Samhengið í íslenskum stjórnmálum

Í árslok 2020 gaf ég út bókina Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers í tveimur bindum. Fyrsti kaflinn er um Snorra Sturluson, enda kemur hann í Heimskringlu orðum að tveimur hugmyndum frjálslyndra íhaldsmanna, sem John Locke batt síðan í kerfi: að konungar ríktu aðeins með samþykki þegnanna og að þá mætti afhrópa, ef þeir skertu hefðbundin réttindi. Rauði þráðurinn í Heimskringlu er, að góðir konungar haldi friðinn og stilli sköttum í hóf, en vondir konungar fari með hernaði og kosti umsvif sín með auknum álögum á alþýðu. Í ræðu Einars Þveræings, sem á að hafa verið flutt á Alþingi árið 1024, gengur Snorri enn lengra og segir, að konungar séu misjafnir og Íslendingum fyrir bestu að hafa engan konung.

Sigurður Líndal prófessor hefur í merkri ritgerð í Úlfljóti 2007 sett fram svipaðan skilning á verki Snorra. En auðvitað stendur Snorri ekki einn. Því hefur ekki verið veitt næg athygli, að Ari fróði setur fram svipaða skoðun í ræðu þeirri, sem hann leggur Þorgeiri Ljósvetningagoða í munn á Alþingi árið 1000. Þorgeir hóf ræðu sína á því að vara við ósætti og barsmíðum manna í milli, eins og tíðkaðist í útlöndum: „Hann sagði frá því, að konungar úr Noregi og Danmörku hefðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi.“

Ari sér konunga bersýnilega ekki sem virðulega umboðsmenn Guðs á jörðu, heldur sem ótínda ófriðarseggi, og þurfi þegnarnir að hafa á þeim taumhald. Hann gerir sér eins og Snorri glögga grein fyrir sérstöðu Íslendinga, sem höfðu lög í stað konunga. Íslendingabók Ara er fyrsta sjálfstæða íslenska bókmenntaverkið, því að áður höfðu aðeins verið færð í letur lögin, ættartölur og þýðingar helgirita. Vart er ofsagt, að með Ara vakni íslensk þjóðarvitund.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. október 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband