1.1.2010 | 10:49
Óviðunandi vinnubrögð
Icesave-málið er ekkert smámál. Þetta er einhver mesta skuldbinding, sem Íslendingar hafa tekið á sig. Þess vegna er sorglegt að sjá, hversu flausturslega málið hefur verið unnið og afgreitt. Farið hefur verið á svig við ráðleggingar bestu lögfræðinga okkar og látið undan Bretum í flestu eða öllu.
- Hvers vegna eigum við Íslendingar að greiða skuldir, sem einkaaðilar hafa stofnað til?
- Hvar stendur í samningum og lögum, að ríkissjóður sé ábyrgur fyrir því, sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta ræður ekki við að greiða?
- Væri ríkissjóður ábyrgur fyrir því að lögum, hvers vegna þarf þá að semja sérstaklega um það og setja í lög?
- Hvers vegna var Bretum ekki sendur reikningur fyrir því tjóni, sem þeir ollu íslensku bönkunum með því að neita Singer&Friedlander einum breskra banka á því tímabili um aðstoð og með því að setja Landsbankann á lista um hryðjuverkasamtök?
- Hvers vegna hefur ekki mátt reyna á þessar feikimikilvægu skuldbindingar fyrir dómstólum?
- Úr því að samið var, hvers vegna var þá ekki samið um sömu vexti og Bretar og Hollendingar taka sjálfir á lánum sínum til innstæðusjóða sinna?
- Hvers vegna hafa ráðherrar margsinnis orðið uppvísir að ósannindum um málið, til dæmis um hlut Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að því?
Nú síðast bætast við deilur um álit breskrar lögmannsstofu, sem utanríkisráðherra segist ekki einu sinni hafa séð. En getum við treyst sannsögli Össurar Skarphéðinssonar? Muna ekki allir, þegar hann sagðist á fundi í Háskólabíói 26. maí 1986 ætla að senda alla óþæga embættismenn í öskuna eða reka þá, en þrætti síðan fyrir þetta í sjónvarpsumræðum 30. maí, þótt vottfest væri og tekið upp?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:51 | Slóð | Facebook
1.1.2010 | 10:48
Skáldin gegn Bretum
Fautaskapur Breta í garð Íslendinga í hinni alþjóðlegu lánsfjárkreppu verður lengi í minnum hafður. Þeir felldu breskan banka í eigu Kaupþings og settu Landsbankann á skrá yfir hryðjuverkasamtök, við hlið Al-Kaída og Talíbana! Eftir þær tilefnislausu aðgerðir voru allar björgunaraðgerðir vonlausar. Síðan hafa þeir krafist þess, að íslenskir skattgreiðendur beri það tjón, sem þeir ollu sjálfir að miklu leyti með aðgerðum sínum. Vinstristjórnin íslenska hefur látið undan þeim.
Þótt ýmislegt megi gott segja um breska heimsveldið á liðnum öldum, lék það smáþjóðir iðulega grátt. Við Íslendingar vorum til dæmis heppnir að hafa ekki sömu nýlenduherra og Írar, sem Bretar kúguðu löngum, jafnvel svo harkalega, að í því frjósama landi skall á hungursneyð um miðja nítjándu öld. Bretar hefðu umsvifalaust fangelsað eða skotið Jón Sigurðsson. Danir settu hann á laun við að sýsla um fornrit.
Þegar gull fannst í lok nítjándu aldar í Transvaal, en þangað höfðu hollenskumælandi íbúar Suður-Afríku hrakist undan Bretum, réðust Bretar þangað norður og lögðu landið undir sig, en Stephan G. Stephansson orti:
Og sneypstu, hættu að hæla þér,
af herfrægð þinni, blóði og merg,
því bleyðiverk það kallar hver,
þótt kúgi jötunn lítinn dverg.
Í Búastríðinu voru fyrst stofnaðar fangabúðir (concentration camps) í nútímamerkingu.
Þegar Bretar hernámu Ísland vorið 1940, voru flestir Íslendingar að vísu fegnir, að þeir voru ekki Þjóðverjar, sem gengið hefðu miklu harðar fram, en hernámið var engu að síður brot á fullveldi Íslands. Steinn Steinarr orti:
Og jafnvel þótt á heimsins ystu nöf
þú næðir þrælataki á heimskum lýð,
það var til einskis, veldur stuttri töf.
Það vinnur aldrei neinn sitt dauðastríð.
Nú beita Bretar því afli gegn Íslendingum, sem þeir þora ekki að nota gegn öðrum stærri þjóðum, og því miður eru engir Bandaríkjamenn lengur til að halda aftur af þeim eins og í þorskastríðunum, þegar Bretar sendu hvað eftir annað herskip á Íslandsmið. Eins og í viðureigninni við Harald blátönn forðum eiga Íslendingar fá vopn önnur en kveðskapinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook
1.1.2010 | 10:46
Raddir skáldanna
Þótt íslensk skáld geti verið mistæk í afstöðu sinni til einstakra mála, eins og andstaða margra þeirra við hið farsæla varnarsamstarf við Bandaríkin 19412006 sýndi, komast þau oft vel að orði og flytja okkur sannleik ofar stað og stund, enda skilur þar milli góðskálda og dauðlegra manna. Andskotinn á ekki einn að bjóða upp á bestu lögin, eins og sagt hefur verið.
Mér finnst sumt það, sem íslensk skáld ortu á tuttugustu öld, eiga vel við um óheillasamninginn, sem Steingrímur J. Sigfússon berst nú fyrir um Icesave-reikningana í Bretlandi og Hollandi, til dæmis þessi orð Jóns Helgasonar prófessors vorið 1951:
Sú þjóð, sem dottar dáðlaus, viljasljó,
og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,
skal fyrr en varir hremmd í harða kló.
Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja.
Samningamennirnir íslensku, sem virðast hafa verið fullkomnir viðvaningar og haldið eins illa á málstað Íslendinga og hugsast getur, hefðu líka mátt lesa orð Halldórs Kiljans Laxness úr Íslandsklukkunni:
Maður sem ætlar að kyrkja lítið dýr í greip sinni mun að lokum þreytast. Hann heldur því armsleingd frá sér, herðir takið um kverkar þess sem má, en það deyr ekki; það horfir á hann; klær þess eru úti. Þetta dýr mun ekki vænta sér hjálpar þó tröll komi með blíðskaparyfirbragði og segist skulu frelsa það. Hitt er lífsvon þess að tíminn sé því hallkvæmur og lini afl óvinar þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook
1.1.2010 | 10:43
Rányrkja og nýlendukúgun
Það er vandlifað í þeim heimi, sem umræðustjóri Ríkisútvarpsins hefur skapað sér. Ég leyfði mér fyrir nokkru að svara á bloggi mínu fullum hálsi árásum Baugsmiðla á mig, og þá skrifaði Egill Helgason ótilkvaddur inn á Facebook-síðu mína, að ég skyldi halda út á hafsauga ásamt Baugsmönnum. Á dögunum skrapp ég í kvikmyndahús til að sjá stórmyndina Avatar, bloggaði síðan um hana og lét í ljós efasemdir um boðskapinn, sem virðist beinast að vestrænni tækni. Þá sakar Egill mig um að mæla bót rányrkju og nýlendukúgun! Eða svo að gullaldaríslenska hans sé notuð: Ég haldi með vondu köllunum.
Auðvitað er ég andvígur hvoru tveggja, rányrkju og nýlendukúgun. En ráðið gegn rányrkju er ekki að prédika gegn henni, eins og Egill Helgason virðist trúa, heldur að gera þá, sem nýta náttúruauðlindir, ábyrga fyrir þeim með því að veita þeim einkaafnotarétt eða eignarrétt að þessum auðlindum. Þá hafa þeir ekki hag af rányrkju. Þetta hefur tekist mætavel með íslenska kvótakerfinu í sjávarútvegi, eins og Ragnar Árnason prófessor hefur leitt manna best í ljós. Annar íslenskur prófessor, Þráinn Eggertsson, hefur skrifað snjalla grein um, hvernig fornmenn reyndu að takmarka ofbeit á fjöllum (rányrkju) með svokallaðri ítölu. Hvergi var hins vegar stunduð meiri rányrkja en í ríkjum sameignarmanna á síðari hluta tuttugustu aldar. Þar hafði enginn hag af skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda, af því að enginn átti þær.
Enginn mælir heldur bót nýlendukúgun. En sennilega bitnaði hún oft á kúgurunum ekki síður en hinum kúguðu. Sú staðreynd er til dæmis merkileg, að ríkustu lönd heims, Sviss, Lúxemborg, Noregur og Bandaríkin, áttu ekki nýlendur, að heitið gat, og að þau nýlenduveldi, sem héldu lengst í nýlendur sínar, Portúgal og Ráðstjórnarríkin, eru tiltölulega fátæk lönd. Raunar hefur ekki komið út magnaðri bók um nýlendukúgun síðustu misseri en Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi, og hefur sums staðar verið undarlega hljótt um hana. Önnur staðreynd er ekki síður merkileg, sem skoski sagnfræðingurinn Niall Ferguson hefur bent á, að sumum löndum varð það til góðs að vera undir nýlendustjórn. Hong Kong-búar vildu til dæmis ólmir vera áfram undir stjórn Breta frekar en sameinast Kínverjum.
Því er við að bæta, af því að jólin eru nýliðin og allir vonandi enn í kristilegu skapi, að sumir réttlæta þróunaraðstoð með orðum Jóhannesar skírara: Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á. (Lúk. 3, 11.) En ég tel, að aðeins megi réttlæta neyðaraðstoð með þessum orðum, ekki venjulega þróunaraðstoð. Það skiptir máli, hvers vegna maður á engan kyrtil. Ef harðstjórinn í landi mannsins (sem oft leysti nýlenduherrana af hólmi) hrifsar jafnóðum af honum þá kyrtla, sem hann saumar sér, þá stoðar lítt að gefa honum nýjan kyrtil. Ef maðurinn nennir sjálfur ekki að sauma sér kyrtil, þá á hann ekki að fá hann að gjöf. Frjálshyggjumenn hafa mestan áhuga á því, að saumastofur séu í fullum gangi, svo að engan vanti kyrtil. En til þess þarf að borga sig að sauma kyrtla.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.1.2010 kl. 10:03 | Slóð | Facebook