu fyrir áramót um að greiða fimmtung skulda sinna í Högum gegn því að fá afganginn felldan niður.
Aðrir ráðherrar eru svipaðar óheillakrákur. Leitun er á lakari ríkisstjórn á norðurhveli jarðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:27 | Slóð | Facebook
1.2.2010 | 17:13
Gæsirnar eru fleygar
Gæsirnar, sem verpa gulleggjunum, eru fleygar. Ef hart er gengið fram í skattheimtu, þá forða þeir, sem skapa mestu verðmætin og greiða hæstu skattana, sér burt. Þetta eru gömul og ný sannindi í skattamálum, þótt þeir Indriði H. Þorláksson og Stefán Ólafsson hafi ekki viljað viðurkenna þau í ótal greinum þeirra beggja gegn víðtækum og árangursríkum skattalækkunum áranna 19912007.
Eitt nýlegasta dæmið um þessi sannindi er viðtal við einn virtasta kaupsýslumann landsins, Jón Helga Guðmundsson í Byko, í Viðskiptablaðinu á dögunum. Jón Helgi hefur flutt heimilisfang sitt til útlanda. Þegar hann var spurður, hvort hann hefði ekki áhuga á að fjárfesta á Íslandi, svaraði hann:
Eins og þetta er núna þá myndi maður nú bíða með það og fá að sjá betur hvert leiðin liggur. Þá er ég að vísa í að þegar ráðamenn segja að you aint seen nothing yet, þá hljóta menn að vilja sjá hvað það þýðir áður en þeir fara að ákveða eitthvað með fjárfestingar.
Rónarnir mega ekki koma óorði á brennivínið, eins og Árni Pálsson prófessor orðaði það. Á sama hátt mega þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélagar hans ekki koma óorði á kapítalismann. Ísland þarf duglega og útsjónarsama kapítalista. Þess í stað er nú reynt að hrekja þá alla burt.