Misráðnar úrsagnir

Ég er ósammála mínum ágætu flokksbræðrum, Andrési Magnússyni og Skafta Harðarsyni, sem sagt hafa sig úr Sjálfstæðisflokknum vegna stuðnings þingflokks Sjálfstæðismanna við Icesave-samning ríkisstjórnarinnar.

Það er miklu heppilegra að starfa inni í Sjálfstæðisflokknum og reyna þar að hafa áhrif á stefnumörk og framboð en sitja einhvers staðar úti í horni, utanflokks, og muldra niður í bringu.

Aðalatriðið í Icesave-málinu er auðvitað, hversu gersamlega þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon vanræktu að gæta hagsmuna Íslands í samningunum. Þau gerðu fyrst samninga, sem þau tóku fulla stjórnmálaábyrgð á, sem hefðu kostað Íslendinga um 400 milljörðum meira en þeir samningar, sem nú hafa verið gerðir.

Sjálfstæðismenn eiga að einbeita sér að baráttunni við þá, sem reyna að breyta Íslandi í Sovét-Ísland. Þar er þörf á mönnum eins og Andrési og Skafta. En þar er líka þörf á mönnum eins og Bjarna Benediktssyni og Ólöfu Nordal. Þau verða að veita öfluga stjórnarandstöðu. Þau þurfa að færa sterkari rök en ég hef séð fyrir því að liðsinna stjórninni — stjórninni, sem hrakti einn fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins úr embætti og dró annan fyrrverandi formann fyrir Landsdóm — í Icesave-málinu.


Óumdeildasti Íslendingurinn

Ef Jónas Jónsson frá Hriflu var umdeildasti Íslendingur tuttugustu aldar, þá var sennilega Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, hinn óumdeildasti. Bar þar margt til. Hann var snjallt skáld, góður rithöfundur, áheyrilegur fyrirlesari og hafði sérstakt lag á fólki. »Hann sigraði mig með ritsnilldinni,« sagði Barði Guðmundsson, sem hafði deilt við hann um skýringar á íslenskum fornritum.

Það var að líkum, að Sigurður var leystur undan kennsluskyldu um miðjan starfsferil sinn og að hann var skipaður sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, þegar mikið þótti liggja við vegna endurheimtar íslenskra handrita í dönskum söfnum.

Ekki voru þó allir jafnhrifnir af Sigurði. Steinn Steinarr orti kvæðið »Universitas Islandiæ«:

Ég minnist þess
að fyrir átján árum
stóð opinn lítill gluggi
á þriðju hæð.

Og fólkið tók sér hvíld
eitt andartak
og horfði dreymnum augum
út um gluggann.

Þá brá ég við
og réði mann til mín
sem múraði upp í gluggann.

Ég les úr þessu kvæði ádeilu á Sigurð. Það var ort 1942, þegar endurskoðuð útgáfa Íslenzkrar lestrarbókar Sigurðar birtist, en fyrst kom hún út átján árum áður, 1924. Skrifstofa Sigurðar var á þriðju hæð í háskólahúsinu. Steini sárnaði líklega, að Sigurður sniðgekk hann með öllu í þessari endurskoðuðu útgáfu, þótt hitt sé rétt, að hún átti aðeins að ná til þjóðhátíðarársins 1930, og Steinn hafði þá ekki gefið út neina bók.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. febrúar, en þeir molar eru sóttir í 992 bls. bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)


Of feitir til að flýja og of hræddir til að berjast?

Núverandi ríkisstjórn er ekki nein venjuleg stjórn, heldur á hún í hörðu stríði við Sjálfstæðisflokkinn og aðra stjórnarandstöðuflokka. Það sést best á því, að hún beitti sér eftir valdatöku sína fyrir „hreinsunum“ gegn tveimur fyrrverandi formönnum Sjálfstæðisflokksins. Annar þeirra var hrakinn úr stöðu sinni í Seðlabankanum, þar sem hann hafði einn manna varað við yfirvofandi bankahruni. Hinn var dreginn fyrir Landsdóm vegna aðgerðaleysis í ráðherrastól, þótt allir viti, að hann er saklaus.

Núverandi ríkisstjórn ætlar að reyna að koma hér á sósíalisma með því, að ríkið eignist allar auðlindir. Hún hefur hækkað skatta stórkostlega. Hún hrekur dugmikla, skapandi menn úr landi. Ráðherrar hennar ráðast hvað eftir annað harkalega á forystumenn Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa reynt að gera þá ábyrga fyrir bankahruninu 2008, þótt Samfylkingin hafi verið í bestum tengslum við þá auðmenn, sem tæmdu bankana, eins og Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sýndi best.

Núverandi ríkisstjórn getur því ekki vænst þess, að Sjálfstæðisflokkurinn auðveldi henni leikinn. Brýnasta skylda flokksins er að reyna að koma þessari ríkisstjórn frá og endurreisa atvinnulífið. Brýnasta skylda flokksins er að berjast gegn stjórninni með öllum leyfilegum ráðum, en ekki að vinna verkin fyrir hana.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að vera stærri en svo, að hann komist fyrir í vasanum á Steingrími J. Sigfússyni.

Talað er um Stokkhólmsheilkennið, þegar fórnarlömb verða andlega háð kvölurum sínum: „Ekki berja mig svona fast. Þú mátt auðvitað berja mig, en ekki svona fast. Ég skal reyna að vera góður og þóknast þér.“

Sjálfstæðismenn mega aldrei verða of feitir til að flýja og of hræddir til að berjast.


Stjórn og stjórnarandstaða

Ég man ekki eftir duglausari og aumari stjórn en þeirri, sem nú situr, nema ef vera skyldi ráðherradómur Björns Jónssonar 1909–1911, en Björn var þá farinn að heilsu og þess vegna ef til vill ekki við hann að sakast.

Stjórnin komst til valda í skjóli ofbeldis vorið 2009. Í stað þess að taka þegar rösklega á málum eyddi hún dýrmætum vikum og mánuðum í það verkefni eitt að hrekja Davíð Oddsson úr Seðlabankanum. Með því vanrækti hún ekki aðeins skyldur sínar við þjóðina, heldur rauf líka gagnkvæm grið, sem sett hafa verið milli forystumanna í íslenskum stjórnmálum eftir óskráðum, en sjálfsögðum og eðlilegum reglum.

Tveir rosknir heiðursmenn úr Sjálfstæðisflokknum, báðir með hagfræðipróf, voru gabbaðir til þess að fletta umsóknum um seðlabankastjórastöðuna, á meðan hinn nýi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sat á laun að samningum við Má Guðmundsson um launakjör hans. Már hefur síðan farið að með þjösnaskap og yfirlæti í Seðlabankanum.

Stjórnin rauf ekki aðeins grið á Davíð Oddssyni, heldur líka Geir H. Haarde. Hann er dreginn fyrir landsdóm fyrstur ráðherra í sögu Íslands. Fjórir stuðningsmenn stjórnarinnar á þingi (Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Inga Ingadóttir og Skúli Helgason) greiddu atkvæði með því að ákæra Geir, en greiddu atkvæði á móti því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem var hinn leiðtogi stjórnarflokkanna.

Ráðherrarnir Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson sátu í þeirri ríkisstjórn, sem hér hafði völd í bankahruninu. Jóhanna sat raunar í sérstakri nefnd um ríkisfjármál. Bæði daufheyrðust þau við viðvörunum Davíðs Oddssonar fyrir hrun og í því.

Forsætisráðherrann er mannafæla, sem er lítt mælt á erlendar tungur og getur þess vegna ekki haldið á lofti málstað Íslendinga erlendis. Hún getur ekki einu sinni bögglað út úr sér réttum fæðingarstað Jóns forseta Sigurðssonar á fæðingardegi hans og þjóðhátíðardegi Íslendinga.

Svo illa stóð stjórnin að einu helsta hugðarefni forsætisráðherrans, stjórnlagaþingi, að Hæstiréttur dæmdi kosninguna ógilda. Er það einhver mesta sneypuför síðustu áratuga.

Stjórnin virðist stefna að því að leggja sjávarútveginn í rúst, en hann er sá atvinnuvegur, sem hefur staðið best af sér kreppuna. Raska á stórlega eða leggja jafnvel að velli kerfi, sem reynst hefur vel og miklu betur en annars staðar þekkist.

Stjórnin virðist stefna að því að draga úr verðmætasköpun og vinnusemi Íslendinga með stórhækkuðum sköttum. Þeir munu ekki auka tekjur ríkisins, þegar til langs tíma er litið, heldur minnka þær. Sneið ríkisins af þjóðarkökunni stækkar að vísu, en kakan sjálf minnkar.

Í Icesave-málinu er ekki deilt lengur um það, að stjórnin lék stórkostlega af sér, þegar hún sendi þá Svavar Gestsson og Indriða H. Þorláksson, tvo vanhæfa oflátunga, í fangið á Bretum og Hollendingum. Þeir áttu að semja við þessi ríki, en tóku aðeins við reikningnum frá þeim og framvísuðu á Íslandi. Samningur þeirra var kolfelldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefði kostað tugum og jafnvel hundruðum milljörðum króna meira en sá samningur, sem Íslendingum stóð síðan til boða.

Eru þetta einhver mestu stjórnmálamistök Íslandssögunnar. Sömu ráðherrar og vilja draga Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins, eru því sekir um stórfellda og sannanlega vanrækslu í hagsmunagæslu fyrir Íslendinga.

Sterk rök hafa verið færð fyrir því, að íslenska ríkið beri enga greiðsluskyldu vegna þess, að Bretar og Hollendingar kusu vegna eigin hagsmuna að láta eins og ríkisábyrgð væri á innstæðum sparifjáreigenda í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Fjármálaráðherra Hollands og seðlabankastjóri Evrópu hafa hvort sem er báðir sagt, að reglur Evrópska efnahagssvæðisins um ábyrgð á innstæðum eigi ekki við í lánsfjárkreppu eins og þeirri, sem skall á haustið 2008. Forstöðumaður hins norska tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem starfar eftir sömu reglum og hinn íslenski, hefur sagt, að norska ríkið sé ekki ábyrgt fyrir skuldbindingum þess sjóðs.

Ekki er því um neina „Icesave-skuld“ að ræða, heldur aðeins kröfu Breta og Hollendinga á hendur Íslendingum. Sú krafa er sérlega óbilgjörn í ljósi þess, að Bretum var að nokkru leyti um fall íslensku bankanna að kenna.

Við slíkar aðstæður er þörf á styrkri stjórnarandstöðu. Hún á ekki aðeins að gegna því ómissandi hlutverki að veita aðhald, gagnrýna og greina, heldur líka að vera annar kostur, ef og þegar stjórnin bilar.

 


Íslensk þýðing óskast

Ég velti því fyrir mér, hvernig best sé að íslenska enska orðatiltækið „to snatch defeat from the jaws of victory“.

Umdeildasti Íslendingurinn

jonasfrahriflu_1057584.jpgFyrir nokkrum árum gáfu tveir ungir fjölmiðlamenn, Gísli Marteinn Baldursson og Ólafur Teitur Guðnason, út bráðskemmtilega bók með ýmsum listum tuttugustu aldar. Einn listinn var um umdeildustu Íslendinga aldarinnar, og skipaði Jónas Jónsson frá Hriflu þar efsta sæti. Það átti hann svo sannarlega skilið.

Jónas háði á öndverðum fimmta áratug tuttugustu aldar hatrammar ritdeilur við Halldór Kiljan Laxness, sem vitnaði þá í óprentaða vísu Einars Benediktssonar um Jónas frá því, að hann var dómsmálaráðherra 1927–1932:

 

Illa er komið Íslending

með óðan þjóf í dómahring.

Hver skal losa þjóðarþing

við þúsund vamma svívirðing?

 

Þótt Jónas héldi því fram, að Halldór hefði sjálfur ort vísuna, ber hún glögg höfundareinkenni Einars. Hún hlýtur að hafa verið því sárari fyrir Jónas sem hann var meiri aðdáandi Einars og hafði gert ýmislegt til að greiða götu hans í ellinni, þegar illa var komið fyrir honum.

Halldór kvað líka svo að orði sem frægt var, þegar Jónas gaf út ljóðmæli Einars skömmu eftir lát skáldsins, að nýtt fyrirbæri væri nú komið til sögunnar, að lifandi draugur eltist við látna menn.

Jónas svaraði því til, að Einar Benediktsson hefði sagt um Halldór: „Það vex ekki hundshár nema á hundi.“

Jónas var sem kunnugt er felldur úr formannsstól í Framsóknarflokknum 1944, og bauð hinn gamli flokkur hans fram gegn honum í Suður-Þingeyjarsýslu í þingkosningunum 1946, þótt Jónas næði þá kjöri gegn loforði til stuðningsmanna sinna um að bjóða sig ekki fram aftur. Fræg eru orð Sverris Kristjánssonar í grein um hann sjötugan: „Þegar hið aldna ljón öskrar eitt í nóttinni, þá svíður því sárast vanþakklæti og ræktarleysi fósturbarnanna í Framsóknarflokknum.“

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 29. janúar 2011 og er unninn upp úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband