Hengdur fyrir að selja okkur fisk!

Þegar ég átti leið um Prag á dögunum, var mér boðið á alþjóðlega kvikmyndahátíð, helgaðri alræðisstefnu, nasisma og kommúnisma. Þar horfði ég á nýja heimildarmynd eftir tékkneska kvikmyndagerðarmanninn Martin Vadas, Rudolf Slánský: Sér grefur gröf … Við gerð hennar notaði Vadas efni, sem fannst fyrir tilviljun vorið 2018, upptökur af hinum alræmdu Slánský-réttarhöldum í nóvember 1952, þegar fjórtán kommúnistaleiðtogar voru leiddir fyrir rétt í Prag og dæmdir fyrir njósnir, skemmdarverk og undirróður. Þeirra kunnastur var Slánský, sem verið hafði aðalritari kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu.

Tveir aðrir sakborningar höfðu nokkur tengsl við Ísland. Otto Katz, sem verið hafði ritstjóri kommúnistablaðs Tékkóslóvakíu, notaði dulnefnið André Simone, og Sverrir Kristjánsson þýddi eftir hann bók, sem kom út á íslensku 1943, Evrópa á glapstigum. Sjálfur hafði Katz þýtt úr tékknesku skáldsöguna Sveitastúlkuna Önnu, á þýsku Anna, das Mädchen vom Lande, eftir Ivan Olbracht. Ég hef bent á, að söguþræðir þeirrar bókar og Atómstöðvar Halldórs K. Laxness eru afar líkir, þótt sögusviðið sé annað, og ætti okkar óþreytandi bókmenntarýnir Helga Kress að skrifa um þetta rækilega ritgerð í Sögu, til dæmis undir heitinu Eftir hvern?

Rudolf Margolius var aðstoðarutanríkisviðskiptaráðherra Tékkóslóvakíu, og var honum meðal annars gefið að sök að hafa gert viðskiptasamninga við Ísland. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, spurði undrandi í leiðara, hvers vegna ætti að hengja mann fyrir að kaupa fisk af Íslendingum. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, svaraði með þjósti, að réttarhöldin hefðu verið opinber og sönnunargögnin svo sterk, að sakborningar hefðu ekki treyst sér til annars en játa.

Þeir Slánsky, Katz og Margolius voru dæmdir til dauða og hengdir ásamt átta öðrum sakborningum, en þrír hlutu ævilangt fangelsi. Síðar viðurkenndu yfirvöld, að sakargiftir hefðu verið spunnar upp og játningar knúðar fram með pyndingum og falsloforðum. Þetta voru sýndarréttarhöld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. nóvember 2021.)


Hvað er Thatcherismi?

Þegar ég átti leið um Búdapest á dögunum, fékk John O’Sullivan, forstöðumaður Danube Institute þar í borg, mig um að tala á hádegisverðarfundi 10. nóvember um, hvort Margrét Thatcher hefði verið raunverulegur íhaldsmaður. Efnið er honum hugleikið, enda var hann góður vinur Thatchers, skrifaði fyrir hana ræður og aðstoðaði hana við ritun endurminninga hennar.

Ég er sammála ýmum vinstri mönnum um, að Thatcherisma megi skilgreina með tveimur hugtökum, sterku ríki og frjálsum markaði. Í þessu er engin mótsögn fólgin, því að frjáls markaður krefst sterks ríkis, sem lætur sér hins vegar nægja að mynda umgjörð utan um frjáls samskipti einstaklinganna. Það tryggir, að þeir komist leiðar sinnar án árekstra, en rekur þá ekki alla í sömu átt.

Munurinn á Thatcher og ýmsum hörðum frjálshyggjumönnum var, að hún leit ekki á ríkið sem óvætt. Ríkið er nauðsynlegt til að sjá um, að ýmis svokölluð samgæði séu framleidd, til dæmis landvarnir, löggæsla, undirstöðumenntun og framfærsla þeirra, sem geta ekki bjargað sér sjálfir. Ríkið er líka óskráð samkomulag borgaranna um eina heild, ein lög. Þess vegna stofnuðu Íslendingar fullvalda ríki árið 1918: Þeir vildu vera sjálfstæð heild, ekki dönsk hjálenda.

Ég benti enn fremur á það í tölu minni, að frjáls markaður fæli vissulega í sér margvíslegt umrót, en um leið mikinn endurnýjunarmátt. Þótt gamlar heildir hyrfu, mynduðust nýjar. Þess vegna þyrftu íhaldsmenn ekki að óttast frjálsan markað. Nær væri að hafa áhyggjur af þeirri hugmynd, að ríkið ætti að breytast í umhyggjusama, ráðríka fóstru. Þá yrði fátt um þær dygðir, sem íhaldsmenn meta, til dæmis hugrekki, örlæti, vinnusemi, sparsemi og sjálfsbjargarviðleitni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. nóvember 2021.)


Á Landtmann í Vínarborg

Vínarborg er kunn fyrir sín mörgu góðu kaffihús. Eitt hið frægasta er Landtmann, sem stofnað var 1873, en það er við Hringstræti, nálægt Vínarháskóla og ráðhúsinu. Á dögunum átti ég leið um borgina og leit þá inn á Landtmann. Rifjuðust þá upp fyrir mér sögur af fastagestum.

Einn þeirra var hagfræðingurinn Carl Menger, sem drakk þar jafnan kaffi með bræðrum sínum, Max og Anton. Menger gaf 1871 út bók um lögmál hagfræðinnar, þar sem hann setti fram jaðarnotagildiskenninguna. Hún er í rauninni einföld: Í stað þess að horfa á vöru í heild, brjótum við hana niður í einingar og finnum, hversu margar einingar af einni vöru fullnægja jafnvel mannlegum þörfum og einingar af annarri vöru. Við það mark er jaðarnotagildið hið sama. Verð sérhverrar vöru ætti að vera hið sama og jaðarnotagildi hennar, notagildi síðustu einingarinnar.

Bróðir Carls, Max, átti sæti í fulltrúadeild austurríska þingsins. Seint á áttunda áratug nítjándu aldar spjallaði Carl við einn vin hans, dr. Joachim Landau, sem líka var þingmaður, og sagði: „Eins og stórveldin í Evrópu hegða sér, hlýtur hræðilegt stríð að skella á, jafnframt því sem byltingar verða gerðar. Það mun marka endalok evrópskrar siðmenningar og hagsældar.“

Spá Mengers reyndist ekki vera út í bláinn. Heimsstyrjöld skall á, og kommúnistar hrifsuðu völd í Rússlandi. Snemma árs 1918 sátu þeir Max Weber og Joseph Schumpeter saman á Landtmann. Schumpeter fagnaði því, að nú fengju kommúnistar tækifæri til að prófa kenningar sínar í tilraunastofu. Weber svaraði, að þá yrði þetta tilraunastofa full af líkum. Eftir nokkur frekari orðaskipti rauk Weber á dyr. Schumpeter sat eftir og sagði við vin sinn: „Hvernig geta menn látið svona í kaffihúsi?“ En Weber hafði rétt fyrir sér. Tilraunastofan fylltist af líkum. Kommúnisminn kostaði um eitt hundrað milljón mannslíf á tuttugustu öld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. nóvember 2021.)


Balzac og kapítalisminn

Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem er nú orðinn einn helsti hugmyndafræðingur vinstri manna, vitnar óspart í ritum sínum í skáldverk landa síns, Honorés de Balzacs, enda telur hann, að tekjudreifing sé að verða eins ójöfn og á dögum Balzacs. Auðurinn sé nánast fastur við fjölskyldur, enda sé arður af stóreignum meiri en hagvöxtur. Hinir ríku séu sífellt að verða ríkari, þótt hinir fátæku séu ekki að verða fátækari.

Ég tók mig til og las þá bók Balzacs, sem Piketty vitnar mest í, Père Goriot, Föður Goriot, sem kom nýlega út í þýðingu Sigurjóns Björnssonar. Ég uppgötvaði, að boðskapur Balzacs er þveröfugur við það, sem Piketty segir. Balzac lýsir vel í þessari skáldsögu, hversu fallvaltur auðurinn er, hversu erfitt er að halda í hann. Ég skipulagði síðan málstofu um bókina í París 28.–31. október 2021, og tókst hún hið besta.

Saga Balzacs gerist á gistiheimili í París á nokkrum mánuðum árin 1819–1820. Einn vistmaðurinn er gamli Goriot, sem var vellauðugur kaupmaður, en hann hefur eytt nær öllum sínum eigum í vanþakklátar og heimtufrekar dætur sínar. Önnur þeirra, Anastasie de Restaud greifynja, á elskhuga, sem er spilafíkill, og hún selur ættargripi manns síns til að greiða skuldir hans. Hin dóttirin, Delphine de Nucingen barónessa, verður líka uppiskroppa með fé, en eiginmaður hennar hefur hætt fjármunum hennar í fjárfestingar, sem hugsanlega skila arði síðar, en gætu líka misheppnast. Hinn dularfulli Vautrin, sem býr ásamt Goriot á gistiheimilinu, hafði ungur tekið á sig sök fyrir ástmann sinn, sem hafði falsað skjöl, og verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir.

Þessar helstu söguhetjur hafa kostað öllu til fyrir ástríður sínar. Þær sátu ekki á eigum sínum eins og ormar á gulli. Þær eyddu ekki ævinni í að klippa arðmiða. Þær lifðu við óvissu. Auðvitað eru þær ýktar. En Piketty hefur rangt fyrir sér um þær og ekki síður um veruleika 21. aldar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. nóvember 2021.)


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband