Afbrigðilegasta öfughneigðin

Þótt söguþráðurinn í Atómstöðinni eftir Halldór Kiljan Laxness sé um margt sóttur í tékkneska skáldsögu, Anna Proletarka eftir Ivan Olbracht, eins og ég hef áður bent á, eru í henni nokkrar rammíslenskar söguhetjur. Ein þeirra er organistinn, sem settur er saman úr tveimur vinum Laxness, Þórði Sigtryggssyni tónlistarkennara og Erlendi skrifstofumanni Guðmundssyni í Unuhúsi. Hvorugur var við konu kenndur, og Þórður leyndi því hvergi, að hann væri samkynhneigður. Ein frægustu orð organistans í Atómstöðinni eru: „Það er ekki til önnur kynferðileg öfughneigð en einlífi.“

Laxness hefur þessi orð sennilega úr skáldsögu Aldous Huxleys, Eyeless in Gaza, sem kom út 1936 og heimildir eru til um, að hann las. Þar segir (27. k.): „Chastity – the most unnatural of all the sexual perversions.“ Skírlífi – afbrigðilegasta kynferðilega öfughneigðin.

Hugsanlega hefur Huxley stuðst við svipaða hugmynd í bók eftir franska rithöfundinn Remy du Gourmont, Physique de l'amour, sem kom út 1903. Þar segir, að skírlífi (chasteté) sé „de toutes les aberrations sexuelles la plus singulière“, af öllum kynferðilegum öfughneigðum hin einkennilegasta.

Víkur nú sögunni til ársins 1974. Þá var ég fulltrúi á þingi ungra íhaldsmanna í Kaupmannahöfn og hitti þar meðal annars Carl Bildt frá Svíþjóð og Karl Rove frá Bandaríkjunum, sem síðar urðu kunnir stjórnmálamenn. Formaður Evrópusamtaka ungra íhaldsmanna þá var maður að nafni Tom Spencer. Ég kynntist honum ekki að ráði, en hann var fjörugur og skemmtilegur. Hann settist síðar á Evrópuþingið fyrir breska íhaldsflokkinn.

Mörgum árum síðar sá ég mér til mikillar undrunar í enskum blöðum, að Spencer hefði eitt sinn verið handtekinn á Lundúnaflugvelli, þegar hann kom þangað frá Amsterdam, og hafði hann fjölda klámrita og vægra fíkniefna (kannabis) í fórum sínum; þetta var löglegt í Hollandi, en ólöglegt á Bretlandi. Þá sagði hann hið sama við blaðamenn og þeir Laxness og Huxley: Skírlífi er eina kynferðilega öfughneigðin. Hætti Spencer afskiptum af stjórnmálum við svo búið, þótt ekki yrði hann organisti.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. september 2012. Sóttur víða í bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út 2010 og enn er eitthvað, en ekki mikið, til af í góðum bókabúðum.)


Þorkell Helgason setur ofan í við Stefán Ólafsson

Stefán Ólafsson bloggaði 22. október 2012 um það, að þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardaginn þar á undan um hugmyndir stjórnlagaráðs hefði verið ósigur Sjálfstæðísflokksins.

Dr. Þorkell Helgason stærðfræðingur, sem sat í stjórnlagaráði, en er sómakær maður og vandaður, setur ofan í við Stefán í athugasemd við bloggfærslu:

Þjóðaratkvæðagreiðslan snerist um stjórnarskrármál. Hún var ekki til að mæla fylgi flokka. Hún var stór áfangi að því markmiði að fá góða stjórnarskrá sem njóti að lokum fylgi alls þorra þjóðarinnar Því markmiði er enn ekki náð og mörg ljón kunna að verða á veginum. Það er málinu ekki til framdráttar að tala um flokkspólitíska sigurvegara eða tapara. það er þjóðin sem á að lokum að vera „sigurvegarinn“.

Þorkell hefur auðvitað rétt fyrir sér um þetta. Jafnvel skoðanabræðrum Stefáns ofbýður.


Sigurður Líndal um þjóðaratkvæðagreiðsluna

Sigurður Líndal er skorinorður um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Fréttablaðinu 22. október 2012. Ég get ekki annað en tekið undir með honum, þegar hann segir:

Um hvað snerist þá þessi atkvæðagreiðsla? Um ófullburða plagg sem fullyrða má að landsmenn höfðu afar óljósa hugmynd um, hvað fæli í sér. Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt. Hér er unnið í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er.


Forsætisráðherra lýsti því í Silfri Egils í gær að afgreiðsla endurskoðaðs stjórnarskrárfrumvarps yrði látin hafa algeran forgang á Alþingi og önnur mál látin bíða ef tími reynist ónógur. Þeirri hugsun verður nú varla varizt að með þessu sé verið að draga athyglina frá raunverulegum vandamálum, einkum atvinnumálum og skuldamálum heimila og fyrirtækja, enda skammt til kosninga. Og þá er spurningin hvort Alþingi standi í hlýðni við forsætisráðherra eða taki sjálft frumkvæði að því að taka á þeim vanda sem helzt brennur á þjóðinni.

Tveir þriðju atkvæðisbærra höfðu ekki áhuga á stjórnarskrárbreytingum

Það fór eins og ég hafði spáð, yrði kjörsókn dræm, að jámenn myndu þá sigra í skoðanakönnun þeirri, sem nú er kölluð ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Þeir ómökuðu sig á kjörstað, ekki hinir, sem láta sér fátt um þetta finnast.

Svo virðist sem einn þriðji atkvæðisbærra kjósenda, um 65–70% af þeim 50% atkvæðisbærra kjósenda, sem fóru á kjörstað, hafi greitt atkvæði með stjórnarskrárbreytingum. Tveir þriðju hlutar kjósenda sátu heima eða greiddu atkvæði á móti stjórnarskrárbreytingum í anda hins svokallaða stjórnlagaráðs.

Það er þessi hópur, tveir þriðju hlutar kjósenda, sem stjórnarandstöðuflokkarnir hljóta að reyna að laða til fylgis við sig í þingkosningunum framundan. Þetta fólk er andvígt skattahækkunum ríkisstjórnarinnar, almennri óstjórn, skertu atvinnufrelsi, fjandskap við erlendar fjárfestingar og hagvöxt, aðild að Evrópusambandinu og þrálátum tilraunum ríkisstjórnarinnar til að semja rétt af Íslendingum, til dæmis í Icesave-deilunum.


Hverjir eru á miðjunni og hverjir öfgamenn?

Stundum er því haldið fram, að ég sé ekki það, sem kallað er „mainstream“, á miðjunni. Jafnframt er því haldið fram, iðulega af sömu mönnum, að ég hafi haft mikil áhrif á stjórnarstefnuna 1991–2004, enda sé ég góður vinur og vopnabróðir þáverandi forsætisráðherra, jafnvel ráðgjafi hans að sumra sögn. En ef maður hefur völd eða mikil áhrif í nær fjórtán ár í lýðræðisríki, þá er nánast skilgreiningaratriði um hann, að hann sé „mainstream“ eða á miðjunni. Hafi hann ekki fært sig á miðjuna, þá hefur miðjan fært sig til hans.

En hverjir eru ekki „mainstream“? Eitt skynsamlegasta svarið er, að þeir, sem þurfa að beita ofbeldi til að ná völdum, séu ekki „mainstream“, heldur öfgamenn. Það var einmitt það, sem gerðist í barsmíðabyltingunni í ársbyrjun 2009. Þeir, sem tóku þá völd, hröktu í götuóeirðum stjórnvöld frá. Sérstaklega var ámælisvert, þegar sumir háskólamenn stukku inn í þennan ofbeldishóp, brýndu raustina og steyttu hnefa. Síðan hafa þeir kúrt sig niður við valdastólana og makað krókinn, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður hefur leitt ágætlega í ljós.

Þessir menn hafa haft hausavíxl á hugtökum. Þeir eru öfgamenn, extremists. Ég er á miðjunni, mainstream.


Hinn frægi fyrirlestur minn kominn á Netið

Nú er fyrirlestur sá, sem ég flutti hjá Sagnfræðingafélaginu 9. október 2012, kominn á Netið. Hér er slóðin. Geta menn þá dæmt sjálfir, hvað þeim finnist um röksemdir mínar. Ég notaði að vísu glærur með línuritum mjög mikið, en það verður að bíða betri tíma að klippa þær inn í upptökuna.

Stefán: Sáuð þið hvernig ég tók hann?

Stundum líkir lífið eftir listinni. Frægt er atvikið úr Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar, þegar Jón sterki sagði: „Sáuð þið, hvernig ég tók hann?“ — eftir að Haraldur útilegumaður lagði hann. Það rifjaðist upp fyrir mér eftir nokkur orðaskipti í dag og heldur undarleg á Facebook.

Björn Ingi Hrafnsson hafði boðið okkur Stefáni Ólafssyni að hafa framsögu á fundi um jöfnuð og tekjudreifingu, eftir að ég hafði flutt fyrirlestur um það efni hjá Sagnfræðingafélaginu og Stefán andmælt þar kröftuglega utan úr sal. Ég kvaðst vera fús til þess. En Stefán svaraði: „Blessaður Björn Ingi og takk fyrir boðið. Mér finnst þetta hins vegar ekki mjög spennandi samsetning. Þá er ég m.a. með í huga fyrirlestur Hannesar um fátækt sem ég var að hlusta á í fyrradag. Hann var á svo lágu plani að mér finnst þetta samhengi ekki nógu spennandi.“

Ég svaraði Birni Inga að bragði: „Ég er alls ekki hissa á, að Stefán treysti sér ekki til að mæta mér. Sumar staðreyndirnar, sem ég rakti, eru honum mjög óþægilegar.“ En þá brá Stefán sér skyndilega í hlutverk Jóns sterka. Hann skrifaði strax inn á Facebook: „Þora hvað? Ég mætti þér í Þjóðminjasafninu og kýldi þig kaldan. Salinn setti hljóðan í kjölfarið! Það er ekkert að þora - heldur spurning um hvað er viðeigandi. Góðar stundir.“

Kýldi mig kaldan? Matthías Jochumsson hefði ekki getað orðað þetta betur: „Sáuð þið, hvernig ég tók hann?“

En hverjar skyldu þessar óþægilegu staðreyndir vera, sem Stefán treystir sér ekki til að ræða? Ég nefni hér aðeins tvær af mörgum:

  • Stefán Ólafsson sagði í grein í Morgunblaðinu 7. maí 2003: „Það fær þannig ekki staðist að fátækt almennt eða barnafátækt sérstaklega sé minni á Íslandi en í öllum öðrum löndum að Svíþjóð undanskilinni.“ En þetta reyndist ekki rétt. Samkvæmt fátæktar- og lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins fyrir 2003–2004, sem birt var 2007, var fátækt þá hvergi minni en á Íslandi að Svíþjóð undanskilinni. Upphlaupið um fátækt, sem skipulagt var af Borgarfræðasetri (Stefáns Ólafssonar) vorið 2003, rétt fyrir kosningar, studdist ekki við staðreyndir.
  • Stefán Ólafsson sagði í grein í Morgunblaðinu 31. ágúst 2006: „Lengst af voru Íslendingar á svipuðu róli í skiptingu tekna og lífskjara og frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum (sjá t.d. bókina Íslenska leiðin, útg. 1999). Árið 2004 er Ísland hins vegar komið í hóp ójafnari þjóðanna í Evrópu og nálgast Bandaríkin óðfluga, en þeir hafa verið með ójöfnustu tekjuskiptinguna í hópi ríku þjóðanna á Vesturlöndum um langt árabil.“ En þetta reyndist ekki rétt. Samkvæmt fátæktar- og lífskjarakönnun Evrópusambandsins fyrir 2003–2004, sem birt var 2007, var tekjuskipting á Íslandi þá áþekk og annars staðar á Norðurlöndum. Upphlaupið um ójöfnuð, sem skipulagt var af Stefáni Ólafssyni veturinn 2006–2007, skömmu fyrir kosningar, studdist ekki við staðreyndir. Raunar viðurkennir Stefán þetta óbeint í nýbirtri ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar segir hann (bls. 61): „Ísland er í 16. sæti [um ójafna tekjuskiptingu í OECD-ríkjum] árið 2007 en hafði verið enn á svipuðu róli og hinar norrænu þjóðirnar 2004 (5. sæti).“ Um þetta snerist einmitt deila okkar Stefáns veturinn 2006–2007. Ég sagði, að Ísland hefði verið með áþekka tekjuskiptingu 2004 og hinar Norðurlandaþjóðirnar, en Stefán hélt því þá fram, að hún hefði orðið miklu ójafnari. Hann var þá með rangar tölur, bar saman ósambærilegar mælingar.

Fjörugar umræður: Stefán í uppnámi

Ég flutti fyrirlestur hjá Sagnfræðingafélagi Íslands í hádeginu 9. október 2012 um „Fátækt á Íslandi 1991–2004“. Þar greindi ég fyrst fátæktarhugtök Adams Smiths, G. W. F. Hegels og Johns Rawls, en hinn síðast nefndi hélt því fram, að sú skipan ein væri réttlát, þar sem hinum verst settu vegnaði sem best. Ég sagði, að það sjónarhorn væri fróðlegt, þótt fleiri væru til. Þá kynnti ég nýja alþjóðlega mælingu á tengslum atvinnufrelsis og lífskjara, sérstaklega lífskjara hinna verst settu. Í ljós hefði komið, að hinir verst settu væru almennt best settir í frjálsustu hagkerfunum (þeim fjórðungi þeirra 144 hagkerfa, sem frjálsust reyndust í mælingunni fyrir árið 2010).

Atvinnufrelsi hefur snarminnkað á Íslandi síðustu árin. Hagkerfið hér var árið 2004 hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum. Árið 2010 var það hins vegar hið 65. frjálsasta af 144 hagkerfum. Það var í næstfrjálsasta fjórðungi hagkerfa, við hlið Sádi-Arabíu. Norðurlöndin voru hins vegar öll í frjálsasta fjórðungnum. Ófrjálsast var sænska hagkerfið, sem var 30. af 144 hagkerfum 2010. Þetta veit ekki á gott um kjör hinna fátækustu eða verst settu síðar meir hér á landi.

Þá rifjaði ég upp áróðurinn fyrir kosningarnar 2003 um, að fátækt væri þá hér meiri en annars staðar á Norðurlöndum. Meðal annars hefði Borgarfræðasetur, sem Stefán Ólafsson prófessor veitti forstöðu, gefið út bók þessa efnis, sem þáverandi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefði í kosningaræðu kallað „biblíuna sína“. En þetta hefði ekki reynst rétt samkvæmt víðtækri lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins um árin 2003–2004, sem birtist í ársbyrjun 2007. Fátækt mældist hér einna minnst hlutfallslega í Evrópu árin 2003–2004.

Síðan ræddi ég um áróðurinn fyrir kosningarnar 2007 um, að tekjudreifing hefði 2004 mælst ójafnari hér en annars staðar á Norðurlöndum. Hefði Stefán Ólafsson skrifað um það ófáar greinar. En í ljós hefði komið, að tekjudreifing var hér 2004 svipuð og annars staðar á Norðurlöndum, væri miðað við svokallaða Gini-stuðla. Hefðu ósambærilegar tölur verið bornar saman til þess að fá aðra niðurstöðu (tölur frá Íslandi með söluhagnaði af hlutabréfum, tölur frá öðrum löndum án hans). Hefði Stefán raunar viðurkennt þetta óbeint í nýbirtri ritgerð í Stjórnmálum og stjórnsýslu.

Ég gagnrýndi líka ýmsa aðra talnameðferð Stefáns, til dæmis um kjör ellilífeyrisþega, þar sem horft var fram hjá því, að mjög margir á lífeyrisaldri á Íslandi taka ekki lífeyri, heldur halda áfram að vinna. (Þeir voru t. d. 5.000 talsins af 31.000 alls árið 2004.) Það lækkar meðaltöl á hvern íbúa. Þess vegna verður að reyna að finna raunverulegar lífeyristekjur þeirra, sem taka lífeyri.

Ég bar hins vegar engar brigður á það, að tekjudreifingin hefði orðið ójafnari hér í lánsfjárbólunni, sem hófst upp úr 2004, eins og ég sýndi á línuriti. Aðalatriðið væri hins vegar, hvort við kysum frekar að búa í frjálsu hagkerfi, þar sem tækifæri væru til að brjótast út úr fátækt með dugnaði og hagsýni, eða í ófrjálsu hagkerfi, þar sem reynt væri að auðvelda fólki að sitja föstu í fátækt. Var fyrirlestur minn tekinn upp og er væntanlegur á heimasíðu Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt bráðlega.

Að fyrirlestri mínum loknum kvaddi Stefán Ólafsson sér hljóðs, stóð upp og flutti langa tölu um, hversu ómerkilegur ég væri. Hann hefði ekki borið neina ábyrgð á bók þeirri um fátækt frá 2003, sem ég hefði vitnað í. Ég benti þá á, að hún væri meistaraprófsritgerð, sem skrifuð hefði verið undir hans leiðsögn, og að hann hefði verið forstöðumaður þeirrar stofnunar, sem gaf hana út, auk þess sem hann skrifaði grein í Morgunblaðið henni til varnar 7. maí 2003.

Þá kvaðst Stefán fyrir löngu hafa leiðrétt reikningsskekkjurnar um ójafna tekjudreifingu árið 2004, sem ég minntist á. Hann hefði ekki borið neina ábyrgð á þessum reikningsskekkjum, heldur hagstofa Íslands. Ég sagðist ekki hafa orðið var við neinar leiðréttingar Stefáns, nema óbeint. Hann hefði í greinum 2006 haldið því fram, að tekjudreifing hefði 2004 verið orðin miklu ójafnari en annars staðar á Norðurlöndum vegna frjálshyggjustefnu stjórnvalda, og ég hefði mótmælt því, en hann síðan í kyrrþey breytt lýsingu sinni (meðal annars í hinni nýbirtu ritgerð sinni í Stjórnmálum og stjórnsýslu). 

Ég minnti síðan á, að samkvæmt kenningu Johns Rawls, sem jafnaðarmenn horfðu flestir mjög til, væri betra að búa í ríku hagkerfi, þar sem hinir fátækustu nytu þrátt fyrir allt sæmilegra lífskjara, þótt þar væri talsverður tekjumunur, en í fátæku hagkerfi, þar sem hinir fátækustu gætu huggað sig við það eitt, að aðrir væru ekki miklu ríkari.

Stefán var í talsverðu uppnámi, þegar hann flutti tölu sína, og kallaði hann nokkrum sinnum fram í fyrir mér, þegar ég svaraði honum, en ég fagna því samt, að hann skyldi mæta á fundinn og svara fyrir sig. Sumir aðrir hefðu ekki treyst sér til þess í hans sporum.


Hvað segir einn virtasti hagfræðingur okkar um kvótakerfið?

Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt hélt afar fróðlega ráðstefnu í Háskóla Íslands um sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar laugardaginn 6. október 2012. Þar fluttu sérfræðingar FAO, OECD og Alþjóðabankans fyrirlestrar, en einnig þrír íslenskir sérfræðingar, dr. Þráinn Eggertsson og dr. Ragnar Árnason, sem báðir eru prófessorar í hagfræði í Háskóla Íslands, og dr. Rögnvaldur Hannesson, sem er prófessor í fiskihagfræði í Viðskiptaháskólanum í Björgvin. Þeir Ragnar og Rögnvaldur eru á meðal virtustu fiskihagfræðinga í heimi, og Þráinn hefur skrifað nokkrar bækur um stofnanahagfræði, sem kenndar eru víða í háskólum erlendis.

Óhætt er að kalla Þráin Eggertsson einn virtasta hagfræðing okkar Íslendinga á alþjóðavettvangi. Hann sagði á ráðstefnunni (og raunar líka í viðtölum við Morgunblaðið og Stöð tvö), að sennilega væri kvótakerfið íslenska eitt hið skilvirkasta, sem komist hefði á legg í fiskveiðum í heiminum. Það væri hættulegt að raska þeirri verðmætasköpun, sem ætti sér stað í íslenskum sjávarútvegi, og breytingarhugmyndir núverandi ríkisstjórnar væru vanhugsaðar og illa undirbúnar.

Orð Þráins, sem hefur forðast að láta reka sig ofan í skotgrafir eins og svo margir aðrir fræðimenn, hljóta að verða mörgum umhugsunarefni.


Tolstoj og Gunnar Gunnarsson

Ég benti á það í öðru bindi ævisögu Halldórs Kiljans Laxness 2004, að sögulok í Heimsljósi eru mjög lík og í einni kunnustu smásögu Einars H. Kvarans, „Vonum“. Ólafur Kárason Ljósvíkingur hverfur upp í íslenska jökulinn, eftir að hann lendir í ástarsorg, eins og Ólafur Jónsson vinnumaður hverfur á sléttuna í Kanada, þegar hann fær ekki stúlkunnar, sem hann ætlaði að hitta þar vestra. „Sléttan ómælilega, endalausa, sem er full af friði og minnir á hvíldina eilífu.“ Í báðum sögum er gefið í skyn, að söguhetjan hafi stytt sér aldur.

En sögulok í annarri íslenskri skáldsögu minna á erlent verk. Hinni miklu skáldsögu Önnu Karenínu eftir rússneska skáldjöfurinn Lev Tolstoj lýkur svo (8. hluti, 19. k.): „En líf mitt hefur nú, hvað sem mun bera mér að höndum, öðlast tilgang, sem það var áður án. Ekki aðeins líf mitt sem heild, heldur einnig sérhver stund þess, hefur nú öðlast ótvíræðan tilgang, — tilgang í þjónustu hins góða. Og nú á ég það undir sjálfum mér, ætíð og alls staðar, að gefa lífi mínu þennan tilgang.“

Gunnar Gunnarsson lýkur svo Aðventu, sem er ein kunnasta saga hans (Fimm fræknisögur, bls. 12): „Því hvað var líf hans, rétt á litið, hvað var líf mannsins á jörðinni ef ekki ófullkomin þjónusta sem helgaðist af bið eftir einhverju betra, eftirvænting, undirbúningi – þeirri ákvörðun að láta gott af sér leiða.“

Í Heimsljósi og Vonum bíður söguhetjan ósigur og hrökklast inn í sjálfa sig, verður að engu. Önnu Karenínu og Aðventu lýkur hins vegar báðum á því, að brýnt er fyrir lesendum, að tilgangur lífsins sé að láta gott af sér leiða, þótt ekki hafi allir skilning á því og þurfi oft að öðlast hann með sárri lífsreynslu. Þetta kemur ekki á óvart. Tolstoj var mjög áhrifamikill höfundur, þá er Gunnar Gunnarsson var að stíga fyrstu skref sín út á skáldskaparbrautina, og margt er líkt með skoðunum þeirra á eðli og tilgangi lífsins.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband