28.10.2014 | 17:37
Ótrúlegur munnsöfnuður Stefáns Ólafssonar
Háskólamenn tala stundum um, að bæta þurfi umræðuvenjur Íslendinga. Sumir þeirra ættu að byrja á sjálfum sér. Til dæmis skrifar Stefán Ólafsson prófessor á bloggsíðu sinni sunnudaginn 26. október kl. 10.04:
Það er því miður þannig, að menn í HÍ veigra sér við að taka á Hannesi Hólmsteini þó óheiðarleg vinnubrögð hans og gróf brot á siðareglum háskólasamfélagsins blasi við - aftur og aftur. Ástæðan er einkum sú, að menn vita að hann eys yfir gagnrýnendur sína ófrægingum í gríð og erg og hættir aldrei þaðan í frá. Hirðir hvorki um staðreyndir né siðareglur. Öðrum finnst hann of ómerkilegur til að láta sig skrif hans nokkru skipta. Þeir líta á hann sem áróðursmann en ekki fræðimann. Ég tel að hann hafi þrátt fyrir það haft of mikil áhrif til ills í samfélaginu og læt mig því hafa það að reyna að leiðrétta og gagnrýna verstu afbakanirnar - og þigg óhróðurinn að launum.
Þetta eru stór orð. Hver er þessi óhróður minn? Rifjum það aðeins upp:
- Stefán hélt því fram veturinn 20067, í aðdraganda kosninga, að tekjudreifing á Íslandi hefði árin 19952004 orðið miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum. Ég benti á, að svo væri ekki, þegar tölur væru reiknaðar á sambærilegan hátt. Stefán hafði reiknað með söluhagnaði af hlutabréfum fyrir Ísland, en ekki var reiknað með þeim í tölum fyrir Norðurlandaþjóðirnar. Þegar sambærilegar tölur voru bornar saman, reyndist tekjudreifing á Íslandi 2004 í svipuðu horfi og á öðrum Norðurlöndum, hvort sem það var lofsvert eða ekki. (Ég held, að Stefán hafi í ógáti tekið rangar tölur af vef hagstofu Evrópusambandsins, þar sem þær voru í stuttan tíma, en hann hefur aldrei hirt um að leiðrétta þetta greinilega, heldur skipt um tölur og umræðuefni.)
- Stefán hélt því fram á útmánuðum 2003, í aðdraganda kosninga, að fátækt væri meiri á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Ég benti á, að Stefán Snævarr hagfræðingur og aðrir hefðu reiknað út, að hún væri svipuð og á öðrum Norðurlöndum og jafnvel í minna lagi miðað við þau. Þetta var síðan staðfest af hagstofu Evrópusambandsins í viðamikilli skýrslu 2007: Árið 2003 var fátækt á Ísland næstminnst í Evrópu, minni í Svíþjóð einni. (Og fátækt á meðal lífeyrisþega var minnst á Íslandi.)
- Stefán hélt því fram 2007, að hátekjufólki hefði verið hyglað í stjórnartíð sjálfstæðismanna, því að skattálagning á fjármagnstekjur var færð í 10% á meðan greiða þurfti af launatekjum yfir skattleysismörkum hátt í 40%. Ég benti á, að fjármagnstekjuskattur væri í raun að minnsta kosti 26,2% (því að menn þurftu að greiða 18% tekjuskatt fyrirtækja, áður en þeir gátu greitt sjálfum sér út arð: 10018=82, og 10% af því eru 8,2, en 18+8,2=26,2). Jafnframt benti ég á, að seinni tala Stefáns er líka röng, því að menn greiddu 0% af fyrstu 100 þúsundunum (um það bil), en síðan stighækkaði þetta upp í 36%, sem var í raun aðfella; menn nálguðust þetta stig, en komust aldrei alveg upp á það.
- Stefán hélt því fram 2006, í aðdraganda kosninga, að þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, og forverar hans hefðu beitt brellu til að láta skattahækkun sýnast skattalækkun. Þeir hefðu ekki fært skattleysismörk upp með launavísitölu og þannig hækkað tekjuskatt á einstaklingum í raun. Ég benti á, að órökrétt væri að færa skattleysismörk upp með launavísitölu. Eðlilegra væri að færa þau upp með framfærsluvísitölu. En þá yrði líka að taka með í reikninginn, að lífeyrisgreiðslur urðu skattfrjálsar á tímabilinu. Útreikningar Sveins Agnarssonar hagfræðings sýndu, að þá höfðu skattleysismörk ekki lækkað, sem neinu nam, að raungildi.
- Stefán hélt því fram vorið 2007, í aðdraganda kosninga, að þáverandi fjármálaráðherra, Árni Mathiesen, hefði beitt blekkingum, þegar hann segði lífeyristekjur á Íslandi hæstar á Norðurlöndum samkvæmt mælingum fyrir árið 2004. Ég benti á, að tölur þær, sem Stefán notaði gegn Árna, voru tölur um heildarlífeyrisgreiðslur, sem deilt var í með tölum um fjölda fólks á lífeyrisaldri. En þær tölur segja lítið sem ekkert á Íslandi, því að margir hér á landi taka sér ekki lífeyri, þótt þeir séu á lífeyrisaldri (til dæmis tóku 26 þús. af 31 þús. á lífeyrisaldri sér lífeyri á Íslandi árið 2004, en 5 þús. tóku sér ekki lífeyri). Þegar aðeins væri reiknað með þeim, sem tækju sér lífeyri, væri niðurstaða fjármálaráðherra rétt.
- Stefán neitaði því, að hann hefði sem forstöðumaður Félagsvísindastofnunar 1996 brugðist trúnaði, þegar hann laumaði upplýsingum um skoðanakönnun, sem Hreinn Loftsson lét gera, til ritstjóra Morgunblaðsins, sem voru þá í miklu nánari sambandi við Stefán en mig. Ljóstraði Matthías Johannessen upp um þetta í dagbókum sínum á Netinu. Ég birti síðan bréf frá Hreini, sem staðfesti þetta.
Eys hagstofa Evrópusambandsins óhróðri yfir Stefán? Eða þeir Sigurður Snævarr og Sveinn Agnarsson? Eða þeir Árni Mathiesen og Hreinn Loftsson? Nei, Stefán eys óhróðri yfir sjálfan sig og engan annan.
15.10.2014 | 01:43
Jónas trúgjarnastur? Illgjarnastur!
Þeir Jónas Kristjánsson og Björn Valur Gíslason sitja nótt og dag úfnir og geðvondir fyrir framan tölvur sínar og slá inn skammir um náungann. Þeir eru svo gersneyddir kímnigáfu, að þeir töldu meinlaust spaug í viðtali Loga Bergmanns við Sigmund Davíð Gunnlaugsson vera alvöru (leikari, sem aldrei sást framan í og átti að vera Sigmundur Davíð, kastaði smáörvum í mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur). 1.060 manns hafa sett Líkar þetta við nöldurpistil Jónasar. 572 hafa sett Líkar þetta við nöldurpistil Björns Vals. Hvar er þetta fólk statt í tilverunni? Sjálfur varð ég fyrir því um daginn, að Jónas tók upp fáránlegan uppspuna, sem birtist í DV um starfskjör mín í Háskólanum. (Ég sá raunar, að Svanur Kristjánsson hafði hlaupið eftir sama þvættingi. Þeir, sem trúa því, að ég hafi skrifað undir einhverja samninga gegn vilja mínum, þeir menn trúa öllu.)
Þeir Jónas og Björn Valur veita þeim Guðbrandi Magnússyni og Þórbergi Þórðarsyni, sem báðir voru frægir fyrir trúgirni, harða samkeppni. Sagt var, að Guðbrandur væri þó sýnu trúgjarnari en Þórbergur, því að hann tryði öllu, sem honum væri sagt, en Þórbergur því einu, sem logið væri að honum. En þótt óvíst sé, hvort Jónas Kristjánsson sigri þá Guðbrand og Þórberg í keppninni um titilinn trúgjarnasta Íslendinginn (og muna þó ekki allir eftir mjölinu), er hitt næsta víst, að hann sigrar alla í keppninni um titillinn illgjarnasta Íslendinginn. Og um Björn Val má segja, að allir vissu, að hann væri vinstri-grænn, en enginn gerði sér líklega grein fyrir, að hann væri svona grænn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook
14.10.2014 | 19:22
Fróðleg ferð til New York

14.10.2014 | 10:03
Kynni af forsetaframbjóðanda í Brasilíu
Íslenskir fjölmiðlar sýna forsetakjörinu í Brasilíu ótrúlegt tómlæti. Þetta er fimmta stærsta hagkerfi heims og eflaust veruleg viðskiptatækifæri þar fyrir Íslendinga. Brasilíumönnum finnst saltfiskur hið mesta hnossgæti. Úrslitin í fyrri umferð komu talsvert á óvart, sérstaklega vegna þess að Dilma Rousseff virðist ekki hafa forsetaembættið í hendi, eins og búast var við. Hún fékk aðeins 42% atkvæða. Kjósendur úr miðstétt eru óánægðir með hina miklu spillingu, sem fylgt hefur stjórn Verkamannaflokksins, en hún er frambjóðandi hans. Aecio Neves, frambjóðandi lýðræðissinna (miðjuflokks), fékk talsvert fylgi, 33%. Hann býður af sér góðan þokka, en hefur orð á sér fyrir að vera glaumgosi (hvort sem telja á honum það til tekna eða ekki). Ekki veit ég, hvernig fylgi þriðja frambjóðandans, Marina Silva, skiptist í seinni umferðinni.
Í upphafi kosningabaráttunnar virtist frambjóðandi Sósíalistaflokksins, Eduardo Campos, sigurstranglegur. En hann fórst í flugslysi 13. ágúst 2014. Ég hafði tekið þátt í pallborðsumræðum í Porto Alegre með honum og dr. Yaron Brook frá Ayn Rand-stofnuninni 9. apríl 2013. Campos var þar staddur til að fullvissa brasilíska kaupsýslumenn um, að hann myndi hyggja að atvinnulífinu. Brook er lengst til vinstri og ég lengst til hægri (eins og vera ber), en Campos er að tala í hljóðnema við hliðina á mér. Eins og Economist sagði í minningargrein um Campos, var hann með stór og falleg augu, sem skiptu litum. Sannaðist á þessu slysi, að enginn veit sína ævina, fyrr en öll er:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook
8.10.2014 | 09:56
Ómaklega vegið að fyrri forystumönnum
Kristín Hrefna Halldórsdóttir ræðst ómaklega á fyrri forystumenn Sjálfstæðisflokksins í bloggi sínu á Deiglunni 2. október. Hún virðist halda, að stjórnmál snúist um áferð eða aldur og að einn merkimiði dugi á hina óteljandi einstaklinga, sem eru af hverri kynslóð.
Stjórnmál snúast, þegar upp er staðið, um hugsjónir. Þeir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, sem létu að sér kveða árin 19912004, þar á meðal Davíð Oddsson, Þorsteinn Pálsson og Geir Haarde, höfðu ekki það markmið helst að taka völdin og halda þeim, heldur að minnka völd sín.
Þessir menn skiluðu völdunum til einstaklinganna, borgaranna í landinu, með því að lækka skatta og selja ríkisfyrirtæki, setja stjórnsýslulög og upplýsingalög, efla lífeyrissjóði og treysta kvótakerfið í sjávarútvegi. Þeir opnuðu líka hagkerfið. Þeir færðu hið íslenska í svipað horf og í grannríkjunum.
Þeir geta litið stoltir um öxl og ættu að vera fordæmi og fyrirmynd yngri manna. Menn stækka ekki á því að reyna að smækka þá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.10.2014 kl. 10:01 | Slóð | Facebook
7.10.2014 | 16:42
Er Ísland í Evrópu? Hvaða Evrópu?
Grímur Thomsen, sem starfað hafði í dönsku utanríkisþjónustunni, skrifaði eitt sinn: Ísland er bæði í landfræðilegum og sögulegum skilningi Janus, sem snýr annarri ásjónu sinni að hinni gömlu og menntuðu Evrópu, hinni að Ameríku, ungri og saklausri. Annað skáld, Hannes Pétursson, orti: Minn staður er hér, þar sem Evrópa endar og auðnir hnattarins taka við. Bæði telja skáldin bersýnilega, að Ísland sé hvorki í Evrópu né utan hennar, heldur á mörkum hennar.
En hvaða Evrópu? Þýski járnkanslarinn Otto von Bismarck páraði á bréf frá rússneskum ráðherra: Tal um Evrópu rangt: landfræðilegt hugtak. En þessu er öfugt farið. Evrópa er ekki landfræðilegt hugtak, því að ekkert það skilur að Evrópu og Asíu, sem máli skiptir: Úralfjöll mynda engin eðlileg mörk. Evrópa er menningarlegt hugtak, sem smám saman myndaðist eftir fall hins rómverska Miðjarðarhafsveldis. Úrslitum réðu tvær orrustur við herskáa innrásarheri múslima, þegar franski herforinginn Karl Martel (en Martel merkir Hamar) stökkti þeim á brott við Tours í Suður-Frakklandi í október 732 og þegar pólski konungurinn Jóhann Sobieski kom Austurríkismönnum til aðstoðar í umsátrinu um Vínarborg í september 1683, en saman hröktu herir kristinna manna tyrkneska umsátursliðið aftur suður á bóginn.
Í stórvirki sínu á átjándu öld um hnignun og falli Rómaveldis ber breski sagnritarinn Edward Gibbon það saman við Evrópu samtímans. Í Rómaveldi urðu allir að lúta keisaranum, og sá, sem féll í ónáð, komst hvergi undan. En í Evrópu samtímans voru víða undankomuleiðir vegna fjölbreytninnar, griðastaðir. Franskir húgenottar gátu flúið til Danmerkur og spænskir gyðingar til Grikklands. Smám saman spratt líka upp sú hugmynd á svæði, sem teygir sig frá Norður-Ítalíu um Sviss til Niðurlanda og Englands og einkenndist af veiku ríkisvaldi og öflugri borgarastétt, að dreifa skyldi valdinu og setja því hömlur. Þessi hugmynd um takmarkað ríkisvald var síðan gróðursett í Vesturheimi og bar ríkulegan ávöxt.
Enn er spurt: Hvað er Evrópa? Er hún menning fjölbreytninnar, sem er í senn kristileg og umburðarlynd? Þeirra sem hrundu áhlaupum múslima 732 og 1683? Eða hefur fjölbreytnin þokað fyrir einhæfingu skriffinnanna í Brüssel?
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. október 2014.]
7.10.2014 | 13:47
Kúba Norðursins
Ýmsir íslenskir sósíalistar, til dæmis Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og Páll Halldórsson eðlisfræðingur, stunduðu á öndverðum níunda áratug sjálfboðavinnu fyrir Castro á sykurekrum Kúbu og skeyttu því engu, að hinn málskrafsmikli einræðisherra bar ábyrgð á dauða þrjátíu þúsund manna, geymdi stjórnmálafanga þúsundum saman í þrælakistum, en rösk ein milljón manna hafði flúið landið, tíundi hluti þjóðarinnar, flestir á litlum bátum, og var mælt, að þeir hefðu greitt atkvæði með árunum.
Áður en Alþýðubandalagið hneig undan fargi fortíðar sinnar haustið 1998 og flokksmenn gengu ýmist í Samfylkinguna eða Vinstri græna, lét það verða sitt síðasta verk að þiggja boð kúbverska kommúnistaflokksins um að senda tvo fyrrverandi formenn, þau Margréti Frímannsdóttur og Svavar Gestsson, til Kúbu ásamt fleira fólki. Hugðist sendinefndin hitta Castro, en hann gaf ekki kost á því, og þótti þetta sneypuför. Löngu síðar gerðist Margrét fangelsisstjóri á Íslandi, en Svavar aðalsamningamaður í Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Sneri hann sumarið 2009 heim með samning, sem hefði leitt Íslendinga í skuldafangelsi um ókomna tíð.
Tveir háskólaprófessorar mæltu af miklum móð með samningnum. Þórólfur Matthíasson sagði í Fréttablaðinu 26. júní: Samþykki Alþingi ekki ríkisábyrgð á Icesave-lánið gæti skapast stríðsástand í efnahagslífinu hérlendis, Ísland fengi hvergi fyrirgreiðslu, fyrirtæki færu unnvörpum í þrot og við yrðum sett á sama stall í samfélagi þjóðanna og Kúba og Norður-Kórea. Sama kvöld sagði Gylfi Magnússon í viðtali við Stöð tvö, að Ísland yrði svona Kúba norðursins, yrði Icesave-samningurinn ekki samþykktur. En voru þessi öfugmæli ekki úr undirmeðvitund Freuds? Hefði Icesave-samningur Kúbufarans gamla ekki einmitt gert Ísland að Kúbu norðursins? Var leikurinn ef til vill til þess gerður? Í skuldafangelsi er vistin bærileg fangelsisstjórninni.
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. september 2014. Skylt er að geta þess, að síðan kvað Gylfi ummæli sín hafa verið vanhugsuð. Þórólfur hefur hins vegar ekkert sagt um ummæli sín.]
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.10.2014 kl. 10:31 | Slóð | Facebook
6.10.2014 | 08:35
Siðferði og siðleysi
Þorvaldur Gylfason prófessor andmælti því sjónarmiði í Fréttablaðinu 25. júní 2009, að Íslendingar ættu að fara dómstólaleiðina í Icesave-málinu. Hann skrifaði síðan: Hugsum okkur, að úr því fengist skorið fyrir rétti, að Íslendingum bæri ekki lagaskylda til að greiða IceSave-ábyrgðirnar. Myndu Bretar þá með fulltingi annarra Evrópuþjóða falla frá kröfum sínum á hendur Íslendingum? Svarið er nei, ekki endilega. Krafa Breta væri þá siðferðileg frekar en lagaleg. Þorvaldur rakti síðan margvíslegan orðróm um tengsl íslenskra banka við rússneskar mafíur og hélt áfram: Stjórnvöld sögðust fram að hruni mundu styðja við bankana, ef á þyrfti að halda. Viðskiptavinir Landsbankans á Bretlandi voru því í góðri trú. Þess vegna kunna Bretar og aðrir að líta svo á, að Íslendingum beri siðferðileg skylda til að axla ábyrgð á Landsbankanum hvað sem lögunum líður.
Ekki voru liðin fjögur ár, þegar Þorvaldur var á Beinni línu DV 21. mars 2013. Lesandi spurði og mundi bersýnilega eftir gömlu greininni: Telur þú enn að Íslendingar hafi farið siðlausa leið í Icesave málinu með því að greiða ekki tilbúna skuld Breta og Hollendinga? Eru fleiri skuldir sem siðferði þitt vill borga fyrir hönd þjóðarinnar? Þorvaldur svaraði: Ég kannast ekki við neitt siðleysistal í sambandi við Icesave-málið. Málið snerist um ólíkt áhættumat. Sumir töldu líkt og ríkisstjórnin og vænn hluti stjórnarandstöðunnar á þingi öruggara að ganga að samningum, aðrir ekki. Eðlilegt var, að kjósendur afgreiddu málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Málið fékk á endanum farsælar lyktir fyrir Íslendinga, þegar dómur féll Íslendingum í vil. Sumum kom dómurinn á óvart, öðrum ekki. Flókin dómsmál eru oft þess eðlis, að ágreiningur um þau er eðlilegur.
Sjálfsagt er að ræða ábyrgðarkennd og siðferðisvitund bankamanna, og er síst vanþörf á. En ætti ekki að bæta fræðimönnunum við?
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. september 2014].
5.10.2014 | 07:46
Stefán Ólafsson í París
Um miðja sautjándu öld stundaði ungur Íslendingur nám í fornum fræðum í Kaupmannahöfn, Stefán Ólafsson, og gat sér svo gott orð, að sjálfur Mazarin kardínáli, guðfaðir Lúðvíks 14., bauð honum til Parísar og gerast menningarfulltrúi Norðurlanda. Ráðum var ekki ráðið á heimili Stefáns, nema Brynjólfur biskup Sveinsson væri kallaður til. Skrifaði hann Stefáni, að Mazarin væri merkur maður, en þætti hvatráður og miðlungi haldinorður. Væri og alkunna, að sumir, sem hafist hefðu af litlu, lægðust oft aftur skjótlega. Hollast væri hinum unga manni að snúa aftur og vinna landi sínu. Gerði Stefán það og varð eitt okkar bestu skálda.
Hálfri fjórðu öld síðar var öðrum Stefáni Ólafssyni boðið til Parísar í nokkrar vikur, og er sá prófessor. Hann skrifar um dvölina á eyjan.is og segir, að hann muni þar hitta sjálfan Thomas Piketty hagfræðiprófessor. Piketty er kunnastur fyrir að vilja stórhækka skatta eins og þeir Mazarin og Lúðvík 14., en ólíkt þeim aðeins á ríkt fólk. Telur hann kapítalista liggja á fjármagni eins og orma á gulli. Í bók um Fjármagn á 20. öld vísar Piketty óspart í lýsingar Balzacs á auðugu fólki á öndverðri 19. öld.
Í París hefði Stefán mátt leggja á sig að lesa skáldsögur Balzacs, því að þær eru velflestar um það, hversu valtur vinur auðurinn er. Til dæmis eiga aðalsöguhetjarnar í Gamla Goriot, sem Piketty vitnar aðallega í, í stökustu fjárhagsvandræðum, þótt þær hafi allar verið vel fjáðar áður, Goriot gamli, dætur hans og tengdasynir. Og Stefán hefði líka mátt lesa frönsku dagblöðin á kaffihúsum borgarinnar. Þá hefði hann komist að því, að franskir sósíalistar komust nýlega til valda með því að veifa hugmyndum í anda Pikettys, en hafa nú séð sitt óvænna og skipt um stefnu.
Ólíkt er hlutskipti þessara alnafna. Öðrum var boðið til Parísar vegna fróðleiks síns, þótt hann færi hvergi. Hinn snýr stórum ófróðari frá París.
[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. september 2014. Í fróðlegri grein í Griplu 2008 vísar Sigríður Magnúsdóttir hins vegar af miklum lærdómi á bug hefðbundnum skýringum á því, hvers vegna Stefán Ólafsson skáld fór ekki til Parísar.]
4.10.2014 | 08:34
Sjónvarpsviðtal um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins
Stjórnmál og samfélag | Breytt 8.10.2014 kl. 10:26 | Slóð | Facebook