Hroki og hleypidómar

asgeirw.jpg„Það var ekki fyrr en eftir hrunið, sem allir sáu það fyrir,“ segir Þórarinn Eldjárn í snjallri smásögu. Allt er orðið krökkt af eftiráspekingum hér á landi. Tveir þeirra eru ungir og hrokafullir hagfræðingar, Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson. Ásgeir Daníelsson hagfræðingur, sem seint verður vændur um hægrivillu eða Davíðsdýrkun, hefur á Netinu svarað þeim skilmerkilega, enda er Ásgeir heiðarlegur maður, sem hefur meiri áhuga á að skilja það, sem gerðist, en að koma sér í mjúkinn hjá hinum nýju valdhöfum. Ég gef Ásgeiri orðið á bloggi Gauta: „Ég held að þetta sé dæmi um mjög varhugaverða aðferðafræði við rannsókn á hruninu, þ.e. að dæma aðgerðir í fortíðinni út frá því sem við vitum í dag. Út frá þeim sjónarhól eru öll vandamál í peningastjórnun – og reyndar allri annarri stjórnun líka – svo ofboðslega auðveld úrlausnar. Ég held líka að skýringar þínar á mistökum Seðlabankans steyti á þeirri staðreynd að íslenski seðlabankinn var að gera mjög svipaða hluti og seðlabankar annars staðar. Það var ekki bara íslenski seðlabankinn sem notaði endurhverf lán til þess að hjálpa lánastofnunum yfir lausafjárerfiðleika og það var ekki bara íslenski seðlabankinn sem tók veð í „ástarbréfum“ fjármálafyrirtækja. Evrópski seðlabankinn gerði þetta líka. Og það var ekki bara íslenski seðlabankinn sem tapaði á lánveitingum til íslensku bankanna. Seðlabankar um alla Evrópu hafa þurft að afskrifa háar fjárhæðir vegna slíkra lána, auk þess sem Seðlabanki Evrópu á í dag háar fjárhæðir hér á landi, eignir sem voru upphaflega veð sem hann tók í verðbréfum í íslenskum krónum sem nú eru læst inni vegna gjaldeyrishaftanna. Sumum þessarra banka er stýrt af mjög hæfum hagfræðingum.“

Iceslave-samningarnir

Íslendingar gerðu ekki neina samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana, heldur fóru samningamennirnir svonefndu út og sneru heim með reikninginn. Fyrir hvað er þessi reikningur? Íslensk alþýða hefur aldrei stofnað til þeirra skulda, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur viðurkennt þvert á ráð okkar færustu lögfræðinga, til dæmis þeirra Sigurðar Líndal og Stefáns Más Stefánssonar, og raunar þvert á samþykktir Alþingis frá því í sumar. Íslensk alþýða ber enga ábyrgð á þessum skuldum. Það gera einkaaðilar. Eins og Davíð Oddsson sagði við bankastjóra Landsbankans á fundi í Seðlabankanum snemma árs 2008: „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn.“ Davíð skrifaði einnig Geir H. Haarde harðort bréf 22. október 2008, þegar hann var enn seðlabankastjóri og Geir forsætisráðherra, þar sem hann mótmælti öllum fyrirætlunum um, að Ísland tæki á sig stórkostlegar skuldbindingar vegna Icesave-reikninganna. „Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans,“ sagði Davíð í bréfinu. Raunar hafa ýmsir erlendir aðilar viðurkennt, hversu fráleitt það er, að íslensk alþýða sé skuldbundin af viðskiptum einkaaðila úti í löndum. Til dæmis vann nefnd undir forystu Jean-Claude Trichet, núverandi bankastjóra Evrópska seðlabankans, á sínum tíma skýrslu, þar sem kemur fram sú skoðun, að evrópskar reglur um innstæðutryggingar gildi ekki, þegar um bankahrun er að ræða. Þá hefur Woulter Bos, fjármálaráðherra Hollands, einnig lýst því yfir opinberlega, að evrópska innstæðutryggingakerfinu sé ekki ætlað að standa undir bankahruni. Það er eins og íslenska ríkisstjórnin vilji ekki vita ekki af neinu af þessu. Ég efast ekki um góðan vilja hennar. En hana skortir þor, þrek og getu til að semja við útlendinga. Íslands ógæfu verður flest að vopni.

Einn með Davíðsheilkennið

lobbi1.jpgVart líður svo dagur, að Guðmundur Ólafsson hagspekingur á Útvarpi Sögu agnúist ekki út í Davíð Oddsson. Það er þess vegna vert að rifja upp, að Davíð flutti ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs ári fyrir hrun, 6. nóvember 2007, þar sem hann varaði við ofvexti bankanna og skuldasöfnun þeirra. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði Davíð. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar,“ sagði Davíð einnig. Hann var þá seðlabankastjóri og varð vitanlega að fara varlega á opinberum vettvangi. Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans og var stundum viðstaddur, þegar Davíð hitti menn úr bönkunum, og var hann þá miklu afdráttarlausari í viðvörunum sínum og brýningum til þeirra um að sýna gætni. Ég get þess vegna ímyndað mér, hvernig hann hefur talað við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hann hitti sex sinnum til að vara við ástandinu. En einn maður var þá ósammála Davíð. DV spurði Guðmund Ólafsson hagspeking 17. nóvember 2007 vegna orða Davíðs: „Erum við þá ekki á bjargbrúninni þótt þjóðin skuldi mikið og viðskiptahallinn sé geigvænlegur?“ Guðmundur svaraði: „Nei það er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Þetta er bara vitleysa.“ Guðmundur gerði síðan gys að „bjargbrúnarkenningu“ Davíðs. „Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng.“

Er jörðin ekki að hlýna?

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur verið fremst í flokki þeirra, sem telja, að jörðin sé að hlýna af mannavöldum og að bregðast þurfi rösklega við, takmarka stórkostlega losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, enda valdi þær þessari hlýnun. Nú bregður hins vegar svo við, að einn sérfræðingur BBC um loftslagsmál, Paul Hudson, skrifar pistil um þá staðreynd, að jörðin hefur ekki hlýnað frá 1998. Þótt óteljandi fundir hafi verið haldnir um hlýnun jarðar síðustu ellefu árin, óteljandi skýrslur verið skrifaðar um hana, óteljandi styrkir verið veittir vísindamönnum til að rannsaka hana, stendur eftir, að jörðin hefur ekki hlýnað þetta tímabil. Samt hefur losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið aukist stórlega. Hvað veldur? Þótt ég sé þeirrar skoðunar, að vísindin séu of mikilvæg til að láta vísindamönnunum þau einum eftir, dettur mér ekki í hug að efast um, að gróðurhúsalofttegundir valdi hlýnun og að jörðin hafi hlýnað mjög hratt á síðustu tveimur áratugum tuttugustu aldar. Þetta segja vísindamenn, og þessu trúi ég. En heilbrigð skynsemi segir okkur, að of lítið hafi verið gert úr náttúrlegum sveiflum í loftslagi. Hlýindaskeið var á landnámsöld, og þeystu þá engir bílar um á Íslandi. Til eru vísindamenn, sem hafa varpað fram öðrum tilgátum. Getur verið, að loftslagið breytist frekar eftir virkni sólar? Eða eftir hafstraumum? Eflaust ráða margir þættir loftslagi. Maðurinn er aðeins einn þeirra. Þurfum við ekki frekar að laga okkur að loftslaginu en að reyna að breyta því?

Björn betri en Egill

bjornbjarnason_924176.jpgBjörn Bjarnason er miklu betri þáttastjórnandi í sjónvarpi en Egill Helgason. Viðmælendur hans á ÍNN eru jafnan menn, sem hugsa af alvöru um hin ýmsu mál og eru vel að sér um þau, þótt vitaskuld séu þeir ekki alltaf sammála stjórnandanum. Umræður þar eru rökræður frekar en kappræður. Sífellt fleiri horfa á þessa þætti. Björn er vel menntaður maður með mikla reynslu af blaðamennsku og stjórnmálaafskiptum. Hann er lestrarhestur, sem fylgist vel með innanlands sem utan. Fróðlegt er einnig að bera saman dagleg blogg þeirra Björns og Egils. Björn er þar kurteis, en fastur fyrir. Egill eys svívirðingum yfir þá, sem honum eru ósammála (og fær fyrir 200 þúsund krónur á mánuði). En hvers vegna þætti mörgum fráleitt, að Björn Bjarnason stjórnaði umræðuþætti á sunnudögum í Ríkisútvarpinu? Áreiðanlega vegna þess að hann er kirfilega merktur einum stjórnmálaflokknum. Ríkisútvarpið á að lögum að gæta óhlutdrægni. En Egill Helgason er miklu kirfilegar merktur en Björn. Egill er í herferð gegn Davíð Oddssyni, Sjálfstæðisflokknum og íslenskum kapítalisma. Hann er orðinn að búktalara Þorvaldar Gylfasonar, bæði í þáttum sínum og bloggi. Þeir Egill, Þorvaldur og Jón Þórisson arkitekt hittast reglulega til að skipuleggja herferð sína (og hefur stundum sést til þeirra). Þeir fengu Evu Joly til landsins (á kostnað hvers?) og töldu ráðamenn á að gera hana að sérstökum ráðgjafa um rannsóknir á efnahagsbrotum, þótt hún stefni þeim rannsóknum í voða með ógætilegum ummælum. Þeir fengu einnig Joseph Stiglitz til landsins (á kostnað hvers?). Jón Þórisson, sem var ráðinn aðstoðarmaður Evu Joly, skipulagði þá heimsókn. Bæði Joly og Stiglitz komu fram í þáttum Egils, og sögðu sumt skynsamlegt að mínum dómi og annað ekki, eins og gengur. Mín vegna má Egill Helgason hafa hvaða skoðanir og reka hvaða herferð sem hann vill. En ég vil hafa rétt á að segja fjölmiðli með honum upp eins og ég get sagt Morgunblaðinu, DV eða Stöð tvö upp. Enginn neyðir mig heldur til að greiða áskrift að ÍNN eins og ég þarf að gera að Ríkisútvarpinu.

Gauti hleypur á sig

albumimage_ashx.jpgÞað er leiðinlegt, þegar ungir og gáfaðir menn eins og hagfræðingurinn Gauti B. Eggertsson, bróðir Dags B. Eggertssonar og ákafur Samfylkingarmaður eins og hann, hlaupa á sig, hvort sem því ráða pólitískir fordómar eða ónógar upplýsingar. Gauti hélt því nýlega fram, að mestu mistökin í bankahruninu hefðu verið 300 milljarða króna skyndilán Seðlabankans til bankanna á síðasta sprettinum án fullnægjandi veða. Þetta hafa áróðursmeistarar Samfylkingarinnar bergmálað. Nú hefur Stefán Svavarsson, fyrrverandi aðalendurskoðandi Seðlabankans, leiðrétt þessa menn (í Morgunblaðinu í dag). Í fyrsta lagi voru þetta 250 milljarðar króna. Í öðru lagi voru þessar lánveitingar ekki til viðskiptabankanna þriggja, heldur til minni fjármálastofnana, þótt þær stöfuðu hins vegar umfram allt af lausafjárskorti bankanna og á móti þessum lánveitingum væru tekin veð í bankaskuldabréfum. Í þriðja lagi taldi Seðlabankinn sig vera að leysa þennan lausafjárskort bankanna til skamms tíma, en ekki að veita þrautavaralán vegna eiginfjárvanda. Með öðrum orðum taldi bankinn sig vera að halda eðlilegu greiðsluflæði gangandi, eins og honum er skylt að lögum, en ekki vera að afstýra gjaldþroti bankanna. Samkvæmt bókum bankanna rétt fyrir hrun áttu þeir ekki í neinum eiginfjárvanda. Skuldabréfin frá þeim, sem minni fjármálastofnanir notuðu sem veð, áttu því að vera traust. Stefán rifjar upp, að það var hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því, að eigið fé bankanna væri nægilegt, en Stefán telur það hafa verið til þess vanbúið, enda bendi margt til þess, að bankarnir hafi ofmetið eignir sínar. Stefán minnir einnig á, að lausafjárkreppa bankanna var angi af alþjóðlegri lausafjárkreppu, og í þessari alþjóðlegu kreppu kom í ljós, að ýmsu er áfátt í mælingum og mati á afkomu banka og efnahag, og keppast erlendir sérfræðingar nú við að endurskoða þetta regluverk.

90% af forgangskröfum?

indridi_thorl_922948.jpgFróðlegt er, að búist er við því, að 90% innheimtist af forgangskröfum í gamla Landsbankann. Það er meira en gert var ráð fyrir. Eignir bankans (til dæmis kröfur hans á erlenda skuldunauta og veð að baki þeim kröfum) hafa reynst vera meira virði en margir hugðu. En þá má halda þeim þræði áfram og spyrja, hvers virði bankarnir hefðu orðið, ef Bretar hefðu ekki gengið eins hart fram gegn þeim og raun bar vitni. Hvernig hefði Singer & Friedlander, dótturbanka Kaupþings í Lundúnum, vegnað, ef bresk stjórnvöld hefðu bjargað honum eins og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum haustið 2008? Hvernig hefði Landsbankanum vegnað, ef bresk stjórnvöld hefðu ekki sett hann á lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana? Auðvitað hefði báðum bönkunum orðið miklu meira úr eignum sínum. Bretar bera mikla ábyrgð á bankahruninu íslenska, eins og er loks að renna upp fyrir Íslendingum. Með því ætla ég síður en svo að afsaka íslensku bankana, sem sýndu mikinn glannaskap í nokkur ár fyrir hrun, meðal annars vegna þess að þeir höfðu ekki eðlilegt aðhald af hugrökkum stjórnmálamönnum, gagnrýnum fjölmiðlum, röggsömu fjármálaeftirliti, virðulegu forsetaembætti og sanngjörnum dómstólum, — allt þetta vantaði. En það sést betur og betur þessa dagana, hversu herfilega hinir óhæfu samningamenn Íslendinga, Svavar Gestsson og Indriði H. Þorláksson, sömdu af sér um Icesave-málið. Raunar sömdu þeir ekki, heldur létu sér nægja að snúa heim með reikninginn frá Bretum og framvísa honum. Þess í stað hefðu íslensku samningamennirnir vitanlega átt að krefjast þess, að Bretar bættu það tjón, sem þeir ollu íslensku bönkunum með fautaskap sínum. Ég yrði ekki hissa, þótt það tjón, sem Bretar ollu Landsbankanum, næmi svipaðri upphæð og á vantar, til þess að greiða mætti allar forgangskröfur í bankann. Það er síðan eftir öðru, að þeir krefjast vaxta af lánum, sem þeir veittu óumbeðnir til að mæta tjóni, sem þeir ollu að nokkru leyti sjálfir! Og hvers vegna vilja þeir alls ekki fara dómstólaleiðina? Við hvað eru þeir hræddir? Þetta hefðu íslenskir ráðamenn átt að vera óþreytandi við að skýra út fyrir þjóðarleiðtogum erlendis allt þetta ár í stað þess að eyða tímanum í smákrytur.

Alltaf sleppur Gylfi

bilde152.jpgÖnnur lögmál virðast gilda um þá, sem hin vinstri sinnaða kjaftastétt íslenska hefur dálæti á, en annað fólk. Eitt dæmi um þetta er Gylfi Magnússon, fyrrverandi samkennari minn í Háskóla Íslands og núverandi viðskiptaráðherra. Einn aðalvandi Íslendinga síðustu 5–6 árin hefur verið fákeppni. Baugur þeirra Jóns Náskers og klíku hans réð ekki aðeins öllum matvælamarkaðnum, heldur líka flestum fjölmiðlum landsins. Misnotaði Baugur herfilega vald sitt, eins og margir eru til frásagnar um, nú síðast Friðrik G. Friðriksson í Silfri Egils á sunnudaginn var. Hér brást samkeppnisráð bersýnilega. Hver var formaður samkeppnisráðs frá 2005? Gylfi Magnússon (og var hann raunar líka þau árin formaður dómnefnda, sem veittu helstu útrásarvíkingum Íslands verðlaun reglulega). Þótt eflaust hafi íslensku bankarnir átt sína sök á hruninu, er enginn ágreiningur um hitt, að enginn banki stenst einn síns liðs áhlaup, þegar innstæðueigendur verða tortryggnir og taka fé sitt út allir í einu. Hver var drýgstur Íslendinga í að setja af stað áhlaup á bankana? Gylfi Magnússon, sem sagði í Ríkisútvarpinu föstudaginn 3. október 2008, að bankarnir væru tæknilega gjaldþrota. Að þessum orðum sögðum hófst áhlaup á bankana á Íslandi, og þeir hrundu allir þrír nokkrum dögum síðar. Margir úr kjaftastéttinni íslensku halda því fram, að ráðherra, sem uppvís verði að ósannindum, eigi tafarlaust að segja af sér. Hvaða íslenskur ráðherra hefur nýlega orðið uppvís að ósannindum? Gylfi Magnússon. Ástralska blaðið Daily Telegraph hafði eftir honum 29. maí 2009, að einhverjir stjórnendur íslensku bankanna gætu endað í fangelsi vegna hrunsins. Gylfi sendi þá frá sér yfirlýsingu. Þar sagði: „Ég hef aldrei gengið svo langt að fullyrða eða ýja að því að æðstu stjórnendur íslenskra bankanna fyrir hrun verði fangelsaðir vegna gerða þeirra í aðdraganda hrunsins. Ég vil engu spá um það.“ Þá birti blaðamaður Daily Telegraph, John Rolfe, upptöku sína af samtali þeirra Gylfa:

John Rolfe: „And if you were betting, do you think that people will go to jail?“
Gylfi Magnússon: „I would be very surprised if all this was wrapped up without something like that happening.“


Hvers vegna gerði Ríkisútvarpið því engin skil, þegar ráðherra varð uppvís að ósannindum? Og er eitthvað frekar að marka Gylfa Magnússon í umræðum um hina örlagaríku Icesave-samninga en þegar hann sagði ósatt um samtal sitt við ástralska blaðamanninn?


Nóbelsverðlaunin í hagfræði

3559.jpgEflaust hefur nefndin, sem úthlutar nóbelsverðlaunum í hagfræði, komið mörgum á óvart með því að veita þau þetta árið Oliver Williamson og Elinor Ostrom, því að þau hafa skrifað um margt annað en hefðbundin viðfangsefni hagfræðinga. Ég þekki ekki mikið til verka Williamsons, þótt ég hafi gluggað lauslega í þau, en hef deilt áhuga með Ostrom á almenningum (e. commons). Þetta eru gæði, sem margir nýta saman. Dæmi um slíka almenninga eru beitarlönd á hálendi Íslands og fiskistofnar á Íslandsmiðum. Hættan er sú, eins og Ostrom og aðrir benda á, að samnýting verði ofnýting. Ef tuttugu bændur í íslenskri sveit reka til dæmis sauðfé saman á fjall, þá er hætt við, að einhver einn þeirra freistist til að reka of marga sauði þangað. Ef hann er látinn afskiptalaus, þá hirðir hann einn ágóðann, en kostnaðurinn (ofbeitin) deilist á hann og nítján aðra. Þegar hinir bændurnir fylgja fordæmi hans, verður afleiðingin ofnýting. Þess vegna ákváðu Forn-Íslendingar að taka upp ítölu, sem svo var kölluð: Hver bóndi fékk aðeins að telja tiltekna tölu fjár í almenninginn. Nútímamenn myndu orða það svo, að hver bóndi hafi fengið sinn kvóta af sauðfé að reka á fjall. Þráinn Eggertsson hagfræðiprófessor (sem hefur starfað með Williamson og Ostrom) hefur í ágætum ritgerðum skýrt út hin hagfræðilegu rök fyrir ítölunni. Í raun og veru er sama hugsun að baki kvótakerfinu í sjávarútvegi. Ef aðgangur er ótakmarkaður að takmörkuðum gæðum eins og fiskistofnum, þá verða þau ofnýtt. Þess vegna fengu útgerðarmenn hver sinn kvóta eins og bændur forðum hver sína ítölu. Þannig var komið í veg fyrir, að samnýtingin yrði ofnýting. Íslenska kvótakerfið er ekki fullkomið, en það er skársta kerfið, sem enn hefur fundist til að stjórna úthafsveiðum. Þar eð útgerðarmennirnir hafa hag af því, að auðlindin skili sem mestum arði til langs tíma (af því að þeir hirða þennan arð), nýta þeir hana gætilega. Framlag Ostrom, sem er stjórnmálafræðingur að menntun, er aðallega að greina fræðilega og kreddulaust margvíslegar aðferðir til að nýta almenninga. Hún er vel að verðlaununum komin.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn misnotaður

Af einhverjum ástæðum halda sumir Íslendingar, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé sérstakur bólstaður frjálshyggjumanna. Því fer fjarri, eins og ég hef stundum bent á opinberlega. Þar starfa að vísu margir vel menntaðir hagfræðingar, og hagfræðingar skilja menntunar sinnar vegna betur en margir aðrir hugmyndina um frjálst og sjálfstýrt hagkerfi, þar sem menn græða hver á öðrum: Við kaupum vín af Spánverjum og seljum þeim fisk, af því að arðbærara er að veiða fisk á Íslandsmiðum og rækta vín á Spánarhlíðum en öfugt. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er eins og Alþjóðabankinn aðallega vígi hins alþjóðlega gáfumannafélags, sem þeytist á fyrsta farrými milli landa, skrifar langar skýrslur og skrafar margt á fundum með stjórnvöldum, en horfir vorkunnaraugum á fátæklingana út um gluggann. Þetta er fólk, sem veifar prófskírteinum úr virðulegum skólum og talar mörg tungumál, en hefur reiknað sig út úr heiminum í stað þess að lifa sig inn í hann. Ég veit ekki um neina þjóð, sem brotist hefur úr fátækt í bjargálnir fyrir orð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en ég get nefnt margar þjóðir, sem hafa gert þetta í krafti frjálsra viðskipta: Fyrst skal fræga nefna Íslendinga í lok nítjándu aldar, síðan ýmsar þjóðir eftir seinni heimsstyrjöld, til dæmis í Taívan, Suður-Kóreu, Hong Kong og Singapúr. Fátækar þjóðir þurfa atvinnufrelsi og eignarrétt, ekki skrif og skraf gáfumannafélagsins. Ég man enn, þegar ég fylgdist á frjálshyggjuþingi í Vancouver í Kanada með kappræðum þeirra Georges Shultz, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna (og áður hagfræðiprófessors í Chicago), og Stanleys Fischer, sem var um skeið aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Shultz hélt því fram, að sjóðurinn ætti nánast engan rétt á sér. Hann aðstoðaði slæma stjórnmálamenn við að halda áfram mistökum sínum. Hvað sem því líður, var upphaflegt hlutverk sjóðsins að auðvelda aðildarríkjum greiðsluaðlögun og sveiflujöfnun. Hér á Íslandi hefur sjóðurinn hins vegar aðeins birst sem óvæginn handrukkari fyrir Breta og Hollendinga. Starfsmenn hans hljóta að skammast sín fyrir að vera misnotaðir á þennan hátt.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband