Missögn Steingríms J. Sigfússonar

399px-steingrimur_j_sigfusson.jpgSteingrímur J. Sigfússon andmælir því, að hann hafi í viðtali við Sænska dagblaðið sagt Icesave-málið of flókið til að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Blaðamaðurinn heldur fast við þann skilning sinn á orðum hans. Þetta er vandræðalegt fyrir Steingrím, því að á Alþingi 2003 kallaði hann það „ömurlegan málflutning“ að telja sum mál svo flókin, að þau hentuðu ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég veit ekki, hvort sænski blaðamaðurinn getur lagt fram hljóðupptöku af viðtalinu til að sanna mál sitt eins og ástralski blaðamaðurinn, sem ræddi við Gylfa Magnússon fyrir nokkru. Eftir það viðtal neitaði Gylfi að hafa notað þau orð, sem blaðamaðurinn hafði eftir honum, en hljóðupptakan tók af öll tvímæli um það, að þar fór Gylfi ekki með rétt mál. Af einhverjum ástæðum hefur Ríkisstjórnarútvarpið ekki bent á þetta, svo að neinn hafi tekið eftir.

En hér ætla ég að andmæla öðru, sem haft er eftir Steingrími í viðtalinu í Sænska dagblaðinu. Hann segir: „Jafnvel í þeim löndum, þar sem sterk hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, er ekki kosið um skatta.“ Þetta er ekki rétt. Sterk hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss, og þar er iðulega kosið um skatta. Til dæmis fékk alríkisstjórnin svissneska síðast umboð til að leggja á tekjuskatt og virðisaukaskatt í kosningu 2004, og næst þarf hún að endurnýja umboð sitt til þess 2020, og þá verður jafnt meirihluti kjósenda og einstakra kantóna að samþykkja það. Kafli er um skattlagningarvald og skattheimtu í Sviss í hinni væntanlegu bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, enda getum við lært margt af Svisslendingum.


Sigur hægrimanna í Chile

0_34755334_00.jpgForsetakjörið í Chile í gær, sunnudaginn 17. janúar, var sögulegt. Hægrimaður sigraði í fyrsta skipti í tuttugu ár, frá því að einræðisherrann Augusto Pinochet herforingi fór frá 1990. Hinn nýi forseti er Sebastián Piñera, sem er líka einn ríkasti maður landsins, einn af eigendum flugfélagsins LAN, sjónvarpsstöðva, knattspyrnufélags og annarra fyrirtækja. Piñera var afburða námsmaður í skóla og lauk doktorsprófi í hagfræði frá Harvard-háskóla, en efnaðist á því að reka greiðslukortafyrirtæki á níunda áratug.

Ég hef þrisvar komið til Chile og kannast þar við marga hagfræðinga, þar á meðal bróður hins nýkjörna forseta, José Piñera. Hann átti frumkvæðið að því, að almenningi var í valdatíð Pinochets leyft að stofna lífeyrissjóði í séreign, og hafa þeir gefist vel. „Chicago-drengirnir“ svokölluðu — en þeir voru hagfræðingar, sem orðið höfðu fyrir miklum áhrifum af nokkrum kunnum hagfræðikennurum í Chicago, þar á meðal Milton Friedman og Arnold Harberger — tóku að sér með góðum árangri að endurskipuleggja hagkerfi Chile á áttunda og níunda áratug, og er atvinnulíf í Chile nú eitt hið blómlegasta í Vesturheimi sunnanverðum. Hafa vinstrimenn ekki hróflað við þeim umbótum, sem Chicago-drengirnir beittu sér fyrir á dögum Pinochets.

Ýmsar gerðir Pinochets, sem stjórnaði með harðri hendi 1973–1990, eru auðvitað óafsakanlegar. Um þrjú þúsund manns munu hafa horfið í valdatíð hans. En fróðlegt er að bera hann saman við annan einræðisherra í Rómönsku Ameríku, Fidel Castro, sem sumir íslenskir háskólakennarar hafa skorið upp sykur fyrir í sjálfboðaliðsvinnu og þau Margrét Frímannsdóttir og Svavar Gestsson reyndu árangurslaust að ná tali af í Kúbuferð sinni haustið 1998, þegar Alþýðubandalagið var í andarslitrunum. Um þrjátíu þúsund manns — tíu sinnum fleiri en í Chile — munu hafa fallið af völdum Castros, auk þess sem tugþúsundir manna voru geymdar í vinnubúðum við þröngan kost. (Segir meðal annars frá þessu í Svartbók kommúnismans, sem ég þýddi á íslensku og kom út síðastliðið haust.) Pinochet lét af völdum, eftir að hann tapaði í kosningum 1989, en Castro hélt dauðahaldi í völdin, á meðan hann hafði heilsu til, og leyfði aldrei frjálsar kosningar. Atvinnulíf í Chile var öflugt, þegar Pinochet fór frá, en Castro tókst að gera Kúbu, sem var forðum eitt ríkasta land Mið-Ameríku, að næstfátækasta landi þess heimshluta, næst á eftir landi hörmunganna, Haiti.

Forsetakjörið í Chile sýnir, að þjóðin er loksins stigin út úr skugga Pinochets.

 

Myndin er af Piñera og keppinaut hans, Eduardo Frei (til hægri). AFP


Tilgáta um Ólaf Ragnar

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um helgina er sett fram merkileg tilgáta um það, hvers vegna Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lagafrumvarpinu um Icesave-ríkisábyrgðina staðfestingar. Hún er, að hann hafi í upphafi ætlað sér að skrifa undir lögin, en hætt við það á nýársdag, þegar honum varð tvennt ljóst, að hann var orðinn að viðundri með þjóðinni og að almenn andstaða var við Icesave-skuldabaggann.

ee3080fc2bd3a4a.jpgHið fyrra sá Ólafur Ragnar best í áramótaskaupi Sjónvarpsins. Eftir margra ára daður og flaður forsetans við útrásarvíkingana bar enginn lengur virðingu fyrir honum. Ólafur Ragnar var líka flæktur í eigin orð. Hann hafði staðfest fyrri útgáfu Icesave-laganna með skírskotun til fyrirvara Alþingis, sem að kröfu Breta og Hollendinga voru felldir út úr seinni útgáfunni. Í sögunni hefði því litið hjákátlega út að staðfesta seinni útgáfuna, og Ólafur Ragnar hefur miklu meiri áhuga á sögunni en gömlum vinum og samherjum, sem hann fórnaði án þess að depla auga. Nú geta þeir ekki lengur sagt (eins og þeir gerðu iðulega): „He is a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“

Hið seinna sá Ólafur Ragnar á undirskriftasöfnun In Defence-hópsins, þótt reynt væri að gera hana tortryggilega, ekki síst með falsundirskriftum úr Ríkisútvarpinu og forsætisráðuneytinu. Íslendingar telja ekki, að þeir beri ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis umfram það, sem lög og alþjóðasamningar kveða á um, þótt vissulega vilji þeir halda frið við grannþjóðir. Þeir segja með Staðarhóls-Páli: Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum.

Þótt misjafnar hvatir hafi þannig eflaust ráðið ákvörðun forsetans, ekki síst hégómagirnd, steig hann með henni heillaspor. Icesave-samningurinn komst aftur á dagskrá í Evrópu. Fólk erlendis tók allt í einu eftir því, að verið var að kúga litla þjóð á norðurhjara veraldar til að greiða skuld, sem hún hafði ekki stofnað til og bar enga ábyrgð á að lögum, auk þess sem þetta kynni að leiða til gjaldþrots hennar. Ég vona, að grein mín í Wall Street Journal á dögunum hafi haft þar eitthvað að segja, en það má Ólafur Ragnar eiga, að hann talaði eftir hina sögulegu synjun vel og skörulega máli Íslands í erlendum fjölmiðlum.

Mikill munur var í því efni á Ólafi Ragnari og ráðherrum vinstristjórnarinnar. Jóhanna hniprar sig saman hrædd og þögul niðri í stjórnarráði, og Steingrímur notar mælsku sína til að flytja Íslendingum boðskap Breta og Hollendinga, ekki til að skýra fyrir öðrum sjónarmið Íslendinga.


Hvað verður um Haga?

jon-asgeir-johannesson-415x275_952524.jpgEf einhver einn innlendur aðili ber sérstaka ábyrgð á bankahruninu, þá er það Jón Ásgeir Jóhannesson. Sjálfur skuldaði hann um eitt þúsund milljarða (ekki milljónir, heldur milljarða), þegar upp var staðið, en menn honum tengdir (Pálmi í Fons og aðrir fastagestir í veislum hans í Monaco) áreiðanlega annað eins. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum virtist Jón Ásgeir hafa ótakmarkaðan aðgang að sjóðum Landsbankans, um leið og hann hafði mikil áhrif á stjórnendur tveggja hinna bankanna, enda átti hann hlut í öðrum þeirra, Glitni. (Hann hefur endurgoldið þá greiðvikni rösklega með því að siga fjölmiðlum sínum á Björgólfsfeðga og aðra gamla viðskiptafélaga sína, til dæmis Hannes Smárason, en í þessum fjölmiðlum er ekki minnst á Jón Ásgeir sjálfan, að heitið geti.)

Sem áhrifamikill og afskiptasamur eigandi margra fjölmiðla skapaði Jón Ásgeir öðrum fremur hið einkennilega andrúmsloft hér frá 2004 til 2008, þegar viðvaranir Davíðs Oddssonar voru taldar úrtölur og ómálað verk eftir Hallgrím Helgason seldist á 21 milljón á uppboði. Þá töldu dómstólar „venjuleg viðskipti“, þegar stjórnarmenn í almenningshlutafélaginu Baugi, Jón Ásgeir og félagar hans, fengu leppa til að kaupa fyrir sig fyrirtæki og seldu það síðan almenningshlutafélaginu með mörg hundruð milljón króna hagnaði. Því má ekki heldur gleyma, að þrátt fyrir linkind dómstóla í Baugsmálinu hlaut Jón Ásgeir skilorðsbundinn fangelsisdóm og má sjálfur ekki sitja í stjórnum íslenskra fyrirtækja.

Jón Ásgeir er þess vegna sennilega síst til þess fallinn allra Íslendinga að njóta sérstakrar fyrirgreiðslu stjórnvalda (eða banka í ríkiseigu) í endurreisninni eftir hrunið. Þegar Björgólfsfeðgar buðust sumarið 2009 til að greiða helming skulda sinna gegn því, að afgangurinn yrði afskrifaður, ætlaði allt um koll að keyra. Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon hneyksluðust óspart á því opinberlega. Þegar fyrst komu fram hugmyndir um, að Jón Ásgeir fengi þorra skulda sinna í Högum (en þær nema um 48 milljörðum) afskrifaðar gegn því að leggja sjö milljarða inn í félagið, hneykslaðist almenningur, en þeir Steingrímur J. Sigfússon og Gylfi Magnússon þögðu. Það veit ekki á gott.

Í skoðanakönnunum hafa 96% landsmanna látið þá skoðun í ljós, að Jón Ásgeir eigi ekki að eignast Haga aftur á þennan hátt. Að sjálfsögðu á að taka fyrirtækið af fyrri eigendum og selja á opnum markaði, eins og Íslandsbanki gerði við Árvakur og nú síðast Sjóvá.

Tvær fróðlegar greinar

danielsson.jpgTvær fróðlegar greinar voru í Morgunblaðinu í gær, 15. janúar 2010. Önnur er eftir dr. Jón Daníelsson, hagfræðikennara í Lundúnum, sem er sérfræðingur í fjármálum og áhættugreiningu. Í stuttu máli heldur hann því fram, að mikil óvissa sé um, hverjar skuldbindingar Íslendinga samkvæmt Icesave-samningnum séu. Tvær ástæður séu til þess: Óvíst sé, hversu miklar eignir Landsbankans reynist að lokum (en þær ganga upp í skuldbindingarnar) og hver gengisþróun muni verða.

Jón telur, að óþarfi hafi verið fyrir Íslendinga að taka á sig gengisáhættu. Þeir hefðu getað samið um, að skuldbindingar þeirra samkvæmt samningnum og kröfur á móti (eignir Landsbankans) væru í sama gjaldmiðli. Hann bendir einnig á, að mestur hluti skuldbindinganna séu vaxtakostnaður. Vextir á lánum Breta og Hollendinga (sem þeir kalla svo, en voru útgreiðslur þeirra að eigin frumkvæði, sem þeir reyna síðan að fá Íslendinga til að endurgreiða sér) séu hærri en til dæmis á lánum, sem ríkissjóðir þessara landa veita tryggingarsjóðum innstæðna í þessum löndum. Jón hefur reiknað út, að vaxtagreiðslur okkar samkvæmt samningnum myndu minnka úr 507 milljörðum í 151 milljarða, nytum við hinna alþjóðlegu LIBOR-lánskjara.

484703.jpgHin greinin er eftir þá Sigurð Líndal lagaprófessor, Stefán Má Stefánsson lagaprófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann. Þeir halda því fram, að Icesave-samningurinn, sem Alþingi samþykkti, en forseti synjaði staðfestingar á, brjóti líklega í bág við stjórnarskrána. Ein ástæðan til þess sé sú, að óvíst sé, hversu miklar skuldbindingar ríkissjóðs séu samkvæmt samningnum. Til dæmis sé hugsanlegt, að svonefnd neyðarlög, sem samþykkt voru í upphafi bankahrunsins, standist ekki. Þá munu skuldbindingarnar samkvæmt samningnum stóraukast.

Lögfræðingarnir þrír segja ekki annað verða lesið út úr evrópskum lögum og reglugerðum um innstæðutryggingar en að hinir sérstöku tryggingarsjóðir innstæðueigenda og fjárfesta í hverju landi séu ábyrgir fyrir bankainnstæðum. Ríkissjóður hvers lands sé það ekki, nema ríkið hafi gerst sekt um stórfellda vanrækslu í því að setja upp og reka slíkan tryggingarsjóð. Íslendingar séu því með Icesave-samningnum að taka á sig skuldbindingar, sem ekki hvíli á þeim að lögum.

Margt annað fróðlegt er í greinum hagfræðingsins og lögfræðinganna þriggja. Þær styðja í raun hvor aðra. Ég hef ekki alltaf verið sammála þessum fjórum mönnum í opinberum umræðum. En eitt er víst: Þeir eru ekki að reyna að leggja neinu innlendu stjórnmálaafli lið og ganga ekki erinda neins erlends aðila. Þeir eiga ekki annarlegra hagsmuna að gæta, heldur reyna að greina málið eftir bestu samvisku.

Er ekki ráð að hlusta frekar á þá en hina keyptu þjóna vinstristjórnarinnar eða Evrópusambandsins?

 

Myndin af Sigurði Líndal er eftir Kristin á Mbl., en um höfund hinnar veit ég ekki.


Fréttaskýring í Spiegel

spiegelonline_logo.pngRætt er við mig í fréttaskýringu þýska blaðsins Spiegel, sem hér má sjá á ensku, en hún er mörgum Íslendingum tamari en þýska (þótt það hljóti að breytast, ef við göngum í Evrópusambandið). Þar segi ég sem satt er, að árið 2004 tók Ísland flestum öðrum löndum fram. Ísland var eitt af fimm ríkustu löndum heims og eitt af tíu frjálsustu löndum heims í atvinnumálum, og í mælingum kváðust Íslendingar vera einna hamingjusamastir þjóða.

Ég er ekki í neinum vafa um, að ein ástæðan til þess, hversu vel við vorum sett árið 2004, var undangengið framfara- og umbótaskeið, sem hófst 1991, þegar svigrúm einstaklinga var aukið, dautt fjármagn lifnaði við, skattar lækkuðu og hagkerfið opnaðist. Tekjuskiptingin þetta ár var svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og síst ójafnari. Fátækt var hverfandi. Atvinnuleysi var óverulegt og miklu minna en annars staðar í Evrópu. En ég skýri út fyrir Spiegel, að þetta ár fór eitthvað úrskeiðis.

Hvað gerðist árið 2004? Það var, að jafnvægið í þjóðlífinu raskaðist. Golíat vann Davíð. Auðjöfrarnir sigruðu í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið, og eftir það var eins og bóndinn á Bessastöðum, starfsmenn auðjöfranna á fjölmiðlum, stjórnmálamenn, aðallega Borgarnesræðufólkið í Samfylkingunni (en því miður líka nokkrir í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum), og jafnvel sumir dómarar breyttust í klapplið auðjöfranna (eins og niðurstaðan í Baugsmálinu sýndi). Auðjöfrarnir fengu enga gagnrýni, ekkert aðhald, og jafnvel þótt sumir þeirra væru gáfaðir menn og duglegir, fylltust þeir ofmetnaði.

Ég tók í Spiegel líkinguna úr grísku goðsögunni af Íkarosi, sem ætlaði sér um of, skeytti ekki viðvörunum Daídalosar og flaug of nálægt sólinni. Vængir hins íslenska Íkarosar bráðnuðu, svo að hann féll til jarðar, en vængir annarra (sem ofmetnuðust vissulega líka) sviðnuðu aðeins, svo að þeir gátu lent.

Jafnframt gagnrýni ég í Spiegel Evrópuþjóðir harðlega fyrir að hafa ekki komið Íslandi til aðstoðar, þegar lánsfjárkreppan skall á okkur, heldur frekar reynt að ríða okkur þungan skuldabagga eftir hana með Icesave-samningnum. Eins og ég bendi Spiegel á, er þessi skuldabaggi jafnþungur hlutfallslega og Þjóðverjar urðu að bera eftir Versalasamningana.

Ég minni hins vegar líka á, að auðvelt er að mikla áfallið fyrir sér. Enginn hefur látist vegna þess. Skip okkar, virkjanir, verksmiðjur, vegir og brýr standa óskemmd (ólíkt því sem var í ýmsum löndum eftir heimsstríðin tvö á tuttugustu öld). Pappírsgróði auðjöfranna hefur hins vegar horfið. Við eigum góð tækifæri á að koma okkur út úr ógöngunum, ef við lærum af reynslunni og látum Breta og Hollendinga ekki kúga okkur.


Viðtal á X-inu

Ég var í viðtali í þættinum „Harmageddon“ á X-inu þriðjudaginn 12. janúar 2010, og má hlusta á hann (allan) hér. Aðallega var rætt um það, hvað gera ætti, eftir að forsetinn synjaði um staðfestingu á Icesave-lögunum. Ég kvað jafnan skynsamlegast fyrir smáþjóð að setjast að samningaborði, enda gæti hún ekki beitt hervaldi til að skera úr deilum eins og hinar stærri. Hins vegar væru litlar líkur á því, að Bretar og Hollendingar vildu semja við okkur á ný án þjóðaratkvæðagreiðslu, sem tæki af öll tvímæli um, að íslenska þjóðin væri ófús til að greiða skuldir, sem hún hefði ekki stofnað til.

Hafa yrði í huga, að íslenska þjóðin hefði enga lagalega skuldbindingu til að endurgreiða Bretum og Hollendingum það fé, sem þeir snöruðu út til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í lánsfjárkreppuni; sú skuldbinding hvíldi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og næði ekki lengra en fé þess sjóðs hrykki til. (Að þessu hafa Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður leitt mjög sterk rök.) Evrópska innstæðutryggingarkerfinu hefði ekki heldur verið ætlað að afstýra bankahruni í einu landi, heldur aðeins þroti eins banka eða nokkurra af mörgum, eins og Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, og Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, hafa báðir viðurkennt opinberlega. Í þriðja lagi væri ósanngjarnt að knýja smáþjóð í gjaldþrot, hvað sem alþjóðlegum skuldbindingum liði, og hafa margir fjölmiðlamenn tekið undir það sjónarmið síðustu dagana.

Ég minnti á þrjá mikilvæg atriði í viðbót í útvarpsþættinum:

  • Okkur liggur ekkert á. Óþol er ekki gott í samningum. Því lengri tími sem líður, því betri getur niðurstaðan orðið fyrir Íslendinga. Þæfumst fyrir Bretum og Hollendingum. Þeir gefast ef til vill ekki upp fyrir okkur, en þeir gætu gefist upp fyrir aðstæðum.
  • Setjum svo, að Icesave-lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá segja sumir, að miklu meiri skuldir myndu falla á Íslendinga en samkvæmt samningunum við Breta og Hollendinga. Þetta er fráleitt. Hver á að ákveða það? Ísland er fullvalda ríki, en ekki hlýðinn húskarl í Evrópu. Ísland greiðir ekki aðrar skuldir en þær, sem það hefur sjálft samþykkt og viðurkennt.
  • Enn segja sumir, að lánstraust Íslendinga á alþjóðamörkuðum myndi minnka, ef við greiðum ekki Icesave-skuldirnar. En þetta voru ekki skuldir okkar. Við áttum ekki að greiða þær. Almenna reglan er raunar, að lánstraust fer eftir greiðsluhæfi, og greiðsluhæfi okkar verður auðvitað meira, ef á okkur hvíla ekki Icesave-skuldirnar til viðbótar við allt annað. Því er sönnu nær, að lánstraust okkar mun aukast, ef okkur tekst með lagni að smeygja þessum skuldum af okkur eða minnka þær.

Væntanleg bók eftir mig

kapa.jpgÁ næstunni kemur í búðir bók eftir mig undir heitinu „Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör“, og gefur Bókafélagið hana út. Þótt hún séu vissulega skrifuð í tilefni af hinni miklu stefnubreytingu á Íslandi við valdatöku vinstristjórnarinnar, er hún ekki beinlínis um áhrif einstakra skattahækkana stjórnarinnar, heldur frekar um almenn áhrif skattahækkana til langs tíma litið.

Ég byrja á því að reifa umræður fræðimanna um fátækt og spyr, í hvers konar hagkerfi menn geti helst brotist úr fátækt, enda er aðalatriðið ekki að auðvelda mönnum að halda áfram að vera fátækir (til dæmis með styrkjum), heldur að greiða þeim leiðina út úr fátækt.

Síðan ræði ég ýmis ágreiningsefni síðustu ára, þar á meðal þá fullyrðingu Stefáns Ólafssonar og Jóns Baldvins Hannibalssonar, að árin 1991–2004 hafi Ísland vikið af hinni norrænu leið. Eitt dæmi þess hafi verið, að tekjuskipting hafi orðið ójafnari hér en annars staðar á Norðurlöndum, ekki síst vegna skattbreytinga.

Þá reyni ég að gefa nokkra mynd af áhrifum skattalækkananna frá 1991, sem eru afar athyglisverð. Skatttekjur ríkisins hækkuðu á ýmsum sviðum, þótt dregið væri úr skattheimtu, vegna þess að skattstofninn stækkaði. Eitt skýrasta dæmið eru tekjur af húsaleigu, en ég greini líka önnur dæmi.

Enn spyr ég, hvort auðlinda- og umhverfisskattar séu eins hagkvæmir og núverandi ríkisstjórn og nokkrir fræðimenn (þar á meðal Þorvaldur Gylfason og Jón Steinsson) vilja vera láta.

Loks reyni ég að meta í ljósi reynslunnar hin almennu áhrif skattahækkana vinstristjórnarinnar íslensku og set fram spá um þau.

Ég kynni bókina betur hér, þegar hún verður komin í bókabúðir.


Fellum samninginn

Auðvitað væri æskilegast að semja á ný um lausn Icesave-deilunnar og komast hjá þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef hins vegar enga trú á því, að þrautreyndir samningamenn Breta og Hollendinga með fullt umboð frá ríkisstjórnum þeirra og Evrópusambandið að baki sér geri samning hagstæðari Íslendingum, nema þeir sannfærist um það, að Íslendingar vilji alls ekki þann samning, sem forsetinn synjaði staðfestingar á. Þangað til greidd verða um hann atkvæði, munu þeir auðvitað hafa í hótunum í því skyni að hafa áhrif á niðurstöðuna.

Þess vegna er mikilvægt fyrir aðstöðu okkar í nýjum samningaviðræðum, að þjóðin felli Icesave-samninginn með sem mestum mun. Almenningsálitið í Evrópu er að snúast okkur í vil (að því marki, sem nokkur maður hefur áhuga á Íslandi), og laga- og stjórnmálarök okkar eru skýr: Ábyrgðin á innstæðum hvíldi á Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, ekki ríkissjóði; reglur Evrópusambandsins, hvernig sem þær eru skýrðar, voru aðeins settar til að afstýra hruni einstakra banka, ekki almennu bankahruni; ósanngjarnt er að neyða litla þjóð í fyrirsjáanlegt gjaldþrot vegna tjóns, sem hún olli ekki.

mynd_951160.jpgHannes Hafstein sagði í viðtali við Lögréttu 20. mars 1915: „Þegar ég er kominn út fyrir landsteinana, er ég aldrei lengur flokksmaður. Þá er ég aðeins Íslendingur.“ Þetta verður vinstristjórnin að skilja. Hún á að einbeita sér að því að tala máli Íslands erlendis, ekki að tala máli Breta og Hollendinga hérlendis, enda eru þeir fullfærir um það sjálfir með aðstoð starfsmanna sinna og Evrópusambandsins, núverandi og fyrrverandi.

Auðvitað eiga Íslendingar að semja. Auðvitað eiga Íslendingar að standa við allar alþjóðlegar skuldbindingar sínar, að minnsta kosti eftir getu. En til þess að ná fram hagstæðari samningi verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni að senda viðsemjendum okkar skýr skilaboð.

 


Varað við óhóflegri bjartsýni

ad_404.jpgSífellt fleiri málsmetandi útlendingar taka nú undir þau sjónarmið, sem ég reifaði í grein minni í Wall Street Journal 7. janúar 2010, að Íslendingar beri að lögum enga greiðsluskyldu vegna Icesave-reikninganna (sú skylda hvíli á herðum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta), að ósæmilegt sé að krefja þjóðina um greiðslur, sem geri hana í reynd gjaldþrota, og að taka verði tillit til þess, að um bankahrun var að ræða á Íslandi, en ekki aðeins þrot einhvers hluta þess, eins og reglur EES um innstæðutryggingar eru miðaðar við.

Þeirra á meðal eru dr. Michael Waebel, sérfræðingur í alþjóðalögum, í aðsendri grein í Financial Times 8. janúar, Bronwen Maddox, virtur breskur álitsgjafi og dálkahöfundur, í pistli í The Times 9. janúar og Ruth Sunderland, viðskiptaritstjóri á Guardian, í pistli 10. janúar.

Við Íslendingar verðum þó að átta okkur á, að þessi samúðarbylgja með okkur ræður ekki úrslitum, þótt kærkomin sé. Samningamenn Breta og Hollendinga eru gamalreyndir og kippa sér ekki upp við blaðaskrif. Þeir ganga eins langt og þeir geta og hafa áreiðanlega til þess óskorað umboð ríkisstjórna sinna. Auðvitað munu þeir fullyrða fyrir hina væntanlegu þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, að við eigum ekki kost á betri samningi. Samþykki Íslendingar ekki Icesamninginn, þá sé voðinn vís. Þeir munu fara að okkur með hótunum og blíðmælum á víxl.

Hitt er verra, að vinstristjórnin íslenska hefur ekki sýnt málstað Íslendinga mikinn áhuga. Þegar Eva Joly skrifaði í erlend blöð í ágúst Íslendingum til varnar, var því fálega tekið í forsætisráðuneytinu. Þegar Sigurður Kári Kristjánsson benti á, að fjármálaráðherra Hollands hefði viðurkennt í ræðu í mars 2009, að innstæðutryggingakerfi EES hefði ekki verið hugsað fyrir bankahrun, virtist það ekki hafa nein áhrif á samningamenn Íslendinga.

Eftir að forseti Íslands hafði synjað lögunum um Icesave-samninginn staðfestingar, brugðust ráðherrar vinstristjórnarinnar við með því að bergmála hér innanlands hótanir Breta og Hollendinga í garð Íslendinga, ekki með því að minna erlendis á málstað okkar og sjónarmið. Þetta er áhyggjuefni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband