Þeir vilja ALLTAF hækka skatta

Sömu mennirnir og vilja nú hækka skatta vegna hinnar skyndilegu
fjárþarfar ríkissjóðs, vildu líka gera það fyrir tveimur árum, á meðan
allt lék í lyndi. Skattahækkanir eru þeim ekki ill nauðsyn, heldur
dygð. Aðrar þjóðir reyna nú að lækka skatta í því skyni að örva
atvinnulífið og auka vinnufýsi. Stjórnvöld á Íslandi bregðast þveröfugt
við. Þau vilja hækka fjármagnstekjuskatt, þótt sá skattur sé í
raun ekki 10%, eins og jafnan er fullyrt, heldur 26,2% (eins og sjá má
með einföldum útreikningi á því, þegar fyrst er greiddur tekjuskattur á
fyrirtæki og síðan greiddur skattur af útgreiddum arði). Stjórnvöld
vilja taka upp stighækkandi tekjuskatt, þótt fullreynt sé, að slíkur
skattur er flókinn í framkvæmd og skilar ekki þeim skatttekjum, sem að
er stefnt. Þau Jóhanna og Steingrímur gleyma því, að margar
gæsirnar, sem verpa gulleggjum, eru fleygar: Fyrirtæki og fjármagn
leita úr háskattalöndum eins og Svíþjóð í lágskattalönd eins og Sviss. Íslensk
stjórnvöld vilja taka upp auðlindaskatt í sjávarútvegi, þótt með því
ráðist þau á blómlega atvinnugrein, sem er að verða grönnum okkar
fordæmi og fyrirmynd. Auðvitað þarf að brúa bilið milli tekna
og gjalda ríkissjóðs. En hin skyndilega fjárþörf er tímabundin.
Stjórnvöld ættu að gera tvennt í stað þess að hækka skatta: selja
ríkisskuldabréf innanlands og minnka fjárþörfina með því að spara
hressilega í rekstri ríkisins, eins og margar aðrar þjóðir hafa þurft
að gera. En til þess þarf röggsamari stjórnvöld með gleggri skilning á lögmálum auðs og eklu.

Fall Berlínarmúrsins

reaganberlinwall_931665.jpgBerlínarmúrinn féll fyrir tuttugu árum. Það var söguleg stund fyrir mannkyn allt. Berlínarmúrinn, sem reis 1961, var tákn kalda stríðsins. Hann var líka merki þess, að kommúnistar treystu sér ekki til að keppa við kapítalismann. Þeir urðu að loka þegna sína inni, annars hefðu þeir flestir flúið. Í rauninni er einkennilegt, hversu lengi kommúnisminn lifði. Austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði útskýrt í smáatriðum í bók, sem kom út 1922, Die Gemeinwirtschaft (Sameignarskipulagið), af hverju hugmynd kommúnista um allsherjarskipulagningu atvinnulífsins gekk ekki upp. Skýringin á því, að kommúnisminn tórði þó þetta lengi, var auðvitað, að kommúnistar voru reiðubúnir til að beita valdi af fullkomnu miskunnarleysi, eins og lýst er í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi, en sú fróðlega lesning kom út hjá Háskólaútgáfunni 31. ágúst síðastliðinn. Það er hins vegar umhugsunarefni, að í Kommúnistaávarpinu 1848 töldu Karl Marx og Friðrik Engels upp þær ráðstafanir, sem grípa þyrfti til strax eftir valdatöku kommúnista. Hin fyrsta var að leggja skatt á auðlindir (gera rentuna af auðlindum upptæka). Hin næsta var að leggja á háa og stighækkandi skatta. Ríkisstjórn þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar ætlar að gera hvort tveggja, leggja á auðlindaskatt og stighækkandi tekjuskatt. Þrátt fyrir fall Berlínarmúrsins gengur vofa kommúnismans enn ljósum logum um Ísland.

Á gangi í miðbænum

Ég gekk í dag, sunnudaginn 8. nóvember 2009, fram hjá Hótel Borg, og þá varð mér hugsað til þess, hversu sögufrægur sá staður er, enda var hann lengi eini raunverulegi samkomustaðurinn í höfuðborginni, sem stóð undir nafni. Þar greiddu
Tómas Guðmundsson og aðrir fastagestir atkvæði um það í upphafi fjórða
áratugar, hvort veita ætti þeldökku fólki aðgang að staðnum. Tómas var
sem vænta mátti eindreginn stuðningsmaður þess, og þá varð til hið
fræga kvæði hans um, að hjörtunum svipaði saman í Súdan og Grímsnesinu. Raunar var aftur fest upp spjald þar laugardagskvöldið 10. maí
1952: „We do not cater for colored people here.“ (Hér fær þeldökkt fólk
ekki afgreiðslu.) Daginn eftir reif Sigurður Magnússon, kennari og
blaðafulltrúi Loftleiða um skeið, spjaldið niður, eins og Alþýðublaðið
sagði frá 13. maí, og urðu engin eftirmál. Það var á Hótel
Borg, sem Árni Pálsson prófessor sagði, þegar vinur hans kom þangað
grúttimbraður og pantaði sér sódavatn: „Þetta kalla ég illa farið með
góðan þorsta.“ Það var á Hótel Borg, sem Kjarval sagði við
þjóninn: „Ég hef nú ekki peninga til að borga yður með, en ég get boðið
yður dús. Er það ekki nóg?“ (Þessa sögu skilur unga kynslóðin sennilega
ekki.) Það var líka á Hótel Borg, sem Agnar Bogason ritsjóri sagði, að Akureyringar væru bestir klukkustundu fyrir rismál. Og
það var á Hótel Borg, sem þeir sátu iðulega að skrafi Doddi kúla
(Þórður Albertsson) og Tómas skáld. Eitt sinn barst í tal
vísuhelmingur, sem kenndur er Marteini Lúther með vafasömum rétti, að
sá væri glópur allt sitt líf, sem ekki elskaði sönginn, vín og víf.
Doddi kúla sagði: „Tómas, ég er viss um, að þú yrðir ekki í neinum
vandræðum með að þrauka án söngs, en hvað myndirðu gera, ef þú þyrftir
að velja á milli víns og kvenna?“ Tóms svaraði með sinni venjulegu
hægð: „Ég hygg, að um hvort tveggja færi það nokkuð eftir árgöngum.“ Í
annað skipti vitnaði Doddi kúla í þau frægu orð Oscars Wilde, að kona
með fortíð ætti sér enga framtíð. Tómas sagði þá: „En þeir, sem slíkri
konu kynnast, hljóta að gera sér vonir um, að sagan endurtaki sig.“

Hvers vegna gelti hundurinn ekki?

sherlockholmes.jpgÍ einni sögu Arthurs Conan Doyle um einkalögreglumanninn skarpskyggna Sherlock Holmes benti söguhetjan á það mikilvæga atriði í sakamáli, að hundurinn gelti ekki. Skýringin var sú, að hundurinn hafði séð eiganda sinn (sem reyndist vera sakamaðurinn). Mér datt þessi saga í hug, þegar ég sá fréttaskýringu Inga F. Vilhjálmssonar, blaðamanns á DV og sonar Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, formanns bankaráðs Íslandsbanka, um helgina. Hún var um Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, og dáleika hans við auðmæringa og útrásarvíkinga. Vitnað var í marga fésýslumenn íslenska, sem lofsungu Ólaf, og birtar af þeim myndir. Einnig var rætt við sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga, sem hneyksluðust óspart á þjónustulund forsetans við þotuliðið, og efuðust jafnvel sumir þeirra um, að honum væri lengur sætt á Bessastöðum. En í fréttaskýringuna vantaði einn auðjöfur. Ekkert var haft eftir honum, engin mynd var af honum, ekki var á hann minnst einu orði. Þetta var Jón Ásgeir Jóhannesson, öðru nafni Jón Násker. Var samband Jóns Náskers við forsetann þó nánara en nokkurs annars auðmanns, enda gerði forsetinn af vináttu við hann að synja fjölmiðlafrumvarpinu staðfestingar sumarið 2004, af því að Jón Násker hefði þá væntanlega misst einhver ítök sín á fjölmiðlum. Jón Násker var líka tíður gestur á Bessastöðum, þegar vinir forsetans eins og Martha Stewart þurftu að jafna sig þar í veislufagnaði eftir fangelsisvist fyrir efnahagsbrot. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, sem allir vita raunar, að Jón Násker á DV. Hann notar það til þeirra árása, sem ekki hentar öðrum fjölmiðlum hans að flytja. Sannast á þessari fréttaskýringu Inga F. Vilhjálmssonar hið fornkveðna:

Sá á hund, sem elur.


Á Náskeri staddur

292x219.jpgEr forsetaembættið nauðsynlegt? Þegar árið 1986, tíu árum áður en Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti, lagði ég til opinberlega, að forsetaembættið yrði lagt niður, svo að sú tillaga mín var ekki bundin honum. Ég lagði þá til, að forseti Alþingis yrði fenginn til að gegna þjóðhöfðingjaskyldum, sem eru einkum að veita viðtöku trúnaðarbréfum erlendra sendiherra og gefa þeim um leið glas af freyðivíni, taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum einu sinni á ári og þá á sumrin, þegar Alþingi situr ekki, og skála þá við þá í freyðivíni, fara í eina opinbera heimsókn eða svo á ári til útlanda og skála þá við nokkra útlendinga í freyðivíni og hengja fálkaorðuna einu sinni eða tvisvar á ári á brjóst nokkurra Íslendinga fyrir að hafa mætt samviskusamlega í vinnuna og gefa þeim um leið glas af freyðivíni. Annað gerir forsetinn í raun og veru ekki, þótt auðvitað geti allir með góðum vilja fundið sér verkefni til að fylla upp í tómt líf sitt, sérstaklega dómgreindarlausir dugnaðarforkar eins og Ólafur Ragnar Grímsson. Sú hugsun læðist raunar stundum að mér, að við hefðum líklega ekki átt að slíta konungssambandinu við Dani 1944, þótt sjálfsagt væri að öðru leyti að segja sambandslagasáttmálanum frá 1918 upp. Hefðum við ekki gert það, þá hefðum við haft sama hátt á og íbúar Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálands, nema hvað drottning okkar hefði heitið Margrét og ekki Elísabet, komið hingað einu sinni á ári og klæðst þá þjóðbúningi íslenskra kvenna við hátíðleg tækifæri. Ástæðan til, að konungssambandinu var ekki haldið, var líklega, að Kristján X., konungur Danmerkur og Íslands, var iðulega ruddalegur í framkomu við Íslendinga og því óvinsæll hér. Hannes Hafstein skalf af geðshræringu, þegar hann kom af sínum fyrsta fundi með konungi í öðrum ráðherradómi sínum 1912, og sagði Jóni Krabbe, að Íslendingum myndi bregða, ef þeir vissu, hvaða afstöðu konungur hefði til þeirra. Konungur sýndi Jónasi frá Hriflu dónaskap, þegar hann spurði hann á Alþingishátíðinni, hvort hann væri sá, sem léki Litla-Mússólíni á Íslandi, og rauk þá ítalska sendinefndin á hátíðinni burt í fússi. Með Ólafi Ragnari Grímssyni hefur fokið út í veður og vind það, sem eftir var af virðingu fyrir forsetaembættinu. Stoðaði lítt, þegar hann fékk með fjárhagslegri aðstoð gömlu bankanna Guðjón Friðriksson til að skrifa um sig bók undir heitinu Saga af forseta, en um hana orti skáldið:

Lofgjörð okkur Gaui gaf,

og gott fann nafn á hana.

Sagað hefur hann Óla af

alla vankantana.


Samskiptin við Bandaríkin

Lítið hefur farið fyrir merkilegri frétt á Eyjunni. Hún er, að Bandaríkin hafa ekki haft sendiherra á Íslandi í nærri því ár. Þetta er auðvitað engin tilviljun. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, móðgaði vísvitandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, dr. Carol van Voorst, skömmu áður en hún fór frá landinu snemma árs 2009. Henni hafði verið tilkynnt skriflega, að hún fengi fálkaorðuna, eins og oft gerist, þegar sendiherrar kveðja. Á leiðinni til Bessastaða, þar sem hún átti að taka við orðunni, var hringt í hana og henni sagt, að ekkert yrði af orðuveitingunni. Um misskilning hefði verið að ræða. Auðvitað hafði Ólafur Ragnar skipulagt þetta. Hann var að hefna sín á sendiherranum fyrir það, að hún kom því ekki í kring, að hann yrði viðstaddur embættistöku Obama Bandaríkjaforseta, eins og hann sóttist eftir. Þetta voru fádæmi og furðulegt, að orðunefnd eða forsætisráðherra, sem ber að lögum ábyrgð á gerðum forseta, skuli ekki hafa látið þetta til sín taka. Okkur ríður á miklu að hafa góð samskipti við Bandaríkin. Þótt þessi forseti kæmi fram við fulltrúa gamallar vinaþjóðar eins og argasti dóni, var hann kurteisin uppmáluð við þá íslensku skuldakónga, sem ollu bankahruninu, Bónus-menn. Vann hann það jafnvel til sumarið 2004 að synja lögum, sem takmarkað hefðu kost þeirra á að móta almenningsálitið, staðfestingar. Eins og kunnur hagyrðingur orti þá:

Hann vanhæfur kemur að verkinu,

Vigdís plantaði lerkinu

Hvert barn má það sjá,

að Bónus hann á.

Það er mynd af honum í merkinu.


Óskiljanlegar hugmyndir í Kaupþingi

Vitaskuld skilja allir skynsamir menn, að bankastjórar nýju ríkisbankanna glíma við margvísleg vandræði í viðleitni sinni til að ávaxta það pund, sem þeim er trúað fyrir, hámarka verðmæti eigna bankanna. Stundum þurfa þeir að afskrifa eitthvað af skuldum í því skyni að endurheimta afganginn. En mikilvægt er, að þeir fari að settum lögum og reglum, svo að þeir eigi ekki yfir höfði sér réttvísina síðar meir eins og talað er um, að bankastjórar gömlu einkabankanna eigi. Í starfsreglum Kaupþings eru skýr ákvæði um, að áhrif ráðstafana bankans á samkeppni séu metin við ákvarðanir. Nú er rætt um, að fyrri eigendur eignist Haga (Bónus, Hagkaup og fleiri verslanir) fyrir sjö milljarða króna, en fimmtíu milljarðar séu afskrifaðir. Þetta hefur tvenns konar neikvæð áhrif á samkeppni. Í fyrsta lagi eru skuldir samkeppnisaðila ekki afskrifaðar. Hvers vegna eiga þeir að sæta þessu? Í öðru lagi eru Hagar nú þegar með um 60% hlutdeild í smásöluverslun. Er eðlilegt að stuðla að því, að svo verði áfram? Einnig eru í starfsreglum Kaupþings ákvæði um, að nýir eigendur fyrirtækja, sem bankinn þarf að endurfjármagna, skuli njóta trausts. Hvernig geta fyrri eigendur Haga notið trausts? Þeir hafa fengið dóma fyrir efnahagsbrot og reyndu að stjórna Íslandi úr farsímum sínum, þar sem þeir voru staddir í einkaþotum og á lystisnekkjum á þeytingi um heiminn. Þeir voru skuldakóngar Íslands. Allir vita, hvernig það fór. Sumir spyrja, hvers vegna Kaupþing noti ekki tækifærið og skipti fyrirtækinu upp í því skyni að auka samkeppni. Góð rök eru fyrir því, en eflaust telja Kaupþingsmenn, að með því sé verðmæti veða þeirra í fyrirtækinu ekki hámarkað. Aðrir spyrja, hvers vegna bankinn geri ekki greinarmun á stjórnendum og starfsfólki fyrirtækisins annars vegar, sem er eflaust langflest ágætt fólk, og fyrri eigendum hins vegar. Af hverju finnur bankinn ekki nýja fjárfesta, sem ganga til liðs við núverandi stjórnendur og starfsfólk, jafnvel í almennu útboði hlutafjár, um að reka þetta myndarlega fyrirtæki? Stjórnendur Haga og starfsfólk eiga ekki að gjalda fyrir fyrri eigendur.


Fulltrúaráðsfundur

height_300_upload_xd_is_images_yxajct.jpgÉg var á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík mánudaginn 2. nóvember. Þar talaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um stjórnmálaviðhorfið. Hann kom mjög vel fyrir, flutti ræðu sína blaðlaust, rólega og skynsamlega, var málefnalegur og kurteis, en þó fastur fyrir. Bjarni býður af sér góðan þokka, en frá honum stafar líka traust. Hann furðaði sig á því, að forystumenn stjórnarflokkanna tóku alls ekki undir með honum á þingi Norðurlandaráðs á dögunum, þegar hann gagnrýndi frændþjóðir okkar fyrir að setja það skilyrði fyrir lánveitingum í nauðum okkar, að við létum undan Bretum í Icesave-málinu. Við megum aldrei gleyma því, að kröfur Breta eiga sér enga lagastoð. Hvergi segir í lögum, reglum eða samningum, að ríkissjóður Íslands beri ábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Bretar ollu sjálfir miklu um íslenska bankahrunið, þegar þeir aðstoðuðu ekki Singer & Friedlander, dótturfélag Kaupþings, einn breskra banka og settu Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana. Því miður hafa forystumenn stjórnarflokkanna ekki lært eins og Bjarni Benediktsson af Hannesi Hafstein, fyrsta ráðherranum, sem sagði: „Þegar ég er kominn út fyrir landstein­ana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur.“ Einnig flutti Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri eldlega hvatningarræðu á fundinum. Hún stendur sig afar vel í starfi. Sjálfstæðisflokkurinn er fullsæmdur af þessum tveimur ungu forystumönnum. Það er þeim styrkur, ekki veikleiki, að Davíð Oddsson skuli enn láta til sín taka og njóta mikils trausts, eins og skoðanakannanir sýna. Bjarni Benediktsson fyrri var aldrei hræddur við Ólaf Thors, og Ólafur Thors var aldrei hræddur við Jón Þorláksson. Þar sem næg er sólin, stendur enginn í skugga neins.


Um hvað snýst málið?

pg4_1_360_637844a.jpgBreska stórblaðið Sunday Times birti sunnudaginn 1. nóvember 2009 fréttaskýringu um hinn flókna málarekstur Jóns Ólafssonar í Bretlandi, þar sem ég var eitt fórnarlambið, og einnig ræddi Andrew Marr sama dag um þennan málarekstur í morgunþætti sínum á BBC. Fyrir skömmu vann Jón skaðabótamál gegn breska ríkinu í undirrétti (sem heitir samt High Court) í Lundúnum. Forsaga þess dóms er löng. Jón hafði höfðað mál gegn mér í Lundúnum haustið 2004 fyrir það, sem hann taldi meiðyrði (á ensku) á heimasíðu minni á vefsvæði Háskóla Íslands. Hafði hann unnið það  mál (fengið útivistardóm sem kallað er), enda hafði ég að ráði dómsmálaráðuneytisins íslenska og lögfræðings Háskóla Íslands ekki tekið til varna ytra. Þar eð breski ræðismaðurinn í Reykjavík hafði ekki stefnt mér eftir íslenskum lögum, eins og honum var skylt, hafði breskur dómari hins vegar að minni kröfu ógilt meiðyrðadóminn yfir mér í Lundúnum í árslok 2006. Um leið veitti sá dómari Jóni sérstaka undanþágu til að þurfa ekki að stefna mér aftur, en halda málinu gegn mér samt áfram. Þessari undanþágu mótmælti ég og skaut því til yfirréttar í Bretlandi (Court of Appeal), sem staðfesti hins vegar, að dómarinn hefði mátt veita þessa undanþágu frá íslenskum lögum um stefnubirtingu. Þessu skaut ég þá til lávarðadeildarinnar, sem synjaði um endurskoðun á dómnum um undanþáguna.

Í skaðabótamáli Jóns gegn breska ríkinu komst breski dómarinn að þeirri niðurstöðu, að hugsanlegur nýr meiðyrðadómur yfir mér úti í Bretlandi yrði aldrei aðfararhæfur á Íslandi, þar sem íslenskur dómari myndi áreiðanlega ekki samþykkja, að breskur dómari gæti veitt undanþágu frá íslenskum lögum. Dæmdi dómarinn Jóni því sömu upphæð og hann hafði fengið í fyrri meiðyrðadómnum, sem ógiltur hafði verið, auk málskostnaðar, sem hleypur á tugum milljóna króna. Breski dómarinn tók enga efnislega afstöðu í gamla meiðyrðamálinu, heldur var aðeins að bæta Jóni skaðann, sem hann hefði haft af því, að breska ríkið hefði af handvömm lokað fyrir honum leið til að reka mál gegn mér í Bretlandi, þar eð vonlaust yrði að ljúka því á Íslandi. Þess má geta, að kostnaður minn af þessu máli hleypur á 20–25 milljónum króna, en Jóns eflaust á talsvert hærri upphæðum.

Í mínum huga snýst þetta mál hins vegar ekki um gamlar illdeilur okkar Jóns, sem við höfum sennilega hvorugur haft sóma af, heldur meginreglur:

Hvers vegna tekur breskur dómstóll sér lögsögu yfir því, sem sagt er á allt öðrum stað, af því að það er sagt á heimsmálinu ensku? (Raunar er óskiljanleg villa í dómi yfirréttar yfir mér, þar sem segir, að heimasíða mín hafi verið hýst í Bretlandi.)

Hvers vegna telur breskur dómari sig geta veitt undanþágu frá íslenskum lögum?

Hvers vegna er kostnaður við meiðyrðamál óbærilegur í Bretlandi fyrir aðra en auðmenn, svo að þeir reyna að velja þennan vettvang öðrum fremur?

Hvers vegna eru dómar í meiðyrðamálum í Bretlandi miklu strangari en annars staðar?

Hvers vegna verndar íslenska ríkið ekki borgara sína gegn þessu einkennilega réttarfari eins og Bandaríkjamenn gera, en þar hafa í mörgum ríkjum verið samþykkt lög til að tryggja, að dómar í breskum meiðyrðamálum séu ekki aðfararhæfir?


Sjálfstæðisflokkurinn er á miðjunni

styrmir-gunnarsson.jpgStyrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, skrifar ágæta hugvekju í Sunnudagsblað Moggans. Hann segir þar, að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að færa sig inn á miðjuna. Þar sé fylgið. Meðal annars nefnir Styrmir, að flokkurinn þurfi að marka þá stefnu í velferðarmálum, að velferðaraðstoð sé rausnarleg, en nái aðeins til þeirra, sem þurfi á henni að halda. Þess vegna beri að tekjutengja ýmsar bætur í  meira mæli. Ég er hjartanlega sammála Styrmi. En þetta er það, sem gert var á hinu miklu umbótaskeiði 1991–2004. Þá voru til dæmis barnabætur tekjutengdar í miklu meira mæli en í Svíþjóð. Í Svíþjóð fær hvert barn sömu bætur óháð efnahag og hjúskaparstöðu foreldra. Á Íslandi fara bæturnar eftir efnahag og hjúskaparstöðu foreldra. Þess vegna fær einstæð móðir með fimm börn miklu hærri bætur á Íslandi en í Svíþjóð, þótt í heild verji Svíar meira fé í barnabætur en Íslendingar. Ég tel, að íslenska aðferðin sé miklu betri. Annað dæmi er ellilífeyrir. Hér voru myndaðir öflugir lífeyrissjóðir, svo að á Norðurlöndum árið 2004 voru lífeyristekjur á mann hæstar á Íslandi. Hér var þá líka fátækt meðal aldraðra minni en alls staðar annars staðar í Evrópu. Með hinni íslensku leið, sem mörkuð var 1991 og var hvorki sænsk né bandarísk, var mynduð hæfileg sátt frjálshyggju og jafnaðarstefnu, sköpunar verðmætanna og skiptingar þeirra. Menn hafa ekki gert sér fulla grein fyrir því, hversu beinskeyttri velferðarstefnu ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar fylgdu, af því að í eyrum þeirra hefur glumið áróður þeirra Stefáns Ólafssonar, Þorvaldar Gylfasonar og Indriða H. Þorlákssonar. Ég rek ýmsar rangfærslur þeirra Stefáns, reikningsskekkjur og yfirsjónir í verki, sem ég hef í smíðum og nefnist „Vék Ísland af hinni norrænu leið 1991–2004?“ Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki að færa sig inn á miðjuna, því að hann er þegar þar. Hann þarf hins vegar að útfæra stefnu sína og kynna hana betur. Þar er hugvekja Styrmis góð leiðsögn.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband