Skemmtilegt spjall um Sjálfstætt fólk

v2-141129957.jpgMiðvikudagskvöldið 19. nóvember tók ég þátt í spjallfundi um Sjálfstætt fólk Halldórs Kiljans. Hann fór fram í Stúdentakjallaranum milli 17 og 18.30, og vorum við framsögumenn Illugi Jökulsson, Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur, Símon Birgisson leikhúsfræðingur og Þorleifur Örn Arnarsson leikstjóri. Sögðu þeir Símon og Þorleifur Örn frá hugleiðingum sínum undirbúningi sínum undir fyrirhugaða leikgerð verksins á fjölum Þjóðleikhússins, en við Dagný og Illugi ræddum um söguhetjur verksins.

Ég benti á þrennt, sem hefur ekki vakið mikla athygli í greiningu á verkum Laxness. Eitt er ástarþríhyrningur, sem er ekki settur saman úr tveimur konum og einum karli eða öfugt, heldur úr fremur þroskuðum og rosknum karli, sem keppir ótrauður að voldugri hugsjón, ungri — stundum kornungri stúlku — sem truflar hann um stund í þessari keppni, og hugsjóninni, sem að lokum sigrar oftast. Arnaldur og Salka Valka, og hugsjónir Arnalds og brotthvarf; Bjartur í Sumarhúsum og Ásta Sóllilja; Ólafur Kárason og konur hans; Arnas Arnæus og Snæfríður Íslandssól; Búi Árland og Ugla.

Einnig benti ég á, að sumar söguhetjur Laxness eru barnaníðingar, paedophilar, til dæmis Ólafur Kárason, þótt hann hafi venjulega notið óskiptrar samúðar lesenda, af því að hann er minnipokamaður, „loser“ á bandarískri ensku. Salka Valka, Steinunn í Paradísarheimt og fleiri ungar stúlkur eru það, sem kallað er nú á dögum misnotaðar.

Hið þriðja er, að sögunum lýkur með brotthvarfi söguhetjunnar, og hún á sér því engan enda — eða opinn. Þar er hliðstætt, þegar Bjartur í Sumarhúsum fer upp á heiði og Ólafur Kárason upp á jökulinn. Hvað gera þeir síðan? Það er fróðlegt efni hliðarsögu, hypothetical history. Endirinn minnir á smásöguna „Vonir“ eftir Einar H. Kvaran, nema hvað þar er farið á kanadísku sléttuna, sem er sennilega tákn um sjálfsvíg. Laxness sótti margt til Einars Kvarans og líka til Jóns Trausta, sem samdi örlagasögur um fólk á heiðarbýlum. En lausn Jóns Trausta var, að Halla á heiðarbýlinu snýr niður til byggða, og þar finnur hún frelsi. Sú lausn er sögulega rétt: Þetta gerði fólk, sem lítið átti undir sér, í sveitum á Íslandi. Það fann frelsið í kapítalismanum, annaðhvort með því að flytjast að sjávarsíðunni eða til Vesturheims. Fyrr á öldum hafði slíkt fólk soltið í hel og landið aldrei borið meira en 50 þúsund manns.

Enginn vafi er á því, að Sjálfstætt fólk átti að vera ádeila á Bjart í Sumarhúsum og sveitasælutal. Hefur Illugi Jökulsson talið Bjart dæmi um harðstjóra, jafnvel ófreskju. En Bjartur brýtur sér leið út úr ramma Laxness og verður að hetju vegna þrjósku sinnar, seiglu og festu. Hann tekur hverjum ósigri með því að halda áfram. Laxness hefur sett dálítið af sjálfum sér í hann, því að þetta einkenndi hann, ekki síst fyrstu árin, þegar hann varð fyrir miklu andstreymi. Þannig varð andhetjan óvart að hetju.

 


Gamansaga um Frakka og Bandaríkjamenn

Nokkrir Bandaríkjamenn standa saman í hnapp á götuhorni, og fram hjá ekur svört glæsikerra, sem gljáir á. Einn þeirra segir með aðdáun í röddinni: „Einn góðan veðurdag á ég eftir að aka um í bíl sem þessum.“

Nokkrir Frakkar standa saman í hnapp á götuhorni, og fram hjá ekur svört glæsikerra, sem gljáir á. Einn þeirra segir afundinn: „Það kemur einhvern tímann að því, að þessi náungi geti ekki lengur ekið bíl sem þessum.“

(Sagt á stúdentaráðstefnu í Háskóla Íslands 15. nóvember 2014, eftir erindi mitt um boðskap Thomasar Pikettys.)


Forvitnileg stúdentaráðstefnu í dag, laugardag

Samtökin European Students for Liberty halda forvitnilega ráðstefnu í dag, laugardaginn 15. nóvember, sem meira en 100 manns hafa skráð sig á. Hún er í Háskólatorgi, stofu HT-105, og hefst kl. 11.30. Ætlast er til, að menn skrái sig fyrirfram hér, en ég get ekki ímyndað mér, að neinum sé meinaður aðgangur.

Dr. Birgir Þór Runólfsson hagfræðidósent lýsir íslenska þjóðveldinu, en hann skrifaði doktorsritgerð um stofnun þess, hnignun og fall, þar sem hann beitti hagfræðilegri greiningu á mjög frumlegan hátt. Þjóðveldið er sérlega forvitnilegt vegna þess, að þar stóð skipulag án ríkisvalds. Stjórnleysingjar hafa því iðulega litið til þess. En hvernig leystu Íslendingar að fornu ýmis þau verkefni, sem ríkið leysir nú á dögum, svo sem réttarvörslu? Var þjóðveldið draumríki stjórnleysingja? Hinn kunni bandaríski hagfræðingur og frjálshyggju-stjórnleysingi (anarkókapítalisti) David Friedman hefur skrifað um íslenska þjóðveldið í þeim anda.

Pallborðsumræður verða um lögleiðingu fíkniefna, þar sem tveir fulltrúar Pírata koma fram, Aðalheiður Ámundadóttir lögfræðingur og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður, og stúdentaleiðtoginn Aleksandar Kokotovic frá Serbíu. Ég hef að vísu sjálfur aldrei sagt, að umræðan snúist um lögleiðingu fíkniefna, heldur um það, með hvaða rökum ríkið leyfi og jafnvel taki sér einkarétt til að selja sum fíkniefni, til dæmis níkótín og alkóhól, en banni önnur með lögum og eyði síðan fé og fyrirhöfn í að koma í veg fyrir sölu þeirra og neyslu, svo að lögregluyfirvöld fái ekki sinnt öðrum brýnum verkefnum eins og að verja líf okkar, limi og einkalíf fyrir ofbeldi og áreitni, jafnframt því sem til verði glæpafélög, sem fullnægi þörfinni fyrir þessi bönnuðu fíkniefni, við hlið ríkisins, sem fullnægi þörfinni fyrir hin leyfðu. Ef til vill eru til rök fyrir þessari mismunun, en þau hafa aldrei verið sett fram, svo að ég hafi sannfærst.

Sjálfur flyt ég erindi síðdegis (kl. 16) um boðskap franska hagfræðingsins Thomasar Pikettys í bók hans, Fjármagni á 21. öld, en þar krefst hann ofurskatta á stóreignamenn og hálaunafólk í því skyni að jafna tekjudreifinguna. Telur hann fjármagn hlaðast upp í höndum fárra, hins margfræga 1% tekjuhæsta hóps. Virðist mér sem Piketty hafi tekið við af John Rawls sem helsti spámaður og andlegur leiðtogi vinstri manna, en sá munur er á, að Rawls hafði áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Og ég hélt hér áður fyrr í einfeldni minni, að fátækt væri böl, en auðlegð blessun. Á þeirri tíð voru áhyggjur af auðlegð, sem ekki væri illa fengin, kölluð öfund, en hún var ein af dauðasyndunum sjö (ásamt heift, græðgi, ágirnd, hirðuleysi, drambi og losta).

Tveir útlendingar aðrir flytja erindi, prófessor James Lark frá Bandaríkjunum og Lukas Schweiger frá Austurríki, sem er formaður European Students for Liberty, en svo skemmtilega vill til, að hann er búsettur á Íslandi um þessar mundir.


Vetrarstríðið og flokkaskiptingin

Í Finnlandi skoðaði ég fyrir skömmu vígstöðvarnar við Ilomantsi, þar sem barist var í Vetrarstríðinu 1939–1940 og líka í Framhaldsstríðinu 1941–1944, en bæði stríðin háðu Finnar við Stalín og herlið hans. Ilomantsi er austasti bær Evrópusambandinu á meginlandinu, örstutt frá rússnesku landamærunum. Svo einkennilega vill til, að Vetrarstríðið er einn fárra erlendra viðburða, sem raskað hafa flokkaskiptingu á Íslandi. Tildrög voru þau, að Stalín og Hitler höfðu með griðasáttmála í Moskvu 23. ágúst 1939 skipt Mið- og Austur-Evrópu upp á milli sín, og voru alræðisherrarnir tveir bandamenn fram að óvæntri árás þýska hersins á Ráðstjórnarríkin 22. júní 1941. Finnland kom samkvæmt griðasáttmálanum í hlut Stalíns. Vetrarstríðið skall á, þegar Rauði herinn hóf loftárásir á Helsinki 30. nóvember 1939 og 450 þúsund manna herlið þrammaði yfir finnsku landamærin. Á Íslandi háttaði þá svo til, að íslenskir kommúnistar höfðu nýlega fengið vinsælan jafnaðarmann, Héðin Valdimarsson, og nokkra samherja hans til samstarfs. Sameinuðust kommúnistar og þessir jafnaðarmenn haustið 1938 í nýjum flokki, Sósíalistaflokknum, en um leið var kommúnistaflokkurinn lagður niður. Héðinn var formaður hins nýja flokks, sem skyldi ólíkt kommúnistaflokknum virða lýðræði innan marka laganna.

Strax og fregnir bárust til Íslands af árásinni á Finnland, boðaði Héðinn Valdimarsson fund miðstjórnar Sósíalistaflokksins, þar sem hann gerði tillögu um að lýsa yfir samúð með finnsku þjóðinni. Hún var samþykkt með sex atkvæðum gegn fimm atkvæðum kommúnista, sem vildu ekki una þeirri niðurstöðu og skutu tillögunni til flokksstjórnar. Þar var hún felld með 18 atkvæðum gegn 14. Á meðal þeirra, sem felldu tillöguna, voru forystumenn kommúnista, stalínistarnir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason, en líka Halldór Kiljan Laxness, sem þá átti sæti í flokksstjórninni. Við svo búið sögðu Héðinn Valdimarsson og stuðningsmenn hans sig úr Sósíalistaflokknum. Eftir stóðu fáir aðrir en kommúnistar. Þótt Finnar fengju ekki samúðarkveðju frá Sósíalistaflokknum í desemberbyrjun 1939, vörðust þeir ofureflinu vel og drengilega, en neyddust í mars 1940 til að semja frið við Stalín og afhenda honum mikið land, um það bil tíunda hluta Finnlands. Nokkrum árum síðar lést Héðinn Valdimarsson langt um aldur fram, kalinn á hjarta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. október 2014.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband