Avatar

avatar-1_946131.jpgÉg skrapp á dögunum í kvikmyndahús til að sjá stórmyndina Avatar eftir James Cameron. Auðvitað er handritið þaulhugsað, myndin stórvel gerð tæknilega og alls ekki leiðinleg, þótt löng sé. En mér líst ekki alls kostar á boðskapinn. Á reikistjörnunni Pandóru býr eins konar tegund manna, Na’vi, sem er fær um að tala og líkist mönnum um margt annað, en er ekki langt komin tæknilega. Mennirnir ryðjast þangað, því að Na’vi-þjóðin lumar á verðmætum málmum. Henni tekst þó með hjálp bandarísks hermanns að hrinda þeim af höndum sér.

Na’vi-fólkið er blátt á hörund, grannvaxið og lifir hamingjusamt í sátt við náttúruna. Þar minnir um sumt á indjána í tveimur öðrum myndum úr draumasmiðjunni bandarísku, Dansað við úlfa og Pocahontas. Ég sé ekki betur en þetta sé goðsögnin um göfugu villimennina, sem Jean-Jacques Rousseau gerði fræga, í enn einni útgáfu. Þeir villimenn hafa aldrei verið til. Frumstæðir ættbálkar manna hafa jafnan lifað við sult og seyru, grimmd og dráp og flestir gengið illa um umhverfi sitt, stundað rányrkju í stað ræktunar.

Í myndinni er tæknin sýnd sem óvinur náttúrunnar, eyðingarafl. Þetta er líka boðuð einhver óljós algyðistrú, þar sem náttúran er komin í stað Guðs. Gyðjan Eywa er samnefnari alls lífs. En „Náttúran rauð um kjaft og kló“, sem Tennyson orti um, er ekki góður guð eða miskunnsamur. Þar berjast tegundirnar hver við aðra um að halda velli. Hvalir veiða fisk frá mönnum. Fílar troða niður akra og hús bænda í Afríku. Ljón elta uppi önnur dýr og rífa þau í sig, á meðan hrægammar sveima yfir. Mýflugur og rottur bera sýkla milli manna og dýra og valda þannig dauða þeirra. Þar eru margvísleg önnur eyðingaröfl að verki. Þurrkar og flóð skiptast á. Beljandi stórfljót varna mönnum og dýrum ferða.

Samkvæmt hinum gyðinglega og kristilega arfi eiga mennirnir að fara eftir boðorðinu í fyrstu bók Móse: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ Þetta merkir, að ná ber tökum á þurrkum og flóðum með áveitum og stíflum og brúa stórfljót eða virkja, halda með hæfilegum veiðum í skefjum hvölum, fílum og ljónum og eyða meindýrum. Tæknin er ekki eyðingarafl, heldur von okkar og haldreipi. Og það var einmitt með nýjustu tækni, sem James Cameron gat gert þessa stórmynd sína gegn tækninni.


Miskunnsami Samverjinn

samverjinn.jpgÉg sat fyrir skömmu fróðlega ráðstefnu um umhverfissiðfræði í Tucson, Arizona, eins og ég hef áður minnst hér á. Þar var meðal annars rætt um þær skyldur, sem við ættum við náunga okkar. Ég rakti þar úrlestur minn úr dæmisögunni um miskunnsama Samverjann, sem ég hef stundum minnst á hérlendis opinberlega. Einum ráðstefnugesta, kaþólskum hagfræðingi, fannst hann svo merkilegur, að hann fékk leyfi mitt til að rekja hann í bloggi sínu. Dæmisagan er sem kunnugt er í Lúkasarguðspjalli, 10, 30–37: Maður fór frá Jerúsalem til Jeríkó og féll í hendur ræningjum, sem flettu hann klæðum, börðu og skildu eftir dauðvona. Fyrst gekk fram hjá prestur og síðan levíti, og báðir tóku þeir sveig fram hjá honum. Þá kom Samverji að, batt um sár hans, keypti honum gistingu, fæði og klæði og lét sér annt um hann.

Ég les fimm atriði úr þessari sögu:

  • Hætta er af ræningjum og það víðar en á leiðinni frá Jerúsalem til Jeríkó. Við þurftum traust, en takmarkað ríkisvald, eins og John Locke, Adam Smith og aðrir frjálshyggjumenn gerðu ráð fyrir, sem verndi okkur gegn ræningjunum og standi vörð um eignarréttinn.
  • Menntamenn eins og presturinn og levítinn eru oft frekar orða frekar en athafna. Þeir eru hrokagikkir, sem elska mannkynið, en ekki mennina, og taka sveig fram hjá þeim, sem eiga bágt. Margt má lesa um slíka menntamenn í Svartbók kommúnismans, sem ég sneri á íslensku á árinu.
  • Samverjinn var aflögufær. Það er öllum í hag, að til sé stétt efnafólks, sem geti ekki aðeins aðstoðað nauðstadda, þegar því er að skipta, heldur líka veitt ríkinu æskilegt mótvægi.
  • Samverjinn gerði góðverk sitt á eigin kostnað, en ekki annarra. Þegar hlustað er á vinstrimenn, eru oftast engin takmörk fyrir manngæsku þeirra, en hún er jafnan á kostnað annarra en þeirra sjálfra. Ellefta boðorðið ætti því að vera: „Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra.“
  • Nauðstaddi maðurinn var ekki betlari, heldur hafði hann ratað í vandræði. Þótt ýmis rök séu fyrir því að gefa ekki betlurum (enda á frekar að ráðast á kerfisbundnar orsakir betls en auðvelda það), gilda þau ekki um fólk í bráðum háska, sem auðvitað á að hjálpa, eins og Kristur benti á.

Að svo mæltu óska ég öllum lesendum, ekki síður andstæðingum en samherjum, gleðilegra jóla!


Óþarfar skattahækkanir

Því betur sem ég hef skoðað skattamál, því sannfærðari hef ég orðið um, að langtímaafleiðingar af skattahækkunum eru miklu verri en skammtímaafleiðingarnar, þótt þær séu slæmar. Margar þessar langtímaafleiðingar blasa ekki við, en eru engu að síður raunverulegar. Ef bætt er við þrepi í tekjuskatt, þá munu allir til dæmis reyna að hagræða tekjum sínum, skipta þeim á milli sín og annarra í sömu fjölskyldu eða skipta þeim á milli tímabila, til þess að lenda ekki á skatthærra þrepinu. Þá minnkar líka verkaskipting í atvinnulífinu, því að það hættir að borga sig að vinna lengur sjálfur (og lenda á skatthærra þrepinu) og ráða aðra til að veita margvíslega þjónustu. Þá verður áhætta kostnaðarsamari en áður, því að takist fjárfesting, lendir afrakstur hennar á skatthærra þrepinu, en mistakist hún, lendir hann á skattlægra þrepinu. Og svo framvegis. Hækkun fjármagnstekjuskatts er einnig óheppileg, því að með henni er refsað fyrir sparsemi. Fjármagnstekjur myndast af því fé, sem menn hafa lagt til hliðar í stað þess að eyða. Þær eru tekjur af húsaleigu, hlutabréfasölu, arði og vöxtum. Með hækkun fjármagnstekjuskatt hefur eyðsluklóin sigrað búmanninn.

Hið sorglega er, að þessar skattahækkanir eru allar óþarfar. Sömu mennirnir og mæla nú fyrir þeim (Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson), mæltu fyrir slíkum skattahækkunum í góðærinu forðum. Þeir eru ekki að reyna að fullnægja fjárþörf ríkissjóðs, heldur að neyða eigin hugmyndum um „réttláta“ tekjuskiptingu upp á aðra. Brúa hefði mátt bilið, sem skattahækkanirnar eiga að gera, með því að selja lífeyrissjóðunum Landsvirkjun. Ég tel mig hafa heimildir fyrir því, að lífeyrissjóðirnir hefðu verið fúsir til slíkra kaupa, og hefði verðið verið reitt fram í tveimur afborgunum á jafnmörgum árum, þá hefði það numið svipuðum upphæðum og afla á með skattahækkununum.


Hann vildi rýmka reglurnar!

Ég hef undanfarið átt orðastað við tvo unga og hrokafulla hagfræðinga, Jón Steinsson og Gauta B. Eggertsson, um útlán Seðlabankans til viðskiptabankanna í aðdraganda bankahrunsins. Þeir halda því fram, að Seðlabankinn hafi verið ógætinn í þessum útlánum. Ég hef bent á fjögur atriði bankanum til varnar:
  • Seðlabankinn fylgdi sömu reglum um slík útlán og veð fyrir þeim og Evrópski seðlabankinn, nema hvað reglur Seðlabankans voru strangari, því að hann tók aðeins veð í kröfum, sem skráðar voru á markaði.
  • Seðlabankinn varð að treysta á upplýsingar, sem er í verkahring Fjármálaeftirlitsins að meta, um eigið fé viðskiptabankanna. Hann gat ekki tekið að sér hlutverk Fjármálaeftirlitsins.
  • Hefði Seðlabankinn hætt útlánum sínum fyrr eða hert um þær reglur, þá hefði bankahrunið orðið fyrr, en allir vonuðu auðvitað, að lánsfjárkreppunni linnti, og þá hefðu hugsanlega einhverjar bankanna haldið velli.
  • Annars staðar í heiminum færa seðlabankar nú til bókar stórkostlegt tap af björgunaraðgerðum stjórnvalda í lánsfjárkreppunni. Munurinn var sá, að tapið hlaut að verða stærra á Íslandi, þar sem bankarnir hrundu og höfðu auk þess verið miklu stærri hlutfallslegra en annars staðar.

Ég hef einnig minnt á, að ekki megi rugla saman björgunaraðgerðum vegna hrunsins annars vegar (eins og Seðlabankinn sá um samkvæmt lögum) og orsökum bankahrunsins hins vegar (sem voru margar og flóknar).

En hvað sögðu hinir ungu og hrokafullu hagfræðingar fyrir hrun? Þeir vöruðu ekki við því, eins og formaður bankastjórnar Seðlabankans gerði hvað eftir annað. Öðru nær. Jón Steinsson sagði einmitt opinberlega, að Seðlabankinn ætti að rýmka reglur sínar og auka útlán til viðskiptabankanna! Á heimasíðu Jóns við Columbia-háskóla getur að líta þessa greiningu frá 27. september 2008 undir fyrirsögninni „Seðlabankinn sefur“. Þar mælir hann fyrir stóraukinni aðstoð Seðlabankans við viðskiptabankana með útgáfu ríkistryggðra bréfa:

„Stór útgáfa ríkistryggðra bréfa myndi líklega hafa aukaverkanir í för með sér hvað varðar lau[s]afjárstöðu bankanna í krónum. En Seðlabankinn á að geta leyst þann vanda með því að rýmka reglur um veðhæfar eignir í endurhverfum viðskiptum við Seðlabankann.“

Jón sagði svipað í viðtali við Markaðinn í Fréttablaðinu 19. ágúst 2008. Maðurinn, sem kvartar nú undan því, að reglur Seðlabankans um útlán til viðskiptabankanna hafi ekki verið nógu strangar, vildi fyrir hrun rýmka þessar reglur!


Veðlán Seðlabankans

header.jpgSkriflegar upplýsingar Seðlabankans undir nýrri forystu um veðlán bankans til viðskiptabankanna í aðdraganda bankahrunsins eru fróðlegar. Þar er það staðfest, sem Ingimundur Friðriksson seðlabankastjóri hafði raunar sagt opinberlega, að reglur bankans um lán til fjármálafyrirtækja tóku mið af reglum Evrópska seðlabankans (ECB), en voru þrengri að því leyti, að þær heimiluðu ekki veðsetningu krafna, sem ekki voru skráðar á markaði. Þegar bankarnir hrundu, voru öll veð í samræmi við reglur bankans.

Auðvitað tapaði Seðlabankinn stórfé á bankahruninu, eins og seðlabankar annarra landa. (Til dæmis er talið, að hugsanlegt útlánatap Englandsbanka muni nema 850 milljörðum punda eða 17 þúsund milljörðum króna.) En tap Seðlabankans varð meira en ella vegna neyðarlaganna, þar sem öllum öðrum kröfum en innstæðueigenda var skotið aftur fyrir, þar á meðal kröfum Seðlabankans. Hvers vegna hafa þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson, sem harðlega hafa gagnrýnt útlánatap Seðlabankans, ekki reynt að reikna út, hversu mikið af útlánatapinu stafar af því?

Forsenda þessara útlána var einnig, að viðskiptabankarnir stæðust reglur um eigið fé. Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit með því, að efnahagsreikningar bankanna gæfu góða mynd af eignum þeirra. Hvers vegna hafa þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson, sem óspart hafa hneykslast á útlánatapi Seðlabankans, varla minnst á þennan þátt málsins? Getur verið, að viðskiptabankarnir hafi ranglega talið alls konar froðufé til eigna sinna? Og að Fjármálaeftirlitið hafi ekki fylgst með því sem skyldi?

Mikið var gert úr því í fjölmiðlum á dögunum, þegar Ríkisendurskoðun sagði, að Seðlabankinn hefði átt að herða reglur sínar fyrr um veð. Enginn minntist á það, að auðvitað hefði bankakerfið þá líka hrunið fyrr. Átti ekki að reyna að fleyta að minnsta kosti einhverju af því yfir hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu? Það er auðvelt að vera vitur eftir á. En það er líka auðvelt að missa fræðilegt traust, og það eru þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson því miður að gera með áróðursbrellum sínum.

Víst er að minnsta kosti, að hvorugur varaði Jón eða Gauti við bankahruninu. Það gerði hins vegar formaður bankastjórnar Seðlabankans hvað eftir annað í aðdraganda þess, þótt hann gæti ekki verið eins skorinorður opinberlega og í einkasamtölum, eins og ég get borið vitni um. Því miður var ekki hlustað á hann.


Ögmundur ekki í Kastljósinu

mynd_944609.jpgÖgmundur Jónasson gerði það, sem rétt var. Kastljóssmenn gerðu það, sem rangt var. Fimmtudaginn 17. desember hittu Kastljóssmenn Ögmund að máli og báðu hann að koma fram í þættinum um kvöldið. Ögmundur baðst undan því, vegna þess að hann hefði fengið sér vín með hádegismatnum og vildi ekki ræða alvarleg mál undir áhrifum, hversu lítil og ómerkjanleg sem þau áhrif kynnu að vera. Hann greiddi hins vegar þennan dag atkvæði um mál, sem höfðu verið lengi í undirbúningi og hann löngu gert upp hug sinn um.

Kastljóssmenn sýndu ódrengskap með því að skýra daginn eftir frá þessari ástæðu til þess, að Ögmundur vildi ekki koma fram í þætti þeirra. Sú frétt þeirra var engin frétt, að Ögmundur hefði greitt atkvæði undir áhrifum. Það er ekki bannað að fá sér vín með hádegismatnum og raunar ekkert ámælisvert við það. Eftir það geta menn gert sumt, en ekki annað. Þeir geta til dæmis ekki ekið sjálfir heim til sín, en þeir geta svo sannarlega opnað útidyrahurðina heima hjá sér með lykli. Hið sama er að segja um þingmenn. Þeir eiga ekki að taka til máls, ef þeir finna á sér, en auðvitað geta þeir greitt atkvæði, þegar afgreidd eru mál, sem lengi hafa verið í undirbúningi.

Hvað sem um Ögmund Jónasson má segja, vita allir, að hann er heiðarlegur stjórnmálamaður og ekki falur. Hann myndi aldrei hafa haldið neina Borgarnesræðu til varnar þeim auðjöfrum, sem grunaðir voru um ámælisverð eða jafnvel ólögleg vinnubrögð, eins og forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar gerði. Ég get ekki heldur ímyndað mér, að hann hefði farið sauðdrukkinn í ræðustól eins og einn þingmaður Samfylkinginnar (úr fjölmiðlastétt) gerði fyrir skömmu. Ríkisútvarpið má ekki breytast í æsimiðil eins og DV, þótt umræðustjóri Ríkisútvarpsins segi vissulega, að DV sé eina dagblaðið, sem mark sé á takandi.


Ólög án landamæra?

New York Times birti 10. desember fréttaskýringu um meiðyrðamálaflakk, sem svo má kalla eftir ensku orðunum „libel tourism“. Þetta fyrirbæri hefur einnig í víðtækari merkingu verið kallað „forum shopping“ eða hentivettvangur. Það felst í því, að auðmenn velja sér Lundúni sem vettvang fyrir meiðyrðamál, sem þeir vilja höfða gegn gagnrýnendum sínum. Ástæðurnar eru þrjár. Breskir dómstólar taka sér mjög víða lögsögu í meiðyrðamálum, þar eð enska er heimstunga. Meiðyrðalög eru í annan stað mjög ströng í Bretlandi, og þarf sá, sem stefnt er, að sýna fram á sakleysi sitt, en stefnandinn ekki fram á sekt hans. Í þriðja lagi eru slík mál mjög dýr í Bretlandi, og munar auðmenn ekki um það, hvort sem þeir vinna eða tapa, en fórnarlömb þeirra standa oft eftir gjaldþrota.

New York Times segir, að nú séu Bretar sjálfir teknir að skammast sín fyrir þetta meiðyrðamálaflakk. Það hafi aldrei verið ætlun þeirra að auðvelda erlendum auðmönnum að þagga niður í gagnrýnendum sínum. Einn kunnasti vísindamaður Breta, Richard Dawkins, flutti nýlega ávarp um þetta á fundi Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem sjá má á Youtube. New York Times nefnir sérstaklega, þegar sádi-arabíski auðjöfurinn Khalid bin Mahfouz höfðaði mál í Lundúnum gegn bandaríska rithöfundinum Rachel Ehrenfeld, sem hafði haldið því fram í bók, að Mahfouz hefði lagt fé til hryðjuverkasamtaka. Ehrenfeld tók að ráði lögfræðinga sinna ekki til varna, og í útivistardómi var hún dæmd í skaðabætur og til greiðslu málskostnaðar, og nam það samtals um 100 þúsund pundum.  Bók hennar var gefin út í Bandaríkjunum, og aðeins höfðu fyrir tilviljun verið seld á þriðja tug eintaka í Bretlandi eftir netpöntunum. Nú hefur þing New York-ríkis samþykkt lög um það, að enskir meiðyrðadómar eins og í máli Ehrenfelds séu ekki aðfararhæfir, enda stangist þeir á við málfrelsisákvæði og málfrelsisvenjur í Bandaríkjunum.

Einnig nefnir New York Times meiðyrðamálið gegn mér, sem höfðað var í Lundúnum haustið 2004 og blaðið telur enn einkennilegra en mál Ehrenfelds. Það spratt af ummælum mínum á blaðamannaráðstefnu á Íslandi fimm árum áður, haustið 1999. Hefur það mál kostað mig hátt í þrjátíu milljónir króna, þegar allt er talið. Morgunblaðið benti réttilega á það í forystugrein á dögunum, að þeir aðilar, sem hvað fljótastir hefðu jafnan verið til að mótmæla öllu því, sem þeir teldu aðför að málfrelsi, hefðu ekkert látið í sér heyra um þetta mál. Ég man þó að vísu ekki betur en tveir kunnir álitsgjafar, þeir Egill Helgason og Guðmundur Andri Thorsson, hefðu andæft þessum málarekstri gegn mér opinberlega, og er skylt að þakka þeim það. En einnig ber að minnast þess, að einn maður fagnaði málarekstrinum sérstaklega, Þorvaldur Gylfason prófessor, í greininni „Lög án landamæra“ í Fréttablaðinu 13. október 2005. Hann var bersýnilega ekki sammála New York Times og sumum erlendum og íslenskum álitsgjöfum um, að bresku meiðyrðalögin væru ólög án landamæra.


Er auðlindaskattur hagkvæmur?

Ég birti grein undir þessu nafni á 2.–3. bls. 49. tbl. 27. árg. Vísbendingar, vikurits um viðskipti og efnahagsmál. Greinin er skrifuð í tilefni af því, að ríkisstjórnin hefur boðað nýja auðlinda- og umhverfisskatta, en í hópi þeirra, sem fagnað hafa slíkum sköttum, er Jón Steinsson, hagfræðingur í Bandaríkjunum. Í greininni hrek ég þá kenningu, að auðlindaskattur í íslenskum sjávarútvegi hefði verið hagkvæmur til að koma nýtingunni niður í æskilegt mark. Ástæðan er einföld: Fiskihagfræðingar segja okkur, að samnýtt auðlind eins og fiskistofnar verði ofnýtt, nema aðgangur að henni sé takmarkaður. Takmarka mátti nýtinguna með skatti eða ókeypis úthlutun framseljanlegra kvóta. En takmörkun í krafti skatts var það, sem hagfræðingar kalla Pareto-óhagkvæm, því að þá tapa sumir (þeir, sem hætta veiðum, af því að þeir geta ekki greitt skattinn). Breyting er hins vegar Pareto-hagkvæm, ef að minnsta kosti sumir græða og enginn tapar. Við ókeypis úthlutun framseljanlegra kvóta tapar enginn og sumir græða, því að þeir, sem hætta veiðum, eru keyptir út, en ekki hraktir út.

Auðlindaskattur í sjávarútvegi var ekki nauðsynlegur til að koma nýtingunni niður í æskilegt mark, og hann er óþarfur, eftir að hún er með frjálsu framsali kvóta komin niður í það mark. Auk þess hefur bandaríski hagfræðingurinn Ronald Johnson fært fyrir því sterk rök, að óheppilegt sé að taka auðlindina aftur af eigendum kvótanna (eins og sumir vilja gera með svonefndri fyrningarleið): Þeir missa við það þá ábyrgðarkennd, sem fylgir því að vera eigendur. Hvernig stóð á því, að íslenskir útgerðarmenn sættu sig við það tiltölulega friðsamlega, að heildarkvóti í þorski væri nær helmingaður í upphafi tíunda áratugar? Hvernig stendur á því, að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í ólestri? Svarið er, að íslenskir útgerðarmenn eru ábyrgari en starfsbræður þeirra erlendis, vegna þess að þeir hafa beinan hag af arðsemi auðlindarinnar til langs tíma.

Auðlindaskattar eru því ekki hagkvæmir, þegar um er að ræða auðlindir, sem þegar eru nýttar og ofnýttar. Þar er verkefnið að fækka nýtendunum, án þess að neinn tapi, og það má gera með því að skilgreina einkaafnotarétt af auðlindunum og leyfa frjálst framsal með réttindin. Þá kemst nýtingin í frjálsum viðskiptum niður í hagkvæmasta mark. Þá eru þeir, sem er ofaukið, keyptir út, en ekki hraktir út. Hitt er annað mál, að auðlindaskattur getur komið til greina, þegar um er að ræða nýjar auðlindir, sem finnast skyndilega, til dæmis olía undan ströndum eða gull í Vatnajökli. Frekari rökstuðning má sjá í grein minni í Vísbendingu.


Vinnubrögð Jóns Ólafssonar

Stalín og DímítrovÍ stað þess að hafa það, sem sannara reynist, svarar Jón Ólafsson á Bifröst mér skætingi í athugasemd við blogg mitt. Þeir Jón og dr. Þór Whitehead, prófessor í sagnfræði, höfðu deilt um það, hvaða ályktanir mætti draga af skjali einu, sem Jón hafði fundið í Moskvu. Það var minnisblað frá Wilhelm Florin, starfsmanni Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, til Dímítrovs, forseta sambandsins, þar sem lýst er efasemdum um stofnun Sósíalistaflokksins og óskað eftir viðbrögðum Dímítrovs. Jón taldi þetta sýna, að stofnun Sósíalistaflokksins hefði verið gerð í andstöðu við Komintern.  Þór aftók það: Skjalið væri ekki opinber samþykkt, heldur minnisblað; íslenskir kommúnistar hefðu aldrei óhlýðnast Komintern á þann hátt; auk þess sem allar aðrar heimildir bentu til þess, að stofnun Sósíalistaflokksins hefði verið gerð með samþykki Kominterns.

Ég benti í þessu sambandi á skjal, sem ég hafði fundið í gögnum Sósíalistaflokksins. Það var bréf frá Michal Wolf (dulnefni Mihály Farkas, síðar varnarmálaráðherra og pyndingameistara Ungverjalands) til Æskulýðsfylkingarinnar, sem stofnuð var um leið og Sósíalistaflokkurinn sem æskulýðsarmur hans. Þar segist Farkas hafa lesið stefnuskrá Æskulýðsfylkingarinnar, og sé hann ánægður með hana og óski fylkingunni allra heilla. Farkas var enginn venjulegur æskulýðsleiðtogi, heldur annar aðalritari Alþjóðasambands ungra kommúnista og það, sem mikilvægara var, varamaður í framkvæmdanefnd Kominterns. Óhugsandi er, að hann hefði sent þetta bréf, hefði stofnun Sósíalistaflokkins verið gerð í andstöðu við Komintern. Jón oftúlkaði bersýnilega fróðlega heimild, sem hann var að vonum hreykinn af að finna.

Þetta er því miður ekki eina dæmið um einkennileg vinnubrögð Jóns Ólafssonar á Bifröst. Hér ætla ég aðeins að vekja athygli á einu, þótt það varði vissulega smámál. Jón sagði í ritgerð þeirri í tímaritinu Sögu, sem hann birti skjalið í, að sumarið 1936 hefði Komintern sent „félaga Johnson“, sem sæti í miðstjórn kommúnistaflokksins íslenska, til Íslands með línuna. Jón kvað síðan svo að orði: „Johnson er sennilega Angantýr Guðmundsson, einn fimm eða sex Íslendinga sem voru í Moskvu á þessum tíma.“ Ég hafði kynnt mér Moskvuferðir íslenskra kommúnista á þeirri tíð og hringdi í Jón til að spyrja, hvað hann hefði fyrir sér um þetta. Hann svaraði því til, að þetta væri tilgáta, sem hann hefði ekkert sérstakt fyrir sér um.

En hefði Jón gert rækilega rannsókn á heimildunum, sem til eru í Reykjavík og Moskvu, hefði hann vitað, að einn aðalforystumaður vinstriarms kommúnistaflokksins, Hjalti Árnason, var í Moskvu 1935–1936, eins og fram kemur í minningargrein um hann í Þjóðviljanum. Hann hefði líka séð af skýrslum íslenskra kommúnista til Moskvu, að Hjalti sat að minnsta kosti í miðstjórn kommúnistaflokksins árin á undan og sennilega líka árið 1936. (Taldir eru upp miðstjórnarmenn í skýrslunum.) Jón hefði líka vitað, að Angantýr var rekinn úr kommúnistaflokknum í hreinsunum 1934, eins og lesa má í fjölrituðum blöðum kommúnista á Siglufirði. Ólíklegt er, að Angantýr hefði verið sendur eftir það til Moskvu, auk þess sem hann var ekki einn af forystumönnum flokksins og engar heimildir til um, að hann hafi setið í miðstjórn hans. Ég benti á allt þetta í grein minni um byltingarskóla Kominterns í tímaritinu Þjóðmálum veturinn 2008: Þótt ekki væri það fullvíst, væri langlíklegast, að „félagi Johnson“ hefði verið Hjalti Árnason.

Nú vill svo til, að ég hef nýlega fengið í hendur fleiri skjöl frá Moskvu (sem eru flest á þýsku, en hún var opinbert mál Kominterns), og ég get ekki betur séð en eitt þeirra staðfesti einmitt þá tilgátu mína, að „félagi Johnson“ hefði verið Hjalti Árnason. Jóni hefur ekki aðeins sést yfir það, sem ég nefndi hér að ofan, heldur líka þetta skjal. Þetta er auðvitað smámál. En það er gott dæmi um vinnubrögð Jóns Ólafssonar í stóru og smáu. Eftir rannsóknir mínar á sögu íslenskra kommúnista gæti ég nefnt tugi eða hundruð annarra dæma um vinnubrögð hans, en það bíður betri tíma. Jón vandar ekki til verka, heldur kastar fram lítt rökstuddum fullyrðingum og tilgátum, og þegar hann er gagnrýndur, svarar hann aðeins skætingi og endurtekur villur sínar. 

(Myndin er af Jósíf Stalín og Georgíj Dímítrov, forseta Kominterns, tekin 1936.)


Jón Ólafsson og Þór Whitehead

Wilhelm Florin á frímerkiHausthefti Sögu, tímarits Sögufélagsins, er nýkomið út. Þar er á 175.–184. bls. ritgerð eftir dr. Þór Whitehead prófessor um stofnun Sósíalistaflokksins. Tilefni hennar var, að Jón Ólafsson, heimspekingur á Bifröst, fann í Moskvu minnisblað frá 1938. Það var frá einum starfsmanni Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, Wilhelm Florin, til forseta sambandsins, Dímítrovs. Þar lýsti starfsmaðurinn ýmsum annmörkum á þeirri hugmynd, að íslenskir kommúnistar sameinuðust vinstriarmi Alþýðuflokksins í einum flokki, eins og fyrirhugað var. Jón taldi sig geta dregið þá ályktun, að Komintern hefði verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins.

Þór bendir í ritgerð sinni á, hversu fráleit ályktun Jóns sé. Þetta var ekki samþykkt eða yfirlýst skjal frá Komintern, heldur aðeins minnisblað eins manns til annars innan sambandsins. Þegar hér var komið sögu, voru kommúnistaflokkar um allan heim sauðtryggir Stalín, og var Komintern í höndum hans. „En frá og með 1937 höfðu forystumenn sambandsins ekki annað hlutverk en hlýða fyrirmælum hans og leynilögreglunnar,“ segir Jón Ólafsson einmitt á 107. bls. í bókinni Kæru félögum. Það átti einnig við um íslenska kommúnistaflokkinn. Það hefði þess vegna verið stórfrétt, hefðu íslenskir kommúnistar gengið til stofnunar Sósíalistaflokksins haustið 1938 í andstöðu við Komintern.

Fyrir því eru hins vegar engar heimildir. Minnisblaðið er aðeins innanhússkjal. Þar bað höfundurinn Dímítrov að taka afstöðu til málsins. Skjalasafn Kominterns er gloppótt, svo að engin bein heimild er til um, hvaða afstöðu Dímítrov tók síðan. En nægar heimildir eru til eins og Þór bendir á fyrir hinu gagnstæða, að Sósíalistaflokkurinn var ekki stofnaður í andstöðu við Komintern. Kommúnistaflokkar Svíþjóðar og Danmerkur, sem báðir voru stalínískir, sendu til dæmis Sósíalistaflokknum heillaóskaskeyti við stofnunina, og í stríðsbyrjun, vorið 1940, skrapp einn leiðtogi sósíalista, Kristinn E. Andrésson, til Moskvu og gaf rækilega skýrslu um starfsemi Sósíalistaflokksins. Hvergi var þar minnst á neinn ágreining um stofnunina. Eftir stríð var Sósíalistaflokkurinn íslenski jafnan talinn til vinaflokka í Moskvu.

Ég dró síðan fram í dagsljósið skjal úr gögnum Sósíalistaflokksins, sem skar úr deilu þeirra Jóns Ólafssonar og Þórs Whitehead, eins og ég bloggaði um í gær, og er það birt í nýútkomnu hefti Stjórnmála og stjórnsýslu. Þetta er bréf frá einum trúnaðarmanni Kominterns, þar sem hann óskar nýstofnuðum samtökum ungra sósíalista, Æskulýðsfylkingunni, til hamingju og lýsir yfir ánægju með stefnuskrá þeirra. Þessi maður, sem seinna gekk undir nafninu Mihály Farkas, var kunnur stalínisti, annar aðalritari Alþjóðasambands ungra kommúnista og varamaður í framkvæmdanefnd Kominterns. Óhugsandi er, að hann hefði skrifað þetta bréf, hefði stofnun Sósíalistaflokksins verið í andstöðu við Komintern.

Jón Ólafsson lætur sér þó ekki segjast, eins og sást á athugasemd hans hér í gær. Ég ráðlegg öllum áhugamönnum um þetta mál að lesa hina rökföstu ritgerð Þórs í Sögu og grein mína í Stjórnmálum og stjórnsýslu, en mun sjálfur síðar leitast við að leiðrétta ýmsar fleiri missagnir Jóns í skrifum hans um íslenska kommúnista og sósíalista, villur, yfirsjónir og lítt rökstuddar eða jafnvel ógildar ályktanir. Eins og Árni Magnússon sagði forðum: „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu erroribus. Hafa svo hverir tveggja nokkuð að iðja.“


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband