Hlutdrægni Ríkisútvarpsins

Mín gamla vinkona Jóhanna Hjaltadóttir sagðist í viðtali á dögunum ekki vita um neina rökstudda gagnrýni á Ríkisútvarpið fyrir hlutdrægni.

Ég skal nefna eitt skýrt dæmi. Það er ekki, að í Speglinum hefur síðustu árin verið rætt margsinnis við alla prófessorana í stjórnmálafræði nema einn, og þarf ég ekki að heita verðlaunum fyrir rétta svarið við því, hver sá eini er.

Dæmið er miklu betra. Í fréttum Sjónvarpsins af Icesave-málinu var alltaf talað um Icesave-skuldina. Jafnvel þau Jóhanna og Steingrímur viðurkenndu ekki neina slíka skuld, heldur aðeins kröfu Breta á hendur okkur, sem við yrðum hugsanlega að verða við, ef þeir neyttu aflsmunar.

Eini íslenski aðilinn, sem ég veit um, að viðurkenndi þessa kröfu Breta, var Ríkisútvarpið með því að tala alltaf um Icesave-skuldina, en ekki um Icesave-kröfuna, sem hefði verið tiltölulega hlutlaust orðalag.

Þetta var engin skuld. Þetta var krafa.


Skörpustu gagnrýnendurnir

Tuttugasta öldin var öld sósíalismans í þremur ólíkum afbrigðum, þjóðernissósíalisma Hitlers og Mússólínis, byltingarsósíalisma Leníns, Stalíns og Maós og lýðræðissósíalisma ýmissa vestrænna jafnaðarmanna, til dæmis enska stjórnmálafræðingsins Harolds Laskis, sem var fyrirmynd Ayns Rands að söguhetjunni Ellsworth Toohey í skáldsögunni Uppsprettunni.

Þjóðernissósíalismi Hitlers og Mússólínis var mjög mannskæður, og má ekki gleyma því, að Hitler sendi ekki aðeins Gyðinga í útrýmingarbúðir, heldur líka sígauna, samkynhneigða og ýmsa aðra, sem ekki ættu heima í þúsundáraríki hans. En byltingarsósíalismi Leníns, Stalíns og Maós var þó sýnu mannskæðari með fjöldaaftökur sínar, þrælkunarbúðir, þjóðarmorð, nauðungarflutninga heilla þjóða og hungursneyðir af mannavöldum. Er talið, að um eitt hundrað milljón manna hafi týnt lífi af þeirra völdum. Eru þá ótaldir allir þeir, sem héldu lífi, en fengu ekki notið sín vegna kúgunar og ofsókna.

En sumir sósíalistar höfðu séð fyrir hættuna af því að safna öllu valdi í hendur eins manns, sem hefði sýnt það í undangenginni valdabaráttu, að hann væri harðskeyttari og ófyrirleitnari en keppinautar hans. Þýsk-pólski kommúnistinn Rósa Lúxemburg gagnrýndi einmitt Lenín og rússneski byltingarmennina fyrir að tryggja ekki aðstöðu minnihlutahópa til að gagnrýna stjórnina í byltingarríkinu með fleygum orðum 1918: „Freiheit ist immer nur Freiheit des anders Denkenden.“ Frelsi er alltaf frelsi andófsmannsins. Það þarf auðvitað ekki að tryggja frelsi manna til að vera með valdinu.

Í hörðum deilum um skipulag kommúnistaflokksins rússneska 1904 sagði Lev Trotskíj í bæklingi gegn lenínismanum: „Fyrst kemur flokksskipulagið í stað flokksins; síðan kemur miðstjórnin í stað flokksskipulagsins; loks kemur einræðisherra í stað miðstjórnarinnar.“ Verður ekki annað sagt en hann hafi orðið sannspár.

Og Trotskíj sagði um stjórnarskrá Stalíns, sem hann boðaði í Bolshoj-leikhúsinu 11. desember 1937, þar sem Halldór Kiljan Laxness var á meðal áheyrenda (en sú ræða Stalíns er til á Youtube): „Í landi, þar sem ríkið er eini vinnuveitandinn, bíður stjórnarandstæðingsins hægur hungurdauði.“ Betur verður varla lýst umkomuleysi andófsmannsins í landi, þar sem hagvald og stjórnvald er allt á einni hendi.


Gildi daganna veltur ekki á lengd þeirra

Ein hugsun, sem gengur eins og rauður þráður um skáldskap og heimspeki á Vesturlöndum, er, að gildi lífsins verði ekki mælt eftir lengd þess, heldur hinu, hvernig því hafi verið varið. Þetta orðaði skáldið Jónas Hallgrímsson vel í minningarkvæði um séra Stefán Pálsson, sem lést 1841:

Margoft tvítugur

meir hefur lifað

svefnugum segg,

er sjötugur hjarði.

Langlífi væri ekki talið í árum að sögn Jónasar, heldur frjórri lífsnautn, aleflingu andans og athöfn þarfri.

Hugsanlega hafði Jónas þessa hugsun frá danska lögfræðingnum og rithöfundinum Jens Kragh Høst, sem skrifaði 1824 í tímaritinu Clio: „Et Tidsrums Vigtighed beror ikke paa dets Længde.“ Gildi tímabils veltur ekki á lengd þess.

Áður hafði Jóhann Wolfgang von Goethe sagt í leikritinu Iphigenie 1787: „Ein unnütz Leber ist ein früher Tod.“ Ónotað líf er ótímabær dauðdagi. Goethe sagði einnig í Maskenzug 1818: „So lang man leb, sei man lebendig!“ Á meðan menn eru á lífi, eiga þeir að vera lifandi!

Enn lengra má rekja þessa hugsun aftur. Franski siðfræðingurinn Michel de Montaigne skrifaði í ritgerðasafni (1580): „L’utilité du vivre n’est pas en l’espace, elle est en l’usage.“ Gildi lífsins liggur ekki í fjölda daganna, heldur notkun þeirra.

Einnig á ítalski listamaðurinn Leonardo de Vinci að hafa sagt, að vel notað líf væri langt.


Hvenær er bylting lögleg?

Jón Þorláksson, verkfræðingur og forsætisráðherra, var orðheppinn án þess að vera orðmargur. Gunnar Thoroddsen, sem þekkti hann vel, enda systursonur konu hans, sagði í útvarpserindi 1977, að Jón hefði eitt sinn verið þar við, er menn skröfuðu um, hvenær bylting gæti talist lögleg. „Bylting er lögleg, þegar hún lukkast!“ sagði þá Jón.

Jón Thor Haraldsson sagnfræðingur skrifaði greinarkorn um þessi orð Jóns Þorlákssonar í Sögu 1985. Fann hann hliðstæðu í endurminningum norska stjórnmálamannsins Trygve Bulls, sem kvað kennara sinn í menntaskóla, Sigurd Høst (1866–1939), eitt sinn hafa sagt í kennslustund, að bylting væri réttmæt, þegar hún heppnaðist.

Í Verklýðsblaðinu 25. apríl 1931 er hins vegar vitnað í sænska rithöfundinn Ágúst Strindberg um þetta: „Hvenær er bylting lögleg? Þegar hún heppnast.“ Ég fann þessi ummæli Strindbergs eftir nokkra leit í „Tal till svenska nationen“ frá 1910, sem prentuð er í heildarútgáfu verka Strindbergs, 68. bindi, en það kom út 1988. Hljóða ummælin svo á sænsku: „Detta kan endast ske genom vad man kallar en revolution, vilken, I fall den lyckas, blir sanktionerad.“ Þetta gerist aðeins með því, sem kalla má byltingu, og hún er lögleg, ef  hún lukkast.

Hugsanlega hafa þessi orð fæðst af sjálfum sér í munni Jóns Þorlákssonar, en einnig getur verið, að hann hafi tekið eftir þessari tilvitnun í Strindberg í Verklýðsblaðinu og hugsunin meitlast í meðförum hans.

Það er síðan sitt hvað, uppruni orðanna og merking. Hvenær lukkast bylting, svo að hún verði lögleg? Væntanlega þegar hún ber góðan ávöxt. Í þeim skilningi voru byltingarnar í Bretlandi 1688 og Bandaríkjunum 1776 löglegar, því að með þeim var rutt burt hindrunum á þróun og vexti án verulegra blóðsúthellinga. En franska byltingin 1780 og hin rússneska 1917 voru samkvæmt sama mælikvarða ólöglegar, því að þeim lauk báðum með ósköpum.

(Þessi pistill birtist í Morgunblaðinu 27. október 2012 og er sóttur í bókina Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er til í öllum góðum bókabúðum og hin besta tækifærisgjöf.)


Kjarkmaður, Kolbeinn í Dal!

Magnús Torfason, sýslumaður í Norður-Ísafjarðarsýslu, var kunnur maður á sinni tíð og þótti forn í skapi. Hann sat um skeið á öndverðri tuttugustu öld á þingi með Jóni Þorlákssyni verkfræðingi, formanni Sjálfstæðisflokksins. Voru þeir Magnús báðir afkomendur Finns biskups Jónssonar. Magnús sagði eitt sinn drýgindalega við Jón: „Ég er kominn í beinan karllegg af Finni biskupi, en þú aðeins í kvenlegg, Jón. Minn er göfugri!“ Jón svaraði að bragði: „En minn er vissari!“

Sjálfur gekk Magnús hart fram í barnsfaðernismálum í sýslu sinni. Urðu ein ummæli hans við slíkt tækifæri fleyg. Kolbeinn Jakobsson hét maður og var bóndi og hreppstjóri í Unaðsdal á Snæfjallaströnd. Hann var karlmenni, vel greindur og harðskeyttur og kvennamaður mikill. Gerði hann vinnukonu sinni eitt sinn barn, þótt húnn væri trúlofuð og hann kvæntur.

Sagan af viðbrögðum Magnúsar Torfasonar er til í mörgum útgáfum. Eina getur að líta í Þjóðviljanum 7. janúar 1972. Samkvæmt henni var stúlkan í fyrstu ófús að segja til faðernis barns síns, en þegar Magnús gekk á hana, kvað hún Kolbein bónda hafa flogið á sig í bæjargöngunum, er hún var að hita kaffi og kona Kolbeins ekki komin á fætur. Þá á Magnús að hafa mælt: „Kjarkmaður, Kolbeinn í Dal.“

Önnur útgáfa er í Morgunblaðinu 27. janúar 1996 og höfð beint eftir Magnúsi. Samkvæmt henni kenndi stúlkan Kolbeini barnið. Sýslumaður kallaði þá Kolbein fyrir sig. Játaði Kolbeinn eftir nokkurt þóf að hafa legið með henni. Hefði hann dvalist með henni og vinnumönnum sínum í sjóbúð, sem hann hefði reist við ströndina, og hefði stúlkan séð þar um matargerð og þvotta. Einn daginn hefði ekki verið farið á sjó vegna veðurs. Vinnumenn hefðu þá sýslað við veiðarfæri í suðurlofti sjóbúðarinnar, en Kolbeinn fengið stúlkuna til að bregða sér snöggvast með sér í norðurloftið, þar sem vinnumenn sváfu jafnan, og ekki einu sinni læst að sér, svo að piltana grunaði ekkert. Kvaðst Magnús þá hafa sagt: „Kjarkmaður, Kolbeinn í Dal.“

En nú var karlleggur hins nýfædda barns jafnviss kvenleggnum.


Máttur hugmyndanna

Margir menntamenn hugga sig við áhrif sín til langs tíma litið, þótt fáir taki mark á þeim hér og nú. Þýska skáldið Heinrich Heine sagði til dæmis í bók um trúarbrögð og heimspeki í Þýskalandi, sem kom út 1853: „Takið vel eftir þessu, þér stoltu athafnamenn. Þér eruð án þess að vita af því aðeins handlangarar hugmyndasmiðanna.“ Heine tók dæmi um stjórnarbyltinguna frönsku: „Maximilian Robespierre var ekkert annað en höndin á Jean-Jacques Rousseau, — sú hin blóðuga hönd, sem tók úr skauti tímans á móti líkama með sál frá Rousseau.“ Heine taldi eins og fleiri, að Robespierre og aðrir byltingarmenn hefðu reynt að hrinda kenningu Rousseaus um almannaviljann í framkvæmd.

Breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes orðaði svipaða hugsun í hinu fræga riti sínu um Almennu kenninguna 1936: „Hugmyndir hagfræðinga og stjórnmálaheimspekinga eru áhrifameiri en menn almennt gera sér grein fyrir, bæði þegar þeir hafa rétt fyrir sér og rangt.“ Keynes hélt áfram: „Athafnamenn, sem álíta sig ósnortna af öllum fræðilegum áhrifum, eru venjulegar þrælar einhvers afdankaðs hagfræðings. Og brjálæðingar í valdastólum, sem þykjast heyra raddir spámanna, eru raunverulega aðeins í hugarórum sínum að enduróma kenningar settar fram af einhverjum skólaskriffinnum nokkrum árum áður.“

Margt er eflaust til í skoðun Heines og Keynes. Stuðningsmenn auðlindaskatts í íslenskum sjávarútvegi gera sér áreiðanlega fæstir grein fyrir því, að þeir enduróma sjónarmið bandaríska rithöfundarins Henrys Georges, sem vildi leggja sérstakan skatt á afrakstur af náttúruauðlindum, aðallega jarðnæði, og átti marga fylgismenn á Íslandi á öndverðri tuttugustu öld. Og spádómar um yfirvofandi umhverfisvá eru iðulega sóttir í svipaða greiningu og breski hagfræðingurinn Thomas Malthus gerði í lok átjándu aldar á því, að stærðir geta vaxið eftir ólíkum lögmálum.

Líklega ofmeta menntamenn þó oft mátt hugmynda, alveg eins og athafnamenn vanmeta hann ósjaldan. Hugmyndir eru eins og sáðkorn. Þær þurfa einhvern jarðveg, eigi þær að lifa. Breski heimspekingurinn John Stuart Mill komst ef til vill næst sanni, þegar hann sagði í grein í Edinburgh Review 1845: „Venjulega valda hugmyndir ekki hraðri eða snöggri breytingu á mannlífinu, nema ytri aðstæður leggist á sömu sveif.“


Kate Hoey: Gangið ekki í ESB!

Það var þarft og gott framtak, sannkallað þjóðráð, að fá Kate Hoey, þingkonu Verkamannaflokksins frá Lundúnakjördæminu Vauxhall, til að lýsa reynslu Breta af Evrópusambandinu. Hún kveður Breta áhrifalitla á Evrópuþinginu með sína 72 fulltrúa. Hvað yrði þá um Ísland, sem fengi líklega einn eða tvo fulltrúa? Hún segir sífellt fleiri Breta vilja ganga úr sambandinu. Hún heldur því fram, að þá fyrst þurfi Íslendingar að hafa áhyggjur af fiskistofnum sínum, ef þeir ganga í ESB. Þar er ég sammála henni: Fiskveiðistefna ESB er eins misheppnuð og framast má verða. Samkvæmt skýrslu sambandsins sjálfs frá 2009 eru 88% fiskistofna ofveidd og um þriðjungur stofnanna nálægt hættumörkum og gætu hrunið. Enginn áhugi virðist vera á raunverulegum úrbótum, sem hlytu að vera fólgnar í því að samhæfa einkahagsmuni aðila í fiskveiðum og almannahagsmuni af arðbærum og sjálfbærum veiðum, eins og tókst að gera með kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi. Ráð Hoeys til okkar er: Gangið ekki í ESB! Það er þjóðráð.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband