Ónákvæmni Jóns Ólafssonar

Þótt það sé ekkert aðalatriði í hinni stórfróðlegu bók Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið, kemur þar víða fram (í neðanmálsgreinum), hversu ónákvæmur og óvandvirkur Jón Ólafsson, heimspekingur á Bifröst, hefur verið í úrvinnslu heimilda í skrifum um kommúnistahreyfinguna íslensku.

Jón Ólafsson er sem kunnugt er í hópi þeirra, sem vilja gera sem minnst úr þeirri staðreynd, að hér starfaði öflugur og áhrifamikill byltingarflokkur, sem síðar varð kjarni Sósíalistaflokksins og enn síðar Alþýðubandalagsins. Í frásögn hans verða íslenskir kommúnistar hrekklausir hugsjónamenn, þjóðlegir verkalýðssinnar.

Nú hefur Jón svarað Þór á netsíðu sinni, og Egill Helgason tekur upp svarið á bloggsíðu sinni. Svar Jóns er skrifað af miklu yfirlæti, en Jón boðar jafnframt grein í Skírni síðar á árinu um skólagöngu íslenskra kommúnista í Moskvu, og er gott til þess að vita, að hann geti gengið að birtingu greina sinna vísri.

Þór Whitehead er maður til að svara fyrir sig. En fáránlegt er, þegar Jón skrifar drýgindalega: „Nú vill svo til að ég gjörþekki þær heimildir sem Þór er að nota, enda hef ég farið í gegnum þær í mörgum heimsóknum á skjalasafn Kominterns og miklu meira til.“

Eitt einkenni á skrifum Jóns um íslensku kommúnistahreyfinguna er einmitt, hversu illa hann er að sér. Hann hefur ekki þaulkannað heimildir, eins og Þór Whitehead hefur gert. Hér skal ég nefna nokkur dæmi, sem bent hefur verið á opinberlega, en mörg fleiri eru til og bíða síns tíma.

Versta og um leið hlægilegasta dæmið er það, sem Snorri G. Bergsson sagnfræðingur dró fram í dagsljósið: Jón Ólafsson fullyrti í bók sinni, Kæru félögum (1999), bls. 22, að sænski kommúnistinn Hugo Sillén hefði þegar árið 1921 haft afskipti af íslenskum kommúnistum. Heimild hans var bréf, sem sent var frá Íslandi til Moskvu í janúar 1921, en höfundur skrifaði „Sillinn“ undir. Jón vissi ekki, að þetta var gælunafn Hendriks Ottóssonar í kommúnistahreyfingunni. Hann gekk þar undir nafninu „Sillinn“, Brynjólfur Bjarnason undir nafninu „Billinn“ og Ársæll Sigurðsson „Sælinn“. Sillén kom hvergi nærri þessu bréfi.

Jón Ólafsson skrifaði talsvert í bók sinni um „skóla“ þá, sem íslenskir kommúnistar gengu á í Moskvu, en nær væri að kalla þjálfunarbúðir. Hann birti einnig um það sérstaka ritgerð í Nýrri sögu. Þar hefur hann bersýnilega ekki fullkannað heimildir, eins og ég benti á í grein í Þjóðmálum 2008. Eitt dæmi um það er, að þrír nemendur í þessum þjálfunarbúðum fóru fram hjá honum, þótt næg gögn væru til um þá alla: Þau Hjalti Árnason, Jóhannes Jósepsson og Elísabet Eiríksdóttir.

Vanþekking Jóns olli því síðan, þegar hann þurfti að geta sér til um, hver væri „félagi Johnson“, sem minnst var á í skjölum í Moskvu, að hann nefndi þá án þess að hafa nokkuð fyrir sér Angantý Guðmundsson (son Guðmundar skólaskálds), en augljóst er, þegar rýnt er í málið, að maðurinn var Hjalti Árnason, og raunar er það staðfest í einni heimild frá Moskvu.

Jón vissi ekki heldur, af því að hann hafði ekki fullkannað heimildir, sem þó voru til, að Kristján Júlíusson gekk í Moskvu undir dulnefninu „Poulson“. Hefur Ólafur Grímur Björnsson, læknir og fræðimaður, tekið saman afar fróðlega pistla um Moskvuvist tveggja íslenskra kommúnista, þeirra Hallgríms Hallgrímssonar og Kristjáns Júlíussonar. 

Jón vissi ekki heldur og af sömu ástæðu, af því að hann hafði ekki fullkannað heimildir, sem þó voru til, að dulnefni Lilju Halblaub í Moskvu gat ekki verið „Karen Hansen“. Það hefur líklega verið dulnefni Elísabetar Eiríksdóttur.

Vonandi leiðréttir Jón Ólafsson þessi atriði og fleiri (til dæmis röng ártöl og nafnarugling, sem talsvert er af í skrifum hans) í grein þeirri, sem hann hefur boðað í Skírni.

Einhver fráleitasta fullyrðing Jóns Ólafssonar er, að Sósíalistaflokkurinn hafi haustið 1938 verið stofnaður í andstöðu við Komintern, Alþjóðasamband kommúnista, sem kommúnistaflokkurinn íslenski átti aðild að. Hið eina, sem Jón hafði fyrir sér um það, var minnisblað frá einum starfsmanni Kominterns til forseta sambandsins, þar sem lýst var efasemdum um ráðagerðir íslenskra kommúnista.

Ég fann hins vegar skjal, sem farið hafði fram hjá Jóni, en ég birti í Stjórnmálum og stjórnsýslu 2009. Það voru sérstakar heillaóskir frá Alþjóðasambandi ungra kommúnista til Æskulýðsfylkingarinnar, ungliðasamtaka Sósíalistaflokksins, í tilefni stofnunar þeirra. Óhugsandi er, að þessar heillaóskir hefðu verið sendar, hefði Komintern verið andvígt stofnun Sósíalistaflokksins.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, en bendi á, að langflestar heimildir um Komintern eru á þýsku, sem var hið opinbera mál sambandsins. Þar nýtur Jón ekki rússneskukunnáttu sinnar umfram aðra fræðimenn. Eru þessi gögn varðveitt í safni í Moskvu, sem ég hef raunar heimsótt (vorið 2004). Sá maður, sem rannsakað hefur ásamt Jóni gögn á rússnesku, Arnór Hannibalsson prófessor, hefur hins vegar í meginatriðum komist að sömu niðurstöðu um íslensku kommúnistahreyfinguna og Þór.

 


Stjórnarskráin og þjóðin

Jóhanna Sigurðardóttir Dýrafjarðarfari og hyski hennar kasta þessa dagana á milli sín og í fjölmiðlana nokkrum fráleitum forsendum og fullyrðingum um hið ógæfulega stjórnlagaþing sitt. Ein er, að bankahrunið megi að einhverju leyti rekja til stjórnarskrárinnar. Orsakir bankahrunsins eru alkunnar: Fámenn klíka fjárglæframanna undir forystu Baugsmanna, sem starfaði eftirlitslaust vegna yfirráða yfir fjölmiðlum og hagsmunatengsla við stjórnmálamenn, tæmdi bankana, svo að þeir voru óviðbúnir hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, jafnframt því sem grannþjóðir okkar gerðu illt verra.

Önnur fráleit fullyrðing er, að þjóðin verði á einhvern hátt svipt valdi sínu til að breyta stjórnarskránni, sé horfið frá hinu vanhugsaða stjórnlagaþingi Jóhönnu. Í fyrsta lagi hefði slíkt þing aðeins samþykkt tillögur til Alþingis, en ekki getað breytt stjórnarskránni upp í sitt einsdæmi. Það er Alþingis að breyta stjórnarskránni, síðan er það rofið, og nýtt Alþingi samþykkir síðan breytingarnar, og þá öðlast þær gildi. Í öðru lagi leiðir einmitt beint af þessu, að stjórnarskrárbreytingar eru ætíð bornar undir þjóðina, og þarf ekki stjórnlagaþing til.

Þriðja fráleita fullyrðingin er, að þjóðin vilji stjórnlagaþingið, sem Hæstiréttur ógilti kosninguna til í gær, 25. janúar. Í skoðanakönnunum kemur í ljós, að mjög fáir vilja þetta þing eða hafa á því áhuga. Órækasti vitnisburður er samt, að aðeins um 30% landsmanna tóku þátt í kosningunum til þess. Á bak við þann frambjóðanda, sem fékk flest atkvæði, var því aðeins brot landsmanna. Á bak við þá 25 menn, sem náðu kjöri, er vitanlega aðeins nokkur hluti þeirra 30%, sem þátt tóku í kosningunum. Þetta fólk var umboðslítið, áður en Hæstiréttur ógilti kosningu þess. Nú er það umboðslaust.

Morgunblaðið gerði fyrir röskri hálfri öld iðulega gys að „Þjóðinni á Þórsgötu eitt“, þar sem skrifstofa Sósíalistaflokksins var, en hann talaði jafnan í nafni þjóðarinnar og gaf raunar út blað, sem hét Þjóðviljinn. Naut flokkurinn samt ekki nema stuðnings fimmtungs landsmanna, þegar best lét. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir benti á það í Háskólabíói í upphafi bankahruns, að þeir, sem þar væru staddir, væru ekki þjóðin, en fyrir þá réttmætu ábendingu voru gerð hróp að henni.

Þjóðin er vitanlega ekki einhver minni hluti, hvort sem hann er hinn örsmái minni hluti, sem kaus 25-menningana á stjórnlagaþing, eða þau 30%, sem tóku þátt í kosningunni til þingsins. Raunar er þjóðin ekki heldur meiri hluti þeirra Íslendinga, sem hafa kosningarrétt hér og nú. Þjóðin er ekki aðeins einhver minni hluti og meiri hluti hér og nú, heldur hlýtur þetta að vera samheiti yfir Íslendinga fyrr og síðar, liðnar, lifandi og komandi kynslóðir. Þetta er sú heild, sem Egill Skallagrímsson, Halldór Kiljan Laxness. við, sem nú erum uppi, og komandi kynslóðir geta talið sig til.

Þjóðarhugtakið hlýtur því að vísa til almennra og varanlegra hagsmuna Íslendinga á framfarabraut þeirra. Það felur í sér virðingu fyrir fortíðinni og von um framtíð. Þjóðarhugtakið skírskotar til almennrar sáttar um þau lögmál, sem best hafa reynt til að ryðja framfarabraut okkar og gera hana að öðru leyti greiðfærari. Þessi lögmál eru aðallega tvö, og hafa vestrænar þjóðir lært þær á langri og erfiðri göngu sinni.

  1. Takmarka verður valdið, svo að það verði ekki misnotað.
  2.  Veita verður einstaklingum svigrúm til að leita hamingjunnar og þroskast hverjum eftir sínu eðli.

Í aðalatriðum gegnir íslenska stjórnarskráin því hlutverki sínu prýðilega að takmarka valdið og veita einstaklingum svigrúm til þroska. Ég tel hins vegar, að einhvern tíma þurfi að breyta nokkrum ákvæðum hennar, þótt ekkert liggi sérstaklega á nú: skilja að ríki og kirkju, leggja niður forsetaembættið með öllu þess tildri og prjáli og takmarka betur skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins. Vel er hins vegar í stjórnarskránni séð fyrir málfrelsi, félagafrelsi og atvinnufrelsi, sem allt eru mjög mikilvægar tegundir frelsis, þótt okkur hætti til að taka þeim sem sjálfsögðum.

Enginn maður hefur skrifað af betri og dýpri skilningi um stjórnarskrármál á okkar dögum en James M. Buchanan, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði 1986, og mættu hugmyndir hans verða okkur leiðarljós um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar.


Símtal Kings og Davíðs

Furðulegt hefur verið að fylgjast með fjölmiðlum Samfylkingarinnar í umræðum um símtal þeirra Mervyns Kings, bankastjóra Englandsbanka, og Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra, í aðdraganda bankahrunsins. Þessir fjölmiðlar hafa engan áhuga á því, að þetta símtal er mikilvægt gagn í Icesave-deilunni, því að King gekk þar eins langt og hann gat í að viðurkenna, að íslenska ríkinu væri óskylt að greiða Bretlandi og Hollandi það fé, sem þessi ríki lögðu út fyrir hinn íslenska Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þetta gerðu þessi ríki vitanlega í eiginhagsmunaskyni til að róa almenning og minnka líkur á áhlaupi á banka í Bretlandi og Hollandi.

Davíð lét til vonar og vara taka símtalið við King upp. Þótt rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið leitaði af stakri kostgæfni að saumnálum um Davíð í heystakki sínum, treysti hún sér ekki einu sinni til að segja að upptakan hefði verið óréttmæt, enda var hún gerð í því skyni að tryggja hagsmuni Íslendinga.

Það sést líka á viðbrögðum Kings þessa dagana, að mat Davíðs reyndist rétt: Bretum var ekki treystandi í þessu máli. King reynir nú að hlaupa frá orðum sínum. Hann segir beinlínis ósatt um símtalið, af því að hann telur sig geta bannað birtingu þess. Bretar tala oft um „fair play“. Þeir segjast vera „gentlemen“. En hvernig hafa þeir komið fram við Íslendinga?

Bretar komu í Icesave-deilunni fram við Íslendinga eins og þeir voru vanir að hegða sér við vanmegna nýlenduþjóðir á átjándu og nítjándu öld. Þeir settu í upphafi hrunsins Seðlabankann, fjármálaráðuneytið og Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana í Afganistan. Eftir einn sólarhring voru Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið að vísu tekin út af listanum, en Landsbankinn hélt lengi áfram að vera á honum. Er slík fólska dæmafá. Ísland hefur ekki einu sinni her! Og Ísland hefur starfað af fullum heilindum með Bretum í Atlantshafsbandalaginu í rösk sextíu ár.

 

Raunverulegt varnarsamstarf þjóðanna hófst fyrr. Íslendingar drógu andann léttar, þegar þeir komust að því hinn örlagaríka morgun 10. maí 1940, að Bretar höfðu hernumið landið, ekki önnur stórveldi. Eftir langa og vandræðalega þögn á ríkisstjórnarfundi þá um morguninn, þar sem sendiherra Breta hafði tilkynnt um hernámið, kvað Ólafur Thors, þáverandi atvinnumálaráðherra, upp úr um afstöðu Íslendinga: „Við hefðum vitaskuld kosið ekkert hernám, — en fyrst til þess þurfti að koma, erum við fegnir, að þið voruð fyrstir til!“

Ísland var Bretum ómetanlegt í seinni heimsstyrjöld, ekki aðeins vegna þess að héðan mátti fylgjast með og jafnvel stjórna siglingum um Norður-Atlantshaf og afla nauðsynlegra upplýsinga um veður og veðurhorfur á ýmsum mikilvægum vígstöðvum, heldur líka sökum þess, að hér var eitt vænsta matarbúr Breta. Íslenskir sjómenn hættu lífi sínu í fiskflutningum til Bretlands, og raunar týndu hátt í 500 þeirra þá lífi.

Bretar kjósa að gleyma þessu vinsamlega samstarfi. Og þeir verða æfir, ef farið er að ráðum Hávamálahöfundar um að gjalda lausung við lygi þeirra.

Hafði fólska Breta í upphafi bankahrunsins eflaust sín áhrif á það, að eignir íslensku bankanna rýrnuðu í verði frá því, sem orðið hefði getað. Ekki er enn fullljóst, hvað olli frumhlaupi breska fjármálaráðuneytisins, en líklega hefur það ekki búið yfir nógu nákvæmum upplýsingum um íslensku bankana. Það gerði sér til dæmis ekki ljósan þann mun, sem var á skuldbindingum Kaupþings í dótturfélögum og Landsbankans í útbúum. Einnig taldi það (líklega ranglega) bankana ætla að leika sama leik og hinir bandarísku Lehmann-bræður höfðu gert fyrir þrot sitt, að flytja fyrirvaralaust stórar fjárfúlgur frá Bretlandi (þótt athygli veki, að Bretar settu hvorki seðlabankastjórann bandaríska né fjármálaráðuneytið á lista yfir hryðjuverkasamtök, þegar í ljós kom, að fjárfúlgurnar voru sendar til Bandaríkjanna).Í þessu máli eins og mörgum öðrum hefur Davíð Oddsson sýnt, að hann gætir hagsmuna Íslands af einurð og festu. Því miður virðast sumir aðrir Íslendingar, fjölmiðlafólk og stjórnmálamenn, hafa minni áhuga á þeim hagsmunum en stjórnmálahagsmunum sínum til skamms tíma hér innan lands, jafnvel þótt það veiki vígstöðu Íslands út á við.

Sósíalismi andskotans

vilmundurjonsson.jpgVilmundur Jónsson landlæknir smíðaði að sögn orðasambandið „sósíalisma andskotans“, þótt mér hafi ekki tekist að finna það í ritum hans (að vísu ekki við mjög ákafa leit), en gott væri, ef mér fróðari menn geta bent mér á, hvar þetta kemur þar fyrst fyrir.

Mér er sagt, að Vilmundur hafi lagt þá merkingu í orðasambandið, að átt sé við þarflitla útþenslu hins opinbera. Kemur það heim og saman við það, að Vilmundur var áhugasamur um að kynna Íslendingum Parkinsons-lögmálið, en samkvæmt því þrútnar vinna, uns hún fyllir út í tímann, sem gefst til að inna hana af hendi. (Á hversdagslegra máli má segja, að opinberir starfsmenn finni sér alltaf eitthvað til að dunda við, ef verkefnin eru lítil.)

Önnur merking orðasambandsins er hins vegar, þegar ríkisafskipti hafa öfugar afleiðingar við það, sem þeim var ætlað. Eitt dæmi um þetta er, þegar aðgerðir til aðstoðar fátæku fólki bitna frekar á þeim sjálfum en hinum efnaðri, eins og stundum vill verða.

Fyrsta beina dæmið, sem ég þekki af orðasambandinu sósíalisma andskotans, er fyrirsögn greinar eftir Ragnar Jónsson í Smára í Nýju Helgafelli 1958. Þar sagði, að „þjóðkunnur orðasmiður“ hefði gert orðasambandið „fyrir nokkuð löngu“. Notaði Ragnar í Smára það um ýmis höft á fisksölu á Reykjavíkursvæðinu.

Ein stutt og laggóð skilgreining á sósíalisma andskotans hefur síðan orðið fleyg. Hún er, að ríkið þjóðnýti tapið, þegar illa gengur, en leyfi kapítalistum að hirða gróðann, þegar vel gengur.

jonasfrahriflu.jpgJónas Jónsson frá Hriflu setti þá hugsun fram einna fyrstur í þingræðu um opinbera ábyrgð á fiskverði rétt fyrir jólin 1946, eins og sjá má í Alþingistíðindum 1946 (B 1247). Hann benti á, að í Ráðstjórnarríkjunum væri raunverulegur sósíalismi: „Þar er ekki heldur sagt við þegnana: Þið hirðið gróðann, sem kann að verða, en við greiðum tap, ef það verður.“ Síðan sagði Jónas: „Sá munur er því hér á, að þjóðnýting Rússa er alvarleg tilraun til að geta staðist. En hér er á ferðinni ný tegund þjóðnýtingar, þar sem ríkið ber áhættuna af atvinnurekstrinum upp í topp, en atvinnurekendur eiga að stjórna og hafa gróðamöguleikana.“

Hér sem oftar sá Jónas frá Hriflu sumt skýrar en samtímamenn hans, þótt hann lokaði augum fyrir öðru.

 

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2011 og er unninn upp úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)

Sögulegt uppgjör

Gunnlaugur Júlíusson hagfræðingur las nýlega bók dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið. Gunnlaugur var félagsbundinn í Alþýðubandalaginu frá 1975 og síðan í Vinstri-grænum. Hann bloggar:

Mér finnst vera full ástæða til að gera þennan tíma upp því tíminn hefur leitt í ljós að ýmsilegt hefur reynst hafa verið á annan veg en af var látið. Kommúnisminn gaf sig út fyrir að hafa hagsmuni almennings og verkafólks sem sitt leiðarljós en sagan sýnir að ekkert var fjarri sanni. Í nafni hans hafa verið framin svo hryllileg grimmdarverk og óskapleg kúgun að nasisminn bliknar í þeim samanburði og skal þó ekkert dregið úr þeim ógnarverkum sem framin voru í nafni hans.

Gunnlaugur bendir á, að í bók Einars Karls Haraldssonar (ráðgjafa núverandi ríkisstjórnar) og Ólafs Einarssonar (sonar Einars Olgeirssonar) um Gúttóslaginn, hafi verið dregin upp sú mynd, að hungraðir verkamenn hafi verið að berjast fyrir tilvist sinni. En hann segir:

Samkvæmt bókinni Sovét Ísland er það mjög röng mynd. Í raun var Gúttóslagurinn manndómsraun harðsvíraðs kjarna byltingarsinna sem höfðu verið þjálfaðir í byltingarskóla hjá kommúnistum í Moskvu. Það er allt annar hlutur en að slást fyrir mat. Fleiri átök af svipuðum toga sem áttu sér stað á þessum tíma eru tilgreind í bókinni. Forystumenn íslenskra kommúnista voru í miklum samskiptum við Komintern (Kommúnistisku alþjóðasamtökin) í Moskvu og fengu þaðan fyrirmæli og ráðgjöf. Það má segja ef rétt er með farið í bókinni að það hafi verið styttra í en ætla mætti í fljótu bragði að kommúnistar næðu undirtökum í samfélaginu hér með valdbeitingu en ætlað hefur verið til þessa. Nærtækast er að líta til Eystarasaltsríkjanna um hvernig mál hefðu skipast hérlendis ef sú hefði orðið raunin.

Gunnlaugur segir einnig, að sumt í umræðum um þessar mundir minni á umræður þá:

Sjálfseignarbændur (kúlakar) voru ofsóttir í Sovétríkjunum. Ástæða þess ar að þeir voru taldir hafa verið í uppreisn gagnvart samyrkjuvæðingunni, spekúlerað með korn og selt það öðrum en ríkinu eftir að þeir voru neyddir til að setjast á „samvinnubú“. Þetta minnir mig ögn á umræðuna um sjárvarútveginn hérlendis. Grimmur áróður dynur á þeim reka sjávarútvegsfyrirtæki. Hamrað er á nauðsyn þess að koma auðlindum (les: kvóta í sjávarútvegi) í eigu þjóðarinnar hvað sem það nú þýðir. Þeir sem enn starfa við sjávarútveg eru látnir gjalda þess af einhverjir eru ósáttir við þá sem seldu sig út úr greininni. Hamrað er á að allur kvóti sé gjafakvóti þrátt fyrir að um 90% þess kvóta sem er notaður í dag hafi verið keyptur.

Gunnlaugur segir margt fleira, en lýkur bloggi sínu svo:

Bókin Sovét Ísland Óskalandið er mjög fróðleg og ástæða til að hvetja áhugafólk um sögu að lesa hana því menn geta rétt ímyndað sér hver framvinda mála hefði orðið hérlendis ef kommúnistar hefðu náð hér völdum. Það er hverjum manni hollt því næg eru fordæmin.

Tek ég undir hvert orð Gunnlaugs. Sjálfur er ég að vinna að bók, sem kemur út næsta haust, Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Get ég vottað með góðri samvisku, að á bak við bók Þórs liggja mjög traustar og viðamiklar rannsóknir. Hún er liður í sögulegu uppgjöri. Hér var mjög öflugur kommúnistaflokkur. Og enn eru til menn, sem vilja einhvers konar Sovét-Ísland.


Skáld á sjúkrahúsi

Leifur Sveinsson lögfræðingur hefur sagt í mín eyru: „Ef saga er góð, þá er hún sönn.“ Þetta er ekki fjarri lagi. Stundum eru sögur um einstaklinga ekki nauðsynlega sannar í strangasta skilningi, en þær veita hins vegar ómetanlegar upplýsingar um þá mynd, sem mótast hefur af fólki.

Sumar sögurnar, sem sagðar eru af Tómasi skáldi Guðmundssyni, eru til dæmis alþjóðlegar flökkusögur. En ástæðan til þess, að þær eru heimfærðar upp á Tómas, er, að þær eru eins og sniðnar fyrir hann. Þær eru Tómas, ef svo má segja.

Ein sagan er af því, þegar Tómas var nýkominn af sjúkrahúsi, horaður, fölur og tekinn. Hann hitti Harald Á. Sigurðsson leikara á förnum vegi, en Haraldur var í góðum holdum. Haraldur sagði glaðhlakkalega: „Þegar maður sér þig, hvarflar að manni, að það hljóti að vera hungursneyð í landinu.“ Tómas svaraði að bragði: „Og þegar ég lít á þig, finnst mér, að hún hljóti að vera þér að kenna.“

Þetta er vitanlega flökkusaga, sem hefur verið sögð um marga fræga menn, til dæmis Alfred Hitchcock (sem var afar gildvaxinn) og George Bernard Shaw (sem var mjög grannur).

Ef til vill hefur það verið í aðdraganda þessarar sjúkrahússvistar skáldsins, sem vinur þess sagði áhyggjufullur: „Þú ert þó ekki að deyja, Tómas?“ Tómas svaraði: „Nei, það skal verða það síðasta, sem ég geri!“ Það skemmir ekki söguna, að hið sama er haft eftir Palmerston lávarði, sem var forsætisráðherra Breta á nítjándu öld.

Ég kannast hins vegar ekki við neina erlenda fyrirmynd þriðju sögunnar af Tómasi. Læknir einn hafði sýnt honum ljóð eftir sig. Tómas sagði: „Ekki hafði ég hugmynd um, að þú fengist líka við að yrkja.“ Læknirinn sagði hógvær: „O, ég geri það svona til að drepa tímann.“ Tómas var snöggur til svars: „Jæja, hefur þú enga sjúklinga?“ Gaman væri að vita, hvort einhverjir lesendur vita frekari deili á þessari sögu. Og hver skyldi læknirinn hafa verið?

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 8. janúar 2011 og er unninn upp úr bók minni, Kjarna málsins. Fleygum orðum á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)


Handtaka Sigurjóns

Sjálfsagt er, að mál fyrrverandi stjórnenda íslensku bankanna séu rannsökuð vægðarlaust og út í hörgul, eins og Davíð Oddsson lagði áherslu á, þegar hann sótti sem seðlabankastjóri hinn fræga fund ríkisstjórnarinnar 30. september 2008, þar sem hann varaði við yfirvofandi hruni bankanna við daufar undirtekir Jóhönnu Sigurðardóttur og Össurar Skarphéðinssonar.

Fyrrverandi stjórnendur bankanna eiga hins vegar að njóta sama réttar og aðrir Íslendingar. Ég skil til dæmis ekki alveg, nema ég fái aðgang að frekari gögnum, hvers vegna nú þarf að setja Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóra, í gæsluvarðhald. Hefur hann ekki haft hátt á þriðja ár til að spilla hugsanlegum sakargögnum og sammælast við samstarfsfólk sitt um framburð?

Ef svo er, þá er gæsluvarðhald yfir honum líklega aðeins uppákoma til að hræða hann, friða fjölmiðla og afla embætti saksóknara vinsælda. Raunar eru slíkar handtökur algengar í Bandaríkjunum, þar sem saksóknarar vita, að almenningur kann vel að meta þær. Rudolph Giuliani var til dæmis frægur fyrir slíkar aðgerðir, á meðan hann var saksóknari á Manhattan. Aldrei vantaði sjónvarpsmyndavélar, þegar verðbréfasalar voru handteknir að undirlagi Giulianis, en oftast voru þeir sýknaðir mörgum árum síðar, af því að ekki voru næg gögn til að sakfella þá.

Mér er minnisstætt, að Atli Gíslason, lögfræðingur og núverandi alþingismaður, sagði eitt sinn í viðtali, að framkoma Baugsfeðga í Baugsmálinu væri skólabókardæmi um, hvernig sakborningar verja sig í efnahagsbrotamáli. Kvaðst hann hafa lesið nokkrar bækur um rannsókn og meðferð efnahagsbrota, þegar hann tók að sér að vera saksóknari fyrir ríkið í nokkrum slíkum málum. Beittu sakborningar að sögn Atla iðulega sömu brögðum og Baugsfeðgar gerðu, reyndu að drepa málum á dreif og leiða athygli frá aðalatriðum.

Sakborningar beita þó ekki einir brögðum. Ég hygg, að framganga sérstaks saksóknara í þessu handtökumáli sé líka skólabókardæmi um, hvernig aðilarnir hinum megin borðsins verja starf sitt og afla þess fylgis. Þeir vita, hversu vel það mælist fyrir að handtaka óvinsæla bankastjóra og verðbréfasala, sem áður fóru mikinn og vöktu öfund eða gremju.

En er ekki betra að búa í réttarríki en stunda bófahasar?

Skuldakóngur alls heimsins?

jon_sgeirnewyork.jpgDavíð Oddsson bendir í síðasta Reykjavíkurbréfi sínu, 8. janúar 2011, á athyglisverða staðreynd um bankahrunið:

Glitnir fór fyrstur í þrot og hinir tveir drógust með enda kom í ljós að allir bankarnir þrír höfðu verið rændir innan frá og sérstakur skjólstæðingur Samfylkingarinnar skuldaði yfir þúsund milljarða króna í öllum bönkunum og hafði einnig náð í tugi og hundruð milljarða frá öðrum, svo sem sparisjóðum og lífeyrissjóðum. Ekki er vitað um neinn einstakling í samanlagðri sögu mannkyns sem skuldaði slíkt hlutfall af eigin fé stærstu bankanna í einu landi annars vegar og heildarframleiðslu þjóðar hins vegar. (Gustuk væri að láta Heimsmetabókina vita af þessu).

Ég hef áður kallað Jón Ásgeir Jóhannesson „skuldakóng Íslands“. Það skyldi þó ekki vera, að hann sé skuldakóngur alls heimsins, að minnsta kosti ef miðað er við höfðatölu?

(Myndin er úr lúxusíbúð Jóns Ásgeirs á Manhattan.)


Björn Ólafsson ráðherra

bjornolafsson.jpgHið virðulega tímarit þjóðvinafélagsins, sem Jón Sigurðsson hafði forgöngu um, Andvari, kemur út einu sinni á ári. Er það nú undir ritstjórn Gunnars Stefánssonar bókmenntafræðings. Andvari birtir jafnan fremst rækilegt æviágrip einhvers merks Íslendinga.

Mér er ljúft að segja hér frá því, að Andvari ársins 2010, sem kom út skömmu fyrir jól, flytur æviágrip Björns Ólafssonar ráðherra eftir mig á fjörutíu blaðsíðum. Rek ég þar sögu einstaks dugnaðarforks og sjálfmenntaðs gáfumanns, sem braust úr fátækt í bjargálnir.

Björn fæddist við lítil efni, nánast örbirgð, á Akranesi árið 1895, en þegar hann lést árið 1974, var hann áreiðanlega einn ríkasti Íslendingur sinnar tíðar. Hann var ekki aðeins kaupsýslumaður og iðnrekandi, heldur líka ötull baráttumaður fyrir frjálsri verslun, ráðherra og alþingismaður, auk þess sem hann tók þátt í mörgum fyrirtækjum og félögum.

Hann vitnaði eitt sinn í ráð, sem sér hefði verið gefið ungum: „Það er ekki hægt að taka þátt í pólitík nema vera sjálfstæður maður og þurfa ekki að spyrja neinn um leyfi til að gera það, sem maður telur rétt og nauðsynlegt. Það er ekki hægt að vera allt sitt líf eins og hengdur upp á þráð vegna auraleysis.“


„Our son of a bitch“

Ég hef tvíræða afstöðu til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Annars vegar sé ég ótrúlega hégómagirnd hans, valdafíkn, tilhneigingu til að ofsækja andstæðinga sína, jafnvel fyrri vini, eins og kom fram í Hafskipsmálinu, dómgreindarleysi og vanstillingu. Ég hef líka heyrt margar sögur af því, hvernig hann kemur af hroka og tillitsleysi fram við venjulegt fólk, sem eitthvað á undir honum.

Hins vegar sé ég dugnað hans, vígfimi og málakunnáttu, eins og sést vel á því, hvernig hann hefur hlaupið í skarðið, sem ríkisstjórnin skildi eftir í Icesave-málinu, og varið málstað Íslendinga af krafti erlendis.

Áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-málið kom til sögunnar, sem breytt hefur skoðun margra á Ólafi til hins betra, enda tók hann þar rétta ákvörðun og fylgdi henni skörulega eftir, átti ég einu sinni tal við mann, sem þekkti Ólaf Ragnar vel og hafði í forsetatíð hans þurft að eiga margvísleg samskipti við hann og nánustu stuðningsmenn hans.

Ég sagði: „Nú eru menn eins og Halldór Guðmundsson, Einar Kárason, Már Guðmundsson og Mörður Árnason aldir upp við virðingu á íslenskri menningu og andúð á tildri og titlatogi. Þeir eru að eðli og upplagi vinstri sinnaðir menntamenn með öllum kostum þess og göllum. Enginn þeirra gæti skrifað hinn hola texta Ólafs Ragnars, þar sem hrúgað er saman skrautlegum orðum í einhvers konar óviljandi skopstælingu á stíl ungmennafélagsfrömuða á öndverðri tuttugustu öld. Og sjá þessir menn ekki, hversu illgjarn og ófyrirleitinn Ólafur Ragnar er stundum? Vita þeir ekki, að hann á sér aðeins eina hugsjón, sem taka má saman í þremur orðum, Ólafur–Ragnar–Grímsson? Er þeim sama um alla sýndarmennskuna á Bessastöðum?“

Viðmælandi minn brosti í kampinn og sagði: „Þessir menn vita nákvæmlega, hvernig Ólafur Ragnar er. Þeir segja og hugsa hróðugir: He may be a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“ Það getur verið, að hann sé skepna, en við eigum þessa skepnu.

Í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, rek ég þessi frægu orð, en þau á Franklin Delano Roosevelt að hafa sagt um herforingjann Anastasio Somoza, sem stjórnaði Níkaragúu harðri hendi, en var hollur Bandaríkjunum. Ekki eru þau finnanleg í verkum Roosevelts, þótt oft séu þau höfð eftir honum. (Þau eru líka höfð eftir Cordell Hull, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Rafael Trujillo, einræðisherra í Dómínikanska lýðveldinu.)

Það er hins vegar kaldhæðni örlaganna, eins og Ólafur Ragnar Grímsson hefur hegðað sér síðasta árið, að líklega gætu hægri menn tekið sér þessi orð í munn: „He may be a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“

Ekki veit ég hins vegar, hversu lengi þeir geta sagt seinni setninguna. Líklega er því hægri mönnum jafnt og vinstri best að halda sig aðeins við þá fyrri.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband