Nú reynir á nýjan ritstjóra

crop_260x_965663.jpgÉg óska hinum nýja ritstjóra Fréttablaðsins, Ólafi Stephensen, til hamingju með starfið. Enginn vafi er á því, að hann hefur hæfileika og dugnað til að gegna því. En á honum hvílir þung siðferðileg skylda.

Fréttablaðið er sent ókeypis inn á hvert heimili á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Menn geta ekki sagt upp áskrift að því eins og Morgunblaðinu og DV. Ekki fer vel á því, að slíkt blað gangi erinda einhverra manna eða afla, eins og það hefur þó gert rösklega, frá því að Jón Ásgeir Jóhannesson keypti það á laun á útmánuðum 2003.

Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum á Jón Ásgeir blaðið enn þrátt fyrir margfalt gjaldþrot sitt, — þrátt fyrir þúsund milljarða skuldir í íslensku bönkunum. Ég vona, að Ólafur Stephensen fórni ekki blaðamannsheiðri sínum með því að misnota Fréttablaðið í þágu núverandi aðaleiganda (þótt hálfgerð öfugmæli séu að tala um þennan skuldakóng Íslands sem eiganda eins eða neins).

Jón Ásgeir hefur línu, sem hann reynir að láta fjölmiðla sína og leigupenna fylgja:

  • Beinið athyglinni að öllum öðrum auðjöfrum og útrásarvíkingum en mér, svo að minningin um skuldasöfnun mína í íslensku bönkunum, lystisnekkju, einkaþotu, skrauthýsi, veisluglaum og munaðarlíf í mörgum löndum dofni.
  • Reynið með öllum ráðum að telja þjóðinni trú um, að Davíð Oddsson sé duttlungafullur harðstjóri, sem græti vini sína (!) og sigi lögreglunni á óvini sína. Baugsmálið hafi verið undan hans rifjum runnið, en engin sök liggi hjá mér.
  • Rekið bankahrunið til þess, að Ísland var utan Evrópusambandsins og burðaðist með hina ónýtu krónu Davíðs í Seðlabankanum. Þá munu menn ekki átta sig eins á því, hvernig skuldasöfnun mín í íslensku bönkunum átti sinn þátt í hruninu.
  • Mælið með því, að ég fái aftur að eignast fyrirtæki mín eftir stórfelldar afskriftir, því að það sé hagkvæmast og eðlilegast fyrir banka, starfsfólk fyrirtækjanna og viðskiptavini.

Fréttablaðið var í svo harðri samkeppni við DV um að fylgja þessari línu, að Hallgrímur Helgason rithöfundur uppnefndi forvera Ólafs í ritstjórastóli „Jón Ásgeir Kaldal“, þótt skrif Fréttablaðsins væru vissulega oftast hófsamlegri en DV og stundum hefðu birst í báðum blöðunum málamyndafréttir af Baugsfeðgum.

husjohannesar.jpgEn nú er nýtt mál komið til sögunnar, sem forvitnilegt verður að sjá, hvernig Fréttablaðið skrifar um á næstu dögum: Jóhannes í Bónus, faðir Jóns Ásgeirs, skaut eignum undan til Bandaríkjanna. Hann lét í nóvember 2009 skrá nær tvö hundruð milljón króna skrauthýsi „sitt“ í Flórída á „The Johannes Jonsson Trust“. Þetta er maðurinn, sem sagðist kokhraustur ekki þurfa neinar afskriftir frá Arion banka! Þeir Baugsfeðgar myndu greiða upp allar sínar skuldir!


Höldum ró okkar

ossur_skarphedinsson_965145.jpgMjög er miður, að einhverjir hafa laumað minnisblöðum íslensku samningamannanna í Icesave-málinu á Netið. Raunar hafa ráðherrar og embættismenn líka verið allt of lausmálir opinberlega. Viðsemjendur okkar erlendis verða að geta treyst því, að þeir séu ekki að tala beint í fjölmiðla, heldur við fulltrúa þjóðarinnar.

En að tveimur aðalfréttum dagsins: Nú segja erlend matsfyrirtæki, að lánshæfismat Íslands muni lækka. Og Hollendingar sjá ekki ástæðu til frekari samningaviðræðna.

Hvorug fréttin á að raska ró okkar. Bretar og Hollendingar reyna að fá okkur til að greiða skuld, sem við stofnuðum ekki til og eigum ekki að greiða. Ef þeir vilja ekki við okkur tala, þá eru það góðar fréttir. Þá hefur látunum linnt, að minnsta kosti í bili.

Lánshæfismat Íslands lækkar eflaust til skamms tíma, vegna þess að deilan við Breta og Hollendinga er óleyst. En það hækkar til langs tíma, ef við komumst hjá því að greiða þessa skuld (sem enginn veit að vísu, hversu há er), því að þá skuldum við minna en ella og erum þess vegna lánshæfari.


Hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslu?

c_users_asdis_pictures_isl_faninn.jpgSpurt er, hvers vegna efna þurfi til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin 6. mars, ef allir stjórnmálaflokkar mæla með því að fella þau, eins og líkur eru á, svo að úrslit séu þegar ráðin. Hvers vegna eru lögin ekki frekar felld úr gildi? Svarið er einfalt: Vegna þess að samningamenn Íslendinga þurfa ótvírætt umboð þjóðarinnar, þegar þeir setjast niður með Bretum og Hollendingum til að ná sáttum í deilu Íslands við tvö grannríki.

Þjóðin verður að segja hátt og snjallt, svo að undir taki á alþjóðavettvangi: Við greiðum ekki skuldir óreiðumanna. Það er hvergi neinn bókstafur í lögum og alþjóðasamningum um greiðsluskyldu ríkissjóðs, geti Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ekki gegnt lögbundnu hlutverki sínu. Innstæðutryggingakerfi EES var ekki ætlað gegn allsherjarbankahruni, heldur aðeins tímabundnum erfiðleikum einhverra banka af mörgum í hverju landi. Bretar og Hollendingar geta ekki tekið það upp hjá sjálfum sér að leggja þungar og jafnvel óbærilegar skuldabyrðar á fámenna þjóð.

Eitt skýrt fordæmi er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem úrslit voru ráðin, enda mæltu þá allir stjórnmálaflokkar með því að kjósa á annan veginn. Þetta er atkvæðagreiðslan um sambandsslitin við Dani 1944 og stofnun lýðveldis, sem fram fór í maí 1944. Þá var þjóðin einhuga. Þessu fordæmi eigum við að fylgja.

Auðvitað munu Bretar og Hollendingar ekki verða auðveldir viðureignar eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. En tíminn vinnur með okkur. „Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast,“ skrifaði Halldór Kiljan Laxness í Íslandsklukkunni. „Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skuli frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.“


Hvað stendur eftir?

Undanfarna daga hef ég skipst á veftímaritinu Pressunni á skeytum við Hrein Loftsson, útgefanda DV og fyrrverandi vin og samverkamann okkar Davíðs Oddssonar. Jafnframt hefur Stefán Ólafsson prófessor látið ljós sitt skína af sérstöku tilefni. Hvað stendur eftir?
  • Hreinn Loftsson hóf þessa deilu ótilkvaddur með því að skrifa inn á Netið um miðja nótt fáránlegan uppspuna um samskipti okkar Davíðs Oddssonar vegna heimsóknar Kínaforseta til Íslands sumarið 2002. Ég hef rakið, hvað þar gerðist í raun og veru. Hreinn sagði vísvitandi ósatt um það mál, sem var raunar algert smámál.
  • Hinn fáránlegi uppspuni Hreins um samskipti okkar Davíðs þjónaði þeim tilgangi, sem Hreinn hefur ásamt húsbændum sínum, Baugsfeðgum, unnið að í mörg ár, og hann er að sannfæra þjóðina um, að Davíð sé duttlungafullur harðstjóri, sem hreki vini sína frá sér með ofstopa og sigi lögreglunni á óvini sína. Hreinn og Baugsfeðgar geta ekki horfst í augu við sannleikann um sjálfa sig: Hreinn gekk til liðs við Baugsfeðga vegna skefjalausrar fégirndar, en Baugsfeðgum varð stórlega á í viðskiptum, enda fékk Jón Ásgeir dóm fyrir efnahagsbrot, og þótti sá dómur þó ótrúlega mildur.
  • Ég hef minnt á, að Hreinn notar DV í herferð sinni gegn Davíð og „náhirð“ hans (eins og hann uppnefnir okkur fyrrverandi samverkamenn sína, Björn Bjarnason, Gunnlaug Sævar Gunnlaugsson og Kjartan Gunnarsson). Sigurjón M. Egilsson, fyrrverandi ritstjóri DV, hefur staðfest við mig, að Hreinn hafi mikil afskipti af ritstjórn blaðsins og skrifi margt nafnlaust þar, og kveðst Sigurjón raunar eiga mörg tölvuskeyti því til staðfestingar.
  • Ég hef rifjað upp (og Hreinn ekki mótmælt) því, að Hreinn kvaðst geta gert mig ríkan mann, ef ég legði smáræði með þeim Baugsfeðgum í kaupin á Arcadia árið 2002. Þeir feðgar töldu Davíð Oddsson einu hindrunina, sem stæði í vegi fyrir því, að þeir gætu látið greipar sópa um íslensku bankana (eins og þeim tókst síðar með alkunnum afleiðingum, þegar Davíð var hættur þátttöku í stjórnmálum). Eflaust hafa þeir viljað, að ég hefði einhver áhrif á Davíð í þessu efni.
  • Hreinn taldi sig geta komið höggi á mig með því að skýra frá því, að ég sendi honum þrjú tölvuskeyti í júlí og ágúst 2008. Hann virðist að vísu vitna í þessi skeyti mín eftir minni, en ekki hafa þau tiltæk, því að hann fer ónákvæmlega með sumt úr þeim: Ég bað hann til dæmis ekki að skrifa rektor bréf, og því síður gerði ég það í nafni gamallar vináttu okkar.
  • Í þessum tölvuskeytum tók ég hins vegar undir það, sem Hreinn hafði skrifað í DV (undir nafni Reynis Traustasonar) 18. júlí 2008, að Stefán Ólafsson hefði gerst sekur um alvarlegan trúnaðarbrest, þegar hann skýrði ritstjórum Morgunblaðsins 8. maí 1996 (samkvæmt dagbók Matthíasar Johannessen) frá niðurstöðum skoðanakönnunar, sem félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hafði gert fyrir einn vin Davíðs Oddssonar. Þá var Stefán forstöðumaður félagsvísindastofnunar.
  • Þessi vinur Davíðs var Hreinn Loftsson, svo að honum var málið skylt. Mér fannst framkoma Stefáns vítaverð. Hreinn svaraði mér því til í tölvuskeyti 21. júlí, að hann væri sammála mér um Stefán, en teldi ekki rétt að halda málinu áfram. Ég komst á sömu skoðun eftir nokkra umhugsun, aðallega af tillitssemi við samkennara mína í félagsvísindadeild.
  • Af einhverjum ástæðum segir Stefán Ólafsson ekki orð um þetta alvarlega trúnaðarbrot sitt í viðtali við Pressuna. Það er síðan rangt, sem hann segir þar, að ég hafi hótað honum einhverju á kaffistofu félagsvísindadeildar í Odda. Mér finnst ótrúlegt, hvernig hann vitnar í tveggja manna tal og fer rangt með. Ég gæti rakið hér, hvað Stefán hefur sagt við mig á sömu kaffistofu, og er það ekki allt honum til sóma, en mér dettur ekki í hug að kveinka mér undan tali hans og síst opinberlega.
  • Það er líka ósatt, sem Stefán Ólafsson segir í Pressunni, að ég hafi sent einhverja menn á fund rektors til að kvarta undan honum. Ég hef hins vegar eins og margir aðrir haft af því spurnir, að þrír af virtustu prófessorum Háskólans hafi gengið á fund Páls Skúlasonar rektors, væntanlega haustið 2003, og látið í ljós áhyggjur af því, hvernig Stefán misnotaði svokallað Borgarfræðasetur, sem hann veitti þá forstöðu, í áróðri sínum fyrir Samfylkinguna. Sú heimsókn var ekki undan mínum rifjum runnin, þótt ég telji fullt tilefni hafa verið til hennar, sé rétt frá hermt.
(Nú hefur Hreinn Loftsson birt þessi skeyti í blaði sínu, DV, og sést þar, að ég fór rétt með efni þeirra og hann rangt (þrátt fyrir villandi lestrarleiðbeiningar blaðsins). Ég spurði hann, hvort hann ætlaði að kæra Stefán til siðanefndar háskólans, en bað hann ekki um að kæra hann til rektors. Því síður bað ég hann um að gera eitthvað í nafni gamallar vináttu, heldur rifjaði aðeins upp, að ég hefði á sínum tíma, þegar við vorum vinir og samverkamenn, mælt með Stefáni til að gera skoðanakannanir.)

Sannleikurinn um tölvuskeytin

imagehandler_963712.jpgÉg hef hér rekið ofan í Hrein Loftsson, útgefanda DV, hvern lygaþvættinginn af öðrum. Hann spann fáránlega sögu um, að ég hefði hágrátið undan Davíð Oddssyni. Ég rakti það mál, þar sem hvergi kom neinn grátur við sögu.

Hreinn harðneitaði því, að hann hefði einhver afskipti af ritstjórn DV. Ég benti á, að Sigurjón M. Egilsson, fyrrverandi ritstjóri, væri heimildarmaður minn, og hefði hann undir höndum tölvuskeyti frá Hreini máli sínu til staðfestingar.

Ég minnti einnig á, að Hreinn væri einn þeirra fjölmörgu manna, sem látið hafa gullið glepja sig. Hann gekk Baugsfeðgum á hönd og tók þátt í aðför þeirra að fyrri vinum og samverkamönnum. Hann fórnaði vináttu manna og sannfæringu fyrir fé, sem virðist nú raunar vera mestallt horfið.

Hreinn gat í síðustu kveðju sinni til mín um það, að ég hefði sent sér tölvuskeyti sumarið 2008. Ég skal stuttlega rekja það mál, sem er fróðlegt, þótt ég hefði ætlað að láta kyrrt liggja af ástæðum, sem koma munu í ljós.

Eftir að Vigdís Finnbogadóttir forseti lýsti því yfir í ársbyrjun 1996, að hún hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs, heyrðust raddir um það, að eðlilegasti arftaki hennar væri Davíð Oddsson. Við Hreinn Loftsson, sem þá vorum vinir og samverkamenn, vorum ekki þessarar skoðunar. Við efuðumst að vísu hvorugur um, að hann yrði góður forseti. En við töldum, að hann ætti margt ógert í stöðu forsætisráðherra. Við vildum báðir, að hann héldi áfram stjórnmálaþátttöku.

Sjálfur kvaðst Davíð ekki íhuga framboð. Hann hlyti þó að velta framtíðinni fyrir sér. Hugsanlega ætti hann að hætta stjórnmálaþátttöku, þótt hann væri vissulega ekki á leið á Bessastaði. Hreinn vildi hins vegar kanna, hver stuðningur við Davíð í forsetastólinn væri. Reyndist stuðningurinn ekki mikill, væri hugmyndin sem betur fer sjálfdauð. Ég mælti með því, að leitað yrði til félagsvísindastofnunar Háskólans, þar sem Stefán Ólafsson væri forstöðumaður. Honum væri treystandi.

stefanolmynd_403847_963715.jpgHreinn gerði þetta. Hann fékk í algerum trúnaði Stefán Ólafsson til að sjá um skoðanakönnun á vegum félagsvísindastofnunar. Síðan sagði Hreinn mér, að stuðningur við Davíð í embætti forseta hefði ekki reynst mikill í þessari könnun. Flestir væru ánægðir með hann, þar sem hann væri (enda vann Davíð einn sinn mesta kosningasigur vorið 1999, þótt hann hefði þá verið forsætisráðherra í átta ár samfleytt). Ekkert kom fram um þetta opinberlega.

Liðu nú tólf ár. Sumarið 2008 birti Matthías Johannessen ritstjóri dagbók sína frá 1996 á Netinu. Þar er skrifað 8. maí 1996:

„Stefán Ólafsson félagsfræðingur sagði okkur Styrmi í morgun í trúnaði að nokkrir vinir Davíðs Oddssonar hefðu beðið Félagsvísindastofnun um að gera könnun á fylgi hans ef hann færi í forsetakjör. Könnunin var gerð skömmu fyrir páska en þó eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti um framboð sitt. Niðurstöður könnunarinnar voru þær að Ólafur fengi um 60% af fylgi þeirra 80% sem svöruðu og tóku afstöðu. Ég man ekki fylgi annarra frambjóðenda en það var hverfandi. Og sjálfur Davíð Oddsson hlaut ekki nema um 10% atkvæða. Margir voru alfarið á móti honum, aðrir vildu að hann héldi áfram í núverandi störfum. Stefán taldi að hann hefði getað reiknað með eitthvað yfir 30% atkvæða ef hann hefði farið í framboð. En þá hefðu þeir sem vildu að hann héldi áfram núverandi störfum kosið hann þegar á hólminn væri komið.“

Þetta mislíkaði Hreini bersýnilega, því að hann lét DV strax taka málið upp og hringja í Stefán, sem bar þetta af sér. Ég tel hins vegar einsýnt, að vorið 1996 braut Stefán freklega trúnað sem forstöðumaður félagsvísindastofnunar. Ekki er minnsta ástæða til að efast um, að Matthías sagði sannleikann í dagbók sinni, enda kom allt þar heim og saman við það, sem Hreinn hafði sagt mér 1996.

Um þetta voru tölvuskeytin, sem fóru okkur Hreini í milli sumarið 2008. Hreinn sagðist í skeyti til mín vera sammála mér um Stefán Ólafsson, en engum væri greiði gerður með því að halda málinu áfram.

Ég komst á sömu skoðun, þegar ég hugsaði málið. Það var ekki af neinni sérstakri tillitssemi við Stefán, heldur við mína ágætu samkennara í félagsvísindadeild, sem hafa reynst mér vel í blíðu og stríðu og ég tel langflesta góða vini mína. Ég vildi ekki koma þeim í uppnám, og sumir þeirra voru og eru vinveittir Stefáni. Ég er á skemmtilegum vinnustað og vil engu um það breyta. Málið snerti mig líka aðeins óbeint. Þess vegna aðhafðist ég ekkert frekar.

Það breytir engu um, að trúnaðarbrot Stefáns var vitaskuld stóralvarlegt. Hreinn Loftsson hefur nú vakið athygli á því, svo að um munar.

Sá á Hrein, sem elur

Undanfarin misseri hefur Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður gefið út DV. Það blað hefur helst unnið sér til frægðar að kaupa stolin tölvugögn af seytján ára brotamanni og notað þau til að birta óhróður um íslenska íþróttakappa. Hefur sjaldan verið lotið lægra í íslenskri blaðamennsku. Daglega birtast í DV níðgreinar um Davíð Oddsson og stuðningsmenn hans, sem blaðið kallar „Náhirðina“, en það orð gerði Hreinn.

Hreinn hefur dagleg afskipti af ritstjórninni og skrifar margt af því, sem birtist nafnlaust í blaðinu. Ég hef ekki fyrir því lakari heimild en fyrrverandi ritstjóra blaðsins,  Sigurjón M. Egilsson. Bað hann mig síður en svo fyrir það. Efist einhver um orð Sigurjóns, sem ég hef raunar ekki heyrt neinn gera, þá mun hann geta lagt fram fjöldann allan af tölvuskeytum frá Hreini þeim til staðfestingar.

Sú var tíð, að Hreinn Loftsson var samstarfsmaður okkar Davíðs. Það var fyrir mín orð, að Davíð réð hann aðstoðarmann sinn sumarið 1991. Reyndist Hreinn vel í því starfi, enda séður, lögfróður, vinnusamur og í eðli sínu húsbóndahollur. Bárum við Davíð fullt traust til hans þrátt fyrir varnaðarorð sumra, sem töldu hann blendinn í skapi og fégjarnan úr hófi fram.

Hvers vegna hefur Hreinn eytt síðustu misserum og jafnvel árum í að sannfæra lesendur DV og aðra þá, sem hirða um að hlusta á hann, um, að Davíð Oddsson hafi verið duttlungafullur harðstjóri, sem hafi iðulega grætt mig og aðra vini sína, en sigað lögreglunni á óvini sína? Það er vegna þess, að Hreinn þarf að smíða sögu því til réttlætingar, að hann gekk árið 2002 til liðs við þá menn, sem barist hafa hvað harðast gegn Davíð, Baugsfeðga. Hann getur ekki sagt sjálfum sér eða öðrum hina raunverulegu ástæðu, sem er, að hann lét glepjast af blikandi Baugsgulli.

Í upphafi vonaði Hreinn eflaust, að hann gæti leitt Davíð og Baugsfeðga saman. Til þess hafa þeir sennilega ráðið hann í þjónustu sína. Gerðist hann stjórnarformaður Baugs á háum launum og ráðgjafi Baugsfeðga um stjórnmál og fjölmiðla. En Davíð skynjaði fljótlega, að eitthvað var bogið við Baug. Þeir feðgar höfðu vissulega hafist upp af sjálfum sér, eins og lofsvert er, en þeir fóru fram af hörku og hófleysi. Þess vegna hafði Davíð ólíkt sumum öðrum stjórnmálamönnum vara á sér gagnvart þeim. Hreinn gerðist hins vegar handgenginn þeim feðgum og fjarlægðist Davíð að sama skapi.

Mér er það minnisstætt, þegar Hreinn rakti fyrir mér snemma árs 2002, hversu hagkvæmt væri fyrir Baug að kaupa fyrirtækið Arcadia í Bretlandi. Fyrirtækið ætti vanmetnar fasteignir, sem mætti selja fyrir kaupverðinu. Kaupandinn ætti þá fyrirtækið eftir skuldlaust. Hið eina, sem þyrfti, væri frekari lánafyrirgreiðsla frá íslensku bönkunum (sem þá voru enn að mestu leyti í eigu ríkisins), en hún væri ófáanleg vegna tortryggni Davíðs í garð Baugsfeðga, sem letti stjórnendur bankanna. „Ég get gert þig að ríkum manni,“ sagði Hreinn ákafur, og augun ljómuðu. „Þú þarft ekki að leggja fram nema eitthvert smáræði, en eftir eitt ár áttu hundrað milljónir.“

Eflaust hefur hugsunin verið sú, að ég reyndi að hafa áhrif á Davíð, þótt ekki væri beinlínis um það talað. Ég vildi hins vegar ekki flækjast í einhver ævintýri og vissi raunar líka, að málið var flóknara. Landsbankamenn höfðu þegar ákveðið án þess að bera það undir kóng og prest að veita Baugi ekki lán í þetta ævintýri. Búnaðarbankamenn höfðu að eigin frumkvæði samband við forystumenn í stjórnmálum og fengu þau eðlilegu skilaboð að fara sér hægt, á meðan verið væri að selja bankana. Þess vegna áttu Baugsfeðgar erfitt með að útvega sér fé úr íslensku bönkunum í Arcadia-kaupin, en ekki vegna einhverrar vonsku Davíðs Oddssonar í þeirra garð.

Eftirleikurinn er í meginatriðum kunnur, þótt ýmsu fróðlegu megi bæta við. Baugur græddi vel á Arcadia-ævintýrinu og varð voldugur auðhringur, sem rak í krafti fjölmiðla sinna hatursherferð gegn Davíð og öðrum þeim, sem þorðu að andæfa. Þótt Hreinn Loftsson tvístigi um skeið, gerðist hann dyggur þjónn Baugsfeðga í þessari herferð og hefur verið það síðan. Rættist þá eftirlætismálsháttur hans á honum sjálfum: Sá á hund, sem elur. Hreinn er sem fyrr starfsmaður góður, séður, lögfróður, vinnusamur og húsbóndahollur. En hann er ekki hamingjusamur. Hann situr vansæll við tölvu sína heima í Garðabænum á hverju kvöldi og semur óhróður um Davíð og „Náhirðina“. Sagan af Hreini er hin gamalkunna saga um mann, sem fórnar sannfæringu sinni og vinum fyrir gull. Líklega hefur Hreinn þó komist að hinu fornkveðna síðustu vikur, að auður er fallvaltastur vina.   


Sannleikurinn í málinu

Hreinn Loftsson, útgefandi DV, spinnur á Netinu upp fáránlega sögu, sem á að sýna, að ég hafi verið eitt versta fórnarlamb „þöggunar“ Davíðs Oddssonar.

Sannleikurinn í málinu er einfaldur. Von var á Kínaforseta til landsins í júní 2002. Davíð Oddsson var forsætisráðherra, og það féll í hlut forsætisráðuneytisins að sjá um heimsóknina. Falun Gong-hreyfingin vildi efna til mótmælaaðgerða. Lögreglan tók því illa og reyndi að torvelda aðgerðir hreyfingarinnar. Margir töldu, að lögreglan færi offari. Illugi og Hrafn Jökulssynir skipulögðu undirskriftasöfnun til að biðja mótmælendur afsökunar á því, hversu langt lögreglan gengi.

Við vinirnir Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson ræddum þetta okkar í milli. Allir höfðum við samúð með andstæðingum Kínastjórnar. (Um stjórnarfar í Kína má fræðast í bókinni Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi og kom út haustið 2009.) En skoðanir voru skiptar um annað í okkar hópi. Birni fannst tekið of hart á mótmælendum, Kjartani fundust báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls, og Gunnlaugur Sævar studdi Davíð. Ég var sömu skoðunar og Björn.

Þegar Hrafn Jökulsson hringdi í mig og bað mig um að skrifa undir, ákvað ég að gera það, ekki síst til að sýna andstöðu við Kínastjórn. Þegar Davíð sá nafn mitt á undirskriftalistanum, hringdi hann í mig. Hann var mér sár, en ekki reiður. Hann skýrði út, að Ísland væri bundið af alþjóðlegum samningum um vernd þjóðhöfðingja í opinberum heimsóknum þeirra. Falun Gong-hreyfingin virtist hafa ákveðið að láta reyna á það, hversu vel þetta litla ríki á hjara veraldar gæti varið hinn mikilvæga gest. Nú sæti hann sem forsætisráðherra undir harðri og ómaklegri gagnrýni fyrir það eitt að gegna skyldu sinni. Hann lauk samtalinu á þessum kjarnmiklu og eftirminnilegu orðum: „Ég hef aldrei beðið afsökunar á Hannesi Hólmsteini. En nú biður Hannes Hólmsteinn afsökunar á mér.“

Mér þótti þetta miður. Ég sagði Gunnlaugi Sævari strax frá þessu samtali, og hann ráðlagði mér að skýra afstöðu mína betur út fyrir Davíð. Ég settist niður og skrifaði Davíð stutt bréf, þar sem ég gerði þetta, en kvaðst skilja sjónarmið hans mjög vel. Þegar öll spjót stæðu á honum (eins og vissulega var í þessu Kínamáli), ættu vinir hans auðvitað ekki að gera neitt það, sem skilja mætti opinberlega sem árás á hann. Þeir ættu frekar að láta gagnrýni sína í ljós við hann beint og milliliðalaust. Sá er vinur, sem til vamms segir, en máli skiptir, hvar það er gert og undir hvaða formerkjum.

Strax og Davíð fékk þetta bréf, hringdi hann aftur í mig. Hann sagði, að þetta væri gott bréf. Við værum ekki sammála um allt í þessu Kínamáli, en vinátta okkar hefði ekki haggast. Ég kvaðst sem satt er skilja hans sjónarmið betur við nánari umhugsun. Ísland verður að geta verndað erlenda þjóðhöfðingja fyrir mótmælendum, þótt sjálfsagt sé um leið að leyfa friðsamleg mótmæli gegn þeim. Ég tók nafn mitt þess vegna ekki út af undirskriftalista þeirra Jökulssona: Ég vildi eftir sem áður mótmæla harðstjórninni í Kína.

Davíð Oddsson verður hins vegar ekki vændur um þjónkun við Kínastjórn. Hann tók til dæmis á móti varaforseta Taívan á Þingvöllum 1997 þrátt fyrir harkaleg mótmæli stjórnarinnar í Beijing. Ólafur Ragnar Grímsson og ráðherrar vinstristjórnarinnar vildu hins vegar ekki hitta Dalai Lama, þegar hann var hér á ferð vorið 2009.

Hreinn Loftsson kom hvergi nærri þessu Kínamáli, þótt vel geti verið, að ég hafi síðar sagt honum frá því, enda vorum við málkunnugir fram á vorið 2004, þegar hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum með þeim orðum, að hér á landi væri „ógnarstjórn“. En hvers vegna spinnur Hreinn nú upp hina fáránlegu sögu sína, sem enginn trúir raunar, eins og sjá má í umræðum á Netinu? Og rægir sífellt í blaði sínu gamlan vin og samverkamann, Davíð Oddsson? Það er efni í aðra grein á morgun að skýra það.


Hreinn skáldskapur

imagehandler_963087.jpgÉg verð að gera smáathugasemd við frétt Pressunnar um skrif Hreins Loftssonar á Netinu. Hreinn velur afmælisdaginn minn (líklega þó frekar seint um kvöld) til að segja sögu um okkur tvo, sem er hreinn skáldskapur, eins og allir fullvita menn hljóta að sjá. Hún er ekki aðeins ósennileg, heldur líka fáránleg, og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um hana hér.

Hreinn er auðvitað ekki með þessu að þjóna lund sinni og því síður að segja frá einhverri eigin reynslu, heldur er hann aðeins að þóknast húsbændum sínum, sem hafa allt frá árinu 2003 haldið uppi hatursherferð gegn Davíð Oddssyni og helstu stuðningsmönnum hans, af því að hann leyfði þeim ekki að eignast Ísland allt (þótt þeir yrðu vissulega moldríkir í hans tíð).

Svo langt gengu þessir menn eins og kunnugt er, að þeir veltu fyrir sér að bera fé á Davíð til að auðvelda lántökur í íslensku bönkunum til ýmissa ævintýra sinna. Jón Ásgeir Jóhannesson sagði við Hrein í þriggja manna tali, eins og Hreinn hefur sjálfur sagt frá: „Það er enginn maður, sem stenst það að fá 300 milljónir, sem hvergi koma fram, hvergi er greiddur skattur af og greiddar eru inn á reikning hvar sem er í heiminum.“

Um þetta leyti hafði Hreinn sjálfur mörg orð við mig um það, hversu mjög ég gæti hagnast, væri ég með í ævintýrum þeirra Baugsmanna mér að áhættulausu, eins og hann gæti komið í kring. Ég þyrfti aðeins að leggja fram sáralítið fé, 1–2 milljónir, og ætti 100 milljónir eftir árið!

Nei, Hreinn Loftsson og Jón Ásgeir Jóhannesson, það eru til menn, sem eru ekki falir. Davíð er einn þeirra. Við Davíð höfum ekki alltaf verið sammála, en ég verð að játa, að þegar okkur hefur greint á, hefur hann oftar reynst hafa rétt fyrir sér en ég. Því miður voru ein mistök mín þau að mæla með og fá því ráðið, að Hreinn yrði aðstoðarmaður Davíðs fyrstu misseri hans sem forsætisráðherra. Þar skjátlaðist mér heldur betur, eins og sumir vinir mínir höfðu raunar sagt fyrir um.

Ég taldi líka lengi Jón Ásgeir slunginn kaupsýslumann, sem gerði öðrum gagn um leið og sjálfum sér, þótt það væri eflaust ekki ætlun hans. Mér fannst á árum áður Davíð stundum fara offari í gagnrýni sinni á Baugsfeðga. Nú sé ég, að Davíð hafði rétt fyrir sér um það, að þetta voru stórhættulegir menn. Enginn átti eins mikinn þátt í því og Jón Ásgeir að fella Ísland: Þúsund milljarða skuld við íslensku bankana! Ekki þúsund milljóna skuld, heldur þúsund milljarða!

Hitt má Hreinn eiga, að hann kenndi mér ágætan íslenskan málshátt, sem lýsir vel sambandi hans við húsbændur sína: Sá á hund, sem elur.


Þjóðaratkvæðagreiðslan nauðsynleg

Þótt Bretar og Hollendingar láti furðulíklega um þessar mundir, munu þeir ekki setjast í alvöru að samningaborði við Íslendinga, fyrr en þeir sannfærast um það við þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. mars, að þjóðin sættir sig ekki við að greiða skuldir óreiðumanna.

Gallinn er sá, að Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir gerðu þá samninga, sem líklega verða felldir í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ef betri samningar nást, þá er ljóst, að þau tvö léku stórlega af sér í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga á síðasta ári.

Þess vegna á stjórnarandstaðan að krefjast þess, að málið verði tekið úr höndum þeirra. Ef Íslendingar eiga að koma fram sameinaðir út á við, þá er ekki skynsamlegt, að það fólk hafi forystu í málinu, sem hefur beinlínis hag af því sjálft, að betri samningar náist ekki.

Miklu varðar einnig fyrir þjóðina, að samningarnir verði felldir með sem mestum atkvæðamun. Allt annað styrkir vígstöðu Breta og Hollendinga. Þjóðaratkvæðagreiðslan er nauðsynleg.


Hlustum á Norðmanninn

Ég man eftir því í aðdraganda hrunsins og eftir það, hversu hart Davíð Oddsson gekk fram í því, að íslenska ríkið ætti ekki að taka á sig neins konar ábyrgð á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, sem hér hafði verið stofnaður eftir lögum og reglum EES. Í samtölum við mig lét hann í ljós þungar áhyggjur af því, að einstakir ráðherrar í fyrrverandi ríkisstjórn kynnu að ljá máls á einhverri slíkri ábyrgð, en sumir þeirra voru nátengdir bönkunum (til dæmis var Björgvin G. Sigurðsson svili Sigurðar G. Guðjónssonar í Glitni).

Þegar í febrúar 2008 sagði Davíð við bankastjóra Landsbankans á fundi í Seðlabankanum: „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn.“ Davíð skrifaði einnig Geir H. Haarde forsætisráðherra bréf 22. október 2008, þar sem hann sagði: „Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans.“

Hvers vegna tóku ráðherrar fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar ekki sömu einarðlegu afstöðu og Davíð í Icesave-málinu? Þess í stað varð það eitt aðalbaráttumál núverandi ríkisstjórnar fyrstu vikurnar að hrekja Davíð úr stöðu sinni!

Ég hef áður reifað hér sjónarmið lögfræðinga, sem benda á, að hvergi sé stafkrókur um það í lögum eða reglum eða alþjóðasamningum, að full ríkisábyrgð hefði verið á Tryggingarsjóðnum. Ég hef einnig rifjað upp ummæli Jean-Claude Trichets, seðlabankastjóra Evrópu, og Woulters Bous, fjármálaráðherra Hollands, um, að innstæðutryggingakerfi EES væri ekki ætlað að verjast bankahruni, heldur aðeins erfiðleikum einstakra banka. Ég hef enn fremur bent á, að ekkert fullvalda ríki getur látið voldugar grannþjóðir neyða sig að ófyrirsynju til stórkostlegra útgjalda og jafnvel gjaldþrots á hæpnum forsendum.

Nú hefur Pressan dregið fram í dagsljósið afar athyglisvert sjónarmið. Arne Hyttnes, forstöðumaður hins norska Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem stofnaður var samkvæmt sömu lögum og reglum og hinn íslenski, segir, að auðvitað sé ekki ríkisábyrgð á norska sjóðnum. „Það er ekkert sem segir í reglugerð ESB samningsins að það eigi að vera ríkisábyrgð,“ segir Hyttnes. Vel geti verið, að Íslendingar hafi látið neyða sig til að veita ríkisábyrgð á sínum sjóði, en það hljóti að hafa stuðst við stjórnmálarök, ekki lög. „Það getur ekki verið að EES samningurinn kveði á um að nokkurt ríki veiti ríkisábyrgð.“

Hér mælir sá, sem gerst þekkir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband