Fullkomnunarkenningin og líkþornið

Þegar heimspekingar eru spurðir, hver sé tilgangur lífsins, svara þeir flestir með skírskotun til fullkomnunarkenningar þeirra, sem gríski spekingurinn Aristóteles setti einna fyrstur fram. Menn eiga að fullkomna sjálfa sig, sækja á brattann, þroska hæfileika sína, ekki leita aðeins fullnægingar efnislegra þarfa.

Þeir vitna iðulega í John Stuart Mill, sem skrifaði í Nytjastefnunni (1861): „Betra er að vera vansæll maður en sælt svín, og betra er að vera óánægður Sókrates en ánægður heimskingi.“

Sigurður Nordal, prófessor í norrænum fræðum, talaði í svipuðum anda í frægum fyrirlestrum um einlyndi og marglyndi, sem hann flutti í Reykjavík veturinn 1918-1919. „Hamingjan er oft ekkert annað en merki þess, að vér séum að vaxa, og vér tökum sársauka, sem þroskar, fram yfir gleði, sem ekkert skilur eftir.“ Enn sagði Sigurður: „Persónulegur þroski er fyrsta og sjálfsagðasta skylda hvers einstaklings. Tilveran stefnir öll í þessa átt, en þar sem þroskinn er jurtum og dýrum ósjálfráður, er hann manninum sjálfráður að miklu leyti, og því sjálfráðari sem um hærri tegundir hans er að ræða.“

Páll Skúlason prófessor fylgdi sömu leiðarstjörnu á ráðstefnu Bandalags háskólamanna um menntun í októberlok 1977: „Með þroska á ég einfaldlega við vöxt eða fullkomnun þeirra eiginleika, sem eru mönnum eðlislægir. Að menntast er þá að verða meira maður — ekki meiri maður — í þeim skilningi, að þær gáfur eða eiginleikar, sem gera manninn mennskan, fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega.“

Sjálfur er ég sammála þessum ágætu spekingum. Vel er mælt. En vandinn er jafnan að vita, hvað maðurinn á að rækta í eigin eðli, hvaða eiginleika honum ber að þroska betur með sér. Á þetta benti danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard á gamansaman hátt í bókinni Enten-Eller (1843): „Það að vera fullkomin manneskja er æðra en allt annað. Nú er ég kominn með líkþorn, það er þó alltaf í áttina.“

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku og birtist í Morgunblaðinu 24. desember 2011.)


Nokkrar bækur sem ég mæli með

Margar góðar bækur koma út fyrir þessi jól, og það er í rauninni ósanngjarnt að setja aðeins nokkrar þeirra á lista. Ég ætla þó að leyfa mér að mæla hér með nokkrum bókum, sem ég þekki vel, í pakkann undir jólatréð:

Fyrst nefni ég auðvitað eigin bók, Íslenska kommúnista 1918–1998. Hún hentar vel til að gefa öllum áhugamönnum um stjórnmál og sögu, en líklega eru bókhneigðir, hægri sinnaðir karlar yfir fimmtugt þakklátasti viðtakendahópurinn. Mér er sagt, að hún sé á þrotum hjá útgefanda, en hún er enn til í bókabúðum.

Næst get ég bókar Sigurðar Más Jónssonar blaðamanns, Icesave-samningarnir. Afleikur aldarinnar? Þetta rit bregður skæru ljósi á muninn á samningatækni Svavars Gestssonar annars vegar og Lee Buchheits og íslenskra aðstoðarmanna hans hins vegar. Líklega hentar það vel í gjafir til sömu hópa og bók mín.

Þá er skáldsagan Uppsprettan (The Fountainhead) eftir Ayn Rand tilvalin jólagjöf. Þetta er vel skrifuð ástarsaga, en með alvarlegu ívafi. Sögur rússnesk-bandarísku skáldkonunnar Rands eru magnaðar, enda hafa þær selst samtals í um þrjátíu milljónum eintaka um heim allan. Þær má gefa hverjum sem er, ungum stúlkum, gömlum körlum, konum á miðjum aldri, háskólanemum og iðnverkamönnum.

Þess má geta, að Almenna bókafélagið hefur boðað, að það muni gefa út aðra skáldsögu Rands á næsta ári, Undirstöðuna (Atlas Shrugged), og síðan árið 2013 þriðju söguna, Kíru Argúnovu (We the Living). Ég spái því, að þessar þrjár bækur hrífi margan æskumanninn hér á landi eins og þær hafa gert víðast erlendis.

Enn má nefna bókina Engan þarf að öfunda eftir bandarísku blaðakonuna Barböru Remnick. Þegar sagt er, að bókin sé um daglegt líf í Norður-Kóreu, halda margir eflaust, að hún sé daufleg aflestrar. Svo er alls ekki. Hún hefur raunar þau einkenni góðrar skáldsögu, að lesendur fá áhuga á söguhetjunum og vilja vita, hvað um þær verður. Gefa má sama víða lesendahópnum hana og Uppsprettuna eftir Rand.

Önnur bók, sem kom út síðast liðið vor, er Rosabaugur yfir Íslandi eftir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra. Þetta er gagnlegt yfirlit yfir Baugsmálið svonefnda, en þá reyndu Baugsfeðgar með stórkostlegum fjárútgjöldum að móta almenningsálitið sér í hag í því skyni að sleppa við afleiðingar eigin gerða.

Roðinn í austri eftir Snorra G. Bergsson sagnfræðing er stórfróðleg bók um frumdaga kommúnistahreyfingarinnar, 1918–1924. Snorri hefur verið óþreytandi að grafa upp fróðleiksmola í skjalasöfnum, og tekst honum að hrekja margar goðsagnir um efni sitt. Bókin er auk þess hin læsilegasta. Líklega hefur sami lesendahópur gaman af henni og minni bók.

Þá skal geta bókar Óla Björns Kárasonar blaðamanns, Síðustu varnarinnar. Þá fer Óli Björn yfir einn þátt Baugsmálsins: Hvernig dómarar létu Baugsfeðga hafa áhrif á sig og felldu dóma, sem auðvelduðu fjárglæframönnum leikinn. Er sú saga öll hin merkilegasta.

Rit úr allt annarri átt er Einfaldara sushi eftir Steven Pallet. Sjálfum finnst mér sushi afar bragðgott, og við eigum besta hráefni í heimi til þess að gera þann rétt, enda hefur neysla á sushi stóraukist hér síðustu árin. Bók sem þessa hefur bráðvantað, og mun hún vera á góðri leið með að seljast upp.

Önnur bók, sem mér líst vel á, er Heilsudrykkir eftir Auði Ingibjörgu Konráðsdóttur, sem rekur vefsíðuna heilsukokkurinn.is. Þar birtir höfundur uppskriftir að einföldum og hollum drykkjum, sem eru um leið bragðgóðir. Það er ekki rétt, sem gárungarnir segja, að allt, sem sé gott, sé annaðhvort ólöglegt, ósiðlegt eða fitandi!


Íslendingar í Norður-Kóreu

Norður-Kórea er eitt af tveimur raunverulegum kommúnistaríkjum, sem eftir eru í heiminum. Hitt er Kúba. Árás Norður-Kóreu undir stjórn Kim Il-sung á Suður-Kóreu sumarið 1950, sem gerð var með samþykki Stalíns og Maós, hleypti af stað hinu blóðuga Kóreustríði. Íslenskir sósíalistar studdu Norður-Kóreu í stríðinu, eins og ég rek í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998.

Þar segi ég líka frá fyrsta íslenska pílagrímnum úr röðum sósíalista, sem fór til Norður-Kóreu. Sá var Birna Þórðardóttir, sem var fulltrúi Æskulýðsfylkingarinnar þar á æskulýðsmóti sumarið 1971. Birna hitti Kim Il-sung tvisvar að máli í þeirri ferð. Taldi hún dýrkunina á honum eðlilega: Kóreumenn litu á hann sem fyrirmynd svipað og Íslendingar á Jón Sigurðsson.

Einnig segi ég frá sex manna hópi frá Íslandi, sem sótti heimsmót æskunnar í Norður-Kóreu sumarið 1989. Þar á meðal voru Jóhanna Eyfjörð bankamær og Sveinþór Þórarinsson skrifstofumaður, sem bæði voru virk í Alþýðubandalaginu, og þeir Jóhann Björnsson heimspekingur og Guðmundur Auðunsson stjórnmálafræðingur, sem starfa nú í Vinstri-grænum. Í viðtali við Þjóðviljann fóru Jóhanna og Sveinþór lofsamlegum orðum um aðstæður í Norður-Kóreu.

En íslenska sendinefndin 1989 hefur líklega ekki aðeins sagt Íslendingum ósatt um Norður-Kóreu, heldur líka Norður-Kóreumönnum ósatt um Ísland. Á meðan bók mín var í prentun í október 2011, voru nokkrir Íslendingar staddir í Kína. Datt þeim í hug að skreppa yfir til Norður-Kóreu. Þar fylgdu þeim jafnan tveir leiðsögumenn, sem hafa eflaust átt að gæta hvor annars ekki síður en greiða fyrir ferðafólki.

Ein ferðin var í safn um Kim Il-sung, föður Kim Jong-il, sem dó á dögunum, og afa Kim Jong-un, sem nú tekur við valdataumum í Norður-Kóreu. Í einu herberginu voru sýnd heiðursmerki, sem Kim Il-sung hafði hlotið frá ýmsum löndum. Sýningarstjórinn sagði hreykinn, að Kim Il-sung hefði fengið heiðursmerki frá flestum eða öllum löndum heims, þar á meðal jafnvel Íslandi. Tók hún fram heiðursmerkið og sýndi gestum.

Íslendingarnir áttu bágt með að leyna undrun sinni, þegar þeir sáu merkið. Þetta var minnispeningur um Kópavog - bæ barnanna frá 1985!


Kremlverjar veittu styrk 1952

Menn hafa hér á Netinu flýtt sér heldur að fylgja Jóni Ólafssyni á Bifröst eftir í tilraunum hans til að ráðast á bækur okkar Þórs Whiteheads um íslensku kommúnistahreyfinguna og gera okkur tortryggilega. Síðasta tilraunin snerist um missögn frá Jóni Ólafssyni, sem Árni Snævarr hafði eftir honum í bók frá 1992. Þessi missögn var, að styrkur, sem miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna samþykkti sérstaklega að veita Dagsbrún, hefði verið frá 1952, en svo var ekki. Hann var frá 1961.

Ég reyndi í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998, að sannreyna langflestar upplýsingar, sem ég sótti til Jóns Ólafssonar, því að ég hafði vonda og margfalda reynslu af því, hversu ónákvæmur hann er í skrifum sínum. Í þetta skipti treysti ég þó heimildinni, því að hún birtist 1992 í riti Árna Snævarrs og Jón skrifaði bók um sama mál 1999 og leiðrétti ekki þessa villu þeirra Árna. Sök mín er sú ein að hafa í þetta skipti treyst upplýsingum frá Jóni Ólafssyni, dottað á verðinum. Ég gengst fúslega við þeirri sök, en játa, að mér líður örlítið eins og manninum á Ísafirði, sem stolið var frá, en var jafnan síðan kallaður „Óli þjófur“. Mér er skyndilega kennt um missögn Jóns Ólafssonar!

En þá er þess að geta, eins og fram kemur í bók minni (bls. 258–259), að Kremlverjar samþykktu vissulega að veita verkalýðsfélögum undir stjórn kommúnista styrk eftir hið harða verkfall árið 1952. Var það gert að ósk stalínistans Björns Bjarnasonar, og var svokallað Alþjóðasamband verkalýðsfélaga, WFTU, skrifað fyrir styrknum, en það var undir stjórn Kremlverja. Sá styrkur virðist að vísu ekki hafa verið greiddur út, þótt ekki sé það með öllu víst. En aðalatriðið í því sambandi er, að 1952 töldu Kremlverjar ástæðu til að hafa afskipti af vinnudeilu eins og 1961.

Einnig er athyglisvert það, sem ég skýri frá í bók minni (og Árni Snævarr hafði áður bent á), að Eðvarð Sigurðsson, einn helsti forystumaður Dagsbrúnar, skrifaði í minnisbók sína, líklega 1952: „Ekki miklar upphæðir. Ekki sjóði eins og Comintern.“ Eðvarð sagði með öðrum orðum, að Komintern, Alþjóðasamband kommúnista, hefði veitt miklu rausnarlegri styrki til baráttu íslenskra stalínista í verkalýðsfélögunum en síðar hefði tíðkast. Ekkert hefur fundist um slíka styrki í þeim gögnum, sem íslenskir fræðimenn hafa haft aðgang að í Moskvu. Sýnir þetta það vel, sem ég hef sagt, að ekki eru öll kurl komin til grafar. Ýmis söfn í Moskvu eru enn lokuð, meðal annars safn leynilögreglunnar og safn alþjóðadeildar kommúnistaflokksins.

Rétt er síðan að benda á, að skýrt kemur fram í bók minni, að styrkurinn, sem Kremlverjar veittu Dagsbrún 1961, var opinber. Skrifað var um hann í blöðum á þeirri tíð, og Halldór Björnsson, sem var um skeið formaður Dagsbrúnar, minntist á hann í endurminningum sínum (eins og ég greini frá í bók minni). Varð styrkurinn uppistaðan í vinnudeilusjóði Dagsbrúnar, sem stalínistinn Vilhjálmur Þorsteinsson stjórnaði. Hins vegar er forvitnilegt það, sem ég bendi á í bók minni, að látið var svo heita, að styrkurinn væri frá „sambandi byggingarverkamanna“ í Ráðstjórnarríkjunum, þegar sannleikurinn var sá, að miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna samþykkti styrkinn sérstaklega. Íslensku stalínistarnir sögðu með öðrum orðum ósatt um það 1961, frá hverjum styrkurinn var raunverulega.

Þegar eitthvað er missagt, skal hafa það, sem sannara reynist, og mér er ljúft og skylt að leiðrétta nú missögn Jóns Ólafssonar og Árna Snævarrs um styrkinn til Dagsbrúnar frá miðstjórn kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna. Hún breytir hins vegar engu um það, að 1952 jafnt og 1961 fylgdust Kremlverjar vel með verkfallsátökum á Íslandi og voru reiðubúnir að rétta íslenskum stalínistum hjálparhönd. Jóni Ólafssyni tekst ekki með síðustu tilraunum sínum að hagga niðurstöðum í bók minni eða fegra hlut stalínistanna íslensku. Og þeim, sem skrifa um bók mína á Netinu, ráðlegg ég í fullri vinsemd að lesa hana, áður en þeir láta í ljós skoðanir á henni.


Kjartan Ólafsson og Jón Ólafsson: Svör mín

Ég birti laugardaginn 17. desember svar í Morgunblaðinu við grein Kjartans Ólafssonar viku áður í blaðinu, sem samin var í tilefni bókar minnar um Íslenska kommúnista 1918–1998. Þar taldi Kjartan, að Einar Olgeirsson hefði haft rangt fyrir sér um afstöðu nokkurra þingmanna Alþýðubandalagsins til Ráðstjórnarríkjanna. Ég benti á, að ágreiningurinn um það mál væri milli Kjartans og Einars, ekki milli Kjartans og mín.

Hið sama er að segja um athugasemd, sem Jón Ólafsson birti á bloggi sínu sunnudaginn 18. desember. Ég tók það upp úr riti um kommúnistahreyfinguna eftir Árna Snævarr, sem ég vísaði vandlega í (en hann hafði vísað í gögn Jóns Ólafssonar, svo að ég nefndi þau vitanlega líka), að kommúnistaflokkur Ráðstjórnarríkjanna hefði veitt Dagsbrún háan styrk 1952. Jón segir, að þessi styrkur hafi verið veittur 1961. Rangt ártal var að sögn Jóns í riti Árna (eða Jón Ólafsson hefur látið Árna fá rangar upplýsingar á sínum tíma, því að þessi fróðleikur Árna var upphaflega frá Jóni).

Ef Jón hefur nú rétt fyrir sér, sem ég sé enga ástæðu til að efast um, þá er við hann sjálfan eða Árna að sakast frekar en mig. En vitanlega er skylt að hafa það, sem sannara reynist.

Hinu má þó ekki horfa fram hjá, sem ég ræði um í bók minni, að Kremlverjar skyldu veita Dagsbrún háan styrk í vinnudeilu 1961, þótt svo væri látið heita, að samband byggingarverkamanna í Ráðstjórnarríkjunum veitti styrkinn. Sýnir það, að Kremlverjar létu sig svo sannarlega skipta, hvað gerðist hér á landi á sjötta áratug.

Grein Kjartans Ólafssonar í Morgunblaðinu var kurteisleg og málefnaleg. En blogg Jóns Ólafssonar var því miður fullt af stóryrðum og dylgjum. Eflaust sárnar honum, hversu margar villur ég hef þurft að leiðrétta í skrifum hans um kommúnistahreyfinguna.


Ný bók Snorra G. Bergssonar um kommúnistahreyfinguna

Snorri G. Bergsson sagnfræðingur hefur samið afar fróðlega bók um fyrstu ár íslensku kommúnistahreyfingarinnar, Roðann í austri, sem Ugla gefur út. Nær bókin frá upphafi þessarar hreyfingar og fram til 1924, þegar þáttaskil urðu með heimkomu þeirra Brynjólfs Bjarnasonar og Einars Olgeirssonar frá Þýskalandi. Snorri fer þar í saumana á sögu þessarar hreyfingar í frumdaga og hrekur ýmsar goðsagnir, sem þeir Hendrik Siemsen Ottósson, Brynjólfur Bjarnason og Ólafur Friðriksson Möller settu af stað, ekki síst um Drengsmálið 1921. Snorri kemst í verki sínu að sömu niðurstöðu og við Þór Whitehead: Kommúnistahreyfingin íslenska var í nánum tengslum við hina alþjóðlegu hreyfingu og beitti ofbeldi að undirlagi og eftir fyrirmælum erlendra aðila. Von er næstu ár á fleiri ritum eftir Snorra um sögu kommúnistahreyfingarinnar, og er það vel. Ég naut mjög góðs af hinum yfirgripsmiklu og rækilegu rannsóknum hans, þegar ég setti saman bók mína, Íslenska kommúnista 1918–1998.

Grein Kjartans Ólafssonar í Morgunblaðinu

kjartano_769_lafsson.jpgUm síðustu helgi birti Kjartan Ólafsson mikla grein í Morgunblaðinu, þar sem hann andmælti ýmsum atriðum í bók minni, Íslenskum kommúnistum 1918–1998. Grein hans er fróðlegri en hann hyggur ef til vill sjálfur. Ég mun svara honum á sama vettvangi næstu helgi.

Seinheppni og óskhyggja

Orðið „seinheppni“ hefur aðra merkingu í íslensku en orðin „afglöp“ eða „fávísi“. Það er notað um mistök, sem verða vandræðaleg fyrir rás viðburða, þótt stundum komi óskhyggja við sögu.

Gunnar Knudsen, þá forsætisráðherra Noregs, sagði til dæmis í stórþinginu 17. febrúar 1914: „Núna horfir svo við að á himni alþjóðastjórnmálanna er hvergi ský að sjá miðað við það, sem verið hefur í mörg ár.“ Nokkrum mánuðum síðar logaði álfan.

Ekki þótti heldur spámannlega mælt er Jón Trausti skrifaði um jafnaðarstefnu að Þorsteini Erlingssyni látnum í Skírni 1915: „Nú er fremur að dofna yfir henni úti um heiminn og forkólfar hennar farnir að fara sér hægar. Hvernig sem menn líta á hana verður því ekki neitað að hún hefir haft geysiáhrif, einnig á kirkjuna, og mörgu hrundið til verulegra bóta. Hér á landi hefir henni líklega að mestu lokið með Þorsteini.“

Seinheppni stafar stundum af því að menn eru of vissir í sinni sök. Til dæmis birti bandaríska stórblaðið Chicago Daily Tribune risafyrirsögn á forsíðu 3. nóvember 1948: „Dewey sigrar Truman.“ Skoðanakannanir höfðu bent til sigurs Tómasar Deweys ríkisstjóra í forsetakjöri í Bandaríkjunum og blaðið studdi hann eindregið en Truman sigraði.

Sama ár skrifaði kanadísk-bandaríski hagfræðingurinn John Kenneth Galbraith um viðskiptahöft í Vestur-Þýskalandi: „Það hefur aldrei verið minnsti möguleiki á endurreisn í Þýskalandi með afnámi þeirra.“ Ludwig Erhard, þá viðskiptaráðherra, afnam höftin um þær mundir og í hönd fór „þýska efnahagsundrið“.

Og Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor sagði í Lesbók Morgunblaðsins 23. nóvember 1996: „Taílendingar hafa á skömmum tíma náð aðdáunarverðum árangri af eigin rammleik og heilbrigðu hyggjuviti. Sjálf berum við Íslendingar með sama hætti einir ábyrgð á því, hversu kjörum okkar hefur hrakað síðustu ár miðað við margar aðrar þjóðir nær og fjær.“ Þorvaldur hafði varla sleppt orðinu, þegar stórkostleg kreppa skall á í Taílandi, og dróst hagkerfið saman um 10,2% árið 1997. Hagvöxtur (án teljandi skuldasöfnunar) reyndist hins vegar ör næstu átta ár á Íslandi.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 10. desember 2011 og er sóttur í ýmsa staði í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku.)


Fleiri góðir dómar

Ég þarf ekki að kvarta undan viðtökum bókar minnar, Íslenskra kommúnista 1918–1998. Ég hef þegar sagt frá lofsamlegum ritdómum Styrmis Gunnarssonar ritstjóra, Eiríks Jónssonar blaðamanns og Jóns Sigurðssonar, sagnfræðings og fyrrverandi ráðherra.

Einnig töluðu þau Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson vel um bókina í Kiljunni í Sjónvarpinu, þótt auðvitað hefðu þau bæði ýmislegt við hana að athuga.

Jón Þ. Þór sagnfræðingur skrifaði umsögn í DV helgina 4.–5. desember. Þar sagði hann meðal annars:

Niðurstaða mín er sú að þessi bók er einkar fróðleg og að henni góður fengur. Höfundur dregur fram margt sem fáir vissu um áður, varpar nýju ljósi á annað og setur söguna þannig fram að gott samhengi er í frásögninni. Bókin er einnig skemmtileg aflestrar og ríkulegt myndefni og góðir myndatextar auka enn á gildi hennar.

Illugi Jökulsson rithöfundur, sem tók á sínum tíma saman bók um helstu atburði 20. aldar, sagði um bókina á bloggi sínu:

Að mörgu leyti er hún alveg prýðileg, hún rekur söguna á greinargóðan og skilmerkilegan hátt og Hannes hefur víða leitað fanga. Sjálfsagt verða fræðimenn ekki endilega sammála um túlkun höfundar á því hversu skeinuhættir kommúnistar voru íslensku samfélagi, en það er þá bara umræða sem fer fram í rólegheitum. Og það er fullt af skemmtilegum myndum í bókinni, einkum frá fyrstu áratugum 20. aldar. Og ég skil ekki þá gagnrýni að Hannes megi ekki skrifa um kommúnismann þó hann hafi hamast gegn honum alla sína tíð.

Valgarður Guðjónsson, tónlistarmaður og tölvusérfræðingur, skrifaði á bloggi sínu um íslenska kommúnista eftir að hafa lesið bókina:

Jafnvel greindasta fólk virðist hafa lokað báðum augum. Ég vissi að Halldór Laxness hafði haft samúð með kommúnistum en það kemur óneitanlega á óvart að sjá hversu virkur hann var í starfinu. En hann sá auðvitað síðar hvers kyns var. Að sjá að greinar í íslenskum blöðum þar sem verið er að verja aftökur á fólki fyrir skoðanir er líka eitthvað sem er fullkomlega óskiljanlegt. Ekki spillir að bókin er skemmtileg og lipurlega skrifuð – stundum eru upptalningar full nákvæmar fyrir minn smekk en það tilheyrir sennilega sagnfræðinni.


Háskólinn: Björtu hliðarnar

Ótrúlegt var að lesa fréttaskýringu Morgunblaðsins um vinnubrögð Þorsteins Vilhjálmssonar, fyrrverandi prófessors, og félaga hans í siðanefnd Háskóla Íslands. En menn mega ekki fordæma allan skóginn, þótt þeir finni þar eitt fölnað laufblað, eins og Steingrímur skáld Thorsteinsson benti okkur á í fleygri vísu.

Í Háskóla Íslands er fjöldinn allur af vandvirkum, snjöllum, hógværum fræðimönnum, sem stunda merkilegar rannsóknir, vinna gott starf og eru stofnuninni til sóma. Ég nefni hér aðeins fimm:

Dr. Þráinn Eggertsson, prófessor í hagfræði. Yfirlitsrit hans um stofnanahagfræði er kennt í háskólum um allan heim. Þegar ég sæki ráðstefnur erlendis, er fyrsta spurningin iðulega: „Hvað er að frétta af Þráni Eggertssyni?“ Þráinn sýndi í skarplegri greiningu á hinni fornu ítölu (beitarréttindum einstakra jarða, eins konar kvóta), hvernig nota má hagfræðina til að varpa ljósi á Íslandssöguna.

Dr. Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði. Ragnar er einn virtasti sérfræðingur heims á sviði auðlindahagfræði. Hann hefur sinnt ráðgjöf í mörgum löndum, meðal annars fyrir Alþjóðabankann, og birt tímamótaritgerðir um fiskveiðistjórnun. Raunar hefur Ragnar eins og Þráinn beitt hagfræðinni til að skýra Íslandssöguna. Hann birti eitt sinn skemmtilega ritgerð ásamt konu sinni, dr. Önnu Agnarsdóttur sagnfræðiprófessor, um það, hvers vegna þrælahald hefði lagst hér niður á þjóðveldisöld. (Skýringin var í anda Adams Smiths: Það borgaði sig ekki.)

Dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði. Hann á sér sem kunnugt er fjölmennan og dyggan lesendahóp, enda eru bækur hans vel skrifaðar og vandaðar og efnið undantekningarlaust forvitnilegt. Þór hefur fetað í fótspor Sigurðar Nordals á öndverðri tuttugustu öld og gert sér far um að miðla þekkingu sinni til almennings, án þess að hann hafi þó í neinu slakað á fræðilegum kröfum. Hann býður ekki upp á dauða heilafylli, heldur lifandi skilning.

Dr. Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum. Ég skal játa, að ég þekki ekki sérsvið Einars nema af afspurn, en veit, að hann er virtur á alþjóðavettvangi og margverðlaunaður fyrir vísindaleg afrek sín. Jafnframt hafa rannsóknir hans mikið hagnýtt gildi. Einar er líka einn af hinum góðgjörnu og víðsýnu mönnum, sem minna fer fyrir en efni standa til í Háskóla Íslands.

Dr. Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði. Hafliði nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir rannsóknir sínar á eðlisfræði hálfleiðara, en sú grein vísindanna er í senn fræðilega forvitnileg og getur verið mjög hagnýt. Hann á ásamt aðstoðarfólki sínu í Háskóla Íslands í samstarfi við fjölda vísindahópa í öðrum löndum, í Frakklandi, Kína og víðar.

Ásamt þessum fimm mönnum, sem ég hef hér nefnt, af því að ég þekki til þeirra, vinnur margt annað afburðafólk að kennslu og rannsóknum í Háskóla Íslands, leggur sig fram og má ekki vamm sitt vita. Við skulum horfa á björtu hliðarnar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband